þriðjudagur, október 07, 2008

"Nei við erum ekki að fara á hausinn :)))"

(Svar frá þjónustufulltrúa í Landsbankanum 1. október sl.)

Ég hef ekki grænan guðmund um hvert gengið á pesóanum er akkúrat núna, en mér reiknast til að allt hafi hækkað hjá mér um 30% síðan fyrir rúmri viku. Leigan kostar mig 7000 fleiri svona krónur en í sept (ef ég miða við versta gengi, sem er það sem google gefur upp). Ég þigg gjarnan fjármálaaðstoð mér fróðari manna.

Nú er bara að reyna að dreifa huganum, enda ekki hægt að ætlast til þess að fólk hér hafi áhuga á að hlusta á mig kveinka mér yfir að litla skerið mitt, sem það vissi ekki einu sinni að væri til áður en það kynntist mér, sé við það að sökkva í sæ með þjónustufulltrúum og seðlabankastjórum og moggabloggurum og öllu.

Huganum dreifi ég með því að spila á gítar og flautu, fara á kóræfingar og ræktina, og nú er ég farin að taka söngtíma hjá vini mínum, mjög klárum kórstjóra og söngvara. Hann ætlar að losa mig við kórsöngvarakomplexana í röddinni og hjálpa mér með tæknina. Það er alveg ótrúlega gaman.

Svo byrja ég í sjálfboðastarfi í næstu viku. Ég fór á staðinn í morgun. Þetta er heimili þar sem búa tíu 2-11 ára krakkar sem hafa verið teknir frá foreldrum sínum vegna ofbeldis eða annars. Þarna búa þau tímabundið, sum lengur en önnur, á meðan verið er að finna ný heimili eða rétta yfir foreldrunum.

Svo kemur Þura á fimmtudaginn og þá fær Svanhvít að tala íslensku!

En þrátt fyrir allt það sem ég gæti verið að gera get ég ekki hætt að hanga á öppdeittakkanum á fréttasíðunum og naga neglur og reYta hár. Og það þótt ég hvorki eigi neitt né skuldi.

5 ummæli:

Tóta sagði...

Iss njóttu þess bara að vera í útlöndum og hættu að hugsa um krónu og gengi.

Magnús sagði...

Y-villa! Nú eru sólarlausir dagar.

Nafnlaus sagði...

Alltaf þegar mér líður illa og naga á mér neglurnar þá kemur það sér oft vel að hugsa til:

http://www.althingi.is/cv.php4?nfaerslunr=682

Ég held, nei, ég veit, að þér á líka eftir að líða betur eftir að hafa skoðað þetta.

Svanhvít sagði...

T: ég reyni... fór í hátt í þriggja klukkutíma göngutúr, fékk mér ís með súkkulaðipiparbragði og söng úr mér lifur og lungu í tvo tíma, en ekkert gengur. Kem heim og beint á Vísi. Stundum hata ég internetið.

M: Sést þá best hvað kreppan og fjarlægðin gerir mér - Y-villa! Ég tók mér það bessaleyfi að laga. Nú lít ég ekki framan glaðan dag og get ekki séð að ég geti með góðu móti snúið aftur heim meðal siðaðra manna sem kunna að nota ypsilon.

H: Þetta er reyndar sólarglæta í öllu myrkrinu. Það hjálpar alltaf að gleyma sér í fögrum andlitsdráttum GMJ. Það er gott að gamall frændi veit hvað kætir. Til hamingju með daginn gaur.

Nafnlaus sagði...

uuu hvað þýðir þessi setning: ,,og get ekki séð að ég geti með góðu móti snúið aftur heim meðal siðaðra manna sem kunna að nota ypsilon." ???