Í gær kaus ég í alþingiskosningunum. Ég fór á ræðisskrifstofu Íslands í Chile með vegabréfið mitt og tíu dollara seðil og nýtti mér þegnrétt minn. Skrifstofan er í hringlaga hverfi sem heitir í beinni þýðingu „Fyrirtækjaborg“ og ber nafn með rentu, því að þarna er allt fullt af höfuðstöðvum stórra fyrirtækja, glæsilegar byggingar, pálmatré og vel hirtar grasflatir (alltaf merki um peninga í S-Ameríku). Konsúllinn sinnir embættisstörfunum að sjálfsögðu meðfram annarri vinnu, enda bjóða milliríkjasamskipti Íslands og Chile ekki upp á stórt sendiráð. Það gladdi mitt gamla hjarta að sjá eldgamlan skjöld með skjaldarmerki Íslands og áletruninni „Lýðveldið Ísland“ fyrir utan skrifstofuna. Einkaritari konsúlsins var mjög almennileg kona sem var voðalega spennt fyrir þessu öllu saman, þar sem ég var sú allra fyrsta í sögu ræðisskrifstofunnar til að kjósa utankjörfundar. Þau voru með þetta allt á hreinu og þetta gekk mjög fljótt og vel og formlega fyrir sig, ég kvittaði undir alla nauðsynlega pappíra, svo konsúllinn, og þau horfðu á mig stinga atkvæðisumslaginu ofan í stærra umslagið og sleikja fyrir og tóku svo við því og tíudollaraseðlinum (fyrir sendingarkostnaði). Nú er bara að vona að atkvæðið skili sér heim í Aratungu á skrifstofu Bláskógabyggðar fyrir kosningar. Ábyrgðarpósturinn ætti að tryggja það. Svo er hitt áhyggjuefnið, að flokkurinn sem ég kaus klúðri ekki einhverju svakalegu fram að kosningum sem verði til þess að ég skipti um skoðun. Of seint að hugsa um það. Ég kaus í það minnsta ekki Sjálfstæðisflokkinn.
Þessa dagana er ég í annarri yfirferð í þýðingunni á skáldsögunni sem ég er að þýða, að laga til og snurfusa, og það er bara nokkuð ánægjulegt. Enn er margt sem ég er ekki búin að finna lausn á eins og gengur og gerist en ég er tiltölulega jákvæð gagnvart því eins og er. Sjáum til hvað ég segi eftir viku. Hins vegar er öll MA-ritgerðin eftir og það er verra.
Ég ákvað að hætta í raunveruleikasjónvarpsþáttarkórnum (langt orð) sem ég var byrjuð í og sagði frá hérna um daginn. Ég sá nefnilega þáttinn. Hann var hörmung. Nú er fyrsta holl af kórum að keppa, reyndar myndi ég varla kalla þetta kóra, heldur samansafn af fólki úr mismunandi áttum, sem er klætt upp látið syngja saman, allt einraddað, Beyoncé og Shakira-lög eða reggaeton-tónlist. Þar standa upp úr Fangakórinn og Módelakórinn (ekki grín), en þar eru einnig m.a. Raunveruleikaþáttastjörnukórinn (hrikalegur) og Friðarkórinn, þar sem syngur saman fólk sem tilheyrir alls kyns mismunandi trúarbrögðum. Þátturinn heitir „Allir í kór“ og er svipað upp settur og Idol, nema einhvern veginn ennþá hallærislegri. Og þar sem ég sker mig úr hvar sem ég fer í þessu landi er það hundrað prósent öruggt að ég fæ að svara einhverjum hallærislegum spurningum kynnanna, sem eru víst voðalega frægir (ég sé fyrir mér „Vá, Ísland? Synguru þá einsog Björk? Syngdu nú smá fyrir okkur...“). Fyrir utan það að ég er víst á leiðinni til Íslands hvað úr hverju og næ því varla að taka þátt nema í kannski fyrsta þættinum.
Fer á eftir á barnaheimilið til gríslinganna minna tíu, fer þangað eitt síðdegi á viku til að leika við þau. Þau eru yndisleg og bandbrjáluð og ég er alltaf uppgefin eftir fjóra tíma. Þau eru byrjuð í skóla og leikskóla eftir sumarfríið og koma því heim eftir hádegi í sjúskuðum skólabúningum og drífa sig upp að skipta og svo tekur við heimalærdómur eða leiktími, svo kaffitími og meiri leikur. Strákarnir fara í einn skóla og stelpurnar í annan, og mér hálfsvelgdist á þegar ég heyrði nafnið á stelpuskólanum: „Preciosa Sangre“ (já, „Dýrmætt blóð“). Það fer líklega ekki á milli mála að skólinn er kaþólskur.
Í grunnskólum eru venjulega 45 börn saman í bekk (kynjaskipt eða ekki) og kennarar garga sig auðvitað hása við að reyna að halda einhverjum aga í kennslustofunni. Vinur minn sem er söngvari kennir tónmennt í grunnskóla, fimm ára til fimmtán ára stelpum, og hann þurfti að láta skera upp á sér raddböndin því að hann var búinn að eyðileggja í sér röddina við kennslu. Ég vil ekki einu sinni ímynda mér hávaðann í 45 sexárabekkingum með jafnmargar blokkflautur. Það var nóg þegar við fórum í barokkhópnum um daginn og héldum tónleika fyrir skólann, og heyrðum ekki einu sinni í okkur sjálfum fyrir skrækjunum í stelpunum. Þetta eru börn sem kunna ekki að vera á tónleikum af því að þeim hefur aldrei verið kennt það, þar sem foreldrarnir lærðu það aldrei heldur, en Paolo er smátt og smátt að reyna að ala þau upp. Ég fer kannski þangað og held smá flaututónleika fyrir fimmta bekk, svo stelpurnar heyri að það sé hægt að spila alvöru tónlist á blokkflautur.
Það er ennþá alltof heitt hér í borginni og hefur ekki rignt síðan einhverntímann í október að mig minnir. Ég vona að bráðum fari aðeins að kólna, þetta er orðið gott. En ekki búast við að ég komi brún heim, ég stend undir nafni sem endranær og hef varla náð í nokkurn lit. Þá er líklegra að ég nái í smá lit í íslenska sumrinu þegar ég fer aftur heim á Engi að vinna í garðyrkjunni.
Kærar þakkir fyrir allar athugasemdirnar hér fyrir neðan, það er gaman að vita að einhver hefur gaman af því að lesa þetta raus sem er mest fyrir mig sjálfa gert, nokkurs konar stílæfing og dagbók á rafrænu formi. Ef einhver getur lært á þessu eitthvað um Chile eða Suður-Ameríku er það frábært.
Sendi kærar kveðjur úr hausthitunum í Santiago,
Lilia
fimmtudagur, mars 19, 2009
sunnudagur, mars 08, 2009
Háklassablogg
Mikið er ég löt að skrifa blogg. Hef engar skýringar á því né afsakanir, en hér koma í það minnsta pælingar gærdagsins. Ég fór nefnilega í brúðkaup í gær. Vinur minn einn, Jorge, sem ég hitti nú ekki oft en finnst gaman að spjalla við, spurði mig í vikunni hvort ég hefði nokkurn tíma farið í brúðkaup í Chile. Ég kvaðst ekki hafa gert það svo að hann bauð mér í eitt, hjá æskuvini sínum. Þar sem ég vissi að hann hefði alist upp í hverfi ríka fólksins (án þess að vera úr efri stétt sjálfur) bjóst ég alveg við því að veislan yrði í veglegri kantinum. Þegar hann svo sagði mér hvar veislan yrði haldin, á vínekru í útjaðri Santiago, renndi það stoðum undir þann grun. Ég þorði því ekki annað en að stoppa í götin í hálsmálinu á bláu gollunni minni og fara í mitt fínasta púss (hvítan fínan bol og pils með blómamynstri, sumarlegt og sætt), og setja liði í hárið. Við fórum samferða pari úr sama vinahópi, Loreto (hún) og Felipe (hann). Þau höfðu gift sig fyrir jól og báru saman hvert smáatriði í brúðkaupunum tveimur, sem var sætt og fyndið í byrjun en svolítið þreytandi til lengdar.
