föstudagur, júní 27, 2008

Af eldri mönnum og ástföngnum

Þá er haustönnin alveg að verða búin. Ég kláraði tvo kúrsa í dag og á mánudaginn er próf og ritgerðaskil í þeim síðasta. Það er heilmikill léttir. Svo fer ég bráðum til Argentínu (9. júlí) í nokkurra daga ferð. Þar hitti ég rithöfundinn "vin minn", þann argentínska sem ég hef þýtt smásögur eftir. Hann bauðst til að sýna mér Buenos Aires, og ég auðvitað þáði það.

En þetta er ekki eini heldri og eldri maðurinn sem býður mér út (og þetta er góð saga). Í kórnum mínum með öllu gamla fólkinu er hann Ívan, sem er eitthvað á áttræðisaldri, og er alveg voðalega hrifinn af mér. Hann kyssir mig í bak og fyrir á hverri æfingu og segist dreyma mig um nætur. Konan hans var kórstjóri í kórnum en hún lést fyrir ári síðan, en hann er formaður kórsins og aðalmaðurinn í öllu kórastarfi í Chile, eða virðist vera það. Um helgina eftir kóræfingu fórum við nokkur saman út að borða (á stað þar sem Pablo Neruda borðaði alltaf, og þar sem skammtarnir eru svo stórir að ef maður skiptir þeim í tvennt er það samt of mikið) og svo heim til hans. Hann á heima á miðri AÐALdjammgötu bæjarins, Pio Nono í Bellavista-hverfinu, á annarri hæð, svo að það að fara út á svalir, sama hvaða kvöld vikunnar, er eins og að vera á svölunum á Sólon klukkan þrjú á föstudagskvöldi. Þarna býr semsagt Ívan, í risastórri íbúð sem minnir helst á safn, fullt af minjagripum alls staðar að, því þau hjón ferðuðust mikið, hann óperusöngvari og hún kórstjóri. Það var mjög skemmtilegt kvöld, þau tóku fram gítar og sungu sömbur þar til klukkan var að ganga fjögur (þetta var mest allt fólk komið af léttasta skeiði) og Ívan gaf mér litla keramikflautu og fallegan trefil (sem konan hans hafði líklega átt). Hann var á góðri leið með að gefa mér peysu af henni líka en ég náði að stoppa það af í tæka tíð.

Hann spurði hvort ég hefði gaman að óperum, jú, ég hafði það, svo hann sagðist eiga tvo miða á Grímudansleik Verdis (Un ballo in maschera) og að hann vildi bjóða mér. Ég vildi auðvitað fara í óperuna, svo núna á þriðjudaginn hittumst við niðrí bæ, fengum okkur heitt súkkulaði og tertusneið og fórum svo í óperuna í borgarleikhúsinu. Það var bara ofsalega gaman, frábærir söngvarar og flott umgjörð, og eftir á fór hann með mig baksviðs, því hann vann þarna sem óperusöngvari og þekkti alla. Þar sýndi hann mér sviðið og kynnti mig fyrir öllum aðalsöngvurunum og stjórnendunum, þar á meðal gríska sópraninum Sofíu Mitropoulos, sem sagði mér að hún hefði komið til Íslands í september og sungið með "Jóhannsson".

Þetta var auðvitað ekki venjulegasta deit í heimi, hann verandi fimmtíu árum eldri en ég, en minnti þó skuggalega mikið á slíkt. (Texasbúinn hafði sagt þegar ég var að hafa mig til: "Just don´t give him a heart attack.") Þegar ég loksins kom heim, eftir að hafa hafnað svona tuttugu sinnum að fara með honum út að borða, beið mín Rodrigo þungur á brún. Honum leist ekkert á þetta og sagðist myndu lemja hann ef hann færi eitthvað að kássast upp á mig. Hann passar mig vel, það má hann eiga, Rodrigo. En ég lofaði honum að gamlinginn héldi sér alveg innan siðsemismarka, kannski ekki alveg sannleikanum samkvæmt, en nógu þó. Ég veit alveg að þeim gamla finnst bara voðalega gaman að fá að spássera um götur bæjarins með ljóshærða unga stúlku upp á arminn. Það sem ég hlýt þó að spyrja mig er: Af hverju get ég ekki fundið einhvern á mínum aldri??

Hér í húsinu var verið að yngja upp, eins og í öllum góðum sápum, og inn eru komnir tveir nýir leikendur, Húlíó frá Texas og Petra frá Sviss. Húlíó er af mexíkóskum ættum og vinnur hér fram í desember hjá heitasta arkitekti í Chile, Mattíasi Klotz, og Petra er hér í mánuð í málaskóla. Hún er svona feimin stelpa með sterkan þýskan hreim og frekar uppburðarlítil eitthvað. Húlíó hins vegar er mjög sjarmerandi, í laginu eins og bangsi og reitir af sér brandarana, til dæmis um öll mótorhjólaslysin sem hann hefur lent í, sem fylla hátt í tug. Já, honum tekst meira að segja að gera umferðarslys brjálæðislega fyndin, svo við lágum allar í krampa grenjandi af hlátri.

En eins og það vantaði einhverja meiri rómantík og drama í húsið, þá kom Húlíó til mín í gær og játaði fyrir mér hvað hann væri hrifinn af Petru. Þau eru búin að fara út núna saman síðastliðin nokkur kvöld og "really hit it off" að hans sögn. Hann segist bara elska hreiminn hennar, augun, brosið... já allt það. Ég varð pínu hissa, en auðvitað bara mjög glöð fyrir hans hönd. Ekki veit ég hvað þeirri svissnesku finnst, en vona að þau geti bara dúllað sér í smá rómans þennan mánuð sem hún er hérna.

Eitthvað höfðu heyrst raddir hér í húsinu um að ég hefði ekki lagt nógu mikið til málanna í sápuna okkar, en ég held að með afadeitinu mínu hafi ég náð að fylla upp í minn kvóta, að minnsta kosti út þennan mánuðinn. Svo er aldrei að vita upp á hverju maður tekur næst, nú fer ég í mánaðarfrí frá skólanum og svona, vonum bara að það verði ekki annað slys.

12 ummæli:

Magnús sagði...

Hér er tenging. Þegar ég var fimm ára vorum við stóri bróðir minn einu sinni andvaka út af hávaðanum í partíi sem pabbi og mamma voru að halda. Við reyndum þolinmóðir að sofna en þegar einhver karlfrunti var búinn að öskra eins og sálsjúkt naut góða stund var okkur nóg boðið þannig að við fórum fram og mótmæltum. Komu þá vöflur á blikksmiðshelvítið sauðdrukkna Jóhannsson.

Að því sögðu vil ég taka sérstaklega fram að æska mín var mjög ánægjuleg og foreldrar mínir hafa alla tíð neytt áfengis af hófsemi.

Þura sagði...

Ég hef farið á deit (mörg) sem hafa átt að vera alvöru deit, en hafa verið minni deit heldur en þetta afa-deit þitt!!!

Heitt súkkulaði og ópera! það fylgir gjörsamlega
bæjarins bestu + bíó
formúlunni um löglegt deit!!

Já og by the way, þegar strákur/maður/kall segist 'eiga miða' í óperu/leikhús/tónleika/o.s.frv. þá er hann að ljúga...!
Hann getur keypt/reddað miðum, en hann segist eiga miðana til að fá þig til að samþykkja deit.

;)

Yfir og

Svanhvít sagði...

Þetta var algjörlega löglegt deit sko, hann meira að segja hringdi á eftir til að tékka á mér... púff.

