miðvikudagur, nóvember 28, 2007

Þíðandinn

Nú er þýtt og þítt á öllum vígstöðvum í Faxaskjóli 20.

Hvað er meira sexí en að afþíða ísskáp? Hér sit ég og borða aumingja ísinn sem liggur undir skemmdum vegna þess að efsta hólfið í frystinum ákvað að fyllast af snjó og hrími og allur maturinn var innilokaður í snjóhúsinu.

Kannski er kominn tími á að borða jólahangikjötið frá vinnunni frá því í fyrra. Hvað geymist hangikjöt lengi í frysti? Hver vill koma í hangikjöt?

mánudagur, nóvember 26, 2007

Bláber með rjóma og sex milljarðar annarra

Mig langar í bláber með rjóma.

Ég mæli svo með verkefninu 6 billion others, þar sem maður getur hlustað á vonir og drauma, sorgir og gleði fólks alls staðar að úr heiminum. Það er eiginlega frekar magnað, að minnsta kosti datt ég oní þetta í meyra stuðinu sem ég var í um daginn.

laugardagur, nóvember 24, 2007

miðvikudagur, nóvember 14, 2007

Svolítið þýðinga-rant

Nú er ég voða mikið að þýða samtöl hjá fólki í mínum blessuðu þáttum og þar sem ýmislegt gerist þar mjög dramatískt lendi ég oft í að einhver segi öðrum frá því sem gerst hefur. Í dag hef ég til dæmis þurft að þýða oftar en einu sinni eitthvað eins og "Það kom svolítið hræðilegt fyrir [X]" (vil ekki skemma fyrir þeim sem fylgjast með, ehemm). Mér finnst eitthvað svo kjánalegt af þessu tungumáli okkar að orðið "svolítið" þurfi að nota í setningum þar sem verið er að segja frá hræðilegum dauðdaga. Mér bara dettur ekkert í hug sem mér finnst betra. "Nokkuð hræðilegt hefur hent [X]" finnst mér tilgerðarlegt. Það er ekki hægt að segja "eitthvað" hræðilegt, eins og er hægt í flestum málum í kringum okkur ("something", "noget", "algo"...), þar sem "eitthvað" eitt og sér getur ekki merkt "eitthvað sem hefur gerst", þar sem það er í eðli sínu óákveðið, heldur verður að nota orð eins og "svolítið", "dálítið", eða "nokkuð", sem mér finnst öll draga talsvert úr þunga setninga eins og þeirrar hér á undan. (Líklega er það þess vegna sem fólk talar venjulega ekki svona á íslensku)

Önnur setning sem ég lendi óhemju oft í að þýða, í næstum hverjum þætti og stundum oft í hverjum, er setningin "¿Cómo me pudiste hacer eso?" sem þýðir að sjálfsögðu "Hvernig gastu gert mér þetta?" Fólk gerir mikið á annars hlut í þáttunum góðu og upp komast svik um síðir þar sem annars staðar og þá er þetta það fyrsta sem hrekkur upp úr fólki. Man einhver eftir að hafa sagt þessa setningu sjálfur? Eins og Twinna mín benti á er þetta orðalag ekki beinlínis Íslendingum tamt, eflaust vegna þess hversu tilfinningaþrungin setningin verður þegar orðið "mér" er haft með og við erum kannski ekki nógu dramatísk til þess að tala svona.
Í guðanna bænum

Af hverju segir fólk "Í guðanna bænum" alveg án þess að blikna þegar svo mikið er lagt upp úr eingyðistrú í samfélaginu og tungumálinu? Einhverjir segja "Í guðs (Guðs?) bænum" en hitt er miklu algengara. Veit einhver af hverju?

fimmtudagur, nóvember 08, 2007

Það eru engin stefnumót í dag

Ég er með símann minn, sem er samlokusími, stilltan á íslensku. Það er ágætt og fer sjaldan í taugarnar á mér. Smá samt þegar ég slekk á vekjaraklukkunni á morgnana og þarf að ýta á takkann "hætta við að nota vekjaraklukku". Ég er ekkert að hætta við að nota hana, ég er hætt að nota hana þennan daginn! Þetta hljómar eins og ég hafi gert mistök og þurfi að hætta við. Ókei, allt í lagi, ég get sætt mig við það.

