Sigurvegarar kosninga
Þar sem ég vinn á stað þar sem gott er fyrir stjórnmálamenn að koma sér í mjúkinn hjá starfsmönnum (því annað gæti beinlínis verið hættulegt), hefur talsvert verið um heimsóknir þeirra hingað í Fréttablaðshús, og þeir hafa komið færandi hendi, jafnvel með forláta piparmyntur í mismunandi umbúðum, og hefur þeim verið hampað mjög hér innanhúss.
Mitt innlegg í umræðuna um kosningarnar (þar sem ég er hvort sem er ekki með kosningarétt í borginni), er úttekt á þessum myntum, sem ég held að segi ýmislegt um atgervi framboðslistanna. Þar sem ég fékk þó aðeins myntur frá VG, Framsókn og Sjálfstæðisflokknum hef ég kosið að útskúfa frjálslyndum og Samfylkingunni í þessari umræðu. Samfylkingin fær samt plús fyrir appelsínusafann sem hann lét framleiða í sínu nafni. Mynturnar verða dæmdar eftir áferð, bragði og umbúðum.
Sjálfstæðismyntan:
Myntan frá Sjálfstæðisflokknum var lítil, áferðarfalleg og með skýrar línur. Hún var lúmsk, því fyrst eftir að hafa sett hana upp í sig var bragðið sætt, en svo kom hún aftan að manni með sterku, römmu bragði. Eftir því sem maður saug meira varð hún rammari og beiskari, og deyfði bragðlaukana í munninum, svo maður fann ekki bragð af öðrum mat lengi á eftir. Verst var þó að drekka með henni vatn, því þá ágerðist bragðið svo það sveið.
Umbúðirnar voru blátt hulstur, ekki ósvipað kreditkortahulstrum sem ríkt fólk notar, úr möttu, hálfgegnsæu plasti. Á hulstrinu stóð stórum stöfum XD svo boðskapurinn færi ekki milli mála. Mjög nýtískulegt allt og flott.
Framsóknarmyntan
Framsóknarmyntan var ívið stærri en sjálfstæðismyntan, og langtum bragðdaufari. Það var eins og meginefni hennar væri sykur eða eitthvert sætuefni og hún bráðnaði án þess að veita nokkurt viðnám og var ekkert í líkingu við sjálfstæðismyntuna sem var mun sterkari. Hins vegar var hægt að þræla í sig mun fleiri framsóknarmyntum í röð, því þær rifu ekkert í og sátu bara þarna í boxinu, það var eins og þær væru þarna bara til að vera þarna, og vitneskjan um þær varð til þess að maður át eina af annarri, þar til allt í einu var boxið tómt og maður kominn með illt í magann og sá eftir því að hafa ekki löngu hætt að tína þær í sig.
Boxið já, því umbúðir þessarar myntu voru ekkert slor, heldur skemmtilega einföld hugmynd sem er gömul og ný í bland. Boxið var lítið, kringlótt og hvítlakkað, með merki exBé á lokinu. Það var að sjálfsögðu úr áli, því í hvað annað á svosem að nota allt þetta ál sem flokkurinn vill framleiða? Þegar maður ýtti létt á lokið losnaði um gripið á því svo boxið opnaðist. Svo þurfti ekki annað en þrýsta létt á barmana svo það festist aftur. Nákvæmar leiðbeiningar í myndaformi voru á hlið boxins, en ég get upplýst það að Marsibil kenndi mér sjálf að opna það, og ég sat þarna og sýndi einum of mikinn áhuga (svona eins og maður gerir þegar manni finnst nærvera einhvers óþægileg eða er að reyna að fela andstöðu sína við málefni hans).
Vinstri grænna-myntan
Myntan frá vinstri grænum var ólík hinum því hún var ekki hörð í gegn, heldur hafði aðeins sykurhúð og síðan mjúka miðju. Hún var ögn stærri og kúlulaga. Maður gat valið hvort maður saug hana eða tuggði, og hún hafði mun þægilegra myntubragð en hinar mynturnar, var hæfilega sterk og sæt í bland.
Umbúðirnar voru ekki mjög nýstárlegar því notast var við gamla ópalpakkaformið, lítill kassi úr pappír, eflaust endurvinnanlegum. Utan á var merki vinstri grænna og sumarlegar myndir af grænu grasi og slagorð. Gamaldags hönnun sem eflaust hefur kostað mun minna en hinna listanna.
Af þessum myntum er mynta Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs tvímælalaust sú frambærilegasta, og fær 80% kosningu hjá mér, og 5 menn. Sjálfstæðismyntan kemur þar á eftir, því þótt hún væri aðeins of römm þá býst ég við því að hún þjóni sínu hlutverki, þ.e. að losa mann við andfýlu. Hún fær því 20% kosningu og nær inn einum manni, en framsóknarmyntan rekur lestina, því hún var svo bragðdauf og litlaus í alla staði, þrátt fyrir vel hannaðar umbúðir, að hún náði ekki að heilla mig. Hún vær því 0% kosningu og engan mann.
Og nú er ég búin að skrifa langt mál um ekki neitt, en er það ekki það sem pólitík snýst um?
mánudagur, maí 29, 2006
miðvikudagur, maí 24, 2006
"You have been unsubscribed from the Isl-nem mailing list"
Sorgleg skilaboð sem blöstu við mér þegar ég opnaði póstinn minn í morgun. Ég er ekki lengur íslenskunemi. Ég hef lokið skyldustörfum sem ritari, og ritstýra, ég er búin að skila ritgerðinni og er búin að fá út úr öllum prófum. Ég á bara eftir að útskrifast. Það verður því með tár á hvarmi og bros á vör sem ég tek við skjalinu þann 24. júní, nú er kafla í lífi mínu lokið. Ég vona bara að þeir sem eftir sitja bregðist mér ekki og haldi uppi frábæru félagslífi næsta vetur, á 60. starfsári Mímis.
Sorgleg skilaboð sem blöstu við mér þegar ég opnaði póstinn minn í morgun. Ég er ekki lengur íslenskunemi. Ég hef lokið skyldustörfum sem ritari, og ritstýra, ég er búin að skila ritgerðinni og er búin að fá út úr öllum prófum. Ég á bara eftir að útskrifast. Það verður því með tár á hvarmi og bros á vör sem ég tek við skjalinu þann 24. júní, nú er kafla í lífi mínu lokið. Ég vona bara að þeir sem eftir sitja bregðist mér ekki og haldi uppi frábæru félagslífi næsta vetur, á 60. starfsári Mímis.
mánudagur, maí 22, 2006
Forvitnin drap köttinn
Í allan vetur hef ég fengið - með mjög óreglulegu millibili - nokkrar hringingar í gsm-símann minn úr númeri sem ég þekki ekki. Reyndar er númerið svona 20 tölustafir og hefst á númerinu +967. Ég þekkti ekki þetta númer og velti mér ekkert upp úr þessu lengi vel, enda stóðu hringingarnar svo stutt að ég náði aldrei að svara, og ekki fannst mér við hæfi að hringja til baka, ekki vitandi hvað væri á hinum enda línunnar eða yfirleitt í hvaða landi. Nú í síðustu viku fékk ég aftur svona símtal og var þá orðin svo forvitin að vita að minnsta kosti hvaða landi þetta +967 tilheyrir. Ég fann það ekki í símaskránni, svo ég hringdi í upplýsinganúmer símans fyrir útlönd, og þar sagði kona mér hvaðan hafði verið hringt í mig.
...frá Yemen.
Nú auglýsi ég eftir einhverjum sem þekkir einhvern frá Yemen, eða þekkir einhvern sem þekkir einhvern frá Yemen, eða veit um einhvern sem er í Yemen, eða einhvern sem veit yfirhöfuð eitthvað um Yemen!
Ég SKAL ná þessu símtali næst, og ég á örugglega eftir að hringja til baka einhvern tímann, bara til að leysa úr þessari ráðgátu. Helvítis forvitni.
Í allan vetur hef ég fengið - með mjög óreglulegu millibili - nokkrar hringingar í gsm-símann minn úr númeri sem ég þekki ekki. Reyndar er númerið svona 20 tölustafir og hefst á númerinu +967. Ég þekkti ekki þetta númer og velti mér ekkert upp úr þessu lengi vel, enda stóðu hringingarnar svo stutt að ég náði aldrei að svara, og ekki fannst mér við hæfi að hringja til baka, ekki vitandi hvað væri á hinum enda línunnar eða yfirleitt í hvaða landi. Nú í síðustu viku fékk ég aftur svona símtal og var þá orðin svo forvitin að vita að minnsta kosti hvaða landi þetta +967 tilheyrir. Ég fann það ekki í símaskránni, svo ég hringdi í upplýsinganúmer símans fyrir útlönd, og þar sagði kona mér hvaðan hafði verið hringt í mig.
...frá Yemen.
Nú auglýsi ég eftir einhverjum sem þekkir einhvern frá Yemen, eða þekkir einhvern sem þekkir einhvern frá Yemen, eða veit um einhvern sem er í Yemen, eða einhvern sem veit yfirhöfuð eitthvað um Yemen!
Ég SKAL ná þessu símtali næst, og ég á örugglega eftir að hringja til baka einhvern tímann, bara til að leysa úr þessari ráðgátu. Helvítis forvitni.
miðvikudagur, maí 17, 2006
sunnudagur, maí 14, 2006
Húmor
the Cutting Edge |
föstudagur, maí 12, 2006
þriðjudagur, maí 02, 2006
mánudagur, maí 01, 2006
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)