sunnudagur, apríl 27, 2008

Svanhvít Lilja Ingólfsdóttir skrifar frá Chile

Bond í Chile. (bls 70)

miðvikudagur, apríl 23, 2008

Mig minnir að ég hafi ekki verið búin að blogga um kórana mína. Ég er nefnilega byrjuð í tveimur kórum, annar er kór Háskólans í Santiago (USACH) (ekki míns háskóla) og hinn heitir Mozart-kórinn. Báða fann ég í gegnum vini fyrrverandi hans Rodrigos, sóngvarans. Þau heita Gabriel og Alyson (litla söngkonan, vinkona mín og þykjustusystir).

Kórarnir eru eins og svart og hvítt. USACH-kórinn er mjög góður og þar er unnið mjög hratt á æfingum, og sussað niður í þeim sem kjafta. Við erum að syngja Magnificat eftir Rutter (t.d. hér: http://youtube.com/watch?v=F3O_cV4bxRk) og fleira metnaðarfullt. Kórinn skiptist í venjulega kórinn og madrígalistana, sem eru allir pró söngvarar og eru með sér kór innan þessa kórs.

Í Mozart-kórnum er alls kyns fólk, aðallega sextugt og yfir, sem setur auðvitað sinn svip á mannskapinn (og sönginn). Ég og ein kona um fimmtugt erum til dæmis einu altarnir undir ellilífeyrisaldri. Svo er eitthvað af yngri krökkum líka, svo um daginn þegar var verið að tala um kórferðalag og lestarferðir fundum við út að líklega gætu allir fengið einhvernveginn afslátt af miðanum, eldriborgara, námsmanna eða eitthvað annað.

Í USACH-kórnum fara æfingarnar semsagt í að æfa og ekkert múður, en ég er ekki búin að kynnast fólkinu þar mjög vel, nema auðvitað Gabriel sem kom mér inn í kórinn. Samt er ég búin að vera í þeim kór í um fimm vikur.

Eftir tvær vikur í Mozart-kórnum (4 æfingar) er ég orðin eins og eitt af barnabörnum alls gamla fólksins og á morgun er ég að fara að syngja á tónleikum með kórnum. Það varð að sjálfsögðu til þess að allar gömlu konurnar fóru að spá og spekúlera í hverju ég ætti að vera á tónleikunum, því hér eru kórbúningar (og allir einkennisbúningar yfirhöfuð) gífurlega mikilvægir. (hér er hægt að sjá búningana: http://youtube.com/watch?v=0xRia1UVGDo) Ein sagði að ég gæti alveg eins verið í svörtu, "hún sker sig nógu mikið úr með því að vera svona ljóshærð að það breytir litlu þótt hún sé ekki í búning". Önnur benti á að ég gæti kannski notað búninginn hennar Kato sem er hætt, en önnur sagði að Kato væri með miklu minni barm, svo ég kæmist ekki í hennar kjól. Þá vildu þaer fara að lána mér pils og blússur í hrönnum, en ég náði blessunarlega að útskýra að ég ætti nú alveg föt sjálf. Ennþá er málið ekki leyst og ein gamla konan (sem er líka búin að bjóða mér í heimsókn "af því þú virðist góð og vel upp alin stúlka") ætlar að hringja í mig og láta mig vita hvernig fer.

Ég býð semsagt öllum sem komast hér með á tónleika í Catedral-götu í Santiago á morgun kl 20 að staðartíma. Aðgangur ókeypis, en fyrirvari kannski heldur stuttur.
---
Brauðmaðurinn kom í gær ("hæ, þetta er Jorge, "el amigo del pan"), stillti upp átta mismunandi tegundum af braudi á stofubordinu og lét mig svo smakka hvert og eitt og skrifaði niður hvað mér fannst. Hann er að bæta við brauðum í heimsendingarbakaríið sitt og vildi fá að vita hvað mér fyndist um mismunandi brauð til að vita hvaða brauð hann ætti að taka í sölu. Svo þarna sat ég með fullan munninn af brauði á meðan hann útskýrði fyrir mér lífsgædin sem eru fólgin í því að fá brauð í heimsendingu í staðinn fyrir að vera alltaf að fara í súpermarkaðinn ("ég fer bara einu sinni í mánuði í stórmarkaðinn, ég þoli það ekki.")

