mánudagur, maí 07, 2007

Kannast hlustendur við ...

Það má ekki líða of langt á milli tungumálanördapistla. Um daginn nefndi ég oxymoron, þ.e. refhvörf, og nú er komið að andstæðunni, nefnilega pleonasm. Það er einmitt þegar orð eða orðhlutar sem standa saman gætu alveg komist af hvort án annars, þar sem þau þýða það sama (tátólógía). Í ensku eru mörg dæmi um þetta:

sink down, join together, free gift. Mörg fleiri hér.

Þetta er líka mjög algengt í tökuorðum og orðum sem eru að hluta skammstafanir:

trílógía í þremur hlutum
pizza pie

salsasósa
PIN-númer
ATM-machine

... og eitt hallærislegasta dæmið:

Nýja fréttastöðin NFS


Hér eru fleiri dæmi:

sokkaleisti

ofnotuð klisja
ógiftur piparsveinn
slæmur ósiður
detta niður
hoppa upp

stór risi

þetta eru líka oft alls kyns orðapör, meðal annars vinsæl í riddarasögunum gömlu:

kyrrð og ró
glaumur og gleði
fjöll og firnindi
margt og mikið

Svo geta þetta verið lengri frasar:

Hún var dóttir föður síns og móður sinnar
Ég sá þetta með mínum eigin augum


(Það má kannski segja að þessi tendens að skeyta eignarfornafni aftan við alla mögulega líkamshluta (lungað mitt, höndin mín, hjartað mitt) sé skylt þessu.)

Þó að þetta sé oftast lýti er líka hægt að nota þetta skemmtilega og listrænt eins og í þessari spænsku vísu:

Allí arriba en aquel cerro
hay un lindo naranjel
que lo cría un pobre ciego,
pobre ciego que no ve.

(Lausleg þýðing: Þarna uppi á þessum hóli/ er fallegt appelsínutré /sem var ræktað af blindum manni / blindum manni sem ekkert sér.)

Fleiri?

10 ummæli:

Þura sagði...

Það er rétt, það má ekki líða of langt á milli, finnst skemmtilegt svona! Svo það sé á tæru.

Magnús sagði...

KB banki
BT tölvur
BK kjúklingar

Það er margt í mörgu, svo ég ítreki nú klifunina og þessa tátólógísku endurtekningu aftur og enn og margoft. Ei er því að leyna. Og seisei já. Og jammojæja. Svo er það. Það held ég nú.

Nafnlaus sagði...

Mér fannst þetta fyrirbæri einmitt mjög athyglisvert í vetur þegar ég lærði með stuttu millibili að:

1) Þetta væri lýti á texta (skv. námskeiðinu Málnotkun) ... eða ætti ég kannski að segja ljótt lýti :)

2) Þetta væri hrikalega flott stíleinkenni eddukvæða (skv. námskeiðinu Ísl. bókmenntasögu), nefnt breytt endurtekning eða tilbrigði.

Ég áttaði mig aldrei almennilega á því af hverju meðaljóninn má ekki beita þessu glæsta stílbragði.

Þó ég sé almennt séð mikill aðdándi málfarsfasisma er ég alls ekki viss um hvað mér á finnast um „ofnotaðar klisjur“ og „slæma ósiði“. Er þetta ekki bara skemmtileg leið til að leggja áherslu á fyrirbærið sem er tvítekið? Las reyndar einmitt í gær bók þar sem sú hugmynd kom við sögu að allt sem er mikilvægt (í ræðu) þyrfti að tvítaka.

Ég viðurkenni samt að þetta verður stundum kjánalegt þegar skammstafanir eiga í hlut. Finnst reyndar skammstafanavæðing allra hluta einn versti enskuósiður sem hægt er að taka inn í málið.

Skemmtilegt blogg.

Svanhvít sagði...

Einmitt, þetta er nefnilega ekki svo einfalt að allt falli í sama flokkinn og teljist lýti.

Stundum kallar tungumálið líka bara á tvítekningu hljómsins vegna, eins og í 'kyrrð og ró', og þó að það segi sig sjálft að ef maður dettur þá dettur maður niður þá er alveg lífsins ómögulegt að segja 'hún datt allan stigann'.
Og þegar maður segir 'hann hoppaði upp og niður af kæti' er maður ekki að segja annað en að hann hafi hoppað af kæti ... en stundum þarf bara að leggja áherslu á orð sín, og það gerir maður einmitt oft með því að segja fleiri orð sem þýða það nákvæmlega sama...

En Jón og séra Jón eru við lýði hér eins og annars staðar, svo maður verður víst að passa sig.

Bastarður Víkinga sagði...

Af hverju er margt og mikið endurtekning? Það getur alveg eins verið margt og pjúný. fylgir ekkert frekar kyrrðinni - of mikil kyrrð tekur mig á taugum. Það eru til fullt af klisjum sem eru notaðar alveg passlega oft og þó ömmu minni finnist það ósiður að lesa með matnum, þá finnst mér það gott.

Orri sagði...

svanhvít álft
(því ef álft er hvít getur hún ekki annað en verið svanhvít).

Svanhvít sagði...

uuhh... orri skógarhæna!

Orri sagði...

orri skógarhæna er frekar slæmt dæmi...
Annars held ég að Hildigunnur sé líka dæmi um þetta þar sem hildi er það sama og gunnur samkvæmt minni bestu vitneskju...

Svanhvít sagði...

Já, það var svolítið bakkaklór...

hildigunnur er, já, fallegt dæmi um þetta.

Nafnlaus sagði...

Góð húsráð