laugardagur, desember 27, 2008
Litlu frænkur mínar sendu mér jólabréf og spurðu mig hvort það væru líka jól í Chile. Þetta er svar handa þeim og fleiri sem kynnu að spyrja sig að þessu sama. Jú, það eru sko jól í Chile. Meira að segja mjög gleðileg jól. Ég er búin að lifa í vellystingum núna yfir jóladagana enda er fólk mjög hugulsamt og lætur mann ekki vera einan yfir hátíðirnar. Á Þorláksmessu keypti ég allar jólagjafirnar, þar sem þá fyrst áttaði ég mig á því að ég fengi líklega slatta af gjöfum og þyrfti að hafa eitthvað til að gefa á móti. Þeim innkaupum var hespað af á einu síðdegi í verslunarmiðstöð, og þær eru alveg jafnóþolandi vítisholur og heima þetta korter fyrir jól. Munurinn er sá að hérna er miðbærinn jafnvel enn viðbjóðslegri, troðfullur af fólki og steikjandi hiti, enda er 30-33 stiga hiti á hverjum degi í desember. Í verslunarmiðstöðvunum er í það minnsta loftkæling - og svolítið annað sem fékk mig til að skella upp úr svo fólk horfði á mig eins og geimveru þar sem ég stóð og káfaði á gerfifroðusnjónum sem spýttist út úr hávaðasamri vél og féll til jarðar ofan á plasthreindýr og gervisnjókalla og börn sem hafa aldrei séð alvöru snjó nema í bíómyndum. Hér er það jólasveinninn sem kemur með gjafirnar, en maður vorkennir honum þegar maður sér hann sitja niðri í bæ í fullum skrúða, skeggjaðan og kófsveittan.
Á aðfangadag hafði ég það mjög rólegt, kíkti í heimsókn með jólagjafir og tók um þrjúleytið (18 að íslenskum tíma) fram eina malt sem mamma hafði komið með handa mér og blandaði henni í óskilgreint chileískt appelsínujukk svo úr varð nokkurs konar jólaöl með bleikri froðu. Svo át ég pastasalat úr dollu og hugsaði heim. Það var góð stund. Mér var boðið að vera hjá Rodrigo, sem ég bý með, og fjölskyldunni hans á jólunum og þangað fórum við á aðfangadagskvöld, þó auðvitað ekki fyrr en klukkan 22, því hér gerist allt seint. Með kom líka kærastinn, C. (mamma R. veit að hann er gei en ekki pabbinn, svo hann var þarna sem "ofsalega góði vinurinn") og þýska stelpan sem er nýflutt hingað og hafði engan stað til að fara á yfir jólin. Við borðuðum kvöldmat um ellefuleytið, dásamlega góðan kalkún, og drukkum rauðvín og pisco, og um miðnætti kom fleira fólk og gjafirnar voru opnaðar, eins og hefðin segir til um. Jólasveinninn kemur nefnilega með gjafirnar á miðnætti og þá hlaupa krakkarnir út á götu til að leita að honum (á meðan hlaupa aðstoðarmenn jólasveinsins með gjafirnar inní stofu). Ég fékk alveg fullt af góðum gjöfum, bók (Vetrarsól), disk (Tómas R.) og DVD (Rokk í Reykjavík) frá Íslandi (takk fyrir það) og m.a. áritaðan penna með nafninu mínu (Lilja), sem mér þótti mjög vænt um. Ég tók eftir því að ég var sú eina sem fékk bók. Ekki skrýtið, enda bækur rándýrar hér.
Svo drukkum við meira, viskí og kampavínspúns og borðuðum drottningarhandlegg ("brazo de reina") sem er kaka, lík jóladrumbinum franska. Við drukkum líka apaskott ("cola de mono") sem er aðaljóladrykkurinn hér, gerður úr kaffi, kryddaðri mjólk, áfengi og sykri, og er borið fram ískalt í stórum mjólkurglösum. Mjög gott. Veislan varð eftir því sem leið á nóttina heljar partí þar sem við dönsuðum salsa úti á götu með nágrönnunum og veifuðum á eftir jólasveininum sem hjólaði fram hjá klukkan þrjú um nótt. Allir í fjölskyldunni voru svo glaðir eitthvað, og almennilegr við okkur gringurnar, svo við vorum alveg himinsælar þegar við fórum heim um fjögurleytið um nóttina.
Jóladagur var ekki verri, gott ef ekki bara ennþá betri. Okkur var boðið heim til eldri systur R. sem býr alveg upp við Andesfjöllin í fallegu húsi með sundlaug. Þar var stjanað við okkur allan daginn, sem leið hjá í sólbaði, sundi, áti og drykkju allt fram á kvöld, þá fórum við í bíltúr til að skoða útsýnið yfir Santiago þarna ofan af hæðinni, sem var magnað.
Okkur var færð tölva með interneti og vefmyndavél út í garð og þar hringdi ég heim í pabba og mömmu og sýndi þeim sundlaugina og garðinn og fólkið og sólina, það var frábært. Svo sýndi ég viðstöddum myndir af jóladegi 2007 þar sem ég bjó til snjókall. Það fannst þeim eðlilega stórfurðulegt, vön jóladegi á sundlaugarbakkanum, að drekka romm í kók úr blómavasa (grínlaust). Þessi dagur er tvímælalaust kandídat í keppni um bestu daga ævi minnar, ásamt deginum í júlí sl. þegar ég heimsótti Felix SOS-barn í Bólivíu.
Í gær var mér boðið í mat til vinar sem sjálfur getur ekki verið hjá fjölskyldunni um jólin (frekar en síðustu sex mánuði) vegna þess að hún vill ekkert með hann hafa eftir að hann kom út úr skápnum, svo við erum soldið búin að passa hvort annað þessa dagana. Mín útlegð er þó sjálfsköpuð; ég gæti ekki til þess hugsað að fjölskyldan myndi útskúfa mér svona algjörlega. En hann tekur þessu með kaldhæðninni: "Þetta er fínt, ég spara fullt af pening í gjafir."
Í kvöld er afmæli hjá Gabriel vini mínum, og hann hringdi í mig í morgun til að fá uppskrift af túnfisksalati. Ég gerði það um daginn þegar ég hélt jólaboð handa vinunum og hann og aðrir héldu ekki vatni yfir því.
Nú er ég samt mest spennt yfir því að á morgun kemur hún Eva María skröltandi í rútu yfir fjallgarðinn frá Mendoza í Argentínu. Hún er búin að vera að þræða sig í gegnum Íberóameríku allt frá bankahruni og ætlar að vera hjá mér í Chile um áramótin, eitthvað sem við erum búnar að vera að plana í hátt í ár. Við förum til Valparaíso þar sem er stanslaust partí frá því í gær og fjörutíu kílómetrar af flugeldasýningu klukkan tólf á miðnætti. Vúhúúú! Svo ferðalag suður á bóginn í örlítið svalara veður. Það er því margt að hlakka til. Ég vona að heima á Íslandi hafi allir það gott, ég hugsa mikið heim en líður vel hér í sólinni.
Sendi mínar allra bestu jóla- og nýárskveðjur heim til fjölskyldu og vina,
Svanhvít Lilja
föstudagur, desember 12, 2008
Níunda sinfónía Beethovens flutt af 100 manna kór og hljómsveit 10. desember 2008.
Sama dag kom Madonna fram í fyrsta skipti í Chile. Það hljómar líklega ekki mjög krassandi en er líklega viðburður ársins. Madonna er nefnilega táknmynd frelsisins í hugum fólks hérna, því að tónlistin hennar var bönnuð á einræðistímanum og enn, m.a.s. í blaðinu í dag skrifa reiðir kardinálar og halda ræður um syndsamlegt athæfi hennar. Rodrigo sagði mér frá einu öndergrándplötubúðinni þar sem hægt var að fá plöturnar hennar á Pinochet-tímanum; þar voru plöturnar hennar auglýstar leynilega með skilti útí glugga: "sendingin er komin". Svo stalst R. útí búð með pening sem mamma hans hafði látið hann fá fyrir skólabók og keypti sér "Like a virgin".
Madonna táknar því frelsi, kynfrelsi, gay-frelsi. Það hefur ekki verið talað um annað og 70.000 manns voru á tónleikunum í gær og annað eins í dag. Þegar hún steig því loksins á svið hér í gær var því víða grátið. R. og kærastinn voru í metra fjarlægð og hágrétu.
Þess vegna er mjög athyglisverð tilviljun (?) að tónleikarnir lentu á dánardægri Pinochets, sem lést fyrir tveimur árum. Enn eru margir sem halda upp á þann dag, en önnur tilviljun er að sami dagur er Alþjóða mannréttindadagurinn, og Bachelet forseti opnaði safn í útrýmingarbúðum frá tíð Pinochets í minningu allra sem hann lét drepa. Gærdagurinn var því frekar merkilegur í hugum margra. Og þannig er nú það.
Uppfært: Meira að segja mbl.is fann sig knúið til að þýða þetta úr ammrískum miðlum
þriðjudagur, desember 09, 2008
Þetta um plönin mín næstu mánuði. Ég vona að þetta taki ekkert voðalega á þá sem heima sitja, en þetta þýðir bara að það er einum færri munnur að metta í þjóðarfjölskyldunni, svo hinir ættu að fá meira, ræt? ræt? Höfum það.
Nú það sem drifið hefur á daga mína. Fyrst er kannski að nefna svaðilför mína í gær. Ég var komin með upp í kok af íbúðinni og borginni og menguninni og í gær var frídagur svo ég fór (enginn nennti með mér) til Cajón del Maipo, sem er þjóðgarður/útivistarsvæði hérna nálægt Santiago. Þar ætlaði ég að dúlla mér og skoða foss sem hægt var að komast að með 30 mín. léttu labbi. Þegar ég var svo að vandræðast með hvar ég ætti að fara út úr rútunni (þekkti ekki svæðið) spyr fólk við hliðina á mér hvert ég sé að fara. Ég segist ætla að skoða fossinn. Þau spyrja "þennan þar sem maður fer meðfram ánni?" og þar sem ég vissi ekki betur en maður þyrfti alltaf að fara meðfram á til að komast að fossi, og hafði bara heyrt um þennan eina foss þarna á svæðinu, sagði ég já. Þau spurðu þá hvort ég vildi ekki verða samferða þeim og ég var til í það. Þetta var par með tíu ára stelpu sem var dóttir konunnar. Fljótt sá ég hvað þau voru ofboðslega ólíkt par, hann náttúrubarn með kíki og vaðskó og hún í semelíusteinasandölum með tommulangar gervineglur og hugsaði mest um hvar hún gæti keypt sígarettur.
Það var enginn sunnudagsgöngutúr að komast að þessum fossi því að til þess þurfti að vaða nokkuð straumharða á mörgum sinnum. Á leiðinni upp var þetta reyndar frekar skemmtilegt, ég var blaut upp að maga en það var allt í lagi, taskan mín með símanum og myndavélinni var þurr. Kærastan fór þó fljótt að nöldra í mér: "Ég sagði honum að við hefðum ekki átt að koma hingað með stelpuna". Þó var það hún sem átti langerfiðast með þetta, á meðan sú litla skoppaði á milli steina og árbakka eins og hafmeyja á spítti. Þegar við komum loksins að fossinum eftir meira en klukkutíma puð datt andlitið af náttúrubarninu. Hann hafði oft gengið að þessum fossi en nú var hann ekki neitt neitt. Veturinn hafði greinilega verið harður þarna í fjöllunum og breytt árfarveginum svo risastórt grjót sem hafði myndað fossinn hafði dottið niður svo nú var þetta kannski tveggja metra fall. En ég sá risastóran kondór með hvítan haus flögra þarna yfir, og nóg af ogguponsulitlum kólibrífuglum.
