laugardagur, maí 29, 2004

Ég er komin heim. Góð ferð, og ferðasöguna má lesa á flestum bloggunum undir liðnum Slóveníufarar Hér er eitt málfræðinördakviss sem mér finns ÓGEÐSLEGA fyndið.. colorless green ideas sleep furiously...tíhí

Phonetics
PHONETICS: You are phonetics!! You are obsessed
with the stuff that flies from your mouth while
producing the voiced velar fricative!!


What's Your Linguistic Sub-Discipline?
brought to you by Quizilla

þriðjudagur, maí 18, 2004

Núna eru bara 4 tímar í að ég þurfi að vakna og koma mér af stað til útlanda. Það er samt meira en að segja það að ætla að fara að sofa vitandi að nokkrum klukkutímum seinna verður maður í 10.000 feta hæð að fljúga yfir Atlantshafið..

Mig er farið að gruna að sumir séu soldiðpínkusmá abbó, og þá út af slóvanska karlpeningnum. Og ekki að ástæðulausu, hérna fann ég nokkra (ýttu á "Free search"), kannski ég reyni að mæla mér mót við einhvern. Líst ansi vel á þennan Dark Mediterranean - Trenta..

En nú er ég farin að reyna að festa svefn, þeim sem vildu öfunda mig er bent á þessa síðu þar sem er hægt að lesa um ferðir Háskólakórsins næstu vikuna.

Hasta la vista - Svanhvít


mánudagur, maí 17, 2004

Vei vei!

Arts-inclined
You are Barbouille! You are visually inventive.
When you're creating new things, sometimes you
forget to eat. Intense!


Which Barbapapa Personality Are You?
brought to you by Quizilla

Þar sem þetta er 100 pósturinn minn á þessu bloggi hef ég ákveðið að gefa þeim sem kemur með 100asta kommentið hér fyrir neðan eintak af hinum sérslóvenska HUMAN FISH sem ég hef ákveðið að smygla inn í landið.

Ég hef auðvitað ekki gefið mér tíma til að blogga lengi, ég hef verið of upptekin við að vera búin í prófum... það tekur sko tíma!

Á föstudaginn fór ég til ömmu (dönsku) og hún var búin að setja upp danska fánann og kaupa dönsku brúðkaupstertuna, svo horfðum við á brúðkaupið og skáluðum þegar turtildúfurnar settu upp hringana. Og þegar presturinn lýsti þau hjón. Og þegar þau kysstust. Það var gaman.

Síðan er ég búin að fara á Njáluslóðir, júróvisionpartí í blokkinni sem afi og amma áttu heima í þegar ég var pínkupons, fara á Felix og Hressó og brjóta gleraugun mín, týna treflinum mínum og eignast bíl (meira um það síðar), baka ofaní heilan kór, fara á aðalfund með kór og og og og... og á morgun ætla ég í klippingu.

Nú hlýtur búðarlokan að fara að koma heim úr vinnunni..

þriðjudagur, maí 11, 2004

Reiðiblogg

Ég fór í próf í gær. Það var alltof langt og erfitt, og fyrir utan það voru tvær spurningar úr köflunum í bókinni sem við áttum að sleppa! Flestar spurningar voru svo úr efni sem kennarinn hafði aldrei minnst á í tímum. Margir náðu bara að gera 2/3 af prófinu. Og í dag fengum við þetta skeyti frá kennaranum:

Af viðbrögðum að dæma virðist prófverkefnið hafa verið í lengra lagi. Ég skal reyna
að hafa það í huga við yfirferð.

Kveðjur

Kristján


Þetta er nú bara nákvæmlega það sem við héldum að myndi gerast, og hér vitna ég í Tótu í örvæntingarfullan tölvupóst sem ég fékk frá henni 8. maí, þ.e. 2 dögum FYRIR próf. Tóta, ég vona að það sé í lagi (ég efast um að hr. Kristján lesi bloggið mitt):

„Hins vegar hef ég lúmskan grun um að allir komi til með að fá
ágætiseinkunn sama hvernig þeim gengur. Prófið á nefnilega eftir að koma
illa út og það lítur illa út fyrir Kristján sem á eftir að hækka alla um
tvo heila svo það fattist ekki að hann er ekki búinn að kenna okkur rass.“

Mér sýnist að þetta sé það sem er að fara að gerast...


mánudagur, maí 10, 2004

Varúð! Prófablogg!

Löngu tímabær listi yfir kórlimi er kominn á síðuna. Um að gera að nýta tímann þegar maður á að vera að læra undir próf í eitthvað áríðandi. Ég er að fara í próf á eftir (Íslensk hljóðfræði og hljóðkerfisfræði) og get bara ekki fengið af mér að læra meira. Í gær lærði ég margt skemmtilegt annað en að læra, fór í sund í góða veðrinu, sat úti í sólbaði, hékk í tölvunni ca hálfan daginn og um kvöldið elduðum við Steini kindafille með rósmarín og svörtum pipar og kartöflum og rjómapiparsósu handa mömmu hans á mæðradaginn. Það var mjög ljúft og mér tókst alveg að gleyma prófinu. Nú þarf ég bara að horfast í augu við það í 2 klst. og get svo farið að læra fyrir það síðasta, og svo á í Vissuferð með íslenskunni á Njáluslóðir og svo til Ítalíu og Slóveníu!
[ieg vilti að það vai:ri haixt að ljouðrita au blogger, þau vai:ri þesi faistla ötl ljouðrituð]

Prófabloggi lokið

föstudagur, maí 07, 2004

Í dag er NO PANTS DAY. Til hamingju og megið þið vera í sem fæstum buxum.
Ég hef ekki staðið mig sem ofurbloggari síðustu daga, og égskýri það með því að ég hef ekki verið að læra nóg fyrir próf. Nú vænkast þó hagur því að tvö síðustu prófin nálgast og ég á örugglega eftir að lauma inn nokkrum fróðleiksmolum inn á milli, eins og þennan hér að ofan með buxnalausa daginn, sem ég las um hjá kórstúlku nokkurri.

Lesefni mitt þessa dagana er fjölbreytt, því ég er að lesa fyrir hljóðkerfisfræðipróf og miðaldabókmenntapróf, og mig langar að deila agnarögn af því með ykkur. Þetta er brot úr fornaldarsögunni Gríms saga loðinkinna og lýsir tröllkonu nokkurri sem að bjargar lífi Gríms þar sem hann lá í valnum eftir bardaga, en hann er í leit að heitkonu sinni, Lofthænu, sem hafði verið rænt:

„En er hann hafði eigi lengi legit, sá hann, hvar kona gekk, ef svá skyldi kalla. Hún var eigi hærri en sjau vetra gamlar stúlkur, en svá digur, at Grímr hugði, at hann mundi eigi geta feðmt um hana. Hún var langleit ok harðleit, bjúgnefjuð ok baröxluð, svartleit ok svipilkinnuð, fúlleit ok framsnoðin. Svört var hún bæði á hár ok á hörund. [...] Hún var í skörpum skinnstakki. Hann tók eigi lengra en á þjóhnappa hennar á bakit. Harðla ókyssilig þótti honum hún vera, því at hordingullinn hekk ofan fyrir hváftana á henni“

Þessi óskapnaður bað síðan Grím um að kyssa sig, en hann svarar: „Þat má ek engan veg gera, svo fjandsamlega sem mjer lízt á þik“ En hreinskilnin dugaði honum ekki langt, því að hún hótaði honum lífláti annars. Hann þorði auðvitað ekki annað, og var hissa þegar hann kyssti hana, því: „Eigi þótti honum hún svá ill viðkvámu sem hún var hrímuglig at sjá.“ Þá neyddi hún hann til að sofa hjá sér, sem hann og gerði, þó honum væri nú ekki mikið um það.

Það kom svo líka á daginn, að tröllkonan var í álögum og var í alvörunni heitkona Gríms, hún Lofthæna! Til að losa hana úr álögunum þurfti einhver að þiggja af henni líf, kyssa hana og sofa hjá henni.

Af þessu er hægt að draga þann lærdóm að maður á alltaf að láta ljótar konur bjarga lífi sínu ef maður getur. Og að þó þær séu með hor, eigi maður samt að kyssa þær.

Góðar stundir og gleðilegan buxnalausa dag, vinir mínir.

sunnudagur, maí 02, 2004

Ört er skrifað... og á annars kostnað

Í gær sá ég að lítil könguló var búin að gera sér vef á skrifborðinu mínu. Hún fetaði sig fótfrá borðsenda á milli og mér heyrðist hún vera að hlæja að mér. Ég tók þessu sem mjög góðri vísbendingu um að ég þurfi að vera duglegri að læra. A.m.k. við skrifborð. Það er orðið slæmt þegar næðið er orðið það mikið að kóngulær sjá sér hag í að stofna heimili á læriskrifborðinu manns.

Í dag verðu ekki meira bloggað á þessum bæ, ég lofa.

laugardagur, maí 01, 2004

Til að létta lund...

fakir

Í morgun gerði ég svolítið sem mig hefur dreymt um alla ævi. Ég fékk mér Seríjós með jarðarberjum út á. Ég hef horft á myndina utan á serjóspakkanum síðustu tuttugu árin og langað til að prófa, en jarðarber lágu sko ekki á klámbekk í minni sveit. En hér í sollinum er hægt að fá þau fyrir spottprís svo ég keypti mér box í gær til að japla á á meðan ég læsi bókmenntasöguna. Ég átti tvö eftir og setti þau út á serjósið í morgun. Það var ekki eins gott og mig hafði dreymt um. Það var bara frekar súrt. Svona fer oft um drauma mannsins,´maður verður fyrir vonbrigðum þegar maður loksins uppfyllir þá.

Heil og sæl að sinni.