föstudagur, september 12, 2008

11-S

Það er komið að löngu tímabærum pistli og vel við hæfi að hann sé skrifaður 11. september (sem er ekki enn liðinn þegar ég byrja að skrifa þetta, þótt hann sé það í Evrópu).

Í dag var mikið um mótmæli niðri í bæ og frí var gefið í öllum skólum og mörgum vinnustöðum seinnipart dags til að fólk kæmist öruggt heim til sín þar sem það er hættulegt að vera seint á ferð. Stórmarkaðurinn minn var meira að segja lokaður í dag. Það er mjög algengt að rafmagnið sé tekið af líka þennan dag til að stoppa mesta ofbeldið. Hér heima var búið að taka fram kerti og eldspýtur til öryggis en sem betur fer kom ekki til þess að við yrðum rafmagnslaus.

Í Chile er 11. september nefnilega jafnvel mikilvægari en í Bandaríkjunum. Þennan dag árið 1973, fyrir 35 árum, réðst hershöfðinginn Pinochet inn í Moneda-höllina með liði sínu og steypti sósíalistanum Salvador Allende forseta af stóli. Næstu sautján ár var Pinochet einræðisherra í landinu eða allt til 1989. Allende lést í átökunum þennan dag (ennþá er deilt um hvort hann framdi sjálfsmorð eða var tekinn af lífi) sem og fjölmargir stuðningsmenn hans, m.a. á leikvangi þar sem safnað var saman fjölda fólks sem síðan var tekið af lífi. Þennan dag hófust ofsóknir sem áttu eftir að draga þúsundir manna til dauða og margir sátu í fangelsi fyrir engar sakir og voru pyntaðir. Hundruð þúsunda vinstrimanna flúðu land, til annarra landa S-Ameríku eða Evrópu (t.d. eru um 40.000 manns ættaðir frá Chile í Svíþjóð).

Þegar ég kom hingað komst ég fljótt að því að fólk er ekki mikið fyrir að tala um einræðistímann, og hann kemur reyndar merkilega sjaldan upp í samræðum, miðað við að það eru rétt 19 ár liðin frá því að honum lauk. Fólk er skiljanlega langþreytt á umræðuefninu og vill líta fram á við frekar en til fortíðarinnar. Það er þreytandi fyrir Chilebúa að það eina sem útlendingar vita um landið sé þessi sorglega saga, því það hefur upp á svo margt annað að bjóða. Önnur ástæða fyrir því að fólk talar ekki um þennan tíma er að enn eru skiptar skoðanir og ógróin sár sem betra er að láta vera.

Áður en ég kom til Chile hafði ég lesið þó nokkuð um valdaránið og einræðistímann en það var allt mjög einhliða þar sem í Evrópu heyrir maður söguna aðeins frá sjónarhorni stuðningsmanna Allendes. Ég varð mjög hissa að heyra og sjá alla þá sem enn styðja Pinochet og líta mjög upp til hans. Daginn sem hann dó, árið 2006, var undarlegur dagur í Chile. Fólk skiptist í tvær fylkingar og ýmist fagnaði og skálaði í kampavíni eða syrgði og grét. Hér er myndband sem strákur sem ég kannast við tók þennan dag af fólki sem hyllir Pinochet. Takið eftir nasistakveðjunni.

Eins og allir vita þá er ekkert svart og hvítt í þessum heimi. Þetta segja flestir Chilebúar við mig þegar umræðuefnið ber á góma. Allende hafði hugmyndir sem erfitt var að ímynda sér í framkvæmd svo vel færi. Í landinu var gríðarleg misskipting auðs þegar hann tók við, nokkrar ríkar fjölskyldur áttu allar eignir og fátæku bændurnir sem á landareignum þeirra bjuggu áttu allt sitt undir þeim. Allende tók þessar eignir og úthlutaði þeim alveg upp á nýtt, eftir hugmyndum sósíalismans. Einnig ríkisvæddi hann fjölmörg fyrirtæki, sem og stærstu koparnámurnar (helsta auðlind Chile). Þetta fór eðlilega fyrir brjóstið á þeim sem áður höfðu átt allt. En eins og allt er þetta ekki svona einfalt. Hver hefur sína sögu að segja, eins og einn besti vinur minn hér, sem sagðist bera blendnar tilfinningar í garð Allendes og Pinochets og sagði mér söguna af afa sínum. Sem lítið barn var hann sendur bláfátækur út á götu þegar foreldrar hans dóu, og til að lifa af fór hann að búa til leikföng úr alls kyns spýtukubbum og drasli sem hann fann á götunni. Hann seldi leikföngin fyrir slikk, en þau urðu vinsælli og vinsælli og hann þurfti að gera út önnur börn til að selja þau og búa til. Framleiðslan vatt upp á sig og hann endaði með stóra leikfangaverksmiðju með fjölda manns í vinnu. Það var einmitt þá sem Allende kom og ríkisvæddi verksmiðjuna svo afrakstur erfiðisins fór ekki til afans og fjölskyldu hans. Því fagnaði fjölskyldan því þegar Pinochet kom og "frelsaði" þjóðina. Enginn vissi hins vegar að Pinochet hafði í huga að sitja slímusetur sem einræðisherra í landinu um ókomna tíð. Þetta er bara ein af mörgum slíkum sögum. Aðrir segja svo sögur af horfnum ættmennum sem líklega var dembt beina leið út í Kyrrahaf fyrir eitt að hafa verið sósíalistar.

Ekki má gleyma aðkomu Bandaríkjanna að því að hugmyndir Allendes tókust ekki betur en raun varð. Í Bandaríkjunum stóð stjórnvöldum stuggur af öllu sem hét sósíalismi eða kommúnismi og meint tengsl Allendes og Fidels Castro fengu hárin á Nixon og félögum til að rísa. Litið var á sósíalistastjórn Allendes sem eina mestu ógn sem steðjaði að heiminum á þessum tíma. (Koparnámurnar gróðasömu voru í eigu Bandaríkjamanna sem ætti líka að skýra hluta af andúðinni þar á bæ.) Í það minnsta eru til öruggar sannanir fyrir því að Bandaríkin hafi stuðlað meðvitað að því að veikja stjórn Allendes með viðskiptahömlum og fleiri leiðum, svo fólk leið mikinn matvæla-, vöru- og eldsneytisskort. Hægriflokkarnir sem voru á móti Allende-stjórninni fengu mikinn stuðning frá USA og verkföll sem þeir stóðu fyrir náðu að lama landið. Þannig var Pinochet gert auðveldara fyrir að ná völdum og njóta stuðnings fólksins.

Þetta var svona smá sögustund í tilefni dagsins, og auðvitað skylduskrif bloggara sem skrifar frá Chile. Það hefur verið mjög áhugavert að kynnast mismunandi fólki með mismunandi skoðanir en það hefur líka verið erfitt. Sérstaklega er erfitt að hlusta á einn félaga minn sem er mikill aðdáandi Pinochets og reynir að sannfæra mig um að hann hafi verið hetja en Allende einræðisherra. "Lestu sögu Chile!" segir hann, sem pirrar mig óstjórnlega, því það er sama hvað ég segi, hann getur alltaf sagt að ég viti ekki neitt því ég sé bara gringa sem komi til landsins með einhverjar rómantískar hugmyndir um "skíta-kommúnista", á meðan hann þekki þetta af eigin raun, því auðvitað er hann héðan en ekki ég. Hann getur þó að mínu mati lítið sagt þar sem hann viðurkenndi fyrir mér að hafa verið nýnasisti þegar hann var unglingur (enda afi hans þýskur nasisti sem flúði til Chile í seinna stríði þar sem hann hafði hylmt yfir með vini sínum sem var gyðingur). (Þessi suðurameríski nýnasismi er eitthvað sem ég fæ ómögulega skilið, þ.e. hvað þeim gengur til og hvað þeir þykjast eiginlega vera, sérstaklega þar sem flestir hér eru blanda af frumbyggjum og aðkomufólki, og því frekar langt frá því að vera aríarnir hans Hitlers. En það er önnur saga.)

Mér finnst ennþá erfitt að skilja viðhorf fólks til þessa atburðar sem er enn svo nálægur í sögunni, en ég skil það í það minnsta mun betur en áður en ég kom til landsins. Eftir að hafa heyrt mismunandi sögur fólks skil ég af hverju það vildi sjá breytingar en það er ekki hægt að kenna Allende einum um stöðuna sem upp var komin árið 1973.

Þegar allt kemur til alls eru það þessar fjölskyldusögur sem móta viðhorf hvers og eins, miklu frekar en einhver hægri-vinstri skali getur nokkurn tímann gert. Um þetta efni gæti ég skrifað margt og mikið í viðbót en nú er kominn 12. september og tími til að líta fram á við. Varð ekki vör við ein einustu mótmæli þar sem ég hélt mig fjarri öllum stöðum þar sem þau er vanalega að finna, og rafmagnið er ekki enn farið af, svo allt er líklega með kyrrum kjörum. Ég kveð því að sinni og skríð í bólið.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er mjög athyglisvert.
Hefur því ekki líka verið kastað að BNA stjórn hafi komið mjög beint að þessu valdaráni, m.a með því að leggja til tæki sem þurfti og fjármagn?

Annars gleymi ég seint lýsingu Isabellu Allende í bók sinni Paula á þessum atburði. Mjög áhrifamikil!

Knús til þín. Sigga

Svanhvít sagði...

Jú, algjörlega, þeir vildu Allende burt en var líklega nokkuð sama um hvað yrði um þjóðina eftir það, bara "burt með kommúnistann".
Það eru þó margir sem neita að viðurkenna að USA hafi átt nokkurn hlut í valdaráninu - mér finnst það þó nokkuð augljóst.

Ég las líka Paulu, mæli með henni við hvern sem er. Isabel Allende hefur líka talað um þennan tíma í fleiri bókum (það eru auðvitað til óteljandi bækur um þennan tíma eftir ótal höfunda).

Unknown sagði...

Alltaf áhugavert að lesa pistlana þína enda ritaðir af góðum penna :) Ég kynntist þér í gegnum Kornéliu ef svo (mjög skiljanlega) vill til að þú munir ekki eftir mér :)

Bestu kveðjur!

Hákon sagði...

Já maður verður oft var við að fólk virðist horfa mjög svart/hvítt á stöðuna í Chile undir Pinochet þó hún sé langt frá því að hafa verið það. Maðurinn ofsótti fólk og var harðstjóri en á sama tíma kom hann af stað miklum efnahagsumbótum sem að öllu jöfnu eiga sér ekki stað í einræðisríkjum sem voru vissulega til bóta fyrir landið.

Að sama skapi finnst mér mjög mikilvægt að fólk gleymi því ekki að kommúnismi/sósíalismi er ekki grín. Þrátt fyrir allan góðan vilja enda svoleiðis tilraunir alltaf með hörmungum þar sem valdið endar hjá nokkrum valdasjúkum einstaklingum sem er skítsama um þjóðina. Sjáðu bara Venezúela og Bólivíu.
Það má segja sitt um gallana við markaðsvætt hagkerfi en það mun aldrei ná sama stigi ömurleika og þjóðnýtingarstefna og sósíalismi.

Svanhvít sagði...

Jú Einar, auðvitað man ég eftir þér, takk fyrir innlitið!
Já og ég las bókina sem þú mæltir með í rútunni til Bólivíu, San Manuel bueno, martír, hún er frábær.

Hákon: Það eru til öfgar í öllu og ekki mjög nákvæmt að setja kommúnisma og sósíalisma undir sama hatt.

"Vandamálið" við Pinocho er að hann var ekki snargeðveikur eins og almennilegir einræðisherrar, bara nægilega vondur til að drepa og pynta þúsundir en stuðlaði svo að efnahagsumbótum fyrir landið, en á móti hafði fólk ekkert frelsi.

Það er til lítils fyrir þjóð að hafa efnahagslegan vöxt ef þegnunum í landinu líður hræðilega, það er gríðarlegt bil milli ríkra og fátækra og fólk sem ekki er svo heppið að fæðast inn í ríka fjölskyldu fær slæma menntun og hefur ekki efni á að fara til læknis. Þetta eru leifarnar af Pinochet-kerfinu sem enn má sjá hér í Chile. Stjórnarskránni var til dæmis breytt að hluta nokkrum árum eftir að einræðistímanum lauk, en ennþá eru mörg vafasöm atriði óbreytt ennþá.

Það sem vantar hér núna er að mínu mati einmitt sósíalistar sem eru óhræddir við að breyta stöðunni, bæta menntakerfið og heilbrigðiskerfið. Fólk, þ.á.m. ríkjandi sósíalistastjórn, er bara enn skíthrætt við breytingar eftir að hafa búið svona lengi við einræði, þótt ægivaldið sé horfið.

Ég prísa mig að minnsta kosti sæla að hafa alist upp í kerfinu heima þar sem allir eru nokkurnveginn jafnir.

Hákon sagði...

Ætli við verðum ekki að vera sammála um að vera ósammála hér :)

Ég held samt að þú sért að blanda saman tveim hlutum. Það er alveg rétt að fólk lifði í ótta við valdið og efnahagsumbætur höfðu í för með sér misskiptingu. Það sem er hins vegar málið er að það var ekki afleiðing efnhagsstefnunnar sem skapaði slæm lífsskilyrði. Þvert á móti hefur aukið frjálsræði í för með sér dreifingu valds sem er til þess fallin að draga úr völdum einræðisherra og alræðisstjórna. Sem kemur aftur að aðalvanda sósíalismans. Á endanum situr valdið eftir hjá litlum hópi manni og það væri barnalegt að halda því fram að valdið færi vel með þá sem hafa það af því þeir séu sósíalistar en ekki kapítalistar, kannski með þeirri undantekningu ef Gandhi væri einræðisherra.

Við skulum taka þessa umræðu yfir góðum bjór um jólin! (það er svo asnalegt að rífast um svona hluti í kommentakerfum. Það er ekki eins og við séum Moggabloggarar sem skrifa fúlyrtar ritgerðir undir nafnleynd)

Hafðu það gott í Chile þangað til!

siggaligg sagði...

En er ekki eitt af aðalmerkjum einræðisstjórnar að þar er valdinu ekki dreift, þrátt fyrir einhverjar efnahagsumbætur?

Svanhvít sagði...

Haha, já jiminn, ekki er ég týpan í einhverjar skæðadrífur í kommentakerfum.

En ég er hrædd um að ég verði enn í einræðisríkinu fyrrverandi um jólin. Ætla að prófa sumarjól á ströndinni í þetta sinn. Og jafnvel sumarkokteilaafmælispartí í janúar. Það verður í fyrsta sinn.

Hákon sagði...

Hvenær kemurðu þá til Íslands?
Áttu kannski mörg ár eftir í Chile?

Svanhvít sagði...

Neineinei, ég ætla að fara heim í janúarlok, klára mastersritgerðina og flýja svo land aftur... eitthvert annað.