þriðjudagur, janúar 29, 2008

Vont

Nú man ég hvað kavíar og appelsínusafi er ógeðslega vont saman.

Slæmar minningar úr barnæsku, nema þá var það appelsínuþykkni því við áttum aldrei safa (sniff).
Hér fer ekki mikið fyrir djúsí bloggi þessa dagana. Góðir menn hafa komið að máli við mig og farið þess á leit að hér verði fyllt á síður, en venjulega finnst mér best að þær fylli sig sjálfar þegar þannig stendur á.

Af mér er helst að frétta að eftir að hafa þýtt 64 þætti af venesúelskum sápum er ég orðin nokkuð vel skrúbbuð og tilbúin að takast á við eitthvað nýtt. Þetta var fínt en nú er það búið. Ég á auðvitað eftir að sakna Alcides míns, og pabba hans Ignacios, vonda flugfélagseigandans, og eins Divinu Alegría og Dulce Maríu, en aðra karaktera eins og Enrique, Morönu og Chöchu og bölvaða tvíburana græt ég ekkert að slíta samskiptum við. Ég áttaði mig líka á því að þetta væri að verða komið gott þegar mig fór að dreyma Dulce Maríu og holdafarsvandamál hennar. ("Dulce, þú ert ekkert feit.")

Nú er það Fréttablaðstörn til 14. feb og þá lýkur líklega minni vinnu hjá 365 í bili eftir tvö bara ágætis ár. Svo er partí 15. feb, fyrir alla sem ég þekki, á Kaffi Kúltúra. Mest langar mig að hægt verði að fá sér Pisco Sour á barnum en það verður allt að koma í ljós. Það verður allavega bjór. Þó að ég bjóði þér ekki persónulega máttu samt koma, þ.e. ef þú ert ekki einhver ógurlegur bjórsvelgur sem ég þekki ekki.

Um áramót ætlaði ég að vera voða sniðug og gera annál eins og svo margir, og fara í gegnum atburði ársins í lífi mínu með því að styðjast við bloggfærslur. Þegar á reyndi komst ég þó að því að bloggið er mjög léleg heimild um það sem ég í raun var að gera. Þar vantar til að mynda inn í stóratburði eins og Passíusálmatónleika í Hallgrímskirkju um páskana og allt sem við Þura gerðum í London, en á móti var mikið þvaður um orð, greinarmerkjasetningu og stílfræði. Það "mætti halda" að ég væri nörd.

Ég ætla hins vegar bráðum að fara að færa mig héðan og yfir á svankvit.blogspot.com (nei, ekki alveg strax) hvaðan ég mun blogga frá Chile og til frambúðar, líklega. Tilkynni það formlegar síðar.

Óðar stundir

miðvikudagur, janúar 23, 2008

Ef þú breikar framan í heiminn

Dömur mínar og herrar, má ég kynna... bboyinn Megas!
(hann byrjar að dansa eftir 2 mínútur af myndbandinu)

mánudagur, janúar 21, 2008

Stafsetníngaræfing á mánudegi

Svanhvít dóttir Ingólfs sýður sangan velling og *þíðir kjúkling áður en hún heldur áfram að þýða.

*17.44. "af" fjarlægt. SLI

þriðjudagur, janúar 08, 2008


















Einhvern veginn svona líður mér núna.

sunnudagur, janúar 06, 2008

Útrás - rasað út

Það er pínu farið að styttast í að ég fari út, og það líður ekki sá dagur að ég fái ekki í magann yfir því. Ég semsagt flýg til Flórída 25. febrúar og svo til Chile 29. feb. og eins og einhver sagði þá græði ég dag í Flórída úr af hlaupári. Það er ekki svo slæmt að græða dag með Guðbjörtu sinni.

Nú er ég bólusett, komin inn í skólann og meira að segja komin með íbúð, og ég verð aðeins að segja frá henni. Það eru nefnilega svo margar tilviljanir í þessu lífi, eins og til dæmis að fyrrverandi tengdamóðir mín hún Laufey sagði mér þegar ég fór í kaffi til hennar fyrir jól að hún hefði verið skólafélagi og vinur rektorsins í háskólanum mínum, Universidad Católica de Chile þegar þau lærðu í Bandaríkjunum. Hún á líka annan mjög góðan vin sem er prófessor í háskólanum mínum.

En það er nefnilega önnur tilviljun í kringum þessa ferð, því þegar ég var búin að leita á tveimur mismunandi íbúðamiðlunarsíðum og velja úr hundruðum íbúða sýni ég chileskum vini mínum eina á MSN, sem ég er mjög ánægð með. Hann fer að hlæja og útskýrir svo að þegar sameiginleg vinkona okkar (við öll Erasmusar úr Alcalá), Nadine frá Sviss, kom til Santiago fyrir um ári síðan bjó hún í nákvæmlega sömu íbúð í tvo mánuði. Ég meinaða.

Svo ég sendi henni póst og hún sagði að þetta væri æðisleg íbúð og Rodrigo sem byggi þar væri mjög amable. Þess vegna festi ég mér hana eins og skot, enda ekki slæmt að hafa vitnisburð frá fyrstu hendi. Ég er búin að lesa um svo margar íbúðir og eigendur þeirra og lesa á milli línanna um "afslappað andrúmsloft" (séð fyrir mér allt í drasli) eða "mjög skipulagður og alvarlegur maður" (séð fyrir mér leiðindapúka) eða "finnst allt í lagi að þú haldir partí" (er alltaf með partí sjálfur) o.s.frv. Þetta gæti því varla verið betra.

Íbúðin er á besta stað, miðsvæðis, nokkrar metróstöðvar frá skólanum og út um gluggann sér maður Bustamante-garðinn (sem er gott, því það er ekki lítil mengun í borginni).














Fyrir herlegheitin borga ég svo átján þúsund krónur á mánuði, sem er frekar dýrt fyrir Chile-búa, en útlendingar eru rukkaðir um miklu meira en þeir. Ég get samt borgað hálft ár í þessari íbúð fyrir einn mánuð í þeirri sem ég er í núna.

Jiminn eini hvað ég verð spennt af því að skrifa þetta.

Já og svo er partí.

8. eða 15. feb?