laugardagur, desember 27, 2008

Jól í Chile

Litlu frænkur mínar sendu mér jólabréf og spurðu mig hvort það væru líka jól í Chile. Þetta er svar handa þeim og fleiri sem kynnu að spyrja sig að þessu sama. Jú, það eru sko jól í Chile. Meira að segja mjög gleðileg jól. Ég er búin að lifa í vellystingum núna yfir jóladagana enda er fólk mjög hugulsamt og lætur mann ekki vera einan yfir hátíðirnar. Á Þorláksmessu keypti ég allar jólagjafirnar, þar sem þá fyrst áttaði ég mig á því að ég fengi líklega slatta af gjöfum og þyrfti að hafa eitthvað til að gefa á móti. Þeim innkaupum var hespað af á einu síðdegi í verslunarmiðstöð, og þær eru alveg jafnóþolandi vítisholur og heima þetta korter fyrir jól. Munurinn er sá að hérna er miðbærinn jafnvel enn viðbjóðslegri, troðfullur af fólki og steikjandi hiti, enda er 30-33 stiga hiti á hverjum degi í desember. Í verslunarmiðstöðvunum er í það minnsta loftkæling - og svolítið annað sem fékk mig til að skella upp úr svo fólk horfði á mig eins og geimveru þar sem ég stóð og káfaði á gerfifroðusnjónum sem spýttist út úr hávaðasamri vél og féll til jarðar ofan á plasthreindýr og gervisnjókalla og börn sem hafa aldrei séð alvöru snjó nema í bíómyndum. Hér er það jólasveinninn sem kemur með gjafirnar, en maður vorkennir honum þegar maður sér hann sitja niðri í bæ í fullum skrúða, skeggjaðan og kófsveittan.

Á aðfangadag hafði ég það mjög rólegt, kíkti í heimsókn með jólagjafir og tók um þrjúleytið (18 að íslenskum tíma) fram eina malt sem mamma hafði komið með handa mér og blandaði henni í óskilgreint chileískt appelsínujukk svo úr varð nokkurs konar jólaöl með bleikri froðu. Svo át ég pastasalat úr dollu og hugsaði heim. Það var góð stund. Mér var boðið að vera hjá Rodrigo, sem ég bý með, og fjölskyldunni hans á jólunum og þangað fórum við á aðfangadagskvöld, þó auðvitað ekki fyrr en klukkan 22, því hér gerist allt seint. Með kom líka kærastinn, C. (mamma R. veit að hann er gei en ekki pabbinn, svo hann var þarna sem "ofsalega góði vinurinn") og þýska stelpan sem er nýflutt hingað og hafði engan stað til að fara á yfir jólin. Við borðuðum kvöldmat um ellefuleytið, dásamlega góðan kalkún, og drukkum rauðvín og pisco, og um miðnætti kom fleira fólk og gjafirnar voru opnaðar, eins og hefðin segir til um. Jólasveinninn kemur nefnilega með gjafirnar á miðnætti og þá hlaupa krakkarnir út á götu til að leita að honum (á meðan hlaupa aðstoðarmenn jólasveinsins með gjafirnar inní stofu). Ég fékk alveg fullt af góðum gjöfum, bók (Vetrarsól), disk (Tómas R.) og DVD (Rokk í Reykjavík) frá Íslandi (takk fyrir það) og m.a. áritaðan penna með nafninu mínu (Lilja), sem mér þótti mjög vænt um. Ég tók eftir því að ég var sú eina sem fékk bók. Ekki skrýtið, enda bækur rándýrar hér.
Svo drukkum við meira, viskí og kampavínspúns og borðuðum drottningarhandlegg ("brazo de reina") sem er kaka, lík jóladrumbinum franska. Við drukkum líka apaskott ("cola de mono") sem er aðaljóladrykkurinn hér, gerður úr kaffi, kryddaðri mjólk, áfengi og sykri, og er borið fram ískalt í stórum mjólkurglösum. Mjög gott. Veislan varð eftir því sem leið á nóttina heljar partí þar sem við dönsuðum salsa úti á götu með nágrönnunum og veifuðum á eftir jólasveininum sem hjólaði fram hjá klukkan þrjú um nótt. Allir í fjölskyldunni voru svo glaðir eitthvað, og almennilegr við okkur gringurnar, svo við vorum alveg himinsælar þegar við fórum heim um fjögurleytið um nóttina.

Jóladagur var ekki verri, gott ef ekki bara ennþá betri. Okkur var boðið heim til eldri systur R. sem býr alveg upp við Andesfjöllin í fallegu húsi með sundlaug. Þar var stjanað við okkur allan daginn, sem leið hjá í sólbaði, sundi, áti og drykkju allt fram á kvöld, þá fórum við í bíltúr til að skoða útsýnið yfir Santiago þarna ofan af hæðinni, sem var magnað.
Okkur var færð tölva með interneti og vefmyndavél út í garð og þar hringdi ég heim í pabba og mömmu og sýndi þeim sundlaugina og garðinn og fólkið og sólina, það var frábært. Svo sýndi ég viðstöddum myndir af jóladegi 2007 þar sem ég bjó til snjókall. Það fannst þeim eðlilega stórfurðulegt, vön jóladegi á sundlaugarbakkanum, að drekka romm í kók úr blómavasa (grínlaust). Þessi dagur er tvímælalaust kandídat í keppni um bestu daga ævi minnar, ásamt deginum í júlí sl. þegar ég heimsótti Felix SOS-barn í Bólivíu.Í gær var mér boðið í mat til vinar sem sjálfur getur ekki verið hjá fjölskyldunni um jólin (frekar en síðustu sex mánuði) vegna þess að hún vill ekkert með hann hafa eftir að hann kom út úr skápnum, svo við erum soldið búin að passa hvort annað þessa dagana. Mín útlegð er þó sjálfsköpuð; ég gæti ekki til þess hugsað að fjölskyldan myndi útskúfa mér svona algjörlega. En hann tekur þessu með kaldhæðninni: "Þetta er fínt, ég spara fullt af pening í gjafir."

Í kvöld er afmæli hjá Gabriel vini mínum, og hann hringdi í mig í morgun til að fá uppskrift af túnfisksalati. Ég gerði það um daginn þegar ég hélt jólaboð handa vinunum og hann og aðrir héldu ekki vatni yfir því.
Nú er ég samt mest spennt yfir því að á morgun kemur hún Eva María skröltandi í rútu yfir fjallgarðinn frá Mendoza í Argentínu. Hún er búin að vera að þræða sig í gegnum Íberóameríku allt frá bankahruni og ætlar að vera hjá mér í Chile um áramótin, eitthvað sem við erum búnar að vera að plana í hátt í ár. Við förum til Valparaíso þar sem er stanslaust partí frá því í gær og fjörutíu kílómetrar af flugeldasýningu klukkan tólf á miðnætti. Vúhúúú! Svo ferðalag suður á bóginn í örlítið svalara veður. Það er því margt að hlakka til. Ég vona að heima á Íslandi hafi allir það gott, ég hugsa mikið heim en líður vel hér í sólinni.
Sendi mínar allra bestu jóla- og nýárskveðjur heim til fjölskyldu og vina,
Svanhvít Lilja

föstudagur, desember 12, 2008

Hvar er ljóskan?Níunda sinfónía Beethovens flutt af 100 manna kór og hljómsveit 10. desember 2008.

Sama dag kom Madonna fram í fyrsta skipti í Chile. Það hljómar líklega ekki mjög krassandi en er líklega viðburður ársins. Madonna er nefnilega táknmynd frelsisins í hugum fólks hérna, því að tónlistin hennar var bönnuð á einræðistímanum og enn, m.a.s. í blaðinu í dag skrifa reiðir kardinálar og halda ræður um syndsamlegt athæfi hennar. Rodrigo sagði mér frá einu öndergrándplötubúðinni þar sem hægt var að fá plöturnar hennar á Pinochet-tímanum; þar voru plöturnar hennar auglýstar leynilega með skilti útí glugga: "sendingin er komin". Svo stalst R. útí búð með pening sem mamma hans hafði látið hann fá fyrir skólabók og keypti sér "Like a virgin".

Madonna táknar því frelsi, kynfrelsi, gay-frelsi. Það hefur ekki verið talað um annað og 70.000 manns voru á tónleikunum í gær og annað eins í dag. Þegar hún steig því loksins á svið hér í gær var því víða grátið. R. og kærastinn voru í metra fjarlægð og hágrétu.

Þess vegna er mjög athyglisverð tilviljun (?) að tónleikarnir lentu á dánardægri Pinochets, sem lést fyrir tveimur árum. Enn eru margir sem halda upp á þann dag, en önnur tilviljun er að sami dagur er Alþjóða mannréttindadagurinn, og Bachelet forseti opnaði safn í útrýmingarbúðum frá tíð Pinochets í minningu allra sem hann lét drepa. Gærdagurinn var því frekar merkilegur í hugum margra. Og þannig er nú það.

Uppfært: Meira að segja mbl.is fann sig knúið til að þýða þetta úr ammrískum miðlum

þriðjudagur, desember 09, 2008

Það er löngu kominn tími á hljóð úr horni, og frá nógu að segja. Í fyrsta lagi: Ég er búin að ákveða að vera lengur í Chile. Ekki til frambúðar, sko, bara bíða þar til vorar og hægist aðeins um á norðurhveli. Ég sé bara engan tilgang í að fara sjálfviljug úr sumari og hita og gleði og tónlist yfir í volæði og myrkur og kulda. Ég þarf að skrifa mastersritgerð, hún getur skrifað sig hér eins og annars staðar, og ég eyði minni pening á meðan. Svo var ég að fá vinnu, í stíl við það sem ég hef áður gert: að þýða bíómyndir fyrir DVD-diska úr ensku yfir á íslensku. Þessi vinna fer öll fram í gegnum netið, svo ég verð í Chile að vinna fyrir ítalskt/ammrískt fyrirtæki með aðsetur á Indlandi við að þýða yfir á íslensku. Lifi hnattvæðingin!
Þetta um plönin mín næstu mánuði. Ég vona að þetta taki ekkert voðalega á þá sem heima sitja, en þetta þýðir bara að það er einum færri munnur að metta í þjóðarfjölskyldunni, svo hinir ættu að fá meira, ræt? ræt? Höfum það.

Nú það sem drifið hefur á daga mína. Fyrst er kannski að nefna svaðilför mína í gær. Ég var komin með upp í kok af íbúðinni og borginni og menguninni og í gær var frídagur svo ég fór (enginn nennti með mér) til Cajón del Maipo, sem er þjóðgarður/útivistarsvæði hérna nálægt Santiago. Þar ætlaði ég að dúlla mér og skoða foss sem hægt var að komast að með 30 mín. léttu labbi. Þegar ég var svo að vandræðast með hvar ég ætti að fara út úr rútunni (þekkti ekki svæðið) spyr fólk við hliðina á mér hvert ég sé að fara. Ég segist ætla að skoða fossinn. Þau spyrja "þennan þar sem maður fer meðfram ánni?" og þar sem ég vissi ekki betur en maður þyrfti alltaf að fara meðfram á til að komast að fossi, og hafði bara heyrt um þennan eina foss þarna á svæðinu, sagði ég já. Þau spurðu þá hvort ég vildi ekki verða samferða þeim og ég var til í það. Þetta var par með tíu ára stelpu sem var dóttir konunnar. Fljótt sá ég hvað þau voru ofboðslega ólíkt par, hann náttúrubarn með kíki og vaðskó og hún í semelíusteinasandölum með tommulangar gervineglur og hugsaði mest um hvar hún gæti keypt sígarettur.

Það var enginn sunnudagsgöngutúr að komast að þessum fossi því að til þess þurfti að vaða nokkuð straumharða á mörgum sinnum. Á leiðinni upp var þetta reyndar frekar skemmtilegt, ég var blaut upp að maga en það var allt í lagi, taskan mín með símanum og myndavélinni var þurr. Kærastan fór þó fljótt að nöldra í mér: "Ég sagði honum að við hefðum ekki átt að koma hingað með stelpuna". Þó var það hún sem átti langerfiðast með þetta, á meðan sú litla skoppaði á milli steina og árbakka eins og hafmeyja á spítti. Þegar við komum loksins að fossinum eftir meira en klukkutíma puð datt andlitið af náttúrubarninu. Hann hafði oft gengið að þessum fossi en nú var hann ekki neitt neitt. Veturinn hafði greinilega verið harður þarna í fjöllunum og breytt árfarveginum svo risastórt grjót sem hafði myndað fossinn hafði dottið niður svo nú var þetta kannski tveggja metra fall. En ég sá risastóran kondór með hvítan haus flögra þarna yfir, og nóg af ogguponsulitlum kólibrífuglum.
Það var svo leiðin til baka sem var snúnari, meira vatn í ánni eftir því sem leið á síðdegið, svo að erfiðara var að fara yfir hana. Mér tókst auðvitað að detta ofan í ána með tösku og allt, síminn og myndavélin eru í gjörgæslu. Eftir það urðum við kvenfólkið aðeins skelkaðri og virkilega fór að sjóða upp úr hjá sárfættri kærustunni þegar stelpan datt næstum líka. Sú stutta var sú langhugrakkasta, það var ekki fyrr en þegar mamma hennar stóð grenjandi og öskrandi af reiði föst með fótinn úti í miðri á sem að hún fór að kjökra, en var fljót að ná sér. Svo grínuðumst við tvær bara með þetta þegar við vorum loksins komnar upp úr ánni og fengum okkur kirsuber og súrar plómur af trjánum. Við vorum auðvitað blaut frá toppi til táar en ég var ekki með nein aukaföt svo ég fékk nokkur undarleg augnatillit, líka þegar ég fór og keypti mér kjúkling með blautum peningaseðli áður en ég skreið upp í rúm í náttfötunum.

Þetta var gærdagurinn, óvænt ævintýri, en skemmtilegt, og ég lifði af, svo sjáum við til með síma og myndavél.

Annars er ég búin í háskólanum og þar með komin í sumar/jólafrí. Það er ennþá nóg af kóræfingum, í dag generalprufa fyrir níundu sinfóníuna sem verður flutt á morgun: þrír kórar og hljómsveit í stjórn frábærs stjórnanda. Eitthvað annað en hurðarhúnninn sem stjórnar kórnum sem ég syng í, en ég er nú líka mjög vandlát á kórstjóra.

Ég er hins vegar mjög ánægð með stjórnandann í barokkgrúppunni minni, sem er einhver sá skemmtilegasti félagsskapur sem ég hef lent í. Við erum að reyna að koma okkur á framfæri útum allt og erum að leita okkur að alvöru barokkbúningum, svona með púffermum og karlasokkabuxum. Það besta við þessa grúppu er að hún er laus við allt snobb og leiðindi, en venjulega skiptist fólk í kórum hér í tvennt eftir því hvort það hefur lært tónlist eða ekki (hér er hægt að fara í háskóla og læra tónlist þótt maður hafi ekkert lært áður, ólíkt Íslandi). Snobbið og hrokinn er því á pari við ákveðnar klíkur tónlistarmanna á Íslandi, en í grúppunni sem ég er í eru fæstir lærðir, og bara sumir í tónlistarnámi, svo enginn þykist vera meira en hann er og allir eru til í að taka leiðsögn. Það gerir það auðvitað líka að verkum að allt gengur hægar, en þá verða líka allir mun ánægðari þegar allt kemur saman að lokum. Þá verðum við öll voðalega sentímental og tölum um tónlistina og hvernig hún spilar á strengi hjartans og bla. Það er kannski bara betra að ég sé ekkert að koma heim, ég er orðin svo hrikalega væmin að það nær ekki nokkurri átt. Kyssi og knúsa og segi vinunum hvað ég meti vináttu okkar mikils. Er hrædd um að það færi ekki vel í Íslendingana, nema eitthvað mikið hafi breyst í hugarfarinu eftir hrun. Ég les hér og þar á netinu að eitthvað sé komið sem heitir Nýja-Ísland en mér heyrist það vera frekar svipað og hið gamla. Ég væri alveg til í að innleiða í þetta nýja að vinir heilsuðust með kossi á kinn. Það er ótrúlegt hvað það gerir fyrir sálartetrið. Ég man að fyrir svona rúmu ári á Íslandi hafði ég verið eitthvað döpur í einhvern tíma og fór þá að rifja upp að ég hafði ekki snert aðra manneskju í tvo mánuði, nema kannski stöku handaband. Ekki furða að maður hafi verið þungur. Þessi stubbaknús sem bloggarar hafa víst verið að senda á milli sín gera ekkert gagn nema þau séu gefin í kjötheimum.

Nei nú er komið nóg. Segi seinna frá rest, sem er t.d. sjálfboðastarfið mitt.
Góðar stundir.