fimmtudagur, ágúst 28, 2008
Það sem var þó mest gaman við útsendinguna í dag var að sjá viðbrögðin hjá könunum sem horfðu með mér: "Vá hvað forsetinn ykkar er ljóshærður!" "Vá hvað ALLIR eru ljóshærðir!" Hvað eru eiginlega margir þarna? Öll þjóðin? Ég meina þið eruð nú ekki það mörg." "Ingimundur Ingimundarson, er það í alvöru nafnið á honum? Og geta allir borið þetta fram?"
Hér í Chile fagna menn líka silfri, það var hann Fernando Gonzalez sem vann það í tennis. Chile hefur aldrei verið mjög sigursælt á ÓL og hefur aðeins tvisvar unnið gull (fyrir tennis), örfá silfur og nokkur brons.
Ég er búin að hafa mjög lítið að gera í skólanum en þeim mun meira í tónlistinni. Ég er ennþá í báðum kórunum og er núna komin í aðra grúppu sem sérhæfir sig í barokk- og endurreisnartónlist, bæði frá Rómönsku-Ameríku og Evrópu. Þar spila ég á blokkflautu. Við vorum með tónleika fyrir viku með barokktónlist frá Perú og fleiri löndum, á undarlegustu tungum.
Hér er vídjó frá tónleikunum af laginu Hanacpachap, á frumbyggjamálinu quechua (ketsjúa).
Um daginn fór ég með kórnum frá elliheimilinu Grund (eða því sem næst) á kóramót. Það var glettilega gaman. Kórarnir misgóðir, svo að okkar gamlingjakór var með þeim betri, en þó voru nokkrir sem stóðu algjörlega upp úr.
Hér er okkar flutningur á Laudate Dominum Mozarts, aðallega sett hingað svo þið getið heyrt hvað hún Alyson syngur fallega. Hún er sextán, er það ekki frekar magnað?
Svo var skrúðganga þar sem allir kórarnir voru látnir ganga í röð og syngja svo fyrir framámenn í litla bænum þar sem við vorum. Ég, sem ljóshærða skrítna stelpan, var auðvitað látin vera fánaberi með Alyson. Svo var ég króuð af útí horni og tekið við mig sjónvarpsviðtal fyrir stöð tvö þar í landi þar sem ég var beðin um álit mitt á þessari hátíð allri saman. Eitthvað náði ég að bulla og vona svo að engum takist að finna þetta svo ég þurfi ekki að horfa.
Í hinum kórnum mínum erum við svo á fullu að syngja níundu sinfóníu Beethovens. Ég lenti í að bera fram þýska textann fyrir kórinn, eins og ég þarf alltaf að gera í báðum kórum ef sungið er lag á ensku eða þýsku eða einhverju evrópsku tungumáli. Í gær var frábær æfing með raddþjálfara sem tókst að ná ótrúlegustu hljóðum út úr mér. Ég hef aldrei sungið svona vel áður. Nú er mig virkilega farið að langa í söngtíma, og er búin að finna rétta kandidatinn. Sjáum hvað ég geri, ég hef allavega nógan tíma.
Já, eitt enn, á síðustu vikum hef ég komist að því að langflestir vinir mínir frá Chile eru samkynhneigðir. Ekki orð um það meir núna, kemur seinna. Enda kemur einhver nýr út fyrir mér á hverjum degi eða því sem næst, svo ómögulegt að segja hvað þeir verða orðnir margir í næstu færslu.
En nú er kominn háttatími fyrir "skínandi gullstjörnuna okkar frá Íslandi" (Já, sá eini sem er ekki hommi í barokkgrúppunni kallaði mig þetta. Ég vildi eiginlega frekar að hann væri hommi.)
föstudagur, ágúst 15, 2008
Þá er það ferðasagan: Norður-Chile, Bólivía og Perú
Ég lagði af stað eldsnemma 15. júlí í 24 klukkustunda rútuferð, sem þýddi að ég var komin til Iquique eldsnemma 16. júlí, illa lyktandi og með auman rass. Það var fyrsta rútuferð af mörgum í þessu ferðalagi. Flugferðin þessa sömu leið tekur um tvo tíma en það er svo dýrt að fljúga hér að maður leyfir sér það ekki. Þegar ég var komin til Iquique hitti ég stelpu sem hafði verið í rútunni og ég kannaðist við úr háskólanum. Hún heitir Tiffany, frá Englandi, og er einmitt skiptinemi eins og ég, og þar sem við höfðum sirkabát sömu plön ákváðum við að finna saman hostel. Til Iquique fórum við því að þar rétt hjá er þorpið La Tirana þar sem er haldin karnavalísk trúarhátíð um miðjan júlí á hverju ári, og aðaldagurinn var einmitt 16. Við fórum þangað með Claudio, vini vinar míns, sem á heima í Iquique og ég hafði aldrei hitt áður, en hann lóðsaði okkur um, þrátt fyrir gríðarlega þynnku, sem ekki batnaði þegar við komum á hátíðina sem einmitt einkennist af bumbuslætti og flautublæstri. Það er erfitt að lýsa andrúmsloftinu á La Tirana. Þetta er lítið þorp í eyðimörkinni þar sem búa nokkur gamalmenni, en einu sinni á ári koma þangað um tvö hundruð þúsund pílagrímar og ferðamenn, ferðamennirnir með myndavélar og pílagrímarnir sumir hverjir á brókinni einni skríðandi um göturnar í 30 stiga eyðimerkurhita.
Það er mikið dansað og spilað, ungir sem gamlir hafa greinilega æft sig lengi, mikil læti, sölubásar sem selja allt frá maríustyttum og talnaböndum upp í skólatöskur og strigaskó og matsölustaðir þar sem eru grillaðir kjúklingar, nautakjöt og lamadýrakjöt, sem er einmitt það sem við fengum okkur í hádegismat. Það var alveg óhugnanlega ljúffengt. Dansarnir og búningarnir minntu á karnival eins og maður myndi sjá í Brasilíu, en allt heldur siðsamara, enda allt Maríu mey til lofs og dýrðar.
Eftir La Tirana og Iquique fikruðum við Tiffany okkur upp til Arica, sem er nyrsta borg í Chile, og bara svona hálftíma frá landamærunum við Perú. Þar skoðuðum við okkur um, og sáum til dæmis furðulega kirkju hannaða af herra Eiffel (já sem gerði turninn). Hún var öll úr járni, til að standast jarðskjálfta, sem eru tíðir í Chile enda landið allt á flekamótum. Í Arica gistum við tvær nætur á gistiheimili don Luis, og don Luis tók fagnandi á móti okkur eins og gamall vinur, rottulegur en mjög vingjarnlegur maður með örmjótt yfirvaraskegg. Litlu hundarnir hans þrír hlupu um á þakinu og geltu. Ég þurfti að komast í internet og fékk að nota tölvuna á "skrifstofunni" hans, sem var meira lítil kompa með tölvu og rúmi og fullt af drasli. Á meðan ég skoðaði póstinn minn heyrði ég einhvern tala í síma mjög skrítinni rödd, svona undarlega skrækri kvenmannsrödd, þótt ég heyrði ekki orðaskil. Þegar ég kom fram sá ég að það var don Luis sjálfur sem var í símanum og hafði verið lengi. Hann þagnaði skyndilega þegar ég kom og tók fyrir tólið og talaði venjulega við mig, en þegar ég flýtti mér inn í herbergi hélt hann áfram að tala eins og kona. Þess ber að geta að klukkan var svona eitt um nótt. Ég er ekkert endilega viss um að ég vilji vita um hvað þetta símtal snerist þótt mig gruni ýmislegt, því næsta kvöld fengum við að horfa á dvd inni í herbergi hjá okkur, hann lánaði okkur spilarann sinn og sagði að hann ætti alveg heilan helling af bíómyndum sem við gætum horft á. Tiffany fór með honum til að velja mynd, og vissulega átti hann margar bíómyndir, það var engin lygi, en við vorum ekki beint í fílingnum að horfa á brjóst og rassa, ef þið skiljið. Einhverjar myndir voru þó inn á milli sem ekki voru bannaðar innan 18, þótt þær væru allar af götunni og þess vegna í misjöfnum gæðum (sem þýðir oftast að diskarnir virka ekki neitt). Til að gera stutta sögu styttri enduðum við á því að horfa á American Pie IV döbbaða á spænsku með frönskum texta. Morguninn eftir þurftum við að taka rútu eldsnemma svo klukkan sex tókum við leigubíl sem don Luis hafði pantað fyrir okkur, og svo stóð hann úti á götu og veifaði okkur bless þar til við vorum komnar úr sjónmáli.
Við vorum á leið til Putre, sem er agnarlítið frumbyggjaþorp nokkra klukkutíma frá Arica, á leið til Bólivíu. Þar er talsvert af gistiheimilum fyrir ferðamennina sem koma til að sjá allar náttúruperlurnar í þjóðgarðinum sem er þarna í kring, og þar héldum við líka til. Frá Putre fórum við í dagsferðir þar sem við sáum eldfjöll, stöðuvötn og hella, og skemmtileg dýr eins og vizcacha-kanínu með hala og allskyns lamadýrategundir, skoðuðum eldgamlar kirkjur og böðuðum okkur í heitum hver með rauðum leir.
Þar sem við vorum þarna í um 3700-4300 metra hæð var loftið heldur þunnt og ég átti frekar erfitt með andardrátt. Það hjálpaði við háfjallaveikinni að drekka kókalaufste um morguninn en ég get eiginlega fullyrt að í heila viku hafi ég ekki dregið almennilega andann nokkru sinni, varð þreytt af því einu að klæða mig í og dauðuppgefin af því að ganga upp tröppur, lystarlaus og andvaka og óglatt. Einkennin voru þó öll væg og ég kastaði til dæmis ekki upp eins og margir sem fara í þessa hæð. En allar hreyfingar þurftu að vera á hraða snigilsins til að mig færi ekki að svima og yrði óglatt, og ég var farin að þrá aðeins meira súrefni í andrúmsloftið mitt eftir þessa viku.
Frá Putre fórum við Tiffany nefnilega til La Paz í Bólivíu, sem er bara 5 klst frá Putre (á meðan höfuðborg Chile er í svona 33 klst fjarlægð). Þegar þangað var komið skildu leiðir því að ég hélt til Oruro að hitta SOS-barnið mitt og hún ætlaði að spóka sig í La Paz. Það var nú svo ótrúlegt að þennan hálftíma sem ég var á rútustöðinni í La Paz hitti ég vinkonu mína frá Mexíkó, hana Trilce, sem var einmitt að ferðast þarna um líka með vinkonum sínum. Það var eiginlega fáránleg tilviljun því þær voru líka þarna bara í nokkra klukkutíma. Rútuferðin til Oruro var ekki sú besta sem ég hef upplifað. Ennþá í hátt í 4000 metra hæð, dauðþreytt eftir að hafa þurft að standa í hinni rútunni, með grátandi smábörn allt í kring og pirrað fólk að öskra á foreldrana að þagga niður í börnunum, kolniðamyrkur en bílstjórinn alltaf að taka fram úr, oft mjög tæpt að mér fannst, mér hálfóglatt og fólk að borða kjúkling og sjúga majónes úr bréfinu, og svo blessaðir rútusölumennirnir sem eru enn fleiri í Bólivíu en í Chile. Þeir koma inn, biðjast innilega afsökunar á því að vera að tala þetta í rútunni en blaðra svo næsta hálftímann um hvað það er sem þeir eru að selja. Síðan kaupa kannski einn eða tveir það sem þeir voru að selja og þeir fara út úr rútunni. Svo einmitt þegar ég var farin að verða frekar hrædd við hvernig bílstjórinn ók sá ég rútu á hlið úti í kanti sem hafði lent í árekstri og stóran hóp fólks fyrir utan. Það var ekki til að bæta geðið. Það var frábært að komast til Oruro og bóka sig inn á næsta hótel sem ég sá (350 ikr nóttin).
Næsta morgun hringdi ég í barnaþorpið í Oruro og var sagt að ég mætti koma til þeirra klukkan tíu. Þangað fór ég með leigubíl (30 ikr) og don Alberto, sá sem sér um heimsóknirnar, tók vel á móti mér og gekk með mér að húsinu hans Felix míns. Felix er tíu ára strákur sem er búinn að búa í barnaþorpinu alveg frá því hann var eins árs, sem er óvenjulangt því að venjulega koma börnin seinna inn. Börnin búa 6-10 saman í húsi með einni móður, sem er ekki kynmóðir þeirra, en sem hefur valið sér að starfa sem SOS-móðir, sem þýðir að hún tekur að sér börnin sem hennar eigin.
Ég get svo svarið að það var eins og í slow motion í væminni bíómynd að hitta Felix. Ég sá hann koma á móti mér, svo byrjaði hann að hlaupa, og beint í fangið á mér, hann sagði "madrina!" (guðmóðir) og við féllumst í faðma. Hann var nýklipptur og vatnsgreiddur og ofsalega sætur og hafði fengið frí í skólanum þann daginn til að hitta mig. Hann leiddi mig heim til sín þar sem mamma hans og nokkur systkini, en þau eru tíu í allt, sem þýðir að það er aldrei lognmolla. Við lékum okkur smá með gjafirnar sem ég kom með og hann sagði mér frá því hvernig foreldrar hans gáfu honum ekki að borða og börðu hann og amma hans þurfti að fara með hann á spítala þar sem SOS-fólkið fann hann. Síðan komu öll hin börnin heim úr skólanum og við borðuðum hádegismat með allri fjölskyldunni, þríréttað í tilefni dagsins, og börnin fylgdust grannt með hverri einustu hreyfingu minni, hvort ég kláraði allt af disknum, hvort ég fengi mér þessa sósu eða hina, í hvaða röð ég borðaði matinn, og fannst ég alveg stórfurðuleg. Felix var hinsvegar ekkert feiminn. Eftir matinn gátum við spjallað aðeins meira og þá var feimnin fljót að hverfa hjá hinum og þau yngstu voru komin í fangið á mér og að leika sér með myndavélina mína, sem var alveg gríðarlega spennandi. Svo fór ég með Felix niður í bæ, eða réttara sagt fór hann með mig niður í bæ og sýndi mér um. Hann er ofsalega skýr strákur og sjálfstæður, kunni á alla strætóa og rataði út um allt. Við gáfum dúfunum á aðaltorginu, renndum okkur í rennibraut og blésum sápukúlur, spjölluðum heilmikið og skemmtum okkur mjög vel. Svo fórum við aftur heim þar sem börnin sátu og voru að læra heima með aðstoð kennara sem kemur af og til. Enda er ekkert grín að vera með tíu börn á grunnskólaaldri sem öll þurfa að læra heima. Kennarinn sagði mér að Felix væri mjög gáfaður strákur (þetta sagði allt fullorðna fólkið um hann) en stundum pínulítið latur. Ég held það sé bara af því hann veit hvað skiptir máli og finnst ekki mikið koma til þess að lita myndir, vill frekar reikna.
Yngsta systirin, hún Sara, sex ára, hafði fyrst verið pínu skelkuð við mig en síðan varð hún besta vinkona mín. Hún spurði mig: "Af hverju kemur þú ekki á hverjum degi?" Ég sagði "Af því ég á heima rosalega langt í burtu." Hún: "Í La Paz?" Ég: "Nei, miklu lengra" Svo taldi hún upp allar borgir í Bólivíu sem hún þekkti, og alltaf sagði ég nei. "Hvar þá eiginlega?" Og ég reyndi að skýra út að það þyrfti að fara yfir sjóinn og vera í flugvél í marga marga klukkutíma. Ég er ekki viss um að það hafi skilist almennilega, enda erfitt að ímynda sér það ef maður hefur aldrei séð hafið og þekkir varla einu sinni neinn sem hefur nokkurn tímann farið í flugvél.
Það er víst regla að styrktarforeldri sem koma í heimsókn megi ekki gista í þorpinu, en þau buðu mér að vera yfir nóttina, og þar sem ég vissi að þetta væri kannski eina skiptið sem ég hitti þau, og það var svo gaman, þáði ég það. Ég vona bara að það skapi ekki vandamál í þorpinu í framtíðinni, ef fleiri foreldrar koma í heimsókn. Við vöknuðum svo eldsnemma daginn eftir og ég fylgdi fimm yngstu krökkunum í skólann. Þar kvaddi ég þau öll, og þegar ég hafði knúsað síðasta barnið bless kom til mín pínulítill strákur skítugur í framan og knúsaði mig líka. Þá fékk ég sting í hjartað. Ég hef líklega litið út eins og einhver María mey, hvít og ljóshærð og faðmandi börn hægri vinstri.
Ég fór heim á hótelið með tárin í augunum. Ég vissi ekkert hvernig heimsóknin yrði fyrirfram og hafði ekki gert mér grein fyrir að ég myndi kynnast ekki bara Felix heldur öllum hinum börnunum svona vel á einum sólarhring. Vonandi get ég hitt þau einhvern tímann aftur.
Ég hafði ætlað að fara til La Paz sama dag en það voru mótmæli svo vegurinn var lokaður, svo ég var bara einn dag enn í Oruro. Þar sá ég til dæmis þessi fínu lamadýrafóstur sem galdrakonur seldu á básum ásamt öðrum nauðsynjavörum til fjölkynngi.
Í
Bólivía er allt öðruvísi en Chile. Þar er mun meiri fátækt, fólkið er flest frumbyggjar, þ.e. lítið blandað við Evrópubúana sem komu seinna, allt er miklu fátæklegra og margfalt ódýrara. Ég vissi þetta allt áður en þegar ég kom til La Paz fékk ég eiginlega kúltúrsjokk, og fannst ég loksins komin til Suður-Ameríku. Fólkið, bílarnir, mótmæli þar sem fólk skaut úr loftbyssum niðri í bæ, fátæktin, betlararnir og götubörnin, þetta var allt svo yfirþyrmandi, sérstaklega af því ég var þarna ein. Það var kannski ekki það merkilegasta þegar ég sá konur sitja á gangstéttinni með ritvélar að skrifa upp bréf fyrir fólk sem þarf á þeim að halda og er ólæst, en það hafði samt eitthvað svo mikil áhrif á mig, og ég áttaði mig á að kúltúrsjokkið var eiginlega meira að fara frá Santiago til Bólivíu en Íslandi til Santiago. Ég segi Santiago því að munurinn er mikill eftir landshlutum, já og bæjarhlutum. Partar af Santiago eru eins og La Paz, en það er mjög auðvelt að komast hjá því að sjá þessa fátækt nokkurn tímann með því að halda sig í sömu þremur eða fjórum hverfunum.
Það er sitthvað eftir af ferðinni, þ.e. öll ferðin til baka, en ég held að þetta sé orðið gott í bili. Sjáum til hvort mér endast kraftarnir í að klára þetta.
mánudagur, ágúst 11, 2008
Það er enginn hörgull á drama hér í húsinu frekar en venjulega. Þetta var trúnóhelgin mikla, þar sem ég fékk að heyra um ástamál margra vina minna. Enn á ný eru það þó aðallega strákarnir sem opna sig svona, enda eins og ég hef komið að hér áður miklum mun dramatískari en stelpurnar, þar sem þeir eru latínó og stelpurnar gringur. Vandamálin eru auðvitað þau sömu og alls staðar í heiminum, og snúast um sambönd, eða aðallega sambandsslit, hvort sem þau eru nýafstaðin og eftirséð eða yfirvofandi og óhjákvæmileg.
Rodrigo kom heim áðan, í frekar miklu uppnámi, settist við borðið hjá okkur og fékk sér af grænmetislasagnanu sem ég var allt eftirmiðdegið að elda oní allan herskarann, og tilkynnti okkur að í dag væri mikilvægur dagur í lífi hans. Hann hafði nefnilega komið út úr skápnum fyrir mömmu sinni. Ég hafði reyndar ekki hugmynd um að hann hefði ekki verið löngu búinn að segja henni það, þar sem hann er nú þrjátíu og fimm ára og kom út fyrir mörgum árum, en ég gleymdi víst smá að við erum í Chile, þar sem ekki eru nema fjörutíu ár síðan hommum var safnað saman, þeir settir upp í skip, svo var stímað út á rúmsjó og þeim sturtað útí. Auðvitað hefur margt breyst á þessum tíma en það er samt ekkert grín að "lenda í því" að vera gay. Að sjálfsögðu vissi mamma hans þetta alveg, enda var þetta orðið frekar bjánalegt, til dæmis að þeir skyldu alltaf fá að geyma dót Cesars kærastans hans inni hjá mér eða Kelly þegar mamman kom í heimsókn. Mamman tók þessu víst bara ágætlega (enda kannski búin að búast við þessu lengi), svo hann var alveg gríðarlega feginn. Hitt er aftur verra að hann veit ekki alveg hvað hann á að gera við sambandið sem hann er í, en það er önnur saga, sem og krabbamein föður hans, sem tók sig upp á ný og nú þarf að taka úr honum allar tennurnar.
Aðrar slæmar fréttir eru að nítján ára bróðir Sebastians vinar míns framdi sjálfsmorð í vikunni. Hann stökk fram af háu bjargi í borginni Arica alveg nyrst í Chile. Þetta eru hræðilegar fréttir og vinur minn er auðvitað alveg miður sín. Það var undarlegt að hugsa til þess að ég hafði klifið þessa sömu hæð bara tveimur vikum áður þegar ég var í Arica (myndir á Facebook, bjargið með stóru Kristsstyttunni). Maður veit lítið hvað skal segja þegar svona lagað gerist, enda kannski líka fátt að segja.
Ég skrapp til Valparaíso á föstudaginn til að hitta vini mína þar, það er alltaf notalegt, enda dekrað við mig á allan hátt og mikið um gott spjall og vín. Þar var auðvitað mikið rætt um Mörtu hina norsku, sem er enn sárt saknað, þótt nú séu komnir þrír mánuðir frá því hún fór. Einn vinanna er svo yfir sig ástfanginn af Kelly en hún fór líka til Valpo um helgina. Hann var svo spenntur að hitta hana en hún endaði á að gefa honum "þú ert næs gaur en ég held við ættum bara að vera vinir" ræðuna. Greyið hringdi í mig skælandi um leið og hann var búinn að kveðja hana svo ég þurfti að leika sálfræðing á meðan ég skar lauk í lasagnað.
Húlíó hinn mexíkóameríski gerir allt fyrir ástina eins og Páll Óskar og fer í fyrramálið til Perú til að hitta hana Petru sína, sem er þar á ferðalagi. Hann þarf reyndar að vaða eld og brennistein til að komast þangað því hann gerði ekki ráð fyrir að það er ekki það sama að ferðast í Bandaríkjum Norður-Ameríku og þriðjaheimsríkjunum í Suður-Ameríku, og sex klukkustunda rútuferð á blaði breytist í tuttugu tíma ferð í gamalli rútu með fiðurfé eða geitum, og brottfarartímar flugvéla eru meira svona viðmið en raunverulegur farartími. Honum tókst líka að lenda í slagsmálum, hann var einn á risastórum næturklúbbi sem er þekktur fyrir vandræði, tók tal við einhverja stelpu sem sat þar ein, en þá birtist auðvitað kærastinn og sparkar í höfuðið á honum þar sem hann situr, og lemur hann svo. Húlíó er frekar stór og þéttur (þótt hann hafi lést um svona 15 kíló frá því hann kom hingað, bara af því að hætta að borða bandarískan mat) og sneri hann fljótt niður, og þegar átti að bera hann út ásamt hinum voru vitni sem staðfestu að hann hefði ekki byrjað slagsmálin, svo hann slapp með skrekkinn, og flýtti sér heim.
Næsta helgi ætti að verða áhugaverð. Á fimmtudaginn er planið að fara á hommadiskó til að fagna fimmtugsafmæli Madonnu, sem er ekkert lítið mál, að minnsta kosti hér á bæ. Á föstudaginn út af einhverjum dýrlingnum og ég á von á heimsókn frá fyrrverandi kærasta vinkonu minnar og gítarnum hans, þar sem ég fæ að heyra um - nema hvað - þeirra sambandsslit, og svo eldsnemma á laugardaginn fer ég í kórferðalag, á kóramót í Andesfjöllunum. Það er eldriborgarakórinn í þetta sinn, og ég er komin með útfjólubláan kórbúning sem passar skuggalega vel á mig. Það var Ívan gamli sem útvegaði mér hann og hann virðist hafa stúderað óþægilega mikið hvernig ég er í laginu, því hann rétti mér kjólinn og sagði: "ég veit að þessi á eftir að smellpassa." Og svo sagði hann soldið annað dónalegra sem ég vil ekki hafa eftir hér.
Í dag var undarlegur dagur í Chile, Dagur barnsins. Hann gengur út á að foreldrar og guðforeldrar og afar og ömmur kaupa gjafir handa börnunum og fari með þau á McDonalds. Þetta básúna allar dótabúðir í margar vikur á undan svo það fari örugglega ekki framhjá nokkru barni að það eigi að biðja um dót fyrir þennan dag. Raunar eru allir svona dagar miklu mikilvægari hér en á Íslandi. Valentínusardagurinn, mæðradagurinn, feðradagurinn, vinadagurinn, allt eru þetta dagar sem hver einasti Chilebúi heldur upp á. Svona var þetta líka á Spáni, ætli þetta hafi eitthvað með kaþólskuna að gera?
Þetta er nú orðið gott. Ferðasagan bíður, en rúmið líka, og táknfræðitíminn á morgun.
Ég bið ykkur vel að lifa, og að hlusta á nýju Megasarplötuna, hún er dásemd. Tónlist.is hefur nýst mér vel.
(uppfært 12. ág. kl 00.39, bætti inn Húlíósögu og tók eitt umframorð)
fimmtudagur, ágúst 07, 2008
Ég og vinkona mín bandarísk ætluðum að finna okkur eitthvað skemmtilegt að gera eitt síðdegið í vikunni þar sem hún slapp snemma úr vinnu. Það var búið að rigna svolítið um daginn, bara nokkrir aumingjalegir dropar á strjáli, en viðvarandi þó. Mér datt ekki í hug að þetta myndi setja strik í reikninginn og kom með hverja snilldarhugmyndina á eftir annarri, skipulagði ferð í kirkjugarðinn sögufræga, á safn um pyntingarnar á einræðistímanum og meira að segja veðreiðar. En þessir dropar drógu allan mátt úr vinkonu minni. Hún hló bara að öllum mínum tillögum og hafnaði þeim með orðunum: "En það er rigning!"
Ég hafði eiginlega ekki áttað mig á því hvað við látum veðrið lítið angra okkur, og við sem höfum svona mikið af því. Hér kvartar fólk og kveinar fari hitinn undir 15 gráður og í rigningu lamast allt og fólk situr bara heima. Það var felld niður kóræfing um daginn því að það var svo kalt.
Ég man eftir djömmum í Reykjvíkurborg þar sem maður eður slabb upp á miðja nælonsokkaklædda kálfa í spariskónum til að komast á milli staða, bíður í röð í nístingskulda og reynir að skýla sér frá stórhríðinni með því að halla sér agnarögn of mikið upp að ókunnuga hávaxna manninum við hliðina á sér. Ég þarf samt að fara til Suður-Chile, þar ku veðráttan vera mun líkari því sem ég á að venjast, enda á svipaðri breiddargráðu, bara í hina áttina.
þriðjudagur, ágúst 05, 2008
Tíminn var "Táknfræði í kvikmyndum". Kennarinn er 82 ára, hávaxinn og glæsilegur með sítt skegg og hár, alveg eldklár og líklega nokkurs konar goðsögn, eftir því hvernig hann talaði og hvernig nemendurnir komu fram við hann, og af því að það er ýmislegt um hann á netinu, til dæmis þetta myndband af honum að spila á flautu. Ég sat heilluð í þrjá klukkutíma og fannst ég vera komin í tíma hjá Robert Langdon, enda byrjaði hann á að ræða táknfræði í Disneymyndinni Mjallhvíti, þaðan í Pentagon-bygginguna og hvernig formið á henni tengist frímúrurum og fornum kabbalah-kenningum um fimmhyrning sem táknar stríðsguðinn Mars, sem aftur tengist fimmhyrningnum í merki Súpermanns. Svo talaði hann heillengi um hversu mikið má lesa út úr fyrstu tveimur orðunum í Faðirvorinu, að maður tali ekki um ef maður heldur áfram. Þar á eftir voru það hans kenningar um 11. september 1973 (þegar Pinochet tók völd og Salvador Allende var drepinn) og samsæriskenning um páfaheimsókn til Chile, önnur um myndirnar úr Abu Ghraib þar sem bandarískir hermenn sjást pynta Íraka, sem hann heldur fram að hafi verið birtar viljandi af bandaríska hernum til að æsa upp allan hinn íslamska heim. Hann var líka með júngískan lestur á Rear Window eftir Hitchcock og sýndi okkur brot úr þremur myndum, Borgarljósum Chaplins, Royal Wedding með Fred Astaire og jólaþáttinn með Mr. Bean. Í öllum þessum brotum sýndi hann okkur falin skilaboð, eins og í þessu atriði, sem virðist vita meinlaust, bara sætur dans í upphafsatriði Royal Wedding. Þessi dans táknar hins vegar baráttu Bandaríkjanna fyrir sjálfstæði frá Bretum, Astaire táknar gamla konungsveldið og stúlkan er nýlendan freistandi, sem nýtir tækifærið og rænir hann krúnunni, svo hann neyðist til að láta hana fá aðra til að heimta sína til baka. Myndin er frá 1951 en á að gerast 1947 þegar það var konunglegt brúðkaup í London, ofsa djúsí. Miðað við þetta getið þið ímyndað ykkur hvað hann fann hjá Chaplin og Mr. Bean.
Ég veit ekki hvort ég held áfram í þessum tíma, því ég get ekki fengið hann metinn við HÍ þar sem hann er ekki á MA-stigi, en ég skemmti mér að minnsta kosti stórvel í þessum tíma, sama hvað verður. Þetta er kannski heldur mikið af samsæriskenningum fyrir mig, ef fram heldur sem horfir, því þótt það sé gaman að þeim verður það líklega fullmikið að hlusta á í þrjá tíma á viku. Sjálfur sagði kennarinn að þessi kúrs myndi breyta lífi okkar, og að við myndum ekki sjá bíómyndir, já eða nokkurt listform, í sama ljósi aftur. Hann ætlaði að svipta okkur sakleysinu.
Í morgun fór ég líka til læknis, lýtalæknis reyndar, út af örinu á enninu, vildi bara athuga hvað er hægt að gera. Það er svosem ekki í frásögur færandi nema af því að inni hjá lækninum var ég í mesta lagi fimm mínútur en allt stússið við að fá að borga fyrir tímann tók mig einn og hálfan tíma. Eins gott að ég mætti 40 mínútum fyrr til læknisins til að redda þessu öllu, samt var ég ekki búin fyrr en korteri eftir að ég átti pantaðan tíma, og átti þá eftir að redda fleiru eftir tímann. Ég var send á milli bygginga, og innan bygginga á milli sala, innan sala á milli borða, og svo fram og til baka endalaust á milli allra þessara aðila. Og þetta er fínasta og þróaðasta heilsugæsla landsins, eða um það bil. En þrátt fyrir lúxusinn er flækjustigið hið sama og á þeim vanþróaðri, gott ef ekki enn meira.
Vonandi skemmtu allir sér fallega um verslunarmannahelgina, ég lét mér nú eiginlega bara leiðast og hlustaði á Julio tala um svissnesku ástina sína sem er núna farin í ferðalag og hann mun bara sjá nokkra daga í viðbót þegar hún kemur hér við á ferðum sínum. Hann er furðuleg blanda af mexíkóa annars vegar og hreinræktuðum Texasbúa hins vegar, sem talar hátt um réttindi sín sem Bandaríkjamanns og gerir mig stundum alveg brjálaða með blaðrinu í sér.
Þá er það rúmið, en fyrst eitt vídjó, þetta er úr Magnificat eftir John Rutter, sem ég er að fara að syngja á tónleikum á fimmtudaginn ef einhver vill kíkja. Ókeypis inn.
Fecit Potentiam