þriðjudagur, desember 09, 2008

Það er löngu kominn tími á hljóð úr horni, og frá nógu að segja. Í fyrsta lagi: Ég er búin að ákveða að vera lengur í Chile. Ekki til frambúðar, sko, bara bíða þar til vorar og hægist aðeins um á norðurhveli. Ég sé bara engan tilgang í að fara sjálfviljug úr sumari og hita og gleði og tónlist yfir í volæði og myrkur og kulda. Ég þarf að skrifa mastersritgerð, hún getur skrifað sig hér eins og annars staðar, og ég eyði minni pening á meðan. Svo var ég að fá vinnu, í stíl við það sem ég hef áður gert: að þýða bíómyndir fyrir DVD-diska úr ensku yfir á íslensku. Þessi vinna fer öll fram í gegnum netið, svo ég verð í Chile að vinna fyrir ítalskt/ammrískt fyrirtæki með aðsetur á Indlandi við að þýða yfir á íslensku. Lifi hnattvæðingin!
Þetta um plönin mín næstu mánuði. Ég vona að þetta taki ekkert voðalega á þá sem heima sitja, en þetta þýðir bara að það er einum færri munnur að metta í þjóðarfjölskyldunni, svo hinir ættu að fá meira, ræt? ræt? Höfum það.

Nú það sem drifið hefur á daga mína. Fyrst er kannski að nefna svaðilför mína í gær. Ég var komin með upp í kok af íbúðinni og borginni og menguninni og í gær var frídagur svo ég fór (enginn nennti með mér) til Cajón del Maipo, sem er þjóðgarður/útivistarsvæði hérna nálægt Santiago. Þar ætlaði ég að dúlla mér og skoða foss sem hægt var að komast að með 30 mín. léttu labbi. Þegar ég var svo að vandræðast með hvar ég ætti að fara út úr rútunni (þekkti ekki svæðið) spyr fólk við hliðina á mér hvert ég sé að fara. Ég segist ætla að skoða fossinn. Þau spyrja "þennan þar sem maður fer meðfram ánni?" og þar sem ég vissi ekki betur en maður þyrfti alltaf að fara meðfram á til að komast að fossi, og hafði bara heyrt um þennan eina foss þarna á svæðinu, sagði ég já. Þau spurðu þá hvort ég vildi ekki verða samferða þeim og ég var til í það. Þetta var par með tíu ára stelpu sem var dóttir konunnar. Fljótt sá ég hvað þau voru ofboðslega ólíkt par, hann náttúrubarn með kíki og vaðskó og hún í semelíusteinasandölum með tommulangar gervineglur og hugsaði mest um hvar hún gæti keypt sígarettur.

Það var enginn sunnudagsgöngutúr að komast að þessum fossi því að til þess þurfti að vaða nokkuð straumharða á mörgum sinnum. Á leiðinni upp var þetta reyndar frekar skemmtilegt, ég var blaut upp að maga en það var allt í lagi, taskan mín með símanum og myndavélinni var þurr. Kærastan fór þó fljótt að nöldra í mér: "Ég sagði honum að við hefðum ekki átt að koma hingað með stelpuna". Þó var það hún sem átti langerfiðast með þetta, á meðan sú litla skoppaði á milli steina og árbakka eins og hafmeyja á spítti. Þegar við komum loksins að fossinum eftir meira en klukkutíma puð datt andlitið af náttúrubarninu. Hann hafði oft gengið að þessum fossi en nú var hann ekki neitt neitt. Veturinn hafði greinilega verið harður þarna í fjöllunum og breytt árfarveginum svo risastórt grjót sem hafði myndað fossinn hafði dottið niður svo nú var þetta kannski tveggja metra fall. En ég sá risastóran kondór með hvítan haus flögra þarna yfir, og nóg af ogguponsulitlum kólibrífuglum.
Það var svo leiðin til baka sem var snúnari, meira vatn í ánni eftir því sem leið á síðdegið, svo að erfiðara var að fara yfir hana. Mér tókst auðvitað að detta ofan í ána með tösku og allt, síminn og myndavélin eru í gjörgæslu. Eftir það urðum við kvenfólkið aðeins skelkaðri og virkilega fór að sjóða upp úr hjá sárfættri kærustunni þegar stelpan datt næstum líka. Sú stutta var sú langhugrakkasta, það var ekki fyrr en þegar mamma hennar stóð grenjandi og öskrandi af reiði föst með fótinn úti í miðri á sem að hún fór að kjökra, en var fljót að ná sér. Svo grínuðumst við tvær bara með þetta þegar við vorum loksins komnar upp úr ánni og fengum okkur kirsuber og súrar plómur af trjánum. Við vorum auðvitað blaut frá toppi til táar en ég var ekki með nein aukaföt svo ég fékk nokkur undarleg augnatillit, líka þegar ég fór og keypti mér kjúkling með blautum peningaseðli áður en ég skreið upp í rúm í náttfötunum.

