miðvikudagur, október 10, 2007

Sögustund

Um daginn setti ég á þessa síðu sögu sem ég þýddi sem heitir Lucas vinur minn. Hún er eftir argentínska höfundinn Fernando Sorrentino. Nú var ég að uppgötva að hann er búinn að setja tengil á söguna á sinni síðu þar sem hann safnar þýðingum á verkum sínum (þetta eru aðallega smásögur). Reyndar með rangan þýðanda titlaðan, en ég hafði samband við kallinn og þakkaði honum fyrir og hann ætlar að kippa þessu í liðinn. Ég spurði hvort ég mætti ekki þýða fleiri sögur eftir hann og hann benti mér m.a. á þessa. Hún er svo stutt að ég læt hana fljóta með hér. Sagan sem ég er að þýða eftir hann núna hlýtur líklega titilinn Það er maður sem leggur það í vana sinn að berja mig í höfuðið með regnhlíf.

Bara ímyndun

Vinir mínir segja að ég sé ímyndunarveikur. Ég held að það sé rétt hjá þeim. Því til stuðning er saga af litlu atviki ég lenti í síðastliðinn fimmtudag.
Þann morguninn var ég að lesa hryllingssögu og þótt það væri hábjartur dagur tók ímyndunarveikin völdin. Ég ímyndaði mér að í eldhúsinu væri blóðþyrstur morðingi og að þessi blóðþyrsti morðingi héldi á stærðarinnar rýtingi og biði eftir að ég kæmi inn í eldhúsið þar sem hann myndi kasta sér á mig og stinga mig í bakið með rýtingnum. Ég sat fyrir framan eldhúsdyrnar svo að enginn hefði getað hafa komist inn í eldhúsið án þess að ég hefði séð það, og engin leið var þangað inn nema um þessar dyr, en þrátt fyrir það var ég fullviss um að morðinginn biði átekta á bak við luktar dyrnar.
Svo að þarna var ég og þorði ekki inn í eldhús út af ímyndun minni. Þetta olli mér áhyggjum þar sem leið að hádegisverði og óhjákvæmilegt væri að ég færi inn í eldhús.
Þá hringdi dyrabjallan.
„Komdu inn!“ kallaði ég án þess að standa upp. „Það er ólæst.“
Húsvörðurinn í byggingunni kom inn með tvö eða þrjú bréf.
„Ég er með náladofa,“ sagði ég. „Gætir þú ekki farið inn í eldhús og náð í vatnsglas handa mér?“
„Að sjálfsögðu,“ sagði húsvörðurinn, opnaði eldhúsdyrnar og fór inn. Ég heyrði sársaukavein og hljóð í líkama sem dettur og tekur í fallinu með sér diska eða flöskur. Þá stökk ég upp úr stólnum og hljóp inn í eldhús. Húsvörðurinn lá hálfur á borðinu með stærðarinnar rýting í bakinu, dauður. Nú gat ég andað rólegar og verið viss um að auðvitað var enginn morðingi í eldhúsinu.
Þetta var, eins og rökrétt er, bara ímyndun.

Úr bókinni El mejor de los mundos posibles [Það besta úr hugsanlegum heimum], Buenos Aires, Editorial Plus Ultra, 1976.

Engin ummæli: