föstudagur, desember 12, 2008

Hvar er ljóskan?



Níunda sinfónía Beethovens flutt af 100 manna kór og hljómsveit 10. desember 2008.

Sama dag kom Madonna fram í fyrsta skipti í Chile. Það hljómar líklega ekki mjög krassandi en er líklega viðburður ársins. Madonna er nefnilega táknmynd frelsisins í hugum fólks hérna, því að tónlistin hennar var bönnuð á einræðistímanum og enn, m.a.s. í blaðinu í dag skrifa reiðir kardinálar og halda ræður um syndsamlegt athæfi hennar. Rodrigo sagði mér frá einu öndergrándplötubúðinni þar sem hægt var að fá plöturnar hennar á Pinochet-tímanum; þar voru plöturnar hennar auglýstar leynilega með skilti útí glugga: "sendingin er komin". Svo stalst R. útí búð með pening sem mamma hans hafði látið hann fá fyrir skólabók og keypti sér "Like a virgin".

Madonna táknar því frelsi, kynfrelsi, gay-frelsi. Það hefur ekki verið talað um annað og 70.000 manns voru á tónleikunum í gær og annað eins í dag. Þegar hún steig því loksins á svið hér í gær var því víða grátið. R. og kærastinn voru í metra fjarlægð og hágrétu.

Þess vegna er mjög athyglisverð tilviljun (?) að tónleikarnir lentu á dánardægri Pinochets, sem lést fyrir tveimur árum. Enn eru margir sem halda upp á þann dag, en önnur tilviljun er að sami dagur er Alþjóða mannréttindadagurinn, og Bachelet forseti opnaði safn í útrýmingarbúðum frá tíð Pinochets í minningu allra sem hann lét drepa. Gærdagurinn var því frekar merkilegur í hugum margra. Og þannig er nú það.

Uppfært: Meira að segja mbl.is fann sig knúið til að þýða þetta úr ammrískum miðlum

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gleðileg jól, elsku Svanhvít og hafðu það gott í útlandinu.

Komdu samt einhvern tíma heim ...

Helga

ps. Óli biður að heilsa