þriðjudagur, júlí 31, 2007

Pontificia Universidad Católica de Chile

Þetta er nafnið á skólanum sem ég var að fá inngöngu í núna rétt áðan. Hann er í Santiago, höfuðborginni í Chile, og er í 11 sæti yfir bestu háskóla í Rómönsku Ameríku.

Þarna ætla ég að taka kúrsa í þýðingum og bókmenntum og lifa ljúfa lífinu. Hver vill heimsækja mig?

Heimasíðan

þriðjudagur, júlí 17, 2007

Forskelligheder

Þetta finnst mér skemmtilegt. Eiginlega ótrúlegt að maður lifi þetta lengi miðað við allan viðbjóðinn sem maður lætur ofan í sig. Hversu langt er maturinn sem Vesturlandabúarnir borða kominn frá upprunanum?

Þetta fannst mér gaman að finna.
Auðvitað prjóna karlar og þeir eiga að mega gera það. Engum finnst þetta eða þetta neitt skrýtið, hvers vegna þá þetta?









Og þetta finnst mér rómó

sunnudagur, júlí 15, 2007

Ég hef hlegið dátt og lengi að þessu vídjói. Kannski er einhver þarna úti ekki enn búinn að sjá það og getur líka hlegið. Síðan orðin græn, lesblindir kvarti sé þetta óheppileg litasamsetning.

miðvikudagur, júlí 11, 2007

Trarillandræ, hann Bjössi í Bæ

Í tilefni þess að á laugardaginn fer ég á ættarmót Bæjarættarinnar er hér kvæði eftir hann Björn Guðmundsson frá Bæ, langafa minn. Þetta kvæði er mikið sungið í minni ætt, en ég veit ekki hvað lagið við það heitir, en ég get raulað það fyrir þann sem innir mig eftir því.

Fyrsti dansinn

Er fór ég út á dansgólfið í fyrsta sinn,
af feikna hræðslu titraði allur líkaminn,
því það er ekki öllum fært að eiga að stíga dans
og á sig gera sveiflur eftir takti spilarans.
Fæturnir þeir fóru skakkt,
frökenin komst ekki í takt,
ofan á tærnar ólmur sté,
og í hana setti bæði hné,
af liðugheitum lítið hafði að láta í té.

Ég heyrði mér til skelfingar hún hljóðaði,
í hársræturnar alveg stúlkan roðnaði.
Skyldi ég hafa limlest allan lægri part af mey,
til læknis er þó hægt að ná ef kjarkinn bilar ei.
Efri kroppnum illa leið,
undan mínu taki sveið.
Ég hafði klipið handfylli,
í herðablað á stúlkunni,
og kreisti svo í beinum handar brakaði.

Svona hélt ég áfram þó mig svimaði,
og sinnti ekki neinu öðru en stúlkunni.
Ég hafði sterkan huga á að læra þessa list,
svo lipur herra gæti orðið, best sem allra fyrst.
Loksins þó ég linaðist,
litla daman sagði byrst;
heyrirðu ekki hérinn þinn,
það hló að okkur spilarinn.
Við vorum tvö að dinglast innan um
danssalinn.

Eftir þetta ég æfði mig í einrúmi,
og er nú orðinn sæmilegur dansari.
dömunni ég þrýsti að mér létt með lófunum
og laumast til að strjúka um bakið,
svona í hornunum...
­Þetta unun þykir mér,
þjóðarskemmtun dansinn er.
Fæturnir þeir fljúga í takt,
og fara ekki vitund skakkt,
í einu stökki hef ég salinn undir lagt.

Ég bágt á með að lýsa þeirri lífsins þrá,
sem læðist gegnum heitan kroppinn til og frá.
Því það er eins og segulmáttur sveigi höfuðið,
það sígur ofur gætilega út á hægri hlið.
Ef að daman ekki er lág,
alveg mætast vangar þá,
í algleymisins unaði,
og yfirspenntri lífsgleði.
Já hvað er sælla en svona fagurt samræmi.

föstudagur, júlí 06, 2007


Þá er hinn blogglausi júnímánuður liðinn og hinn blogglitli júlímánuður genginn í garð. Ferðasagan lúrir eins og mara á mér svo mér finnst ég ekkert geta bloggað áður en hún hefur verið fest niður á blað.

