föstudagur, október 03, 2008

Orðræða orð æða ræð orð æð æ æ

Það væri spennandi verkefni í orðræðugreiningu að taka fyrir stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld. Sérstaklega í samanburði við það myndmál sem hefur verið notað um útrás íslensku athafnamannanna og góðærið, já og í samanburði við stefnuræðuna í fyrra*

Eins og Lakoff og Johnson benda á í uppáhaldsbókinni okkar Sigurrósar, Metaphors we live by, notum við myndmál á hverjum degi, oftast án þess að taka eftir því. Bara með því að tala um að "eyða tíma", "vera hátt uppi" eða "hanga á netinu" erum við að notast við myndir sem við yfirfærum á hugsanir okkar, alveg án þess að taka eftir því, þar sem við höfum alist upp við þessar myndir og þennan hugsunarhátt. Það er raunar merkilegt hvað við segjum fátt af því sem við erum að tala um berum orðum.

Þegar umræðuefnið er óþægilegt eykst þessi notkun myndmáls til muna, eins og sjá má af þeim fjölda orðasambanda í íslensku sem merkja dauðsfall (falla frá, kveðja, sofna hinsta svefni, verða allur...), já, og öllum orðunum sem til eru yfir kynfæri karla og kvenna.

Ræða Geirs, svona erfiðlega tímasett en óhjákvæmileg hefðarinnar vegna, var því eðli málsins samkvæmt full af alls kyns myndmáli, sérstaklega úr þremur áttum, siglingamáli, landbúnaði og hernaði.

Geir Hilmar Haarde, sem sjálfur heitir einhverju dónalegasta nafni Íslandssögunnar (hart spjót kóngsins), sótti í ræðunni myndmál sitt að miklu til siglingamáls, líkt og dróttkvæðu skáldin forðum. Þá er þjóðin í hlutverki báts í ólgusjó. Annað myndmál tengt veðri er líka áberandi, t.d.

- Eftir blómlega uppgangstíma er skollið á gjörningaveður í efnahagskerfi heimsins og brimsjórinn af því mikla umróti skellur nú Íslandsströndum af miklu afli.
- íslensku bankarnir, flaggskip útrásar síðustu ára
- Við Íslendingar gefumst ekki upp þótt á móti blási og við munum ekki örvænta eða leggja árar í bát í þeim stjórsjó sem þjóðarskútan siglir nú í gegnum. Við erum öll á sama báti, stjórnvöld, fyrirtækin og fólkið í landinu.
- og þó svo að útlitið sé svart núna þegar við siglum í miðjum storminum...
- og allt bendir til að ástandið eigi eftir að versna áður en við sjáum til lands.
- að lokum munum við sem þjóð og sem einstaklingar á þessu landi sem er okkur svo kært standa af okkur fárviðrið
- Allir vissu að góðærið myndi ekki vara endalaust en enginn sá fyrir þann storm sem skall á sl. vetur og fer nú um efnahagskerfi heimsins með mikilli eyðileggingu.

Næstum jafnalgengt er myndmáls Geirs sem haft er úr landbúnaði. Þá er þjóðinni líkt við fátækan bónda sem þarf að bjarga búi sínu í harðindum:

- uppskeran hefur í mörgum tilvikum verið ríkuleg.
- Þurrausnar lánalindir
- heimsbúskapurinn
- Á sama hátt og við brutumst út úr vesöld og fátækt fyrir áratugum síðan með bjartsýni og baráttuhug að vopni, þá munum við komast útúr þeim hremmingum sem yfir okkur ganga nú.
- Það er til marks um þetta að nýjar tölur um hagvöxt og vöruskiptajöfnuð sýna fram á meiri þrótt í íslenskum þjóðar­búskap en búist var við...
- til að jafnvægi myndist sem fyrst á ný í þjóðarbúinu
- erfiðar ytri aðstæður sem hafa rýrt lífskjör þjóðarinnar
- Hún er sá skaðvaldur sem mestum búsifjum veldur á heimilum almennings og í rekstri fyrirtækja
- Þjóðin veit að í aldanna rás hefur það ævinlega orðið okkur Íslendingum til hjálpar þegar bjátað hefur á að æðrast ekki, heldur bíta á jaxlinn. Við höf­um lært af langri búsetu í harðbýlu landi að orðskrúð og innantómar upp­hrópanir færa ekki björg í bú.