Úff, það er svo margt sem mig langar að skrifa um, skrýtnu skrúfurnar sem ég hef lent í síðustu daga eru alveg efni í nokkur góð blogg, en ég þarf að fara í tíma núna, og svo skrifa ritgerðina miklu sem ég á að skila á morgun (bara smáverkefni, 7-8 blaðsíður, sagði kennarinn).

Kórkveðjur, Lilia

föstudagur, apríl 18, 2008

Skólinn


Það er kominn tími til að ég segi aðeins frá því sem er ástæðan fyrir að ég fór til Chile og það sem ég eyði mestum tímanum í, þ.e.a.s. skólanum.

Eins og ég hef sagt áður er skólinn kaþólskur mjög, gamall og heldur fast í hefðirnar, hann er einkarekinn og á nóg af peningum. Til samanburðar hef ég farið á campus í öðrum háskóla (Universidad de Santiago) sem er allt öðruvísi, ljótari hús, miklu minna við haldið og um hirt. Enda eru skólagjöld í mínum skóla himinhá miðað við launin sem fólkið í landinu fær, svo hingað koma aðallega miðstéttar- og efristéttarkrakkar.

Í háskólanum hennar Mörtu (Universidad de Chile, ríkisrekinn skóli) er risastór veggmynd af Che Guevara, hér myndi það alls ekki líðast, hér er hins vegar róðukross í hverri einustu kennslustofu (svona eins og í staðinn fyrir klukkurnar í hverri stofu í HÍ). Svo er mér sagt að það séu skyldukúrsar í hverju fagi þar sem fagið er skoðað í trúarlegu samhengi (bróðir vinar míns þurfti að taka kúrs í "trúarverkfræði").


Kennararnir eru þó auðvitað jafnmisjafnir og þeir eru margir, og passa sig bara að halda kjafti og vera ekkert að flagga skoðunum sínum ef þær eru á skjön við það sem yfirvöldum skólans finnst. Þetta staðfesti doktor Rosowski, vinur Laufeyjar, mömmu Steina, sem bauð mér í hádegismat um daginn. Hann er doktor í næringarfræði og mjög almennilegur, og þegar ég spurði hann um hvað honum fyndist um að hér ætti að banna "daginn-eftir-pilluna" sem var þó leyfð í nokkur ár, sagði hann mér að maður talaði ekki mikið um þetta innan skólans til að komast hjá vandræðum. (Ég á oft erfitt með að átta mig á því hvað er tabú hérna og hvað ekki, svo líklega er ég sífellt hneykslandi fólk með einhverjum hrikalega frjálslyndum skoðunum).


En nú að kúrsunum sem ég er í, og eru bara alveg slatta vinna:
Ég er í fjórum kúrsum, þar af einum sem er bara til að bæta spænskuna og kallast svo virðulega "Curso de perfeccionamiento" ("fullkomnunar"kúrs). Þar eru bara útlendingar og við lærum að skrifa akademískan texta á spænsku. Gagnlegt.

Hinir kúrsarnir eru allir "alvöru" masterskúrsar, sem ég var skíthrædd við í byrjun, en núna þegar aðeins er á liðið er ég orðin miklu öruggari og ekkert svo hrædd lengur.


Ég er í tveimur kúrsum í þýðingafræði hjá sama kennaranum. Hún er um sextugt og ofsalega áhugasöm um kennsluna. Hún er yfirmaður þýðingafræðiprógrammsins í skólanum sem ég fæ að taka kúrsa úr. Við erum með sér tölvustofu fyrir okkur og prentara og þess háttar lúxus (annars tekur ógnartíma að prenta, það þarf að bíða í röð, láta kall fá skírteinið sitt, setjast við sérstaka tölvu og bíða eftir að nafnið manns er lesið upp og thá má maður prenta á blödin sem maður kemur sjálfur með. Þess vegna kalla ég sérprentara lúxus. Það er mjög indælt fólk með mér í þessum kúrsum, þau eru bara 8 í þessu námi svo það skapast þaegileg bekkjarstemning.

Hinn kúrsinn sem ég er í er málstofa í bókmenntafræði, fyrir fyrsta árs mastersnema. Efnið er "Rödd gyðinga og arabískra innflytjenda til Mexíkó og Chile". Við lesum eina skáldsögu á viku eftir mismunandi höfunda og fjöllum svo um bókina í tímanum. Mjög áhugavert, og ég er búin að læra fullt sem ég hafði ekki hugmynd um, og lesa bækur sem ég hefði aldrei annars vitað að væru til, t.d. er ég nú búin að lesa 5 bækur, fjórar mjög góðar eftir konur (gyðinga og Líbana) og eina frekar slappa eftir líbanskan karl.


Þetta er ekkert æðislega auðvelt fyrir mig, mikill lestur, í síðustu viku þurfti ég að halda fyrirlestur og í næstu viku þarf ég að skila ritgerð upp á 8 síður, en það skal hafast.
Kennarinn í þessum tímum er frábær, mjög almennilegur kall sem veit margt og er gaman að hlusta á. Krakkarnir í tímanum segja að hann sé besti kennarinn á mastersstiginu. Krakkarnir eru líka mjóg fínir í þessum tíma, svo það er farið að verða bara gaman að fara í tíma, en ekki "hættulegt" eins og tilfinningin var fyrst. Tímarnir eru einu sinni í viku, frá 18-21 á fimmtudögum, og andrúmsloftið er mjóg gott, í pásunni förum við og fáum kaffi og kex og spjöllum, og venjulega er fólk svo niðursokkið í söguna sem við erum að lesa það og það skiptið að kaffitíminn fer í að ræða hana líka, og auðvitað að sýna sig aðeins fyrir kennaranum, það tíðkast í bókmenntafræðinni hér alveg eins og heima...


Nú sit ég á bókasafninu og fyrir framan mig er strákur sem minnir skuggalega mikið á Andra Ólafs (nema Andri er auðvitað miklu sætari). Rétt áðan hélt ég fyrirlestur í þýðingafræðinni og það gekk alveg ágætlega held ég, og í tímanum sem ég er að fara í núna fæ ég út úr prófinu sem ég tók í síðustu viku. Sjáum til.

Þetta var svona til að láta vita að ég er nú virkilega að læra eitthvað hérna, ekki bara leika mér. (Allt annað en þegar ég var á Spáni og skólinn var svona það sem maður gerði þegar maður nennti ekki að gera eitthvað annað.)

En með þessum fyrirvara get ég líka sagt frá því að ég er búin að kaupa mér flugmiða norður í Atacama-eyðimörkina 1. maí. Ég fer með Mörtu norsku og Pepitu finnsku og við verðum í sex daga. Ég hlakka alveg hrikalega mikið til, enda er ótrúlega margt að sjá þarna, t.d. Mánadalinn (þar sem tungllendingin var víst tekin upp), gríðarstórar salteyðimerkur, flamingóavötn og "geysers". Nú er ég farin í tíma og bið ykkur vel að lifa.

P.s. getur einhver tékkað fyrir mig í Hagkaupum eða Nóatúni hvað eitt avókadó kostar? Mig langar að hneyksla lýðinn. (Eða stígur kannski enginn fæti inn í svoleiðis okurbúllur lengur?)

þriðjudagur, apríl 15, 2008

Mánudagur enn á ný (já eða þriðjudagur)

Það er ekki ennþá kominn vetur í Santiago, sem þykir furðulegt, en fyrirbærinu La niña (Stelpan) sem er einmitt andstæðan við El niño (Strákurinn), er kennt um þetta undarlega veðurfar, og hinn sökudólgurinn er hin ægilega hlýnun jarðar. Nú segja þeir að veturinn verði mjög kaldur og lítið um rigningu, en það veit ekki á gott því þurrkarnir sem hafa staðið yfir í sumar og munu halda áfram í vetur valda því að það þarf að spara rafmagn.
Í vetur verður rafmagn (og þar með heitt vatn líka) líklega tekið af borginni í nokkrar klukkustundir á dag til að spara, og ég get ekki sagt að ég hlakki til þess. Mengunin verður líka mun meiri í vetur, þegar fólk kyndir húsin sín meira, svo ég á eftir að nötra úr kulda og anda að mér eitruðu lofti á meðan Frónbúar dandalast í útilegum í íslenska sumrinu, sem er bara alls ekkert svo slæmt svona í minningunni.

Þessi rúmi mánuður í milljónaborginni hefur orðið til þess að ég er komin með mun meiri umhverfismeðvitund en nokkurn tímann á Íslandi. Þegar ég sé allt þetta fólk og alla þessa bíla fer að síast inn að það skiptir líklega máli hvort maður notar lítinn eða mikinn uppþvottalög þegar maður vaskar upp, því allt hitt fólkið notar líka uppþvottalög þegar það vaskar upp, og ein teskeið eða tvær er bara alveg slatti ef maður margfaldar með einhverjum milljónum. Nú er líka svo komið að ég engist alveg þegar ég fer út í búð og fæ matinn minn í svona sex aumum plastpokum, og kannski þrír hlutir í hverjum poka. Væri þá ekki betra að hafa pokana aðeins sterkari?

En nú verður tekinn upp þráðurinn í Bustamante-sápunni þar sem frá var horfið enda líklega margir óþreyjufullir að vita hvað hefur drifið á daga okkar.

Vinir okkar frá Viña del Mar komu um helgina, þeir láta okkur gringurnar ekki í friði, og tveir þeirra eru búnir að ná sér í tvær okkar, þá bandarísku og þá norsku (þó að sú norska sé ekki alveg sannfærð). Afbrýðisami vinur Kelly hinnar bandarísku úr síðasta þætti hefur ímugust á þessum piltum, sem er aðallega af því að þeir rændu henni frá honum, en líka af því þeir settu víst upp einhvern svip þegar hann sagði þeim í hvaða skóla hann hefði gengið, hann var víst of mikill ríkisbubbaskóli. Hann líður mjög fyrir að fjölskylda hans á peninga, og þolir ekki að vera kallaður cuico, chileískt orð sem þýðir snobb og er notað um þá sem eiga peninga og sýna það.

Kelly flutti út fyrir tveimur vikum, en ákvað í dag að flytja aftur inn, því nýja íbúðin (sem hún flutti í því leigan var lægri) var ísköld og skítug og ógeðsleg, og auðvitað af því að hún saknaði okkar... Og í þetta skipti ætlar hún að láta okkur tala spænsku við sig.

Við Rodrigo kvöldumst voðalega nú um daginn þegar þýska stelpan fór upp í fjöll á laugardegi og hafði ekki skilað sér á mánudagsmorgni, og við ekki með síma hjá henni. Það var óþægilegur hálfur dagur, þar til við komumst að því að hún hafði tekið rútu til baka um morguninn og farið með bakpokann og allt klabbið beint í vinnuna, sallaróleg og án þess að vita að við vorum búin að láta úlfa éta hana og hræðilega mannræningja nema hana á brott.

Rodrigo er allur að koma til eftir sambandsslitin ógurlegu (5 ár eru langur tími) og það er aðallega Cesari að þakka, krúttuðum strák sem R. var fljótur að næla sér í. Hann er jafnmikill Bjarkarfanatíker og R. og þeir vinna báðir í ferðaþjónustu, svo þeir eiga ágætlega saman. Systir R., Pipi, er þó ekkert svo hrifin af ráðahagnum og talar ennþá mikið við Claudio, hans fyrrverandi, og um þarsíðustu helgi, þegar R. fór í helgarfrí á ströndina með nýja ástmanninum og Pipi var hér í íbúðinni leyfði hún fyrrverandi meira að segja að gista í tóma herberginu... með "vini sínum". Þetta má R. auðvitað alls ekki vita, og ég trúi eiginlega ekki að ég sé að blaðra þessu hér á netinu... hversu góð er þessi nýja þýðingavél sem var verið að opna?

Svo verð ég að segja frá einni aukapersónunni í sápunni, en það er Brauðmaðurinn, Jorge Rivera, vinur Rodrigos, sem er að setja á fót nokkurs konar heimsendingarbakarí. Hann selur alveg hrikalega hollt hörfræjabrauð sem hann gengur með í hús eftir pöntunum og hugsaði sér líklega gott til glóðarinnar að hér væri fullt hús af gringum með fullt af peningum til að kaupa fullt af brauði. Hann kemur hingað á nokkurra daga fresti og hver einasta okkar hefur fengið minnst hálftíma langan fyrirlestur um gæði þessa blessaða brauðs, þar sem við fáum að vita allt um ómega-3 og hörfræ og sjávarsalt og heilhveiti. Brauðið er gott, og Brauðmaðurinn fór á Gus Gus-tónleika í fyrra og hlustaði mikið á Sykurmolana í denntíð, svo auk þess að tala um brauð finnst honum ægilega gaman að tala um Ísland. Þetta er svona ein af aukapersónunum sem lífga upp á daginn hérna í íbúðinni.

Í gær, eftir átök helgarinnar, horfðum við Rodrigo á Heima, Sigur Rósar-myndina, sem við höfðum ætlað að gera lengi. Við dottuðum bæði, enda er þetta ein af þessum myndum sem er allt í lagi að sofna yfir, það er eiginlega bara betra. Falleg stund. Það var fyndið að sjá glitta í gamla vini og félaga eins og Möttu og Tobbu í sjónvarpi í Chile. Það sem var samt eiginlega fyndnara var þegar sæta stelpan í þýðingafræðitímanum í morgun sem brosir alltaf svo fallega sagði mér að um helgina hefði hún séð heimildamynd um íslenska hljómsveit sem heitir "Síkúr Ross, eða eitthvað svoleiðis. Er Ísland í alvörunni svona?" Jú, það er bara eiginlega alveg svona.

Annars er nóg að gera í skólanum, mikið af skáldsögum sem þarf að lesa, mikið af fyrirlestrum og prófum, sem ég er eiginlega komin úr æfingu að taka. Ég fór í próf á föstudaginn og áttaði mig á því að það var fyrsta prófið mitt í tvö ár! Á eftir fékk ég mér sushi og bjór á sætum restaurant til að fagna því að það gekk ekki hörmulega. Ætli reikningurinn fyrir það hafi ekki verið svipað hár og fyrir einn sushibita á Íslandi... heyrist allt vera að fara til fjandans þar.

mánudagur, apríl 07, 2008


Svo pómó

Garfield án Garfield er langbesta teiknimyndasaga um þunglyndi, einmanaleika og skitsófreníu sem ég hef séð. Bara að nefna það.
Ég hata mánudaga.

föstudagur, apríl 04, 2008

...Dreypti á norrænum djús

Hjálp!

Það eru Íslendingar á djúsnum mínum!




















Eitthvað er heilsuhugmynd Latabæjar þó búin að skekkjast, því í þessum safa er mun meiri sykur en ávaxtasafi. Maður þarf að passa sig á öllum söfum sem eru með ávaxta"bragði" eða sem heita "nectar", því það þýðir að þeir eru aðallega vatn og sykur, og kannski með smá ávaxtaþykkni. Meira að segja safarnir sem á stendur 100% appelsínur innihalda þó meira af vatni og sykri en appelsínum. Líklega þýðir það að appelsínurnar sem þó fara í drykkinn séu hundrað prósent appelsínur, rétt eins og sykurinn er hundrað prósent sykur.
Hins vegar er á öllum kaffihúsum hægt að fá nýkreista ískalda safa úr allskyns ávöxtum. Það bætir upp fyrir allt ávaxtabragðsvatnið í súpermarkaðnum. Sem og ef það eru Íslendingar á umbúðunum. (Mér fannst Stefán þó sætari en Maggi.)

En ekki nóg með það, því það eru líka kleinur á lyftiduftspakkanum!



















Chileískar kleinur heita reyndar ekki cleinos, heldur hinu lystaukandi nafni "Ónýtar nærbuxur".
Hér get ég því nærst á "íslenskum mat" (lyftidufti og sykurvatni) og þarf einskis að sakna. Ennþá á ég einn poka af Tyrkisk peber, en það má alveg senda mér meira, ef einhver nennir, sem og sítrónupipar, sem mig sárvantar einmitt líka. Heimilisfangið er einfalt:
Bustamante 273, depto 41.
Providencia, Santiago, Chile.

Takk og bless

miðvikudagur, apríl 02, 2008

Síld í tunnu

Ég ferðast með metró á hverjum degi, til að fara í skólann og víðar. Oft er þröng á þingi, svo maður kemst ekki inn í lestina og þarf að bíða eftir næstu, eða fær olnboga í eyrað eða sveittan handarkrika í andlitið, en í dag versnaði það upp úr öllu valdi, eins og lesa má um hér (á spænsku), því út af umferðinni og menguninni í borginni, sem er alltaf mun verri á veturna, verða bílar sem menga mikið að dúsa heima virka daga frá 7-21 í allan vetur, og fólkið því að nota almenningssamgöngur (eða fá sér nýrri bíl). Á leið á kóræfingu áðan tókst mér að snerta að ég held mest tíu manneskjur í einu, svo mikil voru þrengslin. Þvalar hendur að fálma eftir handfangi, bakpokar sem þarf að toga á milli rassa til að komast framhjá, sveittir karlar sem horfa niður um hálsmálið hjá konunum, hitasvækja sem fylgir 30 stiga hita utandyra og hundrað manns í einum lestarvagni, þetta vinnur ekki með Transantiago-kerfinu, sem Santiagobúar kalla sín á milli Transantiasco (Transantiógeð).

Yfirvöld opnuðu fyrir kerfið í fyrra, eftir algjöra kaos í almenningssamgöngu"kerfi" þar á undan, þar sem strætóarnir voru ekki reknir af ríki eða borg, heldur átti hver sinn strætó og keyrði sína leið, og keppti við hina strætóana um að ná til sín farþegum. Þetta hafa verið kallaðar gagngerustu breytingar sem gerðar hafa verið á almenningssamgöngum nokkurs staðar í þróuðu ríki. Yfirvöld töluðu um umbætur, sérstaklega þar sem allir þessir mismunandi strætóar menguðu alveg óheyrilega mikið, eftir þeim gekk svartur reykurinn um alla borg, en strax á fyrsta degi kom í ljós að kerfið var stórgallað, annaði alls ekki eftirspurn og mikið var um bilanir. Kaosinu er meira að segja kennt um nokkur dauðsföll farþega, hjartaáföll og heilablóðföll.
Hver benti á annan eins og vera ber og margir sögðu af sér, og forsetinn Michelle Bachelet þurfti að biðja borgarbúa formlega afsökunar á kerfinu, og viðurkenna að það hafi verið gallað. Vinsældir hennar minnkuðu um 40% í kjölfarið.

Síðan hefur kerfið batnað til muna, enda er peningum dælt í það, eftir að það fór eiginlega á hausinn eftir fyrstu mánuðina. Málið virðist vera að of margir nota metró miðað við strætó, því strætóarnir virka ekki nógu vel, sem verður til þess að um 2,5 milljónir manns nota metró á hverjum degi, og í morgun milli 6 og 9 ferðaðist meira en hálf milljón manns með metró í Santiago. Það er slatti af fólki á þremur tímum. Ég ætti eiginlega að fá mér hjól og hjóla í skólann, en ég er hrædd við að hjóla í Reykjavík, hvað þá í Santiago, þar sem umferðin er eins og hún er. Sjáum hvernig staðan verður á morgnana á leiðinni í skólann næstu daga, svo er kannski einhver strætó sem gengur sömu leið. Ég reyni að kafna ekki úr hita og kremju á meðan.









Neðanjarðarlestarstöðin Baquedano þar sem ég skipti um lest á leið niðrí bæ. Þar er alltaf troðfullt af fólki. Þó vantar menn með hvíta hanska sem troða fólki inn í vagnana eins og mér er sagt að sé í Japan.