mánudagur, desember 31, 2007

Hinn púertóríski Haukur Morthens, Daniel Santos, syngur bóleróinn Virgen de media noche.

Hlustið á söngstílinn og upptökuna. Hlustið svo á Hauk hér, til dæmis í broti úr lögunum Vinarkveðja og Með blik í auga.

Þetta finnst mér sexí.

Takið eftir hvað herra Santos er svalur, reykir og allt. Hott gaur.miðvikudagur, desember 26, 2007

Taó
Jesús er ekki sá eini sem fæðist á jóladag. Þessi varð til í snjónum í Laugarási í gær og virðist bara alveg drullusáttur við það.

Hann er með geislabaug úr gömlu dóti sem var örugglega sumargjöf einhvern tímann, og skott, og vængi úr greinum af normansþin. Nefið er af gamalli gardínustöng og augun kartöflur. Skartið er úr Mebu.

þriðjudagur, desember 25, 2007

föstudagur, desember 21, 2007

Blogg

Ég má til með að blogga um gærdaginn, því hann var einkar pródúktífur fannst mér, enda ég engin ofurkona eins og til dæmis vinkonur mínar Tinna og Sigga sem tækla barnamergð með öllu öðru sem fylgir lífi nútímakonu.

Mér tókst í það minnsta að klára allar pliktir fyrir jól og ýmislegt skemmtilegt líka. Systir mín kom úr Héraði í gær þar sem hún gerði sér lítið fyrir og dúxaði í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað, yngst dúxa, aðeins 16 ára. Hér á bæ springa stórar systur úr monti.

Ég fór í heimsókn til 1 stórskálds og 1 rithöfundar, hjá stórskáldinu fengum við María pínulítið leikaramyndaharmónikuhefti frá því einhverntímann um miðja síðustu öld og enn eldri söngbók sem skáldið sjálft ólst upp með.

Rithöfundurinn gaf mér bókina sína þar sem ég á þennan fína Doppelgänger í rannsóknarlögreglunni. Hana verður gaman að lesa um jólin.

Ég keypti allar síðustu jólagjafirnar, skrifaði og sendi öll síðustu jólakortin (af þessum fáu sem ég sendi) og bakaði tvær sortir af framúrstefnulegum smákökum af ynthernetinu. Ég fer ekki heldur í jólaköttinn, því nú á ég jólakjól og belti sem kostaði mig meira en öll þau belti sem ég hef nokkurntímann áður keypt samanlagt.

Svo var það pítsusneið og fjölskylduhittingur hjá afa (þriðja skáldinu) og ömmu uppi í Grafarvogi, þar sem ég gat loksins hitt Fjólu og Davíð og Moooola litla, og kvöldið endaði með mjög góðu kaffihúsaspjalli til miðnættis. Þegar ég kom heim tók reyndar við smá áfallahjálp því meðleigjandinn hafði keypt ógrynni af augnhárum, með perlum, fjöðrum og glimmeri, ásamt ýmsu öðru förðunardóti sem ég kann ekki að nefna, og þurfti smá post-innkaupastuðning þar sem réttlætt var að svo mikið hefði verið keypt.

Þetta var gærdagurinn minn, ég býst ekki við að blogga mikið af svona bloggum ("hvernig var dagurinn minn") fyrr en úti í Chile, þar sem líklega mun ýmislegt drífa á daga mína og reka á langar fjörur landsins sem ratar hingað inn. (Nei, ég fer ekki fyrr en í lok febrúar).

Gangi öllum vel svona á síðustu metrunum fyrir jól, og gleðilegar vetrarsólstöður!

miðvikudagur, desember 19, 2007

sunnudagur, desember 16, 2007

Steingrímur Thorsteinsson (1831-1913) um Moggabloggara

Lastaranum líkar ei neitt,
lætur hann ganga róginn.
Finni hann laufblað fölnað eitt,
þá fordæmir hann skóginn.

laugardagur, desember 15, 2007

Leikstjóradramað á Ölstofunni

FÞF mættur aftur á Ölstofuna í gær, leit framan í mig eins og ég væri gamall vinur (svona alveg eins og síðast) en eitthvað hefur honum ekki litist á það sem hann sá í þetta sinn, þar sem hann fór sína leið án þess að mæla orð af vörum (eða nota varirnar í eitthvað annað).

Það hjálpaði líklega ekki að Þórunn Vala litla ljóska vinkona mín sem sat við hliðina á mér sagði við hann "Nei, bara Hrafn Gunnlaugsson mættur. Það hlýtur að vera erfitt að fara á djammið fyrir þig, það þekkja þig allir." (Hún var ekki að djóka. (Þórunn ég elska þig.))

miðvikudagur, desember 12, 2007

Gisp! Nekt!

Ætli Pétur viti af þessu?, originally uploaded by Svanhvita.

Svanhvít litla í vaskinum hjá afa og ömmu í Hvassó. Nú býr víst

P é t u r G u n n a r s s o n í þessu húsi.

sunnudagur, desember 09, 2007

Fegurstu og ljótustu orð íslenskrar tungu

Um daginn var einhvers staðar verið að ræða um fegurstu orð íslenskrar tungu. Minnir að orðin "kærleikur" og "ljósmóðir" hafi skorað hátt. Það er vel skiljanlegt, enda fallega samansett og hljómþýð orð (orðið "hljómþýður" er reyndar líka mjög fallegt).

Það eru haldnar keppnir um fegurstu orð tungumála úti um allt, t.d. í Skandinavíu og í Þýskalandi og meira að segja hefur verið valið fallegasta orð í heimi (tyrkneska orðið "Yakamoz").

En það er erfitt að velja falleg orð án þess að velja þau út frá merkingu þeirra. Það hefur enginn horn í síðu ljósmæðra og kærleikur, ja, það segir sig sjálft að hann er af hinu góða. Það sést til dæmis á listum eins og þessum yfir fallegustu orð í ensku (valinn af enskunemum og kennurum) að merkingin er svo nátengd orðinu að þau eru öll alveg hrikalega jákvæð og frekar listi yfir fallegustu hugtökin en fallegustu orðin (táknmiðið tekur yfir táknmyndina fyrir þá sem tala barthesísku (nei, ég geri það ekki)):
 1. Mother
 2. Passion
 3. Smile
 4. Love
 5. Eternity
 6. Fantastic
 7. Destiny
 8. Freedom
 9. Liberty
 10. Tranquillity
(*æl* væmið)

En hvert er ljótasta orð í íslenskri tungu? Það væri of auðvelt að segja eitthvað eins og "graftarkýli" eða "drulluhali" því þau eru svo löðrandi í neikvæðu merkingunni að það sést ekki lengur í orðið sjálft. Það er miklu skemmtilegra að finna orð sem eru hlutlaus eða jákvæð í eðli sínu. Tökum orðið "ávöxtur" sem dæmi. Það væri alveg eins hægt að skipta út "ávexti" fyrir "graftarkýli" ef við ímynduðum okkur að við hefðum aldrei séð orðið "ávöxtur" áður, enda hljómar það frekar sem kýli á líkama en safaríkt sætt aldin. Ég er hrædd um að við myndum aldrei samþykkja það sem nýyrði yfir "aldin" nú á dögum.

Komið nú með hugmyndir að ljótustu orðunum í íslensku. Þau mega vera hvort sem er ljót í hljómi (næststærstur), útliti (hjáásssvið) eða merkingu (rukkari) eða allt saman (horrengla) en ég er persónulega hrifnust af orðum sem eru samin með það í huga að hylma yfir viðbjóðinn sem leynist á bakvið. Mínar tillögur eru "fórnarkostnaður" og "uppgreiðslugjald". Ég fæ klígju í hvert sinn sem ég heyri þau notuð.

