Jól í Chile
Litlu frænkur mínar sendu mér jólabréf og spurðu mig hvort það væru líka jól í Chile. Þetta er svar handa þeim og fleiri sem kynnu að spyrja sig að þessu sama. Jú, það eru sko jól í Chile. Meira að segja mjög gleðileg jól. Ég er búin að lifa í vellystingum núna yfir jóladagana enda er fólk mjög hugulsamt og lætur mann ekki vera einan yfir hátíðirnar. Á Þorláksmessu keypti ég allar jólagjafirnar, þar sem þá fyrst áttaði ég mig á því að ég fengi líklega slatta af gjöfum og þyrfti að hafa eitthvað til að gefa á móti. Þeim innkaupum var hespað af á einu síðdegi í verslunarmiðstöð, og þær eru alveg jafnóþolandi vítisholur og heima þetta korter fyrir jól. Munurinn er sá að hérna er miðbærinn jafnvel enn viðbjóðslegri, troðfullur af fólki og steikjandi hiti, enda er 30-33 stiga hiti á hverjum degi í desember. Í verslunarmiðstöðvunum er í það minnsta loftkæling - og svolítið annað sem fékk mig til að skella upp úr svo fólk horfði á mig eins og geimveru þar sem ég stóð og káfaði á gerfifroðusnjónum sem spýttist út úr hávaðasamri vél og féll til jarðar ofan á plasthreindýr og gervisnjókalla og börn sem hafa aldrei séð alvöru snjó nema í bíómyndum. Hér er það jólasveinninn sem kemur með gjafirnar, en maður vorkennir honum þegar maður sér hann sitja niðri í bæ í fullum skrúða, skeggjaðan og kófsveittan.
Á aðfangadag hafði ég það mjög rólegt, kíkti í heimsókn með jólagjafir og tók um þrjúleytið (18 að íslenskum tíma) fram eina malt sem mamma hafði komið með handa mér og blandaði henni í óskilgreint chileískt appelsínujukk svo úr varð nokkurs konar jólaöl með bleikri froðu. Svo át ég pastasalat úr dollu og hugsaði heim. Það var góð stund. Mér var boðið að vera hjá Rodrigo, sem ég bý með, og fjölskyldunni hans á jólunum og þangað fórum við á aðfangadagskvöld, þó auðvitað ekki fyrr en klukkan 22, því hér gerist allt seint. Með kom líka kærastinn, C. (mamma R. veit að hann er gei en ekki pabbinn, svo hann var þarna sem "ofsalega góði vinurinn") og þýska stelpan sem er nýflutt hingað og hafði engan stað til að fara á yfir jólin. Við borðuðum kvöldmat um ellefuleytið, dásamlega góðan kalkún, og drukkum rauðvín og pisco, og um miðnætti kom fleira fólk og gjafirnar voru opnaðar, eins og hefðin segir til um. Jólasveinninn kemur nefnilega með gjafirnar á miðnætti og þá hlaupa krakkarnir út á götu til að leita að honum (á meðan hlaupa aðstoðarmenn jólasveinsins með gjafirnar inní stofu). Ég fékk alveg fullt af góðum gjöfum, bók (Vetrarsól), disk (Tómas R.) og DVD (Rokk í Reykjavík) frá Íslandi (takk fyrir það) og m.a. áritaðan penna með nafninu mínu (Lilja), sem mér þótti mjög vænt um. Ég tók eftir því að ég var sú eina sem fékk bók. Ekki skrýtið, enda bækur rándýrar hér.
Svo drukkum við meira, viskí og kampavínspúns og borðuðum drottningarhandlegg ("brazo de reina") sem er kaka, lík jóladrumbinum franska. Við drukkum líka apaskott ("cola de mono") sem er aðaljóladrykkurinn hér, gerður úr kaffi, kryddaðri mjólk, áfengi og sykri, og er borið fram ískalt í stórum mjólkurglösum. Mjög gott. Veislan varð eftir því sem leið á nóttina heljar partí þar sem við dönsuðum salsa úti á götu með nágrönnunum og veifuðum á eftir jólasveininum sem hjólaði fram hjá klukkan þrjú um nótt. Allir í fjölskyldunni voru svo glaðir eitthvað, og almennilegr við okkur gringurnar, svo við vorum alveg himinsælar þegar við fórum heim um fjögurleytið um nóttina.
Jóladagur var ekki verri, gott ef ekki bara ennþá betri. Okkur var boðið heim til eldri systur R. sem býr alveg upp við Andesfjöllin í fallegu húsi með sundlaug. Þar var stjanað við okkur allan daginn, sem leið hjá í sólbaði, sundi, áti og drykkju allt fram á kvöld, þá fórum við í bíltúr til að skoða útsýnið yfir Santiago þarna ofan af hæðinni, sem var magnað.
Okkur var færð tölva með interneti og vefmyndavél út í garð og þar hringdi ég heim í pabba og mömmu og sýndi þeim sundlaugina og garðinn og fólkið og sólina, það var frábært. Svo sýndi ég viðstöddum myndir af jóladegi 2007 þar sem ég bjó til snjókall. Það fannst þeim eðlilega stórfurðulegt, vön jóladegi á sundlaugarbakkanum, að drekka romm í kók úr blómavasa (grínlaust). Þessi dagur er tvímælalaust kandídat í keppni um bestu daga ævi minnar, ásamt deginum í júlí sl. þegar ég heimsótti Felix SOS-barn í Bólivíu.
Í gær var mér boðið í mat til vinar sem sjálfur getur ekki verið hjá fjölskyldunni um jólin (frekar en síðustu sex mánuði) vegna þess að hún vill ekkert með hann hafa eftir að hann kom út úr skápnum, svo við erum soldið búin að passa hvort annað þessa dagana. Mín útlegð er þó sjálfsköpuð; ég gæti ekki til þess hugsað að fjölskyldan myndi útskúfa mér svona algjörlega. En hann tekur þessu með kaldhæðninni: "Þetta er fínt, ég spara fullt af pening í gjafir."
Í kvöld er afmæli hjá Gabriel vini mínum, og hann hringdi í mig í morgun til að fá uppskrift af túnfisksalati. Ég gerði það um daginn þegar ég hélt jólaboð handa vinunum og hann og aðrir héldu ekki vatni yfir því.
Nú er ég samt mest spennt yfir því að á morgun kemur hún Eva María skröltandi í rútu yfir fjallgarðinn frá Mendoza í Argentínu. Hún er búin að vera að þræða sig í gegnum Íberóameríku allt frá bankahruni og ætlar að vera hjá mér í Chile um áramótin, eitthvað sem við erum búnar að vera að plana í hátt í ár. Við förum til Valparaíso þar sem er stanslaust partí frá því í gær og fjörutíu kílómetrar af flugeldasýningu klukkan tólf á miðnætti. Vúhúúú! Svo ferðalag suður á bóginn í örlítið svalara veður. Það er því margt að hlakka til. Ég vona að heima á Íslandi hafi allir það gott, ég hugsa mikið heim en líður vel hér í sólinni.
Sendi mínar allra bestu jóla- og nýárskveðjur heim til fjölskyldu og vina,
Svanhvít Lilja
laugardagur, desember 27, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Já jól á sundlaugarbakka er ekki slæm tilhugsun, gott að vita að þú áttir góð og kærleiksrík jól Svanhvít mín og þessi pistill er auðvitað frábær eins og allt sem þú skrifar. Knús frá Regnlandi.
Gaman að lesa. Gleðileg jól
Skrifa ummæli