þriðjudagur, október 31, 2006

Refhvörf part II

Eilíft líf - pælið aðeins í því:

ei-líft líf

(Stolið af þessari síðu)

mánudagur, október 30, 2006

jæ.is (júniversití of Æsland dott æ ess)

Maður skyldi halda að í Háskólanum í Reykjavík væri sjálfgefið að netföng starfsmanna enduðu á hr.is (hann á nú einu sinni lénið) - en því er ekki að heilsa, ru.is takk! Ví spík íngliss jess.

Og ég minni ökumenn aftur á hálkuna. Það er nefnilega ekkert gaman að keyra á.

sunnudagur, október 29, 2006

Ökumenn athugið

Hálka er á vegum.

laugardagur, október 28, 2006

Bláhöfuð

Ekki veit ég hvort hér er verið að tala um pars pro toto eða hvort höfuðin 2764 hafi rúllað sér sjálf upp í Valhöll. Þó glittir í hendi á myndinni, svo líklega hafa þau fengið einhverja hjálp.

föstudagur, október 27, 2006

„gott er að borða gulræturnar...“ (eða var það gulrófurnar)

Ég sit í tölvustofunni í Árnagarði. Í henni er bara ein önnur manneskja, síðhærður gothari. Ég var búin að naga mig í gegnum heilan poka af gulrótum þegar ég áttaði mig á því að ég hafði gert það með ótrúlega óþolandi hljóðum, alls kyns furðulegum naghljóðum og smjatti. Ég hlýt að vera búin að gera út af við manninn. Jæja, það er hans val, það er önnur tölvustofa í húsinu.

miðvikudagur, október 25, 2006

Er hægt að rifna úr monti?

Ég veit það ekki, en sé það svo þá er ég í mikilli hættu á að fara beinlínis í tvennt. Allir sem hafa hitt mig nálægt tölvu síðustu daga hafa verið látnir hlusta á þetta hér, lag númer níu og dást að litlu systur. Og ekki er hún í slæmum félagsskap á þessari plötu, síður en svo. Til hamingju María.

þriðjudagur, október 24, 2006

Langreyður

Gaman væri að sjá lista yfir uppflettingar á vef Orðabókar Háskóla Íslands, þar sem hægt er að fletta upp beygingarmyndum orða, því orðið vandmeðfarna 'langreyður' skorar eflaust hátt á þeim lista síðustu vikuna. Þar sem ég vinn við að leiðrétta texta á blaði hef ég séð svona hundrað mismunandi útgáfur af þessu orði - í öllum kynjum.








langreyður er kvenkynsorð


hér er langreyður / langreyðurin
um langreyði / langreyðina
frá langreyði / langreyðinni
til langreyðar / langreyðarinnar

Hér eru langreyðar / langreyðarnar
um langreyðar / langreyðarnar
frá langreyðum /langreyðunum
til langreyða / langreyðanna

fimmtudagur, október 19, 2006

Refhvörf

Er aðeins að skoða stuðlanotkun og stílbrögð og fann á netinu þennan frábæra lista yfir bestu refhvörfin (oxymoron) í enskri tungu. Eru ekki einhver góð svona á íslensku? Það fyrsta sem kemur upp í hugann er að sjálfsögðu 'ógeðslega sæt', 'svalara en helvíti' (eins og einn sveitungi minn komst svo eftirminnilega að orði) 'heví mjór', 'umhverfisvænar virkjunarframkvæmdir'. Komið með fleiri svona.

52. Honest Lawyer
51. Jumbo Shrimp
50. Act naturally
49. Found missing
48. Resident alien
47. Advanced BASIC
46. Genuine imitation
45. Airline Food
44. Good grief
43. Same difference
42. Almost exactly
41. Government organization
40. Sanitary landfill
39. Alone together
38. Legally drunk
37. Silent scream
36. British fashion
35. Living dead
34. Small crowd
33. Business ethics
32. Soft rock
31. Butt Head
30. Military Intelligence
29. Software documentation
28. New York culture
27. New classic
26. Sweet sorrow
25. Childproof
24. "Now, then ..."
23. Synthetic natural gas
22. Christian Scientists
21. Passive aggression
20. Taped live
19. Clearly misunderstood
18. Peace force
17. Extinct Life
16. Temporary tax increase
15. Computer jock
14. Plastic glasses
13. Terribly pleased
12. Computer security
11. Political science
10. Tight slacks
9. Definite maybe
8. Pretty ugly
7. Twelve-ounce pound cake
6. Diet ice cream
5. Rap music
4. Working vacation
3. Exact estimate
2. Religious tolerance
1. Microsoft Works


Það hljóta að vera til einhver skemmtileg svona í íslensku!

sunnudagur, október 15, 2006

Draugar fortíðar

Það var skömmustuleg móðir sem hringdi í dóttur sína eftir síðustu bloggfærslu hér á síðunni. Hún játaði nefnilega fyrir mér að Doppa, hundurinn sem datt í hverinn þegar ég var svona þriggja eða fjögurra ára, hefði eiginlega ekki kannski alveg dáið akkúrat þannig... hún datt sko í hverinn einu sinni, og brenndist (þetta mundi ég), en lifði það alveg af. Það var svo sko eiginlega ekki fyrr en pabbi fór með hana til dýralæknisins að.......

*gisp*

Það er skrýtið þegar eitthvað sem maður hefur tekið sem sjálfsagt reynist svo alrangt, sérstaklega þegar það snertir dauða ástvinar, eins og í tilfelli Doppu. En ég álasa foreldrum mínum alls ekki fyrir þetta og það er bara tilviljun að þetta kemur upp núna en ekki fyrr (nema þau telji mig fyrst núna nógu andlega sterka og stabíla til að móttaka svona fréttir) og í raun slógu þau tvær flugur í einu höggi, fríuðu sig af dauða hundsins og tryggðu ævilanga hræðslu mína við hverasvæðið ógurlega.

Nú er spurningin hverju öðru hefur verið leynt fyrir mér, og ég hvet foreldra mína og aðra mér nákomna til að hringja í mig til að ljóstra upp fleiri fortíðardraugum. Engar áhyggjur, ég held ég sé ekkert svo brothætt lengur. Og hver veit nema ég lumi á einum eða tveimur sem kominn er tími til að draga fram í dagsljósið...

mánudagur, október 09, 2006

Ðeganogoðbatjoh

Ég var þriggja ára þegar Reagan og Gorbatsjoff komu á hinn fræga fund í Höfða, og bróðir minn rétt hálfs árs. Ég bjó á Lindarbrekku, gulu bárujárnshúsi með rauðu þaki sem liggur í hlíðinni upp frá hverasvæðinu í Laugarási. Við áttum hund sem hét Doppa og hún var búin að klóra stórt gat í útidyrahurðina. Hún drukknaði í hvernum, og kenndi mér að minnsta kosti þá lexíu að forðast hverasvæðið að eilífu. Ég er ennþá skíthrædd við það.

Í bakgarðinum var ég með eigið kokkaeldhús þar sem ég bakaði girnilegar súkkulaðikökur skreyttar með fíflum og hrafnaklukkum. Þar voru líka risastórir sveppir þar sem strumpar bjuggu. (Eða þangað til strákur kom og lamdi sveppina með spýtu til að gá - ég held hann hafi drepið þá.)

Þegar Reagan og Gorbatsjoff funduðu í Höfða man ég að ég sat inni í stofu með pabba og horfði á sjónvarpið. Pabbi lét mig segja Reagan og Gorbatsjoff. Ég man að ég hermdi fullkomlega eftir honum en hann fór bara að hlæja, en sagði samt að ég væri dugleg. Ég skildi þetta aldrei alveg, mér fannst þetta ekkert fyndið. Þess má þó geta að ég gat ekki sagt stafinn R, (og get varla enn) svo svona eftir á að hyggja hefur þetta kannski verið svolítið fyndið. (Frá sama tíma er til dásamleg upptaka af mér að syngja lagið „Ðauð ðauð ðauð, eð ðóþin henna mömmu.“)

sunnudagur, október 01, 2006

Hugarmynd

Málið með hugmyndir er að stundum hljóma þær betur á blaði eða í huga manns en þegar þær eru framkvæmdar. Svo virðist hafa verið með borgarmyrkvunina frægu fimmtudaginn síðasta. Þegar ég las um hugmyndina í Draumalandinu hans Andra Snæs fannst mér hún svo sniðug að ég skildi ekki af hverju ekki væri löngu búið að framkvæma hana. Svo þegar myrkrið mikla skall á klukkan tíu á fimmtudaginn varð ég - og flestir sem ég hef talað við - fyrir þónokkrum vonbrigðum. Auðvitað hefðu vonbrigðin verið minni hefði verið stjörnubjart, en það lá þykk skýjamotta yfir borginni allri einmitt þetta kvöld. Í gærkvöldi leit ég upp í himininn um tíuleytið í götunni heima og sá norðurljósin dansa um himinhvolfin og stjörnurnar blika. Þá hefði ég viljað losna við bjarmann frá ljósastaurunum. Það pínlega er þó að á fimmtudagskvöldið, þegar pabbi minn var á leið heim í sveitina úr borginni, búinn að keyra framhjá uppljómuðum bensínstöðvum og bílasölum, stoppaði hann við Skíðaskálann klukkan hálfellefu til að sjá þegar borgin ljómaði upp á ný. „Uppljómunin“ var að hans sögn hálfgerð vonbrigði, en þegar hann leit upp í himininn blasti við honum stjörnubjartur himinn... rétt fyrir utan borgina sem kúrði undir skýjamottunni. Nafni hans Arnarson hefði betur pælt aðeins meira í bæjarstæðinu áður en hann kastaði súlunum.

Annars fékk ég nýtt sjónarhorn á þessa blessuðu myrkvun þegar ég talaði við stelpu í skólanum. Hún ætlaði bara að vera inni hjá sér að lesa meðan ljósin voru slökkt og nennti ekkert að taka þátt í þessu, en lenti í mikilli innri baráttu um hvort hún ætti að slökkva hjá sér öll ljós til að þóknast fólkinu fyrir utan eða gefa skít í þetta og halda bara áfram að lesa. Hún kaus það síðarnefnda en svo þegar krakkakarinn fyrir utan öskraði á hana að slökkva ljósin gafst hún upp og sat svo bara í myrkrinu og beið eftir að hálftíminn liði, hundfúl og pirruð... Þetta fannst mér sætt.