þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Jólalag Baggalúts klikkar aldrei, og er reyndar alveg frábært í ár... Það er hægt að ná í það hérna
. Allir að gera það núna.

Annars er ótrúlegt að það hafa ekki orðið til ný góð jólalög lengi, hvorki á Íslandi né í útlöndum sem ná vinsældum í útvarpi, það er eins og við séum dæmd til að hlusta á sama "gefðu mér gott í skóinn jólasveinninn kemur í kvöld við óskum þér góðra jóla" aftur og aftur. Af hverju semja pottþéttar hljómsveitir eins og Stuðmenn ekki eitthvað skemmtilegt jólalag sem gengur í landann? Síðasta íslenska jólalagið sem varð virkilega vinsælt hér á landi finnst mér eiginlega hafa verið Jólahjól, sem verður að viðurkennast að er orðið mjög þreytt, þó það hafi verið mjög gott á sínum tíma. Okkur vantar nýtt Jólahjól!!

Og það er sama hve oft textarnir á þessum amerísku poppjólalögum eru þýddir, og hvað margir popparar taka þau, þau eru bara orðin ofboðslega lúin og þreytt og eiga skilið nokkurra ára frí. Þá myndum við kannski læra að njóta þeirra á ný.

Kannski finnst fólki erfitt að semja ný jólalög því ef þau eiga ekki að fjalla einungis um gjafir og mat og stress eins og svo mörg íslensk jólalög frá 9. áratugnum, þá lendir maður í vandræðum, því hvað er þá eftir? Er í fullri einlægni hægt að semja lag um friðinn og rósemdina og helgina sem gagntekur mann um jólin á milli þess sem maður öslar slabbið dauðþreyttur rétt áður en búðirnar loka í leit að réttu perunni í jólaseríuna eða fullkomnu gjöfinni handa ömmusystur sinni? Kannski eru jólin ekki lengur mjög vænleg til að semja um, það er varla einu sinni hægt að syngja um hvíta jörð, því hvað gerist það oft á jólunum núna? Verða jólalög bara að fjalla um jólastress héðan í frá?

Má ég þá frekar biðja um "Kósíheit par exellans" með Baggalúti!

Góða aðventu!

mánudagur, nóvember 29, 2004

Fall er fararheill, ekki satt?

Ég byrjaði allavegana skóladaginn á því að hrynja út úr bílnum á bílastæðinu fyrir framan Aðalbyggingu. Ég steig út úr bílnum með skólatöskuna í annari hendi og íþróttatöskuna í hinni og rann einhvern veginn út úr bílnum, og eiginlega undir hann. Það er svolítið ósanngjarnt, því ég var búin að gæta ítrustu varkárni við aksturinn alla leiðina því ég er ekki á vetrardekkjum, og lendi svo í árekstri við eigin bíl. Ég hélt þetta myndi boða mér gæfu og gleði allan daginn, samkvæmt því sem segir um að fall sé fararheill, sérstaklega því ég átti að fá út úr spænskuprófi og 25% ritgerð. Ég sé ekki að það hafi hjálpað, jú jú, mér gekk ágætlega á prófinu en ritgerðin var óyfirfarin, svo ég fékk hana ekki.

En hér er svar við spurningu sem við hljótum öll að hafa spurt okkur að einhvern tímann: "Hvar er mamma?"
(Af Vísindavefnum)

"Þessi spurning barst okkur 2. mars 2002. Spurningunni fylgdu meðal annars þær upplýsingar að spyrjandi sé fæddur árið 2001. Ef það er rétt og við fengjum upplýsingar um fæðingardag gætum við gefið eitt einfalt svar við spurningunni. En ef þetta er innsláttarvilla þyrftum við í öllu falli að fá að vita rétt fæðingarár til þess að geta gefið þess konar svar. Við gerum ráð fyrir að lesendur okkar sjái þetta allt í hendi sér og rekjum það nánar sem hér segir:

* Ef spyrjandi er til dæmis 0-6 mánaða er líklegt að mamma hans sé með hann í fanginu eða hún sé hjá honum. Kannski er spyrjandi úti í vagni og mamma hans þá í kalltækissambandi við hann.
* Ef spyrjandi er til dæmis þriggja ára er líklegt að hann sé á barnaheimili þegar þetta er skrifað á föstudagsmorgni, og mamma hans í vinnunni.
* Ef spyrjandi er að minnsta kosti orðinn stálpaður er hann væntanlega í skóla eða vinnu og mamma hans í vinnunni.
* Ef við værum að svara þessu um miðnætti í kvöld mundum við segja að mamma spyrjandans sé sofandi í rúminu.
* En á milli 5 og 7 í gær var hún trúlega á líkamsræktarstöð.
Ef spyrjandi á í erfiðleikum í samskiptum við mömmu sína viljum við benda honum á svar Sigrúnar Júlíusdóttur við spurningunni Af hverju þurfa mæður alltaf að vera svona forvitnar og tilætlunarsamar? En ef það gerist mjög oft að hann finnur ekki mömmu sína og þarf að spyrja þessarar spurningar, þá hlýtur önnur spurning að vakna, sem sé hvort hann ætti ekki að leita til barnaverndaryfirvalda eða til umboðsmanns barna. Um slík mál má finna nokkur svör hér á Vísindavefnum undir leitarorðum eins og "uppeldi", "börn" og svo framvegis."

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Ég er, án þess að ýkja nokkurn skapaðan hlut, alveg að fara að kasta upp yfir lyklaborðið, mér er virkilega óglatt. Ég var að lesa trúmálaumræðu Innherja og skil bara alls ekki viðhorfin sem koma þarna fram, það er of mikið þegar fólk fagnar glæsilegum sigri í Falluja og þakkar guði fyrir að Bush hafi verið endurvalinn. (sbr. þráðinn Bush er í sigurliðinu með Jesú)

Það er svo auðvelt að lokast inni í einhverjum trúarheimi og neita að taka við rökum á þeim forsendum að þeir sem flytja þau séu andsetnir af djöflinum. Þannig er hægt að afneita öllu sem sagt er, þannig getur fólk lifað í sínum eigin heimi, án þess að þurfa að taka mark á fólki sem segir að þessi "sigur" hafi ekki verið svo glæsilegur eftir sem áður, eða þá stríðið yfir höfuð. Til dæmis stóð í Fréttablaðinu í vikunni að nú sé talið að í Írak séu nú um 400.000 vannærð börn, eða helmingi fleiri en áður en Bandaríkjamenn réðust þar inn. Hvenær hættir fórnarkostnaður að vera fórnarkostnaður? Það er auðvelt að skipa sér í "sigurlið með Jesú" þegar maður neitar að horfast í augu við þessar staðreyndir.

mánudagur, nóvember 22, 2004

Ég hljóp í burtu, þau voru ennþá á hælum mér og ég vissi að þetta var að verða vonlaust, bráðum myndu þau ná mér og stela af mér náttkjólnum sem myndi nýtast þeim í helgiathöfnina. Síðan var enginn vafi á að þau myndu drepa mig, þau gátu ekki hætt á að hafa mig á lífi, ég vissi þegar of mikið. Ég tók á rás inn í verslunarmiðstöðina, þar væri örugglega einhver sem gæti hjálpað mér, jafnvel lögregla, þó að ég hafi veigrað mér við að tala við hana fyrr vegna málsins, það hefði haft of mikla afskiptasemi í för með sér. En nú var ég tilbúin að gera hvað sem er til að halda lífi, en aðallega til að halda upplýsingunum frá óvininum.

Ég sá engan lögregluþjón, ekki einu sinni einn húsvörð. En hvað myndi það hjálpa mér, þau voru rétt fyrir aftan mig og gátu hæglega skotið mig með ofurhljóðdeyfðu skammbyssunni, jafnvel í miðri mannþröng. Ég var með símann í vasanum en hafði enn ekki haft færi á að hringja á lögreguna. Bara að ég kæmist einhvers staðar í var þar sem ég gæti hringt. Framundan var útfararstofa og ég ákvað að þar væri líklega hægt að fela sig í smá stund. Mér tókst að stinga þau nægilega lengi af til að þau sæu ekki að ég smeygði mér þangað inn. Ég hentist út í horn, sussaði á furðu lostna afgreiðslukonuna sem virtist ekki skilja alvöru málsins og tók upp símann. Ég sló inn númerið, 1-1-2, en fékk engan són. Auðvitað, þau voru búin að eiga við símann svo ég gat ekki hringt á lögregluna, ég hefði nú getað sagt mér það sjálf. Mér datt í hug að hringja í foreldra mína og biðja þau um hjálp, en var ekki búin að slá inn nema þrjá stafi þegar ég skynjaði nálægð þeirra. Ég sveipaði mig huliðsskikkjunni í skyndi og fylgdist með þegar þau stungu inn kollinum. Þau virtust ekki taka eftir mér, því þau lokuðu um leið. Ég nýtti tækifærið og um leið og ég hélt þau komin í örugga fjarlægð laumaði ég mér út og á nálægan veitingastað. Þar gæti ég ef til vill laumað mér inn í eldhús og út bakdyramegin. En mér féllust hendur þegar ég sá hvað mætti mér þar. Þau höfðu þá verið á undan mér, og sátu í mestu makindum við borð og horfðu á mig og glottu. Fljótt sá ég af hverju. Við hlið mér, í öllu sínu veldi var hann sjálfur kominn, Gísli Marteinn. Ég vissi vel af hverju hann hafði verið valinn til að neyða út úr mér upplýsingarnar. Hann sem var svo sjarmerandi og vissi hvaða spurninga þurfti að spyrja, hvernig hann gæti náð frá mér upplýsingunum. En þeim skjátlaðist. Aldrei, aldrei myndi ég láta þær af hendi, ekki eftir hremmingar síðasta sólarhrings. Ég hrækti framan í Gísla Martein af vanþóknun og tók á það ráð sem ég taldi eitt eftir. Ég vaknaði. Hremmingar næturinnar voru liðnar, ég hafði brugðist heiminum, því þó þau hefðu ekki náð upplýsingunum var ég sú eina sem gat afturkallað álögin, en það var um seinan. Átök morgundagsins litu dagsins ljós. Próf í spænskri málfræði eftir 25 mínútur.

