39
Þetta birti ég á Facebook og smelli því hingað líka.
Nú eru allir að gera lista, en þar sem mér finnst algjör óþarfi að afhjúpa það litla sem fólk kynni ekki að vita um mig nú þegar, eða að reyna að semja enn frumlegri svör við sömu spurningunum og allir aðrir eru búnir að svara, gerði ég öðruvísi lista, í tilefni af því að nú er ég búin að vera í eitt ár í Chile.
Hér eru nokkur atriði sem ég hef tekið eftir á þessu ári og fundist athyglisvert, skrítið, skemmtilegt, leiðinlegt, sorglegt eða fyndið (þó að auðvitað eigi margt alls ekki bara við um Chile) en kippi mér ekki upp við lengur.
1. Að láta þéra mig. Og þurfa að þéra.
2. Að fólk sitji úti á bekk eða úti á grasi í hörkusleik um hábjartan dag. Fólk eldra en foreldrar mínir.
3. Stunurnar sem berast úr mótelunum sem umkringja húsið mitt, þar sem fólk kaupir sér þemaherbergi (arabískt, frumskógar, o.s.frv...) í nokkra klukkutíma til að leika sér.
4. Að avókadó sé ekki munaðarvara heldur borðað stappað ofan á brauð hversdags.
5. Að borða aðalmáltíðina í kringum 14 á daginn.
6. Að allir drekki neskaffi... og finnist ekkert að því.
7. Að vera ekki alltaf sú langminnsta.
8. Að finnast rándýrt að borga 72 krónur í strætó/metró.
9. Að henda klósettpappírnum ekki í klósettið heldur í ruslafötu. (Ókei, það er ennþá pínu skrýtið. Og ekki einn af siðunum sem ég ætla að taka heim með mér.)
10. Að á kvöldin fyllist gatan mín af klæðskiptingum og vændiskonum sem klípa vini mína í rassinn þegar þeir ganga framhjá.
11. Afslappaðri klæðaburður. T.d. að það sé hlægilegt að klæða sig upp fyrir matarboð hjá vini, og að nýþvegnar gallabuxur séu fínar á aðfangadagskvöld. (Við mættum alveg slappa aðeins af á Íslandi með klæðaburðinn finnst mér.)
12. Að fólk geti ekki farið í háskólanám eða leitað sér almennilegra lækninga ef fjölskyldan á ekki pening.
13. Að fyrir aðeins 20 árum hafi einræðisherra verið við völd í landinu sem lét þúsundir manns hverfa. Og að enn í dag skiptist fólk algjörlega í tvær fylkingar í afstöðu til þessa.
14. Að fólk búi hjá foreldrunum fram yfir þrítugt án þess að vera lúserar.
15. Að allir sem eru ekki með svart hár séu „ljóshærðir“.
16. Að götuhundarnir kunni að fara yfir á grænu (en kettirnir ekki).
17. Endalausir tvíræðnir brandarar með kynferðislegum tilvísunum. Allt sem er ílangt í laginu, allt sem er eitthvað sem fer inn í eitthvað annað, allt sem hefur að gera með karl og konu, konu og konu eða karl og karl, er efni í gott grín. Eða ekki svo gott grín.
18. Bjór í lítraflöskum og slepjulegar franskar.
19. Að þurfa að tala við minnst þrjá búðarstarfsmenn til að kaupa sér einn penna.
20. Að vinir mínir keyri þótt þeir hafi drukkið.
21. Að tala á spænsku – nei, fyrirgefiði, chileísku.
22. Að fara í sturtuna í ræktinni og sjá ekki eina einustu allsbera konu, þar sem þær klæða sig inni í lokuðum sturtuklefanum eða með einhverjum göldrum sem ég ekki kann, vegna spéhræðslu.
23. Að eiga mun minna einkalíf og engin leyndarmál, þar sem í vinahópnum vita allir allt um alla. Einnig að vita stundum einum of mikið um einkamál annarra.
24. Að löggurnar séu grænklæddir frá húfu niður í sokka.
25. Að fóstureyðingar séu bannaðar, sem og daginn eftir pillan, og túrtappar sjaldséðir.
26. Ofurdramatísk MSN- og Facebook-statusöppdeit.
27. Að leyfa karlmönnum að opna dyrnar, bera pokana, borga drykkinn, klæða mann í kápuna o.s.frv. án þess að malda í móinn (erfitt).
28. Sumarjól, haustpáskar, júlívetur og septembervor.
29. Sölumennirnir í strætó sem halda langar og tilfinningaþrungnar ræður um gæði varnings síns, plástra, naglaþjala, sykraðra mandlna, aspiríns, innanklæðaveskja eða pakkabönd.
30. Að heita Lilja, Lilia, Lilian, Liliana, Lili, Lydia, Lila, Lilly, Lil... allt annað en Svanhvít, hvað þá Svanhvít Lilja Ingólfsdóttir, því að ef ég segi það upphátt heldur fólk að ég sé að ræskja mig eða hrækja, og ef ég skrifa það niður heldur fólk að ég hafi fengið krampa eða að köttur hafi labbað yfir lyklaborðið.
31. Að fólk ljúgi. Nei, annars, ég get ekki vanist því. Það er alltof mikið um lygar hér, af öllum gerðum, hvítum, sakleysislegum, til að redda málunum, til að fresta óþægilegheitum, til að halda í kærastann/kærustuna, til að bjarga andlitinu, og stundum að því er virðist ekki til neins, nema til að ljúga.
32. Að flysja tómata.
33. Að heilsa og kveðja alltaf með kossi á kinn, jafnvel kennara og lækna.
34. Að búa í milljónaborg í Suður-Ameríku með öllu sem því fylgir, fólksmergð, mengun, þjófnaður, ofbeldi, brjáluð umferð, rusl, betlarar, götuhundar, vændiskonur, sígaunakonur, látbragðsleikarar, læti, hiti, fýla, mótmæli, tónleikar, ljósaskilti, hnetusalar, vatnssalar á rauðum ljósum, grænmetismarkaðir, styttur, háhýsi, óléttar konur, glápandi karlar, eldgamlar frumbyggjakonur, gullfallegir karlmenn, lítil börn, ísbúðir, almenningsgarðar, kirkjur, sérvitringar, barir, kirkjugarðar, Andesfjöllin við sólarlag, ástfangin pör, handarkriki í andlit í yfirfullum metró, unglingar í skólabúningum og allt hitt sem ég elska svo mikið við þessa borg.
35. Að deila íbúð með drápskóngulóm og tígrisköngulóm (hinar síðarnefndu eru góðar og éta drápskóngulærnar svo þær eru látnar í friði).
36. Að fólk bresti í dans án þess að vera búið að drekka.
37. Miklu fleiri orð til að segja miklu minna. Ekki „Til hamingju með afmælið“ heldur „Elsku ___, ég vona að þessi dagur verði þér ógleymanlegur og að allar þínar óskir rætist á árinu. Megi heillastjörnur vaka yfir þér, þú ert dásamleg manneskja sem mér þykir ógurlega vænt um og þú átt allt hið besta skilið. Ég sendi þér risastórt faðmlag og þúsund kossa, farðu vel með þig og við sjáumst vonandi bráðum, bless bless, koss, _____“
38. Karlmenn sem gráta og konur sem slást.
39. Að vera ætíð og eilíflega útlendingur í þessu landi og skera mig út úr hvar sem ég fer.
mánudagur, febrúar 23, 2009
þriðjudagur, febrúar 17, 2009
Mi vida últimamente
Febrúar meira en hálfnaður, hvernig sem stendur á því. Ég er búin að hafa það mjög gott, þó að hitinn hérna slefi upp í líkamshita, eða eins og einn vinur minn orðaði það "ég kem heim úr vinnunni á hverjum degi með kúkinn sjóðandi". Stundum fer líkaminn í hitaverkfall og þá er lítið sem hægt er að gera. Hitinn er þó þurr, alveg skraufþurr, enda hefur ekki rignt hérna í einhverja mánuði - sem betur fer, 35 stiga hiti með raka væri eitthvað sem ég myndi tæplega þola.
En fyrst af nýjustu fréttum:
Ég var að koma af kóræfingu nú rétt áðan, þetta var eiginlega stofnfundur því þetta er kór sem er settur saman til að keppa í einhvers konar raunveruleikaþætti í ríkissjónvarpi Chile eftir svona tvo mánuði. Þetta er kórakeppni þar sem við "kennararnir" (kórinn er á vegum Kennarasambands Chile) keppum á móti hjúkrunarkonukórum, slökkviliðsmannakórum, dómarakórum, kokkakórum og fleiri. Að sjálfsögðu verðum við að syngja eitthvert bölvað popp sem gengur í lýðinn, svo þetta verður líklega Shakira og Jesus Christ Superstar-medley - en hvað um það, verðlaunin eru fimm millur íslenskar, hvað gerir maður ekki... Svo Lilja litla ætlar að verða fræg. Reyndar verður þetta örugglega hræðilegt, eins og einhver benti mér svo á, því að ég verð eini útlendingurinn og því 100 prósent tekin fyrir eins og alltaf ("Frá Íslandi? Vá! Synguru þá einsog Björk? Syngdu nú smá fyrir okkur!"). Ojæja, þetta verður þá í það minnsta góð saga.
Annars líða dagarnir hjá í rólegheitum hér í íbúðinni. Ég er að þýða bók fyrir MA-verkefnið mitt í þýðingafræðinni og svo verður skrifuð ritgerð. Eitthvað fæ ég lítið af bíómyndum frá Ítalíu til að þýða eins og er en við sjáum hvort það rætist ekki úr því. Um tíma vorum við átta meðleigjendurnir, sem betur fer erum við "bara" sex núna. Ég var að reikna, og á þessu eina ári er ég búin að búa með tuttugu manns. Ég er orðin svolítið þreytt á því, og nenni varla að vera næs við þetta lið lengur. Á daginn sit ég hér í stofunni með P. (frá Chile) sem vinnur líka heima, og við pirrum okkur sitt á hvað, ég þegar ég lendi til dæmis á 130 orða setningu sem ég þarf að þýða eða sérstaklega illþýðanlegu hugtaki, hann þegar yfirmaðurinn svarar honum loksins til að segja honum að hann geti ekki borgað honum fyrr en í næstu viku, þótt hann hafi átt að borga honum í þarsíðustu viku. Það ku vera mjög algengt í hérlendum fyrirtækjum. Seinnipartinn fer ég svo á æfingu eða pilates-tíma, þar sem Sigur Rós er blöstuð.
Talandi um Sigur Rós þá fór ég í Íslands-partí á fimmtudaginn þar sem Heima var sýnd (ég mætti eftir á) og svo spilaði Sigur Rósar koverband (eða því sem næst, hljómuðu alveg eins og tóku nokkur lög með þeim). Ég var eini Íslendingurinn. Svo byrjaði DJ að spila og allir fóru að dansa. Það var ekki mjög íslenskt. Það gladdi þó mitt litla kríslenska hjarta að horfa á fornt Íslandskort á breiðtjaldi (DVD-bakgrunnurinn) og hlusta á chileíska hljómsveit spila Tsjúhúúú. Þá hugsaði ég að við værum kannski ekki sem verst, ef fólk nennir að halda partí landinu til heiðurs og syngja tónlistina okkar. Við höfum þá alltaf það, þótt við eigum ekki krónu - hvað þá evru.
Á fimmtudögum fer ég í sjálfboðastarfið mitt, sem ég held að ég sé ekki ennþá búin að segja frá á þessum síðum. Ég byrjaði í október eftir löng og ströng viðtöl og blekklessupróf, og fer eitt eftirmiðdegi í viku. Þetta er heimili þar sem búa tíu börn á aldrinum 2-11 sem geta ekki búið með foreldrum sínum vegna aðstæðna heima fyrir, hvort sem það er fátækt, eiturlyf, misnotkun, vændi eða annað. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt, en börnin eru yndisleg, þótt þau hafi þurft að ganga í gegnum alltof mikla erfiðleika miðað við ungan aldur. Viðbrögð þeirra eru mjög oft að öskra eða lemja eða segja eitthvað ljótt við mann, til dæmis lamdi fjögurra ára stelpa mig einu sinni svo fast að ég emjaði af sársauka, af því að ég hafði snert dótið hennar.
Öll börnin þéra mig, sem og hina sjálfboðaliðana og annað fullorðið fólk á heimilinu, sem ég er búin að venjast núna en fannst undarlegt fyrst. Mér fannst skrítið og frekar ópersónulegt að þessi börn, sem eiga að líta á staðinn sem heimili sitt, þyrftu að þéra alla á heimilinu, líka forstöðukonuna sem gegnir hlutverki móður. Málið er þó, eins og einn vinur sagði mér, að sama hversu illa það hljómar, þá er fátækt barn fyrst og fremst fátækt barn, og hefur ekki sömu réttindi og önnur börn. Það mikilvægasta fyrir það er að læra að lifa í þessum heimi sem fátækt barn úr lægri stétt og svo getur það ef til vill sýnt að það hafi eitthvað til brunns að bera og gert sig gildandi í samfélaginu. Þetta er ansi hart, en raunveruleiki margra.
Í byrjun var þetta mjög erfitt, börnin treystu mér ekki og konurnar sem vinna á heimilinu ekki heldur, enda gríðarlega erfitt fyrir gringur að kynnast konum héðan. Nú eru þó liðnir nokkrir mánuðir og allt gengur miklu betur, konurnar tala við mig og það er gaman að leika við börnin. Elsti strákurinn spilar á gítar, kenndi sér sjálfur og er mjög klár. Hann er að skríða inn á gelgjuna og er oftast frekar fúll en þegar við spilum saman á gítar ljómar hann allur. Um daginn fór ég með gítar sem er til hér á heimilinu og kenndi honum að spila Yesterday, og svo kenndi hann mér nokkur lög, það var sko ekki leiðinlegt.
Svo er líka gaman frá því segja að í barokkhópnum mínum tókum við upp geisladisk/dvd-disk á laugardaginn. Við fengum inni í nunnuklaustri eftir að stjórnandinn hafði mætt í jakkafötunum og smjaðrað fyrir abbadísinni og logið að við værum jesúítar sem værum að gefa út disk fyrir fátæk börn (ef þær bara vissu að meirihlutinn af meðlimunum er syndugir kynvillingar og restin litlu betri). Þetta var einn heitasti dagur sumarsins en við vorum sem betur fer inni í kirkjunni allan daginn, með ekkert til að trufla okkur nema nokkrar flóttalegar nunnur sem tipluðu um á tánum. Þetta eru svona svart og hvítklæddar mörgæsanunnur sem mega ekki líta framan í nokkurn mann (nema hvora aðra og prestinn) og fara ekki út úr klaustri. Þess vegna var systirin sem tók á móti okkur náföl í framan og horfði í barm sér allan tímann. Hún var örugglega yngri en ég.
Upptakan gekk ágætlega, miðað við að hópurinn er ekki pró og fæstir lesa einu sinni nótur, en þetta var strembið, sérstaklega þar sem þetta var líka myndbandsupptaka og við þurftum að vera fín og sæt allan tímann. Ég var orðin frekar tætt undir lokin held ég, og allur vindur úr mér eftir að hafa blásið í rör allan daginn.
Nú er bara að mastera og svo munum við selja villt og galið. Diskurinn mun kosta tæpan sex hundruð kall íslenskan svo ég býst við að allir sem ég þekki vilji tryggja sér eintak. Ég tek við pöntunum og peningi inn á heimabankann og kem með diskinn heim, nó djók. En leyfum honum að koma út fyrst, samt.
Jæja, háttatími, klukkan miðnætti hér og þrjú um nótt heima á Íslandi. Sendi mínar bestu kveðjur og lofa að skrifa fljótt aftur.
Febrúar meira en hálfnaður, hvernig sem stendur á því. Ég er búin að hafa það mjög gott, þó að hitinn hérna slefi upp í líkamshita, eða eins og einn vinur minn orðaði það "ég kem heim úr vinnunni á hverjum degi með kúkinn sjóðandi". Stundum fer líkaminn í hitaverkfall og þá er lítið sem hægt er að gera. Hitinn er þó þurr, alveg skraufþurr, enda hefur ekki rignt hérna í einhverja mánuði - sem betur fer, 35 stiga hiti með raka væri eitthvað sem ég myndi tæplega þola.
En fyrst af nýjustu fréttum:
Ég var að koma af kóræfingu nú rétt áðan, þetta var eiginlega stofnfundur því þetta er kór sem er settur saman til að keppa í einhvers konar raunveruleikaþætti í ríkissjónvarpi Chile eftir svona tvo mánuði. Þetta er kórakeppni þar sem við "kennararnir" (kórinn er á vegum Kennarasambands Chile) keppum á móti hjúkrunarkonukórum, slökkviliðsmannakórum, dómarakórum, kokkakórum og fleiri. Að sjálfsögðu verðum við að syngja eitthvert bölvað popp sem gengur í lýðinn, svo þetta verður líklega Shakira og Jesus Christ Superstar-medley - en hvað um það, verðlaunin eru fimm millur íslenskar, hvað gerir maður ekki... Svo Lilja litla ætlar að verða fræg. Reyndar verður þetta örugglega hræðilegt, eins og einhver benti mér svo á, því að ég verð eini útlendingurinn og því 100 prósent tekin fyrir eins og alltaf ("Frá Íslandi? Vá! Synguru þá einsog Björk? Syngdu nú smá fyrir okkur!"). Ojæja, þetta verður þá í það minnsta góð saga.
Annars líða dagarnir hjá í rólegheitum hér í íbúðinni. Ég er að þýða bók fyrir MA-verkefnið mitt í þýðingafræðinni og svo verður skrifuð ritgerð. Eitthvað fæ ég lítið af bíómyndum frá Ítalíu til að þýða eins og er en við sjáum hvort það rætist ekki úr því. Um tíma vorum við átta meðleigjendurnir, sem betur fer erum við "bara" sex núna. Ég var að reikna, og á þessu eina ári er ég búin að búa með tuttugu manns. Ég er orðin svolítið þreytt á því, og nenni varla að vera næs við þetta lið lengur. Á daginn sit ég hér í stofunni með P. (frá Chile) sem vinnur líka heima, og við pirrum okkur sitt á hvað, ég þegar ég lendi til dæmis á 130 orða setningu sem ég þarf að þýða eða sérstaklega illþýðanlegu hugtaki, hann þegar yfirmaðurinn svarar honum loksins til að segja honum að hann geti ekki borgað honum fyrr en í næstu viku, þótt hann hafi átt að borga honum í þarsíðustu viku. Það ku vera mjög algengt í hérlendum fyrirtækjum. Seinnipartinn fer ég svo á æfingu eða pilates-tíma, þar sem Sigur Rós er blöstuð.
Talandi um Sigur Rós þá fór ég í Íslands-partí á fimmtudaginn þar sem Heima var sýnd (ég mætti eftir á) og svo spilaði Sigur Rósar koverband (eða því sem næst, hljómuðu alveg eins og tóku nokkur lög með þeim). Ég var eini Íslendingurinn. Svo byrjaði DJ að spila og allir fóru að dansa. Það var ekki mjög íslenskt. Það gladdi þó mitt litla kríslenska hjarta að horfa á fornt Íslandskort á breiðtjaldi (DVD-bakgrunnurinn) og hlusta á chileíska hljómsveit spila Tsjúhúúú. Þá hugsaði ég að við værum kannski ekki sem verst, ef fólk nennir að halda partí landinu til heiðurs og syngja tónlistina okkar. Við höfum þá alltaf það, þótt við eigum ekki krónu - hvað þá evru.
Á fimmtudögum fer ég í sjálfboðastarfið mitt, sem ég held að ég sé ekki ennþá búin að segja frá á þessum síðum. Ég byrjaði í október eftir löng og ströng viðtöl og blekklessupróf, og fer eitt eftirmiðdegi í viku. Þetta er heimili þar sem búa tíu börn á aldrinum 2-11 sem geta ekki búið með foreldrum sínum vegna aðstæðna heima fyrir, hvort sem það er fátækt, eiturlyf, misnotkun, vændi eða annað. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt, en börnin eru yndisleg, þótt þau hafi þurft að ganga í gegnum alltof mikla erfiðleika miðað við ungan aldur. Viðbrögð þeirra eru mjög oft að öskra eða lemja eða segja eitthvað ljótt við mann, til dæmis lamdi fjögurra ára stelpa mig einu sinni svo fast að ég emjaði af sársauka, af því að ég hafði snert dótið hennar.
Öll börnin þéra mig, sem og hina sjálfboðaliðana og annað fullorðið fólk á heimilinu, sem ég er búin að venjast núna en fannst undarlegt fyrst. Mér fannst skrítið og frekar ópersónulegt að þessi börn, sem eiga að líta á staðinn sem heimili sitt, þyrftu að þéra alla á heimilinu, líka forstöðukonuna sem gegnir hlutverki móður. Málið er þó, eins og einn vinur sagði mér, að sama hversu illa það hljómar, þá er fátækt barn fyrst og fremst fátækt barn, og hefur ekki sömu réttindi og önnur börn. Það mikilvægasta fyrir það er að læra að lifa í þessum heimi sem fátækt barn úr lægri stétt og svo getur það ef til vill sýnt að það hafi eitthvað til brunns að bera og gert sig gildandi í samfélaginu. Þetta er ansi hart, en raunveruleiki margra.
Í byrjun var þetta mjög erfitt, börnin treystu mér ekki og konurnar sem vinna á heimilinu ekki heldur, enda gríðarlega erfitt fyrir gringur að kynnast konum héðan. Nú eru þó liðnir nokkrir mánuðir og allt gengur miklu betur, konurnar tala við mig og það er gaman að leika við börnin. Elsti strákurinn spilar á gítar, kenndi sér sjálfur og er mjög klár. Hann er að skríða inn á gelgjuna og er oftast frekar fúll en þegar við spilum saman á gítar ljómar hann allur. Um daginn fór ég með gítar sem er til hér á heimilinu og kenndi honum að spila Yesterday, og svo kenndi hann mér nokkur lög, það var sko ekki leiðinlegt.
Svo er líka gaman frá því segja að í barokkhópnum mínum tókum við upp geisladisk/dvd-disk á laugardaginn. Við fengum inni í nunnuklaustri eftir að stjórnandinn hafði mætt í jakkafötunum og smjaðrað fyrir abbadísinni og logið að við værum jesúítar sem værum að gefa út disk fyrir fátæk börn (ef þær bara vissu að meirihlutinn af meðlimunum er syndugir kynvillingar og restin litlu betri). Þetta var einn heitasti dagur sumarsins en við vorum sem betur fer inni í kirkjunni allan daginn, með ekkert til að trufla okkur nema nokkrar flóttalegar nunnur sem tipluðu um á tánum. Þetta eru svona svart og hvítklæddar mörgæsanunnur sem mega ekki líta framan í nokkurn mann (nema hvora aðra og prestinn) og fara ekki út úr klaustri. Þess vegna var systirin sem tók á móti okkur náföl í framan og horfði í barm sér allan tímann. Hún var örugglega yngri en ég.
Upptakan gekk ágætlega, miðað við að hópurinn er ekki pró og fæstir lesa einu sinni nótur, en þetta var strembið, sérstaklega þar sem þetta var líka myndbandsupptaka og við þurftum að vera fín og sæt allan tímann. Ég var orðin frekar tætt undir lokin held ég, og allur vindur úr mér eftir að hafa blásið í rör allan daginn.
Nú er bara að mastera og svo munum við selja villt og galið. Diskurinn mun kosta tæpan sex hundruð kall íslenskan svo ég býst við að allir sem ég þekki vilji tryggja sér eintak. Ég tek við pöntunum og peningi inn á heimabankann og kem með diskinn heim, nó djók. En leyfum honum að koma út fyrst, samt.
Jæja, háttatími, klukkan miðnætti hér og þrjú um nótt heima á Íslandi. Sendi mínar bestu kveðjur og lofa að skrifa fljótt aftur.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)