Annað langafakvæði
Þetta kveður afi gamli til ömmu þegar vel liggur á honum.
Smekkur piparsveinsins
Sjái ég marga svanna fríða,
sálin alveg tekst á loft.
Ætti ég kannski enn að bíða?
Ég er að fyllast piparkvíða,
þetta skeður ekki oft.
En hvernig hún aðeins á að vera
ykkur skal ég greina frá;
Það er ætíð um að gera
að hún hafi til að bera
allt sem vekur ástarþrá.
Með permanett og póstólufætur,
pokabrjóst og mjaðmalaus.
Henni ég verð að gefa gætur
og greina sundur eðlisrætur,
því ekki er ég neinn asnahaus.
Varirnar eiga að vera nettar
vættar ögn í súpulit,
hrukka á enni og hendur þéttar,
herðarnar að ofan sléttar
í henni sé ekkert vit.
Og rauða kinn af rótarbréfi,
rangeygða með brúnastrik,
Kálfa mjóa og kartöflunefi,
kunni ekki að svara bréfi.
Hér er eflaust hægt um vik.
En þegar hún er í öllum skrúða
eins og rúllupylsa að sjá;
heitan kroppinn hún skal dúða,
huppaklemmu og lendapúða
og eitthvað svolítið aftan á.
Þá skal hún kunna graut að gera
grjónin þá að brenni við,
ösku og sorpið út að bera
úr því mun ég sjálfur skera
hvenær þarf að leggja lið.
Að prjóna sokka og peysu víða
poka bæta og gera skó
það vanda minna verður að bíða
vænum manni á að hlýða
gráðugt mun ég sækja sjó.
Þær sem hafa þessa kosti
þurfa ekki að kvíða neitt.
Æ, mig kvelur ástarþorsti,
einhver þarna til mín brosti
innan rifja er mér heitt.