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Hríð

Ég get ekki lifað við eintóman ís
innst inni í hjörtum og lengst úti á töngum.
Kulsára hjartað mitt kólnar og frýs
í kuldanum sit ég í öngum
og leik mér við fallegar frostrósir löngum.

Það verður nú bráðum að vora hjá mér,
svo völlurinn iðgrænn við sólinni hlæi,
en stormurinn mig út á blágaddinn ber,
ó, bara ég götuna sæi
heim á gestrisna, góða bæi.

Á meðan ég sé hvorki sól eða bæ,
þá syng ég með veikum og klökkvandi rómi.
Ég veit, að ég aldrei til fullnustu fæ
að fara með ljóð mín í tómi.
Röddin bilar í rokviðra hljómi.

Ef að ég dey svo að aldrei ég sé
ylmildan himin og blómgaða grundu
og finn aldrei vesalings hjartanu hlé,
uns hrekkur mér stafur úr mundu,
þá þakka ég öllum, sem eitt sinn mig fundu.

Jóhann Gunnar Sigurðsson
1882-1906


Ég fer til Spánar í febrúar. Þá vorar hjá mér.

mánudagur, nóvember 15, 2004

Ég er svo heppin að eiga litla systur sem er feng shui meistari, og nú hefur hún opnað bloggsíðu þar sem hún gefur hverjum sem vill ráð um hvernig best sé að byggja upp heimili sitt. Það er ótrúlegt hvað hún veit um þetta, og það er líka draumi líkast að koma inn í herbergið hennar þar sem fylgt er ströngustu feng shui reglum.

Nú hvet ég alla til að kíkja á síðuna hennar: http://yinogyang.blogspot.com , og leggja fram spurningar uir til dæmis í hvaða átt best sé að hafa rúmið sitt eða hvernig veggirnir eigi að vera á litinn, en líka um minni atriði, eins og í hvaða horni herbergisins fjölskyldumyndir eigi að hanga og hvar sé gott að hafa málm og hvar ekki. Ef einhver sefur illa á nóttunni getur hún ef til vill hjálpað... allt sem ykkur dettur í hug. Hún heitir María Sól og er þrettán ára, og hefur haft nægan tíma til að mennta sig í þessari fornu list í verkfallinu(sem tekur reyndar enda á morgun þegar hún þarf að mæta í skólann.) Það er því hægt að treysta á hana.

http://yinogyang.blogspot.com

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

<Á nú að taka af mér börnin líka??>

Já, það er margt skrítið í kýrhausnum, eins og konan sagði.
Það mætti halda að ég hafi sagt við sjálfa mig í morgun eins og hann Láki litli úr smábarnabókinni: Í dag ætla ég að vera reglulega vond, og gera aðeins það sem er ljótt. Þegar ég hugsa til baka stóð ég að minnsta kosti við það
Í dag:

-braut ég öll lög um löglega ljósritun

-skrópaði ég í latínu

-stalst ég til að nota orgelið í Skálholtskirkju

-svindlaði mér og 3 öðrum (varnarlausum útlendingum og fötluðum) inn á safnið í Skálholtskirkju.

-keyrði ég of hratt

-keyrði ég á mús (a.m.k. kom hún ekki undan bílnum hinumegin)

-keyrði bílinn hans Benna upp Kambana þannig að gírkassinn gaf sig alveg þegar við vorum komin upp. (það var reyndar ekki mér að kenna, en kom ekki vel út fyrir mig)

-sló ég Mögdu utanundir.

Það síðasta var nú líklega það versta, að ég sló mína kæru Mögdu, meðleigjandann minn! Ég hef aldrei slegið neinn viljandi áður, en það kom bara eitthvað yfir mig, hún sat þarna og kvartaði yfir að það væri henni að kenna að bíllin er bilaður... hún var ekki einu sinni með, og það var ég sem hafði verið að keyra! Hvernig GAT það verið henni að kenna? Ég var greinilega orðin meira pirruð en ég hélt, hendurnar tóku einhvern veginn af mér völdin og þær slógu Mögdu létt á kinnarnar, ekki fast, en málið er bara að ég missti algerlega stjórn á þeim. Aumingja Magda var auðvitað steinhissa, og svolítið reið, en ég er ekki frá því að hún hafi haft pínulítið gott af því, hún var í einhverju móðursýkiskasti, og það dregur mann svo mikið niður þegar einhver brýtur sjálfan sig svona niður. Hún er alveg búin að fyrirgefa mér það núna, henni finnst það aðallega bar fyndið núna. Ég ætla nú samt ekki að láta ofbeldi vera lausn á öllum mínum vandamálum héðan í frá - kannski bara sumum!

En það var líka sorglegt að keyra á mús.

En nú hef ég játað syndir mínar í einn dag, og ef lögreglan og dómsvald kemst á snoðir um þessa síðu fengi ég örugglega stærsta dóminn fyrir að hafa ljósritað ólöglega... að minnsta kosti er það örugglega metið sem verri verknaður en heimilisofbeldi, ef marka má nýjustu dóma um þau mál.

(p.s. Ég fékk svar frá háskólanum á Spáni í gær, 14. febrúar byrja ég í skóla í Alcalá de Henares, háskóla með 23.000 stúdentum. Hlakka til. )

miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Bíómyndablogg

Það er eitt sem hefur alltaf angrað mig við amerískar bíómyndir, það er þegar virðulegir útlendir menn, t.d. soldánar í Arabíu eða afrískir ættbálkafeður eða evrópskir kóngar eða dætur soldánsins fara að tala ensku. Þegar þeir tala ensku tala þeir oftast með ROSALEGUM hreim, gera kannski eina eða tvær mjög einfaldar málfræðivillur, en vita allan FJANDANN af orðum og þurfa aldrei að hugsa sig um. Þessir menn hafa oftast búið í eyðimörkinni eða frumskóginum alla sína ævi og það er allt á huldu um hvernig þeir kunna ensku, en þeir geta notað orð sem ég hef aldrei heyrt, flest sem þeir segja byrjar á "My people are..." eitthvað, og svo fara þeir að tala um flugvélahreyfla eða hernaðarstrategíur eða geimréttarhagfræði eða guð veit hvað.. .

Þegar ég tala önnur mál en íslensku, og fyrir þessu finn ég mjög mikið núna á þessari önn, þá þarf ég alltaf að vera að hika og hugsa mig um, og oft kemur það fyrir að ég man bara alls ekki orðið eða hef ekki heyrt það. Það lætur mann kannski líta svolítið asnalega út, en það er nú bara svoleiðis þegar maður talar 'fremmedsprog' . Það væri aðeins raunverulegra að láta þessa menn hugsa sig pínulítið um áður en þeir fara að tala um 'liðveislu' og 'hernaðarútbúnað' og svoleiðis. Dæmi um svona myndir eru t.d. James Bond myndir og hin annars ágæta mynd Hidalgo.

En meira um bíómyndir.
Ég var að koma úr bíó, fór að sjá myndina Sky Captain and the World of Tomorrow. Hún leit út eins og mynd sem gæti verið sniðug, retro letur og einkar cheesy nafn, en góðir leikarar. Kannski þetta sé mynd sem hefur smá húmor fyrir sjálfri sér, hugsaði ég. Það hafði hún ekki.

EKKI sjá hana.

Ef þú samt ÆTLAR að sjá hana, ekki lesa lengra.

Ég hef séð margar margar vondar vondar myndir um ævina, (oftast viðloðandi heimilisfólkið á Vesturgötu 50a merkilegt nokk) og þessi mynd nær hátt á vondumyndaskalanum. Einhver hefur sagt, við skulum gera hittara, ævintýramynd, því fólk elskar ævintýri eins og LOTR, hafa eina gellu... Gwyneth Palthrow, já flott, nei betra, höfum TVÆR gellur - líka Angelinu Jolie! Og Jude Law sem góða gæjann! Og látum hana gerast í gamla daga. Hvenær...hmm...19...39? OK! Og höfum risavélmenni! og geimskip! og risaeðlur! og genabreytt vængjuð skrímsli! og drauga! og Örkina hans Nóa! og svona countdown....ten minutes to liftoff... Og svona heldur þetta áfram. Það vantaði bara risaköngulær... nei annars, voru ekki nokkrar? Og vondi kallinn hét Totenkopf! Hversu gott er það??

Jamm og já, og þetta eru ameríkanar að gera á meðan þeir kjósa hálfvita til að stjórna heiminum. Mér finnst að allur heimurinn ætti að fá að kjósa forseta Bandaríkjanna. Þá hefði eitthvað annað komið út úr kosningunum er ég hrædd um.

Góðar stundir.