sunnudagur, október 26, 2008

Í dag eru sveitarstjórnarkosningar í Chile. Það er ekkert grín, og mikill einræðistímafnykur af regluverkinu öllu.

Kerfið er þannig að skrái maður sig einu sinni á kjörskrá ber manni skylda til að kjósa í hverjum kosningum, og þarf þá að fara til föðurhúsanna til að kjósa, eins og Jósep í Betlehem í manntalinu fræga. Vinur minn þarf til dæmis að bruna í sex klukkutíma ferð heim til La Serena af því hann er á kjörskrá. Geri hann það ekki fær hann feita sekt. Allt í lagi með það, svona er þetta víst í mörgum löndum. Fólk ræður allavega hvort það skráir sig eða ekki (nema ríkisstarfsmenn, þeir verða að vera á kjörskrá, annars fá þeir ekki vinnuna).
Öll framkvæmdin er hins vegar mjög í anda Pinochet. Í gær (laugardag) og í dag voru allar ríkisbyggingar lokaðar vegna undirbúnings fyrir kosningarnar í dag (það var til dæmis ekki kóræfing því við æfum í herskóla) og kjósendum er skipt í konur og karla. Konurnar fara þá t.d. í stúlknaskóla til að kjósa og karlarnir í strákaskóla.
En það voru ekki bara ríkisbyggingar sem voru lokaðar því að allar búðir lokuðu snemma í gær og það er bannað að selja áfengi seinnipart dags og í dag (ekki má fólk fara fullt að kjósa). Í dag eru allar búðir og verslunarmiðstöðvar lokaðar til að þær dragi ekki athyglina frá kosningunum (mollin eru annars ALLTAF opin) og það er beinlínis ekkert hægt að gera. Það tekur víst líka alveg hræðilega langan tíma að kjósa svo maður gerir víst ekki mikið annað þann daginn.

Allt þetta, og sú staðreynd að sama fólkið er í framboði aftur og aftur fyrir sömu flokkana, og ekkert breytist, veldur því að næstum engir af vinum mínum kjósa, jafnvel þeir allra pólitískustu. Sjá bara ekki tilganginn.

Þetta er því jafnvel dauðari dagur en föstudagurinn langi á Íslandi - en sem betur fer keyptu meðleigjendurnir ógrynnin öll af mat í gær til að grilla í dag, svo við sveltum ekki. ¡Viva la carne!

mánudagur, október 20, 2008

Þá er Þura farin en glettilega stutt þangað til að mánaðamótin koma og með þeim pabbi og mamma. Þau láta það ekkert á sig fá að allt sé í kaldakolum og ætla að skvera þrjár heimsálfur á uppsprengdu gengi til að heimsækja ástkæra dóttur sína í útlegð.

Það var dásamlegt að fá Þuru hingað þótt stutt væri. Ætli hápunkturinn hafi ekki verið þegar við ruddumst inn í hóp af salsadansandi eldri borgurum á aðaltorginu í La Serena og trylltum pleisið. Við vissum ekki fyrr en í kringum okkur var kominn hringur af klappandi gamlingjum sem við dönsuðum okkur eins laumulega og við gátum út úr. Eins og við sögðum á eftir lengdum við líf hvers og eins líklega um nokkrar mínútur.

Annað gamlingjapartí var 35 ára afmæli Mozart-kórsins míns, þar sem eldri borgarar eru í meirihluta (enda ennþá nokkrir stofnfélagar í kórnum). Þessi kór á merkilega langa sögu ef tekið er mið af aðstæðum í landinu. Ef reiknað er til baka má sjá að kórinn var stofnaður í október árið 1973, aðeins mánuði eftir valdarán hersins 11. september, svo aðstæðurnar voru vægast sagt slæmar, enda einmitt þess vegna sem fólkið vildi koma saman og syngja, til að fá ofurlítið ljós í tilveruna. Það var þó hægara sagt en gert því að mannsöfnuður fleiri en fjögurra var bannaður til að berja niður allar mögulegar andspyrnuhreyfingar. Því ruddist herforingi með hóp vopnaðra manna inn á fyrstu kóræfinguna og krafðist þess að vita hvað væri í gangi. Þau sögðu sem var, að þetta væri kór, og þá skipaði herforinginn þeim að syngja. Þau sungu einhverja Avemaríu og kauði varð að viðurkenna að þetta væri líklega kór. Þrátt fyrir það fékk kórinn publikum á hverri æfingu í nokkrar vikur á eftir, hermenn sem sátu fýldir úti í horni og hlustuðu.