Kirkjan var auðvitað í fína hverfinu, í fínum almenningsgarði, í stíl við fína fólkið, (“hér leika ríku börnin sér í hvítum sandi, eitthvað annað en í okkar hverfi þar sem sandurinn er svartur,” sagði Loreto.) Athöfnin sjálf var merkilega lík athöfninni heima. Presturinn var duglegur að djóka, með týpískan hérlenskan klisjuhúmor (tengdamömmubrandarar og “brúðurin er eins og prinsessa, stórglæsileg í dag. Brúðguminn, tja, jú, eitthvað hefur verið tjaslað upp á hann”) og tónlistin var góð, miðaldagrúppa með flautur, lútu, slagverk og söng. Brúðhjónin glæsileg og foreldrarnir stoltir. Mér leið auðvitað eins og asna þegar ég kom inn í kirkjuna þar sem allar konurnar voru í kjól nema ég, og ekkert smá kjólum, níðþröngum design-silkikjólum og skóm og hárskrauti og naglalakki í stíl. Allt í einu leið mér eins og heima á Íslandi þar sem allir dressa sig svo mikið upp að maður er aldrei nógu fínn í samanburði, sama hvað maður er ánægður með sig fyrir framan spegilinn heima.
Þema dagsins var tvímælalaust stéttaskipting. Þar sem J. vinur minn er ekki mikið fyrir ríka fólkið, þótt hann hafi (eiginlega óvart) alist upp innan um það, og parið sem við vorum með ekki heldur, var mikið hvíslað og fussað og sveiað yfir allri geðveikinni. Eiginlega er ómögulegt að tala um efri stéttina í Chile án þess að nota orðið cuico (frb.: kvíkó) sem lýsir einmitt þessu fólki, úr efstu stéttum þjóðfélagsins sem á nóg af peningum, býr í fínu hverfunum Las Condes og Vitacura og sendir börnin sín í kaþólska háskólann (sem ég var í), er með her af þjónustufólki til að þrífa upp eftir sig skítinn og passa börnin sín og þarf aldrei að hugsa um það að úti á götunum er fólk sem sveltur. Cuico-ar eru allajafna hægrisinnaðir og Pinochet-istar, eldfimt mál sem best er að láta vera að ræða. Maður segir aldrei cuico við þann sem er cuico, en þeim mun oftar á bak við hann. Allt getur verið cuico, matur, hárgreiðsla, ættarnöfn, augabrúnir (bissnessmenn af arabaættum með mottur yfir augunum), bankar, leikskólar, skólar, spítalar eða orðnotkun (fínu frúrnar nota voðalega mikið smækkunarendingar á öll möguleg orð, cafecito, florcita, tardecita). Til dæmis um muninn á lífi cuico-anna og annarra komst upp fyrir nokkrum mánuðum að camembert-ostur sem seldur var úti í búð olli matareitrun og fjarlægja þurfti hann úr verslunum, þar sem fólk hafði veikst. Það skemmtilega var að öll tilfellin komu upp í fínu hverfunum tveimur sem ég nefndi hér að ofan þar sem að fólk annars staðar borðar ekki svona cuico-ost. Og við erum bara að tala um venjulegan camembert.
Fólk úr efri stétt er hávaxið og grannt, ljósara á hörund, “ljóshært” (þ.e. ekki endilega með svart hár), konurnar með sítt slétt hár. Þetta var vel greinanlegt í brúðkaupinu í gær: ég varð allt í einu lágvaxin aftur. Þjónustufólkið var svo auðvitað allt lágvaxið og mun dekkra á hörund. Í athöfninni tók ég eftir konu sem mér fannst öðruvísi en hinir, hún var góðlegri á svip og hafði þetta blik í augum sem sést hjá vitrum konum sem hafa upplifað margt en láta lítið uppi. Maðurinn hennar var með henni, lágvaxinn líkt og hún og með veðurbarið andlit. Ég sá svo að allir krakkarnir úr vinahópnum fóru að tala við hana og föðmuðu hana að sér. Hún reyndist vera barnfóstran sem hafði gætt brúðgumans og bróður hans þegar þeir voru litlir, búið heima hjá þeim, eldað fyrir þá og hugsað um heimilið (þetta er ennþá mjög algengt í mið- og efristétt). Þegar þau spurðu hvort að hún ætlaði ekki að koma í veisluna sá ég að hún fór undan í flæmingi, en sagðist svo ekki ætla að fara. Þau urðu öll voðalega leið en spurðu ekki af hverju; þau vissu það vel: hún er úr lægri stétt og á ekki heima með þessu fólki, er hrædd um að gera sig að fífli, kannski með því að nota vitlaus hnífapör eða tala með lægristéttarhreim. Svo er það niðurlægingin sem fylgir svipnum hjá fólki sem spyrði hvernig hún þekkti brúðgumann. En ég sá vel svipinn í augunum hjá henni þegar hún sagðist ekki ætla að fara, margra ára niðurbæld sorg í dauflegum augum. Ég hef séð þennan svip oft áður hér í Chile, sérstaklega þegar sósíalistaskandinavinn í mér fer að býsnast yfir því að vinir mínir hafi ekki allir sömu tækifæri og þurfi að sætta sig við lélega menntun, fordóma, fátækt eða niðurlægingu. Þá lítur fólk bara á mig með augnaráði sem segir miklu meira en orðin: inn í þetta fæddist ég og við því er ekkert að gera.
