mánudagur, febrúar 23, 2009

39

Þetta birti ég á Facebook og smelli því hingað líka.

Nú eru allir að gera lista, en þar sem mér finnst algjör óþarfi að afhjúpa það litla sem fólk kynni ekki að vita um mig nú þegar, eða að reyna að semja enn frumlegri svör við sömu spurningunum og allir aðrir eru búnir að svara, gerði ég öðruvísi lista, í tilefni af því að nú er ég búin að vera í eitt ár í Chile.

Hér eru nokkur atriði sem ég hef tekið eftir á þessu ári og fundist athyglisvert, skrítið, skemmtilegt, leiðinlegt, sorglegt eða fyndið (þó að auðvitað eigi margt alls ekki bara við um Chile) en kippi mér ekki upp við lengur.


1. Að láta þéra mig. Og þurfa að þéra.

2. Að fólk sitji úti á bekk eða úti á grasi í hörkusleik um hábjartan dag. Fólk eldra en foreldrar mínir.

3. Stunurnar sem berast úr mótelunum sem umkringja húsið mitt, þar sem fólk kaupir sér þemaherbergi (arabískt, frumskógar, o.s.frv...) í nokkra klukkutíma til að leika sér.

4. Að avókadó sé ekki munaðarvara heldur borðað stappað ofan á brauð hversdags.

5. Að borða aðalmáltíðina í kringum 14 á daginn.

6. Að allir drekki neskaffi... og finnist ekkert að því.

7. Að vera ekki alltaf sú langminnsta.

8. Að finnast rándýrt að borga 72 krónur í strætó/metró.

9. Að henda klósettpappírnum ekki í klósettið heldur í ruslafötu. (Ókei, það er ennþá pínu skrýtið. Og ekki einn af siðunum sem ég ætla að taka heim með mér.)

10. Að á kvöldin fyllist gatan mín af klæðskiptingum og vændiskonum sem klípa vini mína í rassinn þegar þeir ganga framhjá.

11. Afslappaðri klæðaburður. T.d. að það sé hlægilegt að klæða sig upp fyrir matarboð hjá vini, og að nýþvegnar gallabuxur séu fínar á aðfangadagskvöld. (Við mættum alveg slappa aðeins af á Íslandi með klæðaburðinn finnst mér.)

12. Að fólk geti ekki farið í háskólanám eða leitað sér almennilegra lækninga ef fjölskyldan á ekki pening.

13. Að fyrir aðeins 20 árum hafi einræðisherra verið við völd í landinu sem lét þúsundir manns hverfa. Og að enn í dag skiptist fólk algjörlega í tvær fylkingar í afstöðu til þessa.

14. Að fólk búi hjá foreldrunum fram yfir þrítugt án þess að vera lúserar.

15. Að allir sem eru ekki með svart hár séu „ljóshærðir“.

16. Að götuhundarnir kunni að fara yfir á grænu (en kettirnir ekki).

17. Endalausir tvíræðnir brandarar með kynferðislegum tilvísunum. Allt sem er ílangt í laginu, allt sem er eitthvað sem fer inn í eitthvað annað, allt sem hefur að gera með karl og konu, konu og konu eða karl og karl, er efni í gott grín. Eða ekki svo gott grín.

18. Bjór í lítraflöskum og slepjulegar franskar.

19. Að þurfa að tala við minnst þrjá búðarstarfsmenn til að kaupa sér einn penna.

20. Að vinir mínir keyri þótt þeir hafi drukkið.

21. Að tala á spænsku – nei, fyrirgefiði, chileísku.

22. Að fara í sturtuna í ræktinni og sjá ekki eina einustu allsbera konu, þar sem þær klæða sig inni í lokuðum sturtuklefanum eða með einhverjum göldrum sem ég ekki kann, vegna spéhræðslu.

23. Að eiga mun minna einkalíf og engin leyndarmál, þar sem í vinahópnum vita allir allt um alla. Einnig að vita stundum einum of mikið um einkamál annarra.

24. Að löggurnar séu grænklæddir frá húfu niður í sokka.

25. Að fóstureyðingar séu bannaðar, sem og daginn eftir pillan, og túrtappar sjaldséðir.

26. Ofurdramatísk MSN- og Facebook-statusöppdeit.

27. Að leyfa karlmönnum að opna dyrnar, bera pokana, borga drykkinn, klæða mann í kápuna o.s.frv. án þess að malda í móinn (erfitt).

28. Sumarjól, haustpáskar, júlívetur og septembervor.

29. Sölumennirnir í strætó sem halda langar og tilfinningaþrungnar ræður um gæði varnings síns, plástra, naglaþjala, sykraðra mandlna, aspiríns, innanklæðaveskja eða pakkabönd.

30. Að heita Lilja, Lilia, Lilian, Liliana, Lili, Lydia, Lila, Lilly, Lil... allt annað en Svanhvít, hvað þá Svanhvít Lilja Ingólfsdóttir, því að ef ég segi það upphátt heldur fólk að ég sé að ræskja mig eða hrækja, og ef ég skrifa það niður heldur fólk að ég hafi fengið krampa eða að köttur hafi labbað yfir lyklaborðið.

31. Að fólk ljúgi. Nei, annars, ég get ekki vanist því. Það er alltof mikið um lygar hér, af öllum gerðum, hvítum, sakleysislegum, til að redda málunum, til að fresta óþægilegheitum, til að halda í kærastann/kærustuna, til að bjarga andlitinu, og stundum að því er virðist ekki til neins, nema til að ljúga.

32. Að flysja tómata.

33. Að heilsa og kveðja alltaf með kossi á kinn, jafnvel kennara og lækna.

34. Að búa í milljónaborg í Suður-Ameríku með öllu sem því fylgir, fólksmergð, mengun, þjófnaður, ofbeldi, brjáluð umferð, rusl, betlarar, götuhundar, vændiskonur, sígaunakonur, látbragðsleikarar, læti, hiti, fýla, mótmæli, tónleikar, ljósaskilti, hnetusalar, vatnssalar á rauðum ljósum, grænmetismarkaðir, styttur, háhýsi, óléttar konur, glápandi karlar, eldgamlar frumbyggjakonur, gullfallegir karlmenn, lítil börn, ísbúðir, almenningsgarðar, kirkjur, sérvitringar, barir, kirkjugarðar, Andesfjöllin við sólarlag, ástfangin pör, handarkriki í andlit í yfirfullum metró, unglingar í skólabúningum og allt hitt sem ég elska svo mikið við þessa borg.

35. Að deila íbúð með drápskóngulóm og tígrisköngulóm (hinar síðarnefndu eru góðar og éta drápskóngulærnar svo þær eru látnar í friði).

36. Að fólk bresti í dans án þess að vera búið að drekka.

37. Miklu fleiri orð til að segja miklu minna. Ekki „Til hamingju með afmælið“ heldur „Elsku ___, ég vona að þessi dagur verði þér ógleymanlegur og að allar þínar óskir rætist á árinu. Megi heillastjörnur vaka yfir þér, þú ert dásamleg manneskja sem mér þykir ógurlega vænt um og þú átt allt hið besta skilið. Ég sendi þér risastórt faðmlag og þúsund kossa, farðu vel með þig og við sjáumst vonandi bráðum, bless bless, koss, _____“

38. Karlmenn sem gráta og konur sem slást.

39. Að vera ætíð og eilíflega útlendingur í þessu landi og skera mig út úr hvar sem ég fer.

3 ummæli:

Regnhlif sagði...

frábært:)

Nafnlaus sagði...

hahaha mér finnst aedislegt ad vita nákvaemlega hvad tú ert ad tala um! Vera kvaddur med kossi á kinn eftir laeknisheimsókn... í minningunni var tetta nú bara nánast sleikur!

Eva María

Nafnlaus sagði...

Sæl Svanhvít.
Mér finnst mjög gaman að lesa bloggið þitt. Skil sumt af því upplifelsi sem þú ert að ganga í gegnum. Mér finnst það æðislegt.
Gangi þér áfram vel.

Margrét Annie Indlandsfari,
vinkona mömmu þinnar