Í dag voru semsagt afmælistónleikar þessa kórs og þar sungum við sirkabát öll lög sem kórinn kann, því það tekur langan tíma að æfa upp hvert lag þegar meðalaldurinn í kórnum er yfir sextugt. Hitt númerið á tónleikunum var elsku barokkhópurinn minn, þar sem ég spila á flautu. Það tók á að spila heilt prógramm, skipta svo um kjól og syngja svo á fullu blasti annað prógramm til að reyna að yfirgnæfa villurnar hjá gömlu konunum. Ég er ennþá að jafna mig. Set kannski inn vídjó þegar þau detta inn á jútjúb.

Rétt áðan streymdu að fjórir vælandi brunabílar og lögðu hérna beint fyrir neðan svefnherbergisgluggann minn. Þá hafði kviknað í í næsta húsi. Virðist samt sem betur fer ekki hafa verið alvarlegt. En það ekkert miðað við það sem við urðum vitni að með barokkhópnum í gær þegar við vorum að æfa fyrir tónleikana.
Þá varð slys á hraðbrautinni beint fyrir neðan háhýsið þar sem við vorum að æfa heima hjá stjórnandanum. Risastór gámabíll ætlaði undir brú, en brúin var of lág, svo bíllinn klessti á hana eins og fluga á bílrúðu, og pínulítill Fíat lenti beint undir honum. Fyrir einhverja mikla mildi sluppu bílstjórinn og sonur hans ómeiddir, sem mér finnst lygilegt miðað við aðstæður. Við stóðum þarna uppi á sautjándu hæð og fylgdumst með, löngu búin að telja bílstjórann af. Sáum strákinn þó príla út úr bílnum. Hér er hægt að sjá mynd af þessu, þetta var ansi ótrúleg sjón.

Nú er orðið vel heitt í Santiago svo mér finnst alveg komið nóg um, en þetta er víst ekki einu sinni orðið notalegt ennþá. Eitthvað verða jólin sveitt þetta árið.

Bestu kreppukveðjur til allra (nær og) fjær, lofið mér að Ísland verði þarna ennþá þegar ég kem til baka. Mér er alveg sama þótt það verði ekki jafnmargir landróverar og súkkulaðigosbrunnar og þegar ég fór.

miðvikudagur, október 08, 2008

Rusia

Í maraþongöngutúr sem ég tók mér í gær til að reyna að gleyma... ja, öllu, var kallað á eftir mér: 'RUSIA'

Rusia þýðir Rússland á spænsku, en er líka notað yfir (litaðar) ljóskur.

Mér fannst það óstjórnlega fyndið í ljósi nýliðinna atburða.

þriðjudagur, október 07, 2008

"Nei við erum ekki að fara á hausinn :)))"

(Svar frá þjónustufulltrúa í Landsbankanum 1. október sl.)

Ég hef ekki grænan guðmund um hvert gengið á pesóanum er akkúrat núna, en mér reiknast til að allt hafi hækkað hjá mér um 30% síðan fyrir rúmri viku. Leigan kostar mig 7000 fleiri svona krónur en í sept (ef ég miða við versta gengi, sem er það sem google gefur upp). Ég þigg gjarnan fjármálaaðstoð mér fróðari manna.

Nú er bara að reyna að dreifa huganum, enda ekki hægt að ætlast til þess að fólk hér hafi áhuga á að hlusta á mig kveinka mér yfir að litla skerið mitt, sem það vissi ekki einu sinni að væri til áður en það kynntist mér, sé við það að sökkva í sæ með þjónustufulltrúum og seðlabankastjórum og moggabloggurum og öllu.

Huganum dreifi ég með því að spila á gítar og flautu, fara á kóræfingar og ræktina, og nú er ég farin að taka söngtíma hjá vini mínum, mjög klárum kórstjóra og söngvara. Hann ætlar að losa mig við kórsöngvarakomplexana í röddinni og hjálpa mér með tæknina. Það er alveg ótrúlega gaman.

Svo byrja ég í sjálfboðastarfi í næstu viku. Ég fór á staðinn í morgun. Þetta er heimili þar sem búa tíu 2-11 ára krakkar sem hafa verið teknir frá foreldrum sínum vegna ofbeldis eða annars. Þarna búa þau tímabundið, sum lengur en önnur, á meðan verið er að finna ný heimili eða rétta yfir foreldrunum.

Svo kemur Þura á fimmtudaginn og þá fær Svanhvít að tala íslensku!

En þrátt fyrir allt það sem ég gæti verið að gera get ég ekki hætt að hanga á öppdeittakkanum á fréttasíðunum og naga neglur og reYta hár. Og það þótt ég hvorki eigi neitt né skuldi.

föstudagur, október 03, 2008

Orðræða orð æða ræð orð æð æ æ

Það væri spennandi verkefni í orðræðugreiningu að taka fyrir stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld. Sérstaklega í samanburði við það myndmál sem hefur verið notað um útrás íslensku athafnamannanna og góðærið, já og í samanburði við stefnuræðuna í fyrra*

Eins og Lakoff og Johnson benda á í uppáhaldsbókinni okkar Sigurrósar, Metaphors we live by, notum við myndmál á hverjum degi, oftast án þess að taka eftir því. Bara með því að tala um að "eyða tíma", "vera hátt uppi" eða "hanga á netinu" erum við að notast við myndir sem við yfirfærum á hugsanir okkar, alveg án þess að taka eftir því, þar sem við höfum alist upp við þessar myndir og þennan hugsunarhátt. Það er raunar merkilegt hvað við segjum fátt af því sem við erum að tala um berum orðum.

Þegar umræðuefnið er óþægilegt eykst þessi notkun myndmáls til muna, eins og sjá má af þeim fjölda orðasambanda í íslensku sem merkja dauðsfall (falla frá, kveðja, sofna hinsta svefni, verða allur...), já, og öllum orðunum sem til eru yfir kynfæri karla og kvenna.

Ræða Geirs, svona erfiðlega tímasett en óhjákvæmileg hefðarinnar vegna, var því eðli málsins samkvæmt full af alls kyns myndmáli, sérstaklega úr þremur áttum, siglingamáli, landbúnaði og hernaði.

Geir Hilmar Haarde, sem sjálfur heitir einhverju dónalegasta nafni Íslandssögunnar (hart spjót kóngsins), sótti í ræðunni myndmál sitt að miklu til siglingamáls, líkt og dróttkvæðu skáldin forðum. Þá er þjóðin í hlutverki báts í ólgusjó. Annað myndmál tengt veðri er líka áberandi, t.d.

- Eftir blómlega uppgangstíma er skollið á gjörningaveður í efnahagskerfi heimsins og brimsjórinn af því mikla umróti skellur nú Íslandsströndum af miklu afli.
- íslensku bankarnir, flaggskip útrásar síðustu ára
- Við Íslendingar gefumst ekki upp þótt á móti blási og við munum ekki örvænta eða leggja árar í bát í þeim stjórsjó sem þjóðarskútan siglir nú í gegnum. Við erum öll á sama báti, stjórnvöld, fyrirtækin og fólkið í landinu.
- og þó svo að útlitið sé svart núna þegar við siglum í miðjum storminum...
- og allt bendir til að ástandið eigi eftir að versna áður en við sjáum til lands.
- að lokum munum við sem þjóð og sem einstaklingar á þessu landi sem er okkur svo kært standa af okkur fárviðrið
- Allir vissu að góðærið myndi ekki vara endalaust en enginn sá fyrir þann storm sem skall á sl. vetur og fer nú um efnahagskerfi heimsins með mikilli eyðileggingu.

Næstum jafnalgengt er myndmáls Geirs sem haft er úr landbúnaði. Þá er þjóðinni líkt við fátækan bónda sem þarf að bjarga búi sínu í harðindum:

- uppskeran hefur í mörgum tilvikum verið ríkuleg.
- Þurrausnar lánalindir
- heimsbúskapurinn
- Á sama hátt og við brutumst út úr vesöld og fátækt fyrir áratugum síðan með bjartsýni og baráttuhug að vopni, þá munum við komast útúr þeim hremmingum sem yfir okkur ganga nú.
- Það er til marks um þetta að nýjar tölur um hagvöxt og vöruskiptajöfnuð sýna fram á meiri þrótt í íslenskum þjóðar­búskap en búist var við...
- til að jafnvægi myndist sem fyrst á ný í þjóðarbúinu
- erfiðar ytri aðstæður sem hafa rýrt lífskjör þjóðarinnar
- Hún er sá skaðvaldur sem mestum búsifjum veldur á heimilum almennings og í rekstri fyrirtækja
- Þjóðin veit að í aldanna rás hefur það ævinlega orðið okkur Íslendingum til hjálpar þegar bjátað hefur á að æðrast ekki, heldur bíta á jaxlinn. Við höf­um lært af langri búsetu í harðbýlu landi að orðskrúð og innantómar upp­hrópanir færa ekki björg í bú.

Íslenskan, mál sjómanna og bænda, er full af myndmáli tengdu þessum atvinnugreinum og því ekki að undra að Geir styðjist við það. Hann notar, nafni sínu trúr, þó líka mjög mikið af orðum og orðasamböndum tengdum stríði og hernaði, sem við höfum mun minna haft af að segja allt frá því að Sturlungaöld lauk. Myndmálið lifir þó góðu lífi eins og sjá má:

- íslensku bankarnir, flaggskip útrásar síðustu ára, búa sig nú undir mikla varnarbaráttu.
- þau sem færst hafa of mikið í fang berjast nú í bökkum. Íslensk fyrirtæki hafa á undanförnum árum teflt djarft í sókn sinni
-öflug viðspyrna stjórnvalda víða um heim
- Íslenskir bankar, eins allir aðrir bankar í heiminum, heyja nú mikla varnarbaráttu
- aukinn útflutningur og verðmætasköpun er beitt og öflugt vopn í þeirri erfiðu baráttu sem við heyjum nú við verðbólguna
- það er svo sannarlega undir okkur komið að ráðast gegn henni
- Um leið og árangur næst í þeirri baráttu munu vextir taka að lækka.

Að auki má í ræðunni meðal annars finna andstæðurnar svart-myrkur / hvítt-ljós, sem og eina myndhverfingu sem virðist ættuð úr flugmáli:
- Þegar uppstreymið hættir er fall þeirra sem hæst fljúga mest.
Svo hyggst Geir feta hinn gullna meðalveg Aristótelesar, sem hefði líklega seint verið nefndur í ræðu síðasta árs í sambandi við efnahaginn.

Það er gaman að bera þessa ræðu saman við ræðuna í fyrra, þar sem aðalorðin voru vöxtur, styrkur, tækifæri, mannauður, kraftar, stækkun, aukning, þensla. Það er meira að segja nóg að líta á þá hluta ræðunnar í ár sem ekki fjalla um efnahaginn, og voru líkast til skrifaðir áður en allt fór til fjandans. Þar er varla að það sjái votta fyrir þessu líkingum hlaðna máli þar, heldur er þar að finna ósköp hversdagslegt myndmál eins og það sem við notum á hverjum degi.

Það er ekki auðvelt að koma fram fyrir þjóð á tímum sem þessum og þurfa að stappa stálinu í hana, en mega þó ekki ljúga (að minnsta kosti ekki svo það fattist... strax). Þá er það myndmálið sem kemur svefnlausum og koffíneitruðum forsætisráðherra til bjargar. Það er rammíslenskt, sterkt, karlmannlegt og ævagamalt og bregst aldrei. Það má líka nota til að kaupa tíma á meðan ekki eru komnar lausnir á vandamálunum - en"við gefumst ekki upp þótt á móti blási og við munum ekki örvænta eða leggja árar í bát," nægir þjóðinni þó líklega skammt. Hvað á að gera?


*Ég veit að enginn ætlast til þess að forsætisráðherra sé nein völva og sjái fram í tímann en þetta hljómar óneitanlega ofurlítið kjánaalega núna:
"Flest bendir til að sú þensla sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf á síðustu tveimur til þremur árum sé á undanhaldi og að framundan sé tímabil aukins stöðugleika og meira jafnvægis í þjóðarbúskapnum. Það er mjög af hinu góða jafnvel þótt það þýði minni hagvöxt um hríð en verið hefur undanfarið. Slík aðlögun endurspeglar sveigjanleika og styrk íslenska hagkerfisins, styrk sem birtist í öflugu atvinnulífi, nægum atvinnutækifærum og vaxandi kaupmætti heimilanna, enda eru lífskjör og almenn lífsgæði hér á landi nú með því sem best gerist í heiminum. Nær daglega berast fréttir af auknum umsvifum íslenskra athafnamanna og fyrirtækja víða um heim og á nokkrum sviðum eru íslensk fyrirtæki komin í hóp öflugustu og stærstu fyrirtækja í heimi."

miðvikudagur, október 01, 2008


Já, ég stend mig vel í landkynningunni, milli þess sem ég kvarta yfir veðurfari og verðlagi á landinu bláa sýni ég andfætlingunum youtube-myndbönd af "indversku prinsessunni frá Íslandi". Vinur minn var þó fljótur að svara með "austurlensku tígressunni frá Perú" sem hér má sjá skaka sig. Nú er bara að plana dúett.

---

Í dag gerði ég svolítið sem ég hef alltaf ætlað að gera, þessa sjö mánuði sem ég er búin að dvelja á suðurhveli jarðar. Það má jafnvel segja að það sé hluti ástæðunnar fyrir því að ég kom hingað. Ég hef minnt mig á það af og til en alltaf gleymt því, svo það var ekki fyrr en þegar ég var að vaska upp eftir kvöldmatinn að því laust niður í höfuðið á mér. Bölvað vatnið í klósettinu, ég átti alltaf eftir að fylgjast með því snúast rangsælis. Og viti menn, það gerir það! Mér líður eins og ef það væri til tékklisti yfir líf mitt gæti ég núna sett þar einn flennistóran kross.

---

Það er á við góða sálfræðimeðferð að garga níundu sinfóníuna tvisvar í viku. Tónleikarnir eru 10. desember og ókeypis inn fyrir þá sem vilja koma. Ég skal bjóða í pisco sour á eftir.

---

Leigan mín fyrir október mun kosta mig 27 þúsund íslenskar krónur. Hún var 22 þúsund krónur fyrir september. (Já nema hún hækki ennþá meira í fyrramálið áður en ég kemst í hraðbanka).

---

Þessu tengt: ég er alltaf til í prófarkalestur ef einhverjum vantar (ha ha ha).
Nei, en grínlaust, þá má alltaf senda mér póst á [sli hjá hi.is] skyldi einhvern vanta yfirlestur. Já, eða þýðingu úr ensku eða spænsku.

