"Er komið gleðilegt nýtt ár?"*
Jújú, hér er ég enn, og með örfáar myndir af áramótunum og ferðalagi mínu til Suður-Chile og Argentínu. Kannski nokkur orð með til að bragðbæta þær.
*Fyrirsögn í boði Evu Maríu
Má ég kynna einn meðleigjandann hér í íbúðinni. Þetta er hún Tabata sem ég bý með. Hún er hárlaus greyið og gengur því stundum með hárkollu. Ég kynntist henni fyrst þegar ég þurfti að ná í eitthvað inn í geymslu og rakst á eitthvað sem ég hélt í nokkrar hræðilegar sekúndur að væri mannshöfuð. Henni finnst ægilega gaman í feluleik og felur sig á ótrúlegustu stöðum þar sem maður á síst von á henni. Ég hef fundið hana í rúminu mínu, ofan á klósettinu, úti á gangi þegar ég vakna og inni í skáp, innanum hveiti og pasta. Í hefndarskyni hef ég til dæmis falið hana inni í ísskáp (þýsku stelpunni sem flutti inn þann daginn til mikils hryllings), og svo leyfði ég henni að tróna á toppi jólatrésins í nokkra daga. Alltaf starir hún á mann þessum freðýsuaugum og er sérstaklega óhugguleg án hársins. Rodrigo hefur tekið einhverju furðulegu ástfóstrivið hana og hún hefur meira að segja farið í sund með fjölskyldunni hans og á sér eigin facebook-grúppu.
Við Eva María og vinir hennar frá Tyrklandi og Spáni fórum til Valparaíso á gamlárskvöld, eins og að því er virðist allir aðrir, enda er þar áramótapartí alls landsins, ef ekki álfunnar. Það var alls ekki leiðinlegt. Við keyptum helling af búsi og sushi og vorum með pikknikk útí almenningsgarði með löggurnar allt í kring.
Svo fundum við fína hatta og þessi forláta rör með Magnúsi Scheving á þeim, sem okkur fannst skemmtilegt að flagga í áramótapartíunum hjá Nico vini mínum og Jesúsi bróður hans.
Svo fórum við Eva í ferðalag. Í þjóðgarðinum Huerquehue (vuer-KE-vue) í svona 9 tíma fjarlægð frá Santiago fórum við í "örlítinn labbitúr" þar sem var fagurt um að litast.
Á eyjunni Chiloé rættist draumur okkar um að sjá mörgæsir í sínu náttúrulega umhverfi. Hér erum við ofurhressar á leiðinni í mörgæsatúrinn.
Hér eru svo ofurhressar mörgæsirnar.
Á afmælisdaginn minn vorum við í borginni Valdivia við bakka þriggja áa sem renna út í haf. Við fórum á milli eyja og þorpa með ferjum og átum og drukkum á þorpshátíðum. Hér er ég að drekka epla-chicha.
Þetta er "curanto", skelfiskur, kjöt, pylsur og fleira allt eldað í stórri holu í jörðinni, týpískur matur frá Suður-Chile.
Af öllum þeim stöðum sem við fórum á var El Bolsón í Argentínu held ég eftirminnilegastur. Þetta er lítill bær umkringdur af himinháum fjöllum þar sem hafa safnast saman hippar alls staðar að, frá Evrópu jafnt sem Suður-Ameríku. Þarna búa þeir saman, auðvitað í mikilli sátt og samlyndi og samhljómi. Á aðaltorginu er skemmtilegur hippamarkaður þar sem heimatilbúinn bjór í allskyns bragðtegundum er seldur í plastglösum (ég fékk mér hindberjabjór), hljómsveitir spila og maður gerir lítið annað en sitja á grasinu, slappa af, fylgjast með fjölskrúðugu mannlífinu og láta bjóða sér speltbollur eða hindber með rjóma. Í kringum mann vappa skítugir hundar og jafnskítug berfætt hippabörn á meðan foreldrar þeirra sitja með gítar í bláum skugga. Bærinn er yfirlýstur "kjarnorkulaus bær" eins og þetta skilti gefur til kynna:
Síðasti bærinn sem við fórum til, San Martín de los Andes, var helst til mikill túristabær fyrir okkur og verðin eftir því, svo að í stað þess að borga morðfjár fyrir hótel (því öll hostelin voru uppfull) leigðum við okkur þennan fína Renault Kangoo og keyrðum í klukkutíma eftir sólsetur út að vatni þar sem við fundum tjaldstæði, lögðum bílnum og horfðum á stjörnurnar. Stjörnuhiminninn var ótrúlegur, ég held við höfum séð 6 gervitungl og 2 stjörnuhröp, og ég hef aldrei séð Vetrarbrautina svona greinilega áður. Hér er Eva í bílnum þegar við vorum búnar að breyta honum í rúm:
En nú er ferðalagið búið, Eva farin til Argentínu þar sem hún býr hjá vinkonu minni í Buenos Aires og ég er að byrja í nýju vinnunni sem gengur út á að þýða bíómyndir í gegnum internebbann. Svo er það mastersritgerðin og barokkið og söngtímarnir og kórinn og pilates og sjálfboðastarfið, svo mér ætti ekkert að leiðast. Svo fer tími á hverjum degi í að lesa sig í gegnum nýjustu stórfréttirnar frá litla landinu, það er varla vinnufriður fyrir þeim. Keep 'em coming!
Góðar stundir.
miðvikudagur, janúar 28, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
"Innanum"??! "Verðin"????!!?? Þú verður að koma heim strax til að forðast frekari málfarstæringu!!! Annars þori ég að veðja að Sámur frændi hefur grafið plútóníumstöng einhvers staðar í El Bolsón einhvern tímann þegar allir voru rotaðir, bara upp á grínið.
Ég þakka hirðprófarkalesaranum málfarsrýnina (þótt ég skrifi alltaf innanum og meðfram í einu). "Verðin" er óafsakanlegt.
Nauðsynlegt að hafa aðhald. Nú þegar ég er að þýða finn ég alveg fyrir því að hafa varla talað íslensku í ár.
Skrifa ummæli