þriðjudagur, apríl 21, 2009


Orðin sem ég aldrei finn


Ég veit þau búa einhvers staðar öll
en aldrei finn ég þeirra djúpa helli
þó svo ég leiti fram í efstu elli
um úfna vegi: tungunnar bröttu fjöll.

Ég veit þau finnast aldrei. Engum mönnum
þau orð ég flyt sem geymi huga minn:
þágu frá aldinkjöti sætleik sinn
og særðu herzlu og styrk úr úlfsins tönnum.

Hannes Pétursson

Þýðendur og aðrir sem starfa við að skrifa á íslenskri tungu eru í sífelldri leit að réttu orðunum. Hellirinn er nokkuð djúpur en þegar næst að fiska upp úr honum rétta orðið verður leitin samstundis þess virði. Orðið sem aldrei finnst er syrgt og notast við bróður þess eða systur í staðinn. Þeir sem skrifa frumtexta hafa úr fleiri orðum að velja sé það sem þeir kjósa ekki á tungubroddinum. Þýðendur hafa mun minna frelsi því að orðið hefur þegar verið fundið í öðru tungumáli, það er rétta orðið. Einar Ben sagði að á íslensku væri til orð yfir allt, en ég held að allir þýðendur hljóti að hafa sínar efasemdir um það.

3 ummæli:

Hákon sagði...

Hvernig gengur að þýða?

Ég hef tekið soldið eftir því eftir að ég flutti út og þegar ég hef lesið íslenska texta þýdda úr ensku hvað þeir eru oft rangt þýddir. Þýðingarvillurnar eru oftast vegna þess að ákveðinn frasi á ensku er notaður til að orða hugsun á meðan allt annar frasi á við á íslensku.

Hvaða krafa er gerð til þýðenda almennt og hversu mikinn tíma getur maður gefið sér við að nostra við hvern frasa?
Bara svona að spá, þetta virkar áhugavert

Svanhvít sagði...

þýðing gengur ágætlega, en þetta er fjandanum erfiðara.

Svarið við spurningunum þínum Hákon er að það eru bara löggiltir skjalaþýðendur sem þurfa að fara í gegnum próf til að sýna að þeir séu þýðendur. Hinir hafa starfsreynsluna til að sýna fram á að þeir geti þýtt, og svo hjálpar þýðinganám auðvitað líka, þótt það gefi manni engin réttindi fram yfir aðra.
Þeir löggiltu þurfa að punga út eitthvað um 80 þús kalli held ég fyrir prófinu, það er svínslega erfitt, en eftir það getur maður þýtt lögformleg skjöl og skírteini (á hærri taxta).

Það er auðvelt að svara þessu með tímann: hann er allt of lítill. En það fer auðvitað allt eftir kúnnanum sem biður um þýðinguna. Þá er oftast ekkert sem heitir að "nostra". Oftast er það vegna tímaskorts en ekki vanþekkingar sem að villur finnast í þýðingum, að því er ég held.

Nafnlaus sagði...

ahhhhh good times... nú er ég einmitt að endurvekja sambandið við Bernskuna. Gangi þér vel og njóttu síðustu daganna í paradís ;)

Eva María