mánudagur, apríl 27, 2009

"Settu brennivín í mjólkurglasið, vinan..."

...því að 6. maí kem ég heim. Sem þýðir að ég legg af stað héðan eftir nákvæmlega eina viku, 4. maí. Nú er ekkert eftir nema að nýta þessa viku til hins ítrasta. Ég skrapp til Valpo í gær í grillveislu hjá vini, hann var að "pagar el piso" sem þýðir "borga gólfið" og ég botnaði ekki neitt í neinu, þar sem hann var ekkert að skipta um gólf, en svo komst ég að því að þetta er hefð þar sem sá sem er nýkominn með vinnu þarf að bjóða vinunum í mat eða splæsa út að borða til að fagna. Þetta gerði hann, grillaði fyrir okkur öll og nautakjötið kostaði samtals 1200 krónur, fyrir sjö manns. Jamm og já. Sjálf er ég að skipuleggja grillveislu á laugardaginn, ætla að bjóða öllum heiminum og grilla hérna í hæðinni sem er hér í miðri borg, þar eru pikknikksvæði með grillum sem maður getur notað. Á fimmtudaginn kveð ég elsku börnin mín á heimilinu þar sem ég er núna búin að fara vikulega síðan í október. Vil ekki einu sinni hugsa um það. Sama dag fer ég á síðustu kóræfinguna í öðrum kórnum, sem verður ekkert auðvelt heldur. Föstudaginn átti ég að bóka fyrir hinn kórinn, barokkgrúppuna það er, ég hef ekki hugmynd um hvað þau ætla að gera við mig, veit bara að ég átti að taka frá allan daginn. Laugardagur grill, sunnudagur pakka, mánudagur og þriðjudagur þriggja heimsálfa maraþongrátur. Good times.

þriðjudagur, apríl 21, 2009


Orðin sem ég aldrei finn


Ég veit þau búa einhvers staðar öll
en aldrei finn ég þeirra djúpa helli
þó svo ég leiti fram í efstu elli
um úfna vegi: tungunnar bröttu fjöll.

Ég veit þau finnast aldrei. Engum mönnum
þau orð ég flyt sem geymi huga minn:
þágu frá aldinkjöti sætleik sinn
og særðu herzlu og styrk úr úlfsins tönnum.

Hannes Pétursson

Þýðendur og aðrir sem starfa við að skrifa á íslenskri tungu eru í sífelldri leit að réttu orðunum. Hellirinn er nokkuð djúpur en þegar næst að fiska upp úr honum rétta orðið verður leitin samstundis þess virði. Orðið sem aldrei finnst er syrgt og notast við bróður þess eða systur í staðinn. Þeir sem skrifa frumtexta hafa úr fleiri orðum að velja sé það sem þeir kjósa ekki á tungubroddinum. Þýðendur hafa mun minna frelsi því að orðið hefur þegar verið fundið í öðru tungumáli, það er rétta orðið. Einar Ben sagði að á íslensku væri til orð yfir allt, en ég held að allir þýðendur hljóti að hafa sínar efasemdir um það.

sunnudagur, apríl 05, 2009

Þá er það búið og gert. Ég er búin að kaupa flugmiða heim til Íslands. Ég legg í hann árla morguns 4. maí frá Santiago og verð komin til Kólumbíu fimm tímum seinna. Þar sem ég ætla að skreppa niðrí miðbæ Bogotá og láta ræna mér og gera skipti á innyflunum í mér og stórum poka fullum af eiturlyfjum, sem ég fer svo með innvortis til New York. Ég hlýt að ná því á tíu tímum, er það ekki mamma? Í New York verð ég frá því snemma um morgun og fram á kvöld og mun gera mitt besta til að eyða engu og komast klakklaust með sjálfa mig og þyngd mína í farangri í næstu Flugleiðavél sem fer með mig í Leifsstöð þar sem ég lendi svipað árla morguns og ég lagði af stað tveimur sólarhringum fyrr.
Þetta verður stuð, sérstaklega þar sem ég verð örugglega grátandi langleiðina yfir hnöttinn. Ég má varla sjá vini mína núna án þess að fá kökk í hálsinn, því að ég veit að eftir mánuð verð ég að kveðja þá um mjög svo óákveðinn tíma.
Ég er dottin svo inn í þetta líf hérna að K. bandaríska vinkona mín sem fór heim í desember og var að koma aftur í vikunni, hlær að mér þegar ég geri alveg hugsunarlaust hluti sem ég hefði ekki gert fyrir ári síðan, t.d. þegar ég nota fanny pack (hvað heitir það nú eiginlega á íslensku? svona magataska) alveg án þess að finnast nokkuð athugavert við það, þegar ég fussa og sveia og býð fram hlýjar peysur þegar einhver sem hefur verið lasinn situr við opinn glugga (í 20 stiga hita), þegar mér finnst voðalega snobbað að fara á Starbucks eða þegar ég FLYSJA TÓMATANA (já, ég er farin að gera það) eða set ostinn UNDIR áleggið þegar ég baka pizzu.
Ég get ekki lýst því hvernig mér líður þegar ég hugsa til þess að þetta líf haldi ekki áfram heldur verði eftir fjórar vikur skyndilega orðið að fortíð; "þegar ég var í Chile". Einmitt núna er það svo raunverulegt og eitthvað svo "rétt". Þetta er eins og að kippa af plástri, það er ekki hægt að gera þetta smátt og smátt heldur verður maður að fara allur í einu og getur víst ekki verið á tveimur stöðum í einu. Ég veit að vinir mínir hér munu aldrei geta heimsótt mig, til þess eiga þeir engan pening, og hver veit hvað gerist með mitt líf, hvar ég verð í haust, í hvaða landi og í hvaða pælingum. Ja hérna, bara við að skrifa þetta fæ ég kökk í hálsinn.
Ég er líka leið af því að vinur minn sem bjó hérna í íbúðinni í þrjá mánuði (frá Chile) þurfti að fara í dag af því að hann fékk ekkert útborgað í þrjá mánuði, því að fyrirtækið er í vandræðum og hann fær engin svör frá forstjóranum. Hann hafði því ekki efni á að leigja lengur og þurfti að fara heim til mömmu aftur. Mér finnst þetta svo hrikalega ósanngjarnt að ég fer næstum því bara að grenja yfir því líka (ég er orðin rosaleg sko).

Trúiði því að þessi færsla er ritskoðuð því að væmnin var svo yfirþyrmandi að það hefði misboðið íslenskum lesendum? Og er þó nógu mikið eftir af henni. Það truflar mig þó að geta ekki bara verið væmin á íslensku án þess að skammast mín, heldur þarf ég alltaf að setja einhverja svona afsökun, réttlætingu eða fyrirvara. Hér er ég bara væmin, punktur. Og allt í lagi með það. Og ég felli tár, alveg eins og vinir mínir, og það er allt í lagi með það líka. Enginn kippir sér upp við það, ekki frekar en ég kippi mér lengur upp við það. Ég er orðin leið á að fela það hvernig mér líður og ætla að hætta að gera það. Ég veit að það verður erfitt á Íslandi en ég ætla að reyna.

En nú er ég farin að fá mér bjór.
Það er nú einu sinni laugardagskvöld.
Esto lo publiqué en mi Facebook pero lo pongo acá también por si a alguien le interesa:

Ya he cumplido un año en Chile. Ha sido probablemente el mejor año de mi vida, con muchas experiencias nuevas, viajes y amigos increíbles. Hice una lista de lo que en este año me ha llamado la atención en este país. No significa que sea porque no me guste, son cosas entretenidas, curiosas, interesantes, a veces tristes, a veces insignificantes o invisibles para un nativo, pero que son diferentes de lo que se encuentra en mi cultura. Algunas costumbres que voy a llevar conmigo cuando me vaya, algunas que no. Recuerden que es "just for fun" y espero que el castellano esté más o menos;)

39 cositas que ya no encuentro raras

1. Que me digan “usted”. Y que yo tenga que usar “usted”.

2. La gente en los parques besándose a plena luz del día.... también gente más vieja que mis padres.

3. Los gemidos en los moteles alrededor de la casa.

4. Que la palta no sea comida “exótica” sino algo normal y corriente.

5. Que la comida más importante del día sea a las 14 en la tarde. (Allá a las 19)

6. Que todos tomen nescafé – y que lo encuentren normal.

7. No ser siempre la más bajita de todos.

8. Encontrar caro pagar 400 pesos para el metro/la micro.

9. No botar los papeles en el inodoro.

10. Que en la noche mi calle se llene de travestis y prostitutas.

11. Que no haya tanta necesidad de arreglarse para salir. Eso me gusta, allá la gente se preocupa demasiado de la ropa y el maquillaje.

12. Que si no tienes plata no puedes ir a la Universidad ni tienes buen servicio médico.

13. Que hace sólo 20 años haya regido una dictadura militar en el país, y que hayan desaparecido miles de personas.

14. Que la gente viva con sus padres hasta casarse, sin ser necesariamente “losers”. ;)

15. Que todos los que no tienen el pelo negro lo tengan “rubio”.

16. Que los perros callejeros sepan cruzar en verde (y los gatos no).

17. Todos los chistes de doble sentido con referencias sexuales. Todo lo que tiene la forma oblongada, todo lo que se puede meter dentro de otra cosa, toda relación entre hombre y mujer, hombre y hombre o mujer y mujer es una oportunidad imperdible para contar un chiste, sea bueno o pésimo.

18. Botellas de cerveza de litro y papas fritas grasientas.

19. Tener que hablar con por lo menos tres personas en una tienda para comprarse un lápiz o una aguja.

20. Que mis amigos manejen tras haber tomado.

21. Hablar en español – perdónenme – chileno.

22. Ir a la ducha del gimnasio y no ver a ni una mujer desnuda, sea porque se vistan dentro de la ducha cerrada o porque dominen algúna técnica que yo no me sé.

23. Que no tenga casi ninguna vida personal ni secretos, como todos los amigos saben todo sobre todos. También es raro saber a veces demasiado sobre la vida personal de otras personas.

24. Que la policía se vista de verde, desde la gorra hasta los calcetines.

25. Que el aborto esté prohibido, y la píldora del día después, y que no haya tampones en todos los supermercados.

26. Declaraciones largas y súper dramáticas en el status del messenger y facebook...

27. Dejar a los hombres abrirme la puerta, llevar las bolsas, pagar el trago, ponerme el abrigo, etc., sin quejarme o enojarme (difícil).

28. Navidad en verano, semana santa en otoño, invierno en julio y primavera en septiembre.

29. Los vendedores en la micro que dan discursos largos y sentimentales sobre sus productos, sean parches, maní confitado, aspirinas, carteras o cintas.

30. Que me digan Lilja, Lilia, Lilian, Liliana, Lili, Lydia, Lila, Lilly, Laila, Lil... todo menos Svanhvít, o Svanhvít Lilja Ingólfsdóttir, porque cuando lo digo creen que me esté carraspeando, y cuando lo escribo piensan que haya tenido un espasmo o que un gato haya caminado sobre el teclado del computador.

31. Que mientan. No, a esto no me acostumbro. Aquí hay demasiada mentira, y de todo tipo, para arreglar las cosas, para salvarse la cara, posponer algo desagradable, mantener a la pareja, y, a veces, sin que tenga ninguna razón ni sentido.

32. Pelar los tomates.

33. Saludar siempre con un beso, hasta a los profesores y médicos.

34. Vivir en una ciudad de millones en Sur-America, con todo lo que eso significa: gentío, smog, robos, violencia, taco, basura, méndigos, perros, prostitutas, gitanas, mimos, bulla, calor, frío, hedor, protestas, conciertos, publicidades, kioskos, vendedores de maní confitado, jotes, locos, mujeres indígenas, chicos guapos, niños chicos, heladerías, parques, iglesias, cementerios, bares, los Andes al atardecer, parejas enamoradas, el metro hediondo, pokemones en ropa escolar y todo lo demás que me fascina de esta ciudad.

35. Compartir la casa con arañas que te pueden matar.

36. Que la gente baile sin haber tomado.

37. Muchas palabras para no decir nada. No se dice “Feliz cumpleaños“ sino, “Querido ___, espero que este día sea inolvidable para tí y que este año se cumplen todos tus deseos. Que las estrellas te acompañen, tu eres una persona espectacular que quiero mucho, y te mereces todo lo mejor en el mundo. Te mando un abrazote y mil besos, cuidate mucho y ojalá nos veamos pronto. Besos, ___”

38. Hombres que lloran y mujeres que pelean.

39. Ser siempre y eternamente un extranjera en este país.

fimmtudagur, mars 19, 2009

Í gær kaus ég í alþingiskosningunum. Ég fór á ræðisskrifstofu Íslands í Chile með vegabréfið mitt og tíu dollara seðil og nýtti mér þegnrétt minn. Skrifstofan er í hringlaga hverfi sem heitir í beinni þýðingu „Fyrirtækjaborg“ og ber nafn með rentu, því að þarna er allt fullt af höfuðstöðvum stórra fyrirtækja, glæsilegar byggingar, pálmatré og vel hirtar grasflatir (alltaf merki um peninga í S-Ameríku). Konsúllinn sinnir embættisstörfunum að sjálfsögðu meðfram annarri vinnu, enda bjóða milliríkjasamskipti Íslands og Chile ekki upp á stórt sendiráð. Það gladdi mitt gamla hjarta að sjá eldgamlan skjöld með skjaldarmerki Íslands og áletruninni „Lýðveldið Ísland“ fyrir utan skrifstofuna. Einkaritari konsúlsins var mjög almennileg kona sem var voðalega spennt fyrir þessu öllu saman, þar sem ég var sú allra fyrsta í sögu ræðisskrifstofunnar til að kjósa utankjörfundar. Þau voru með þetta allt á hreinu og þetta gekk mjög fljótt og vel og formlega fyrir sig, ég kvittaði undir alla nauðsynlega pappíra, svo konsúllinn, og þau horfðu á mig stinga atkvæðisumslaginu ofan í stærra umslagið og sleikja fyrir og tóku svo við því og tíudollaraseðlinum (fyrir sendingarkostnaði). Nú er bara að vona að atkvæðið skili sér heim í Aratungu á skrifstofu Bláskógabyggðar fyrir kosningar. Ábyrgðarpósturinn ætti að tryggja það. Svo er hitt áhyggjuefnið, að flokkurinn sem ég kaus klúðri ekki einhverju svakalegu fram að kosningum sem verði til þess að ég skipti um skoðun. Of seint að hugsa um það. Ég kaus í það minnsta ekki Sjálfstæðisflokkinn.

Þessa dagana er ég í annarri yfirferð í þýðingunni á skáldsögunni sem ég er að þýða, að laga til og snurfusa, og það er bara nokkuð ánægjulegt. Enn er margt sem ég er ekki búin að finna lausn á eins og gengur og gerist en ég er tiltölulega jákvæð gagnvart því eins og er. Sjáum til hvað ég segi eftir viku. Hins vegar er öll MA-ritgerðin eftir og það er verra.

Ég ákvað að hætta í raunveruleikasjónvarpsþáttarkórnum (langt orð) sem ég var byrjuð í og sagði frá hérna um daginn. Ég sá nefnilega þáttinn. Hann var hörmung. Nú er fyrsta holl af kórum að keppa, reyndar myndi ég varla kalla þetta kóra, heldur samansafn af fólki úr mismunandi áttum, sem er klætt upp látið syngja saman, allt einraddað, Beyoncé og Shakira-lög eða reggaeton-tónlist. Þar standa upp úr Fangakórinn og Módelakórinn (ekki grín), en þar eru einnig m.a. Raunveruleikaþáttastjörnukórinn (hrikalegur) og Friðarkórinn, þar sem syngur saman fólk sem tilheyrir alls kyns mismunandi trúarbrögðum. Þátturinn heitir „Allir í kór“ og er svipað upp settur og Idol, nema einhvern veginn ennþá hallærislegri. Og þar sem ég sker mig úr hvar sem ég fer í þessu landi er það hundrað prósent öruggt að ég fæ að svara einhverjum hallærislegum spurningum kynnanna, sem eru víst voðalega frægir (ég sé fyrir mér „Vá, Ísland? Synguru þá einsog Björk? Syngdu nú smá fyrir okkur...“). Fyrir utan það að ég er víst á leiðinni til Íslands hvað úr hverju og næ því varla að taka þátt nema í kannski fyrsta þættinum.

Fer á eftir á barnaheimilið til gríslinganna minna tíu, fer þangað eitt síðdegi á viku til að leika við þau. Þau eru yndisleg og bandbrjáluð og ég er alltaf uppgefin eftir fjóra tíma. Þau eru byrjuð í skóla og leikskóla eftir sumarfríið og koma því heim eftir hádegi í sjúskuðum skólabúningum og drífa sig upp að skipta og svo tekur við heimalærdómur eða leiktími, svo kaffitími og meiri leikur. Strákarnir fara í einn skóla og stelpurnar í annan, og mér hálfsvelgdist á þegar ég heyrði nafnið á stelpuskólanum: „Preciosa Sangre“ (já, „Dýrmætt blóð“). Það fer líklega ekki á milli mála að skólinn er kaþólskur.

Í grunnskólum eru venjulega 45 börn saman í bekk (kynjaskipt eða ekki) og kennarar garga sig auðvitað hása við að reyna að halda einhverjum aga í kennslustofunni. Vinur minn sem er söngvari kennir tónmennt í grunnskóla, fimm ára til fimmtán ára stelpum, og hann þurfti að láta skera upp á sér raddböndin því að hann var búinn að eyðileggja í sér röddina við kennslu. Ég vil ekki einu sinni ímynda mér hávaðann í 45 sexárabekkingum með jafnmargar blokkflautur. Það var nóg þegar við fórum í barokkhópnum um daginn og héldum tónleika fyrir skólann, og heyrðum ekki einu sinni í okkur sjálfum fyrir skrækjunum í stelpunum. Þetta eru börn sem kunna ekki að vera á tónleikum af því að þeim hefur aldrei verið kennt það, þar sem foreldrarnir lærðu það aldrei heldur, en Paolo er smátt og smátt að reyna að ala þau upp. Ég fer kannski þangað og held smá flaututónleika fyrir fimmta bekk, svo stelpurnar heyri að það sé hægt að spila alvöru tónlist á blokkflautur.

Það er ennþá alltof heitt hér í borginni og hefur ekki rignt síðan einhverntímann í október að mig minnir. Ég vona að bráðum fari aðeins að kólna, þetta er orðið gott. En ekki búast við að ég komi brún heim, ég stend undir nafni sem endranær og hef varla náð í nokkurn lit. Þá er líklegra að ég nái í smá lit í íslenska sumrinu þegar ég fer aftur heim á Engi að vinna í garðyrkjunni.

Kærar þakkir fyrir allar athugasemdirnar hér fyrir neðan, það er gaman að vita að einhver hefur gaman af því að lesa þetta raus sem er mest fyrir mig sjálfa gert, nokkurs konar stílæfing og dagbók á rafrænu formi. Ef einhver getur lært á þessu eitthvað um Chile eða Suður-Ameríku er það frábært.
Sendi kærar kveðjur úr hausthitunum í Santiago,
Lilia

sunnudagur, mars 08, 2009

Háklassablogg

Mikið er ég löt að skrifa blogg. Hef engar skýringar á því né afsakanir, en hér koma í það minnsta pælingar gærdagsins. Ég fór nefnilega í brúðkaup í gær. Vinur minn einn, Jorge, sem ég hitti nú ekki oft en finnst gaman að spjalla við, spurði mig í vikunni hvort ég hefði nokkurn tíma farið í brúðkaup í Chile. Ég kvaðst ekki hafa gert það svo að hann bauð mér í eitt, hjá æskuvini sínum. Þar sem ég vissi að hann hefði alist upp í hverfi ríka fólksins (án þess að vera úr efri stétt sjálfur) bjóst ég alveg við því að veislan yrði í veglegri kantinum. Þegar hann svo sagði mér hvar veislan yrði haldin, á vínekru í útjaðri Santiago, renndi það stoðum undir þann grun. Ég þorði því ekki annað en að stoppa í götin í hálsmálinu á bláu gollunni minni og fara í mitt fínasta púss (hvítan fínan bol og pils með blómamynstri, sumarlegt og sætt), og setja liði í hárið. Við fórum samferða pari úr sama vinahópi, Loreto (hún) og Felipe (hann). Þau höfðu gift sig fyrir jól og báru saman hvert smáatriði í brúðkaupunum tveimur, sem var sætt og fyndið í byrjun en svolítið þreytandi til lengdar.
Kirkjan var auðvitað í fína hverfinu, í fínum almenningsgarði, í stíl við fína fólkið, (“hér leika ríku börnin sér í hvítum sandi, eitthvað annað en í okkar hverfi þar sem sandurinn er svartur,” sagði Loreto.) Athöfnin sjálf var merkilega lík athöfninni heima. Presturinn var duglegur að djóka, með týpískan hérlenskan klisjuhúmor (tengdamömmubrandarar og “brúðurin er eins og prinsessa, stórglæsileg í dag. Brúðguminn, tja, jú, eitthvað hefur verið tjaslað upp á hann”) og tónlistin var góð, miðaldagrúppa með flautur, lútu, slagverk og söng. Brúðhjónin glæsileg og foreldrarnir stoltir. Mér leið auðvitað eins og asna þegar ég kom inn í kirkjuna þar sem allar konurnar voru í kjól nema ég, og ekkert smá kjólum, níðþröngum design-silkikjólum og skóm og hárskrauti og naglalakki í stíl. Allt í einu leið mér eins og heima á Íslandi þar sem allir dressa sig svo mikið upp að maður er aldrei nógu fínn í samanburði, sama hvað maður er ánægður með sig fyrir framan spegilinn heima.
Þema dagsins var tvímælalaust stéttaskipting. Þar sem J. vinur minn er ekki mikið fyrir ríka fólkið, þótt hann hafi (eiginlega óvart) alist upp innan um það, og parið sem við vorum með ekki heldur, var mikið hvíslað og fussað og sveiað yfir allri geðveikinni. Eiginlega er ómögulegt að tala um efri stéttina í Chile án þess að nota orðið cuico (frb.: kvíkó) sem lýsir einmitt þessu fólki, úr efstu stéttum þjóðfélagsins sem á nóg af peningum, býr í fínu hverfunum Las Condes og Vitacura og sendir börnin sín í kaþólska háskólann (sem ég var í), er með her af þjónustufólki til að þrífa upp eftir sig skítinn og passa börnin sín og þarf aldrei að hugsa um það að úti á götunum er fólk sem sveltur. Cuico-ar eru allajafna hægrisinnaðir og Pinochet-istar, eldfimt mál sem best er að láta vera að ræða. Maður segir aldrei cuico við þann sem er cuico, en þeim mun oftar á bak við hann. Allt getur verið cuico, matur, hárgreiðsla, ættarnöfn, augabrúnir (bissnessmenn af arabaættum með mottur yfir augunum), bankar, leikskólar, skólar, spítalar eða orðnotkun (fínu frúrnar nota voðalega mikið smækkunarendingar á öll möguleg orð, cafecito, florcita, tardecita). Til dæmis um muninn á lífi cuico-anna og annarra komst upp fyrir nokkrum mánuðum að camembert-ostur sem seldur var úti í búð olli matareitrun og fjarlægja þurfti hann úr verslunum, þar sem fólk hafði veikst. Það skemmtilega var að öll tilfellin komu upp í fínu hverfunum tveimur sem ég nefndi hér að ofan þar sem að fólk annars staðar borðar ekki svona cuico-ost. Og við erum bara að tala um venjulegan camembert.
Fólk úr efri stétt er hávaxið og grannt, ljósara á hörund, “ljóshært” (þ.e. ekki endilega með svart hár), konurnar með sítt slétt hár. Þetta var vel greinanlegt í brúðkaupinu í gær: ég varð allt í einu lágvaxin aftur. Þjónustufólkið var svo auðvitað allt lágvaxið og mun dekkra á hörund. Í athöfninni tók ég eftir konu sem mér fannst öðruvísi en hinir, hún var góðlegri á svip og hafði þetta blik í augum sem sést hjá vitrum konum sem hafa upplifað margt en láta lítið uppi. Maðurinn hennar var með henni, lágvaxinn líkt og hún og með veðurbarið andlit. Ég sá svo að allir krakkarnir úr vinahópnum fóru að tala við hana og föðmuðu hana að sér. Hún reyndist vera barnfóstran sem hafði gætt brúðgumans og bróður hans þegar þeir voru litlir, búið heima hjá þeim, eldað fyrir þá og hugsað um heimilið (þetta er ennþá mjög algengt í mið- og efristétt). Þegar þau spurðu hvort að hún ætlaði ekki að koma í veisluna sá ég að hún fór undan í flæmingi, en sagðist svo ekki ætla að fara. Þau urðu öll voðalega leið en spurðu ekki af hverju; þau vissu það vel: hún er úr lægri stétt og á ekki heima með þessu fólki, er hrædd um að gera sig að fífli, kannski með því að nota vitlaus hnífapör eða tala með lægristéttarhreim. Svo er það niðurlægingin sem fylgir svipnum hjá fólki sem spyrði hvernig hún þekkti brúðgumann. En ég sá vel svipinn í augunum hjá henni þegar hún sagðist ekki ætla að fara, margra ára niðurbæld sorg í dauflegum augum. Ég hef séð þennan svip oft áður hér í Chile, sérstaklega þegar sósíalistaskandinavinn í mér fer að býsnast yfir því að vinir mínir hafi ekki allir sömu tækifæri og þurfi að sætta sig við lélega menntun, fordóma, fátækt eða niðurlægingu. Þá lítur fólk bara á mig með augnaráði sem segir miklu meira en orðin: inn í þetta fæddist ég og við því er ekkert að gera.
Þetta er orðið heldur langt og sorglegt hjá mér, svo við skulum halda áfram með brúðkaupið. Faðir brúðarinnar er bissnessmaður mikill, á fyrirtæki og fasteignir úti um allan bæ og borgaði að sjálfsögðu brúsann, sem ekki hefur verið ódýr, enda sagði Loreto, sem talar af nýfenginni reynslu við brúðkaupsskipulagningu, að vínekrurnar væru langdýrastar. Gestirnir voru um þrjú hundruð og meirihlutinn löngu kominn af léttasta skeiði. Ég komst svo að því að það var auðvitað af því að þar sem pabbi borgar þurfti hann að bjóða öllum hinum bissnessköllunum og kellingunum þeirra, frímúrarareglunni og fleira fólki sem brúðhjónin þekkja ekki einu sinni.
Útsýnið yfir borgina var dásamlegt í sólarlaginu, pálmatrén báru við gulan og rauðan himininn sem snerti blá og fjólublá fjöllin og tónaði við smog-skýið grágula sem lá yfir borginni. Okkur fína fólkinu var boðið upp á mojito og pisco sour og sýnishorn af mat á pinnum. Svo var okkur vísað inn í risastórt tjald, við vorum á borði 30, hæfilega langt frá fínasta fólkinu og sviðinu, þar sem við vorum nú bara vinirnir, ræflar hlandvanir. Veislan var hundleiðinleg, eins og Jorge þreyttist ekki á að tala um, maturinn var munnbiti af kjöti, sósusletta og agnarsmár þríhyrningur af kartöflugratíni, allt eins og það á að vera, en eftirréttahlaðborðið gott. Engar ræður en alltof langt powerpointsjó með barnamyndum af brúðhjónunum og skemmtilega viðeigandi tónlist undir, eins og “she´s a daddy´s girl” (þá hló ég). Glötuð tónlist, spiluð fyrir gamla fólkið, en klósettin voru sniðug, risastórar rauðmálaðar víngerðartunnur sem maður fór inn í og þar pissaði maður (engir lásar heldur tjöld fyrir dyrum og einn klósettvörður á hvert klósett). Brúðhjónin voru brosmild og kát, með kamerumann á hælunum sem tók upp hverja hreyfingu þeirra allan daginn, fóru svo á milli borða með her af ljósmyndurum til að láta taka myndir af sér með öllum gestunum. Eitthvað voru þau orðin óþreyjufull þegar þau komu að borði 30, brúðurin öskraði á okkur að drífa okkur því að þau hefðu ekki mikinn tíma. Vinirnir voru ekkert voðalega sáttir við hvernig þau komu fram við þá, yrtu varla á þá allt kvöldið og þegar J. sagði brúðgumanum að hann liti vel út og tók aðeins í gráa vestið og bleika bindið hans sagði hann bara “ekki snerta fötin, má ekki skíta þau út”. Ég er handviss um að þau eru besta fólk, en þetta er það sem ríkidæmið gerir við mann, þau detta inn í óþolandi karakter, stressið spilar inn í og pressan að allt sé fullkomið. Og vissulega var allt fullkomið, allt gekk upp, “nógur” matur, vín (jú, það vantaði ekki) og engir skandalar. Vandamálið var bara að veislan var öll gerð fyrir fullorðna fólkið, vindla-og-koníakfélaga pabbans, og því engar áhættur teknar, ekkert glens, ekkert sem gæti stuðað tilvonandi eða núverandi viðskiptafélaga. En brúðhjónin spila með, því að þau fá sinn dag, sitt 300 manna vínekrubrúðkaup, sinn brúðarvönd og kjól, og síðast en ekki síst fá þau loksins að flytja saman, því að það þykir auðvitað ekki við hæfi að fólk búi saman fyrir giftingu í þessum kreðsum.
Þrátt fyrir leiðindin létum okkur hafa það að dansa til fimm, þótt síðustu þrjá klukkutímana hafi Jorge ekki sagt neitt annað en “puta, qué matrimonio fome” (“djöfull er þetta leiðinlegt brúðkaup”) aftur og aftur og þambað viskí onðerokks. Hann var hundfúll og lofaði að bjóða mér með ef einhver fátækari vinur myndi gifta sig, svona upp á samanburðinn. Og jú, brúðkaupið var hrikalega leiðinlegt, en það breytti því ekki að ég skemmti mér stórvel allan tímann við antrópólógískar hugleiðingar um þjóðfélagsstöðu. Og styrktist enn í þeirri trú að ég eigi aldrei eftir að gifta mig.

