fimmtudagur, maí 31, 2007

Greinarmerkjasetning, sem gildir í íslensku, er eitthvað, sem ég ekki skil

Eftir nokkra klukkutíma mun ég standa fyrir framan hóp af tilvonandi læknanemum og kenna þeim kommureglurnar í íslensku (og allt annað sem ég veit og ekki veit um íslensk fræði). Síðustu þrjá daga er ég búin að vera að býsnast yfir téðum reglum enda eru þær alls ekki samræmi við daglega notkun málhafa. Ég hafði bara aldrei rýnt almennilega í þær fyrr en mér var sagt að ég þyrfti að kenna þær (og þar með skilja þær almennilega).

Hér eru reglurnar


en einnig hér, og þá ítarlegar og með dæmum.


3. 4. og 5. grein eru fínar, allt gott og blessað þar, bara um ávarpsliði og upptalningu og beina ræðu og svona, en í 6. grein versnar málið. Þar er sagt að setningar sem fleyga aðrar setningar séu afmarkaðar með kommu. Sem sagt t.d. svona:

a) Stúlkan, sem þú elskar, heldur fram hjá þér.
b) Kókómjólkin, sem ég drakk í hádeginu, var volg.

Þetta finnst mér óeðlileg kommusplæsing ef þetta stendur svona eitt og sér. Ef búið er að kynna stúlkuna og kókómjólkina til leiks, t.d. í setningunni á undan, væri þetta þó alveg eðlilegt:

c) Ég fann kókómjólk og kexpakka á glámbekk í morgun.
d) Kókómjólkin, sem ég drakk í hádeginu, var volg.

Ef þarna væru ekki kommur væri ljóst að verið væri að tala um aðra kókómjólk en þessa á glámbekknum. Þetta finnst mér alveg skýrt. Þess vegna finnst mér skrítið að svona setningar megi ekki vera kommulausar þegar það á við.

Þá skil ég ekki hvers vegna tilvísunarsetningar á eftir nafnorðum þarf að afmarka með kommum en ekki má afmarka tilvísunarsetningar á eftir sá (sú, það, þær, þeir, þau) og þar:

e) *Stúlkan sem þú elskar heldur fram hjá þér. (stjarnan merkir að setningin sé ekki rétt)
f) Sú sem þú elskar heldur fram hjá þér.

Svo er valfrjálst hvort notaðar eru kommur þegar önnur fornöfn eða atviksorð standa við setningar sem fleyga aðrar. Hér er lagið ,,Hvar sem ég fer" með Á móti sól með réttri kommusetningu (leyfilegri, þó eru kommurnar á undan hvar og hvert valfrjálsar).


Hvar, sem ég fer

Hugsa um þig á daginn og dreymir fram á nótt.
Er dimmir fæ ég hallað mér að þér, þú ert allt, sem ég á.

Hvar, sem ég fer, hvert, sem þú leiðir mig,
þar vil ég vera, þar vil ég vera með þér.

Að hvíla þér við hlið og hvísla að þér orð
er sem heimurinn sé allur hér hjá mér.
Hér er allt, sem ég þarf.

Án þín væri lífið mér lítils virði og ósátt
leið að lokum komin, þú ert allt, sem ég á. (þetta erindi er nokkuð myrkt og þarfnast nánari útskýringa til að hægt sé að nota rétt greinarmerki)

Hvar, sem ég fer, hvert, sem þú leiðir mig,
þar vil ég vera, þar vil ég vera með þér.


Ég held ég haldi nú bara áfram að gera greinarmun á mínum tilvísunarsetningum, sama hvað einhver úldin reglugerð frá 1974 segir. Enda er ekki einu sinni farið eftir greinarmerkjasetningunni í henni sjálfri! Skýringin, sem gefin var, (hahaha) var að lögin hefðu ekki öðlast gildi þegar þau voru samin, sem er vitaskuld satt, en ég skil þó ekki af hverju ekki var hægt að laga það EFTIR að þau höfðu tekið gildi, t.d. þegar breytingar
skv. auglýsingu nr. 184/1974 voru settar inn í...

...æi voðalega nöldra ég.
Ef ég fer með fleipur vil ég vita það, svo leiðréttið mig í kómakerfinu hérna.
Ég er farin í bælið.

12 ummæli:

Þura sagði...

Ég skil þetta ekki eins og þú. T.d. dæmið úr móti sólar laginu:

...þú ert allt, sem ég á.

Sko ég myndi vilja breyta orðaröðinni til að setja kommuna inn:

Allt, sem ég á, ert þú.

Þannig skil ég allavega klausu 1 í grein 6. Skilurðu...

En minni íslenskukunnáttu hefur stórhrakað síðan í mh svo komma ég er ekki viss.

Svanhvít sagði...

Það breytir engu um kommusetninguna, innskotssetningin er eftir sem áður 'sem ég á'.

Æ fokkit,ég er búin að kenna, nú er það bara aftur í mína skilgreiningu :)

Magnús sagði...

Mér finnst þessi færsla afbragð. Liggur oft eitthvað svipað á hjarta en 1) Nenni ekki að koma því í orð 2) Hef litla trú á að einhver hafi áhuga 3) Er hræddur við að vera talinn lúði. Sem er náskylt "It's not paranoia if they really are out to get you".

Magnús sagði...

Já, og 4) Get ekki skrifað af þekkingu um íslenskt mál.

Svanhvít sagði...

hvað varðar 2) og 3) ákvað ég að ignora það algjörlega í þessari færslu, enda er enginn skyldugur til að lesa þetta frekar en hann vill. Kannski á maður að vara fólk við í byrjun, eða koma með gulrót einhvers staðar í miðjum texta, t.d. link á skemmtilegt lag eða mynd af berum brjóstum...

4) pff... ef maður er góður í að skýra út málfræðiatriði að þá gildir einu hvort maður notar orð eins og 'ómörkuð málfræðiformdeild' eða ekki...

Þura sagði...

Já en innskotssetning hlýtur að vera innan í en ekki aftan við !

Svanhvít sagði...

Þú meinar það... ég held ekki að það breyti neinu, hún er ennþá bara setning sem er bætt við til útskýringar, og ef hún er ekki afmörkuð með 2 kommum, þá með kommu og punkti af því hún er í endann.

Magnús sagði...

Sammála síðasta ræðumanni.

Orri sagði...

komma komma komma komma komma kommilíjón...
Jú komma-nd gó
jú komma-nd gooooó...

Svanhvít sagði...

aaah... alltaf gott að fá smá komm-ic relief þegar maður er orðinn aðeins of djúpt sokkinn í eitthvað jafn óspennandi og kommur. Takk orri

Svo vil ég biðjast afsökunar á þessu "að þá" hér fyrir ofan, svona skrifa ég ekki, ég breytti setningunni bara eftir að ég hafði skrifað hana og þetta 'að' varð eftir. Ojbara.

Þura sagði...

Ég mótmæli, íslenska er mál sem ég skil og tala!

Ég ekki skilja 1. grein 6. klausu.

Æi, núna er ég geðveikt stressuð, að nota vitlausar kommur í þessu kommentakerfi... æi krap.

grande sagði...

grande