---

Íbúðin er orðin full af karlmönnum og mikið male-bonding í gangi, sem er tilbreyting frá stelpu (og homma-) flissi daginn út og inn. Hér er ásamt R. og hans ástmanni einn Kani, einn Þjóðverji og einn frá Ekvador. Svo ég og Kelly, föstu stærðirnar hér í húsinu. Ég hef alls ekki haft fyrir því að telja upp alla sem hafa búið hérna enda er varla að ég muni eftir þeim öllum, en þetta eru allt misáhugaverðir Þjóðverjar og Kanar. Ég hef komist að því að ég er með undarlega Þjóðverjafordóma, sem ég kann ekki að útskýra. Held að ég sjái í mörgum þeirra eitthvað sem ég vil ekki sjá í mér en veit að er til staðar.

---

Ég er búin að vera í umsóknarferli um að fá að vinna sjálfboðastarf með börnum. Það er meira mál en ég hélt að fá að vinna ókeypis, ég er búin að standa í viðtölum og sálfræðimati þar sem ég var látin rýna í blekklessur upp á gamla mátann. Ég sá leðurblöku, ætli það þýði að ég sé vond manneskja? Ég sá reyndar líka allt dýraríkið í þessum klessum, allskonar fiska og eðlur og sæhesta og fugla, og svo sitthvað fleira sem ég var ekkert endilega að segja frá, enda ekki vænlegt til að fá sálfræðingana til að hleypa mér nálægt börnum.

---

Ég hafði ekki gert ráð fyrir því fyrirfram að tónlistin myndi skipa svona stóran sess í þessari dvöl minni hérna en það er nú samt svo að langmestur tími minn fer í hana. Ég syng í tveimur kórum og spila á flautu í barokkhóp, er að æfa mig á gítar og fer í fyrsta söngtímann á föstudaginn, sem ég er mjög spennt fyrir. Skólinn er fyrir löngu kominn í annað sætið, enda er það allt í lagi, ég bara í tveimur kúrsum og fæ bara annan þeirra metinn til eininga í HÍ. RICO PAPI!

---

Það verður hrikalegt að fara til Spánar eftir að hafa verið hér, því að spænskan mín er orðin hrikalega chileísk, sem þykir ekki fínt og vart einu sinni skiljanlegt annars staðar.
Í Chile-spænsku sleppir maður 's' aftan af og innan úr flestum orðum, maður skynjar bara essið í ofurlitlu 'h'-hljóði. Baklæg 'd' og 'r' veiklast líka, svo fyrst þegar ég heyrði í Chile-búa tala (á Spáni) skildi ég ekki orð. Svo er sér sagnbeyging í 2. p. et. og brjálæðislega mikið af sér-chileískum orðum, orðasamböndum og slangri, sem ég er komin hættulega vel inn í. Ég er farin að segja "po" og "cachai" á eftir hverri setningu. Ég verð líklega að fara í málhreinsun í Kastilíu eftir þetta, vöggu spænskunnar. Aðallega þá til að fólk skilji mig...
Æ, eða ekki snobba fyrir neinu og tala bara eins og 'flaite' frá Chile. Flaites eru ákveðinn samfélagshópur, nokkurs konar fátækir hnakkar eða trailer trash, hafa eigin orðaforða, stela og slást og allir hata.
Annar hópur sem enginn þolir er 'cuicos', sem eru þeir sem eiga pening, t.d. þeir sem fara í háskólann minn.
Svo eru það pókemonarnir, sem eru strákar og stelpur á aldrinum ca. 14-17 ára, sem dressa sig upp eins og japanskar skólastúlkur eða manga-teiknimynd (þaðan kemur Pokemon-nafnið), stunda meintar orgíur og eru öllum eldri kynslóðum til mikils ama. Þetta eru þeir hópar sem enginn viðurkennir að tilheyra og allir mega tala illa um.

Eitthvað teygðist nú úr þessari færslu um tígrynjuna, svo nú er kominn háttatími, meira að segja hér hjá mér. Góðar stundir.