Þetta var gærdagurinn, óvænt ævintýri, en skemmtilegt, og ég lifði af, svo sjáum við til með síma og myndavél.

Annars er ég búin í háskólanum og þar með komin í sumar/jólafrí. Það er ennþá nóg af kóræfingum, í dag generalprufa fyrir níundu sinfóníuna sem verður flutt á morgun: þrír kórar og hljómsveit í stjórn frábærs stjórnanda. Eitthvað annað en hurðarhúnninn sem stjórnar kórnum sem ég syng í, en ég er nú líka mjög vandlát á kórstjóra.

Ég er hins vegar mjög ánægð með stjórnandann í barokkgrúppunni minni, sem er einhver sá skemmtilegasti félagsskapur sem ég hef lent í. Við erum að reyna að koma okkur á framfæri útum allt og erum að leita okkur að alvöru barokkbúningum, svona með púffermum og karlasokkabuxum. Það besta við þessa grúppu er að hún er laus við allt snobb og leiðindi, en venjulega skiptist fólk í kórum hér í tvennt eftir því hvort það hefur lært tónlist eða ekki (hér er hægt að fara í háskóla og læra tónlist þótt maður hafi ekkert lært áður, ólíkt Íslandi). Snobbið og hrokinn er því á pari við ákveðnar klíkur tónlistarmanna á Íslandi, en í grúppunni sem ég er í eru fæstir lærðir, og bara sumir í tónlistarnámi, svo enginn þykist vera meira en hann er og allir eru til í að taka leiðsögn. Það gerir það auðvitað líka að verkum að allt gengur hægar, en þá verða líka allir mun ánægðari þegar allt kemur saman að lokum. Þá verðum við öll voðalega sentímental og tölum um tónlistina og hvernig hún spilar á strengi hjartans og bla. Það er kannski bara betra að ég sé ekkert að koma heim, ég er orðin svo hrikalega væmin að það nær ekki nokkurri átt. Kyssi og knúsa og segi vinunum hvað ég meti vináttu okkar mikils. Er hrædd um að það færi ekki vel í Íslendingana, nema eitthvað mikið hafi breyst í hugarfarinu eftir hrun. Ég les hér og þar á netinu að eitthvað sé komið sem heitir Nýja-Ísland en mér heyrist það vera frekar svipað og hið gamla. Ég væri alveg til í að innleiða í þetta nýja að vinir heilsuðust með kossi á kinn. Það er ótrúlegt hvað það gerir fyrir sálartetrið. Ég man að fyrir svona rúmu ári á Íslandi hafði ég verið eitthvað döpur í einhvern tíma og fór þá að rifja upp að ég hafði ekki snert aðra manneskju í tvo mánuði, nema kannski stöku handaband. Ekki furða að maður hafi verið þungur. Þessi stubbaknús sem bloggarar hafa víst verið að senda á milli sín gera ekkert gagn nema þau séu gefin í kjötheimum.

Nei nú er komið nóg. Segi seinna frá rest, sem er t.d. sjálfboðastarfið mitt.
Góðar stundir.

3 ummæli:

druppeltjes sagði...

gott að heyra að allt er gott hjá þér:)

Helga Björk sagði...

Ég er svo ótrúlega sammála þér að það vanti meiri knús og kossa í samskipti Íslendinga. Hérna í Vín kyssir þú alla sitthvoru megin á kinnarnar þegar þú heilsar og kveður. Jafnvel þó að þú þekkir manneskjuna ekkert svakalega vel. Ég held að fólk verði voða feimið þegar ég kem svo heim til Íslands og vil kyssa það í bak og fyrir :).

Nafnlaus sagði...

Frábær sagan af gönguferðinni! Sammála knús- og kossaumræðunni, sérstaklega þessa dagana! :)