Þetta er orðið heldur langt og sorglegt hjá mér, svo við skulum halda áfram með brúðkaupið. Faðir brúðarinnar er bissnessmaður mikill, á fyrirtæki og fasteignir úti um allan bæ og borgaði að sjálfsögðu brúsann, sem ekki hefur verið ódýr, enda sagði Loreto, sem talar af nýfenginni reynslu við brúðkaupsskipulagningu, að vínekrurnar væru langdýrastar. Gestirnir voru um þrjú hundruð og meirihlutinn löngu kominn af léttasta skeiði. Ég komst svo að því að það var auðvitað af því að þar sem pabbi borgar þurfti hann að bjóða öllum hinum bissnessköllunum og kellingunum þeirra, frímúrarareglunni og fleira fólki sem brúðhjónin þekkja ekki einu sinni.
Útsýnið yfir borgina var dásamlegt í sólarlaginu, pálmatrén báru við gulan og rauðan himininn sem snerti blá og fjólublá fjöllin og tónaði við smog-skýið grágula sem lá yfir borginni. Okkur fína fólkinu var boðið upp á mojito og pisco sour og sýnishorn af mat á pinnum. Svo var okkur vísað inn í risastórt tjald, við vorum á borði 30, hæfilega langt frá fínasta fólkinu og sviðinu, þar sem við vorum nú bara vinirnir, ræflar hlandvanir. Veislan var hundleiðinleg, eins og Jorge þreyttist ekki á að tala um, maturinn var munnbiti af kjöti, sósusletta og agnarsmár þríhyrningur af kartöflugratíni, allt eins og það á að vera, en eftirréttahlaðborðið gott. Engar ræður en alltof langt powerpointsjó með barnamyndum af brúðhjónunum og skemmtilega viðeigandi tónlist undir, eins og “she´s a daddy´s girl” (þá hló ég). Glötuð tónlist, spiluð fyrir gamla fólkið, en klósettin voru sniðug, risastórar rauðmálaðar víngerðartunnur sem maður fór inn í og þar pissaði maður (engir lásar heldur tjöld fyrir dyrum og einn klósettvörður á hvert klósett). Brúðhjónin voru brosmild og kát, með kamerumann á hælunum sem tók upp hverja hreyfingu þeirra allan daginn, fóru svo á milli borða með her af ljósmyndurum til að láta taka myndir af sér með öllum gestunum. Eitthvað voru þau orðin óþreyjufull þegar þau komu að borði 30, brúðurin öskraði á okkur að drífa okkur því að þau hefðu ekki mikinn tíma. Vinirnir voru ekkert voðalega sáttir við hvernig þau komu fram við þá, yrtu varla á þá allt kvöldið og þegar J. sagði brúðgumanum að hann liti vel út og tók aðeins í gráa vestið og bleika bindið hans sagði hann bara “ekki snerta fötin, má ekki skíta þau út”. Ég er handviss um að þau eru besta fólk, en þetta er það sem ríkidæmið gerir við mann, þau detta inn í óþolandi karakter, stressið spilar inn í og pressan að allt sé fullkomið. Og vissulega var allt fullkomið, allt gekk upp, “nógur” matur, vín (jú, það vantaði ekki) og engir skandalar. Vandamálið var bara að veislan var öll gerð fyrir fullorðna fólkið, vindla-og-koníakfélaga pabbans, og því engar áhættur teknar, ekkert glens, ekkert sem gæti stuðað tilvonandi eða núverandi viðskiptafélaga. En brúðhjónin spila með, því að þau fá sinn dag, sitt 300 manna vínekrubrúðkaup, sinn brúðarvönd og kjól, og síðast en ekki síst fá þau loksins að flytja saman, því að það þykir auðvitað ekki við hæfi að fólk búi saman fyrir giftingu í þessum kreðsum.
Þrátt fyrir leiðindin létum okkur hafa það að dansa til fimm, þótt síðustu þrjá klukkutímana hafi Jorge ekki sagt neitt annað en “puta, qué matrimonio fome” (“djöfull er þetta leiðinlegt brúðkaup”) aftur og aftur og þambað viskí onðerokks. Hann var hundfúll og lofaði að bjóða mér með ef einhver fátækari vinur myndi gifta sig, svona upp á samanburðinn. Og jú, brúðkaupið var hrikalega leiðinlegt, en það breytti því ekki að ég skemmti mér stórvel allan tímann við antrópólógískar hugleiðingar um þjóðfélagsstöðu. Og styrktist enn í þeirri trú að ég eigi aldrei eftir að gifta mig.
Mikið er ég löt að skrifa blogg. Hef engar skýringar á því né afsakanir, en hér koma í það minnsta pælingar gærdagsins. Ég fór nefnilega í brúðkaup í gær. Vinur minn einn, Jorge, sem ég hitti nú ekki oft en finnst gaman að spjalla við, spurði mig í vikunni hvort ég hefði nokkurn tíma farið í brúðkaup í Chile. Ég kvaðst ekki hafa gert það svo að hann bauð mér í eitt, hjá æskuvini sínum. Þar sem ég vissi að hann hefði alist upp í hverfi ríka fólksins (án þess að vera úr efri stétt sjálfur) bjóst ég alveg við því að veislan yrði í veglegri kantinum. Þegar hann svo sagði mér hvar veislan yrði haldin, á vínekru í útjaðri Santiago, renndi það stoðum undir þann grun. Ég þorði því ekki annað en að stoppa í götin í hálsmálinu á bláu gollunni minni og fara í mitt fínasta púss (hvítan fínan bol og pils með blómamynstri, sumarlegt og sætt), og setja liði í hárið. Við fórum samferða pari úr sama vinahópi, Loreto (hún) og Felipe (hann). Þau höfðu gift sig fyrir jól og báru saman hvert smáatriði í brúðkaupunum tveimur, sem var sætt og fyndið í byrjun en svolítið þreytandi til lengdar.
Kirkjan var auðvitað í fína hverfinu, í fínum almenningsgarði, í stíl við fína fólkið, (“hér leika ríku börnin sér í hvítum sandi, eitthvað annað en í okkar hverfi þar sem sandurinn er svartur,” sagði Loreto.) Athöfnin sjálf var merkilega lík athöfninni heima. Presturinn var duglegur að djóka, með týpískan hérlenskan klisjuhúmor (tengdamömmubrandarar og “brúðurin er eins og prinsessa, stórglæsileg í dag. Brúðguminn, tja, jú, eitthvað hefur verið tjaslað upp á hann”) og tónlistin var góð, miðaldagrúppa með flautur, lútu, slagverk og söng. Brúðhjónin glæsileg og foreldrarnir stoltir. Mér leið auðvitað eins og asna þegar ég kom inn í kirkjuna þar sem allar konurnar voru í kjól nema ég, og ekkert smá kjólum, níðþröngum design-silkikjólum og skóm og hárskrauti og naglalakki í stíl. Allt í einu leið mér eins og heima á Íslandi þar sem allir dressa sig svo mikið upp að maður er aldrei nógu fínn í samanburði, sama hvað maður er ánægður með sig fyrir framan spegilinn heima.
Þema dagsins var tvímælalaust stéttaskipting. Þar sem J. vinur minn er ekki mikið fyrir ríka fólkið, þótt hann hafi (eiginlega óvart) alist upp innan um það, og parið sem við vorum með ekki heldur, var mikið hvíslað og fussað og sveiað yfir allri geðveikinni. Eiginlega er ómögulegt að tala um efri stéttina í Chile án þess að nota orðið cuico (frb.: kvíkó) sem lýsir einmitt þessu fólki, úr efstu stéttum þjóðfélagsins sem á nóg af peningum, býr í fínu hverfunum Las Condes og Vitacura og sendir börnin sín í kaþólska háskólann (sem ég var í), er með her af þjónustufólki til að þrífa upp eftir sig skítinn og passa börnin sín og þarf aldrei að hugsa um það að úti á götunum er fólk sem sveltur. Cuico-ar eru allajafna hægrisinnaðir og Pinochet-istar, eldfimt mál sem best er að láta vera að ræða. Maður segir aldrei cuico við þann sem er cuico, en þeim mun oftar á bak við hann. Allt getur verið cuico, matur, hárgreiðsla, ættarnöfn, augabrúnir (bissnessmenn af arabaættum með mottur yfir augunum), bankar, leikskólar, skólar, spítalar eða orðnotkun (fínu frúrnar nota voðalega mikið smækkunarendingar á öll möguleg orð, cafecito, florcita, tardecita). Til dæmis um muninn á lífi cuico-anna og annarra komst upp fyrir nokkrum mánuðum að camembert-ostur sem seldur var úti í búð olli matareitrun og fjarlægja þurfti hann úr verslunum, þar sem fólk hafði veikst. Það skemmtilega var að öll tilfellin komu upp í fínu hverfunum tveimur sem ég nefndi hér að ofan þar sem að fólk annars staðar borðar ekki svona cuico-ost. Og við erum bara að tala um venjulegan camembert.
Fólk úr efri stétt er hávaxið og grannt, ljósara á hörund, “ljóshært” (þ.e. ekki endilega með svart hár), konurnar með sítt slétt hár. Þetta var vel greinanlegt í brúðkaupinu í gær: ég varð allt í einu lágvaxin aftur. Þjónustufólkið var svo auðvitað allt lágvaxið og mun dekkra á hörund. Í athöfninni tók ég eftir konu sem mér fannst öðruvísi en hinir, hún var góðlegri á svip og hafði þetta blik í augum sem sést hjá vitrum konum sem hafa upplifað margt en láta lítið uppi. Maðurinn hennar var með henni, lágvaxinn líkt og hún og með veðurbarið andlit. Ég sá svo að allir krakkarnir úr vinahópnum fóru að tala við hana og föðmuðu hana að sér. Hún reyndist vera barnfóstran sem hafði gætt brúðgumans og bróður hans þegar þeir voru litlir, búið heima hjá þeim, eldað fyrir þá og hugsað um heimilið (þetta er ennþá mjög algengt í mið- og efristétt). Þegar þau spurðu hvort að hún ætlaði ekki að koma í veisluna sá ég að hún fór undan í flæmingi, en sagðist svo ekki ætla að fara. Þau urðu öll voðalega leið en spurðu ekki af hverju; þau vissu það vel: hún er úr lægri stétt og á ekki heima með þessu fólki, er hrædd um að gera sig að fífli, kannski með því að nota vitlaus hnífapör eða tala með lægristéttarhreim. Svo er það niðurlægingin sem fylgir svipnum hjá fólki sem spyrði hvernig hún þekkti brúðgumann. En ég sá vel svipinn í augunum hjá henni þegar hún sagðist ekki ætla að fara, margra ára niðurbæld sorg í dauflegum augum. Ég hef séð þennan svip oft áður hér í Chile, sérstaklega þegar sósíalistaskandinavinn í mér fer að býsnast yfir því að vinir mínir hafi ekki allir sömu tækifæri og þurfi að sætta sig við lélega menntun, fordóma, fátækt eða niðurlægingu. Þá lítur fólk bara á mig með augnaráði sem segir miklu meira en orðin: inn í þetta fæddist ég og við því er ekkert að gera.
Þetta er orðið heldur langt og sorglegt hjá mér, svo við skulum halda áfram með brúðkaupið. Faðir brúðarinnar er bissnessmaður mikill, á fyrirtæki og fasteignir úti um allan bæ og borgaði að sjálfsögðu brúsann, sem ekki hefur verið ódýr, enda sagði Loreto, sem talar af nýfenginni reynslu við brúðkaupsskipulagningu, að vínekrurnar væru langdýrastar. Gestirnir voru um þrjú hundruð og meirihlutinn löngu kominn af léttasta skeiði. Ég komst svo að því að það var auðvitað af því að þar sem pabbi borgar þurfti hann að bjóða öllum hinum bissnessköllunum og kellingunum þeirra, frímúrarareglunni og fleira fólki sem brúðhjónin þekkja ekki einu sinni.
Útsýnið yfir borgina var dásamlegt í sólarlaginu, pálmatrén báru við gulan og rauðan himininn sem snerti blá og fjólublá fjöllin og tónaði við smog-skýið grágula sem lá yfir borginni. Okkur fína fólkinu var boðið upp á mojito og pisco sour og sýnishorn af mat á pinnum. Svo var okkur vísað inn í risastórt tjald, við vorum á borði 30, hæfilega langt frá fínasta fólkinu og sviðinu, þar sem við vorum nú bara vinirnir, ræflar hlandvanir. Veislan var hundleiðinleg, eins og Jorge þreyttist ekki á að tala um, maturinn var munnbiti af kjöti, sósusletta og agnarsmár þríhyrningur af kartöflugratíni, allt eins og það á að vera, en eftirréttahlaðborðið gott. Engar ræður en alltof langt powerpointsjó með barnamyndum af brúðhjónunum og skemmtilega viðeigandi tónlist undir, eins og “she´s a daddy´s girl” (þá hló ég). Glötuð tónlist, spiluð fyrir gamla fólkið, en klósettin voru sniðug, risastórar rauðmálaðar víngerðartunnur sem maður fór inn í og þar pissaði maður (engir lásar heldur tjöld fyrir dyrum og einn klósettvörður á hvert klósett). Brúðhjónin voru brosmild og kát, með kamerumann á hælunum sem tók upp hverja hreyfingu þeirra allan daginn, fóru svo á milli borða með her af ljósmyndurum til að láta taka myndir af sér með öllum gestunum. Eitthvað voru þau orðin óþreyjufull þegar þau komu að borði 30, brúðurin öskraði á okkur að drífa okkur því að þau hefðu ekki mikinn tíma. Vinirnir voru ekkert voðalega sáttir við hvernig þau komu fram við þá, yrtu varla á þá allt kvöldið og þegar J. sagði brúðgumanum að hann liti vel út og tók aðeins í gráa vestið og bleika bindið hans sagði hann bara “ekki snerta fötin, má ekki skíta þau út”. Ég er handviss um að þau eru besta fólk, en þetta er það sem ríkidæmið gerir við mann, þau detta inn í óþolandi karakter, stressið spilar inn í og pressan að allt sé fullkomið. Og vissulega var allt fullkomið, allt gekk upp, “nógur” matur, vín (jú, það vantaði ekki) og engir skandalar. Vandamálið var bara að veislan var öll gerð fyrir fullorðna fólkið, vindla-og-koníakfélaga pabbans, og því engar áhættur teknar, ekkert glens, ekkert sem gæti stuðað tilvonandi eða núverandi viðskiptafélaga. En brúðhjónin spila með, því að þau fá sinn dag, sitt 300 manna vínekrubrúðkaup, sinn brúðarvönd og kjól, og síðast en ekki síst fá þau loksins að flytja saman, því að það þykir auðvitað ekki við hæfi að fólk búi saman fyrir giftingu í þessum kreðsum.
Þrátt fyrir leiðindin létum okkur hafa það að dansa til fimm, þótt síðustu þrjá klukkutímana hafi Jorge ekki sagt neitt annað en “puta, qué matrimonio fome” (“djöfull er þetta leiðinlegt brúðkaup”) aftur og aftur og þambað viskí onðerokks. Hann var hundfúll og lofaði að bjóða mér með ef einhver fátækari vinur myndi gifta sig, svona upp á samanburðinn. Og jú, brúðkaupið var hrikalega leiðinlegt, en það breytti því ekki að ég skemmti mér stórvel allan tímann við antrópólógískar hugleiðingar um þjóðfélagsstöðu. Og styrktist enn í þeirri trú að ég eigi aldrei eftir að gifta mig.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)