Íslenskan, mál sjómanna og bænda, er full af myndmáli tengdu þessum atvinnugreinum og því ekki að undra að Geir styðjist við það. Hann notar, nafni sínu trúr, þó líka mjög mikið af orðum og orðasamböndum tengdum stríði og hernaði, sem við höfum mun minna haft af að segja allt frá því að Sturlungaöld lauk. Myndmálið lifir þó góðu lífi eins og sjá má:

- íslensku bankarnir, flaggskip útrásar síðustu ára, búa sig nú undir mikla varnarbaráttu.
- þau sem færst hafa of mikið í fang berjast nú í bökkum. Íslensk fyrirtæki hafa á undanförnum árum teflt djarft í sókn sinni
-öflug viðspyrna stjórnvalda víða um heim
- Íslenskir bankar, eins allir aðrir bankar í heiminum, heyja nú mikla varnarbaráttu
- aukinn útflutningur og verðmætasköpun er beitt og öflugt vopn í þeirri erfiðu baráttu sem við heyjum nú við verðbólguna
- það er svo sannarlega undir okkur komið að ráðast gegn henni
- Um leið og árangur næst í þeirri baráttu munu vextir taka að lækka.

Að auki má í ræðunni meðal annars finna andstæðurnar svart-myrkur / hvítt-ljós, sem og eina myndhverfingu sem virðist ættuð úr flugmáli:
- Þegar uppstreymið hættir er fall þeirra sem hæst fljúga mest.
Svo hyggst Geir feta hinn gullna meðalveg Aristótelesar, sem hefði líklega seint verið nefndur í ræðu síðasta árs í sambandi við efnahaginn.

Það er gaman að bera þessa ræðu saman við ræðuna í fyrra, þar sem aðalorðin voru vöxtur, styrkur, tækifæri, mannauður, kraftar, stækkun, aukning, þensla. Það er meira að segja nóg að líta á þá hluta ræðunnar í ár sem ekki fjalla um efnahaginn, og voru líkast til skrifaðir áður en allt fór til fjandans. Þar er varla að það sjái votta fyrir þessu líkingum hlaðna máli þar, heldur er þar að finna ósköp hversdagslegt myndmál eins og það sem við notum á hverjum degi.

Það er ekki auðvelt að koma fram fyrir þjóð á tímum sem þessum og þurfa að stappa stálinu í hana, en mega þó ekki ljúga (að minnsta kosti ekki svo það fattist... strax). Þá er það myndmálið sem kemur svefnlausum og koffíneitruðum forsætisráðherra til bjargar. Það er rammíslenskt, sterkt, karlmannlegt og ævagamalt og bregst aldrei. Það má líka nota til að kaupa tíma á meðan ekki eru komnar lausnir á vandamálunum - en"við gefumst ekki upp þótt á móti blási og við munum ekki örvænta eða leggja árar í bát," nægir þjóðinni þó líklega skammt. Hvað á að gera?


*Ég veit að enginn ætlast til þess að forsætisráðherra sé nein völva og sjái fram í tímann en þetta hljómar óneitanlega ofurlítið kjánaalega núna:
"Flest bendir til að sú þensla sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf á síðustu tveimur til þremur árum sé á undanhaldi og að framundan sé tímabil aukins stöðugleika og meira jafnvægis í þjóðarbúskapnum. Það er mjög af hinu góða jafnvel þótt það þýði minni hagvöxt um hríð en verið hefur undanfarið. Slík aðlögun endurspeglar sveigjanleika og styrk íslenska hagkerfisins, styrk sem birtist í öflugu atvinnulífi, nægum atvinnutækifærum og vaxandi kaupmætti heimilanna, enda eru lífskjör og almenn lífsgæði hér á landi nú með því sem best gerist í heiminum. Nær daglega berast fréttir af auknum umsvifum íslenskra athafnamanna og fyrirtækja víða um heim og á nokkrum sviðum eru íslensk fyrirtæki komin í hóp öflugustu og stærstu fyrirtækja í heimi."

Engin ummæli: