sunnudagur, september 24, 2006

Varnaglar

Ég var að skrá mig inn á vef sem heitir Questia.com þar sem er hægt að finna aragrúa af alls kyns fræðigreinum, bókum og whatnot. Á þessari síðu má sjá hvernig maður getur "save 9 hours of research work", af því það er allt svo miklu fljótlegra á netinu með Questia. En auðvitað er alltaf hætta á lögsókn, svo til að tryggja að enginn frústreraður nemandi sem ekki sparaði 9 klukkutíma fari ekki að kæra Questia fyrir að hafa eyðilagt feril sinn sem fræðimaður, þar sem hann mínusaði 9 klukkutíma af áður en hann átti að skila lokaritgerðinni sinni og varð of seinn, má sjá þetta í ööörsmáu letri fyrir neðan:

Questia cannot guarantee that it will save every student 9 hours, or any time for that matter, writing a research paper. This is intended to illustrate how Questia can save students significant amounts of time in many instances by eliminating steps in the traditional paperwriting process.

Allur er varinn góður, sagði kellingin...

fimmtudagur, september 21, 2006

Á blaðsíðu fjögur í Fréttablaðinu þann 21. september má sjá mynd af þremur meintum vændiskonum að mótmæla. Ég er ein af þeim (hinar eru Ragnheiður og Ugla, og þetta voru friðsöm mótmæli UVG). Nú hef ég líka komist að því að í myndasafni Fréttablaðsins er þessi mynd merkt "Vændiskonur mótmæla". Ég er semsagt orðin vændiskona í gagnasafni Baugsmiðla. Það verður gaman þegar í framtíðinni verður skrifuð "Saga vændiskvenna" eða álíka og afsprengi mín geta skammast sín fyrir ættmóður sína.

miðvikudagur, september 13, 2006


Svanhvít mælir með...

...berjamó
...og bláberjum með sykri, skyri og rjóma og rauðar kinnar á eftir
...engu sjónvarpi
...að mæta lesin/n í tíma (það er kúl)
...að fatta að ef maður vill að eitthvað sé gert verður maður að gera það sjálfur


Svanhvít mælir hins vegar ekki með...

...háværu fólki
...fólki sem heldur að það sé rétthærra en annað fólk (a.m.k. ef engin innistæða er fyrir því)
...Bjólfskviðu - þ.e. myndinni (sorglegt að svona miklu fé sé eytt í eitthvað svona lélegt... og Reynisdrangar og Skógafoss ná ekki að blekkja mig - þetta var bara ekki Danmörk
...Þungum skólatöskum
...leiðinni frá Árnagarði yfir í, tja, eiginlega allar aðrar háskólabyggingar, út af framkvæmdum
...Þjóðkirkjunni

föstudagur, september 08, 2006

Meistararnir


Í dag er ég glaður – í dag vil ég syngja,
dansa til morguns við hverja sem er.
Við flakkara allt eins og kóng vil ég klingja,
ég kæri mig ekkert um nafnið á þér.
Þú ert vinur minn víst eins og veröldin snýst
–á víxla ég skrifa nú eins og þér líst.

Í gær var sett hér færsla með yfirskriftinni Meistarinn, en sú yfirskrift á mun betur við í dag, því áðan varð ég vitni að sögulegum viðburði, þegar fótboltalið íslenskunema rústaði FC Gás og vann VISA-bikar HÍ í fótbolta.

DJÖFULL VORU ÞEIR GÓÐIR!!

Svo lengi sem Mímir heldur áfram að gera garðinn frægan á þennan hátt dettur mér ekki í hug að segjast EKKI vera í íslensku, þó tæknilega séð sé ég í bókmenntafræði- og málvísindaskor.

Áfram Mímir!

fimmtudagur, september 07, 2006

Meistarinn

Meistaranám í þýðingum hafið, „æðra nám við helstu menntastofnun landsins", ...og mér líður eins og tíu ára. Mig vantar þetta akademíska sjálfstraust, að ég geti þetta alveg eins og allir hinir, sem hljóma svo gáfulegir í tímunum. En ég veit svosem að flestir eru eins og ég, svolítið skelkaðir og segja þess vegna ekkert, og þessir sem tala og tala eru ekki heldur alveg öruggir á sínu og blaðra því um það sem þeir vita.

Þetta hefði ég þurft að vera búin að fatta fyrr.

En á heildina litið er ég mjög spennt fyrir vetrinum og öll námskeiðin lofa mjög góðu, svo ég ætla að rústa þessu skólaári.

Með meistarakveðju,
Svanhvít.