þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Takk fyrir síðast

Íslendingar eru almennt ekki talnir kurteis þjóð, en í einu tökum við flestum öðrum fram. Við erum nefnilega mjög dugleg að þakka öðrum fyrir liðnar stundir. Frasinn 'Takk fyrir síðast' eða 'Takk fyrir [föstudaginn, gærkvöldið o.fl.]' virðist þó vera það eina sem hægt er að segja í þessu samhengi, og um notkun hans gilda strangar óskrifaðar reglur.

"Reglurnar" um 'Takk fyrir síðast' eða TFS, eins og frasinn verður kallaður hér til hægðarauka, eru eftirfarandi:

  • 'Takk fyrir síðast' er sagt fyrst þegar fólk talast við eftir ánægjulegan eða merkilegan atburð sem báðir aðilar voru viðstaddir. Þeir þurfa helst að hafa talað saman við þennan atburð.
  • Atburðurinn getur verið margs konar, frá spilakvöldi til brúðkaups til suddalegs helgardjamms. Atburðurinn þarf þó að vera viðurkenndur sem skemmtiatburður (t.d. má ekki segja TFS eftir kennslustund eða vinnudag, þótt hann hafi verið mjög ánægjulegur). Ekki tíðkast að segja takk fyrir síðast eftir jarðarför, þó leyfilegt sé að segja það í jarðarför um undangenginn atburð.
  • Eftir djamm tíðkast að segja TFS fram að næstu helgi, en það fer eftir tengslum viðkomandi og gæðum og umfangi djammkvöldsins sjálfs hvort leyfi er til að segja það í lengri tíma en viku. Ef viðmælendurnir hittast sjaldan lengist tíminn sem segja má TFS í hlutfalli við hve oft þeir hittast og hve vel þeir þekkjast.
  • Ef sérstök tengsl mynduðust milli viðmælenda við atburðinn (allt frá trúnó upp í eitthvað meira) er skylda að segja TFS.
  • Skemmsti tími sem líða má þar til TFS er sagt er ein nótt; ekki er hægt að segja TFS samdægurs.
  • Staðlað svar við TFS er 'Já, takk sömuleiðis' en til eru ýmis náskyld afbrigði.
  • Hægt er að segja TFS á ýmsa vegu og felast mismunandi skilaboð í orðunum eftir raddblæ og hljómfalli. Langalgengast er að draga í-ið í síðast með stígandi hljómi, enda lýsir það ánægju og velþóknun.
  • Sé þetta hljómfall ýkt má gera ráð fyrir að eitthvað meira liggi að baki, t.d. forvitni um afdrif viðmælanda, og fylgir þá oft í kjölfarið setning eins og 'Ég sá þig ekkert eftir að þú fórst í göngutúr með [nafn þriðja aðila]' eða 'Búin(n) að jafna þig eftir helgina?
  • Hægt er að segja 'Takk fyrir síðast' mjög vandræðalega; á það til dæmis við þegar viðmælandinn sá mann gera sig að fífli á fylleríi eða ef viðmælandinn er einnar nætur gaman helgarinnar. Skal hinn svara á sama hátt til að forðast frekari vandræði. Eftir vandræðalegt TFS skal helst vera búið að undirbúa næsta skref samræðunnar.
  • Ekki er sagt TFS við sambýlisfólk, eða þann sem kann að vakna við hliðina á manni.
  • Segja má TFS augliti til auglitis, í síma, MSN og jafnvel SMS. Nýmæli er að MySpace og viðlíka tengslanetsíður séu notaðar til að segja TFS. Þá gilda að vissu leyti önnur lögmál, þar sem þá er TFS oft notað til að brydda upp á samtali eftir að hafa gúglað og 'addað' þeim sem maður hitti við ánægjulegan atburð (djamm), eða til að sýna öðrum gestum síðunnar að viðkomandi hafi umgengist mann téðan ánægjulegan atburð.
  • Þegar TFS er sagt en viðmælandinn man ekki hvenær hann hitti viðkomandi síðast skal hann segja 'Já, takk sömuleiðis' því að það er hvort eð er eina rétta svarið og venjulega fylgir ekki neitt meira, nema þá spurning eða athugasemd sem tengist atburðinum, sem gefur oftast vísbendingu um hver hann var, t.d. er 'Ég ætlaði aldrei að ná kísilnum úr hárinu' góð vísbending um að síðasti sameiginlegi viðburður hafi verið ferð í Bláa lónið.
  • Þessar reglur má brjóta eins og allar reglur og segir almenn skynsemi til um hvenær það skuli gert.

sunnudagur, ágúst 26, 2007

miðvikudagur, ágúst 22, 2007

Viðbjóðslegt tilfinningaklám

að klína framan í mann auglýsingum um að maður eigi að eiga í ástarsambandi við bankann sinn. Bjakk. Hef bara því miður ekki áhuga. Vil ekki kærasta sem hugsar ekki um annað en peninga, og vill ekki einu sinni deila þeim með mér.

mánudagur, ágúst 20, 2007

Menningarnótt

Á menningarnótt er ekki þverfótandi fyrir öllum tónlistarmönnunum sem eru hlaupandi milli gallería, skartgripaverslana og kaffihúsa með hljóðfærin sín og magnarana.
Hver borgar öllu þessu fólki?

fimmtudagur, ágúst 16, 2007

Kvennaskólinn is only pay lip service to womankind

Á eina svokallaða netsamfélaginu sem ég get ímyndað mér að tilheyra að einhverju örlitlu leyti var einhver kanadískur skógarhöggsmaður að forvitnast um bloggið mitt og til að glöggva sig á um hvað ég væri að skrifa skellti hann síðasta pósti inn í þýðingaforrit, sem snaraði honum yfir á engilsaxneska tungu. Hann sendi á mig útkomuna sem var þessi:

"Catholicism uni into Chile Begin to appear hast river misunderstanding because school board whom I is snuggle up to go into , here river síðunni and widely. Though name þess vegna Catholicism namesake is he not before Catholic while Kvennaskólinn is only pay lip service to womankind or Fósturskólinn edification pay lip service to foetus. Or snuggle up to everyone séu seductive river Seductive. Or ye understand. I fer anyway into March ;st) winter smack river into Chile and kem ca. into December , thus I fæ snuggle up to experience thirty winter samfleytt , þ.e. be einum vetrinum senior and wise while ella , is there not? Probably var not reckon with ;fn) stórreisum ;st) Lcelander fóru snuggle up to reckon time of life after accordingly what they höfðu litið poly- winter."

Ég gleðst í mínu litla hjarta yfir að tölvur skuli ekki ráða við þýðingar og muni aldrei geta komið í staðinn fyrir þýðendur - og held galvösk áfram í náminu mínu.

Eða hvernig á forritið að vita hvenær 'á' þýðir 'have' og hvenær 'river'? Eða hvenær 'halda' þýðir 'think' en ekki 'snuggle up to' (!)

(Þetta var vægast sagt endurunnið blogg, í bókstaflegri merkingu, enda ekki mikill tími aflögu í nýja pósta, allur aukatími minn fer í að þýða sápuóperuna 'Á vængjum ástarinnar' eða 'Por todo lo alto' sem er sýnd á Stöð tvö árdegis dag hvern.)

fimmtudagur, ágúst 02, 2007

Kaþólski háskólinn í Chile

Örlað hefur á misskilningi út af skólanum sem ég er að fara í, hér á síðunni og víðar. Þótt skólinn heiti þessu kaþólska nafni er hann ekki frekar kaþólskur en Kvennaskólinn er bara fyrir konur eða Fósturskólinn sálugi fyrir fóstur. Eða að allir séu tælandi á Tælandi. Eða þið skiljið.

Ég fer allavega í mars þegar veturinn skellur á í Chile og kem ca. í desember, svo ég fæ að upplifa þrjá vetur samfleytt, þ.e. vera einum vetrinum eldri og viturri en ella, er það ekki? Líklega var ekki reiknað með slíkum stórreisum þegar Íslendingar fóru að reikna aldur eftir því hvað þeir höfðu litið marga vetur.