mánudagur, október 20, 2008

Þá er Þura farin en glettilega stutt þangað til að mánaðamótin koma og með þeim pabbi og mamma. Þau láta það ekkert á sig fá að allt sé í kaldakolum og ætla að skvera þrjár heimsálfur á uppsprengdu gengi til að heimsækja ástkæra dóttur sína í útlegð.

Það var dásamlegt að fá Þuru hingað þótt stutt væri. Ætli hápunkturinn hafi ekki verið þegar við ruddumst inn í hóp af salsadansandi eldri borgurum á aðaltorginu í La Serena og trylltum pleisið. Við vissum ekki fyrr en í kringum okkur var kominn hringur af klappandi gamlingjum sem við dönsuðum okkur eins laumulega og við gátum út úr. Eins og við sögðum á eftir lengdum við líf hvers og eins líklega um nokkrar mínútur.

Annað gamlingjapartí var 35 ára afmæli Mozart-kórsins míns, þar sem eldri borgarar eru í meirihluta (enda ennþá nokkrir stofnfélagar í kórnum). Þessi kór á merkilega langa sögu ef tekið er mið af aðstæðum í landinu. Ef reiknað er til baka má sjá að kórinn var stofnaður í október árið 1973, aðeins mánuði eftir valdarán hersins 11. september, svo aðstæðurnar voru vægast sagt slæmar, enda einmitt þess vegna sem fólkið vildi koma saman og syngja, til að fá ofurlítið ljós í tilveruna. Það var þó hægara sagt en gert því að mannsöfnuður fleiri en fjögurra var bannaður til að berja niður allar mögulegar andspyrnuhreyfingar. Því ruddist herforingi með hóp vopnaðra manna inn á fyrstu kóræfinguna og krafðist þess að vita hvað væri í gangi. Þau sögðu sem var, að þetta væri kór, og þá skipaði herforinginn þeim að syngja. Þau sungu einhverja Avemaríu og kauði varð að viðurkenna að þetta væri líklega kór. Þrátt fyrir það fékk kórinn publikum á hverri æfingu í nokkrar vikur á eftir, hermenn sem sátu fýldir úti í horni og hlustuðu.

Í dag voru semsagt afmælistónleikar þessa kórs og þar sungum við sirkabát öll lög sem kórinn kann, því það tekur langan tíma að æfa upp hvert lag þegar meðalaldurinn í kórnum er yfir sextugt. Hitt númerið á tónleikunum var elsku barokkhópurinn minn, þar sem ég spila á flautu. Það tók á að spila heilt prógramm, skipta svo um kjól og syngja svo á fullu blasti annað prógramm til að reyna að yfirgnæfa villurnar hjá gömlu konunum. Ég er ennþá að jafna mig. Set kannski inn vídjó þegar þau detta inn á jútjúb.

Rétt áðan streymdu að fjórir vælandi brunabílar og lögðu hérna beint fyrir neðan svefnherbergisgluggann minn. Þá hafði kviknað í í næsta húsi. Virðist samt sem betur fer ekki hafa verið alvarlegt. En það ekkert miðað við það sem við urðum vitni að með barokkhópnum í gær þegar við vorum að æfa fyrir tónleikana.
Þá varð slys á hraðbrautinni beint fyrir neðan háhýsið þar sem við vorum að æfa heima hjá stjórnandanum. Risastór gámabíll ætlaði undir brú, en brúin var of lág, svo bíllinn klessti á hana eins og fluga á bílrúðu, og pínulítill Fíat lenti beint undir honum. Fyrir einhverja mikla mildi sluppu bílstjórinn og sonur hans ómeiddir, sem mér finnst lygilegt miðað við aðstæður. Við stóðum þarna uppi á sautjándu hæð og fylgdumst með, löngu búin að telja bílstjórann af. Sáum strákinn þó príla út úr bílnum. Hér er hægt að sjá mynd af þessu, þetta var ansi ótrúleg sjón.

Nú er orðið vel heitt í Santiago svo mér finnst alveg komið nóg um, en þetta er víst ekki einu sinni orðið notalegt ennþá. Eitthvað verða jólin sveitt þetta árið.

Bestu kreppukveðjur til allra (nær og) fjær, lofið mér að Ísland verði þarna ennþá þegar ég kem til baka. Mér er alveg sama þótt það verði ekki jafnmargir landróverar og súkkulaðigosbrunnar og þegar ég fór.

9 ummæli:

siggaligg sagði...

Þetta hefur aldeilis verið stuð! Þura er mjög heppin að hafa tök á að koma til þín Svanhvít mín.
En vertu alveg róleg, það verða jafn margir land roverar (eða game overar) og áður en þú fórst, það getur enginn selt þá og vill enginn kaupa. Ætli þetta verði eins og á Kúbu eftir nokkur ár fullt af eldgömlum fyrrv. glæsikerrum?

Svanhvít sagði...

Já, ég fattaði það þegar ég hafði skrifað þetta að bílarnir fara víst ekki langt. Daga þeir ekki uppi á bílaleigum og bílskúrum því enginn hefur efni á að reka þessi bensínskrímsli?

En hvað verður um alla súkkulaðigosbrunnana?

Og önnur skyld spurning: hvað varð um alla öskubakkana í heiminum eftir að reykingabannið var sett á?

siggaligg sagði...

hmm, af hverju hafa þessir súkkulaðigosbrunnar farið framhjá mér?

Og önnur skyld spurning: af hverju fór góðærið framhjá mér en kreppan ekki?

Magnús sagði...

Súkkulaðigosbrunnar, ójá, það fyrsta sem mér datt í hug að myndi þurrkast út. En kannski ekki... athugið eftirfarandi:
http://www.rafha.is/?c=webpage&id=34&lid=7&option=linkstop
Ég er vonandi ekki einn um að liggja andvakandi yfir þeirri spurningu hvað fólk gerði áður en ómissandi hlutir (eins og einmitt súkkulaðigosbrunnar) komu fram á sjónarsviðið. Kannski eitthvað í líkingu við sketsið "In the days before television" í The Far Side, þar sem fjölskylda sat í nánast tómu herbergi og horfði á trékassa með engu ofaná.

Svanhvít sagði...

Sigga, hvar varst þú í góðærinu? Fórstu aldrei í móttöku, opnun, brúðkaup, fermingarveislu, kokteilboð eða erfidrykkju (ókei kannski ekki) þar sem var boðið upp á lekandi súkkulaði?

Þetta var það næsta sem ég komst góðærinu, eplabiti í súkkulaði. Bráðum má maður víst vera feginn ef maður fær epli útí búð.

Þá held ég að ég verði bara hér og borði avókadó beint af trjánum.

siggaligg sagði...

nei!!! aldrei!! Ég var að heyra af þessu fyrirbæri fyrst hérna.
Hvar í djöflinum var ég?
Oooo hvað það hefði verið gaman að fá sér eplabita í súkkulaðigosbrunni.

Magnús sagði...

Lekandi. Hnegg.

Þura sagði...

Var ekki hapunkturinn thegar loggan stoppadi okkur a tjodveginum og vid veltum thvi fyrir okkur hvada moguleika vid aettum a thvi ad sleppa med thvi ad gefa i Thelma & Louise style ?

Svanhvít sagði...

UUuuh jú eiginlega er það alveg satt, það var kreisí.

Ég hugsa ennþá um hvað það hefði verið magnað.