Áfram, áfram
Oftast þegar maður les skáldsögur býr maður til mynd í huga sér af sögupersónunum. Þetta gerist oftast ósjálfrátt og stundum taka þessar persónur á sig mynd fólks sem maður þekkir. Þá hefur persónan einhverja drætti sem svipa til raunverulegrar manneskju, stundum að öllu leyti en oftast bara að hluta til, en eftir að mynd manneskjunnar er komin upp í hugann í tengslum við sögupersónuna er erfitt að losna við hana. Það getur verið erfitt því maður veit ekki hverju sögupersónan getur tekið upp á sem maður les áfram. Hún getur gert eitthvað sem manni líkar alls ekki og er í andstöðu við það sem tvífari hennar í raunveruleikanum myndi nokkurn tímann gera. En þar sem hún ber ásjónu hans og líkama getur hún haft áhrif á hvernig maður lítur á raunverulegu manneskjuna. Gjörðir uppdiktuðu persónunnar blandast þannig ímynd hinnar raunverulegu og verða hluti af henni í huga manns.
Ég lenti í þessu í gær þegar ég var að lesa Sumarljós, og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson og maður sem ég þekki birtist mér svo ljóslifandi sem ein persónan. Hann var þó ósköp viðkunnanlegur en örlítið grátbroslegur og það var kafað djúpt í persónu hans, svo nú finnst mér ég skilja raunverulega manninn mun betur og mun eflaust horfa á hann öðrum augum héðan í frá. Það var næstum óþægilegt að lesa svona mikið um einhverja manneskju í bók; eins og maður sé að hnýsast í persónuleika hennar.
Eftirminnilegasta svona atvikið var þó á fyrsta ári í MH í íslensku. Þá vorum við látin lesa smásöguna Vonir eftir Einar H. Kvaran. Fyrst fannst mér ekki mikið til sögunnar koma en svo komst ég að því að hún sat í mér og ég hef mikið hugsað um hana síðan og nú er hún ein af mínum uppáhaldssmásögum. Aðalpersónurnar í henni heita Ólafur og Helga (og nei, ég hugsaði mér ekki Óla Sól og Helgu Kaaber) og um leið og ég las lýsingarnar á fólkinu í sögunni birtist í huga mér allólíklegt par, fólk sem ég var nýbúin að kynnast í glænýja menntaskólanum. Það voru Orri Tómasson og Marta Sigríður Pétursdóttir, sem voru einmitt með mér á ári. Eitthvað í lýsingunum á sögupersónunum fyrst í bókinni kallaði þetta fólk fram í hugann og síðan hef ég alltaf séð þau í þessum hlutverkum, þótt þau hegði sér alls ekki eins og sögupersónurnar í raunveruleikanum. Þessi saga átti held ég góðan þátt í að móta myndina sem ég hef af Mörtu og Orra í dag en það þýðir ekki að ég líti á Mörtu sem hégómagjarna og tækifærissinnaða stúlkukind og Orra sem slánalegan og trúgjarnan lúser, alls ekki, heldur hef ég einhvern veginn dýpri og innilegri mynd af persónum þeirra fyrir vikið.
Þetta er kannski svolítið svipað og þegar mann dreymir einhvern sem maður þekkir gera eitthvað á hlut manns og er svo hundfúll út í hann daginn eftir, en þetta er miklu djúpstæðara og alltaf meira eftir því sem sagan er eftirminnilegri og persónusköpunin dýpri. Þannig getur skáldskapurinn haft áhrif á raunveruleikann án þess að maður taki einu sinni eftir því.
Þetta var skrifað í tilefni af því að ég hef svo mikið að gera að mér fallast hendur.
Sá sem áttar sig á fyrirsögninni fær prik.
miðvikudagur, apríl 25, 2007
laugardagur, apríl 21, 2007
Get a hópvinnuherbergi!
Ullabjakk! Mér finnst ógeðslegt að hlusta á fólk 'slumma' við hliðina á mér uppi á Þjóðarbókhlöðu. Ég er sko ekki að tala um neina mömmukossa, nei, maður fer bara hjá sér!
Lítið um blogg hér upp á síðkastið og að öllum líkindum áfram. Mín bíða þýðingar og ritgerðir út í hið óendanlega næstu vikur.
Góðar stundir.
Ullabjakk! Mér finnst ógeðslegt að hlusta á fólk 'slumma' við hliðina á mér uppi á Þjóðarbókhlöðu. Ég er sko ekki að tala um neina mömmukossa, nei, maður fer bara hjá sér!
Lítið um blogg hér upp á síðkastið og að öllum líkindum áfram. Mín bíða þýðingar og ritgerðir út í hið óendanlega næstu vikur.
Góðar stundir.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)