miðvikudagur, október 31, 2007

Vísnagáta


Hér er vísnagáta sem ég bögglaði einu sinni saman. Eitt lausnarorð, sem fæst út úr hverri línu. Mjög létt. Svar óskast með skýringum á hverri línu.


Lýti er á löppum mér
Langan jafnan köllum vér
Hann með einu auga sér
Allt það þekkir hippager.

mánudagur, október 29, 2007

Minni

Í fornöld voru til menn sem kunnu öll lög í landinu. Þetta stendur til dæmis í Grágás um lögsögumenn:

„Það er og að lögsögumaður skal svo gerla þáttu alla upp segja að engi viti einna miklu gjörr.“

Þeir voru það sem nú væri líklega kallað dýrmætur mannauður.

Allt frá þessum tíma og fram á síðustu öld gat fólk líka þulið upp heilu rímnaflokkana, sögur, þulur og söguljóð að því er virðist áreynslulaust. Þessum gáfum hefur hrakað svo ört hjá þjóðinni að grunnskólabörn og foreldrar þeirra bölva því að börnin þurfi að læra „Ein er upp til fjalla“ utan að yfir helgi.

Með farsímum með símanúmeraminni og internetið alltaf við höndina er algjör óþarfi að muna nokkurn skapaðan hlut nema þá slatta af lykilorðum og leyninúmerum til að komast inn á þetta allt saman. Það eru til dæmis nokkur ár síðan ég lagði síðast símanúmer á minnið, og það er svo auðvelt að ná í allan fróðleik að það er hreinasta sóun á geymsluminni að reyna að muna hvað eru margir metrar í einu feti eða hvaða ár Gamli sáttmáli var gerður.

Nú er svo komið að sumir segjast ekki geta hlustað án þess að punkta niður hjá sér hvað sagt er og ég hef tekið eftir leiðinda ávana – eða beinlínis nauðsyn – hjá þónokkrum (kennurum, yfirmönnum...) að láta mann senda sér hvert örsamtal, þar sem lágmarksupplýsingar koma fram, í tölvupósti. Þetta er dæmigert samtal:

Svanhvít (eftir að hafa borið upp erindið): Er þetta þá ekki alveg á hreinu?

Erind-rekinn: Jú, sendu mér bara línu um þetta.

S.: Línu? Um hvað?

E.: Já, bara sendu mér smá tölvupóst um þetta sem þú varst að segja.

S.: Um það sem við vorum að tala um?

E.: Já, svo ég hafi það hjá mér. Sendu mér það bara.

S.: Uhh, ókei.

Ég er nokkuð viss um að við næðum að virkja heilann miklu betur ef við létum hann aðeins púla, til dæmis með því að læra ljóð utanað. Maður þarf ekki að vera í fjórða bekk til þess. Ég held að ég ætli að byrja á því að læra símanúmerið hjá systur minni.

Skrýtibreytir

Hver hefur ekki velt því fyrir sér hversu margar Jennifer Aniston séu í einum ísbirni (9)? Eða hversu mörg A4 blöð jafngildi þyngd annars eista sléttbaks (111.345)? Hvernig hefur þú getað lifað án þess að vita að það þyrfti 45 hænur á vogarskál á móti einum Tom Cruise? Og 9.763.833 augu á móti einni Airbus þotu? Weirdconverter.com er málið.

sunnudagur, október 28, 2007

Fóstbræður

Ég þekki engan sem á Vúxal Víva

fimmtudagur, október 25, 2007

CHI-CHI-CHI - LE-LE-LE

Þar sem enginn fattaði snilldarlegu paródíuna mína hérna fyrir neðan verður þessi færsla rituð eins berum orðum og hægt er.

Ég er komin með flug til Santiago.

25. febrúar næstkomandi flýg ég frá Keflavík til Orlando í Flórída. Þar verð ég hjá krókódílahjónunum, án efa í góðu yfirlæti, allt til þess sjaldgæfa dags 29. febrúar. Þá legg ég af stað í eftirmiðdaginn og flýg frá Orlando til Panamaborgar í Panamá þar sem ég teygi úr löppunum í klukkutíma áður en ég fer í sjö tíma flug til Santiago í Chile. Þangað verð ég komin um fimmleytið í bítið 1. mars.

Þetta er ekkert svo voðalegt. Vonandi kemst ég í heilu lagi fram og svo aftur til Íslands tæpu ári seinna og farangurinn líka. Ég held að það sem móðir mín óttist mest sé að ég gerist smokkasmyglandi burðardýr sem verður síðan kviðrist og innyflin seld hæstbjóðanda. Ég lofa engu.