Það var svo leiðin til baka sem var snúnari, meira vatn í ánni eftir því sem leið á síðdegið, svo að erfiðara var að fara yfir hana. Mér tókst auðvitað að detta ofan í ána með tösku og allt, síminn og myndavélin eru í gjörgæslu. Eftir það urðum við kvenfólkið aðeins skelkaðri og virkilega fór að sjóða upp úr hjá sárfættri kærustunni þegar stelpan datt næstum líka. Sú stutta var sú langhugrakkasta, það var ekki fyrr en þegar mamma hennar stóð grenjandi og öskrandi af reiði föst með fótinn úti í miðri á sem að hún fór að kjökra, en var fljót að ná sér. Svo grínuðumst við tvær bara með þetta þegar við vorum loksins komnar upp úr ánni og fengum okkur kirsuber og súrar plómur af trjánum. Við vorum auðvitað blaut frá toppi til táar en ég var ekki með nein aukaföt svo ég fékk nokkur undarleg augnatillit, líka þegar ég fór og keypti mér kjúkling með blautum peningaseðli áður en ég skreið upp í rúm í náttfötunum.
Þetta var gærdagurinn, óvænt ævintýri, en skemmtilegt, og ég lifði af, svo sjáum við til með síma og myndavél.
Annars er ég búin í háskólanum og þar með komin í sumar/jólafrí. Það er ennþá nóg af kóræfingum, í dag generalprufa fyrir níundu sinfóníuna sem verður flutt á morgun: þrír kórar og hljómsveit í stjórn frábærs stjórnanda. Eitthvað annað en hurðarhúnninn sem stjórnar kórnum sem ég syng í, en ég er nú líka mjög vandlát á kórstjóra.
Ég er hins vegar mjög ánægð með stjórnandann í barokkgrúppunni minni, sem er einhver sá skemmtilegasti félagsskapur sem ég hef lent í. Við erum að reyna að koma okkur á framfæri útum allt og erum að leita okkur að alvöru barokkbúningum, svona með púffermum og karlasokkabuxum. Það besta við þessa grúppu er að hún er laus við allt snobb og leiðindi, en venjulega skiptist fólk í kórum hér í tvennt eftir því hvort það hefur lært tónlist eða ekki (hér er hægt að fara í háskóla og læra tónlist þótt maður hafi ekkert lært áður, ólíkt Íslandi). Snobbið og hrokinn er því á pari við ákveðnar klíkur tónlistarmanna á Íslandi, en í grúppunni sem ég er í eru fæstir lærðir, og bara sumir í tónlistarnámi, svo enginn þykist vera meira en hann er og allir eru til í að taka leiðsögn. Það gerir það auðvitað líka að verkum að allt gengur hægar, en þá verða líka allir mun ánægðari þegar allt kemur saman að lokum. Þá verðum við öll voðalega sentímental og tölum um tónlistina og hvernig hún spilar á strengi hjartans og bla. Það er kannski bara betra að ég sé ekkert að koma heim, ég er orðin svo hrikalega væmin að það nær ekki nokkurri átt. Kyssi og knúsa og segi vinunum hvað ég meti vináttu okkar mikils. Er hrædd um að það færi ekki vel í Íslendingana, nema eitthvað mikið hafi breyst í hugarfarinu eftir hrun. Ég les hér og þar á netinu að eitthvað sé komið sem heitir Nýja-Ísland en mér heyrist það vera frekar svipað og hið gamla. Ég væri alveg til í að innleiða í þetta nýja að vinir heilsuðust með kossi á kinn. Það er ótrúlegt hvað það gerir fyrir sálartetrið. Ég man að fyrir svona rúmu ári á Íslandi hafði ég verið eitthvað döpur í einhvern tíma og fór þá að rifja upp að ég hafði ekki snert aðra manneskju í tvo mánuði, nema kannski stöku handaband. Ekki furða að maður hafi verið þungur. Þessi stubbaknús sem bloggarar hafa víst verið að senda á milli sín gera ekkert gagn nema þau séu gefin í kjötheimum.
Nei nú er komið nóg. Segi seinna frá rest, sem er t.d. sjálfboðastarfið mitt.
Góðar stundir.
miðvikudagur, nóvember 19, 2008
Það er svo heitt hérna að það er erfitt að syngja. Það er bara eins og hitinn standi í hálsinum á manni og meini níundu sinfóníunni útgöngu úr kverkunum. Það leiðir til svima sem er hvimleiður í slagtogi við svitann og sólbrunann.
Það var ágætt í vetur að smokra sér inn í hlýjan metró troðfullan af fólki í bólstruðum vetrarfötum sem gerðu það þægilegra, eða í það minnsta þolanlegra, að híma þarna í sardínudósinni þar til á áfangastað. Nú er hitinn í kringum þrjátíu gráður upp á hvern dag og fólk klæðir sig eftir því, svo nú þarf maður að gera sér að góðu svita ókunnugra til viðbótar við sinn eigin, þvala handleggi, blauta krika og aukið skorugláp.
Ég ætla samt ekki að kvarta meira yfir hitanum enda veit ég að flestir sem lesa þetta eru á Íslandi. 'Nuff said.
Ég á bara eftir að skrifa eina ritgerð og þá er ég komin í sumarfrí, eða réttara sagt búin með námið mitt hérna, eins ótrúlega og það hljómar. Er að lauma mér út úr Mozart-kórnum með öllum gamlingjunum og að sögn vinar míns þar hata þeir mig allir núna. Þetta er mikill prófsteinn fyrir mig þar sem ég er alltof vön því að vilja endalaust þóknast öllum til að fólki líki vel við mig. Það var bara komið meira en nóg af þessum kór. Altinn lagði allt traust á mig og fór í fýlu og neitaði að syngja ef ég var ekki á æfingu, við erum búin að vera með sama prógramm síðan ég byrjaði og ennþá er það ekki nógu gott, kórstjórnin er ekki eins og ég vildi hafa hana og svo er það sá áttræði sem lætur mig ekki í friði og hefur gefið mér efni í ágætis kynferðisáreitniskæru væri ég í svoleiðis stuði.
Ég hef heimildir fyrir því að einhverjir sakni sápunnar sem hér var svo áberandi fyrri hluta árs. Hér í húsinu hafa hlutir róast alltof mikið, allir komnir á fast eða eru bara ofsalega slappir (mikið voðalega eru evrópskir strákar óspennandi - algjörlega gerilsneyddir). Það sem hefur þó komið í staðinn og stendur hinni upprunalegu sápu fyllilega snúning er spinoff-hommasápa í léttum dúr, þó með dramatískum undirtóni.
Nú er staðan nefnilega þannig að ég á næstum því bara samykynhneigða vini. Þetta skrifaði ég 28. ágúst sl.:
Já, eitt enn, á síðustu vikum hef ég komist að því að langflestir vinir mínir frá Chile eru samkynhneigðir. Ekki orð um það meir núna, kemur seinna. Enda kemur einhver nýr út fyrir mér á hverjum degi eða því sem næst, svo ómögulegt að segja hvað þeir verða orðnir margir í næstu færslu.
Síðan þá hafa að minnsta kosti þrír í viðbót komið út úr skápnum, og margir skotið upp kollinum sem ég hafði ekki hugmynd um að væri gay, strákar og stelpur.
Það er varla að ég nenni að fara nánar í saumana á þessari sápu því að hún er svo flókin og krosstengsl svo mikil að slagar upp í þessa hér gæja.
Í staðinn hendi ég inn mynd af okkur öllum saman, í barokkhópnum okkar. Á morgun höldum við tónleika í stúlknaskóla með nunnum og öllu, og flytjum Magnificat eftir Buxtehude (við spilum fiðlupartinn með blokkflautum).
föstudagur, nóvember 14, 2008
Ást - andið
Til hughreystingar hræddri þjóð eru hér nokkrar stemmningsmyndir úr borginni La Serena og Elqui-dal, sem við Þura og fylgisveinn könnuðum í október. Þar drýpur pisco (þjóðardrykkurinn) af hverju strái, höfugur blómailmur liggur í loftinu og trén svigna af papaya, fíkjum og avókadó. Þarna eru kjöraðstæður fyrir stjörnuskoðun og mikil kosmísk orka svo dalurinn er fullur af hippum og samyrkjubúum.
Copihue, þjóðarblóm Chile
Hér sér fólk kanínuna í tunglinu en ekki karlinn í tunglinu. Hún sést ágætlega á þessari mynd. Tekið í stjörnuskoðunarferð, hin myndin er tekin í gegnum sjónauka.
sunnudagur, október 26, 2008
Kerfið er þannig að skrái maður sig einu sinni á kjörskrá ber manni skylda til að kjósa í hverjum kosningum, og þarf þá að fara til föðurhúsanna til að kjósa, eins og Jósep í Betlehem í manntalinu fræga. Vinur minn þarf til dæmis að bruna í sex klukkutíma ferð heim til La Serena af því hann er á kjörskrá. Geri hann það ekki fær hann feita sekt. Allt í lagi með það, svona er þetta víst í mörgum löndum. Fólk ræður allavega hvort það skráir sig eða ekki (nema ríkisstarfsmenn, þeir verða að vera á kjörskrá, annars fá þeir ekki vinnuna).
Öll framkvæmdin er hins vegar mjög í anda Pinochet. Í gær (laugardag) og í dag voru allar ríkisbyggingar lokaðar vegna undirbúnings fyrir kosningarnar í dag (það var til dæmis ekki kóræfing því við æfum í herskóla) og kjósendum er skipt í konur og karla. Konurnar fara þá t.d. í stúlknaskóla til að kjósa og karlarnir í strákaskóla.
En það voru ekki bara ríkisbyggingar sem voru lokaðar því að allar búðir lokuðu snemma í gær og það er bannað að selja áfengi seinnipart dags og í dag (ekki má fólk fara fullt að kjósa). Í dag eru allar búðir og verslunarmiðstöðvar lokaðar til að þær dragi ekki athyglina frá kosningunum (mollin eru annars ALLTAF opin) og það er beinlínis ekkert hægt að gera. Það tekur víst líka alveg hræðilega langan tíma að kjósa svo maður gerir víst ekki mikið annað þann daginn.
Allt þetta, og sú staðreynd að sama fólkið er í framboði aftur og aftur fyrir sömu flokkana, og ekkert breytist, veldur því að næstum engir af vinum mínum kjósa, jafnvel þeir allra pólitískustu. Sjá bara ekki tilganginn.
Þetta er því jafnvel dauðari dagur en föstudagurinn langi á Íslandi - en sem betur fer keyptu meðleigjendurnir ógrynnin öll af mat í gær til að grilla í dag, svo við sveltum ekki. ¡Viva la carne!
mánudagur, október 20, 2008
Það var dásamlegt að fá Þuru hingað þótt stutt væri. Ætli hápunkturinn hafi ekki verið þegar við ruddumst inn í hóp af salsadansandi eldri borgurum á aðaltorginu í La Serena og trylltum pleisið. Við vissum ekki fyrr en í kringum okkur var kominn hringur af klappandi gamlingjum sem við dönsuðum okkur eins laumulega og við gátum út úr. Eins og við sögðum á eftir lengdum við líf hvers og eins líklega um nokkrar mínútur.
Annað gamlingjapartí var 35 ára afmæli Mozart-kórsins míns, þar sem eldri borgarar eru í meirihluta (enda ennþá nokkrir stofnfélagar í kórnum). Þessi kór á merkilega langa sögu ef tekið er mið af aðstæðum í landinu. Ef reiknað er til baka má sjá að kórinn var stofnaður í október árið 1973, aðeins mánuði eftir valdarán hersins 11. september, svo aðstæðurnar voru vægast sagt slæmar, enda einmitt þess vegna sem fólkið vildi koma saman og syngja, til að fá ofurlítið ljós í tilveruna. Það var þó hægara sagt en gert því að mannsöfnuður fleiri en fjögurra var bannaður til að berja niður allar mögulegar andspyrnuhreyfingar. Því ruddist herforingi með hóp vopnaðra manna inn á fyrstu kóræfinguna og krafðist þess að vita hvað væri í gangi. Þau sögðu sem var, að þetta væri kór, og þá skipaði herforinginn þeim að syngja. Þau sungu einhverja Avemaríu og kauði varð að viðurkenna að þetta væri líklega kór. Þrátt fyrir það fékk kórinn publikum á hverri æfingu í nokkrar vikur á eftir, hermenn sem sátu fýldir úti í horni og hlustuðu.
Í dag voru semsagt afmælistónleikar þessa kórs og þar sungum við sirkabát öll lög sem kórinn kann, því það tekur langan tíma að æfa upp hvert lag þegar meðalaldurinn í kórnum er yfir sextugt. Hitt númerið á tónleikunum var elsku barokkhópurinn minn, þar sem ég spila á flautu. Það tók á að spila heilt prógramm, skipta svo um kjól og syngja svo á fullu blasti annað prógramm til að reyna að yfirgnæfa villurnar hjá gömlu konunum. Ég er ennþá að jafna mig. Set kannski inn vídjó þegar þau detta inn á jútjúb.
Rétt áðan streymdu að fjórir vælandi brunabílar og lögðu hérna beint fyrir neðan svefnherbergisgluggann minn. Þá hafði kviknað í í næsta húsi. Virðist samt sem betur fer ekki hafa verið alvarlegt. En það ekkert miðað við það sem við urðum vitni að með barokkhópnum í gær þegar við vorum að æfa fyrir tónleikana.
Þá varð slys á hraðbrautinni beint fyrir neðan háhýsið þar sem við vorum að æfa heima hjá stjórnandanum. Risastór gámabíll ætlaði undir brú, en brúin var of lág, svo bíllinn klessti á hana eins og fluga á bílrúðu, og pínulítill Fíat lenti beint undir honum. Fyrir einhverja mikla mildi sluppu bílstjórinn og sonur hans ómeiddir, sem mér finnst lygilegt miðað við aðstæður. Við stóðum þarna uppi á sautjándu hæð og fylgdumst með, löngu búin að telja bílstjórann af. Sáum strákinn þó príla út úr bílnum. Hér er hægt að sjá mynd af þessu, þetta var ansi ótrúleg sjón.
Nú er orðið vel heitt í Santiago svo mér finnst alveg komið nóg um, en þetta er víst ekki einu sinni orðið notalegt ennþá. Eitthvað verða jólin sveitt þetta árið.
Bestu kreppukveðjur til allra (nær og) fjær, lofið mér að Ísland verði þarna ennþá þegar ég kem til baka. Mér er alveg sama þótt það verði ekki jafnmargir landróverar og súkkulaðigosbrunnar og þegar ég fór.
miðvikudagur, október 08, 2008
þriðjudagur, október 07, 2008
(Svar frá þjónustufulltrúa í Landsbankanum 1. október sl.)
Ég hef ekki grænan guðmund um hvert gengið á pesóanum er akkúrat núna, en mér reiknast til að allt hafi hækkað hjá mér um 30% síðan fyrir rúmri viku. Leigan kostar mig 7000 fleiri svona krónur en í sept (ef ég miða við versta gengi, sem er það sem google gefur upp). Ég þigg gjarnan fjármálaaðstoð mér fróðari manna.
Nú er bara að reyna að dreifa huganum, enda ekki hægt að ætlast til þess að fólk hér hafi áhuga á að hlusta á mig kveinka mér yfir að litla skerið mitt, sem það vissi ekki einu sinni að væri til áður en það kynntist mér, sé við það að sökkva í sæ með þjónustufulltrúum og seðlabankastjórum og moggabloggurum og öllu.
Huganum dreifi ég með því að spila á gítar og flautu, fara á kóræfingar og ræktina, og nú er ég farin að taka söngtíma hjá vini mínum, mjög klárum kórstjóra og söngvara. Hann ætlar að losa mig við kórsöngvarakomplexana í röddinni og hjálpa mér með tæknina. Það er alveg ótrúlega gaman.
Svo byrja ég í sjálfboðastarfi í næstu viku. Ég fór á staðinn í morgun. Þetta er heimili þar sem búa tíu 2-11 ára krakkar sem hafa verið teknir frá foreldrum sínum vegna ofbeldis eða annars. Þarna búa þau tímabundið, sum lengur en önnur, á meðan verið er að finna ný heimili eða rétta yfir foreldrunum.
Svo kemur Þura á fimmtudaginn og þá fær Svanhvít að tala íslensku!
En þrátt fyrir allt það sem ég gæti verið að gera get ég ekki hætt að hanga á öppdeittakkanum á fréttasíðunum og naga neglur og reYta hár. Og það þótt ég hvorki eigi neitt né skuldi.
föstudagur, október 03, 2008
Það væri spennandi verkefni í orðræðugreiningu að taka fyrir stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld. Sérstaklega í samanburði við það myndmál sem hefur verið notað um útrás íslensku athafnamannanna og góðærið, já og í samanburði við stefnuræðuna í fyrra*
Eins og Lakoff og Johnson benda á í uppáhaldsbókinni okkar Sigurrósar, Metaphors we live by, notum við myndmál á hverjum degi, oftast án þess að taka eftir því. Bara með því að tala um að "eyða tíma", "vera hátt uppi" eða "hanga á netinu" erum við að notast við myndir sem við yfirfærum á hugsanir okkar, alveg án þess að taka eftir því, þar sem við höfum alist upp við þessar myndir og þennan hugsunarhátt. Það er raunar merkilegt hvað við segjum fátt af því sem við erum að tala um berum orðum.
Þegar umræðuefnið er óþægilegt eykst þessi notkun myndmáls til muna, eins og sjá má af þeim fjölda orðasambanda í íslensku sem merkja dauðsfall (falla frá, kveðja, sofna hinsta svefni, verða allur...), já, og öllum orðunum sem til eru yfir kynfæri karla og kvenna.
Ræða Geirs, svona erfiðlega tímasett en óhjákvæmileg hefðarinnar vegna, var því eðli málsins samkvæmt full af alls kyns myndmáli, sérstaklega úr þremur áttum, siglingamáli, landbúnaði og hernaði.
Geir Hilmar Haarde, sem sjálfur heitir einhverju dónalegasta nafni Íslandssögunnar (hart spjót kóngsins), sótti í ræðunni myndmál sitt að miklu til siglingamáls, líkt og dróttkvæðu skáldin forðum. Þá er þjóðin í hlutverki báts í ólgusjó. Annað myndmál tengt veðri er líka áberandi, t.d.
- Eftir blómlega uppgangstíma er skollið á gjörningaveður í efnahagskerfi heimsins og brimsjórinn af því mikla umróti skellur nú Íslandsströndum af miklu afli.
- íslensku bankarnir, flaggskip útrásar síðustu ára
- Við Íslendingar gefumst ekki upp þótt á móti blási og við munum ekki örvænta eða leggja árar í bát í þeim stjórsjó sem þjóðarskútan siglir nú í gegnum. Við erum öll á sama báti, stjórnvöld, fyrirtækin og fólkið í landinu.
- og þó svo að útlitið sé svart núna þegar við siglum í miðjum storminum...
- og allt bendir til að ástandið eigi eftir að versna áður en við sjáum til lands.
- að lokum munum við sem þjóð og sem einstaklingar á þessu landi sem er okkur svo kært standa af okkur fárviðrið
- Allir vissu að góðærið myndi ekki vara endalaust en enginn sá fyrir þann storm sem skall á sl. vetur og fer nú um efnahagskerfi heimsins með mikilli eyðileggingu.
Næstum jafnalgengt er myndmáls Geirs sem haft er úr landbúnaði. Þá er þjóðinni líkt við fátækan bónda sem þarf að bjarga búi sínu í harðindum:
- uppskeran hefur í mörgum tilvikum verið ríkuleg.
- Þurrausnar lánalindir
- heimsbúskapurinn
- Á sama hátt og við brutumst út úr vesöld og fátækt fyrir áratugum síðan með bjartsýni og baráttuhug að vopni, þá munum við komast útúr þeim hremmingum sem yfir okkur ganga nú.
- Það er til marks um þetta að nýjar tölur um hagvöxt og vöruskiptajöfnuð sýna fram á meiri þrótt í íslenskum þjóðarbúskap en búist var við...
- til að jafnvægi myndist sem fyrst á ný í þjóðarbúinu
- erfiðar ytri aðstæður sem hafa rýrt lífskjör þjóðarinnar
- Hún er sá skaðvaldur sem mestum búsifjum veldur á heimilum almennings og í rekstri fyrirtækja
- Þjóðin veit að í aldanna rás hefur það ævinlega orðið okkur Íslendingum til hjálpar þegar bjátað hefur á að æðrast ekki, heldur bíta á jaxlinn. Við höfum lært af langri búsetu í harðbýlu landi að orðskrúð og innantómar upphrópanir færa ekki björg í bú.
Íslenskan, mál sjómanna og bænda, er full af myndmáli tengdu þessum atvinnugreinum og því ekki að undra að Geir styðjist við það. Hann notar, nafni sínu trúr, þó líka mjög mikið af orðum og orðasamböndum tengdum stríði og hernaði, sem við höfum mun minna haft af að segja allt frá því að Sturlungaöld lauk. Myndmálið lifir þó góðu lífi eins og sjá má:
- íslensku bankarnir, flaggskip útrásar síðustu ára, búa sig nú undir mikla varnarbaráttu.
- þau sem færst hafa of mikið í fang berjast nú í bökkum. Íslensk fyrirtæki hafa á undanförnum árum teflt djarft í sókn sinni
-öflug viðspyrna stjórnvalda víða um heim
- Íslenskir bankar, eins allir aðrir bankar í heiminum, heyja nú mikla varnarbaráttu
- aukinn útflutningur og verðmætasköpun er beitt og öflugt vopn í þeirri erfiðu baráttu sem við heyjum nú við verðbólguna
- það er svo sannarlega undir okkur komið að ráðast gegn henni
- Um leið og árangur næst í þeirri baráttu munu vextir taka að lækka.
Að auki má í ræðunni meðal annars finna andstæðurnar svart-myrkur / hvítt-ljós, sem og eina myndhverfingu sem virðist ættuð úr flugmáli:
- Þegar uppstreymið hættir er fall þeirra sem hæst fljúga mest.
Svo hyggst Geir feta hinn gullna meðalveg Aristótelesar, sem hefði líklega seint verið nefndur í ræðu síðasta árs í sambandi við efnahaginn.
Það er gaman að bera þessa ræðu saman við ræðuna í fyrra, þar sem aðalorðin voru vöxtur, styrkur, tækifæri, mannauður, kraftar, stækkun, aukning, þensla. Það er meira að segja nóg að líta á þá hluta ræðunnar í ár sem ekki fjalla um efnahaginn, og voru líkast til skrifaðir áður en allt fór til fjandans. Þar er varla að það sjái votta fyrir þessu líkingum hlaðna máli þar, heldur er þar að finna ósköp hversdagslegt myndmál eins og það sem við notum á hverjum degi.
Það er ekki auðvelt að koma fram fyrir þjóð á tímum sem þessum og þurfa að stappa stálinu í hana, en mega þó ekki ljúga (að minnsta kosti ekki svo það fattist... strax). Þá er það myndmálið sem kemur svefnlausum og koffíneitruðum forsætisráðherra til bjargar. Það er rammíslenskt, sterkt, karlmannlegt og ævagamalt og bregst aldrei. Það má líka nota til að kaupa tíma á meðan ekki eru komnar lausnir á vandamálunum - en"við gefumst ekki upp þótt á móti blási og við munum ekki örvænta eða leggja árar í bát," nægir þjóðinni þó líklega skammt. Hvað á að gera?
*Ég veit að enginn ætlast til þess að forsætisráðherra sé nein völva og sjái fram í tímann en þetta hljómar óneitanlega ofurlítið kjánaalega núna:
"Flest bendir til að sú þensla sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf á síðustu tveimur til þremur árum sé á undanhaldi og að framundan sé tímabil aukins stöðugleika og meira jafnvægis í þjóðarbúskapnum. Það er mjög af hinu góða jafnvel þótt það þýði minni hagvöxt um hríð en verið hefur undanfarið. Slík aðlögun endurspeglar sveigjanleika og styrk íslenska hagkerfisins, styrk sem birtist í öflugu atvinnulífi, nægum atvinnutækifærum og vaxandi kaupmætti heimilanna, enda eru lífskjör og almenn lífsgæði hér á landi nú með því sem best gerist í heiminum. Nær daglega berast fréttir af auknum umsvifum íslenskra athafnamanna og fyrirtækja víða um heim og á nokkrum sviðum eru íslensk fyrirtæki komin í hóp öflugustu og stærstu fyrirtækja í heimi."
miðvikudagur, október 01, 2008
Já, ég stend mig vel í landkynningunni, milli þess sem ég kvarta yfir veðurfari og verðlagi á landinu bláa sýni ég andfætlingunum youtube-myndbönd af "indversku prinsessunni frá Íslandi". Vinur minn var þó fljótur að svara með "austurlensku tígressunni frá Perú" sem hér má sjá skaka sig. Nú er bara að plana dúett.
---
Í dag gerði ég svolítið sem ég hef alltaf ætlað að gera, þessa sjö mánuði sem ég er búin að dvelja á suðurhveli jarðar. Það má jafnvel segja að það sé hluti ástæðunnar fyrir því að ég kom hingað. Ég hef minnt mig á það af og til en alltaf gleymt því, svo það var ekki fyrr en þegar ég var að vaska upp eftir kvöldmatinn að því laust niður í höfuðið á mér. Bölvað vatnið í klósettinu, ég átti alltaf eftir að fylgjast með því snúast rangsælis. Og viti menn, það gerir það! Mér líður eins og ef það væri til tékklisti yfir líf mitt gæti ég núna sett þar einn flennistóran kross.
---
Það er á við góða sálfræðimeðferð að garga níundu sinfóníuna tvisvar í viku. Tónleikarnir eru 10. desember og ókeypis inn fyrir þá sem vilja koma. Ég skal bjóða í pisco sour á eftir.
---
Leigan mín fyrir október mun kosta mig 27 þúsund íslenskar krónur. Hún var 22 þúsund krónur fyrir september. (Já nema hún hækki ennþá meira í fyrramálið áður en ég kemst í hraðbanka).
---
Þessu tengt: ég er alltaf til í prófarkalestur ef einhverjum vantar (ha ha ha).
Nei, en grínlaust, þá má alltaf senda mér póst á [sli hjá hi.is] skyldi einhvern vanta yfirlestur. Já, eða þýðingu úr ensku eða spænsku.
---
Íbúðin er orðin full af karlmönnum og mikið male-bonding í gangi, sem er tilbreyting frá stelpu (og homma-) flissi daginn út og inn. Hér er ásamt R. og hans ástmanni einn Kani, einn Þjóðverji og einn frá Ekvador. Svo ég og Kelly, föstu stærðirnar hér í húsinu. Ég hef alls ekki haft fyrir því að telja upp alla sem hafa búið hérna enda er varla að ég muni eftir þeim öllum, en þetta eru allt misáhugaverðir Þjóðverjar og Kanar. Ég hef komist að því að ég er með undarlega Þjóðverjafordóma, sem ég kann ekki að útskýra. Held að ég sjái í mörgum þeirra eitthvað sem ég vil ekki sjá í mér en veit að er til staðar.
---
Ég er búin að vera í umsóknarferli um að fá að vinna sjálfboðastarf með börnum. Það er meira mál en ég hélt að fá að vinna ókeypis, ég er búin að standa í viðtölum og sálfræðimati þar sem ég var látin rýna í blekklessur upp á gamla mátann. Ég sá leðurblöku, ætli það þýði að ég sé vond manneskja? Ég sá reyndar líka allt dýraríkið í þessum klessum, allskonar fiska og eðlur og sæhesta og fugla, og svo sitthvað fleira sem ég var ekkert endilega að segja frá, enda ekki vænlegt til að fá sálfræðingana til að hleypa mér nálægt börnum.
---
Ég hafði ekki gert ráð fyrir því fyrirfram að tónlistin myndi skipa svona stóran sess í þessari dvöl minni hérna en það er nú samt svo að langmestur tími minn fer í hana. Ég syng í tveimur kórum og spila á flautu í barokkhóp, er að æfa mig á gítar og fer í fyrsta söngtímann á föstudaginn, sem ég er mjög spennt fyrir. Skólinn er fyrir löngu kominn í annað sætið, enda er það allt í lagi, ég bara í tveimur kúrsum og fæ bara annan þeirra metinn til eininga í HÍ. RICO PAPI!
---
Það verður hrikalegt að fara til Spánar eftir að hafa verið hér, því að spænskan mín er orðin hrikalega chileísk, sem þykir ekki fínt og vart einu sinni skiljanlegt annars staðar.
Í Chile-spænsku sleppir maður 's' aftan af og innan úr flestum orðum, maður skynjar bara essið í ofurlitlu 'h'-hljóði. Baklæg 'd' og 'r' veiklast líka, svo fyrst þegar ég heyrði í Chile-búa tala (á Spáni) skildi ég ekki orð. Svo er sér sagnbeyging í 2. p. et. og brjálæðislega mikið af sér-chileískum orðum, orðasamböndum og slangri, sem ég er komin hættulega vel inn í. Ég er farin að segja "po" og "cachai" á eftir hverri setningu. Ég verð líklega að fara í málhreinsun í Kastilíu eftir þetta, vöggu spænskunnar. Aðallega þá til að fólk skilji mig...
Æ, eða ekki snobba fyrir neinu og tala bara eins og 'flaite' frá Chile. Flaites eru ákveðinn samfélagshópur, nokkurs konar fátækir hnakkar eða trailer trash, hafa eigin orðaforða, stela og slást og allir hata.
Annar hópur sem enginn þolir er 'cuicos', sem eru þeir sem eiga pening, t.d. þeir sem fara í háskólann minn.
Svo eru það pókemonarnir, sem eru strákar og stelpur á aldrinum ca. 14-17 ára, sem dressa sig upp eins og japanskar skólastúlkur eða manga-teiknimynd (þaðan kemur Pokemon-nafnið), stunda meintar orgíur og eru öllum eldri kynslóðum til mikils ama. Þetta eru þeir hópar sem enginn viðurkennir að tilheyra og allir mega tala illa um.
Eitthvað teygðist nú úr þessari færslu um tígrynjuna, svo nú er kominn háttatími, meira að segja hér hjá mér. Góðar stundir.
þriðjudagur, september 16, 2008
Í dag var 26 stiga hiti. Það þykir merki um að vorið sé að koma, og þykir svona nokkuð notalegt. Mér fannst það bara frekar heitt.
Það er fallegt í Santiago núna ef maður lítur framhjá loftmenguninni, sem fær liðsauka á þessum árstíma, sem eru frjókornin. Þau gera ofnæmisgemsum mikinn grikk og jafnvel ég er farin að finna fyrir því, sem aldrei hef fengið frjókornaofnæmi. Hér hnerra því menn hver um annan þveran hér í húsinu og annars staðar. Þessu fylgir höfgur blómailmur í allri borginni sem er reyndar mjög indæll.
Ég var að koma úr tíma í tákfræði þar sem við tókum femínískan lestur á Silence of the Lambs, en kennarinn hélt því líka fram að Hannibal Lecter væri nasisti og benti á alls kyns dæmi úr myndinni því til stuðnings. Nú þarf ég að skrifa tíu blaðsíðna ritgerð um myndina Thelma & Loise, sem gengur í meginatriðum út á það að finna nákvæmlega hvað það er sem kennarinn er að fiska eftir, þ.e. hans óhagganlegu hugmyndir um myndina.
Myndin hér fyrir ofan er tekin í aðalkirkjugarðinum í Santiago. Myndirnar fyrir neðan líka. Þetta er risastór kirkjugarður og þar er að finna allar mögulegar tegundir af leiðum og grafhýsum og hólfum og hvelfingum. Ætla að fara með pabba og mömmu þangað ÞEGAR ÞAU KOMA Í NÓVEMBER! Ég er hrikalega spennt yfir því. Líka að Þura og meðreiðarsveinn hennar ætli að koma í október. Já og Eva María og hennar tríó í desember! Húrra!
föstudagur, september 12, 2008
Það er komið að löngu tímabærum pistli og vel við hæfi að hann sé skrifaður 11. september (sem er ekki enn liðinn þegar ég byrja að skrifa þetta, þótt hann sé það í Evrópu).
Í dag var mikið um mótmæli niðri í bæ og frí var gefið í öllum skólum og mörgum vinnustöðum seinnipart dags til að fólk kæmist öruggt heim til sín þar sem það er hættulegt að vera seint á ferð. Stórmarkaðurinn minn var meira að segja lokaður í dag. Það er mjög algengt að rafmagnið sé tekið af líka þennan dag til að stoppa mesta ofbeldið. Hér heima var búið að taka fram kerti og eldspýtur til öryggis en sem betur fer kom ekki til þess að við yrðum rafmagnslaus.
Í Chile er 11. september nefnilega jafnvel mikilvægari en í Bandaríkjunum. Þennan dag árið 1973, fyrir 35 árum, réðst hershöfðinginn Pinochet inn í Moneda-höllina með liði sínu og steypti sósíalistanum Salvador Allende forseta af stóli. Næstu sautján ár var Pinochet einræðisherra í landinu eða allt til 1989. Allende lést í átökunum þennan dag (ennþá er deilt um hvort hann framdi sjálfsmorð eða var tekinn af lífi) sem og fjölmargir stuðningsmenn hans, m.a. á leikvangi þar sem safnað var saman fjölda fólks sem síðan var tekið af lífi. Þennan dag hófust ofsóknir sem áttu eftir að draga þúsundir manna til dauða og margir sátu í fangelsi fyrir engar sakir og voru pyntaðir. Hundruð þúsunda vinstrimanna flúðu land, til annarra landa S-Ameríku eða Evrópu (t.d. eru um 40.000 manns ættaðir frá Chile í Svíþjóð).
Þegar ég kom hingað komst ég fljótt að því að fólk er ekki mikið fyrir að tala um einræðistímann, og hann kemur reyndar merkilega sjaldan upp í samræðum, miðað við að það eru rétt 19 ár liðin frá því að honum lauk. Fólk er skiljanlega langþreytt á umræðuefninu og vill líta fram á við frekar en til fortíðarinnar. Það er þreytandi fyrir Chilebúa að það eina sem útlendingar vita um landið sé þessi sorglega saga, því það hefur upp á svo margt annað að bjóða. Önnur ástæða fyrir því að fólk talar ekki um þennan tíma er að enn eru skiptar skoðanir og ógróin sár sem betra er að láta vera.
Áður en ég kom til Chile hafði ég lesið þó nokkuð um valdaránið og einræðistímann en það var allt mjög einhliða þar sem í Evrópu heyrir maður söguna aðeins frá sjónarhorni stuðningsmanna Allendes. Ég varð mjög hissa að heyra og sjá alla þá sem enn styðja Pinochet og líta mjög upp til hans. Daginn sem hann dó, árið 2006, var undarlegur dagur í Chile. Fólk skiptist í tvær fylkingar og ýmist fagnaði og skálaði í kampavíni eða syrgði og grét. Hér er myndband sem strákur sem ég kannast við tók þennan dag af fólki sem hyllir Pinochet. Takið eftir nasistakveðjunni.
Eins og allir vita þá er ekkert svart og hvítt í þessum heimi. Þetta segja flestir Chilebúar við mig þegar umræðuefnið ber á góma. Allende hafði hugmyndir sem erfitt var að ímynda sér í framkvæmd svo vel færi. Í landinu var gríðarleg misskipting auðs þegar hann tók við, nokkrar ríkar fjölskyldur áttu allar eignir og fátæku bændurnir sem á landareignum þeirra bjuggu áttu allt sitt undir þeim. Allende tók þessar eignir og úthlutaði þeim alveg upp á nýtt, eftir hugmyndum sósíalismans. Einnig ríkisvæddi hann fjölmörg fyrirtæki, sem og stærstu koparnámurnar (helsta auðlind Chile). Þetta fór eðlilega fyrir brjóstið á þeim sem áður höfðu átt allt. En eins og allt er þetta ekki svona einfalt. Hver hefur sína sögu að segja, eins og einn besti vinur minn hér, sem sagðist bera blendnar tilfinningar í garð Allendes og Pinochets og sagði mér söguna af afa sínum. Sem lítið barn var hann sendur bláfátækur út á götu þegar foreldrar hans dóu, og til að lifa af fór hann að búa til leikföng úr alls kyns spýtukubbum og drasli sem hann fann á götunni. Hann seldi leikföngin fyrir slikk, en þau urðu vinsælli og vinsælli og hann þurfti að gera út önnur börn til að selja þau og búa til. Framleiðslan vatt upp á sig og hann endaði með stóra leikfangaverksmiðju með fjölda manns í vinnu. Það var einmitt þá sem Allende kom og ríkisvæddi verksmiðjuna svo afrakstur erfiðisins fór ekki til afans og fjölskyldu hans. Því fagnaði fjölskyldan því þegar Pinochet kom og "frelsaði" þjóðina. Enginn vissi hins vegar að Pinochet hafði í huga að sitja slímusetur sem einræðisherra í landinu um ókomna tíð. Þetta er bara ein af mörgum slíkum sögum. Aðrir segja svo sögur af horfnum ættmennum sem líklega var dembt beina leið út í Kyrrahaf fyrir eitt að hafa verið sósíalistar.
Ekki má gleyma aðkomu Bandaríkjanna að því að hugmyndir Allendes tókust ekki betur en raun varð. Í Bandaríkjunum stóð stjórnvöldum stuggur af öllu sem hét sósíalismi eða kommúnismi og meint tengsl Allendes og Fidels Castro fengu hárin á Nixon og félögum til að rísa. Litið var á sósíalistastjórn Allendes sem eina mestu ógn sem steðjaði að heiminum á þessum tíma. (Koparnámurnar gróðasömu voru í eigu Bandaríkjamanna sem ætti líka að skýra hluta af andúðinni þar á bæ.) Í það minnsta eru til öruggar sannanir fyrir því að Bandaríkin hafi stuðlað meðvitað að því að veikja stjórn Allendes með viðskiptahömlum og fleiri leiðum, svo fólk leið mikinn matvæla-, vöru- og eldsneytisskort. Hægriflokkarnir sem voru á móti Allende-stjórninni fengu mikinn stuðning frá USA og verkföll sem þeir stóðu fyrir náðu að lama landið. Þannig var Pinochet gert auðveldara fyrir að ná völdum og njóta stuðnings fólksins.
Þetta var svona smá sögustund í tilefni dagsins, og auðvitað skylduskrif bloggara sem skrifar frá Chile. Það hefur verið mjög áhugavert að kynnast mismunandi fólki með mismunandi skoðanir en það hefur líka verið erfitt. Sérstaklega er erfitt að hlusta á einn félaga minn sem er mikill aðdáandi Pinochets og reynir að sannfæra mig um að hann hafi verið hetja en Allende einræðisherra. "Lestu sögu Chile!" segir hann, sem pirrar mig óstjórnlega, því það er sama hvað ég segi, hann getur alltaf sagt að ég viti ekki neitt því ég sé bara gringa sem komi til landsins með einhverjar rómantískar hugmyndir um "skíta-kommúnista", á meðan hann þekki þetta af eigin raun, því auðvitað er hann héðan en ekki ég. Hann getur þó að mínu mati lítið sagt þar sem hann viðurkenndi fyrir mér að hafa verið nýnasisti þegar hann var unglingur (enda afi hans þýskur nasisti sem flúði til Chile í seinna stríði þar sem hann hafði hylmt yfir með vini sínum sem var gyðingur). (Þessi suðurameríski nýnasismi er eitthvað sem ég fæ ómögulega skilið, þ.e. hvað þeim gengur til og hvað þeir þykjast eiginlega vera, sérstaklega þar sem flestir hér eru blanda af frumbyggjum og aðkomufólki, og því frekar langt frá því að vera aríarnir hans Hitlers. En það er önnur saga.)
Mér finnst ennþá erfitt að skilja viðhorf fólks til þessa atburðar sem er enn svo nálægur í sögunni, en ég skil það í það minnsta mun betur en áður en ég kom til landsins. Eftir að hafa heyrt mismunandi sögur fólks skil ég af hverju það vildi sjá breytingar en það er ekki hægt að kenna Allende einum um stöðuna sem upp var komin árið 1973.
Þegar allt kemur til alls eru það þessar fjölskyldusögur sem móta viðhorf hvers og eins, miklu frekar en einhver hægri-vinstri skali getur nokkurn tímann gert. Um þetta efni gæti ég skrifað margt og mikið í viðbót en nú er kominn 12. september og tími til að líta fram á við. Varð ekki vör við ein einustu mótmæli þar sem ég hélt mig fjarri öllum stöðum þar sem þau er vanalega að finna, og rafmagnið er ekki enn farið af, svo allt er líklega með kyrrum kjörum. Ég kveð því að sinni og skríð í bólið.
miðvikudagur, september 10, 2008
Mina - Brava. 1965
Ég nenni ekki að blogga, en hér er eitursvalur frumflutningur ítölsku dívunnar Minu á laginu Brava.
Ég er öll að hressast og að taka upp þráðinn í öllum kórunum mínum. Það var gott að garga smá níundu sinfóníu áðan.
föstudagur, september 05, 2008
Ég var að lesa nokkur blogg bandarískra stelpna í Chile og vona innilega að mitt hljómi ekki eins og hjá mörgum þeirra. Auðvitað getur verið fyndið í hófi að kvarta og kveina yfir því hvað allt er öðruvísi, en blogg þar sem rövl er uppistaðan, sama hvort það er um fréttir á mbl.is eða líf í framandi landi, er ekki nema takmarkað spennandi til lengdar, nema það sé þá þeim mun betur sett fram.
Hér er þó færsla hjá Söru, stelpu sem ég þekki, enskukennara frá USA í Santiago, sem ég hef lengi ætlað að skrifa sjálf, um hvernig maður verslar í Chile. Sá prósess inniheldur hlaup á milli búðarstarfsmanna með ótal litla miða, jafnvel þótt maður sé ekki að kaupa annað en eina ostsneið.
mánudagur, september 01, 2008
Ojæja.
Um helgina fór ég meðal annars í partí með Barbra Streisand og Judy Garland myndböndum, barokkóperuupptökum, tedrykkju og merkilega grófum hommabröndurum. Svo fór ég í grillveislu með eldriborgarakórnum. Næstu vikur verða líklega grillveislur annan hvern dag ef ekki á hverjum degi því að 18. september er þjóðhátíðardagurinn hérna og þá er grillað í heila viku, drukkið og dansað. Ég hef einsett mér að læra að dansa þjóðdansinn, cueca, og ætla að fá mér þar til gerðan vasaklút, því það er ekki hægt að dansa cueca án vasaklúts (eða tissjús, ef enginn er vasaklúturinn).
Á leiðinni í grillveisluna í gær lenti ég í metróvagni með klikkuðum fótboltabullum, sem er ekki lítið af hér í Santiago. Það var greinilega leikur þennan eftirmiðdag svo það var sungið og öskrað og hoppað upp og niður svo vagninn lék á reiðiskjálfi. Þá lætur maður lítið fara fyrir sér og vonar að enginn abbist upp á mann. Öllu verra er þegar þeir hertaka strætó. Þá fer stór hópur af gaurum saman upp í hvaða strætó sem er, segir bílstjóranum að keyra beint á völlinn, og hann hefur auðvitað ekkert val, svo farþegarnir sem eru fyrir í strætó verða bara að gera sér það að góðu, gera lítið úr sér og vona það besta, því það er algengt að þeir séu rændir. Bullurnar hlaða sér inn í strætó, hanga út um gluggana með fána eða sitja uppi á þaki, öskra og æpa og kasta steinum á þá sem halda með öðru liði og öskra á þá og kasta steinum á móti.
Jájá.
Eru ekki annars allir í stuði?
fimmtudagur, ágúst 28, 2008
Það sem var þó mest gaman við útsendinguna í dag var að sjá viðbrögðin hjá könunum sem horfðu með mér: "Vá hvað forsetinn ykkar er ljóshærður!" "Vá hvað ALLIR eru ljóshærðir!" Hvað eru eiginlega margir þarna? Öll þjóðin? Ég meina þið eruð nú ekki það mörg." "Ingimundur Ingimundarson, er það í alvöru nafnið á honum? Og geta allir borið þetta fram?"
Hér í Chile fagna menn líka silfri, það var hann Fernando Gonzalez sem vann það í tennis. Chile hefur aldrei verið mjög sigursælt á ÓL og hefur aðeins tvisvar unnið gull (fyrir tennis), örfá silfur og nokkur brons.
Ég er búin að hafa mjög lítið að gera í skólanum en þeim mun meira í tónlistinni. Ég er ennþá í báðum kórunum og er núna komin í aðra grúppu sem sérhæfir sig í barokk- og endurreisnartónlist, bæði frá Rómönsku-Ameríku og Evrópu. Þar spila ég á blokkflautu. Við vorum með tónleika fyrir viku með barokktónlist frá Perú og fleiri löndum, á undarlegustu tungum.
Hér er vídjó frá tónleikunum af laginu Hanacpachap, á frumbyggjamálinu quechua (ketsjúa).
Um daginn fór ég með kórnum frá elliheimilinu Grund (eða því sem næst) á kóramót. Það var glettilega gaman. Kórarnir misgóðir, svo að okkar gamlingjakór var með þeim betri, en þó voru nokkrir sem stóðu algjörlega upp úr.
Hér er okkar flutningur á Laudate Dominum Mozarts, aðallega sett hingað svo þið getið heyrt hvað hún Alyson syngur fallega. Hún er sextán, er það ekki frekar magnað?
Svo var skrúðganga þar sem allir kórarnir voru látnir ganga í röð og syngja svo fyrir framámenn í litla bænum þar sem við vorum. Ég, sem ljóshærða skrítna stelpan, var auðvitað látin vera fánaberi með Alyson. Svo var ég króuð af útí horni og tekið við mig sjónvarpsviðtal fyrir stöð tvö þar í landi þar sem ég var beðin um álit mitt á þessari hátíð allri saman. Eitthvað náði ég að bulla og vona svo að engum takist að finna þetta svo ég þurfi ekki að horfa.
Í hinum kórnum mínum erum við svo á fullu að syngja níundu sinfóníu Beethovens. Ég lenti í að bera fram þýska textann fyrir kórinn, eins og ég þarf alltaf að gera í báðum kórum ef sungið er lag á ensku eða þýsku eða einhverju evrópsku tungumáli. Í gær var frábær æfing með raddþjálfara sem tókst að ná ótrúlegustu hljóðum út úr mér. Ég hef aldrei sungið svona vel áður. Nú er mig virkilega farið að langa í söngtíma, og er búin að finna rétta kandidatinn. Sjáum hvað ég geri, ég hef allavega nógan tíma.
Já, eitt enn, á síðustu vikum hef ég komist að því að langflestir vinir mínir frá Chile eru samkynhneigðir. Ekki orð um það meir núna, kemur seinna. Enda kemur einhver nýr út fyrir mér á hverjum degi eða því sem næst, svo ómögulegt að segja hvað þeir verða orðnir margir í næstu færslu.
En nú er kominn háttatími fyrir "skínandi gullstjörnuna okkar frá Íslandi" (Já, sá eini sem er ekki hommi í barokkgrúppunni kallaði mig þetta. Ég vildi eiginlega frekar að hann væri hommi.)
föstudagur, ágúst 15, 2008
Þá er það ferðasagan: Norður-Chile, Bólivía og Perú
Ég lagði af stað eldsnemma 15. júlí í 24 klukkustunda rútuferð, sem þýddi að ég var komin til Iquique eldsnemma 16. júlí, illa lyktandi og með auman rass. Það var fyrsta rútuferð af mörgum í þessu ferðalagi. Flugferðin þessa sömu leið tekur um tvo tíma en það er svo dýrt að fljúga hér að maður leyfir sér það ekki. Þegar ég var komin til Iquique hitti ég stelpu sem hafði verið í rútunni og ég kannaðist við úr háskólanum. Hún heitir Tiffany, frá Englandi, og er einmitt skiptinemi eins og ég, og þar sem við höfðum sirkabát sömu plön ákváðum við að finna saman hostel. Til Iquique fórum við því að þar rétt hjá er þorpið La Tirana þar sem er haldin karnavalísk trúarhátíð um miðjan júlí á hverju ári, og aðaldagurinn var einmitt 16. Við fórum þangað með Claudio, vini vinar míns, sem á heima í Iquique og ég hafði aldrei hitt áður, en hann lóðsaði okkur um, þrátt fyrir gríðarlega þynnku, sem ekki batnaði þegar við komum á hátíðina sem einmitt einkennist af bumbuslætti og flautublæstri. Það er erfitt að lýsa andrúmsloftinu á La Tirana. Þetta er lítið þorp í eyðimörkinni þar sem búa nokkur gamalmenni, en einu sinni á ári koma þangað um tvö hundruð þúsund pílagrímar og ferðamenn, ferðamennirnir með myndavélar og pílagrímarnir sumir hverjir á brókinni einni skríðandi um göturnar í 30 stiga eyðimerkurhita.
Það er mikið dansað og spilað, ungir sem gamlir hafa greinilega æft sig lengi, mikil læti, sölubásar sem selja allt frá maríustyttum og talnaböndum upp í skólatöskur og strigaskó og matsölustaðir þar sem eru grillaðir kjúklingar, nautakjöt og lamadýrakjöt, sem er einmitt það sem við fengum okkur í hádegismat. Það var alveg óhugnanlega ljúffengt. Dansarnir og búningarnir minntu á karnival eins og maður myndi sjá í Brasilíu, en allt heldur siðsamara, enda allt Maríu mey til lofs og dýrðar.
Eftir La Tirana og Iquique fikruðum við Tiffany okkur upp til Arica, sem er nyrsta borg í Chile, og bara svona hálftíma frá landamærunum við Perú. Þar skoðuðum við okkur um, og sáum til dæmis furðulega kirkju hannaða af herra Eiffel (já sem gerði turninn). Hún var öll úr járni, til að standast jarðskjálfta, sem eru tíðir í Chile enda landið allt á flekamótum. Í Arica gistum við tvær nætur á gistiheimili don Luis, og don Luis tók fagnandi á móti okkur eins og gamall vinur, rottulegur en mjög vingjarnlegur maður með örmjótt yfirvaraskegg. Litlu hundarnir hans þrír hlupu um á þakinu og geltu. Ég þurfti að komast í internet og fékk að nota tölvuna á "skrifstofunni" hans, sem var meira lítil kompa með tölvu og rúmi og fullt af drasli. Á meðan ég skoðaði póstinn minn heyrði ég einhvern tala í síma mjög skrítinni rödd, svona undarlega skrækri kvenmannsrödd, þótt ég heyrði ekki orðaskil. Þegar ég kom fram sá ég að það var don Luis sjálfur sem var í símanum og hafði verið lengi. Hann þagnaði skyndilega þegar ég kom og tók fyrir tólið og talaði venjulega við mig, en þegar ég flýtti mér inn í herbergi hélt hann áfram að tala eins og kona. Þess ber að geta að klukkan var svona eitt um nótt. Ég er ekkert endilega viss um að ég vilji vita um hvað þetta símtal snerist þótt mig gruni ýmislegt, því næsta kvöld fengum við að horfa á dvd inni í herbergi hjá okkur, hann lánaði okkur spilarann sinn og sagði að hann ætti alveg heilan helling af bíómyndum sem við gætum horft á. Tiffany fór með honum til að velja mynd, og vissulega átti hann margar bíómyndir, það var engin lygi, en við vorum ekki beint í fílingnum að horfa á brjóst og rassa, ef þið skiljið. Einhverjar myndir voru þó inn á milli sem ekki voru bannaðar innan 18, þótt þær væru allar af götunni og þess vegna í misjöfnum gæðum (sem þýðir oftast að diskarnir virka ekki neitt). Til að gera stutta sögu styttri enduðum við á því að horfa á American Pie IV döbbaða á spænsku með frönskum texta. Morguninn eftir þurftum við að taka rútu eldsnemma svo klukkan sex tókum við leigubíl sem don Luis hafði pantað fyrir okkur, og svo stóð hann úti á götu og veifaði okkur bless þar til við vorum komnar úr sjónmáli.
Við vorum á leið til Putre, sem er agnarlítið frumbyggjaþorp nokkra klukkutíma frá Arica, á leið til Bólivíu. Þar er talsvert af gistiheimilum fyrir ferðamennina sem koma til að sjá allar náttúruperlurnar í þjóðgarðinum sem er þarna í kring, og þar héldum við líka til. Frá Putre fórum við í dagsferðir þar sem við sáum eldfjöll, stöðuvötn og hella, og skemmtileg dýr eins og vizcacha-kanínu með hala og allskyns lamadýrategundir, skoðuðum eldgamlar kirkjur og böðuðum okkur í heitum hver með rauðum leir.
Þar sem við vorum þarna í um 3700-4300 metra hæð var loftið heldur þunnt og ég átti frekar erfitt með andardrátt. Það hjálpaði við háfjallaveikinni að drekka kókalaufste um morguninn en ég get eiginlega fullyrt að í heila viku hafi ég ekki dregið almennilega andann nokkru sinni, varð þreytt af því einu að klæða mig í og dauðuppgefin af því að ganga upp tröppur, lystarlaus og andvaka og óglatt. Einkennin voru þó öll væg og ég kastaði til dæmis ekki upp eins og margir sem fara í þessa hæð. En allar hreyfingar þurftu að vera á hraða snigilsins til að mig færi ekki að svima og yrði óglatt, og ég var farin að þrá aðeins meira súrefni í andrúmsloftið mitt eftir þessa viku.
Frá Putre fórum við Tiffany nefnilega til La Paz í Bólivíu, sem er bara 5 klst frá Putre (á meðan höfuðborg Chile er í svona 33 klst fjarlægð). Þegar þangað var komið skildu leiðir því að ég hélt til Oruro að hitta SOS-barnið mitt og hún ætlaði að spóka sig í La Paz. Það var nú svo ótrúlegt að þennan hálftíma sem ég var á rútustöðinni í La Paz hitti ég vinkonu mína frá Mexíkó, hana Trilce, sem var einmitt að ferðast þarna um líka með vinkonum sínum. Það var eiginlega fáránleg tilviljun því þær voru líka þarna bara í nokkra klukkutíma. Rútuferðin til Oruro var ekki sú besta sem ég hef upplifað. Ennþá í hátt í 4000 metra hæð, dauðþreytt eftir að hafa þurft að standa í hinni rútunni, með grátandi smábörn allt í kring og pirrað fólk að öskra á foreldrana að þagga niður í börnunum, kolniðamyrkur en bílstjórinn alltaf að taka fram úr, oft mjög tæpt að mér fannst, mér hálfóglatt og fólk að borða kjúkling og sjúga majónes úr bréfinu, og svo blessaðir rútusölumennirnir sem eru enn fleiri í Bólivíu en í Chile. Þeir koma inn, biðjast innilega afsökunar á því að vera að tala þetta í rútunni en blaðra svo næsta hálftímann um hvað það er sem þeir eru að selja. Síðan kaupa kannski einn eða tveir það sem þeir voru að selja og þeir fara út úr rútunni. Svo einmitt þegar ég var farin að verða frekar hrædd við hvernig bílstjórinn ók sá ég rútu á hlið úti í kanti sem hafði lent í árekstri og stóran hóp fólks fyrir utan. Það var ekki til að bæta geðið. Það var frábært að komast til Oruro og bóka sig inn á næsta hótel sem ég sá (350 ikr nóttin).
Næsta morgun hringdi ég í barnaþorpið í Oruro og var sagt að ég mætti koma til þeirra klukkan tíu. Þangað fór ég með leigubíl (30 ikr) og don Alberto, sá sem sér um heimsóknirnar, tók vel á móti mér og gekk með mér að húsinu hans Felix míns. Felix er tíu ára strákur sem er búinn að búa í barnaþorpinu alveg frá því hann var eins árs, sem er óvenjulangt því að venjulega koma börnin seinna inn. Börnin búa 6-10 saman í húsi með einni móður, sem er ekki kynmóðir þeirra, en sem hefur valið sér að starfa sem SOS-móðir, sem þýðir að hún tekur að sér börnin sem hennar eigin.
Ég get svo svarið að það var eins og í slow motion í væminni bíómynd að hitta Felix. Ég sá hann koma á móti mér, svo byrjaði hann að hlaupa, og beint í fangið á mér, hann sagði "madrina!" (guðmóðir) og við féllumst í faðma. Hann var nýklipptur og vatnsgreiddur og ofsalega sætur og hafði fengið frí í skólanum þann daginn til að hitta mig. Hann leiddi mig heim til sín þar sem mamma hans og nokkur systkini, en þau eru tíu í allt, sem þýðir að það er aldrei lognmolla. Við lékum okkur smá með gjafirnar sem ég kom með og hann sagði mér frá því hvernig foreldrar hans gáfu honum ekki að borða og börðu hann og amma hans þurfti að fara með hann á spítala þar sem SOS-fólkið fann hann. Síðan komu öll hin börnin heim úr skólanum og við borðuðum hádegismat með allri fjölskyldunni, þríréttað í tilefni dagsins, og börnin fylgdust grannt með hverri einustu hreyfingu minni, hvort ég kláraði allt af disknum, hvort ég fengi mér þessa sósu eða hina, í hvaða röð ég borðaði matinn, og fannst ég alveg stórfurðuleg. Felix var hinsvegar ekkert feiminn. Eftir matinn gátum við spjallað aðeins meira og þá var feimnin fljót að hverfa hjá hinum og þau yngstu voru komin í fangið á mér og að leika sér með myndavélina mína, sem var alveg gríðarlega spennandi. Svo fór ég með Felix niður í bæ, eða réttara sagt fór hann með mig niður í bæ og sýndi mér um. Hann er ofsalega skýr strákur og sjálfstæður, kunni á alla strætóa og rataði út um allt. Við gáfum dúfunum á aðaltorginu, renndum okkur í rennibraut og blésum sápukúlur, spjölluðum heilmikið og skemmtum okkur mjög vel. Svo fórum við aftur heim þar sem börnin sátu og voru að læra heima með aðstoð kennara sem kemur af og til. Enda er ekkert grín að vera með tíu börn á grunnskólaaldri sem öll þurfa að læra heima. Kennarinn sagði mér að Felix væri mjög gáfaður strákur (þetta sagði allt fullorðna fólkið um hann) en stundum pínulítið latur. Ég held það sé bara af því hann veit hvað skiptir máli og finnst ekki mikið koma til þess að lita myndir, vill frekar reikna.
Yngsta systirin, hún Sara, sex ára, hafði fyrst verið pínu skelkuð við mig en síðan varð hún besta vinkona mín. Hún spurði mig: "Af hverju kemur þú ekki á hverjum degi?" Ég sagði "Af því ég á heima rosalega langt í burtu." Hún: "Í La Paz?" Ég: "Nei, miklu lengra" Svo taldi hún upp allar borgir í Bólivíu sem hún þekkti, og alltaf sagði ég nei. "Hvar þá eiginlega?" Og ég reyndi að skýra út að það þyrfti að fara yfir sjóinn og vera í flugvél í marga marga klukkutíma. Ég er ekki viss um að það hafi skilist almennilega, enda erfitt að ímynda sér það ef maður hefur aldrei séð hafið og þekkir varla einu sinni neinn sem hefur nokkurn tímann farið í flugvél.
Það er víst regla að styrktarforeldri sem koma í heimsókn megi ekki gista í þorpinu, en þau buðu mér að vera yfir nóttina, og þar sem ég vissi að þetta væri kannski eina skiptið sem ég hitti þau, og það var svo gaman, þáði ég það. Ég vona bara að það skapi ekki vandamál í þorpinu í framtíðinni, ef fleiri foreldrar koma í heimsókn. Við vöknuðum svo eldsnemma daginn eftir og ég fylgdi fimm yngstu krökkunum í skólann. Þar kvaddi ég þau öll, og þegar ég hafði knúsað síðasta barnið bless kom til mín pínulítill strákur skítugur í framan og knúsaði mig líka. Þá fékk ég sting í hjartað. Ég hef líklega litið út eins og einhver María mey, hvít og ljóshærð og faðmandi börn hægri vinstri.
Ég fór heim á hótelið með tárin í augunum. Ég vissi ekkert hvernig heimsóknin yrði fyrirfram og hafði ekki gert mér grein fyrir að ég myndi kynnast ekki bara Felix heldur öllum hinum börnunum svona vel á einum sólarhring. Vonandi get ég hitt þau einhvern tímann aftur.
Ég hafði ætlað að fara til La Paz sama dag en það voru mótmæli svo vegurinn var lokaður, svo ég var bara einn dag enn í Oruro. Þar sá ég til dæmis þessi fínu lamadýrafóstur sem galdrakonur seldu á básum ásamt öðrum nauðsynjavörum til fjölkynngi.
Í
Bólivía er allt öðruvísi en Chile. Þar er mun meiri fátækt, fólkið er flest frumbyggjar, þ.e. lítið blandað við Evrópubúana sem komu seinna, allt er miklu fátæklegra og margfalt ódýrara. Ég vissi þetta allt áður en þegar ég kom til La Paz fékk ég eiginlega kúltúrsjokk, og fannst ég loksins komin til Suður-Ameríku. Fólkið, bílarnir, mótmæli þar sem fólk skaut úr loftbyssum niðri í bæ, fátæktin, betlararnir og götubörnin, þetta var allt svo yfirþyrmandi, sérstaklega af því ég var þarna ein. Það var kannski ekki það merkilegasta þegar ég sá konur sitja á gangstéttinni með ritvélar að skrifa upp bréf fyrir fólk sem þarf á þeim að halda og er ólæst, en það hafði samt eitthvað svo mikil áhrif á mig, og ég áttaði mig á að kúltúrsjokkið var eiginlega meira að fara frá Santiago til Bólivíu en Íslandi til Santiago. Ég segi Santiago því að munurinn er mikill eftir landshlutum, já og bæjarhlutum. Partar af Santiago eru eins og La Paz, en það er mjög auðvelt að komast hjá því að sjá þessa fátækt nokkurn tímann með því að halda sig í sömu þremur eða fjórum hverfunum.
Það er sitthvað eftir af ferðinni, þ.e. öll ferðin til baka, en ég held að þetta sé orðið gott í bili. Sjáum til hvort mér endast kraftarnir í að klára þetta.
mánudagur, ágúst 11, 2008
Það er enginn hörgull á drama hér í húsinu frekar en venjulega. Þetta var trúnóhelgin mikla, þar sem ég fékk að heyra um ástamál margra vina minna. Enn á ný eru það þó aðallega strákarnir sem opna sig svona, enda eins og ég hef komið að hér áður miklum mun dramatískari en stelpurnar, þar sem þeir eru latínó og stelpurnar gringur. Vandamálin eru auðvitað þau sömu og alls staðar í heiminum, og snúast um sambönd, eða aðallega sambandsslit, hvort sem þau eru nýafstaðin og eftirséð eða yfirvofandi og óhjákvæmileg.
Rodrigo kom heim áðan, í frekar miklu uppnámi, settist við borðið hjá okkur og fékk sér af grænmetislasagnanu sem ég var allt eftirmiðdegið að elda oní allan herskarann, og tilkynnti okkur að í dag væri mikilvægur dagur í lífi hans. Hann hafði nefnilega komið út úr skápnum fyrir mömmu sinni. Ég hafði reyndar ekki hugmynd um að hann hefði ekki verið löngu búinn að segja henni það, þar sem hann er nú þrjátíu og fimm ára og kom út fyrir mörgum árum, en ég gleymdi víst smá að við erum í Chile, þar sem ekki eru nema fjörutíu ár síðan hommum var safnað saman, þeir settir upp í skip, svo var stímað út á rúmsjó og þeim sturtað útí. Auðvitað hefur margt breyst á þessum tíma en það er samt ekkert grín að "lenda í því" að vera gay. Að sjálfsögðu vissi mamma hans þetta alveg, enda var þetta orðið frekar bjánalegt, til dæmis að þeir skyldu alltaf fá að geyma dót Cesars kærastans hans inni hjá mér eða Kelly þegar mamman kom í heimsókn. Mamman tók þessu víst bara ágætlega (enda kannski búin að búast við þessu lengi), svo hann var alveg gríðarlega feginn. Hitt er aftur verra að hann veit ekki alveg hvað hann á að gera við sambandið sem hann er í, en það er önnur saga, sem og krabbamein föður hans, sem tók sig upp á ný og nú þarf að taka úr honum allar tennurnar.
Aðrar slæmar fréttir eru að nítján ára bróðir Sebastians vinar míns framdi sjálfsmorð í vikunni. Hann stökk fram af háu bjargi í borginni Arica alveg nyrst í Chile. Þetta eru hræðilegar fréttir og vinur minn er auðvitað alveg miður sín. Það var undarlegt að hugsa til þess að ég hafði klifið þessa sömu hæð bara tveimur vikum áður þegar ég var í Arica (myndir á Facebook, bjargið með stóru Kristsstyttunni). Maður veit lítið hvað skal segja þegar svona lagað gerist, enda kannski líka fátt að segja.
Ég skrapp til Valparaíso á föstudaginn til að hitta vini mína þar, það er alltaf notalegt, enda dekrað við mig á allan hátt og mikið um gott spjall og vín. Þar var auðvitað mikið rætt um Mörtu hina norsku, sem er enn sárt saknað, þótt nú séu komnir þrír mánuðir frá því hún fór. Einn vinanna er svo yfir sig ástfanginn af Kelly en hún fór líka til Valpo um helgina. Hann var svo spenntur að hitta hana en hún endaði á að gefa honum "þú ert næs gaur en ég held við ættum bara að vera vinir" ræðuna. Greyið hringdi í mig skælandi um leið og hann var búinn að kveðja hana svo ég þurfti að leika sálfræðing á meðan ég skar lauk í lasagnað.
Húlíó hinn mexíkóameríski gerir allt fyrir ástina eins og Páll Óskar og fer í fyrramálið til Perú til að hitta hana Petru sína, sem er þar á ferðalagi. Hann þarf reyndar að vaða eld og brennistein til að komast þangað því hann gerði ekki ráð fyrir að það er ekki það sama að ferðast í Bandaríkjum Norður-Ameríku og þriðjaheimsríkjunum í Suður-Ameríku, og sex klukkustunda rútuferð á blaði breytist í tuttugu tíma ferð í gamalli rútu með fiðurfé eða geitum, og brottfarartímar flugvéla eru meira svona viðmið en raunverulegur farartími. Honum tókst líka að lenda í slagsmálum, hann var einn á risastórum næturklúbbi sem er þekktur fyrir vandræði, tók tal við einhverja stelpu sem sat þar ein, en þá birtist auðvitað kærastinn og sparkar í höfuðið á honum þar sem hann situr, og lemur hann svo. Húlíó er frekar stór og þéttur (þótt hann hafi lést um svona 15 kíló frá því hann kom hingað, bara af því að hætta að borða bandarískan mat) og sneri hann fljótt niður, og þegar átti að bera hann út ásamt hinum voru vitni sem staðfestu að hann hefði ekki byrjað slagsmálin, svo hann slapp með skrekkinn, og flýtti sér heim.
Næsta helgi ætti að verða áhugaverð. Á fimmtudaginn er planið að fara á hommadiskó til að fagna fimmtugsafmæli Madonnu, sem er ekkert lítið mál, að minnsta kosti hér á bæ. Á föstudaginn út af einhverjum dýrlingnum og ég á von á heimsókn frá fyrrverandi kærasta vinkonu minnar og gítarnum hans, þar sem ég fæ að heyra um - nema hvað - þeirra sambandsslit, og svo eldsnemma á laugardaginn fer ég í kórferðalag, á kóramót í Andesfjöllunum. Það er eldriborgarakórinn í þetta sinn, og ég er komin með útfjólubláan kórbúning sem passar skuggalega vel á mig. Það var Ívan gamli sem útvegaði mér hann og hann virðist hafa stúderað óþægilega mikið hvernig ég er í laginu, því hann rétti mér kjólinn og sagði: "ég veit að þessi á eftir að smellpassa." Og svo sagði hann soldið annað dónalegra sem ég vil ekki hafa eftir hér.
Í dag var undarlegur dagur í Chile, Dagur barnsins. Hann gengur út á að foreldrar og guðforeldrar og afar og ömmur kaupa gjafir handa börnunum og fari með þau á McDonalds. Þetta básúna allar dótabúðir í margar vikur á undan svo það fari örugglega ekki framhjá nokkru barni að það eigi að biðja um dót fyrir þennan dag. Raunar eru allir svona dagar miklu mikilvægari hér en á Íslandi. Valentínusardagurinn, mæðradagurinn, feðradagurinn, vinadagurinn, allt eru þetta dagar sem hver einasti Chilebúi heldur upp á. Svona var þetta líka á Spáni, ætli þetta hafi eitthvað með kaþólskuna að gera?
Þetta er nú orðið gott. Ferðasagan bíður, en rúmið líka, og táknfræðitíminn á morgun.
Ég bið ykkur vel að lifa, og að hlusta á nýju Megasarplötuna, hún er dásemd. Tónlist.is hefur nýst mér vel.
(uppfært 12. ág. kl 00.39, bætti inn Húlíósögu og tók eitt umframorð)
fimmtudagur, ágúst 07, 2008
Ég og vinkona mín bandarísk ætluðum að finna okkur eitthvað skemmtilegt að gera eitt síðdegið í vikunni þar sem hún slapp snemma úr vinnu. Það var búið að rigna svolítið um daginn, bara nokkrir aumingjalegir dropar á strjáli, en viðvarandi þó. Mér datt ekki í hug að þetta myndi setja strik í reikninginn og kom með hverja snilldarhugmyndina á eftir annarri, skipulagði ferð í kirkjugarðinn sögufræga, á safn um pyntingarnar á einræðistímanum og meira að segja veðreiðar. En þessir dropar drógu allan mátt úr vinkonu minni. Hún hló bara að öllum mínum tillögum og hafnaði þeim með orðunum: "En það er rigning!"
Ég hafði eiginlega ekki áttað mig á því hvað við látum veðrið lítið angra okkur, og við sem höfum svona mikið af því. Hér kvartar fólk og kveinar fari hitinn undir 15 gráður og í rigningu lamast allt og fólk situr bara heima. Það var felld niður kóræfing um daginn því að það var svo kalt.
Ég man eftir djömmum í Reykjvíkurborg þar sem maður eður slabb upp á miðja nælonsokkaklædda kálfa í spariskónum til að komast á milli staða, bíður í röð í nístingskulda og reynir að skýla sér frá stórhríðinni með því að halla sér agnarögn of mikið upp að ókunnuga hávaxna manninum við hliðina á sér. Ég þarf samt að fara til Suður-Chile, þar ku veðráttan vera mun líkari því sem ég á að venjast, enda á svipaðri breiddargráðu, bara í hina áttina.
þriðjudagur, ágúst 05, 2008
Tíminn var "Táknfræði í kvikmyndum". Kennarinn er 82 ára, hávaxinn og glæsilegur með sítt skegg og hár, alveg eldklár og líklega nokkurs konar goðsögn, eftir því hvernig hann talaði og hvernig nemendurnir komu fram við hann, og af því að það er ýmislegt um hann á netinu, til dæmis þetta myndband af honum að spila á flautu. Ég sat heilluð í þrjá klukkutíma og fannst ég vera komin í tíma hjá Robert Langdon, enda byrjaði hann á að ræða táknfræði í Disneymyndinni Mjallhvíti, þaðan í Pentagon-bygginguna og hvernig formið á henni tengist frímúrurum og fornum kabbalah-kenningum um fimmhyrning sem táknar stríðsguðinn Mars, sem aftur tengist fimmhyrningnum í merki Súpermanns. Svo talaði hann heillengi um hversu mikið má lesa út úr fyrstu tveimur orðunum í Faðirvorinu, að maður tali ekki um ef maður heldur áfram. Þar á eftir voru það hans kenningar um 11. september 1973 (þegar Pinochet tók völd og Salvador Allende var drepinn) og samsæriskenning um páfaheimsókn til Chile, önnur um myndirnar úr Abu Ghraib þar sem bandarískir hermenn sjást pynta Íraka, sem hann heldur fram að hafi verið birtar viljandi af bandaríska hernum til að æsa upp allan hinn íslamska heim. Hann var líka með júngískan lestur á Rear Window eftir Hitchcock og sýndi okkur brot úr þremur myndum, Borgarljósum Chaplins, Royal Wedding með Fred Astaire og jólaþáttinn með Mr. Bean. Í öllum þessum brotum sýndi hann okkur falin skilaboð, eins og í þessu atriði, sem virðist vita meinlaust, bara sætur dans í upphafsatriði Royal Wedding. Þessi dans táknar hins vegar baráttu Bandaríkjanna fyrir sjálfstæði frá Bretum, Astaire táknar gamla konungsveldið og stúlkan er nýlendan freistandi, sem nýtir tækifærið og rænir hann krúnunni, svo hann neyðist til að láta hana fá aðra til að heimta sína til baka. Myndin er frá 1951 en á að gerast 1947 þegar það var konunglegt brúðkaup í London, ofsa djúsí. Miðað við þetta getið þið ímyndað ykkur hvað hann fann hjá Chaplin og Mr. Bean.
Ég veit ekki hvort ég held áfram í þessum tíma, því ég get ekki fengið hann metinn við HÍ þar sem hann er ekki á MA-stigi, en ég skemmti mér að minnsta kosti stórvel í þessum tíma, sama hvað verður. Þetta er kannski heldur mikið af samsæriskenningum fyrir mig, ef fram heldur sem horfir, því þótt það sé gaman að þeim verður það líklega fullmikið að hlusta á í þrjá tíma á viku. Sjálfur sagði kennarinn að þessi kúrs myndi breyta lífi okkar, og að við myndum ekki sjá bíómyndir, já eða nokkurt listform, í sama ljósi aftur. Hann ætlaði að svipta okkur sakleysinu.
Í morgun fór ég líka til læknis, lýtalæknis reyndar, út af örinu á enninu, vildi bara athuga hvað er hægt að gera. Það er svosem ekki í frásögur færandi nema af því að inni hjá lækninum var ég í mesta lagi fimm mínútur en allt stússið við að fá að borga fyrir tímann tók mig einn og hálfan tíma. Eins gott að ég mætti 40 mínútum fyrr til læknisins til að redda þessu öllu, samt var ég ekki búin fyrr en korteri eftir að ég átti pantaðan tíma, og átti þá eftir að redda fleiru eftir tímann. Ég var send á milli bygginga, og innan bygginga á milli sala, innan sala á milli borða, og svo fram og til baka endalaust á milli allra þessara aðila. Og þetta er fínasta og þróaðasta heilsugæsla landsins, eða um það bil. En þrátt fyrir lúxusinn er flækjustigið hið sama og á þeim vanþróaðri, gott ef ekki enn meira.
Vonandi skemmtu allir sér fallega um verslunarmannahelgina, ég lét mér nú eiginlega bara leiðast og hlustaði á Julio tala um svissnesku ástina sína sem er núna farin í ferðalag og hann mun bara sjá nokkra daga í viðbót þegar hún kemur hér við á ferðum sínum. Hann er furðuleg blanda af mexíkóa annars vegar og hreinræktuðum Texasbúa hins vegar, sem talar hátt um réttindi sín sem Bandaríkjamanns og gerir mig stundum alveg brjálaða með blaðrinu í sér.
Þá er það rúmið, en fyrst eitt vídjó, þetta er úr Magnificat eftir John Rutter, sem ég er að fara að syngja á tónleikum á fimmtudaginn ef einhver vill kíkja. Ókeypis inn.
Fecit Potentiam
þriðjudagur, júlí 15, 2008
Ég kom heim frá Buenos Aires í gærkvöldi. Þetta var frábær ferð og hefði ekki getað verið betri nema ef hún hefði verið lengri. Þetta var alltof stuttur tími en vel nýttur. Þar sem ég ferðaðist með þremur strákum var skylduheimsókn á La Boca-leikvanginn (þar sem Maradonna spilaði) og River-leikvanginn, eitthvað sem mörgum þykir eflaust merkilegra en mér. Mun áhugaverðara var að hitta rithöfundinn Sorrentino sem sýndi mér kirkjugarðinn í Buenos Aires sem er ekkert minna en magnaður, og heimspekilegar samræður til fimm um nótt á farfuglaheimilinu, við sirkusstrák með hanakamb og hárlistakonu. Það var bara eitt sem varpaði skugga á ferðina en það var samt á sama tíma svo viðbjóðslega fyndið að það er ekki hægt annað en segja frá því:
Hann Nico, sem var svo ástfanginn af Mörtu hinni norsku, er fyndinn fýr. Hann er svo opinn og jákvæður og skemmtilegur og kann ekki að skammast sín. Hann var í fyrsta sinn í útlöndum og þurfti auðvitað að tala við hvern einasta látbragðsleikara, götusölumann, götutangódansara, mótmælanda og sæta stelpu sem hann sá og tókst alltaf að verða besti vinur þeirra allra á nokkrum mínútum. Hver einasti sem rétti honum pappírssnifsi, hvort sem það var til að auglýsa herbalife eða hóruhús, var tekinn á spjall um hvað sem var. (þetta var verra en Atli Viðar niðrí bæ um helgar)
Þar sem þessir strákar eru... ja, strákar, og latínós, var líka mikið talað um stelpur... brjóst og rassa og brasilískar stelpur og argentínskar og ljóshærðar og dökkhærðar og lauslátar og ungar og gamlar og allt. Ég var meira að segja farin að halla undir flatt og glápa þegar ég sá bústinn barm eða lögulega leggi undir lok ferðar.
Nico var mjög forvitinn um "café poto" (eins og hann kallaði það, bókstaflega "rassakaffihús") í Argentínu því í Chile er alveg fullt af þeim. Þau heita "café con piernas" ("kaffihús á fótum" eða "kaffi með fætur" eða eitthvað í þá áttina) og þar ganga um stelpur í strengjabrókum einum fata og servera kaffi oní herramenn. Mjög spes fyrirbæri sem ég lýsi betur seinna. Nú, Nico vildi kanna rassakaffistöðuna í Buenos Aires svo þegar einhver stúlkan bauð honum inn af götunni upp langan teppalagðan stiga að myrkum salarkynnum lét hann ekki segja sér það tvisvar. Við hin trúðum ekki eigin augum þegar við sáum hann hverfa þangað inn og strákarnir urðu öskuvondir út í hann fyrir að vera svona heimskur. Þegar hann loksins kom út aftur var auðvitað búið að hafa af honum allan peninginn sem hann var með á sér. Hann lýsti því þannig að það hefði allt fyllst af stelpum í kringum hann að rétta honum einhver djúsglös sem hann ekki drakk úr, og svo var hann rukkaður um morðfjár, "og svo voru þær allar ljótar í þokkabót"! * Hann leit í kringum sig og sá tvo gaura sem voru víst eitthvað um fimm metrar á hæð, reiðubúnir að rista hann á hol ef hann ekki borgaði, svo hann þorði ekki annað en láta af hendi allt reiðuféð sitt. Ég held hann hafi skammast sín í svona klukkutíma eftir þetta, og hann sagðist hafa lært sína lexíu og ætla að hætta að weonear (láta eins og fífl) svona mikið, hann væri búinn að rugla nóg í þessari ferð og ætti þetta skilið. Gott ef það sljákkaði ekki aðeins í honum eftir þetta, þótt hann hætti auðvitað ekki alveg... enda væri það heldur ekkert gaman.
Það var skrítið að ferðast með strákum sem eru aldir upp í að stelpur megi ekki lyfta þungum hlutum eða opna dyr sjálfar. Ef ég missti eitthvað á gólfið voru minnst þrjár hendur mættar til að taka það upp og ég fékk lítið að borga fyrir drykki eða annað. Ég þurfti raunar voðalega lítið að gera, enda er ég loksins búin að átta mig á því að það er alveg jafnmikil kurteisi af minni hálfu að þiggja aðstoðina eins og af þeim að bjóða hana. Það er beinlínis dónalegt að heimta að borga ef þeir bjóða manni, því þá er maður á einhvern hátt að lýsa því yfir að þeir hafi ekki efni á því og að þeir séu þannig minni karlmenni, og maður verður bara að sætta sig við þetta. Ég þoli samt ekki þegar þeir reyna að klæða mann í jakkann... þá finnst mér komið of mikið af því góða.
---
En þetta var bara upphitun fyrir ferðina sem ég fer í í fyrramálið. Klukkan 7.30 (eftir fimm tíma) legg ég af stað í rútu til Iquique, í Norður-Chile. Ferðin tekur 24 klukkutíma, svo ég verð komin á miðvikudagsmorgun á sama tíma til Iquique. Þaðan ætla ég til La Tirana, pínulítils þorps þar sem er akkúrat þessa viku alveg ótrúleg trúarhátíð með tónlist og dansi og pílagrímum með grímur og púkablístrur. Hér má sjá nokkrar myndir.
Eftir það er ferðinni heitið lengra norður, til Arica, sem er við landamæri Perú, og svo til Bólivíu, til borgarinnar Oruro, þar sem ég ætla að heimsækja hann Felix, 9 ára, SOS-barnið mitt. Ég hlakka alveg rosalega mikið til að hitta hann. Eftir það kem ég mér einhvernveginn til baka. Læt vonandi vita af mér einhverntímann á leiðinni þegar ég kemst í net. Óskið mér góðs gengis og lítils rasssæris...
*Hér kom Húlíó inn í herbergi til mín frekar skömmustulegur og spurði hvort hann mætti sýna mér soldið - nefnilega myndir af Petru, svissnesku stelpunni, sem hann tók í rómantísku helgarferðinni þeirra - því hann er svo yfir sig ástfanginn og varð að deila því með einhverjum. Hann er svo fyndinn, algjör Kani en samt svona æðislega væminn latínó.
miðvikudagur, júlí 09, 2008
Nú sit ég og bíð eftir að kominn sé tími til að fara út á flugvöll og skella sér til Buenos Aires. Ég er reyndar með einhverja bölvaða beinverki og illt í maganum, við skulum vona að það sé nú bara eitthvert létt grín.
Rodrigo, sem alltaf passar svo vel upp á okkur, er mjög ánægður með fylgdarsveina mína, hann veit að þeir eiga eftir að passa mig eins og sjáaldur augna sinna. Hann sagði þegar ég kvaddi hann: "Come mucho chocolate y mucha carne" (borðaðu mikið af súkkulaði og kjöti), og svo hvíslaði hann "y comete un argentino también" sem þeir skilja sem vilja.
Eitt er það sem ég er alveg að verða brjáluð á: langflestir Bandaríkjamennirnir hérna. Þeim þykja þeir svo merkilegir að vera í útlöndum, hafa kannski farið til Evrópu, kannski ekki, lært mannfræði eða félagsfræði eða eitthvað, en finnst þeir að minnsta kosti geta dæmt Chile og öll önnur lönd út frá norminu, sem er auðvitað the US of A. Sama hvað þeir eru með margar gráður í mannfræði og "veraldarvanir" þarf alltaf að bera allt saman við Bandaríkin og þannig ákveða hvort það sé "normal" eða ekki. Ég sem hélt að mannfræði snerist að einhverju leyti um að það væri fleiri en ein menning sem væri "normal" og þótt fólk notaði sinnep eða mæjónes eða eitthvað allt annað á frönskurnar en tómatsósu væri það ekki endilega "so weird" heldur bara "öðruvísi en ég er vanur/vön". Þetta er orðið frekar þreytandi.
Ég bý semsagt núna bara með enskumælandi, þ.e. könunum tveimur og þeirri svissnesku, og svo Ro og Cesari sem er hérna upp á hvern dag. Það verður gott að komast út úr enskunni í smástund, ég er komin með ögn leið á henni.
Mig dreymdi í nótt að í lítilli matvörubúð á horninu sæi ég allt í einu hálfslítradollu af skyr.is með vanillubragði. Búðareigandinn sagði með fýlusvip að birgirinn hefði látið hann fá þetta til að prófa en hann byggist ekki við að selja þetta nokkrum manni. Ég lofaði honum að ég skyldi kaupa það allt saman. Svo var draumurinn búinn.
En þá er það land silfurs, nautakjöts, fallegustu karlmanna í heimi og Evítu: