fimmtudagur, mars 19, 2009

Í gær kaus ég í alþingiskosningunum. Ég fór á ræðisskrifstofu Íslands í Chile með vegabréfið mitt og tíu dollara seðil og nýtti mér þegnrétt minn. Skrifstofan er í hringlaga hverfi sem heitir í beinni þýðingu „Fyrirtækjaborg“ og ber nafn með rentu, því að þarna er allt fullt af höfuðstöðvum stórra fyrirtækja, glæsilegar byggingar, pálmatré og vel hirtar grasflatir (alltaf merki um peninga í S-Ameríku). Konsúllinn sinnir embættisstörfunum að sjálfsögðu meðfram annarri vinnu, enda bjóða milliríkjasamskipti Íslands og Chile ekki upp á stórt sendiráð. Það gladdi mitt gamla hjarta að sjá eldgamlan skjöld með skjaldarmerki Íslands og áletruninni „Lýðveldið Ísland“ fyrir utan skrifstofuna. Einkaritari konsúlsins var mjög almennileg kona sem var voðalega spennt fyrir þessu öllu saman, þar sem ég var sú allra fyrsta í sögu ræðisskrifstofunnar til að kjósa utankjörfundar. Þau voru með þetta allt á hreinu og þetta gekk mjög fljótt og vel og formlega fyrir sig, ég kvittaði undir alla nauðsynlega pappíra, svo konsúllinn, og þau horfðu á mig stinga atkvæðisumslaginu ofan í stærra umslagið og sleikja fyrir og tóku svo við því og tíudollaraseðlinum (fyrir sendingarkostnaði). Nú er bara að vona að atkvæðið skili sér heim í Aratungu á skrifstofu Bláskógabyggðar fyrir kosningar. Ábyrgðarpósturinn ætti að tryggja það. Svo er hitt áhyggjuefnið, að flokkurinn sem ég kaus klúðri ekki einhverju svakalegu fram að kosningum sem verði til þess að ég skipti um skoðun. Of seint að hugsa um það. Ég kaus í það minnsta ekki Sjálfstæðisflokkinn.

Þessa dagana er ég í annarri yfirferð í þýðingunni á skáldsögunni sem ég er að þýða, að laga til og snurfusa, og það er bara nokkuð ánægjulegt. Enn er margt sem ég er ekki búin að finna lausn á eins og gengur og gerist en ég er tiltölulega jákvæð gagnvart því eins og er. Sjáum til hvað ég segi eftir viku. Hins vegar er öll MA-ritgerðin eftir og það er verra.

Ég ákvað að hætta í raunveruleikasjónvarpsþáttarkórnum (langt orð) sem ég var byrjuð í og sagði frá hérna um daginn. Ég sá nefnilega þáttinn. Hann var hörmung. Nú er fyrsta holl af kórum að keppa, reyndar myndi ég varla kalla þetta kóra, heldur samansafn af fólki úr mismunandi áttum, sem er klætt upp látið syngja saman, allt einraddað, Beyoncé og Shakira-lög eða reggaeton-tónlist. Þar standa upp úr Fangakórinn og Módelakórinn (ekki grín), en þar eru einnig m.a. Raunveruleikaþáttastjörnukórinn (hrikalegur) og Friðarkórinn, þar sem syngur saman fólk sem tilheyrir alls kyns mismunandi trúarbrögðum. Þátturinn heitir „Allir í kór“ og er svipað upp settur og Idol, nema einhvern veginn ennþá hallærislegri. Og þar sem ég sker mig úr hvar sem ég fer í þessu landi er það hundrað prósent öruggt að ég fæ að svara einhverjum hallærislegum spurningum kynnanna, sem eru víst voðalega frægir (ég sé fyrir mér „Vá, Ísland? Synguru þá einsog Björk? Syngdu nú smá fyrir okkur...“). Fyrir utan það að ég er víst á leiðinni til Íslands hvað úr hverju og næ því varla að taka þátt nema í kannski fyrsta þættinum.

Fer á eftir á barnaheimilið til gríslinganna minna tíu, fer þangað eitt síðdegi á viku til að leika við þau. Þau eru yndisleg og bandbrjáluð og ég er alltaf uppgefin eftir fjóra tíma. Þau eru byrjuð í skóla og leikskóla eftir sumarfríið og koma því heim eftir hádegi í sjúskuðum skólabúningum og drífa sig upp að skipta og svo tekur við heimalærdómur eða leiktími, svo kaffitími og meiri leikur. Strákarnir fara í einn skóla og stelpurnar í annan, og mér hálfsvelgdist á þegar ég heyrði nafnið á stelpuskólanum: „Preciosa Sangre“ (já, „Dýrmætt blóð“). Það fer líklega ekki á milli mála að skólinn er kaþólskur.

Í grunnskólum eru venjulega 45 börn saman í bekk (kynjaskipt eða ekki) og kennarar garga sig auðvitað hása við að reyna að halda einhverjum aga í kennslustofunni. Vinur minn sem er söngvari kennir tónmennt í grunnskóla, fimm ára til fimmtán ára stelpum, og hann þurfti að láta skera upp á sér raddböndin því að hann var búinn að eyðileggja í sér röddina við kennslu. Ég vil ekki einu sinni ímynda mér hávaðann í 45 sexárabekkingum með jafnmargar blokkflautur. Það var nóg þegar við fórum í barokkhópnum um daginn og héldum tónleika fyrir skólann, og heyrðum ekki einu sinni í okkur sjálfum fyrir skrækjunum í stelpunum. Þetta eru börn sem kunna ekki að vera á tónleikum af því að þeim hefur aldrei verið kennt það, þar sem foreldrarnir lærðu það aldrei heldur, en Paolo er smátt og smátt að reyna að ala þau upp. Ég fer kannski þangað og held smá flaututónleika fyrir fimmta bekk, svo stelpurnar heyri að það sé hægt að spila alvöru tónlist á blokkflautur.

Það er ennþá alltof heitt hér í borginni og hefur ekki rignt síðan einhverntímann í október að mig minnir. Ég vona að bráðum fari aðeins að kólna, þetta er orðið gott. En ekki búast við að ég komi brún heim, ég stend undir nafni sem endranær og hef varla náð í nokkurn lit. Þá er líklegra að ég nái í smá lit í íslenska sumrinu þegar ég fer aftur heim á Engi að vinna í garðyrkjunni.

Kærar þakkir fyrir allar athugasemdirnar hér fyrir neðan, það er gaman að vita að einhver hefur gaman af því að lesa þetta raus sem er mest fyrir mig sjálfa gert, nokkurs konar stílæfing og dagbók á rafrænu formi. Ef einhver getur lært á þessu eitthvað um Chile eða Suður-Ameríku er það frábært.
Sendi kærar kveðjur úr hausthitunum í Santiago,
Lilia

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nu vaeri eg til i hitann i Sameriku... er bara logst i baelid, sjokkid var svo mikid. Fer ad kjosa tegar mer er batnad og var einmitt ad hugsa hversu hraedilegt tad vaeri ad skipta um skodun... eg veit ekki einu sinni hverjir eru i frambodi!

Eva Maria

Nafnlaus sagði...

jaeja... nu er langt sidan tu kaust... eg lika buin ad kjosa... hvad er ad fretta?

Eva Maria