mánudagur, febrúar 23, 2009

39

Þetta birti ég á Facebook og smelli því hingað líka.

Nú eru allir að gera lista, en þar sem mér finnst algjör óþarfi að afhjúpa það litla sem fólk kynni ekki að vita um mig nú þegar, eða að reyna að semja enn frumlegri svör við sömu spurningunum og allir aðrir eru búnir að svara, gerði ég öðruvísi lista, í tilefni af því að nú er ég búin að vera í eitt ár í Chile.

Hér eru nokkur atriði sem ég hef tekið eftir á þessu ári og fundist athyglisvert, skrítið, skemmtilegt, leiðinlegt, sorglegt eða fyndið (þó að auðvitað eigi margt alls ekki bara við um Chile) en kippi mér ekki upp við lengur.


1. Að láta þéra mig. Og þurfa að þéra.

2. Að fólk sitji úti á bekk eða úti á grasi í hörkusleik um hábjartan dag. Fólk eldra en foreldrar mínir.

3. Stunurnar sem berast úr mótelunum sem umkringja húsið mitt, þar sem fólk kaupir sér þemaherbergi (arabískt, frumskógar, o.s.frv...) í nokkra klukkutíma til að leika sér.

4. Að avókadó sé ekki munaðarvara heldur borðað stappað ofan á brauð hversdags.

5. Að borða aðalmáltíðina í kringum 14 á daginn.

6. Að allir drekki neskaffi... og finnist ekkert að því.

7. Að vera ekki alltaf sú langminnsta.

8. Að finnast rándýrt að borga 72 krónur í strætó/metró.

9. Að henda klósettpappírnum ekki í klósettið heldur í ruslafötu. (Ókei, það er ennþá pínu skrýtið. Og ekki einn af siðunum sem ég ætla að taka heim með mér.)

10. Að á kvöldin fyllist gatan mín af klæðskiptingum og vændiskonum sem klípa vini mína í rassinn þegar þeir ganga framhjá.

11. Afslappaðri klæðaburður. T.d. að það sé hlægilegt að klæða sig upp fyrir matarboð hjá vini, og að nýþvegnar gallabuxur séu fínar á aðfangadagskvöld. (Við mættum alveg slappa aðeins af á Íslandi með klæðaburðinn finnst mér.)

12. Að fólk geti ekki farið í háskólanám eða leitað sér almennilegra lækninga ef fjölskyldan á ekki pening.

13. Að fyrir aðeins 20 árum hafi einræðisherra verið við völd í landinu sem lét þúsundir manns hverfa. Og að enn í dag skiptist fólk algjörlega í tvær fylkingar í afstöðu til þessa.

14. Að fólk búi hjá foreldrunum fram yfir þrítugt án þess að vera lúserar.

15. Að allir sem eru ekki með svart hár séu „ljóshærðir“.

16. Að götuhundarnir kunni að fara yfir á grænu (en kettirnir ekki).

17. Endalausir tvíræðnir brandarar með kynferðislegum tilvísunum. Allt sem er ílangt í laginu, allt sem er eitthvað sem fer inn í eitthvað annað, allt sem hefur að gera með karl og konu, konu og konu eða karl og karl, er efni í gott grín. Eða ekki svo gott grín.

18. Bjór í lítraflöskum og slepjulegar franskar.

19. Að þurfa að tala við minnst þrjá búðarstarfsmenn til að kaupa sér einn penna.

20. Að vinir mínir keyri þótt þeir hafi drukkið.

21. Að tala á spænsku – nei, fyrirgefiði, chileísku.

22. Að fara í sturtuna í ræktinni og sjá ekki eina einustu allsbera konu, þar sem þær klæða sig inni í lokuðum sturtuklefanum eða með einhverjum göldrum sem ég ekki kann, vegna spéhræðslu.

23. Að eiga mun minna einkalíf og engin leyndarmál, þar sem í vinahópnum vita allir allt um alla. Einnig að vita stundum einum of mikið um einkamál annarra.

24. Að löggurnar séu grænklæddir frá húfu niður í sokka.

25. Að fóstureyðingar séu bannaðar, sem og daginn eftir pillan, og túrtappar sjaldséðir.

26. Ofurdramatísk MSN- og Facebook-statusöppdeit.

27. Að leyfa karlmönnum að opna dyrnar, bera pokana, borga drykkinn, klæða mann í kápuna o.s.frv. án þess að malda í móinn (erfitt).

28. Sumarjól, haustpáskar, júlívetur og septembervor.

29. Sölumennirnir í strætó sem halda langar og tilfinningaþrungnar ræður um gæði varnings síns, plástra, naglaþjala, sykraðra mandlna, aspiríns, innanklæðaveskja eða pakkabönd.

30. Að heita Lilja, Lilia, Lilian, Liliana, Lili, Lydia, Lila, Lilly, Lil... allt annað en Svanhvít, hvað þá Svanhvít Lilja Ingólfsdóttir, því að ef ég segi það upphátt heldur fólk að ég sé að ræskja mig eða hrækja, og ef ég skrifa það niður heldur fólk að ég hafi fengið krampa eða að köttur hafi labbað yfir lyklaborðið.

31. Að fólk ljúgi. Nei, annars, ég get ekki vanist því. Það er alltof mikið um lygar hér, af öllum gerðum, hvítum, sakleysislegum, til að redda málunum, til að fresta óþægilegheitum, til að halda í kærastann/kærustuna, til að bjarga andlitinu, og stundum að því er virðist ekki til neins, nema til að ljúga.

32. Að flysja tómata.

33. Að heilsa og kveðja alltaf með kossi á kinn, jafnvel kennara og lækna.

34. Að búa í milljónaborg í Suður-Ameríku með öllu sem því fylgir, fólksmergð, mengun, þjófnaður, ofbeldi, brjáluð umferð, rusl, betlarar, götuhundar, vændiskonur, sígaunakonur, látbragðsleikarar, læti, hiti, fýla, mótmæli, tónleikar, ljósaskilti, hnetusalar, vatnssalar á rauðum ljósum, grænmetismarkaðir, styttur, háhýsi, óléttar konur, glápandi karlar, eldgamlar frumbyggjakonur, gullfallegir karlmenn, lítil börn, ísbúðir, almenningsgarðar, kirkjur, sérvitringar, barir, kirkjugarðar, Andesfjöllin við sólarlag, ástfangin pör, handarkriki í andlit í yfirfullum metró, unglingar í skólabúningum og allt hitt sem ég elska svo mikið við þessa borg.

35. Að deila íbúð með drápskóngulóm og tígrisköngulóm (hinar síðarnefndu eru góðar og éta drápskóngulærnar svo þær eru látnar í friði).

36. Að fólk bresti í dans án þess að vera búið að drekka.

37. Miklu fleiri orð til að segja miklu minna. Ekki „Til hamingju með afmælið“ heldur „Elsku ___, ég vona að þessi dagur verði þér ógleymanlegur og að allar þínar óskir rætist á árinu. Megi heillastjörnur vaka yfir þér, þú ert dásamleg manneskja sem mér þykir ógurlega vænt um og þú átt allt hið besta skilið. Ég sendi þér risastórt faðmlag og þúsund kossa, farðu vel með þig og við sjáumst vonandi bráðum, bless bless, koss, _____“

38. Karlmenn sem gráta og konur sem slást.

39. Að vera ætíð og eilíflega útlendingur í þessu landi og skera mig út úr hvar sem ég fer.

þriðjudagur, febrúar 17, 2009

Mi vida últimamente


Febrúar meira en hálfnaður, hvernig sem stendur á því. Ég er búin að hafa það mjög gott, þó að hitinn hérna slefi upp í líkamshita, eða eins og einn vinur minn orðaði það "ég kem heim úr vinnunni á hverjum degi með kúkinn sjóðandi". Stundum fer líkaminn í hitaverkfall og þá er lítið sem hægt er að gera. Hitinn er þó þurr, alveg skraufþurr, enda hefur ekki rignt hérna í einhverja mánuði - sem betur fer, 35 stiga hiti með raka væri eitthvað sem ég myndi tæplega þola.

En fyrst af nýjustu fréttum:
Ég var að koma af kóræfingu nú rétt áðan, þetta var eiginlega stofnfundur því þetta er kór sem er settur saman til að keppa í einhvers konar raunveruleikaþætti í ríkissjónvarpi Chile eftir svona tvo mánuði. Þetta er kórakeppni þar sem við "kennararnir" (kórinn er á vegum Kennarasambands Chile) keppum á móti hjúkrunarkonukórum, slökkviliðsmannakórum, dómarakórum, kokkakórum og fleiri. Að sjálfsögðu verðum við að syngja eitthvert bölvað popp sem gengur í lýðinn, svo þetta verður líklega Shakira og Jesus Christ Superstar-medley - en hvað um það, verðlaunin eru fimm millur íslenskar, hvað gerir maður ekki... Svo Lilja litla ætlar að verða fræg. Reyndar verður þetta örugglega hræðilegt, eins og einhver benti mér svo á, því að ég verð eini útlendingurinn og því 100 prósent tekin fyrir eins og alltaf ("Frá Íslandi? Vá! Synguru þá einsog Björk? Syngdu nú smá fyrir okkur!"). Ojæja, þetta verður þá í það minnsta góð saga.

Annars líða dagarnir hjá í rólegheitum hér í íbúðinni. Ég er að þýða bók fyrir MA-verkefnið mitt í þýðingafræðinni og svo verður skrifuð ritgerð. Eitthvað fæ ég lítið af bíómyndum frá Ítalíu til að þýða eins og er en við sjáum hvort það rætist ekki úr því. Um tíma vorum við átta meðleigjendurnir, sem betur fer erum við "bara" sex núna. Ég var að reikna, og á þessu eina ári er ég búin að búa með tuttugu manns. Ég er orðin svolítið þreytt á því, og nenni varla að vera næs við þetta lið lengur. Á daginn sit ég hér í stofunni með P. (frá Chile) sem vinnur líka heima, og við pirrum okkur sitt á hvað, ég þegar ég lendi til dæmis á 130 orða setningu sem ég þarf að þýða eða sérstaklega illþýðanlegu hugtaki, hann þegar yfirmaðurinn svarar honum loksins til að segja honum að hann geti ekki borgað honum fyrr en í næstu viku, þótt hann hafi átt að borga honum í þarsíðustu viku. Það ku vera mjög algengt í hérlendum fyrirtækjum. Seinnipartinn fer ég svo á æfingu eða pilates-tíma, þar sem Sigur Rós er blöstuð.

Talandi um Sigur Rós þá fór ég í Íslands-partí á fimmtudaginn þar sem Heima var sýnd (ég mætti eftir á) og svo spilaði Sigur Rósar koverband (eða því sem næst, hljómuðu alveg eins og tóku nokkur lög með þeim). Ég var eini Íslendingurinn. Svo byrjaði DJ að spila og allir fóru að dansa. Það var ekki mjög íslenskt. Það gladdi þó mitt litla kríslenska hjarta að horfa á fornt Íslandskort á breiðtjaldi (DVD-bakgrunnurinn) og hlusta á chileíska hljómsveit spila Tsjúhúúú. Þá hugsaði ég að við værum kannski ekki sem verst, ef fólk nennir að halda partí landinu til heiðurs og syngja tónlistina okkar. Við höfum þá alltaf það, þótt við eigum ekki krónu - hvað þá evru.


Á fimmtudögum fer ég í sjálfboðastarfið mitt, sem ég held að ég sé ekki ennþá búin að segja frá á þessum síðum. Ég byrjaði í október eftir löng og ströng viðtöl og blekklessupróf, og fer eitt eftirmiðdegi í viku. Þetta er heimili þar sem búa tíu börn á aldrinum 2-11 sem geta ekki búið með foreldrum sínum vegna aðstæðna heima fyrir, hvort sem það er fátækt, eiturlyf, misnotkun, vændi eða annað. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt, en börnin eru yndisleg, þótt þau hafi þurft að ganga í gegnum alltof mikla erfiðleika miðað við ungan aldur. Viðbrögð þeirra eru mjög oft að öskra eða lemja eða segja eitthvað ljótt við mann, til dæmis lamdi fjögurra ára stelpa mig einu sinni svo fast að ég emjaði af sársauka, af því að ég hafði snert dótið hennar.

Öll börnin þéra mig, sem og hina sjálfboðaliðana og annað fullorðið fólk á heimilinu, sem ég er búin að venjast núna en fannst undarlegt fyrst. Mér fannst skrítið og frekar ópersónulegt að þessi börn, sem eiga að líta á staðinn sem heimili sitt, þyrftu að þéra alla á heimilinu, líka forstöðukonuna sem gegnir hlutverki móður. Málið er þó, eins og einn vinur sagði mér, að sama hversu illa það hljómar, þá er fátækt barn fyrst og fremst fátækt barn, og hefur ekki sömu réttindi og önnur börn. Það mikilvægasta fyrir það er að læra að lifa í þessum heimi sem fátækt barn úr lægri stétt og svo getur það ef til vill sýnt að það hafi eitthvað til brunns að bera og gert sig gildandi í samfélaginu. Þetta er ansi hart, en raunveruleiki margra.

Í byrjun var þetta mjög erfitt, börnin treystu mér ekki og konurnar sem vinna á heimilinu ekki heldur, enda gríðarlega erfitt fyrir gringur að kynnast konum héðan. Nú eru þó liðnir nokkrir mánuðir og allt gengur miklu betur, konurnar tala við mig og það er gaman að leika við börnin. Elsti strákurinn spilar á gítar, kenndi sér sjálfur og er mjög klár. Hann er að skríða inn á gelgjuna og er oftast frekar fúll en þegar við spilum saman á gítar ljómar hann allur. Um daginn fór ég með gítar sem er til hér á heimilinu og kenndi honum að spila Yesterday, og svo kenndi hann mér nokkur lög, það var sko ekki leiðinlegt.

Svo er líka gaman frá því segja að í barokkhópnum mínum tókum við upp geisladisk/dvd-disk á laugardaginn. Við fengum inni í nunnuklaustri eftir að stjórnandinn hafði mætt í jakkafötunum og smjaðrað fyrir abbadísinni og logið að við værum jesúítar sem værum að gefa út disk fyrir fátæk börn (ef þær bara vissu að meirihlutinn af meðlimunum er syndugir kynvillingar og restin litlu betri). Þetta var einn heitasti dagur sumarsins en við vorum sem betur fer inni í kirkjunni allan daginn, með ekkert til að trufla okkur nema nokkrar flóttalegar nunnur sem tipluðu um á tánum. Þetta eru svona svart og hvítklæddar mörgæsanunnur sem mega ekki líta framan í nokkurn mann (nema hvora aðra og prestinn) og fara ekki út úr klaustri. Þess vegna var systirin sem tók á móti okkur náföl í framan og horfði í barm sér allan tímann. Hún var örugglega yngri en ég.

Upptakan gekk ágætlega, miðað við að hópurinn er ekki pró og fæstir lesa einu sinni nótur, en þetta var strembið, sérstaklega þar sem þetta var líka myndbandsupptaka og við þurftum að vera fín og sæt allan tímann. Ég var orðin frekar tætt undir lokin held ég, og allur vindur úr mér eftir að hafa blásið í rör allan daginn.

Nú er bara að mastera og svo munum við selja villt og galið. Diskurinn mun kosta tæpan sex hundruð kall íslenskan svo ég býst við að allir sem ég þekki vilji tryggja sér eintak. Ég tek við pöntunum og peningi inn á heimabankann og kem með diskinn heim, nó djók. En leyfum honum að koma út fyrst, samt.

Jæja, háttatími, klukkan miðnætti hér og þrjú um nótt heima á Íslandi. Sendi mínar bestu kveðjur og lofa að skrifa fljótt aftur.

miðvikudagur, janúar 28, 2009

"Er komið gleðilegt nýtt ár?"*

Jújú, hér er ég enn, og með örfáar myndir af áramótunum og ferðalagi mínu til Suður-Chile og Argentínu. Kannski nokkur orð með til að bragðbæta þær.


*Fyrirsögn í boði Evu Maríu


Má ég kynna einn meðleigjandann hér í íbúðinni. Þetta er hún Tabata sem ég bý með. Hún er hárlaus greyið og gengur því stundum með hárkollu. Ég kynntist henni fyrst þegar ég þurfti að ná í eitthvað inn í geymslu og rakst á eitthvað sem ég hélt í nokkrar hræðilegar sekúndur að væri mannshöfuð. Henni finnst ægilega gaman í feluleik og felur sig á ótrúlegustu stöðum þar sem maður á síst von á henni. Ég hef fundið hana í rúminu mínu, ofan á klósettinu, úti á gangi þegar ég vakna og inni í skáp, innanum hveiti og pasta. Í hefndarskyni hef ég til dæmis falið hana inni í ísskáp (þýsku stelpunni sem flutti inn þann daginn til mikils hryllings), og svo leyfði ég henni að tróna á toppi jólatrésins í nokkra daga. Alltaf starir hún á mann þessum freðýsuaugum og er sérstaklega óhugguleg án hársins. Rodrigo hefur tekið einhverju furðulegu ástfóstrivið hana og hún hefur meira að segja farið í sund með fjölskyldunni hans og á sér eigin facebook-grúppu.Við Eva María og vinir hennar frá Tyrklandi og Spáni fórum til Valparaíso á gamlárskvöld, eins og að því er virðist allir aðrir, enda er þar áramótapartí alls landsins, ef ekki álfunnar. Það var alls ekki leiðinlegt. Við keyptum helling af búsi og sushi og vorum með pikknikk útí almenningsgarði með löggurnar allt í kring.


Svo fundum við fína hatta og þessi forláta rör með Magnúsi Scheving á þeim, sem okkur fannst skemmtilegt að flagga í áramótapartíunum hjá Nico vini mínum og Jesúsi bróður hans.


Svo fórum við Eva í ferðalag. Í þjóðgarðinum Huerquehue (vuer-KE-vue) í svona 9 tíma fjarlægð frá Santiago fórum við í "örlítinn labbitúr" þar sem var fagurt um að litast.


Á eyjunni Chiloé rættist draumur okkar um að sjá mörgæsir í sínu náttúrulega umhverfi. Hér erum við ofurhressar á leiðinni í mörgæsatúrinn.


Hér eru svo ofurhressar mörgæsirnar.Á afmælisdaginn minn vorum við í borginni Valdivia við bakka þriggja áa sem renna út í haf. Við fórum á milli eyja og þorpa með ferjum og átum og drukkum á þorpshátíðum. Hér er ég að drekka epla-chicha.


Þetta er "curanto", skelfiskur, kjöt, pylsur og fleira allt eldað í stórri holu í jörðinni, týpískur matur frá Suður-Chile.


Af öllum þeim stöðum sem við fórum á var El Bolsón í Argentínu held ég eftirminnilegastur. Þetta er lítill bær umkringdur af himinháum fjöllum þar sem hafa safnast saman hippar alls staðar að, frá Evrópu jafnt sem Suður-Ameríku. Þarna búa þeir saman, auðvitað í mikilli sátt og samlyndi og samhljómi. Á aðaltorginu er skemmtilegur hippamarkaður þar sem heimatilbúinn bjór í allskyns bragðtegundum er seldur í plastglösum (ég fékk mér hindberjabjór), hljómsveitir spila og maður gerir lítið annað en sitja á grasinu, slappa af, fylgjast með fjölskrúðugu mannlífinu og láta bjóða sér speltbollur eða hindber með rjóma. Í kringum mann vappa skítugir hundar og jafnskítug berfætt hippabörn á meðan foreldrar þeirra sitja með gítar í bláum skugga. Bærinn er yfirlýstur "kjarnorkulaus bær" eins og þetta skilti gefur til kynna:Síðasti bærinn sem við fórum til, San Martín de los Andes, var helst til mikill túristabær fyrir okkur og verðin eftir því, svo að í stað þess að borga morðfjár fyrir hótel (því öll hostelin voru uppfull) leigðum við okkur þennan fína Renault Kangoo og keyrðum í klukkutíma eftir sólsetur út að vatni þar sem við fundum tjaldstæði, lögðum bílnum og horfðum á stjörnurnar. Stjörnuhiminninn var ótrúlegur, ég held við höfum séð 6 gervitungl og 2 stjörnuhröp, og ég hef aldrei séð Vetrarbrautina svona greinilega áður. Hér er Eva í bílnum þegar við vorum búnar að breyta honum í rúm:


En nú er ferðalagið búið, Eva farin til Argentínu þar sem hún býr hjá vinkonu minni í Buenos Aires og ég er að byrja í nýju vinnunni sem gengur út á að þýða bíómyndir í gegnum internebbann. Svo er það mastersritgerðin og barokkið og söngtímarnir og kórinn og pilates og sjálfboðastarfið, svo mér ætti ekkert að leiðast. Svo fer tími á hverjum degi í að lesa sig í gegnum nýjustu stórfréttirnar frá litla landinu, það er varla vinnufriður fyrir þeim. Keep 'em coming!
Góðar stundir.

laugardagur, desember 27, 2008

Jól í Chile

Litlu frænkur mínar sendu mér jólabréf og spurðu mig hvort það væru líka jól í Chile. Þetta er svar handa þeim og fleiri sem kynnu að spyrja sig að þessu sama. Jú, það eru sko jól í Chile. Meira að segja mjög gleðileg jól. Ég er búin að lifa í vellystingum núna yfir jóladagana enda er fólk mjög hugulsamt og lætur mann ekki vera einan yfir hátíðirnar. Á Þorláksmessu keypti ég allar jólagjafirnar, þar sem þá fyrst áttaði ég mig á því að ég fengi líklega slatta af gjöfum og þyrfti að hafa eitthvað til að gefa á móti. Þeim innkaupum var hespað af á einu síðdegi í verslunarmiðstöð, og þær eru alveg jafnóþolandi vítisholur og heima þetta korter fyrir jól. Munurinn er sá að hérna er miðbærinn jafnvel enn viðbjóðslegri, troðfullur af fólki og steikjandi hiti, enda er 30-33 stiga hiti á hverjum degi í desember. Í verslunarmiðstöðvunum er í það minnsta loftkæling - og svolítið annað sem fékk mig til að skella upp úr svo fólk horfði á mig eins og geimveru þar sem ég stóð og káfaði á gerfifroðusnjónum sem spýttist út úr hávaðasamri vél og féll til jarðar ofan á plasthreindýr og gervisnjókalla og börn sem hafa aldrei séð alvöru snjó nema í bíómyndum. Hér er það jólasveinninn sem kemur með gjafirnar, en maður vorkennir honum þegar maður sér hann sitja niðri í bæ í fullum skrúða, skeggjaðan og kófsveittan.

Á aðfangadag hafði ég það mjög rólegt, kíkti í heimsókn með jólagjafir og tók um þrjúleytið (18 að íslenskum tíma) fram eina malt sem mamma hafði komið með handa mér og blandaði henni í óskilgreint chileískt appelsínujukk svo úr varð nokkurs konar jólaöl með bleikri froðu. Svo át ég pastasalat úr dollu og hugsaði heim. Það var góð stund. Mér var boðið að vera hjá Rodrigo, sem ég bý með, og fjölskyldunni hans á jólunum og þangað fórum við á aðfangadagskvöld, þó auðvitað ekki fyrr en klukkan 22, því hér gerist allt seint. Með kom líka kærastinn, C. (mamma R. veit að hann er gei en ekki pabbinn, svo hann var þarna sem "ofsalega góði vinurinn") og þýska stelpan sem er nýflutt hingað og hafði engan stað til að fara á yfir jólin. Við borðuðum kvöldmat um ellefuleytið, dásamlega góðan kalkún, og drukkum rauðvín og pisco, og um miðnætti kom fleira fólk og gjafirnar voru opnaðar, eins og hefðin segir til um. Jólasveinninn kemur nefnilega með gjafirnar á miðnætti og þá hlaupa krakkarnir út á götu til að leita að honum (á meðan hlaupa aðstoðarmenn jólasveinsins með gjafirnar inní stofu). Ég fékk alveg fullt af góðum gjöfum, bók (Vetrarsól), disk (Tómas R.) og DVD (Rokk í Reykjavík) frá Íslandi (takk fyrir það) og m.a. áritaðan penna með nafninu mínu (Lilja), sem mér þótti mjög vænt um. Ég tók eftir því að ég var sú eina sem fékk bók. Ekki skrýtið, enda bækur rándýrar hér.
Svo drukkum við meira, viskí og kampavínspúns og borðuðum drottningarhandlegg ("brazo de reina") sem er kaka, lík jóladrumbinum franska. Við drukkum líka apaskott ("cola de mono") sem er aðaljóladrykkurinn hér, gerður úr kaffi, kryddaðri mjólk, áfengi og sykri, og er borið fram ískalt í stórum mjólkurglösum. Mjög gott. Veislan varð eftir því sem leið á nóttina heljar partí þar sem við dönsuðum salsa úti á götu með nágrönnunum og veifuðum á eftir jólasveininum sem hjólaði fram hjá klukkan þrjú um nótt. Allir í fjölskyldunni voru svo glaðir eitthvað, og almennilegr við okkur gringurnar, svo við vorum alveg himinsælar þegar við fórum heim um fjögurleytið um nóttina.

Jóladagur var ekki verri, gott ef ekki bara ennþá betri. Okkur var boðið heim til eldri systur R. sem býr alveg upp við Andesfjöllin í fallegu húsi með sundlaug. Þar var stjanað við okkur allan daginn, sem leið hjá í sólbaði, sundi, áti og drykkju allt fram á kvöld, þá fórum við í bíltúr til að skoða útsýnið yfir Santiago þarna ofan af hæðinni, sem var magnað.
Okkur var færð tölva með interneti og vefmyndavél út í garð og þar hringdi ég heim í pabba og mömmu og sýndi þeim sundlaugina og garðinn og fólkið og sólina, það var frábært. Svo sýndi ég viðstöddum myndir af jóladegi 2007 þar sem ég bjó til snjókall. Það fannst þeim eðlilega stórfurðulegt, vön jóladegi á sundlaugarbakkanum, að drekka romm í kók úr blómavasa (grínlaust). Þessi dagur er tvímælalaust kandídat í keppni um bestu daga ævi minnar, ásamt deginum í júlí sl. þegar ég heimsótti Felix SOS-barn í Bólivíu.Í gær var mér boðið í mat til vinar sem sjálfur getur ekki verið hjá fjölskyldunni um jólin (frekar en síðustu sex mánuði) vegna þess að hún vill ekkert með hann hafa eftir að hann kom út úr skápnum, svo við erum soldið búin að passa hvort annað þessa dagana. Mín útlegð er þó sjálfsköpuð; ég gæti ekki til þess hugsað að fjölskyldan myndi útskúfa mér svona algjörlega. En hann tekur þessu með kaldhæðninni: "Þetta er fínt, ég spara fullt af pening í gjafir."

Í kvöld er afmæli hjá Gabriel vini mínum, og hann hringdi í mig í morgun til að fá uppskrift af túnfisksalati. Ég gerði það um daginn þegar ég hélt jólaboð handa vinunum og hann og aðrir héldu ekki vatni yfir því.
Nú er ég samt mest spennt yfir því að á morgun kemur hún Eva María skröltandi í rútu yfir fjallgarðinn frá Mendoza í Argentínu. Hún er búin að vera að þræða sig í gegnum Íberóameríku allt frá bankahruni og ætlar að vera hjá mér í Chile um áramótin, eitthvað sem við erum búnar að vera að plana í hátt í ár. Við förum til Valparaíso þar sem er stanslaust partí frá því í gær og fjörutíu kílómetrar af flugeldasýningu klukkan tólf á miðnætti. Vúhúúú! Svo ferðalag suður á bóginn í örlítið svalara veður. Það er því margt að hlakka til. Ég vona að heima á Íslandi hafi allir það gott, ég hugsa mikið heim en líður vel hér í sólinni.
Sendi mínar allra bestu jóla- og nýárskveðjur heim til fjölskyldu og vina,
Svanhvít Lilja

föstudagur, desember 12, 2008

Hvar er ljóskan?Níunda sinfónía Beethovens flutt af 100 manna kór og hljómsveit 10. desember 2008.

Sama dag kom Madonna fram í fyrsta skipti í Chile. Það hljómar líklega ekki mjög krassandi en er líklega viðburður ársins. Madonna er nefnilega táknmynd frelsisins í hugum fólks hérna, því að tónlistin hennar var bönnuð á einræðistímanum og enn, m.a.s. í blaðinu í dag skrifa reiðir kardinálar og halda ræður um syndsamlegt athæfi hennar. Rodrigo sagði mér frá einu öndergrándplötubúðinni þar sem hægt var að fá plöturnar hennar á Pinochet-tímanum; þar voru plöturnar hennar auglýstar leynilega með skilti útí glugga: "sendingin er komin". Svo stalst R. útí búð með pening sem mamma hans hafði látið hann fá fyrir skólabók og keypti sér "Like a virgin".

Madonna táknar því frelsi, kynfrelsi, gay-frelsi. Það hefur ekki verið talað um annað og 70.000 manns voru á tónleikunum í gær og annað eins í dag. Þegar hún steig því loksins á svið hér í gær var því víða grátið. R. og kærastinn voru í metra fjarlægð og hágrétu.

Þess vegna er mjög athyglisverð tilviljun (?) að tónleikarnir lentu á dánardægri Pinochets, sem lést fyrir tveimur árum. Enn eru margir sem halda upp á þann dag, en önnur tilviljun er að sami dagur er Alþjóða mannréttindadagurinn, og Bachelet forseti opnaði safn í útrýmingarbúðum frá tíð Pinochets í minningu allra sem hann lét drepa. Gærdagurinn var því frekar merkilegur í hugum margra. Og þannig er nú það.

Uppfært: Meira að segja mbl.is fann sig knúið til að þýða þetta úr ammrískum miðlum

þriðjudagur, desember 09, 2008

Það er löngu kominn tími á hljóð úr horni, og frá nógu að segja. Í fyrsta lagi: Ég er búin að ákveða að vera lengur í Chile. Ekki til frambúðar, sko, bara bíða þar til vorar og hægist aðeins um á norðurhveli. Ég sé bara engan tilgang í að fara sjálfviljug úr sumari og hita og gleði og tónlist yfir í volæði og myrkur og kulda. Ég þarf að skrifa mastersritgerð, hún getur skrifað sig hér eins og annars staðar, og ég eyði minni pening á meðan. Svo var ég að fá vinnu, í stíl við það sem ég hef áður gert: að þýða bíómyndir fyrir DVD-diska úr ensku yfir á íslensku. Þessi vinna fer öll fram í gegnum netið, svo ég verð í Chile að vinna fyrir ítalskt/ammrískt fyrirtæki með aðsetur á Indlandi við að þýða yfir á íslensku. Lifi hnattvæðingin!
Þetta um plönin mín næstu mánuði. Ég vona að þetta taki ekkert voðalega á þá sem heima sitja, en þetta þýðir bara að það er einum færri munnur að metta í þjóðarfjölskyldunni, svo hinir ættu að fá meira, ræt? ræt? Höfum það.

Nú það sem drifið hefur á daga mína. Fyrst er kannski að nefna svaðilför mína í gær. Ég var komin með upp í kok af íbúðinni og borginni og menguninni og í gær var frídagur svo ég fór (enginn nennti með mér) til Cajón del Maipo, sem er þjóðgarður/útivistarsvæði hérna nálægt Santiago. Þar ætlaði ég að dúlla mér og skoða foss sem hægt var að komast að með 30 mín. léttu labbi. Þegar ég var svo að vandræðast með hvar ég ætti að fara út úr rútunni (þekkti ekki svæðið) spyr fólk við hliðina á mér hvert ég sé að fara. Ég segist ætla að skoða fossinn. Þau spyrja "þennan þar sem maður fer meðfram ánni?" og þar sem ég vissi ekki betur en maður þyrfti alltaf að fara meðfram á til að komast að fossi, og hafði bara heyrt um þennan eina foss þarna á svæðinu, sagði ég já. Þau spurðu þá hvort ég vildi ekki verða samferða þeim og ég var til í það. Þetta var par með tíu ára stelpu sem var dóttir konunnar. Fljótt sá ég hvað þau voru ofboðslega ólíkt par, hann náttúrubarn með kíki og vaðskó og hún í semelíusteinasandölum með tommulangar gervineglur og hugsaði mest um hvar hún gæti keypt sígarettur.

Það var enginn sunnudagsgöngutúr að komast að þessum fossi því að til þess þurfti að vaða nokkuð straumharða á mörgum sinnum. Á leiðinni upp var þetta reyndar frekar skemmtilegt, ég var blaut upp að maga en það var allt í lagi, taskan mín með símanum og myndavélinni var þurr. Kærastan fór þó fljótt að nöldra í mér: "Ég sagði honum að við hefðum ekki átt að koma hingað með stelpuna". Þó var það hún sem átti langerfiðast með þetta, á meðan sú litla skoppaði á milli steina og árbakka eins og hafmeyja á spítti. Þegar við komum loksins að fossinum eftir meira en klukkutíma puð datt andlitið af náttúrubarninu. Hann hafði oft gengið að þessum fossi en nú var hann ekki neitt neitt. Veturinn hafði greinilega verið harður þarna í fjöllunum og breytt árfarveginum svo risastórt grjót sem hafði myndað fossinn hafði dottið niður svo nú var þetta kannski tveggja metra fall. En ég sá risastóran kondór með hvítan haus flögra þarna yfir, og nóg af ogguponsulitlum kólibrífuglum.
Það var svo leiðin til baka sem var snúnari, meira vatn í ánni eftir því sem leið á síðdegið, svo að erfiðara var að fara yfir hana. Mér tókst auðvitað að detta ofan í ána með tösku og allt, síminn og myndavélin eru í gjörgæslu. Eftir það urðum við kvenfólkið aðeins skelkaðri og virkilega fór að sjóða upp úr hjá sárfættri kærustunni þegar stelpan datt næstum líka. Sú stutta var sú langhugrakkasta, það var ekki fyrr en þegar mamma hennar stóð grenjandi og öskrandi af reiði föst með fótinn úti í miðri á sem að hún fór að kjökra, en var fljót að ná sér. Svo grínuðumst við tvær bara með þetta þegar við vorum loksins komnar upp úr ánni og fengum okkur kirsuber og súrar plómur af trjánum. Við vorum auðvitað blaut frá toppi til táar en ég var ekki með nein aukaföt svo ég fékk nokkur undarleg augnatillit, líka þegar ég fór og keypti mér kjúkling með blautum peningaseðli áður en ég skreið upp í rúm í náttfötunum.

Þetta var gærdagurinn, óvænt ævintýri, en skemmtilegt, og ég lifði af, svo sjáum við til með síma og myndavél.

Annars er ég búin í háskólanum og þar með komin í sumar/jólafrí. Það er ennþá nóg af kóræfingum, í dag generalprufa fyrir níundu sinfóníuna sem verður flutt á morgun: þrír kórar og hljómsveit í stjórn frábærs stjórnanda. Eitthvað annað en hurðarhúnninn sem stjórnar kórnum sem ég syng í, en ég er nú líka mjög vandlát á kórstjóra.

Ég er hins vegar mjög ánægð með stjórnandann í barokkgrúppunni minni, sem er einhver sá skemmtilegasti félagsskapur sem ég hef lent í. Við erum að reyna að koma okkur á framfæri útum allt og erum að leita okkur að alvöru barokkbúningum, svona með púffermum og karlasokkabuxum. Það besta við þessa grúppu er að hún er laus við allt snobb og leiðindi, en venjulega skiptist fólk í kórum hér í tvennt eftir því hvort það hefur lært tónlist eða ekki (hér er hægt að fara í háskóla og læra tónlist þótt maður hafi ekkert lært áður, ólíkt Íslandi). Snobbið og hrokinn er því á pari við ákveðnar klíkur tónlistarmanna á Íslandi, en í grúppunni sem ég er í eru fæstir lærðir, og bara sumir í tónlistarnámi, svo enginn þykist vera meira en hann er og allir eru til í að taka leiðsögn. Það gerir það auðvitað líka að verkum að allt gengur hægar, en þá verða líka allir mun ánægðari þegar allt kemur saman að lokum. Þá verðum við öll voðalega sentímental og tölum um tónlistina og hvernig hún spilar á strengi hjartans og bla. Það er kannski bara betra að ég sé ekkert að koma heim, ég er orðin svo hrikalega væmin að það nær ekki nokkurri átt. Kyssi og knúsa og segi vinunum hvað ég meti vináttu okkar mikils. Er hrædd um að það færi ekki vel í Íslendingana, nema eitthvað mikið hafi breyst í hugarfarinu eftir hrun. Ég les hér og þar á netinu að eitthvað sé komið sem heitir Nýja-Ísland en mér heyrist það vera frekar svipað og hið gamla. Ég væri alveg til í að innleiða í þetta nýja að vinir heilsuðust með kossi á kinn. Það er ótrúlegt hvað það gerir fyrir sálartetrið. Ég man að fyrir svona rúmu ári á Íslandi hafði ég verið eitthvað döpur í einhvern tíma og fór þá að rifja upp að ég hafði ekki snert aðra manneskju í tvo mánuði, nema kannski stöku handaband. Ekki furða að maður hafi verið þungur. Þessi stubbaknús sem bloggarar hafa víst verið að senda á milli sín gera ekkert gagn nema þau séu gefin í kjötheimum.

Nei nú er komið nóg. Segi seinna frá rest, sem er t.d. sjálfboðastarfið mitt.
Góðar stundir.

miðvikudagur, nóvember 19, 2008

Svimi svitabað

Það er svo heitt hérna að það er erfitt að syngja. Það er bara eins og hitinn standi í hálsinum á manni og meini níundu sinfóníunni útgöngu úr kverkunum. Það leiðir til svima sem er hvimleiður í slagtogi við svitann og sólbrunann.
Það var ágætt í vetur að smokra sér inn í hlýjan metró troðfullan af fólki í bólstruðum vetrarfötum sem gerðu það þægilegra, eða í það minnsta þolanlegra, að híma þarna í sardínudósinni þar til á áfangastað. Nú er hitinn í kringum þrjátíu gráður upp á hvern dag og fólk klæðir sig eftir því, svo nú þarf maður að gera sér að góðu svita ókunnugra til viðbótar við sinn eigin, þvala handleggi, blauta krika og aukið skorugláp.

Ég ætla samt ekki að kvarta meira yfir hitanum enda veit ég að flestir sem lesa þetta eru á Íslandi. 'Nuff said.

Ég á bara eftir að skrifa eina ritgerð og þá er ég komin í sumarfrí, eða réttara sagt búin með námið mitt hérna, eins ótrúlega og það hljómar. Er að lauma mér út úr Mozart-kórnum með öllum gamlingjunum og að sögn vinar míns þar hata þeir mig allir núna. Þetta er mikill prófsteinn fyrir mig þar sem ég er alltof vön því að vilja endalaust þóknast öllum til að fólki líki vel við mig. Það var bara komið meira en nóg af þessum kór. Altinn lagði allt traust á mig og fór í fýlu og neitaði að syngja ef ég var ekki á æfingu, við erum búin að vera með sama prógramm síðan ég byrjaði og ennþá er það ekki nógu gott, kórstjórnin er ekki eins og ég vildi hafa hana og svo er það sá áttræði sem lætur mig ekki í friði og hefur gefið mér efni í ágætis kynferðisáreitniskæru væri ég í svoleiðis stuði.

Ég hef heimildir fyrir því að einhverjir sakni sápunnar sem hér var svo áberandi fyrri hluta árs. Hér í húsinu hafa hlutir róast alltof mikið, allir komnir á fast eða eru bara ofsalega slappir (mikið voðalega eru evrópskir strákar óspennandi - algjörlega gerilsneyddir). Það sem hefur þó komið í staðinn og stendur hinni upprunalegu sápu fyllilega snúning er spinoff-hommasápa í léttum dúr, þó með dramatískum undirtóni.

Nú er staðan nefnilega þannig að ég á næstum því bara samykynhneigða vini. Þetta skrifaði ég 28. ágúst sl.:

Já, eitt enn, á síðustu vikum hef ég komist að því að langflestir vinir mínir frá Chile eru samkynhneigðir. Ekki orð um það meir núna, kemur seinna. Enda kemur einhver nýr út fyrir mér á hverjum degi eða því sem næst, svo ómögulegt að segja hvað þeir verða orðnir margir í næstu færslu.


Síðan þá hafa að minnsta kosti þrír í viðbót komið út úr skápnum, og margir skotið upp kollinum sem ég hafði ekki hugmynd um að væri gay, strákar og stelpur.
Það er varla að ég nenni að fara nánar í saumana á þessari sápu því að hún er svo flókin og krosstengsl svo mikil að slagar upp í þessa hér gæja.

Í staðinn hendi ég inn mynd af okkur öllum saman, í barokkhópnum okkar. Á morgun höldum við tónleika í stúlknaskóla með nunnum og öllu, og flytjum Magnificat eftir Buxtehude (við spilum fiðlupartinn með blokkflautum).

föstudagur, nóvember 14, 2008

Örljóð um ástandið í anda stórskáldsins Orra Tómassonar
Ást - andið


Til hughreystingar hræddri þjóð eru hér nokkrar stemmningsmyndir úr borginni La Serena og Elqui-dal, sem við Þura og fylgisveinn könnuðum í október. Þar drýpur pisco (þjóðardrykkurinn) af hverju strái, höfugur blómailmur liggur í loftinu og trén svigna af papaya, fíkjum og avókadó. Þarna eru kjöraðstæður fyrir stjörnuskoðun og mikil kosmísk orka svo dalurinn er fullur af hippum og samyrkjubúum.

Copihue, þjóðarblóm Chile
Hér sér fólk kanínuna í tunglinu en ekki karlinn í tunglinu. Hún sést ágætlega á þessari mynd. Tekið í stjörnuskoðunarferð, hin myndin er tekin í gegnum sjónauka.

sunnudagur, október 26, 2008

Í dag eru sveitarstjórnarkosningar í Chile. Það er ekkert grín, og mikill einræðistímafnykur af regluverkinu öllu.

Kerfið er þannig að skrái maður sig einu sinni á kjörskrá ber manni skylda til að kjósa í hverjum kosningum, og þarf þá að fara til föðurhúsanna til að kjósa, eins og Jósep í Betlehem í manntalinu fræga. Vinur minn þarf til dæmis að bruna í sex klukkutíma ferð heim til La Serena af því hann er á kjörskrá. Geri hann það ekki fær hann feita sekt. Allt í lagi með það, svona er þetta víst í mörgum löndum. Fólk ræður allavega hvort það skráir sig eða ekki (nema ríkisstarfsmenn, þeir verða að vera á kjörskrá, annars fá þeir ekki vinnuna).
Öll framkvæmdin er hins vegar mjög í anda Pinochet. Í gær (laugardag) og í dag voru allar ríkisbyggingar lokaðar vegna undirbúnings fyrir kosningarnar í dag (það var til dæmis ekki kóræfing því við æfum í herskóla) og kjósendum er skipt í konur og karla. Konurnar fara þá t.d. í stúlknaskóla til að kjósa og karlarnir í strákaskóla.
En það voru ekki bara ríkisbyggingar sem voru lokaðar því að allar búðir lokuðu snemma í gær og það er bannað að selja áfengi seinnipart dags og í dag (ekki má fólk fara fullt að kjósa). Í dag eru allar búðir og verslunarmiðstöðvar lokaðar til að þær dragi ekki athyglina frá kosningunum (mollin eru annars ALLTAF opin) og það er beinlínis ekkert hægt að gera. Það tekur víst líka alveg hræðilega langan tíma að kjósa svo maður gerir víst ekki mikið annað þann daginn.

Allt þetta, og sú staðreynd að sama fólkið er í framboði aftur og aftur fyrir sömu flokkana, og ekkert breytist, veldur því að næstum engir af vinum mínum kjósa, jafnvel þeir allra pólitískustu. Sjá bara ekki tilganginn.

Þetta er því jafnvel dauðari dagur en föstudagurinn langi á Íslandi - en sem betur fer keyptu meðleigjendurnir ógrynnin öll af mat í gær til að grilla í dag, svo við sveltum ekki. ¡Viva la carne!

mánudagur, október 20, 2008

Þá er Þura farin en glettilega stutt þangað til að mánaðamótin koma og með þeim pabbi og mamma. Þau láta það ekkert á sig fá að allt sé í kaldakolum og ætla að skvera þrjár heimsálfur á uppsprengdu gengi til að heimsækja ástkæra dóttur sína í útlegð.

Það var dásamlegt að fá Þuru hingað þótt stutt væri. Ætli hápunkturinn hafi ekki verið þegar við ruddumst inn í hóp af salsadansandi eldri borgurum á aðaltorginu í La Serena og trylltum pleisið. Við vissum ekki fyrr en í kringum okkur var kominn hringur af klappandi gamlingjum sem við dönsuðum okkur eins laumulega og við gátum út úr. Eins og við sögðum á eftir lengdum við líf hvers og eins líklega um nokkrar mínútur.

Annað gamlingjapartí var 35 ára afmæli Mozart-kórsins míns, þar sem eldri borgarar eru í meirihluta (enda ennþá nokkrir stofnfélagar í kórnum). Þessi kór á merkilega langa sögu ef tekið er mið af aðstæðum í landinu. Ef reiknað er til baka má sjá að kórinn var stofnaður í október árið 1973, aðeins mánuði eftir valdarán hersins 11. september, svo aðstæðurnar voru vægast sagt slæmar, enda einmitt þess vegna sem fólkið vildi koma saman og syngja, til að fá ofurlítið ljós í tilveruna. Það var þó hægara sagt en gert því að mannsöfnuður fleiri en fjögurra var bannaður til að berja niður allar mögulegar andspyrnuhreyfingar. Því ruddist herforingi með hóp vopnaðra manna inn á fyrstu kóræfinguna og krafðist þess að vita hvað væri í gangi. Þau sögðu sem var, að þetta væri kór, og þá skipaði herforinginn þeim að syngja. Þau sungu einhverja Avemaríu og kauði varð að viðurkenna að þetta væri líklega kór. Þrátt fyrir það fékk kórinn publikum á hverri æfingu í nokkrar vikur á eftir, hermenn sem sátu fýldir úti í horni og hlustuðu.

Í dag voru semsagt afmælistónleikar þessa kórs og þar sungum við sirkabát öll lög sem kórinn kann, því það tekur langan tíma að æfa upp hvert lag þegar meðalaldurinn í kórnum er yfir sextugt. Hitt númerið á tónleikunum var elsku barokkhópurinn minn, þar sem ég spila á flautu. Það tók á að spila heilt prógramm, skipta svo um kjól og syngja svo á fullu blasti annað prógramm til að reyna að yfirgnæfa villurnar hjá gömlu konunum. Ég er ennþá að jafna mig. Set kannski inn vídjó þegar þau detta inn á jútjúb.

Rétt áðan streymdu að fjórir vælandi brunabílar og lögðu hérna beint fyrir neðan svefnherbergisgluggann minn. Þá hafði kviknað í í næsta húsi. Virðist samt sem betur fer ekki hafa verið alvarlegt. En það ekkert miðað við það sem við urðum vitni að með barokkhópnum í gær þegar við vorum að æfa fyrir tónleikana.
Þá varð slys á hraðbrautinni beint fyrir neðan háhýsið þar sem við vorum að æfa heima hjá stjórnandanum. Risastór gámabíll ætlaði undir brú, en brúin var of lág, svo bíllinn klessti á hana eins og fluga á bílrúðu, og pínulítill Fíat lenti beint undir honum. Fyrir einhverja mikla mildi sluppu bílstjórinn og sonur hans ómeiddir, sem mér finnst lygilegt miðað við aðstæður. Við stóðum þarna uppi á sautjándu hæð og fylgdumst með, löngu búin að telja bílstjórann af. Sáum strákinn þó príla út úr bílnum. Hér er hægt að sjá mynd af þessu, þetta var ansi ótrúleg sjón.

Nú er orðið vel heitt í Santiago svo mér finnst alveg komið nóg um, en þetta er víst ekki einu sinni orðið notalegt ennþá. Eitthvað verða jólin sveitt þetta árið.

Bestu kreppukveðjur til allra (nær og) fjær, lofið mér að Ísland verði þarna ennþá þegar ég kem til baka. Mér er alveg sama þótt það verði ekki jafnmargir landróverar og súkkulaðigosbrunnar og þegar ég fór.

miðvikudagur, október 08, 2008

Rusia

Í maraþongöngutúr sem ég tók mér í gær til að reyna að gleyma... ja, öllu, var kallað á eftir mér: 'RUSIA'

Rusia þýðir Rússland á spænsku, en er líka notað yfir (litaðar) ljóskur.

Mér fannst það óstjórnlega fyndið í ljósi nýliðinna atburða.

þriðjudagur, október 07, 2008

"Nei við erum ekki að fara á hausinn :)))"

(Svar frá þjónustufulltrúa í Landsbankanum 1. október sl.)

Ég hef ekki grænan guðmund um hvert gengið á pesóanum er akkúrat núna, en mér reiknast til að allt hafi hækkað hjá mér um 30% síðan fyrir rúmri viku. Leigan kostar mig 7000 fleiri svona krónur en í sept (ef ég miða við versta gengi, sem er það sem google gefur upp). Ég þigg gjarnan fjármálaaðstoð mér fróðari manna.

Nú er bara að reyna að dreifa huganum, enda ekki hægt að ætlast til þess að fólk hér hafi áhuga á að hlusta á mig kveinka mér yfir að litla skerið mitt, sem það vissi ekki einu sinni að væri til áður en það kynntist mér, sé við það að sökkva í sæ með þjónustufulltrúum og seðlabankastjórum og moggabloggurum og öllu.

Huganum dreifi ég með því að spila á gítar og flautu, fara á kóræfingar og ræktina, og nú er ég farin að taka söngtíma hjá vini mínum, mjög klárum kórstjóra og söngvara. Hann ætlar að losa mig við kórsöngvarakomplexana í röddinni og hjálpa mér með tæknina. Það er alveg ótrúlega gaman.

Svo byrja ég í sjálfboðastarfi í næstu viku. Ég fór á staðinn í morgun. Þetta er heimili þar sem búa tíu 2-11 ára krakkar sem hafa verið teknir frá foreldrum sínum vegna ofbeldis eða annars. Þarna búa þau tímabundið, sum lengur en önnur, á meðan verið er að finna ný heimili eða rétta yfir foreldrunum.

Svo kemur Þura á fimmtudaginn og þá fær Svanhvít að tala íslensku!

En þrátt fyrir allt það sem ég gæti verið að gera get ég ekki hætt að hanga á öppdeittakkanum á fréttasíðunum og naga neglur og reYta hár. Og það þótt ég hvorki eigi neitt né skuldi.

föstudagur, október 03, 2008

Orðræða orð æða ræð orð æð æ æ

Það væri spennandi verkefni í orðræðugreiningu að taka fyrir stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld. Sérstaklega í samanburði við það myndmál sem hefur verið notað um útrás íslensku athafnamannanna og góðærið, já og í samanburði við stefnuræðuna í fyrra*

Eins og Lakoff og Johnson benda á í uppáhaldsbókinni okkar Sigurrósar, Metaphors we live by, notum við myndmál á hverjum degi, oftast án þess að taka eftir því. Bara með því að tala um að "eyða tíma", "vera hátt uppi" eða "hanga á netinu" erum við að notast við myndir sem við yfirfærum á hugsanir okkar, alveg án þess að taka eftir því, þar sem við höfum alist upp við þessar myndir og þennan hugsunarhátt. Það er raunar merkilegt hvað við segjum fátt af því sem við erum að tala um berum orðum.

Þegar umræðuefnið er óþægilegt eykst þessi notkun myndmáls til muna, eins og sjá má af þeim fjölda orðasambanda í íslensku sem merkja dauðsfall (falla frá, kveðja, sofna hinsta svefni, verða allur...), já, og öllum orðunum sem til eru yfir kynfæri karla og kvenna.

Ræða Geirs, svona erfiðlega tímasett en óhjákvæmileg hefðarinnar vegna, var því eðli málsins samkvæmt full af alls kyns myndmáli, sérstaklega úr þremur áttum, siglingamáli, landbúnaði og hernaði.

Geir Hilmar Haarde, sem sjálfur heitir einhverju dónalegasta nafni Íslandssögunnar (hart spjót kóngsins), sótti í ræðunni myndmál sitt að miklu til siglingamáls, líkt og dróttkvæðu skáldin forðum. Þá er þjóðin í hlutverki báts í ólgusjó. Annað myndmál tengt veðri er líka áberandi, t.d.

- Eftir blómlega uppgangstíma er skollið á gjörningaveður í efnahagskerfi heimsins og brimsjórinn af því mikla umróti skellur nú Íslandsströndum af miklu afli.
- íslensku bankarnir, flaggskip útrásar síðustu ára
- Við Íslendingar gefumst ekki upp þótt á móti blási og við munum ekki örvænta eða leggja árar í bát í þeim stjórsjó sem þjóðarskútan siglir nú í gegnum. Við erum öll á sama báti, stjórnvöld, fyrirtækin og fólkið í landinu.
- og þó svo að útlitið sé svart núna þegar við siglum í miðjum storminum...
- og allt bendir til að ástandið eigi eftir að versna áður en við sjáum til lands.
- að lokum munum við sem þjóð og sem einstaklingar á þessu landi sem er okkur svo kært standa af okkur fárviðrið
- Allir vissu að góðærið myndi ekki vara endalaust en enginn sá fyrir þann storm sem skall á sl. vetur og fer nú um efnahagskerfi heimsins með mikilli eyðileggingu.

Næstum jafnalgengt er myndmáls Geirs sem haft er úr landbúnaði. Þá er þjóðinni líkt við fátækan bónda sem þarf að bjarga búi sínu í harðindum:

- uppskeran hefur í mörgum tilvikum verið ríkuleg.
- Þurrausnar lánalindir
- heimsbúskapurinn
- Á sama hátt og við brutumst út úr vesöld og fátækt fyrir áratugum síðan með bjartsýni og baráttuhug að vopni, þá munum við komast útúr þeim hremmingum sem yfir okkur ganga nú.
- Það er til marks um þetta að nýjar tölur um hagvöxt og vöruskiptajöfnuð sýna fram á meiri þrótt í íslenskum þjóðar­búskap en búist var við...
- til að jafnvægi myndist sem fyrst á ný í þjóðarbúinu
- erfiðar ytri aðstæður sem hafa rýrt lífskjör þjóðarinnar
- Hún er sá skaðvaldur sem mestum búsifjum veldur á heimilum almennings og í rekstri fyrirtækja
- Þjóðin veit að í aldanna rás hefur það ævinlega orðið okkur Íslendingum til hjálpar þegar bjátað hefur á að æðrast ekki, heldur bíta á jaxlinn. Við höf­um lært af langri búsetu í harðbýlu landi að orðskrúð og innantómar upp­hrópanir færa ekki björg í bú.

Íslenskan, mál sjómanna og bænda, er full af myndmáli tengdu þessum atvinnugreinum og því ekki að undra að Geir styðjist við það. Hann notar, nafni sínu trúr, þó líka mjög mikið af orðum og orðasamböndum tengdum stríði og hernaði, sem við höfum mun minna haft af að segja allt frá því að Sturlungaöld lauk. Myndmálið lifir þó góðu lífi eins og sjá má:

- íslensku bankarnir, flaggskip útrásar síðustu ára, búa sig nú undir mikla varnarbaráttu.
- þau sem færst hafa of mikið í fang berjast nú í bökkum. Íslensk fyrirtæki hafa á undanförnum árum teflt djarft í sókn sinni
-öflug viðspyrna stjórnvalda víða um heim
- Íslenskir bankar, eins allir aðrir bankar í heiminum, heyja nú mikla varnarbaráttu
- aukinn útflutningur og verðmætasköpun er beitt og öflugt vopn í þeirri erfiðu baráttu sem við heyjum nú við verðbólguna
- það er svo sannarlega undir okkur komið að ráðast gegn henni
- Um leið og árangur næst í þeirri baráttu munu vextir taka að lækka.

Að auki má í ræðunni meðal annars finna andstæðurnar svart-myrkur / hvítt-ljós, sem og eina myndhverfingu sem virðist ættuð úr flugmáli:
- Þegar uppstreymið hættir er fall þeirra sem hæst fljúga mest.
Svo hyggst Geir feta hinn gullna meðalveg Aristótelesar, sem hefði líklega seint verið nefndur í ræðu síðasta árs í sambandi við efnahaginn.

Það er gaman að bera þessa ræðu saman við ræðuna í fyrra, þar sem aðalorðin voru vöxtur, styrkur, tækifæri, mannauður, kraftar, stækkun, aukning, þensla. Það er meira að segja nóg að líta á þá hluta ræðunnar í ár sem ekki fjalla um efnahaginn, og voru líkast til skrifaðir áður en allt fór til fjandans. Þar er varla að það sjái votta fyrir þessu líkingum hlaðna máli þar, heldur er þar að finna ósköp hversdagslegt myndmál eins og það sem við notum á hverjum degi.

Það er ekki auðvelt að koma fram fyrir þjóð á tímum sem þessum og þurfa að stappa stálinu í hana, en mega þó ekki ljúga (að minnsta kosti ekki svo það fattist... strax). Þá er það myndmálið sem kemur svefnlausum og koffíneitruðum forsætisráðherra til bjargar. Það er rammíslenskt, sterkt, karlmannlegt og ævagamalt og bregst aldrei. Það má líka nota til að kaupa tíma á meðan ekki eru komnar lausnir á vandamálunum - en"við gefumst ekki upp þótt á móti blási og við munum ekki örvænta eða leggja árar í bát," nægir þjóðinni þó líklega skammt. Hvað á að gera?


*Ég veit að enginn ætlast til þess að forsætisráðherra sé nein völva og sjái fram í tímann en þetta hljómar óneitanlega ofurlítið kjánaalega núna:
"Flest bendir til að sú þensla sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf á síðustu tveimur til þremur árum sé á undanhaldi og að framundan sé tímabil aukins stöðugleika og meira jafnvægis í þjóðarbúskapnum. Það er mjög af hinu góða jafnvel þótt það þýði minni hagvöxt um hríð en verið hefur undanfarið. Slík aðlögun endurspeglar sveigjanleika og styrk íslenska hagkerfisins, styrk sem birtist í öflugu atvinnulífi, nægum atvinnutækifærum og vaxandi kaupmætti heimilanna, enda eru lífskjör og almenn lífsgæði hér á landi nú með því sem best gerist í heiminum. Nær daglega berast fréttir af auknum umsvifum íslenskra athafnamanna og fyrirtækja víða um heim og á nokkrum sviðum eru íslensk fyrirtæki komin í hóp öflugustu og stærstu fyrirtækja í heimi."

miðvikudagur, október 01, 2008


Já, ég stend mig vel í landkynningunni, milli þess sem ég kvarta yfir veðurfari og verðlagi á landinu bláa sýni ég andfætlingunum youtube-myndbönd af "indversku prinsessunni frá Íslandi". Vinur minn var þó fljótur að svara með "austurlensku tígressunni frá Perú" sem hér má sjá skaka sig. Nú er bara að plana dúett.

---

Í dag gerði ég svolítið sem ég hef alltaf ætlað að gera, þessa sjö mánuði sem ég er búin að dvelja á suðurhveli jarðar. Það má jafnvel segja að það sé hluti ástæðunnar fyrir því að ég kom hingað. Ég hef minnt mig á það af og til en alltaf gleymt því, svo það var ekki fyrr en þegar ég var að vaska upp eftir kvöldmatinn að því laust niður í höfuðið á mér. Bölvað vatnið í klósettinu, ég átti alltaf eftir að fylgjast með því snúast rangsælis. Og viti menn, það gerir það! Mér líður eins og ef það væri til tékklisti yfir líf mitt gæti ég núna sett þar einn flennistóran kross.

---

Það er á við góða sálfræðimeðferð að garga níundu sinfóníuna tvisvar í viku. Tónleikarnir eru 10. desember og ókeypis inn fyrir þá sem vilja koma. Ég skal bjóða í pisco sour á eftir.

---

Leigan mín fyrir október mun kosta mig 27 þúsund íslenskar krónur. Hún var 22 þúsund krónur fyrir september. (Já nema hún hækki ennþá meira í fyrramálið áður en ég kemst í hraðbanka).

---

Þessu tengt: ég er alltaf til í prófarkalestur ef einhverjum vantar (ha ha ha).
Nei, en grínlaust, þá má alltaf senda mér póst á [sli hjá hi.is] skyldi einhvern vanta yfirlestur. Já, eða þýðingu úr ensku eða spænsku.

---

Íbúðin er orðin full af karlmönnum og mikið male-bonding í gangi, sem er tilbreyting frá stelpu (og homma-) flissi daginn út og inn. Hér er ásamt R. og hans ástmanni einn Kani, einn Þjóðverji og einn frá Ekvador. Svo ég og Kelly, föstu stærðirnar hér í húsinu. Ég hef alls ekki haft fyrir því að telja upp alla sem hafa búið hérna enda er varla að ég muni eftir þeim öllum, en þetta eru allt misáhugaverðir Þjóðverjar og Kanar. Ég hef komist að því að ég er með undarlega Þjóðverjafordóma, sem ég kann ekki að útskýra. Held að ég sjái í mörgum þeirra eitthvað sem ég vil ekki sjá í mér en veit að er til staðar.

---

Ég er búin að vera í umsóknarferli um að fá að vinna sjálfboðastarf með börnum. Það er meira mál en ég hélt að fá að vinna ókeypis, ég er búin að standa í viðtölum og sálfræðimati þar sem ég var látin rýna í blekklessur upp á gamla mátann. Ég sá leðurblöku, ætli það þýði að ég sé vond manneskja? Ég sá reyndar líka allt dýraríkið í þessum klessum, allskonar fiska og eðlur og sæhesta og fugla, og svo sitthvað fleira sem ég var ekkert endilega að segja frá, enda ekki vænlegt til að fá sálfræðingana til að hleypa mér nálægt börnum.

