þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Takk fyrir síðast

Íslendingar eru almennt ekki talnir kurteis þjóð, en í einu tökum við flestum öðrum fram. Við erum nefnilega mjög dugleg að þakka öðrum fyrir liðnar stundir. Frasinn 'Takk fyrir síðast' eða 'Takk fyrir [föstudaginn, gærkvöldið o.fl.]' virðist þó vera það eina sem hægt er að segja í þessu samhengi, og um notkun hans gilda strangar óskrifaðar reglur.

"Reglurnar" um 'Takk fyrir síðast' eða TFS, eins og frasinn verður kallaður hér til hægðarauka, eru eftirfarandi:

  • 'Takk fyrir síðast' er sagt fyrst þegar fólk talast við eftir ánægjulegan eða merkilegan atburð sem báðir aðilar voru viðstaddir. Þeir þurfa helst að hafa talað saman við þennan atburð.
  • Atburðurinn getur verið margs konar, frá spilakvöldi til brúðkaups til suddalegs helgardjamms. Atburðurinn þarf þó að vera viðurkenndur sem skemmtiatburður (t.d. má ekki segja TFS eftir kennslustund eða vinnudag, þótt hann hafi verið mjög ánægjulegur). Ekki tíðkast að segja takk fyrir síðast eftir jarðarför, þó leyfilegt sé að segja það í jarðarför um undangenginn atburð.
  • Eftir djamm tíðkast að segja TFS fram að næstu helgi, en það fer eftir tengslum viðkomandi og gæðum og umfangi djammkvöldsins sjálfs hvort leyfi er til að segja það í lengri tíma en viku. Ef viðmælendurnir hittast sjaldan lengist tíminn sem segja má TFS í hlutfalli við hve oft þeir hittast og hve vel þeir þekkjast.
  • Ef sérstök tengsl mynduðust milli viðmælenda við atburðinn (allt frá trúnó upp í eitthvað meira) er skylda að segja TFS.
  • Skemmsti tími sem líða má þar til TFS er sagt er ein nótt; ekki er hægt að segja TFS samdægurs.
  • Staðlað svar við TFS er 'Já, takk sömuleiðis' en til eru ýmis náskyld afbrigði.
  • Hægt er að segja TFS á ýmsa vegu og felast mismunandi skilaboð í orðunum eftir raddblæ og hljómfalli. Langalgengast er að draga í-ið í síðast með stígandi hljómi, enda lýsir það ánægju og velþóknun.
  • Sé þetta hljómfall ýkt má gera ráð fyrir að eitthvað meira liggi að baki, t.d. forvitni um afdrif viðmælanda, og fylgir þá oft í kjölfarið setning eins og 'Ég sá þig ekkert eftir að þú fórst í göngutúr með [nafn þriðja aðila]' eða 'Búin(n) að jafna þig eftir helgina?
  • Hægt er að segja 'Takk fyrir síðast' mjög vandræðalega; á það til dæmis við þegar viðmælandinn sá mann gera sig að fífli á fylleríi eða ef viðmælandinn er einnar nætur gaman helgarinnar. Skal hinn svara á sama hátt til að forðast frekari vandræði. Eftir vandræðalegt TFS skal helst vera búið að undirbúa næsta skref samræðunnar.
  • Ekki er sagt TFS við sambýlisfólk, eða þann sem kann að vakna við hliðina á manni.
  • Segja má TFS augliti til auglitis, í síma, MSN og jafnvel SMS. Nýmæli er að MySpace og viðlíka tengslanetsíður séu notaðar til að segja TFS. Þá gilda að vissu leyti önnur lögmál, þar sem þá er TFS oft notað til að brydda upp á samtali eftir að hafa gúglað og 'addað' þeim sem maður hitti við ánægjulegan atburð (djamm), eða til að sýna öðrum gestum síðunnar að viðkomandi hafi umgengist mann téðan ánægjulegan atburð.
  • Þegar TFS er sagt en viðmælandinn man ekki hvenær hann hitti viðkomandi síðast skal hann segja 'Já, takk sömuleiðis' því að það er hvort eð er eina rétta svarið og venjulega fylgir ekki neitt meira, nema þá spurning eða athugasemd sem tengist atburðinum, sem gefur oftast vísbendingu um hver hann var, t.d. er 'Ég ætlaði aldrei að ná kísilnum úr hárinu' góð vísbending um að síðasti sameiginlegi viðburður hafi verið ferð í Bláa lónið.
  • Þessar reglur má brjóta eins og allar reglur og segir almenn skynsemi til um hvenær það skuli gert.

10 ummæli:

Bastarður Víkinga sagði...

Hmmm.

Þarna er nýtt LOL í uppsiglingu. Héreftir mun ég ekki segja „Takk fyrir síðast“ heldur bara „tjéeffess“.

Annars man ég ekki eftir því að hafa nokkurntíman sagt „takk fyrir síðast“, þó ég hljóti eiginlega að hafa gert það margoft.

Hinsvegar svara ég þökkunum oft og þá einmitt með „Takk sömuleiðis“ eða reyndar, líklegra: „Sjúr ... öh, ég meina, hérna ... einmitt. Já. Sömuleiðis.“.

Unknown sagði...

Þú ert svo mikill snillingur Svanhvít!! Og takk fyrir síðast, gott pasta, nammi namm;-)

Þura sagði...

Hahaha dásamlegt komment um tengslanetssíður! Það er fyndið af því það er satt.

(já ég er að tala með rassinn á báðum stöðum)

Þura sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Magnús sagði...

Eitthvað er síðasti punkturinn kunnuglegur.

Svanhvít sagði...

Já, það er vísvitandi.

Þessi regla ætti að vera neðst í öllum lögum og reglugerðum til að komast hjá almennum hálfvitaskap.

Tinnuli sagði...

Hahahahahahaha! Sjáumst í kvöld! SUMIR höfðu nú meira að segja greitt sér í gær!

Arnór sagði...

Svanhvít, þú ert snillingur. Takk fyrir síðast.

BTW, samtal sem ég átti áðan:
Vinnufélagi: "Takk fyrir síðast!"
Arnór: "Já... ha... hvenær var það...?"
V: "Þú varst rosalegur!"
A: "Ha?"
V: "Hahahaha!"
A: "Nei, í alvöru, hvenær var það?!"
V: "Æ, það var á [skemmtistaður]. Þú varst ekkert svo rosalegur."
A: "Æ, já, ókei. He, he."

Vandræðalegt, eða...?

Nafnlaus sagði...

Mjög góð úttekt á TFS.
Efni í ritgerð í samræðugreiningu eða hvað? hehehe

Stígur sagði...

Svo er þessi setning auðvitað líka málfræðistúdía út af fyrir sig.