Það er svo heitt hérna að það er erfitt að syngja. Það er bara eins og hitinn standi í hálsinum á manni og meini níundu sinfóníunni útgöngu úr kverkunum. Það leiðir til svima sem er hvimleiður í slagtogi við svitann og sólbrunann.
Það var ágætt í vetur að smokra sér inn í hlýjan metró troðfullan af fólki í bólstruðum vetrarfötum sem gerðu það þægilegra, eða í það minnsta þolanlegra, að híma þarna í sardínudósinni þar til á áfangastað. Nú er hitinn í kringum þrjátíu gráður upp á hvern dag og fólk klæðir sig eftir því, svo nú þarf maður að gera sér að góðu svita ókunnugra til viðbótar við sinn eigin, þvala handleggi, blauta krika og aukið skorugláp.
Ég ætla samt ekki að kvarta meira yfir hitanum enda veit ég að flestir sem lesa þetta eru á Íslandi. 'Nuff said.
Ég á bara eftir að skrifa eina ritgerð og þá er ég komin í sumarfrí, eða réttara sagt búin með námið mitt hérna, eins ótrúlega og það hljómar. Er að lauma mér út úr Mozart-kórnum með öllum gamlingjunum og að sögn vinar míns þar hata þeir mig allir núna. Þetta er mikill prófsteinn fyrir mig þar sem ég er alltof vön því að vilja endalaust þóknast öllum til að fólki líki vel við mig. Það var bara komið meira en nóg af þessum kór. Altinn lagði allt traust á mig og fór í fýlu og neitaði að syngja ef ég var ekki á æfingu, við erum búin að vera með sama prógramm síðan ég byrjaði og ennþá er það ekki nógu gott, kórstjórnin er ekki eins og ég vildi hafa hana og svo er það sá áttræði sem lætur mig ekki í friði og hefur gefið mér efni í ágætis kynferðisáreitniskæru væri ég í svoleiðis stuði.
Ég hef heimildir fyrir því að einhverjir sakni sápunnar sem hér var svo áberandi fyrri hluta árs. Hér í húsinu hafa hlutir róast alltof mikið, allir komnir á fast eða eru bara ofsalega slappir (mikið voðalega eru evrópskir strákar óspennandi - algjörlega gerilsneyddir). Það sem hefur þó komið í staðinn og stendur hinni upprunalegu sápu fyllilega snúning er spinoff-hommasápa í léttum dúr, þó með dramatískum undirtóni.
Nú er staðan nefnilega þannig að ég á næstum því bara samykynhneigða vini. Þetta skrifaði ég 28. ágúst sl.:
Já, eitt enn, á síðustu vikum hef ég komist að því að langflestir vinir mínir frá Chile eru samkynhneigðir. Ekki orð um það meir núna, kemur seinna. Enda kemur einhver nýr út fyrir mér á hverjum degi eða því sem næst, svo ómögulegt að segja hvað þeir verða orðnir margir í næstu færslu.
Síðan þá hafa að minnsta kosti þrír í viðbót komið út úr skápnum, og margir skotið upp kollinum sem ég hafði ekki hugmynd um að væri gay, strákar og stelpur.
Það er varla að ég nenni að fara nánar í saumana á þessari sápu því að hún er svo flókin og krosstengsl svo mikil að slagar upp í þessa hér gæja.
Í staðinn hendi ég inn mynd af okkur öllum saman, í barokkhópnum okkar. Á morgun höldum við tónleika í stúlknaskóla með nunnum og öllu, og flytjum Magnificat eftir Buxtehude (við spilum fiðlupartinn með blokkflautum).