Það sem hins vegar fer í taugarnar á mér er takkinn sem ég þarf að ýta á til að sjá hvað klukkan er, a.m.k. þegar það er dimmt. Ef ég ýti tvisvar á takkann fæ ég klukkuna upp, en ef ég ýti óvart einu sinni stendur í skærappelsínugulum stöfum í alltof margar sekúndur "ÞAÐ ERU ENGIN STEFNUMÓT Í DAG". Svona bara til þess að ég gleymi því örugglega ekki að ég á ekkert stefnumót í dag, frekar en aðra daga. ÞAÐ er farið að pirra mig.

miðvikudagur, nóvember 07, 2007

Þetta brot úr viðtali eftir Þórarin Eldjárn er búið að hanga uppi á ísskáp hjá mér frá því í sumar því ég ætlaði alltaf að setja þetta inn, mér fannst þetta svo vel sagt og lýsa vel mínum skoðunum.Þetta var í Blaðinu í sumar en kjáninn ég punktaði ekki niður dagsetninguna.

Trúirðu á Guð?
Ég er trúheftur svo ég noti gott orð sem einn frændi minn bjó til. Ég skil ekki trúarbrögð og tel að aldrei hafi örlað á neinni trúarlegri tilfinningu hjá mér þó ég fyllist auðveldlega lotningu gagnvart sköpunarverkinu, hver svo sem skóp það, ef það var þá nokkur: náttúrunni, tónlist, bókmenntum, fögru mannlífi. Ég hallast samt að því að það sé rétt að líta ekki svo á að maðurinn sé herra tilverunnar. Ég er sem sagt ekki skynsemistrúarmaður sem tel mig geta svarað öllum spurningum af kaldri rökhyggju. Ég er ekki skilningssjúkur. Ég get alveg ímyndað mér afl sem er manninum æðra, afl sem við skiljum ekki, en hugsum til og sækjum styrk til. En ég tengi þá afstöðu á engan hátt við guðstrú eða trúarbrögð.
Ég amast ekki við því að fólk ástundi trúarbrögð en þykir smekklegra að það haldi þeirri iðju fyrir sjálft sig. Ég er á þeirri skoðun að trúarbrögð og opinber iðkun þeirra sé oft og einatt mikið böl í heimi hér. Og því miður vaxandi nú um stundir. Helst myndi ég vilja að víðtækt samkomulag yrði gert um að öll trúarbrögð séu einkamál. Og síst af öllu tengd stjórnmálum. Mér blöskrar þetta fólk um allan heim, af ýmsum trúarbrögðum, sem hefur Guð með sér í óhæfuverkum og notar trúarbrögð til að réttlæta hvaða hrylling sem er fyrir sjálfu sér og öðrum. Þetta á ríkan þátt í því að ég segi hiklaust: Ég er trúlaus maður.


Margir trúaðir segja að þeir sem eru trúlausir séu vanþakklátir og þegar þeir lenda svo í erfiðleikum á lífsleiðinni (á dánarbeðinu, ef ekki fyrr, því fáir geta afsannað það) sjái þeir að sér, falli þeir á kné og grátbiðji Guð um að fyrirgefa sér. Flestir vita að Þórarinn hefur þurft að takast á við mikla sorg í lífinu og mér finnst hann gott dæmi um heilsteyptan mann sem þessi rök eiga alls ekki við um. Það er vanvirðing við fólk að segja að það sé sneyddara raunverulegum tilfinningum eða hafi ekki þurft að takast á við nokkurn hlut í lífinu ef það segist trúlaust. Að mínu mati er eðlilegast að byrja á núlli, tabula rasa, án allra trúarbragða, og svo finnur fólk sinn guð vilji það það. Valið á þeim guði stjórnast að sjálfsögðu að mestu leyti af menningu hvers staðar og mér blöskrar alltaf hvað fólk virðist ekki átta sig á því heldur þykir sinn fugl svo fagur að það sér ekki aðra nema sem vargfugla sem ógna þess eigin fugli. Þetta er enginn nýr sannleikur en samt get ég furðað mig á þessu aftur og aftur.
Æ, góða nótt, þetta var pirrandi dagur.

sunnudagur, nóvember 04, 2007

Og það var ekki Baltasar

Einn er sá atburður helgarinnar sem ég virðist ekki geta losnað við úr hugskotssjónum mínum, mér til mikils hryllings. Á Ölstofunni á föstudagskvöldið nálgaðist mig frægur kvikmyndaleikstjóri, síðhærður með mikið skegg, horfði framan í mig áreiðanlega mjög þýðingarmiklu augnaráði eitt augnablik og smellti svo á mig blautum kossi beint á munninn. Síðan var hann farinn eins fljótt og hann hafði komið. Ég stóð eftir ofurlítið einsamalli en áður, með örlítið sár á hjartanu. Gerðist þetta í raun eða var þetta einungis freudísk ímyndun lítillar stúlku? Hvað þýðir þetta allt saman?