Svona ferðasögur skrifa ég reyndar frekar fyrir mig en nokkurn annan, en það sakar engan að ég smelli þessu á netið líka, enginn er píndur til að lesa. (Sorrí Orri)

Frakklandsferðin með Kammerkór Suðurlands (KaSu) var frábær í alla staði og ógleymanleg á margan hátt. Við sungum á þrennum tónleikum í Strasbourg, Barr og Parc de Wesserling (þar sem við vígðum tónleikahöll; hljómar grand en reyndist vera gömul smíðaskemma sem hafði verið máluð hvít og dúkur látinn hylja ljótustu staðina. Kórinn galaklæddur hrökk svolítið við en var fljótur að jafna sig og við sungum eins og englar.) Diddú söng með okkur og hélt sjálf einsöngstónleika í Strasbourg sem voru ótrúlegir. Við stóðum okkur vel á öllum tónleikum og raunar var ótrúlegt að kórfólkið gæti sungið eftir alla bjór- og hvítvínsdrykkjuna, sérstaklega hjá körlunum. Rútubílstjórinn hugsaði sér þarna gott til glóðarinnar og var ekki lengi að finna upp á því að fara í stórmarkaðinn og kaupa heilu kassana af bjór sem hann seldi svo upp úr kæliboxi á evru stykkið. Eitthvað hefur hann grætt á því blessaður.

Kári orgelleikari var þó tvímælalaust miðpunktur eftirminnilegasta atviks ferðarinnar þegar hann fékk egg í höfuðið sem brotnaði svo skemmtilega á skallanum á honum. Ég fer ekki lengra út í þá sálma en sagan inniheldur endurtekið Hver á sér fegra á torgi í Barr á virku kvöldi og úrillan nágranna uppi á svölum. Sem betur fer var gosbrunnur nálægt sem hægt var að stinga skallanum oní til að skola mesta eggjasullið af.

Ein vika með þessum magnaða hópi var frábær leið til að kynnast fólki sem ég þekkti ekki áður og kynnast enn betur hinum sem ég þekkti. Og að sitja úti á svölum með hvítvínsglas og syngja Hljómalögin við undirleik Gunnars Þórðarsonar sjálfs er eitthvað sem ég á ekki eftir að gleyma svo glatt.

Eftir þetta tók við vika á Spáni, þar sem ég hitti Engil hinn spænska og við spókuðum okkur í Sevilla í nokkra daga og svo í strandþorpinu Conil þar sem var blessunarlega skýjað flesta dagana svo ég slapp við að brenna. Þetta er lítið og sætt þorp þar sem öll húsin eru hvít.

Þarna í Andalúsíu er eins gott að taka lífinu með ró því að hlutirnir gerast ekki á íslenskum hraða, enda ekki hægt að búast við því í 40 stiga hita. Þetta skilti er einmitt frá Conil:

Á því stendur:

"Allt stress er bannað. Maturinn kemur ekki úr dósum. Slakið á, þið eruð í fríi.
Takk fyrir komuna."

Annars er fátt af Spánarreisunni að segja, hún fór mest í að slaka á eftir Frakkland, sofa siestu, borða tapas og drekka (ótrúlegt en satt) meira hvítvín.

Eftir stutt stopp á tveimur flugvöllum í Frankfurt flaug ég svo til Bratislava og þaðan til Kosice. Þar tók á móti mér Iveta vinkona mín með Becherovka-staupi í pínulitlu íbúðinni sinni þar sem hún býr með pabba sínum, mömmu sinni, systur og hundi.

Slóvakía er frábært land. Þar má vel sjá merki um mikla fátækt en líka talsvert um að verið sé að byggja upp og gera endurbætur á gömlum húsum. Fólki er mjög umhugað um að maður fái jákvæða mynd af landinu og þekki sérkenni þess, enda hefur landið verið undir öðrum lengi og líður fyrir það. Vinkona mín var til dæmis frekar sár þegar hún sá myndina Hostel þar sem útgangspunkturinn er að í Slóvakíu sé ekkert nema hórur og ódýr bjór. Þegar ég var í Ungverjalandi 2004 og aftur nú í Slóvakíu fann ég talsvert fyrir því að Slóvakar hefðu minnimáttarkennd gagnvart þjóð sinni og ein stelpan á námskeiðinu fór meira að segja að gráta þegar sænski strákurinn sagði eitthvað vanhugsað um Slóvakíu, og hún talaði ekki við hann aftur.

Ég varð ekki mjög vör við ríg milli Tékklands og Slóvakíu; þvert á móti, en Slóvakar eru varir um sig gagnvart Ungverjalandi, enda voru Slóvakar undir Ungverjum í margar aldir og hluti af Austurrísk-ungverska keisaradæminu, og þá voru þeir mjög kúgaðir af Ungverjum og kennarar voru ofsóttir og bannað að kenna slóvakísku. Sambandið milli landanna er greinilega ennþá eldfimt, því þegar ég var í Ungverjalandi (þar sem ég kynntist Ivetu) voru Tékkarnir og Slóvakarnir mjög ósáttir og reiðir yfir sögufyrirlestrunum sem við hlustuðum á hjá ungverskum sagnfræðingi, og þeim fannst söguskoðun Ungverja alls ekki í samræmi við raunveruleikann þar sem þeir slepptu því að nefna kúgunina sem þeir þurftu að þola undir Ungverjum. Það sköpuðust nokkuð heitar umræður um þetta og vinkona mín var ennþá að tala um þetta þegar ég hitti hana núna. Ég skildi ekki mikið þá, enda vitum við Íslendingar ekki mikið um Trianon-samkomulagið og hvaða merkingu það hafði... og ég ætla ekki nánar út í það núna. En mér fannst þetta áhugavert; þarna er land sem hefur sín sérkenni sem hefur verið gert svo lítið úr og alltaf talað um að það sé ekki jafnfallegt eða merkilegt og Tékkland eða hin löndin í kring, og þetta er erfitt að skilja fyrir okkur Íslendinga sem höfum Ísland sem stendur hér eitt og sér úti í hafi allt krökkt af einstökum náttúruperlum og sögu. Minnimáttarkennd af þessu tagi gagnvart landi og þjóð finnst ekki hér.