---

Ég hafði ekki gert ráð fyrir því fyrirfram að tónlistin myndi skipa svona stóran sess í þessari dvöl minni hérna en það er nú samt svo að langmestur tími minn fer í hana. Ég syng í tveimur kórum og spila á flautu í barokkhóp, er að æfa mig á gítar og fer í fyrsta söngtímann á föstudaginn, sem ég er mjög spennt fyrir. Skólinn er fyrir löngu kominn í annað sætið, enda er það allt í lagi, ég bara í tveimur kúrsum og fæ bara annan þeirra metinn til eininga í HÍ. RICO PAPI!

---

Það verður hrikalegt að fara til Spánar eftir að hafa verið hér, því að spænskan mín er orðin hrikalega chileísk, sem þykir ekki fínt og vart einu sinni skiljanlegt annars staðar.
Í Chile-spænsku sleppir maður 's' aftan af og innan úr flestum orðum, maður skynjar bara essið í ofurlitlu 'h'-hljóði. Baklæg 'd' og 'r' veiklast líka, svo fyrst þegar ég heyrði í Chile-búa tala (á Spáni) skildi ég ekki orð. Svo er sér sagnbeyging í 2. p. et. og brjálæðislega mikið af sér-chileískum orðum, orðasamböndum og slangri, sem ég er komin hættulega vel inn í. Ég er farin að segja "po" og "cachai" á eftir hverri setningu. Ég verð líklega að fara í málhreinsun í Kastilíu eftir þetta, vöggu spænskunnar. Aðallega þá til að fólk skilji mig...
Æ, eða ekki snobba fyrir neinu og tala bara eins og 'flaite' frá Chile. Flaites eru ákveðinn samfélagshópur, nokkurs konar fátækir hnakkar eða trailer trash, hafa eigin orðaforða, stela og slást og allir hata.
Annar hópur sem enginn þolir er 'cuicos', sem eru þeir sem eiga pening, t.d. þeir sem fara í háskólann minn.
Svo eru það pókemonarnir, sem eru strákar og stelpur á aldrinum ca. 14-17 ára, sem dressa sig upp eins og japanskar skólastúlkur eða manga-teiknimynd (þaðan kemur Pokemon-nafnið), stunda meintar orgíur og eru öllum eldri kynslóðum til mikils ama. Þetta eru þeir hópar sem enginn viðurkennir að tilheyra og allir mega tala illa um.

Eitthvað teygðist nú úr þessari færslu um tígrynjuna, svo nú er kominn háttatími, meira að segja hér hjá mér. Góðar stundir.

þriðjudagur, september 16, 2008

Vorið er komið í SantiagoÍ dag var 26 stiga hiti. Það þykir merki um að vorið sé að koma, og þykir svona nokkuð notalegt. Mér fannst það bara frekar heitt.

Það er fallegt í Santiago núna ef maður lítur framhjá loftmenguninni, sem fær liðsauka á þessum árstíma, sem eru frjókornin. Þau gera ofnæmisgemsum mikinn grikk og jafnvel ég er farin að finna fyrir því, sem aldrei hef fengið frjókornaofnæmi. Hér hnerra því menn hver um annan þveran hér í húsinu og annars staðar. Þessu fylgir höfgur blómailmur í allri borginni sem er reyndar mjög indæll.

Ég var að koma úr tíma í tákfræði þar sem við tókum femínískan lestur á Silence of the Lambs, en kennarinn hélt því líka fram að Hannibal Lecter væri nasisti og benti á alls kyns dæmi úr myndinni því til stuðnings. Nú þarf ég að skrifa tíu blaðsíðna ritgerð um myndina Thelma & Loise, sem gengur í meginatriðum út á það að finna nákvæmlega hvað það er sem kennarinn er að fiska eftir, þ.e. hans óhagganlegu hugmyndir um myndina.

Myndin hér fyrir ofan er tekin í aðalkirkjugarðinum í Santiago. Myndirnar fyrir neðan líka. Þetta er risastór kirkjugarður og þar er að finna allar mögulegar tegundir af leiðum og grafhýsum og hólfum og hvelfingum. Ætla að fara með pabba og mömmu þangað ÞEGAR ÞAU KOMA Í NÓVEMBER! Ég er hrikalega spennt yfir því. Líka að Þura og meðreiðarsveinn hennar ætli að koma í október. Já og Eva María og hennar tríó í desember! Húrra!

föstudagur, september 12, 2008

11-S

Það er komið að löngu tímabærum pistli og vel við hæfi að hann sé skrifaður 11. september (sem er ekki enn liðinn þegar ég byrja að skrifa þetta, þótt hann sé það í Evrópu).

Í dag var mikið um mótmæli niðri í bæ og frí var gefið í öllum skólum og mörgum vinnustöðum seinnipart dags til að fólk kæmist öruggt heim til sín þar sem það er hættulegt að vera seint á ferð. Stórmarkaðurinn minn var meira að segja lokaður í dag. Það er mjög algengt að rafmagnið sé tekið af líka þennan dag til að stoppa mesta ofbeldið. Hér heima var búið að taka fram kerti og eldspýtur til öryggis en sem betur fer kom ekki til þess að við yrðum rafmagnslaus.

Í Chile er 11. september nefnilega jafnvel mikilvægari en í Bandaríkjunum. Þennan dag árið 1973, fyrir 35 árum, réðst hershöfðinginn Pinochet inn í Moneda-höllina með liði sínu og steypti sósíalistanum Salvador Allende forseta af stóli. Næstu sautján ár var Pinochet einræðisherra í landinu eða allt til 1989. Allende lést í átökunum þennan dag (ennþá er deilt um hvort hann framdi sjálfsmorð eða var tekinn af lífi) sem og fjölmargir stuðningsmenn hans, m.a. á leikvangi þar sem safnað var saman fjölda fólks sem síðan var tekið af lífi. Þennan dag hófust ofsóknir sem áttu eftir að draga þúsundir manna til dauða og margir sátu í fangelsi fyrir engar sakir og voru pyntaðir. Hundruð þúsunda vinstrimanna flúðu land, til annarra landa S-Ameríku eða Evrópu (t.d. eru um 40.000 manns ættaðir frá Chile í Svíþjóð).

Þegar ég kom hingað komst ég fljótt að því að fólk er ekki mikið fyrir að tala um einræðistímann, og hann kemur reyndar merkilega sjaldan upp í samræðum, miðað við að það eru rétt 19 ár liðin frá því að honum lauk. Fólk er skiljanlega langþreytt á umræðuefninu og vill líta fram á við frekar en til fortíðarinnar. Það er þreytandi fyrir Chilebúa að það eina sem útlendingar vita um landið sé þessi sorglega saga, því það hefur upp á svo margt annað að bjóða. Önnur ástæða fyrir því að fólk talar ekki um þennan tíma er að enn eru skiptar skoðanir og ógróin sár sem betra er að láta vera.

Áður en ég kom til Chile hafði ég lesið þó nokkuð um valdaránið og einræðistímann en það var allt mjög einhliða þar sem í Evrópu heyrir maður söguna aðeins frá sjónarhorni stuðningsmanna Allendes. Ég varð mjög hissa að heyra og sjá alla þá sem enn styðja Pinochet og líta mjög upp til hans. Daginn sem hann dó, árið 2006, var undarlegur dagur í Chile. Fólk skiptist í tvær fylkingar og ýmist fagnaði og skálaði í kampavíni eða syrgði og grét. Hér er myndband sem strákur sem ég kannast við tók þennan dag af fólki sem hyllir Pinochet. Takið eftir nasistakveðjunni.

Eins og allir vita þá er ekkert svart og hvítt í þessum heimi. Þetta segja flestir Chilebúar við mig þegar umræðuefnið ber á góma. Allende hafði hugmyndir sem erfitt var að ímynda sér í framkvæmd svo vel færi. Í landinu var gríðarleg misskipting auðs þegar hann tók við, nokkrar ríkar fjölskyldur áttu allar eignir og fátæku bændurnir sem á landareignum þeirra bjuggu áttu allt sitt undir þeim. Allende tók þessar eignir og úthlutaði þeim alveg upp á nýtt, eftir hugmyndum sósíalismans. Einnig ríkisvæddi hann fjölmörg fyrirtæki, sem og stærstu koparnámurnar (helsta auðlind Chile). Þetta fór eðlilega fyrir brjóstið á þeim sem áður höfðu átt allt. En eins og allt er þetta ekki svona einfalt. Hver hefur sína sögu að segja, eins og einn besti vinur minn hér, sem sagðist bera blendnar tilfinningar í garð Allendes og Pinochets og sagði mér söguna af afa sínum. Sem lítið barn var hann sendur bláfátækur út á götu þegar foreldrar hans dóu, og til að lifa af fór hann að búa til leikföng úr alls kyns spýtukubbum og drasli sem hann fann á götunni. Hann seldi leikföngin fyrir slikk, en þau urðu vinsælli og vinsælli og hann þurfti að gera út önnur börn til að selja þau og búa til. Framleiðslan vatt upp á sig og hann endaði með stóra leikfangaverksmiðju með fjölda manns í vinnu. Það var einmitt þá sem Allende kom og ríkisvæddi verksmiðjuna svo afrakstur erfiðisins fór ekki til afans og fjölskyldu hans. Því fagnaði fjölskyldan því þegar Pinochet kom og "frelsaði" þjóðina. Enginn vissi hins vegar að Pinochet hafði í huga að sitja slímusetur sem einræðisherra í landinu um ókomna tíð. Þetta er bara ein af mörgum slíkum sögum. Aðrir segja svo sögur af horfnum ættmennum sem líklega var dembt beina leið út í Kyrrahaf fyrir eitt að hafa verið sósíalistar.

Ekki má gleyma aðkomu Bandaríkjanna að því að hugmyndir Allendes tókust ekki betur en raun varð. Í Bandaríkjunum stóð stjórnvöldum stuggur af öllu sem hét sósíalismi eða kommúnismi og meint tengsl Allendes og Fidels Castro fengu hárin á Nixon og félögum til að rísa. Litið var á sósíalistastjórn Allendes sem eina mestu ógn sem steðjaði að heiminum á þessum tíma. (Koparnámurnar gróðasömu voru í eigu Bandaríkjamanna sem ætti líka að skýra hluta af andúðinni þar á bæ.) Í það minnsta eru til öruggar sannanir fyrir því að Bandaríkin hafi stuðlað meðvitað að því að veikja stjórn Allendes með viðskiptahömlum og fleiri leiðum, svo fólk leið mikinn matvæla-, vöru- og eldsneytisskort. Hægriflokkarnir sem voru á móti Allende-stjórninni fengu mikinn stuðning frá USA og verkföll sem þeir stóðu fyrir náðu að lama landið. Þannig var Pinochet gert auðveldara fyrir að ná völdum og njóta stuðnings fólksins.

Þetta var svona smá sögustund í tilefni dagsins, og auðvitað skylduskrif bloggara sem skrifar frá Chile. Það hefur verið mjög áhugavert að kynnast mismunandi fólki með mismunandi skoðanir en það hefur líka verið erfitt. Sérstaklega er erfitt að hlusta á einn félaga minn sem er mikill aðdáandi Pinochets og reynir að sannfæra mig um að hann hafi verið hetja en Allende einræðisherra. "Lestu sögu Chile!" segir hann, sem pirrar mig óstjórnlega, því það er sama hvað ég segi, hann getur alltaf sagt að ég viti ekki neitt því ég sé bara gringa sem komi til landsins með einhverjar rómantískar hugmyndir um "skíta-kommúnista", á meðan hann þekki þetta af eigin raun, því auðvitað er hann héðan en ekki ég. Hann getur þó að mínu mati lítið sagt þar sem hann viðurkenndi fyrir mér að hafa verið nýnasisti þegar hann var unglingur (enda afi hans þýskur nasisti sem flúði til Chile í seinna stríði þar sem hann hafði hylmt yfir með vini sínum sem var gyðingur). (Þessi suðurameríski nýnasismi er eitthvað sem ég fæ ómögulega skilið, þ.e. hvað þeim gengur til og hvað þeir þykjast eiginlega vera, sérstaklega þar sem flestir hér eru blanda af frumbyggjum og aðkomufólki, og því frekar langt frá því að vera aríarnir hans Hitlers. En það er önnur saga.)

Mér finnst ennþá erfitt að skilja viðhorf fólks til þessa atburðar sem er enn svo nálægur í sögunni, en ég skil það í það minnsta mun betur en áður en ég kom til landsins. Eftir að hafa heyrt mismunandi sögur fólks skil ég af hverju það vildi sjá breytingar en það er ekki hægt að kenna Allende einum um stöðuna sem upp var komin árið 1973.

Þegar allt kemur til alls eru það þessar fjölskyldusögur sem móta viðhorf hvers og eins, miklu frekar en einhver hægri-vinstri skali getur nokkurn tímann gert. Um þetta efni gæti ég skrifað margt og mikið í viðbót en nú er kominn 12. september og tími til að líta fram á við. Varð ekki vör við ein einustu mótmæli þar sem ég hélt mig fjarri öllum stöðum þar sem þau er vanalega að finna, og rafmagnið er ekki enn farið af, svo allt er líklega með kyrrum kjörum. Ég kveð því að sinni og skríð í bólið.