En vissuð þið að Chile er ekki bara lengsta land í heimi heldur er þar líka að finna heimsins stærstu sundlaug? Ég held ég láti mér samt nægja endalausa strandlengjuna.

Ég lýsi því yfir að Svanhvít er hér með formlega orðin spennt.

þriðjudagur, október 23, 2007

Afturkreistingar

Ég steiki kleinur eins og allt gott og heiðvirt fólk. Mínar kleinur eru óaðfinnanlegar, gullnar eftir rétt hitastig feitinnar, ekki of stórar og ekki of litlar. Svoleiðis ættu allar kleinur að vera. En til er fólk sem gerir öðruvísi „kleinur“. Það setur til dæmis kúmen í þær og sleppir kardimommudropunum, eða hefur þær minni en mínar kleinur. Sumir súkkulaðihúða þær meira að segja! Það særir mig djúpt að á heimilum landsins skuli slíkt viðgangast. Mér finnst að persónu minni vegið að þetta fólk skuli kalla sitt bras kleinur. Veit þetta fólk ekki að hér er aldalöng hefð fyrir kleinusteikingum sem ekki er hægt að kasta á sorphaugana? Vissulega mætti skipa nefnd sem ákveður hvort ekki megi kalla þessar eftirlíkingar einhverju öðru nafni (ég sting upp á „afturkreistingum“) en það er óhugsandi að kalla þetta kleinur eins og þetta sé sami hluturinn.

Allir sannir Íslendingar hljóta að vera mér sammála í þessu.

föstudagur, október 19, 2007

Ekki bara legremburottur með rykfallinn sníp

Hvað hefur maður oft heyrt að femínískar konur séu bara frústreraðar þurrk***ur og femínískir karlar kúgaðir aumingjar? Hér er rannsókn sem leiðir annað í ljós:

http://www.livescience.com/health/071017-feminism-romance.html

fimmtudagur, október 18, 2007

Misjafnt er mannanna gaman
Þegar ég fór um Heathrow-flugvöll um daginn varð ég mjög hrifin af
auglýsingaherferð frá HSBC banka sem samanstóð af flennistórum veggspjöldum með mismunandi myndum af ólíkum áhugamálum og lífsstíl fólks til að minna mann á að við erum ekki öll eins og það sem einum þykir frábært finnst öðrum ömurlegt.














Mér datt þessi herferð í hug þegar ég fann í gær á netinu útvarpsstöðina Recorder-Radio (Der Radiosender, der Ihnen die Musik der Blockflöte und ihrer Verwandten präsentiert) þar sem er spiluð blokkflaututónlist tuttugu og fjóra tíma sólarhringsins. Himnaríki fyrir mig... en það er eins og mig gruni að svo sé ekki um alla. Tilvalið mótvægi væri til dæmis rás þar sem fótboltaleikjum er lýst allan sólarhringinn.

ps. Blogger leyfir mér ekki að hafa allt í sama letri. Eins og mér sé ekki sama...

LEGO
























Hver er maðurinn?

sunnudagur, október 14, 2007

Skuggamyndir
uppfært: Kjánasvanhvít ætlaði auðvitað að vísa á þessa síðu en ekki bara eina mynd. Mér finnst þetta sniðugt.




fimmtudagur, október 11, 2007

Do you see what happens, Larry?

Sérðu bara hvað gerist, Þura! Þú sinntir ekki kalli borgarstjórans og nú er allt farið til fjandans! Honum steypt af stóli og andstæðingarnir teknir við völdum. Þér er ekki treystandi lengur sem bjargvættur borgarinnar.

(ekki að ég kvarti sosum)

miðvikudagur, október 10, 2007

Sögustund

Um daginn setti ég á þessa síðu sögu sem ég þýddi sem heitir Lucas vinur minn. Hún er eftir argentínska höfundinn Fernando Sorrentino. Nú var ég að uppgötva að hann er búinn að setja tengil á söguna á sinni síðu þar sem hann safnar þýðingum á verkum sínum (þetta eru aðallega smásögur). Reyndar með rangan þýðanda titlaðan, en ég hafði samband við kallinn og þakkaði honum fyrir og hann ætlar að kippa þessu í liðinn. Ég spurði hvort ég mætti ekki þýða fleiri sögur eftir hann og hann benti mér m.a. á þessa. Hún er svo stutt að ég læt hana fljóta með hér. Sagan sem ég er að þýða eftir hann núna hlýtur líklega titilinn Það er maður sem leggur það í vana sinn að berja mig í höfuðið með regnhlíf.

Bara ímyndun

Vinir mínir segja að ég sé ímyndunarveikur. Ég held að það sé rétt hjá þeim. Því til stuðning er saga af litlu atviki ég lenti í síðastliðinn fimmtudag.
Þann morguninn var ég að lesa hryllingssögu og þótt það væri hábjartur dagur tók ímyndunarveikin völdin. Ég ímyndaði mér að í eldhúsinu væri blóðþyrstur morðingi og að þessi blóðþyrsti morðingi héldi á stærðarinnar rýtingi og biði eftir að ég kæmi inn í eldhúsið þar sem hann myndi kasta sér á mig og stinga mig í bakið með rýtingnum. Ég sat fyrir framan eldhúsdyrnar svo að enginn hefði getað hafa komist inn í eldhúsið án þess að ég hefði séð það, og engin leið var þangað inn nema um þessar dyr, en þrátt fyrir það var ég fullviss um að morðinginn biði átekta á bak við luktar dyrnar.
Svo að þarna var ég og þorði ekki inn í eldhús út af ímyndun minni. Þetta olli mér áhyggjum þar sem leið að hádegisverði og óhjákvæmilegt væri að ég færi inn í eldhús.
Þá hringdi dyrabjallan.
„Komdu inn!“ kallaði ég án þess að standa upp. „Það er ólæst.“
Húsvörðurinn í byggingunni kom inn með tvö eða þrjú bréf.
„Ég er með náladofa,“ sagði ég. „Gætir þú ekki farið inn í eldhús og náð í vatnsglas handa mér?“
„Að sjálfsögðu,“ sagði húsvörðurinn, opnaði eldhúsdyrnar og fór inn. Ég heyrði sársaukavein og hljóð í líkama sem dettur og tekur í fallinu með sér diska eða flöskur. Þá stökk ég upp úr stólnum og hljóp inn í eldhús. Húsvörðurinn lá hálfur á borðinu með stærðarinnar rýting í bakinu, dauður. Nú gat ég andað rólegar og verið viss um að auðvitað var enginn morðingi í eldhúsinu.
Þetta var, eins og rökrétt er, bara ímyndun.

Úr bókinni El mejor de los mundos posibles [Það besta úr hugsanlegum heimum], Buenos Aires, Editorial Plus Ultra, 1976.

þriðjudagur, október 09, 2007

Skilaboð til Þuru frá Gotham City

Borg óttans kallar á þig. Borgarstjórinn hefur sent neyðarkall með ljósmerki og biður þig að koma borg þinni til hjálpar. Þú ert okkar eina von. Meira að segja Bítill og Bítlaekkja mættu og grátbiðja þig að koma.

sunnudagur, október 07, 2007

Leck mich im Arsch

Ég hef alltaf verið áhugamaður um ókeypis nótur af tónlist á internetinu og á þeim áratug sem ég hef notað netið hefur bæst við ógrynni af tónverkum sem er hægt að ná sér í án þess að borga. Ef einhvern vantar að ná sér í nótur af t.d. Sousa-mörsum, Vínarvölsum eða ítalskar óperur eins og þær leggja sig mæli ég með verkefninu IMSLP (International Music Score Library Project) þar sem er hægt að finna fullt af innskönnuðum nótum eftir tónskáld sem hafa verið dauð í yfir fimmtíu ár (samkvæmt kanadískum höfundarréttarlögum).

Þarna gat ég til dæmis fundið nótur fyrir blokkflautuna (sem er ekki gleymd þótt ég spili ekki mikið) og prentað út flautudúetta Telemanns og spilað án nokkurs samviskubits þar sem hann er búinn að vera dauður í 240 ár. Þarna er verið að setja inn öll verk Bachs og þetta á bara eftir að stækka svo líklega verður hægt að ná í nánast hvað sem er eftir einhver ár.

Þetta er mjög góður kostur, sérstaklega ef mann vantar bara eitt lag eða verk sem er annaðhvort bara til í einni rándýrri bók í Tónastöðinni eða ekki neins staðar á landinu svo maður þarf að panta af netinu sem tekur oftast vikurnar sem maður hefur einmitt ekki þegar mann vantar nótur.

Reyndar eru til fleiri svona síður, t.d. þær sem má sjá neðst á þessari. Svo er á þessari síðu hægt að finna verk Mozarts, meðal annars sex radda kanóninn hans "Leck mick im Arsch" ("Sleiktu á mér rassinn") og hinn þriggja radda "Leck mich im Arsch fein recht schön sauber" ("Sleiktu á mér rassinn vel og vandlega") sem reyndar er í seinni tíð ekki talinn hafa verið saminn af Mozart. Hér má svo heyra titil lagsins fluttan af heldri frú.

föstudagur, október 05, 2007

"Well, it was a big bird"

Jæja, ég skrapp til Lundúnaborgar í nokkra daga til að fara með rúmföt og hlýjar peisur til Þuru og heimsækja hana í leiðinni. Hægt er að sjá nokkrar myndir úr ferðinni á blogginu hennar og ég þakka henni kærlega fyrir höfðinglegar móttökur í höllu sinni (10 - nei, afsakaðu, 12 fermetra herberginu með baðinu þar sem maður getur farið í sturtu á meðan maður situr á klósettinu (nei ég gerði það ekki)). Eins og góð vinkona varð ég að gæðaprófa og samþykkja híbýlin og þau fá Svanhvít´s seal of approval.
London var góð eins og alltaf og mjög gaman að hitta Hring og Möttu, gaman að fara á Camden, British Museum og Spamalot, en ekki jafngaman á Ministry of Sound (sorrí). Líka gaman að sitja bara og borða og drekka bjór. Líbanskur matur er mjög góður (og vel útilátinn, hmm...).

Ég kom heim á þriðjudaginn og átti að fara í loftið frá Heathrow klukkan 13. Eitthvað seinkaði fluginu og loks var okkur tilkynnt að það yrði bara alls ekki flogið. Við fengum hins vegar forláta 'meal vouchers' upp á 17 pund til að seðja sárasta hungrið fram að kvöldflugi, sem var sett kl 21. Ég sá fram á ömurlega sjö klukkutíma á fokdýrum flugvelli með ekkert að gera nema éta og drekka bjór, en það rættist úr deginum þegar ég fór að spjalla við tvo aðra einstæðingstrandaglópa sem voru líka ósköp glaðir að þurfa ekki að húka þarna einir. Deginum eyddum við svo saman á flugvallarbörum í hrókasamræðum, mjög ánægjulegum, og ég þakka Róbert og Rúnu kærlega fyrir. Í svona aðstæðum þýðir ekkert að pirra sig heldur verður bara að smæla framan í heiminn. Við bölvuðum því reyndar aðeins að þurfa að ná í ferðatöskurnar á bandinu eins og við værum að koma til landsins og fara í vegabréfaeftirlit og svo tékka okkur inn aftur og fara í gegnum öryggishliðið aftur (do I really have to take my shoes off?) en við brustum þó ekki í grát eða snöppuðum eins og sumir viðstaddra.

Það er lítið annað að gera á flugvelli en að versla svo ég gerði svolítið af því. Keypti mér mp3-spilara sem ég hef ætlað að gera lengi, tösku utan um myndavélina og ýmsan annan lífsnauðsynlegan óþarfa. Ég fékk þó nóg þegar ég fór í skóbúð og sá álitlega skó sem ég vildi fá að máta í stærra númeri. Þeir voru númer 37.

Ég spurði afgreiðslukonuna: Do you have these a little bigger?
Afgreiðslukona: Which number do you usually take?
Ég 37-38.
Afgreiðslukona (hranalega): Your feet don´t look like a 37.
Ég: Well...
Afgreiðslukona: Try these, they are 39,5.
Ég (máta skóna): They are way too big. Can I just get the nr. 37 or 38?
Afgreiðslukona: Well, you just don´t look like a 37-38.
Ég (hissa): Can you get them for me, please?
Afgreiðslukona: Well... OK then. (fer og nær í skóna)

Eftir að hafa mátað skóna fannst mér þeir allt í einu ekkert flottir lengur og þakkaði pent fyrir mig og fór. Við hvora hafa þessar bífur verið fastar í 25 ár, mig eða þessa kellu?

En hvað um það. Ég komst í það minnsta að því með hjálp sessunautanna hvað hefði komið fyrir flugvélina og ástæðan var víst 'collision with a bird'. Hversu magnað er það? Einn fugl í hreyfli stöðvar för stórs hóps af fólki og kostar Flugleiði örugglega milljónir. Það þurfti líka að fá extra langa flugvél í kvöldflugið til að geta troðið þangað okkur öllum og öllum í kvöldfluginu, og (líklega) þess vegna seinkaði því flugi um tvo klukkutíma. Ég átti semsagt að lenda klukkan 15 um daginn en var svo ekki komin heim til mín fyrr en klukkan 3 um nóttina. Ojæja. Ég lærði allavega spilið Pass the Pigs á leiðinni heim sem ég og sessunautarnir spiluðum af miklum móð og gerðum örugglega langþreytta nágranna okkar gráhærða.