miðvikudagur, janúar 31, 2007

Lexikógrafía

Geirvarta KVK líf./lækn. - annar af tveimur brúnum kringlóttum vörtum framan á bringu, op mjólkurrása hjá konum (Íslensk orðabók 3. útg. 2002)

... stundum nægja orð bara alls ekki.

p.s. þetta er greinilega skrifað af hvítum karlmanni. Eru allar geirvörtur brúnar?

p.p.s. að maður minnist ekki á furðulega "kynvillu" í orðunum annar-vörtu

p.p.p.s við flettuna varta stendur "bólulaga hornmyndun á húð (t.d. á handarbaki manns)". Orðið hornmyndun finnst ekki í Íslenskri orðabók, en á netinu má sjá að hugtakið er það sama og keratinization, sem er þegar keratín er í miklu magni í frumum svo þær verða harðar, (eins og í hári og nöglum). Á lítið skylt við vörturnar hans Geirs.

Læt hér fljóta með þetta vísukorn eftir hann Megas:

geir minn geir með vörtu
grátbólginn klæddur svörtu
kveð ég þitt lúsuga lókal
læði á brott mínum lók al-
vöruþrunginn og þunnur
það þrífst síst nokkur gunnur
mér á sjúku sinni
en seg mér hvað líður hringvöðvabólgunni í leghálsopinu á langömmu þinni

þriðjudagur, janúar 30, 2007

Strákarnir okkar™ og stelpurnar okkar

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að nokkrir ráðherrar íslenska lýðveldisins séu staddir í Þýskalandi til að "styðja við bakið á" Strákunum okkar™. Svo eru ráðherrarnir taldir upp, og það eru Þorgerður Katrín, Jónína Bjartmarz, Valgerður Bjarna, og Siv ætlaði líka en komst ekki. Ef mér skjátlast ekki eru þetta allt konur. Nú má vera að (a.m.k. á Íslandi) höfði handbolti meira til kvenna en t.d. fótbolti, en eru ENGIR karlkyns ráðherrar mættir? Eða er þetta svona frúarferð af Alþingi, skreppitúr af því það er svo voða lítið að gera á þingi? Er ekkert um að tala eftir allt málþófið? Og hvernig ætla þær að styðja við bakið á blessuðum Strákunum okkar™? Með því að sitja og horfa? Hversu magnað augnaráð hafa þær eiginlega?

Svo er gott gengi Strákanna okkar™ kannski allt Þorgerði Katrínu að þakka, þar sem hún er búin að sitja þarna síðustu leiki og horfa, hvað veit ég? Was weiss ich? ¿Yo qué sé?

sunnudagur, janúar 28, 2007

Sjokk dagsins

Orðið 'bragðlaus' er ekki í Íslenskri orðabók!

Orð dagsins

'hjáásssvið' (ekki spyrja mig hvað það þýðir)

Orðasamband dagsins

bíta tönnum í gras (gefa upp öndina)

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Smáborgari

...heitir á spænsku það nákvæmlega sama, eða:

'pequeñoburgués' (peque
ño = lítill, smár; burgués = borgari)

sem væri á ensku:

'smallburger'

Merkilegt, ekki satt?
'A B C D F E G' eða 'um rétta skipan stafa í stafrófi'

Mér hefur alltaf fundist að F ætti að koma á undan E í stafrófinu. Ég ímyndaði mér þegar ég var lítil að hver stafur hefði persónuleika og F ÁTTI bara að koma á undan, en hann var svo feiminn að hann þorði ekki að troða sér. Þetta er örugglega einhver tegund af synaesthesiu og hefur d0fnað mjög með árunum. Ég nota þennan hæfileika (ef hæfileika skal kalla) samt oft, þ.e. að gefa stöfum, nótum eða tölum persónuleika, t.d. þegar ég læri undir próf. Mjög hentugt.

En hvað um það, nú legg ég til að F verði fært á undan E í stafrófinu. Þá er bara að framfylgja því, hver er með?

(eina er að þá stuðlar stafrófslagið ekki jafn vel)

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Sundurlausir þankar

  • Hvernig var það... eru allir hættir að segja “bíttar ekki máli”?

  • Fimm rækjur á tilboði á aðeins fjögurhundruðkall á McDonalds. Finnst einhverjum öðrum það ekkert voðalega ódýrt?

  • Á síðustu önn var ég með kennara sem minnti mig óþægilega mikið á Dilbert. Í útliti þ.e.

  • Maður á aldrei að skrifa bréf þegar maður er reiður. Eða jú, maður má skrifa þau, en ALLS EKKI SENDA ÞAU!

  • Mæli með síðunni vistaprint.com. Ókeypis nafnspjöld fyrir wannabe-snobbara.

  • Hver vill koma í súkkulaðifondú?

sunnudagur, janúar 21, 2007

Andlaus

Afskaplega er erfitt að blogga þegar maður hefur ekki bloggað lengi. Svona eins og það er erfitt að koma sér í gírinn að fara í ræktina reglulega. Þegar maður hefur ekki gert það lengi finnst manni að það breyti nú litlu þó maður sleppi einum degi í viðbót og svo er allt í einu liðinn heillangur tími og þá er ennþá erfiðara að byrja. Nú finnst mér ég þurfa að koma með eitthvað tímamótablogg en því er nú ekki að heilsa, ég eyði tímanum í að lesa en ekki skrifa þessa dagana. Enda fæ ég borgað fyrir að lesa... ekki skrifa.

En voða eru þeir vængbrotnir, sportararnir (les íþróttafréttamennirnir) núna, sportdeildin er við hliðina á próförkinni og ég stakk hausnum í hornið til þeirra rétt áðan til að spyrja: "Töpuðum við?" Og fékk til baka óskaplega dapurlegt og samtaka jánk frá þeim. Engin orð, bara sorg. Ég er þó laus undan þessari pínu, að þurfa að taka inn á mig rassskellingar einhverra Íslendinga úti í heimi. Enda finnst mér nóg um þegar heil þjóð veltir fyrir sér í marga daga ástandi axlar á einum ljóshærðum gutta.

Ný önn er hafin, ég er í 13,5 einingum en líður eins og þær séu svona 30. Verð víst að viðurkenna að það er kannski smámunur á BA- og meistaranámi. En rosalega verð ég orðin gáfuð í maí!

Yfir og út, lofa bættri bloggtíð.

föstudagur, janúar 05, 2007

Bömmer

Og hver segir að prófarkalesarar séu óþarfir...