Í dag eru sveitarstjórnarkosningar í Chile. Það er ekkert grín, og mikill einræðistímafnykur af regluverkinu öllu.
Kerfið er þannig að skrái maður sig einu sinni á kjörskrá ber manni skylda til að kjósa í hverjum kosningum, og þarf þá að fara til föðurhúsanna til að kjósa, eins og Jósep í Betlehem í manntalinu fræga. Vinur minn þarf til dæmis að bruna í sex klukkutíma ferð heim til La Serena af því hann er á kjörskrá. Geri hann það ekki fær hann feita sekt. Allt í lagi með það, svona er þetta víst í mörgum löndum. Fólk ræður allavega hvort það skráir sig eða ekki (nema ríkisstarfsmenn, þeir verða að vera á kjörskrá, annars fá þeir ekki vinnuna).
Öll framkvæmdin er hins vegar mjög í anda Pinochet. Í gær (laugardag) og í dag voru allar ríkisbyggingar lokaðar vegna undirbúnings fyrir kosningarnar í dag (það var til dæmis ekki kóræfing því við æfum í herskóla) og kjósendum er skipt í konur og karla. Konurnar fara þá t.d. í stúlknaskóla til að kjósa og karlarnir í strákaskóla.
En það voru ekki bara ríkisbyggingar sem voru lokaðar því að allar búðir lokuðu snemma í gær og það er bannað að selja áfengi seinnipart dags og í dag (ekki má fólk fara fullt að kjósa). Í dag eru allar búðir og verslunarmiðstöðvar lokaðar til að þær dragi ekki athyglina frá kosningunum (mollin eru annars ALLTAF opin) og það er beinlínis ekkert hægt að gera. Það tekur víst líka alveg hræðilega langan tíma að kjósa svo maður gerir víst ekki mikið annað þann daginn.
Allt þetta, og sú staðreynd að sama fólkið er í framboði aftur og aftur fyrir sömu flokkana, og ekkert breytist, veldur því að næstum engir af vinum mínum kjósa, jafnvel þeir allra pólitískustu. Sjá bara ekki tilganginn.
Þetta er því jafnvel dauðari dagur en föstudagurinn langi á Íslandi - en sem betur fer keyptu meðleigjendurnir ógrynnin öll af mat í gær til að grilla í dag, svo við sveltum ekki. ¡Viva la carne!
sunnudagur, október 26, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Þetta hljómar æðislega skemmtilega fyrir greyið fólkið. Vorkenni fólkinu sem bjó í öðrum endanum á Chile og ákvað að flytja í hinn endann, ha ha! Hvernig kjöt grillið þið í Chile? Lamb? Naut? Svín? Lamadýr?
Hér er það bara nautakjöt nautakjöt nautakjöt. Enda þýðir orðið 'carne' eiginlega bara nautakjöt hérna. Svo ef aumingja grænmetisæturnar frá Evrópu eða USA biðja þjóninn um samloku án 'carne' geta þær alveg eins fengið svínakjöt eða kjúkling á samlokuna.
Lamb hef ég ekki bragðað í 8 mánuði en hinsvegar lamadýr, alpaca og geit.
og hvernig bragðast lamadýr og alpaca? og er geit ekki hreint lostæti?
Skrifa ummæli