miðvikudagur, febrúar 28, 2007

Svanhvít í mömmó

Ég er með lítið kríli hérna úti í vagni sem sefur rótt í sjávargolunni. Gaman að fá að leika mömmu svona af og til, þó ekki nema í smástund sé.

Ég vaknaði með lítinn lagstúf í kollinum, úr frábæru Fóstbræðraatriði. Kona og karl sitja í sófa með barnapíutalstöð á borðinu. Þau eru greinilega á deiti og allt virðist ganga vel. Þau eru einmitt að fara að kyssast þegar heyrist grátur úr talstöðinni. Konan fer til að svæfa barnið og allt sem hún segir heyrist fram, m.a. þetta lag (við Bíbí og blaka):

Hann er soldið ljótur
en það er allt í lagi
því mamma veit hann er ríkur
og svo á hann líka einbýlishús.

Klassi.

En uss, þetta dugar nú ekki, þarf að henda kettinum út og ná svo að prjóna smá áður en barnið blíða vaknar. Yfir og út.

-------uppfært-------
Skellti atriðinu inn:

sunnudagur, febrúar 25, 2007

Gataprjónsaðferð

Internetið er dásamlegt. Ég er búin að vera að vandræðast með prjónauppskrift heillengi, því í henni er notuð sjaldgæf aðferð við að fitja upp sem ég kunni ekki. En það þarf auðvitað ekki nema að gúgla hana til að fá yndislega nákvæmar leiðbeiningar um þessa aðferð, svo nú get ég hafist handa í veikindunum. Já, lýðnetið er hægt að nota í ýmislegt annað en fyrstupersónuskrif og klámgláp!

Ég er annars búin að fá ógeð á þessum "pólitísku" moggabloggum og öðrum sem flæða yfir allt og eru svo langt í frá að vera skemmtileg því þar skiptir mestu máli að vera fyrstur til að blogga um nýja frétt á mbl.is eða hvað einhver annar bloggaði um fyrir hálftíma síðan. Vinnuveitendur ættu að vera uggandi, það er ekki lítill tími sem hlýtur að fara hjá þessu fólki í að skoða mbl.is á hálftíma fresti og taka bloggrúntinn þess á milli til að vera nú vel upplýst um allt það sem hinir eru að segja! Og þegar hver einasti bloggari er farinn að tala um tvær kartöflur í Bónus þá finnst mér komið gott, má ég þá heldur biðja um skemmtileg* blogg sem létta manni amstur dagsins en þyngja það ekki, en fá mann samt til að hugsa. Mæli til dæmis með nýjasta pistli Guðbjartar í Flórída (23. feb).

*bara nokkur nefnd hér. Hvernig get ég flutt hlekkjalistann yfir á nýja blogger? Það gerðist ekki sjálfkrafa hjá mér.

Jæja, gataprjónið bíður ... ekki lengi!

föstudagur, febrúar 23, 2007

Cod has failed me

Ég er orðin lasin. Kenni vítamínskorti um (of lítil fæða).

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

In Cod we trust

Tíunda þorsknum sporðrennt.

mánudagur, febrúar 19, 2007

Eyjartaðskegglingur

Það er ekkert grín að búa á eyju lengst úti í Atlantshafi og tala tungumál sem bara nokkrar hræður kunna og þykjast svo vilja skoða heiminn. Það er sérstaklega í janúar og febrúar sem ég finn fyrir því að búa á skeri sem manni finnst með ólíkindum að flæði hreinlega ekki yfir þegar öldurnar brotna nánast á glugganum hjá mér hérna í Faxaskjólinu og ég þarf að tína þangið af bílrúðunni.

Á meðan geta vinirnir í Evrópu bara tekið lest til næsta lands eða landa án þess að borga flugvélagjöld, -mat, -bensín, flugvallarskatta og -tolla og annað sem fylgir óhjákvæmilega hverjum einasta skottúr burt af þessum útnára. Þeir geta skroppið á bílnum sínum í langa helgi frá Danmörku til Póllands til að fara á ódýrt fyllerí, frá Ungverjalandi til Sviss á skíði eða taka rútuna frá Prag til London (tekur 24 tíma).

Hér er þetta allt svo miklu þyngra í vöfum. Systir mín sagði einu sinni þegar hún var aðeins yngri að það væri svo asnalegt þegar lönd afmörkuðust ekki af sjó; það væru ekki lönd, því hvernig átti fólk að vita hvar landið endaði? Ég skil viðhorfið, en hugsið ykkur hvað það væri dásamlegt að geta skroppið í verslunarferð til London á bílnum, að heimsækja vini eða fjölskyldu í Danmörku eða Svíþjóð eða jafnvel gera góða ferð úr brúðkaupi vinar í Hollandi og koma við á nokkrum stöðum í leiðinni!

Æ, auðvitað er þetta ekki svona einfalt. Auðvitað kostar bensín líka og löng keyrsla er ekki það skemmtilegasta, sérstaklega eftir þungum hraðbrautum Evrópu. En möguleikinn er fyrir hendi, og það er það sem gerir þessa vist okkar sem hér húkum svo grátlega.

Ég er núna alveg viðþolslaus og er byrjuð að skipuleggja ferð um Evrópu, ekta lestarferðalag sem ég vona að ég geti spunnið aftanúr kórferðalagi í Frakklandi sem ég fer í í júní. Ég ætla helst að fara til Austurríkis, Ungverjalands og Slóvakíu, jafnvel fleiri landa, en ég hef þá allavega nóg að gera þangað til við að leita að bestu lestarmiðunum og skipuleggja dagskrána. Það er það sem skiptir máli og leyfir okkur eyjarskeggjum kannski að njóta þess betur þegar við loksins getum tekið flugið.


föstudagur, febrúar 16, 2007

Alvarlega bloggið

Ég er búin að vera að lesa blogg undanfarna daga sem er skrifað af konu í New York sem selur sig. Hún er 21 ára held ég og gerir þetta til að fjármagna skólagönguna. Hún er frábær penni og einstaklega góð í að lýsa aðstæðum sínum á hlutlægan hátt. Þetta er nafnlaust blogg og hún segir frá öllu og er mjög hreinskilin. Það er alveg magnað að sjá hvað hún er ótrúlega köld en samtímis svo einlæg og innileg þegar hún lýsir líðan sinni og reynslu.

Það er svo brengluð mynd sem berst okkur af vændiskonum og við vitum ekki hvað er satt og hvað logið og hér er frábær leið til að skyggnast inn í líf einnar. Hún er eldklár og greinilega mjög falleg, en ekki með neitt sjálfsálit og lifir á viðurkenningu karla sem borga fyrir þjónustu hennar. Það veitir henni skammlífa fyllingu og hún gerir sér grein fyrir því. Ég hef aldrei lesið blogg sem hefur haft svona mikil áhrif á mig og ég hvet fólk til að lesa það, hún byrjaði bara að blogga í janúar svo það er ekki svo lengi gert að lesa það allt, en vel þess virði.

Þetta er sérstaklega mögnuð lýsing
á því hvernig hún sér sjálfa sig og ég held að þetta sé ástæðan fyrir því að karlar halda að vændiskonur og klámmyndaleikkonur hafi gaman af vinnu sinni og séu fullkomlega ánægðar.

Hérna lýsir hún fyrsta skiptinu
.

Þetta er mögnuð saga ... ótrúleg hræsni.


Og hér er saga sem er bara hreint hræðileg
.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Góður Valentínus

Dagurinn reyndist nú bara ágætur, ég gerði engin teljandi asnastrik eða kjánaprik heldur átti góð samtöl við tvær framúrskarandi fræðikonur, borðaði góðan þorsk og skemmti mér konunglega á krossgátukvöldi þar sem borð númer átta (Fréttablaðið) var að sjálfsögðu með öll svör rétt en við vorum því miður ekki dregin upp úr hattinum þegar kom að verðlaunaafhendingu. Dagurinn endaði svo á Domo þar sem Sigga Toll (besta söngkona Íslands) og Babar fluttu dásamlega djasstónlist úr ýmsum áttum, sérstaklega var In particular og Vaseline flott, mér finnst alltaf svo skemmtilegt þegar þessi hópur tekur lög og brýtur þau svolítið upp.

Ég áttaði mig samt ekki á því af hverju allir voru svona ástleitnir þarna á tónleikunum. Pör nýttu hvert tækifæri til að stela kossi og ég stalst til að lesa á SMS sem gaurinn fyrir framan mig fékk, það var einlæg ástarjátning, og ég skammaðist mín fyrir að hafa kíkt. En það var ekki langur tími sem leið þar til ég fattaði (í fjórða skiptið í dag) hvaða dagur er.

En mig langar að segja soldið frá þorskáti mínu þessa dagana, sem sumir hafa fengið veður af. Þannig er mál með vexti að ég bauð mig fram í rannsókn hjá Landspítalanum þar sem er verið að athuga áhrif þorsks á líkamann, og í 8 vikur á ég að borða þorsk 5 sinnum í viku, og fylgja ströngu mataræði allan tímann. Svo er ég mæld eftir kúnstarinnar reglum og blóði er dælt úr mér í tíu lítil glös og svo eru rannsóknarkonur sem hringja í mig og passa að ég geri þetta nú allt eftir bókinni. Ég fæ þorskinn hjá þeim og uppskriftir en má elda hann eins og ég vil (eftir þetta get ég gefið út matreiðslubókina 40 leiðir til að elda þorsk fyrir einn) og þarf að borða heljarinnar ósköp af grænmeti með (annars er þetta bara mjög venjulegur matur). Hins vegar má ég ekki borða neinn annan fisk, eða lýsi, kavíar, skelfisk, Á þessu mataræði á maður svo að grennast eitthvað, og það er auðvitað bara frábært. Ég er búin með eina viku og gengur nokkuð vel, en bið ykkur að bjóða mér ekki óvænt í pizzupartí eða ísbíltúr, því ekki viljið þið skekkja niðurstöður rannsóknarinnar, er það?

Og ef einhver kann skemmtilega og einfalda þorskuppskrift má hann alveg láta hana fljóta hér með!

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Mount Svanhvít

Ég er í vandræðum með þennan nýja Bloggara, hann leyfir mér ekki að demba inn hlekkjasúpunni minni. Kann einhver? Ekki vil ég vera ein á báti og hlekkjalaus.

Það er annars gott að sumir eru fljótir að kveikja á perunni, og fljótari en jors trúlí. Í gær ætlaði ég að hringja í tónlistarmann nokkurn til að fá hann til að spila á tónleikum. Ég valdi nafnið hans í símaskránni á símanum mínum og hringdi. Hann svaraði, en ég var hissa hvað hann var alvarlegur, þetta er nú mjög glaðvær maður að eðlisfari. Ég lét það ekki á mig fá heldur kynnti mig og var bara hress á móti og spurði hvernig hann hefði það, hvernig gengi, vissi að mikið hefði gengið á hjá honum upp á síðkastið, útgáfa og barneignir meðal annars. Þetta virtist nú koma svolítið flatt upp á hann en hann svaraði þó, tók þó ekkert rosalega vel undir. Þetta var nú svolítið skrítið svo ég vatt mér bara beint í efnið, hvort hann gæti spilað með Megasi á tónleikum um páskana? Hann þagði smá en sagði svo "Ja ég vildi að ég gæti það, en ég held þú sért að fara mannavillt Svanhvít mín, ég held það sé hann [rétt nafn] sem þú vilt ná í. " Auðvitað áttaði ég mig þá á því í hvern í hafði hringt. Fyrrverandi yfirmann hjá 365, sem kann eftir því sem ég best veit ekkert á hljóðfæri. Hann var samt svo fljótur að tengja að hann gat leiðrétt þennan asnaskap minn eins og skot og fannst þetta held ég bara fyndið. Eða það vona ég. Mér fannst það allavega brjálæðislega fyndið. Best finnst mér samt að hann hafi áttað sig strax á hver það var sem ég vildi ná tali af!

Þetta var asnaskapur gærdagsins í boði Svanhvítar. Reyndar náðu þeir að vera tveir, asnaskaparnir, því mér tókst líka að verða bensínlaus og þurfti að láta skutla mér úr vinnu upp á bensínstöð og til baka.

Í dag hef ég ekki gert neitt asnalegra en asnast til að kaupa kíló af vondum gulrótum. Hins vegar komst ég að þessu: Það er fjall á Baffin-eyju (N-Kanada) sem heitir Mount Svanhvit. Það er um 1.900 m hátt og var fyrst klifið 1991.

P.s. Ég mæli með þessari færslu. Elín fyndin já.

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Chinita graciosa

Jæja gott fólk. Eftir smá hræringar á síðum þessum er hún risin upp á ný, vefmeyin.
Ég hef ekki tölu á öllum þeim færslum sem komu mér í hug á meðan síðan var í verkfalli en nú er ég galtóm.

Læt því bara fljóta með myndband með sætri kínverskri söngdís sem á framtíðina fyrir sér.

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Buck
Fush

Fátt hef ég nú prófað um dagana meira róandi og gefandi en þetta hér. Sérstaklega er gaman að dangla í hann með músinni.

Góðar stundir.

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Babelfish?

Ég var að ganga heim úr skemmtilegum tíma í þýðingasögu í Árnagarði áðan, klukkan var að verða sex og það var skítkalt úti.

Ég kom að Háskólabíói.

Allt í einu greip mig óstjórnleg löngun til að fara í bíó.

Að sjá myndina Babel. Það líður líka varla sá dagur að ég lesi ekki eitthvað um blessaðan Babelsturninn í þýðingafræðunum. Ég vissi ekki hvort/hvar/hvenær hún væri sýnd.

Ég leit á klukkuna og hún var tíu mínútur í sex.

Ég leit á plakötin í Háskólabíói og sá að Babel var sýnd í bíóinu.

Ég leit á tímatöfluna og sá að hún var sýnd klukkan sex.

... Ég fór í bíó!

Og var svona líka sátt við þessa mynd. Ég hef alltaf verið svag fyrir hópsögubíómyndum og þessi var sérstaklega vel heppnuð. Sögurnar tóku á vandamálum mismunandi tungumála og menningar, og beint eftir tíma um hvernig menning er þýdd yfir í annað menningarsamfélag var myndin einstaklega viðeigandi. Skilningsleysi stjórnvalda kemur líka skýrt fram, og hvernig að manni finnst venjulegasta fólk getur lent í aðstæðum sem það ræður engan veginn við, og sekkur alltaf dýpra og dýpra og enginn getur bjargað því, sérstaklega ekki þeir sem eiga að halda utan um sína, þ.e. stjórnvöldin.

Ótrúlegt hverju er hægt að koma að í kollinn á manni á tveimur klukkutímum, sérstaklega þegar maður hafði bara búist við að fara heim að elda pakkapasta og horfa á Skjá einn.

Mæli með spontant bíóferðum - þessi var að minnsta kosti þess virði.

Á fimmtudag hefst átta vikna fiskát. Fimm sinnum í viku takk. Segi betur frá því síðar.
Fóður

Kannast einhver við að fá gat á jakkavasa og smáhlutir laumast inn í fóðrið á jakkanum og dangla þar lausir í lengri tíma?

Ég var lengi búin að hugsa hvert öll varaglossin mín færu eiginlega, þar til ég tók eftir að kápan mín var orðin grunsamlega þung, og eftir langa mæðu og handasmokr í gegnum minnstu glufur fann ég loks það sem íþyngdi - hvorki meira né minna en þrjú stykki varagloss - ásamt hárteygju og nokkrum hárspennum. Kominn tími á smá saumaskap litla mín.