En nóg um pólitík. Ferðin var æðisleg og Iveta sýndi mér ótrúlega staði í Austur-Slóvakíu. Hún býr í Kosice, næststærstu borg landsins, og þar er búið að byggja upp fallegan miðbæ með æðislegum tónlistargosbrunni sem er skemmtilega alltaf hálfri sekúndu á eftir lögunum sem eru spiluð.


Við fórum líka og skoðuðum Tatrafjöllin við pólsku landamærin, þarna eru hæstu fjöllin í Slóvakíu og gríðarstór þjóðgarður. Þar geisaði stormur fyrir þremur árum og lagði skóginn bókstaflega niður á hrikalega stóru svæði og það var alveg ótrúlegt að sjá eyðilegginguna.

Þarna tókum við vægast sagt kommúnistíska lyftu upp í skíðastökkpall sem mér fannst ekki kræsilegur, en útsýnið var ekki slæmt.























Svo fórum við í aðra ferð, að Sirava vatni, sem er stærsta vatn í Slóvakíu og mikill ferðamannastaður meðal Slóvaka. Þar þekkir Iveta vel til og meðal annars þekkir hún sundlaugavörðinn í einu hótelinu þarna, sem er gamalt kommúnistaherhótel. Þar fengum við að gista í hótelherbergi sundlaugavarðarins sem svaf sjálfur á sófa í sundlauginni. Það var góður karl, og fyrsta manneskjan sem ég hitti sem segir að ég syndi vel. Og það sundkennari! Ég sem hef alltaf haft óbeit á öllum sundkennurum, hversu ljúfir og góðir sem þeir hafa verið.

Nálægt Sirava er fjallið Sninsky kamen sem við Iveta gengum á og vorum gífurlega stoltar þegar við vorum komnar upp. Fjallið er 1005 metrar og á toppnum var frábært að fara í smá sólbað.

Svo skoðuðum við hella og kastala og drukkum Kofola og meiri Becherovku og höfðum það bara frábært. Við keyrðum mikið um og í gegnum mörg þorp sem voru full af sígaunum, og þeir eru nú kapítuli út af fyrir sig, ég skrifa kannski meira um þá seinna. Hér eru húsin, eða hreysin, sem þeir búa í, og takið eftir gervihnattadisknum á hverju þaki, sama hversu margar þakplötur vantar í það.


















Síðustu dagana var ég svo í Prag hjá vinkonu minni sem býr þar og ég kynntist líka í Ungverjalandi 2004. Ég tók rútu frá Kosice til Prag, það var tíu tíma ferð, frá átta um kvöldið til 6 um morguninn, en kostaði sama og ekkert og rútan var sú besta sem ég hef komið í, heitir drykkir í boði, fullt af bíómyndum, góð sæti og loftkæling, og útvarpsstöðvar eins og í Flugleiðavélum, og það fyrsta sem ég heyrði þegar ég setti á mig heyrnartólin var „hún Bella Bella Bella Bella símamær...“ og þá var auðvitað verið að spila Gling gló á einni rásinni.

Í Prag slappaði ég mest af en fór líka í dýragarðinn, sem er einn sá sniðugasti sem ég hef komið í, og skoðaði miðaldaþorp sem er þarna inni í miðri borg og var mjög skemmtilegt. Það var frábært að hitta Jönu vinkonu þar, því hún hafði ætlað að koma til Slóvakíu að hitta okkur en ekki getað vegna vinnu, svo það var óvænt ánægja þegar ég fann flug sem ég gat notað frá Prag til Frankfurt, og þaðan flaug ég heim.

Púff. Sagan búin.

Þessar þrjár vikur voru jafnvel enn betri en ég hafði ímyndað mér og ég kom heim sæl og full af orku, og svo vel sóluð að ég get meira að segja farið að nota fílabeinsmeikið sem ég talaði um einhvers staðar hérna lengst fyrir neðan þegar skammdegið ætlaði alveg að gera út af við mig.

Nú finnst mér ég geta gert allt, svo ef einhver vill fá mig í spennandi verkefni er þetta rétti tíminn. Skrifa bók, ganga á fjöll, sauma þjóðbúning, læra siglingar, mig langar að gera svo margt og ekkert virðist óyfirstíganlegt í augnablikinu. Um að gera að nýta það.