Að því sögðu vil ég taka sérstaklega fram að ég hef ekkert á móti deitum, en væri svona eiginlega frekar til í að hitta einhvern á mínu reki, til dæmis sem er ekki orðinn afi eða langafi...


Og þetta er satt með miðana Þura, en værir þú frekar til í að gaurinn "ætti miða" og væri með þá tilbúna áður en hann spyrði, annaðhvort svo viss um að hann fengi þig með eða þá með svo marga kandidata fyrir miðana að hann spyr þá bara næstu í röðinni? Þá vil ég frekar að hann fari í stresskasti á midi.is og reddi sér miðum þegar hann er búinn að tryggja deitið;)

Þura sagði...

Gott að heyra að þú ert með allar deitreglur á hreinu! :)

Já gaur sem velur 'miða' á undan 'stelpu' þegar hann er að plana félagslífið sitt er ekki mjög spennandi, held það sé grúppa um það á feisbúkk.

Ég hef reyndar farið út með gaur sem átti miða áður en hann bauð mér (eftir því sem ég best veit) og það var svona 'venue and drinks' deit, nema hvað það var svo ekki deit (mig langaði bara að sjá það sem hann bauð mér á)

s.s. já og amen við öllu :)

Gunni sagði...

U.þ.b. korteri áður en ég las þessa færslu, hringdi maður frá Landsbankanum í mig og tjáði mér að ég hafi unnið tvo miða á Mama Mia í Laugarásbíó á fimmtudaginn klukka átta.

Vegna lágrar sápuvísitölu þinnar er þér hér með boðið á deit á fimmtudaginn. Bíó og bjór.

En þar sem ég er á Hellu og þú í Síle er auðséð að af deitinu verður varla.

En engu að síður getur þú sagt fólkinu í húsinu að fjallmyndarlegur maður á þínu reki hafi boðið þér á deit.

Sigurrós sagði...

alltaf skaltu lenda i thvilikum aevintyrum kona! sendi ther post bradlega, erum i koben og thad er aedi!
Svavar bidur ad heilsa.

Nafnlaus sagði...

Jahhhh það er allavega meiri rómantík hjá þér en mér... áfram svona!

Svanhvít sagði...

Gunni tussa, þetta kemur eins og himnasending! Nú gúgla ég mynd af fjallmyndarlega ljóshærða manninum sem bauð mér á alvöru deit, sem sönnunargagn. Verst að ég þarf að fara á kóræfingu á fimmtudaginn.

Já rómantík já, það er allavega nóg af furðufuglum hérna sem segja ótrúlegustu hluti... þær sögur eru ekki endilega birtingarhæfar.

Sakna ykkar stelpur...

og eva, jú, HÁsumar um jólin...

Tóta sagði...

Er Argentínski rithöfundurinn sem þú átt stefnumót við í Buenos Aires ekki á lausu? Eða er hann kannski líka á áttræðisaldri?

Svanhvít sagði...

Hann er líklega um sextugt, og vonandi ekki á lausu...

Nafnlaus sagði...

Sæl Svanhvít, rakst á síðuna þína, heldur betur skemmtileg lesning! Ég sé þig alveg fyrir mér tala þegar ég er að lesa, það er yndislegt :)

mér finnst gamlingja deitið krúttlegt, bara um að gera að njóta lífsins.

Bestu kveðjur Villa fyrrum íslenskunemi.

Tinnuli sagði...

HÆ! Þessar suður-amerísku ástir eru farnar að minna óþægilega mikið á Gabriel Garcia-Marquez og döpru hórurnar hans!!!! En ég segi bara, áfram með deitin, hver spyr að aldri og einmitt rétt sem þú segir: hann vill bara spássera um með fögru og fölu (!) fljóði.. ég meina, hver vill það ekki! Á meðan þið skemmtið ykkur saman sé ég ekkert að svona selskap. Latínóloverinn er svo bara rétt handan við hornið, ég finn það á mér, og þá verða sko ekki gefin nein grið!