P.s. (Mitt innlegg í krúttaðasta orð í íslensku er hins vegar "hakkabuff". Alltaf þótt það sætt.)
P.p.s. Gott að það sést ekki hvenær á sólarhringnum þetta er skrifað.

miðvikudagur, desember 05, 2007

Bíddu, var þetta frá http://www.tonlist.is? Ég náði því ekki alveg

"
Kæri Svanhvít Lilja Ingólfsdóttir,

Prufuáskrift þín á
http://www.tonlist.is er við að renna út.

Þann 8.12.2007 kl 00:00 verður áskrift þín endurnýjuð á greiðslukort yðar.

Til að skrá sig úr áskrift þarft þú að innskrá þig með notanda yðar á vefnum og velja þar "Hætta í áskrift" undir "Mínar stillingar".

Notandanafn þitt á http://www.tonlist.is er [...]

kv. http://www.tonlist.is"

(Leturbreytingar mínar)

laugardagur, desember 01, 2007

Allt sem þig hefur alltaf langað til að vita en þorðir aldrei að spyrja að um íslenska banana...

...er að finna á síðu 42 í Fréttablaðinu í dag. (þessu blaði)

Mig langar að bæta við því sem komst ekki inn vegna plássleysis, sem eru nokkrir molar sem ég safnaði af alls kyns útlenskum síðum um íslenska banana. Njótið vel.

„Hvaða þjóð er stærsti bananaframleiðandi í Evrópu?

Ísland, 64 gráður norður, aðeins tveimur gráðum neðan við norðurheimskautsbaug.“

http://www.sln.org.uk/geography/SLNgeography@Iceland1.htm

„Ísland er stærsti bananaframleiðandi Evrópu og þar er ræktað mikið af ávöxtum og grænmeti undir plasti/gleri, svo að segja ókeypis.“ http://www.43places.com/entries/view/1584260

„...fólkið þar lifir lengst af öllum í heiminum, landið er nánast sjálfbært um bananaframleiðslu og þar var fyrsti kvenforseti heimsins.“ http://www.northerner.com/iceland.html

„Eina landið í Evrópu þar sem bananar eru ræktaðir í atvinnuskyni er Ísland.“

http://www.scribd.com/doc/48528/the-banana

„Það hljómar kannski furðulega en Ísland er stór bananaframleiðandi vegna eldvirkninnar sem gefur nóg af náttúrulega heitu vatni sem hinir framtakssömu Íslendingar nota til að skapa hitabeltisloftslag í gróðurhúsum sínum. Bananabýlin í Hveragerði eru mjög tilkomumikil.“

http://www.grandprix.com/mole/mole16402.html

„... Þess vegna er Ísland einn af helstu bananaframleiðendunum. Mikið af bönunum kemur frá Íslandi út af jarðvarmanum. [...] Hægt er að virkja þann hita og Íslendingar nota hann í gróðurhúsum til að rækta banana.“

http://www.thenakedscientists.com/HTML/podcasts/podcast-transcript/transcript/2006.04.30/

„Ein Evrópuþjóð þarf ekki að hafa áhyggjur af bananainnflutningi. Íslendingar rækta sína eigin banana í stórum gróðurhúsum sem eru hituð upp með vatni úr heitum hverum sem finna má á eyjunni.“

http://www.batplants.co.uk/bananasfinaldraft.htm

„Yfir 90 prósent af íslenskum heimilum eru hituð með jarðvarmaorku og hún er líka notuð til að hita upp gróðurhúsin þar sem hinir frægu íslensku bananar eru ræktaðir.“

http://www.faqs.org/faqs/nordic-faq/part5_ICELAND/

...Hveragerði – „gróðurhúsaþorp“ þar sem sjá má hvernig Íslendingar rækta eigin ávexti og grænmeti og eru sjálfum sér nógir um banana.“

http://www.icelandvisitor.com/online_booking/day_tours_and_activities/view_tour/?ew_3_cat_id=25602&ew_3_p_id=22596092&?ew_4_cat_id=25602&ew_4_p_id=22596092&searchparam1=sn=SJ-06

miðvikudagur, nóvember 28, 2007

Þíðandinn

Nú er þýtt og þítt á öllum vígstöðvum í Faxaskjóli 20.

Hvað er meira sexí en að afþíða ísskáp? Hér sit ég og borða aumingja ísinn sem liggur undir skemmdum vegna þess að efsta hólfið í frystinum ákvað að fyllast af snjó og hrími og allur maturinn var innilokaður í snjóhúsinu.

Kannski er kominn tími á að borða jólahangikjötið frá vinnunni frá því í fyrra. Hvað geymist hangikjöt lengi í frysti? Hver vill koma í hangikjöt?

mánudagur, nóvember 26, 2007

Bláber með rjóma og sex milljarðar annarra

Mig langar í bláber með rjóma.

Ég mæli svo með verkefninu 6 billion others, þar sem maður getur hlustað á vonir og drauma, sorgir og gleði fólks alls staðar að úr heiminum. Það er eiginlega frekar magnað, að minnsta kosti datt ég oní þetta í meyra stuðinu sem ég var í um daginn.

laugardagur, nóvember 24, 2007

miðvikudagur, nóvember 14, 2007

Svolítið þýðinga-rant

Nú er ég voða mikið að þýða samtöl hjá fólki í mínum blessuðu þáttum og þar sem ýmislegt gerist þar mjög dramatískt lendi ég oft í að einhver segi öðrum frá því sem gerst hefur. Í dag hef ég til dæmis þurft að þýða oftar en einu sinni eitthvað eins og "Það kom svolítið hræðilegt fyrir [X]" (vil ekki skemma fyrir þeim sem fylgjast með, ehemm). Mér finnst eitthvað svo kjánalegt af þessu tungumáli okkar að orðið "svolítið" þurfi að nota í setningum þar sem verið er að segja frá hræðilegum dauðdaga. Mér bara dettur ekkert í hug sem mér finnst betra. "Nokkuð hræðilegt hefur hent [X]" finnst mér tilgerðarlegt. Það er ekki hægt að segja "eitthvað" hræðilegt, eins og er hægt í flestum málum í kringum okkur ("something", "noget", "algo"...), þar sem "eitthvað" eitt og sér getur ekki merkt "eitthvað sem hefur gerst", þar sem það er í eðli sínu óákveðið, heldur verður að nota orð eins og "svolítið", "dálítið", eða "nokkuð", sem mér finnst öll draga talsvert úr þunga setninga eins og þeirrar hér á undan. (Líklega er það þess vegna sem fólk talar venjulega ekki svona á íslensku)

Önnur setning sem ég lendi óhemju oft í að þýða, í næstum hverjum þætti og stundum oft í hverjum, er setningin "¿Cómo me pudiste hacer eso?" sem þýðir að sjálfsögðu "Hvernig gastu gert mér þetta?" Fólk gerir mikið á annars hlut í þáttunum góðu og upp komast svik um síðir þar sem annars staðar og þá er þetta það fyrsta sem hrekkur upp úr fólki. Man einhver eftir að hafa sagt þessa setningu sjálfur? Eins og Twinna mín benti á er þetta orðalag ekki beinlínis Íslendingum tamt, eflaust vegna þess hversu tilfinningaþrungin setningin verður þegar orðið "mér" er haft með og við erum kannski ekki nógu dramatísk til þess að tala svona.
Í guðanna bænum

Af hverju segir fólk "Í guðanna bænum" alveg án þess að blikna þegar svo mikið er lagt upp úr eingyðistrú í samfélaginu og tungumálinu? Einhverjir segja "Í guðs (Guðs?) bænum" en hitt er miklu algengara. Veit einhver af hverju?

fimmtudagur, nóvember 08, 2007

Það eru engin stefnumót í dag

Ég er með símann minn, sem er samlokusími, stilltan á íslensku. Það er ágætt og fer sjaldan í taugarnar á mér. Smá samt þegar ég slekk á vekjaraklukkunni á morgnana og þarf að ýta á takkann "hætta við að nota vekjaraklukku". Ég er ekkert að hætta við að nota hana, ég er hætt að nota hana þennan daginn! Þetta hljómar eins og ég hafi gert mistök og þurfi að hætta við. Ókei, allt í lagi, ég get sætt mig við það.

Það sem hins vegar fer í taugarnar á mér er takkinn sem ég þarf að ýta á til að sjá hvað klukkan er, a.m.k. þegar það er dimmt. Ef ég ýti tvisvar á takkann fæ ég klukkuna upp, en ef ég ýti óvart einu sinni stendur í skærappelsínugulum stöfum í alltof margar sekúndur "ÞAÐ ERU ENGIN STEFNUMÓT Í DAG". Svona bara til þess að ég gleymi því örugglega ekki að ég á ekkert stefnumót í dag, frekar en aðra daga. ÞAÐ er farið að pirra mig.

miðvikudagur, nóvember 07, 2007

Þetta brot úr viðtali eftir Þórarin Eldjárn er búið að hanga uppi á ísskáp hjá mér frá því í sumar því ég ætlaði alltaf að setja þetta inn, mér fannst þetta svo vel sagt og lýsa vel mínum skoðunum.Þetta var í Blaðinu í sumar en kjáninn ég punktaði ekki niður dagsetninguna.

Trúirðu á Guð?
Ég er trúheftur svo ég noti gott orð sem einn frændi minn bjó til. Ég skil ekki trúarbrögð og tel að aldrei hafi örlað á neinni trúarlegri tilfinningu hjá mér þó ég fyllist auðveldlega lotningu gagnvart sköpunarverkinu, hver svo sem skóp það, ef það var þá nokkur: náttúrunni, tónlist, bókmenntum, fögru mannlífi. Ég hallast samt að því að það sé rétt að líta ekki svo á að maðurinn sé herra tilverunnar. Ég er sem sagt ekki skynsemistrúarmaður sem tel mig geta svarað öllum spurningum af kaldri rökhyggju. Ég er ekki skilningssjúkur. Ég get alveg ímyndað mér afl sem er manninum æðra, afl sem við skiljum ekki, en hugsum til og sækjum styrk til. En ég tengi þá afstöðu á engan hátt við guðstrú eða trúarbrögð.
Ég amast ekki við því að fólk ástundi trúarbrögð en þykir smekklegra að það haldi þeirri iðju fyrir sjálft sig. Ég er á þeirri skoðun að trúarbrögð og opinber iðkun þeirra sé oft og einatt mikið böl í heimi hér. Og því miður vaxandi nú um stundir. Helst myndi ég vilja að víðtækt samkomulag yrði gert um að öll trúarbrögð séu einkamál. Og síst af öllu tengd stjórnmálum. Mér blöskrar þetta fólk um allan heim, af ýmsum trúarbrögðum, sem hefur Guð með sér í óhæfuverkum og notar trúarbrögð til að réttlæta hvaða hrylling sem er fyrir sjálfu sér og öðrum. Þetta á ríkan þátt í því að ég segi hiklaust: Ég er trúlaus maður.


Margir trúaðir segja að þeir sem eru trúlausir séu vanþakklátir og þegar þeir lenda svo í erfiðleikum á lífsleiðinni (á dánarbeðinu, ef ekki fyrr, því fáir geta afsannað það) sjái þeir að sér, falli þeir á kné og grátbiðji Guð um að fyrirgefa sér. Flestir vita að Þórarinn hefur þurft að takast á við mikla sorg í lífinu og mér finnst hann gott dæmi um heilsteyptan mann sem þessi rök eiga alls ekki við um. Það er vanvirðing við fólk að segja að það sé sneyddara raunverulegum tilfinningum eða hafi ekki þurft að takast á við nokkurn hlut í lífinu ef það segist trúlaust. Að mínu mati er eðlilegast að byrja á núlli, tabula rasa, án allra trúarbragða, og svo finnur fólk sinn guð vilji það það. Valið á þeim guði stjórnast að sjálfsögðu að mestu leyti af menningu hvers staðar og mér blöskrar alltaf hvað fólk virðist ekki átta sig á því heldur þykir sinn fugl svo fagur að það sér ekki aðra nema sem vargfugla sem ógna þess eigin fugli. Þetta er enginn nýr sannleikur en samt get ég furðað mig á þessu aftur og aftur.
Æ, góða nótt, þetta var pirrandi dagur.

sunnudagur, nóvember 04, 2007

Og það var ekki Baltasar

Einn er sá atburður helgarinnar sem ég virðist ekki geta losnað við úr hugskotssjónum mínum, mér til mikils hryllings. Á Ölstofunni á föstudagskvöldið nálgaðist mig frægur kvikmyndaleikstjóri, síðhærður með mikið skegg, horfði framan í mig áreiðanlega mjög þýðingarmiklu augnaráði eitt augnablik og smellti svo á mig blautum kossi beint á munninn. Síðan var hann farinn eins fljótt og hann hafði komið. Ég stóð eftir ofurlítið einsamalli en áður, með örlítið sár á hjartanu. Gerðist þetta í raun eða var þetta einungis freudísk ímyndun lítillar stúlku? Hvað þýðir þetta allt saman?

miðvikudagur, október 31, 2007

Vísnagáta


Hér er vísnagáta sem ég bögglaði einu sinni saman. Eitt lausnarorð, sem fæst út úr hverri línu. Mjög létt. Svar óskast með skýringum á hverri línu.


Lýti er á löppum mér
Langan jafnan köllum vér
Hann með einu auga sér
Allt það þekkir hippager.

mánudagur, október 29, 2007

Minni

Í fornöld voru til menn sem kunnu öll lög í landinu. Þetta stendur til dæmis í Grágás um lögsögumenn:

„Það er og að lögsögumaður skal svo gerla þáttu alla upp segja að engi viti einna miklu gjörr.“

Þeir voru það sem nú væri líklega kallað dýrmætur mannauður.

Allt frá þessum tíma og fram á síðustu öld gat fólk líka þulið upp heilu rímnaflokkana, sögur, þulur og söguljóð að því er virðist áreynslulaust. Þessum gáfum hefur hrakað svo ört hjá þjóðinni að grunnskólabörn og foreldrar þeirra bölva því að börnin þurfi að læra „Ein er upp til fjalla“ utan að yfir helgi.

Með farsímum með símanúmeraminni og internetið alltaf við höndina er algjör óþarfi að muna nokkurn skapaðan hlut nema þá slatta af lykilorðum og leyninúmerum til að komast inn á þetta allt saman. Það eru til dæmis nokkur ár síðan ég lagði síðast símanúmer á minnið, og það er svo auðvelt að ná í allan fróðleik að það er hreinasta sóun á geymsluminni að reyna að muna hvað eru margir metrar í einu feti eða hvaða ár Gamli sáttmáli var gerður.

Nú er svo komið að sumir segjast ekki geta hlustað án þess að punkta niður hjá sér hvað sagt er og ég hef tekið eftir leiðinda ávana – eða beinlínis nauðsyn – hjá þónokkrum (kennurum, yfirmönnum...) að láta mann senda sér hvert örsamtal, þar sem lágmarksupplýsingar koma fram, í tölvupósti. Þetta er dæmigert samtal:

Svanhvít (eftir að hafa borið upp erindið): Er þetta þá ekki alveg á hreinu?

Erind-rekinn: Jú, sendu mér bara línu um þetta.

S.: Línu? Um hvað?

E.: Já, bara sendu mér smá tölvupóst um þetta sem þú varst að segja.

S.: Um það sem við vorum að tala um?

E.: Já, svo ég hafi það hjá mér. Sendu mér það bara.

S.: Uhh, ókei.

Ég er nokkuð viss um að við næðum að virkja heilann miklu betur ef við létum hann aðeins púla, til dæmis með því að læra ljóð utanað. Maður þarf ekki að vera í fjórða bekk til þess. Ég held að ég ætli að byrja á því að læra símanúmerið hjá systur minni.

Skrýtibreytir

Hver hefur ekki velt því fyrir sér hversu margar Jennifer Aniston séu í einum ísbirni (9)? Eða hversu mörg A4 blöð jafngildi þyngd annars eista sléttbaks (111.345)? Hvernig hefur þú getað lifað án þess að vita að það þyrfti 45 hænur á vogarskál á móti einum Tom Cruise? Og 9.763.833 augu á móti einni Airbus þotu? Weirdconverter.com er málið.

sunnudagur, október 28, 2007

Fóstbræður

Ég þekki engan sem á Vúxal Víva

fimmtudagur, október 25, 2007

CHI-CHI-CHI - LE-LE-LE

Þar sem enginn fattaði snilldarlegu paródíuna mína hérna fyrir neðan verður þessi færsla rituð eins berum orðum og hægt er.

Ég er komin með flug til Santiago.

25. febrúar næstkomandi flýg ég frá Keflavík til Orlando í Flórída. Þar verð ég hjá krókódílahjónunum, án efa í góðu yfirlæti, allt til þess sjaldgæfa dags 29. febrúar. Þá legg ég af stað í eftirmiðdaginn og flýg frá Orlando til Panamaborgar í Panamá þar sem ég teygi úr löppunum í klukkutíma áður en ég fer í sjö tíma flug til Santiago í Chile. Þangað verð ég komin um fimmleytið í bítið 1. mars.

Þetta er ekkert svo voðalegt. Vonandi kemst ég í heilu lagi fram og svo aftur til Íslands tæpu ári seinna og farangurinn líka. Ég held að það sem móðir mín óttist mest sé að ég gerist smokkasmyglandi burðardýr sem verður síðan kviðrist og innyflin seld hæstbjóðanda. Ég lofa engu.

En vissuð þið að Chile er ekki bara lengsta land í heimi heldur er þar líka að finna heimsins stærstu sundlaug? Ég held ég láti mér samt nægja endalausa strandlengjuna.

Ég lýsi því yfir að Svanhvít er hér með formlega orðin spennt.

þriðjudagur, október 23, 2007

Afturkreistingar

Ég steiki kleinur eins og allt gott og heiðvirt fólk. Mínar kleinur eru óaðfinnanlegar, gullnar eftir rétt hitastig feitinnar, ekki of stórar og ekki of litlar. Svoleiðis ættu allar kleinur að vera. En til er fólk sem gerir öðruvísi „kleinur“. Það setur til dæmis kúmen í þær og sleppir kardimommudropunum, eða hefur þær minni en mínar kleinur. Sumir súkkulaðihúða þær meira að segja! Það særir mig djúpt að á heimilum landsins skuli slíkt viðgangast. Mér finnst að persónu minni vegið að þetta fólk skuli kalla sitt bras kleinur. Veit þetta fólk ekki að hér er aldalöng hefð fyrir kleinusteikingum sem ekki er hægt að kasta á sorphaugana? Vissulega mætti skipa nefnd sem ákveður hvort ekki megi kalla þessar eftirlíkingar einhverju öðru nafni (ég sting upp á „afturkreistingum“) en það er óhugsandi að kalla þetta kleinur eins og þetta sé sami hluturinn.

Allir sannir Íslendingar hljóta að vera mér sammála í þessu.

föstudagur, október 19, 2007

Ekki bara legremburottur með rykfallinn sníp

Hvað hefur maður oft heyrt að femínískar konur séu bara frústreraðar þurrk***ur og femínískir karlar kúgaðir aumingjar? Hér er rannsókn sem leiðir annað í ljós:

http://www.livescience.com/health/071017-feminism-romance.html

fimmtudagur, október 18, 2007

Misjafnt er mannanna gaman
Þegar ég fór um Heathrow-flugvöll um daginn varð ég mjög hrifin af
auglýsingaherferð frá HSBC banka sem samanstóð af flennistórum veggspjöldum með mismunandi myndum af ólíkum áhugamálum og lífsstíl fólks til að minna mann á að við erum ekki öll eins og það sem einum þykir frábært finnst öðrum ömurlegt.


Mér datt þessi herferð í hug þegar ég fann í gær á netinu útvarpsstöðina Recorder-Radio (Der Radiosender, der Ihnen die Musik der Blockflöte und ihrer Verwandten präsentiert) þar sem er spiluð blokkflaututónlist tuttugu og fjóra tíma sólarhringsins. Himnaríki fyrir mig... en það er eins og mig gruni að svo sé ekki um alla. Tilvalið mótvægi væri til dæmis rás þar sem fótboltaleikjum er lýst allan sólarhringinn.

ps. Blogger leyfir mér ekki að hafa allt í sama letri. Eins og mér sé ekki sama...

LEGO
Hver er maðurinn?

sunnudagur, október 14, 2007

Skuggamyndir
uppfært: Kjánasvanhvít ætlaði auðvitað að vísa á þessa síðu en ekki bara eina mynd. Mér finnst þetta sniðugt.
fimmtudagur, október 11, 2007

Do you see what happens, Larry?

Sérðu bara hvað gerist, Þura! Þú sinntir ekki kalli borgarstjórans og nú er allt farið til fjandans! Honum steypt af stóli og andstæðingarnir teknir við völdum. Þér er ekki treystandi lengur sem bjargvættur borgarinnar.

(ekki að ég kvarti sosum)

miðvikudagur, október 10, 2007

Sögustund

Um daginn setti ég á þessa síðu sögu sem ég þýddi sem heitir Lucas vinur minn. Hún er eftir argentínska höfundinn Fernando Sorrentino. Nú var ég að uppgötva að hann er búinn að setja tengil á söguna á sinni síðu þar sem hann safnar þýðingum á verkum sínum (þetta eru aðallega smásögur). Reyndar með rangan þýðanda titlaðan, en ég hafði samband við kallinn og þakkaði honum fyrir og hann ætlar að kippa þessu í liðinn. Ég spurði hvort ég mætti ekki þýða fleiri sögur eftir hann og hann benti mér m.a. á þessa. Hún er svo stutt að ég læt hana fljóta með hér. Sagan sem ég er að þýða eftir hann núna hlýtur líklega titilinn Það er maður sem leggur það í vana sinn að berja mig í höfuðið með regnhlíf.

Bara ímyndun

Vinir mínir segja að ég sé ímyndunarveikur. Ég held að það sé rétt hjá þeim. Því til stuðning er saga af litlu atviki ég lenti í síðastliðinn fimmtudag.
Þann morguninn var ég að lesa hryllingssögu og þótt það væri hábjartur dagur tók ímyndunarveikin völdin. Ég ímyndaði mér að í eldhúsinu væri blóðþyrstur morðingi og að þessi blóðþyrsti morðingi héldi á stærðarinnar rýtingi og biði eftir að ég kæmi inn í eldhúsið þar sem hann myndi kasta sér á mig og stinga mig í bakið með rýtingnum. Ég sat fyrir framan eldhúsdyrnar svo að enginn hefði getað hafa komist inn í eldhúsið án þess að ég hefði séð það, og engin leið var þangað inn nema um þessar dyr, en þrátt fyrir það var ég fullviss um að morðinginn biði átekta á bak við luktar dyrnar.
Svo að þarna var ég og þorði ekki inn í eldhús út af ímyndun minni. Þetta olli mér áhyggjum þar sem leið að hádegisverði og óhjákvæmilegt væri að ég færi inn í eldhús.
Þá hringdi dyrabjallan.
„Komdu inn!“ kallaði ég án þess að standa upp. „Það er ólæst.“
Húsvörðurinn í byggingunni kom inn með tvö eða þrjú bréf.
„Ég er með náladofa,“ sagði ég. „Gætir þú ekki farið inn í eldhús og náð í vatnsglas handa mér?“
„Að sjálfsögðu,“ sagði húsvörðurinn, opnaði eldhúsdyrnar og fór inn. Ég heyrði sársaukavein og hljóð í líkama sem dettur og tekur í fallinu með sér diska eða flöskur. Þá stökk ég upp úr stólnum og hljóp inn í eldhús. Húsvörðurinn lá hálfur á borðinu með stærðarinnar rýting í bakinu, dauður. Nú gat ég andað rólegar og verið viss um að auðvitað var enginn morðingi í eldhúsinu.
Þetta var, eins og rökrétt er, bara ímyndun.

Úr bókinni El mejor de los mundos posibles [Það besta úr hugsanlegum heimum], Buenos Aires, Editorial Plus Ultra, 1976.

þriðjudagur, október 09, 2007

Skilaboð til Þuru frá Gotham City

Borg óttans kallar á þig. Borgarstjórinn hefur sent neyðarkall með ljósmerki og biður þig að koma borg þinni til hjálpar. Þú ert okkar eina von. Meira að segja Bítill og Bítlaekkja mættu og grátbiðja þig að koma.

sunnudagur, október 07, 2007

Leck mich im Arsch

Ég hef alltaf verið áhugamaður um ókeypis nótur af tónlist á internetinu og á þeim áratug sem ég hef notað netið hefur bæst við ógrynni af tónverkum sem er hægt að ná sér í án þess að borga. Ef einhvern vantar að ná sér í nótur af t.d. Sousa-mörsum, Vínarvölsum eða ítalskar óperur eins og þær leggja sig mæli ég með verkefninu IMSLP (International Music Score Library Project) þar sem er hægt að finna fullt af innskönnuðum nótum eftir tónskáld sem hafa verið dauð í yfir fimmtíu ár (samkvæmt kanadískum höfundarréttarlögum).

Þarna gat ég til dæmis fundið nótur fyrir blokkflautuna (sem er ekki gleymd þótt ég spili ekki mikið) og prentað út flautudúetta Telemanns og spilað án nokkurs samviskubits þar sem hann er búinn að vera dauður í 240 ár. Þarna er verið að setja inn öll verk Bachs og þetta á bara eftir að stækka svo líklega verður hægt að ná í nánast hvað sem er eftir einhver ár.

Þetta er mjög góður kostur, sérstaklega ef mann vantar bara eitt lag eða verk sem er annaðhvort bara til í einni rándýrri bók í Tónastöðinni eða ekki neins staðar á landinu svo maður þarf að panta af netinu sem tekur oftast vikurnar sem maður hefur einmitt ekki þegar mann vantar nótur.

Reyndar eru til fleiri svona síður, t.d. þær sem má sjá neðst á þessari. Svo er á þessari síðu hægt að finna verk Mozarts, meðal annars sex radda kanóninn hans "Leck mick im Arsch" ("Sleiktu á mér rassinn") og hinn þriggja radda "Leck mich im Arsch fein recht schön sauber" ("Sleiktu á mér rassinn vel og vandlega") sem reyndar er í seinni tíð ekki talinn hafa verið saminn af Mozart. Hér má svo heyra titil lagsins fluttan af heldri frú.

föstudagur, október 05, 2007

"Well, it was a big bird"

Jæja, ég skrapp til Lundúnaborgar í nokkra daga til að fara með rúmföt og hlýjar peisur til Þuru og heimsækja hana í leiðinni. Hægt er að sjá nokkrar myndir úr ferðinni á blogginu hennar og ég þakka henni kærlega fyrir höfðinglegar móttökur í höllu sinni (10 - nei, afsakaðu, 12 fermetra herberginu með baðinu þar sem maður getur farið í sturtu á meðan maður situr á klósettinu (nei ég gerði það ekki)). Eins og góð vinkona varð ég að gæðaprófa og samþykkja híbýlin og þau fá Svanhvít´s seal of approval.
London var góð eins og alltaf og mjög gaman að hitta Hring og Möttu, gaman að fara á Camden, British Museum og Spamalot, en ekki jafngaman á Ministry of Sound (sorrí). Líka gaman að sitja bara og borða og drekka bjór. Líbanskur matur er mjög góður (og vel útilátinn, hmm...).

Ég kom heim á þriðjudaginn og átti að fara í loftið frá Heathrow klukkan 13. Eitthvað seinkaði fluginu og loks var okkur tilkynnt að það yrði bara alls ekki flogið. Við fengum hins vegar forláta 'meal vouchers' upp á 17 pund til að seðja sárasta hungrið fram að kvöldflugi, sem var sett kl 21. Ég sá fram á ömurlega sjö klukkutíma á fokdýrum flugvelli með ekkert að gera nema éta og drekka bjór, en það rættist úr deginum þegar ég fór að spjalla við tvo aðra einstæðingstrandaglópa sem voru líka ósköp glaðir að þurfa ekki að húka þarna einir. Deginum eyddum við svo saman á flugvallarbörum í hrókasamræðum, mjög ánægjulegum, og ég þakka Róbert og Rúnu kærlega fyrir. Í svona aðstæðum þýðir ekkert að pirra sig heldur verður bara að smæla framan í heiminn. Við bölvuðum því reyndar aðeins að þurfa að ná í ferðatöskurnar á bandinu eins og við værum að koma til landsins og fara í vegabréfaeftirlit og svo tékka okkur inn aftur og fara í gegnum öryggishliðið aftur (do I really have to take my shoes off?) en við brustum þó ekki í grát eða snöppuðum eins og sumir viðstaddra.

Það er lítið annað að gera á flugvelli en að versla svo ég gerði svolítið af því. Keypti mér mp3-spilara sem ég hef ætlað að gera lengi, tösku utan um myndavélina og ýmsan annan lífsnauðsynlegan óþarfa. Ég fékk þó nóg þegar ég fór í skóbúð og sá álitlega skó sem ég vildi fá að máta í stærra númeri. Þeir voru númer 37.

Ég spurði afgreiðslukonuna: Do you have these a little bigger?
Afgreiðslukona: Which number do you usually take?
Ég 37-38.
Afgreiðslukona (hranalega): Your feet don´t look like a 37.
Ég: Well...
Afgreiðslukona: Try these, they are 39,5.
Ég (máta skóna): They are way too big. Can I just get the nr. 37 or 38?
Afgreiðslukona: Well, you just don´t look like a 37-38.
Ég (hissa): Can you get them for me, please?
Afgreiðslukona: Well... OK then. (fer og nær í skóna)

Eftir að hafa mátað skóna fannst mér þeir allt í einu ekkert flottir lengur og þakkaði pent fyrir mig og fór. Við hvora hafa þessar bífur verið fastar í 25 ár, mig eða þessa kellu?

En hvað um það. Ég komst í það minnsta að því með hjálp sessunautanna hvað hefði komið fyrir flugvélina og ástæðan var víst 'collision with a bird'. Hversu magnað er það? Einn fugl í hreyfli stöðvar för stórs hóps af fólki og kostar Flugleiði örugglega milljónir. Það þurfti líka að fá extra langa flugvél í kvöldflugið til að geta troðið þangað okkur öllum og öllum í kvöldfluginu, og (líklega) þess vegna seinkaði því flugi um tvo klukkutíma. Ég átti semsagt að lenda klukkan 15 um daginn en var svo ekki komin heim til mín fyrr en klukkan 3 um nóttina. Ojæja. Ég lærði allavega spilið Pass the Pigs á leiðinni heim sem ég og sessunautarnir spiluðum af miklum móð og gerðum örugglega langþreytta nágranna okkar gráhærða.

föstudagur, september 21, 2007

Annað langafakvæði

Þetta kveður afi gamli til ömmu þegar vel liggur á honum.


Smekkur piparsveinsins

Sjái ég marga svanna fríða,
sálin alveg tekst á loft.
Ætti ég kannski enn að bíða?
Ég er að fyllast piparkvíða,
þetta skeður ekki oft.

En hvernig hún aðeins á að vera
ykkur skal ég greina frá;
Það er ætíð um að gera
að hún hafi til að bera
allt sem vekur ástarþrá.

Með permanett og póstólufætur,
pokabrjóst og mjaðmalaus.
Henni ég verð að gefa gætur
og greina sundur eðlisrætur,
því ekki er ég neinn asnahaus.

Varirnar eiga að vera nettar
vættar ögn í súpulit,
hrukka á enni og hendur þéttar,
herðarnar að ofan sléttar
í henni sé ekkert vit.

Og rauða kinn af rótarbréfi,
rangeygða með brúnastrik,
Kálfa mjóa og kartöflunefi,
kunni ekki að svara bréfi.
Hér er eflaust hægt um vik.

En þegar hún er í öllum skrúða
eins og rúllupylsa að sjá;
heitan kroppinn hún skal dúða,
huppaklemmu og lendapúða
og eitthvað svolítið aftan á.

Þá skal hún kunna graut að gera
grjónin þá að brenni við,
ösku og sorpið út að bera
úr því mun ég sjálfur skera
hvenær þarf að leggja lið.

Að prjóna sokka og peysu víða
poka bæta og gera skó
það vanda minna verður að bíða
vænum manni á að hlýða
gráðugt mun ég sækja sjó.

Þær sem hafa þessa kosti
þurfa ekki að kvíða neitt.
Æ, mig kvelur ástarþorsti,
einhver þarna til mín brosti
innan rifja er mér heitt.

miðvikudagur, september 19, 2007

Salsa


Það kom að því að Svanhvít spítukall færi á salsanámskeið. Enda ekki seinna vænna þegar styttist í Chileför. Mitt salsa er frekar 'chunky' eins og er. Vonum að það endi sem 'hot'.

mánudagur, september 17, 2007

Enda þótt Einstein

"menntun er hvaða leifar eftir á einn hefur forgotten allt hann lærður í skóli" Enda þótt Einstein*

Sá sem setti upp þessa síðu hefur aldeilis tekið þessi orð alvarlega. Hverjum er ekki sama um málfræði ef hann á þýðingaforrit? Þarna eru ýmislegt fyrir þýðendur eins og forritið 'Þýðandi Tappi Atvinnumaður & Gull ' (Translator Plugin Pro & Gold) sem býður upp á marga kosti eins og sést:

"This harkalegur auka okkar geta til bera fram þýða blaðsíða í- illgirni af margfeldi- vél bilun"

Ég held við ættum öll að gleyma því sem við lærðum í skóla eins og Enda þótt Einstein sagði, því það eru hvort sem er til forrit til að gera allt sem þarf að gera.

P.s. Takið eftir nýstárlegum mánaðaheitum til hægri.

*Hér hefur áhugaverð hljóðbreyting átt sér stað áður en orðið var þýtt. Nafnið 'Albert' hefur orðið að orðinu 'albeit' og því að sjálfsögðu þýtt sem 'enda þótt'.

fimmtudagur, september 13, 2007


Ég veit að maður á ekki að ýta undir hugmyndir um stereótýpur

en þegar fólk gengst svona fullkomlega upp í þeim...þriðjudagur, september 11, 2007

Svo skal ég lofa að hætta að tala um þetta

Hér er brot úr bók sem heitir The Alchemy of Desire og er eftir indverska rithöfundinn Tarun J. Tejpal. Þar er aðeins önnur sýn á píkutalið hér fyrir neðan og ólíkt fallegri. Þarna er sagt frá manni sem er sjálfskipaður sérfræðingur í fagurfræði kynfæra kvenna, eða svo skilst mér, þótt ég hafi ekki lesið bókina. Ég þakka Stellu kærlega fyrir þetta textabrot.


„He most loved that last inch where the flesh was the softest and the thigh flared the final time before melding into the mysterious ridge where the hair grew. Sometimes he closed his eyes and felt that final spot with just the tips of his fingers and was transported. But what he cared for the most was the looking, the careful examination and analysis; and like an outstanding scholar he inspected his material patiently and with love, and with a photographic memory filed it away for future reference.
Many women were shamed by his frank gaze; others moved to exhibit themselves lasciviously. The study of women taught him that the great lord was an artist without limits: with creative flicks of his finger – a twist here, a curl there – he endlessly made the same thing different.
There were secret places that were set close to the skin, opening up like a wet cut in a tight tangerine; there were those with softly puffy ridges, lovely as a peach, the unseen image in every schoolboy´s imagination; there were those that were hooded like the cobra, flaring at the head, guarding all ingress; there were those that opened on the wings of eagles, ready to soar; there were those that hung low like the wattles of a turkey, demanding a suckling mouth; there were those that were set so far at the back that they were best approached from the rear; and there were those that were set so boldly upfront that they could be entered without the bending of a knee; there were those that were lush and tangled as Amazonian forests; and those that ran smooth as the desert sands of the Sahara; there were those with roots that stood out like flagstaffs, the muscle of their stems thick between the fingers; and those whose root continued to elude even after days of probing; there were those that yawned open in listless anticipation; and those that stayed tightly shut, waiting to be importuned; there were those whose depths could not be fully plumbed with the longest finger; and those that bottomed out at he insertion of the smallest; there were those that wept copiously all day with desire; and those that barely moistened even when laved with love; there were those that were a bazaar of alleys,
maddening in their subtleties, capable of endless charm...“

sunnudagur, september 09, 2007

Klósett

Mér er hjartanlega sama um allar Jesúauglýsingar, en takið út úr sjónvarpinu mínu allar auglýsingarnar þar sem konur eru að káfast ofan í klósettskálum. Það er ekki það allra besta í þynnkunni.

fimmtudagur, september 06, 2007

Píkustofnunin

Ég býst við að allir hafi einhvern tímann fengið typpastækkunartöfratilboð í tölvupósti. Ég veit að sjálfsögðu ekki hversu margir sem ég þekki hafa í raun tekið slíku tilboði og fjárfest í ég-veit-ekki-hverju sem á að stækka, lengja og þykkja eineygða skrímslið, en er nokkuð viss um að þeir eru ekki margir.

Ég veit heldur ekki um neina konu sem hefur farið í skapabarmaaðgerð, þar sem skapabarmar eru 'lagfærðir' og leggöng þrengd (eða svo er sagt) en hef þó heyrt um að slíkt færist í aukana. Rakst svo í dag á góða grein þar sem fjallað er um 'rannsóknarstofnunina' The Vagina Institute sem hefur það að markmiði að sannfæra konur um að þær séu óeðlilegar og ókvenlegar hafi þær ekki píku eins og tíu ára stelpa. Á þessari síðu eru tenglar yfir á síður þar sem er hægt að fá lausn 'vandamála sinna', eins og Vagina Enhancement og Labia Enhancement.

Það sem slær mig mest er hvað það er látið hljóma sem sjálfsagt að allar konur eigi að hafa áhyggjur af því að þær séu ekki nógu fínar að neðan og það sé sjálfsagður sannleikur að enginn karlmaður líti við konu með stóra háruga píku (!) Bent er á að fæstar konur hafa séð aðra píku en sína eigin (ef þá hana), sem er alveg rétt, en síðan er sú staðreynd nýtt til að láta konur halda að það sem þær héldu vera eðlilegt sé óeðlilegt og óaðlaðandi og þurfi að gera eitthvað í. Hér stendur það meira að segja berum orðum:

"Some women thought they had pretty vaginas, when in fact they had ugly vaginas."

Á sömu síðu er líka hægt að sjá myndir af 'eðlilegri' píku og 'ljótri'.

Eins og stendur í greininni um Píkustofnunina er því haldið fram að það sé vísindalega sannað að 'það sé meiri lykt af stórum píkum', sem er enn ein ástæðan fyrir að konur ættu að láta til skarar skríða og kaupa allar píkuminnkunarvörurnar og skrá sig á síðuna (kostar einhverja dollara) til að geta séð myndir af fullt af píkum, ljótum og fallegum. Því ef konur eiga að vita hvort þær séu með ljóta píku þurfa þær að komast að því hvað sé ljótt og hvað fallegt, ekki satt? Finnst einhverjum öðrum eins og það sé verið að búa eitthvað til sem ekki er þörf fyrir?

Nokkrar fleiri 'selvfölgeligheder' af þessum síðum:

"All women want to be pretty, tight and small down there!"


"No woman wants to be an oddity, and having a big vagina means that y
ou are no longer are normal, holding you back from fully experiencing life."

"...as we all know, size can be uncomfortable for any woman when it comes to her vagina, the usual tendency is big boobs, small tight pussy. So being “big down there” always turns out to be an embarrassment for all women. When you have a tight vagina, you no longer have to suffer from embarrassing size and you feel comfortable with your body."

"Let´s admit it, all women, regardless of age or ethnicity, want to have pretty genitals."


Þar höfum við það. Á meðan karlar eiga að stækka og stækka á sér typpið, eiga konur að verða þrengri og þrengri. Hamingjan hjálpi þeim karli og þeirri konu sem hafa farið í slíkar aðgerðir og lenda saman í rúminu!


Eitt af hávísindalegum gröfum Píkustofnunarinnar.

þriðjudagur, september 04, 2007

Mest ógnvekjandi barnabók í heimi

Ef þú þorir.

Það er Pete frændi og fáskiptinn faðir í lífi allra homma, eða var það ekki annars?

uppfært: Bókin heitir Alfie's home og er eftir Richard A. Cohen, þekktan bandarískan afhommara. Skyldi engan undra.

mánudagur, september 03, 2007

Halelúja!

Ég vissi það

tónskáldið var að springa úr hlátri allan tímann sem við fluttum verkið.

laugardagur, september 01, 2007

Í Bandaríkjunum er víst lenska að í hverjum háskóla sé minnst ein akapellagrúppa, oftast skipuð strákum. Þessar grúppur taka bæði hefðbundin barbershop-lög og svo ólíklegustu vinsæl lög og útsetja fyrir raddir eingöngu.

Ég er ofsalega svag fyrir svoleiðis tónlist, og finnst svona sönglúðar sexí.

Hérna er síða eins svona bandsins, Carleton Singing Knights.

Þessir piltar taka lög alls kyns listamanna og "gera að sínum", t.d. lög eftir Sufijan Stevens, Cure, Flaming Lips, Pink Floyd, Zero 7 og Daft Punk. Hlustið á Harder, Better, Faster, Stronger á mæspeisinu. Það er magnað.
-----
Ég er annars að syngja í ansi skemmtilegum kór sem heitir Hvönn, eða Angelica á útlensku, og hann er með tónleika á morgun (þá fyrstu og einu), á UNM (Ung Nordisk Musik)( í Neskirkju kl. 20).

Þar erum við að syngja verk eftir skandinavísk tónskáld (sem verða því miður öll á tónleikunum) og fáum svolítið að experímenta með hljóðin sem mannsröddin getur gefið frá sér. Í einu verkinu syngjum við á bullmáli og byrjum á að anda inn og út í átta röddum eftir ákveðnu taktmynstri og segjum svo sssssssss í ca hálfa mínútu. Svo tökum við til við að tala á innsoginu, gera urg eins og maður býr til í hálsinum og skrítin höggraddbandalokhljóð (ehh... eða eitthvað). Undir þessu öllu stynur fólk á snældu, og við bætast fugla- og geimhljóð. Þar á eftir kemur kafli þar sem maður ranghvolfir augunum við að telja út hvenær maður á að koma inn með næsta tón. Smart. Óþarft er að taka fram að þetta er frumflutningur, og tónskáldið viðurkenndi að hafa aldrei samið svona verk áður. Stundum held ég að þessi tónskáld séu bara að hafa mann að fífli, til að reyna að komast að því hvað þau komast langt í ósvífninni. Kannski er þetta bara eitt djók. Heilum kór eru gefnar voða fínar nótur með alls kyns búkhljóðum sem hann stendur sveittur við að æfa, og svo situr tónskáldið heima hjá sér og hlær. Svo dásamar fullur salur af tónleikagestum hversu frumlegt og flott þetta hafi verið.

Æ, þetta er samt alveg gaman...

Koma ekki allir á tónleika á morgun?

þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Takk fyrir síðast

Íslendingar eru almennt ekki talnir kurteis þjóð, en í einu tökum við flestum öðrum fram. Við erum nefnilega mjög dugleg að þakka öðrum fyrir liðnar stundir. Frasinn 'Takk fyrir síðast' eða 'Takk fyrir [föstudaginn, gærkvöldið o.fl.]' virðist þó vera það eina sem hægt er að segja í þessu samhengi, og um notkun hans gilda strangar óskrifaðar reglur.

"Reglurnar" um 'Takk fyrir síðast' eða TFS, eins og frasinn verður kallaður hér til hægðarauka, eru eftirfarandi:

 • 'Takk fyrir síðast' er sagt fyrst þegar fólk talast við eftir ánægjulegan eða merkilegan atburð sem báðir aðilar voru viðstaddir. Þeir þurfa helst að hafa talað saman við þennan atburð.
 • Atburðurinn getur verið margs konar, frá spilakvöldi til brúðkaups til suddalegs helgardjamms. Atburðurinn þarf þó að vera viðurkenndur sem skemmtiatburður (t.d. má ekki segja TFS eftir kennslustund eða vinnudag, þótt hann hafi verið mjög ánægjulegur). Ekki tíðkast að segja takk fyrir síðast eftir jarðarför, þó leyfilegt sé að segja það í jarðarför um undangenginn atburð.
 • Eftir djamm tíðkast að segja TFS fram að næstu helgi, en það fer eftir tengslum viðkomandi og gæðum og umfangi djammkvöldsins sjálfs hvort leyfi er til að segja það í lengri tíma en viku. Ef viðmælendurnir hittast sjaldan lengist tíminn sem segja má TFS í hlutfalli við hve oft þeir hittast og hve vel þeir þekkjast.
 • Ef sérstök tengsl mynduðust milli viðmælenda við atburðinn (allt frá trúnó upp í eitthvað meira) er skylda að segja TFS.
 • Skemmsti tími sem líða má þar til TFS er sagt er ein nótt; ekki er hægt að segja TFS samdægurs.
 • Staðlað svar við TFS er 'Já, takk sömuleiðis' en til eru ýmis náskyld afbrigði.
 • Hægt er að segja TFS á ýmsa vegu og felast mismunandi skilaboð í orðunum eftir raddblæ og hljómfalli. Langalgengast er að draga í-ið í síðast með stígandi hljómi, enda lýsir það ánægju og velþóknun.
 • Sé þetta hljómfall ýkt má gera ráð fyrir að eitthvað meira liggi að baki, t.d. forvitni um afdrif viðmælanda, og fylgir þá oft í kjölfarið setning eins og 'Ég sá þig ekkert eftir að þú fórst í göngutúr með [nafn þriðja aðila]' eða 'Búin(n) að jafna þig eftir helgina?
 • Hægt er að segja 'Takk fyrir síðast' mjög vandræðalega; á það til dæmis við þegar viðmælandinn sá mann gera sig að fífli á fylleríi eða ef viðmælandinn er einnar nætur gaman helgarinnar. Skal hinn svara á sama hátt til að forðast frekari vandræði. Eftir vandræðalegt TFS skal helst vera búið að undirbúa næsta skref samræðunnar.
 • Ekki er sagt TFS við sambýlisfólk, eða þann sem kann að vakna við hliðina á manni.
 • Segja má TFS augliti til auglitis, í síma, MSN og jafnvel SMS. Nýmæli er að MySpace og viðlíka tengslanetsíður séu notaðar til að segja TFS. Þá gilda að vissu leyti önnur lögmál, þar sem þá er TFS oft notað til að brydda upp á samtali eftir að hafa gúglað og 'addað' þeim sem maður hitti við ánægjulegan atburð (djamm), eða til að sýna öðrum gestum síðunnar að viðkomandi hafi umgengist mann téðan ánægjulegan atburð.
 • Þegar TFS er sagt en viðmælandinn man ekki hvenær hann hitti viðkomandi síðast skal hann segja 'Já, takk sömuleiðis' því að það er hvort eð er eina rétta svarið og venjulega fylgir ekki neitt meira, nema þá spurning eða athugasemd sem tengist atburðinum, sem gefur oftast vísbendingu um hver hann var, t.d. er 'Ég ætlaði aldrei að ná kísilnum úr hárinu' góð vísbending um að síðasti sameiginlegi viðburður hafi verið ferð í Bláa lónið.
 • Þessar reglur má brjóta eins og allar reglur og segir almenn skynsemi til um hvenær það skuli gert.

sunnudagur, ágúst 26, 2007

miðvikudagur, ágúst 22, 2007

Viðbjóðslegt tilfinningaklám

að klína framan í mann auglýsingum um að maður eigi að eiga í ástarsambandi við bankann sinn. Bjakk. Hef bara því miður ekki áhuga. Vil ekki kærasta sem hugsar ekki um annað en peninga, og vill ekki einu sinni deila þeim með mér.

mánudagur, ágúst 20, 2007

Menningarnótt

Á menningarnótt er ekki þverfótandi fyrir öllum tónlistarmönnunum sem eru hlaupandi milli gallería, skartgripaverslana og kaffihúsa með hljóðfærin sín og magnarana.
Hver borgar öllu þessu fólki?

fimmtudagur, ágúst 16, 2007

Kvennaskólinn is only pay lip service to womankind

Á eina svokallaða netsamfélaginu sem ég get ímyndað mér að tilheyra að einhverju örlitlu leyti var einhver kanadískur skógarhöggsmaður að forvitnast um bloggið mitt og til að glöggva sig á um hvað ég væri að skrifa skellti hann síðasta pósti inn í þýðingaforrit, sem snaraði honum yfir á engilsaxneska tungu. Hann sendi á mig útkomuna sem var þessi:

"Catholicism uni into Chile Begin to appear hast river misunderstanding because school board whom I is snuggle up to go into , here river síðunni and widely. Though name þess vegna Catholicism namesake is he not before Catholic while Kvennaskólinn is only pay lip service to womankind or Fósturskólinn edification pay lip service to foetus. Or snuggle up to everyone séu seductive river Seductive. Or ye understand. I fer anyway into March ;st) winter smack river into Chile and kem ca. into December , thus I fæ snuggle up to experience thirty winter samfleytt , þ.e. be einum vetrinum senior and wise while ella , is there not? Probably var not reckon with ;fn) stórreisum ;st) Lcelander fóru snuggle up to reckon time of life after accordingly what they höfðu litið poly- winter."

Ég gleðst í mínu litla hjarta yfir að tölvur skuli ekki ráða við þýðingar og muni aldrei geta komið í staðinn fyrir þýðendur - og held galvösk áfram í náminu mínu.

Eða hvernig á forritið að vita hvenær 'á' þýðir 'have' og hvenær 'river'? Eða hvenær 'halda' þýðir 'think' en ekki 'snuggle up to' (!)

(Þetta var vægast sagt endurunnið blogg, í bókstaflegri merkingu, enda ekki mikill tími aflögu í nýja pósta, allur aukatími minn fer í að þýða sápuóperuna 'Á vængjum ástarinnar' eða 'Por todo lo alto' sem er sýnd á Stöð tvö árdegis dag hvern.)

fimmtudagur, ágúst 02, 2007

Kaþólski háskólinn í Chile

Örlað hefur á misskilningi út af skólanum sem ég er að fara í, hér á síðunni og víðar. Þótt skólinn heiti þessu kaþólska nafni er hann ekki frekar kaþólskur en Kvennaskólinn er bara fyrir konur eða Fósturskólinn sálugi fyrir fóstur. Eða að allir séu tælandi á Tælandi. Eða þið skiljið.

Ég fer allavega í mars þegar veturinn skellur á í Chile og kem ca. í desember, svo ég fæ að upplifa þrjá vetur samfleytt, þ.e. vera einum vetrinum eldri og viturri en ella, er það ekki? Líklega var ekki reiknað með slíkum stórreisum þegar Íslendingar fóru að reikna aldur eftir því hvað þeir höfðu litið marga vetur.

þriðjudagur, júlí 31, 2007

Pontificia Universidad Católica de Chile

Þetta er nafnið á skólanum sem ég var að fá inngöngu í núna rétt áðan. Hann er í Santiago, höfuðborginni í Chile, og er í 11 sæti yfir bestu háskóla í Rómönsku Ameríku.

Þarna ætla ég að taka kúrsa í þýðingum og bókmenntum og lifa ljúfa lífinu. Hver vill heimsækja mig?

Heimasíðan

þriðjudagur, júlí 17, 2007

Forskelligheder

Þetta finnst mér skemmtilegt. Eiginlega ótrúlegt að maður lifi þetta lengi miðað við allan viðbjóðinn sem maður lætur ofan í sig. Hversu langt er maturinn sem Vesturlandabúarnir borða kominn frá upprunanum?

Þetta fannst mér gaman að finna.
Auðvitað prjóna karlar og þeir eiga að mega gera það. Engum finnst þetta eða þetta neitt skrýtið, hvers vegna þá þetta?

Og þetta finnst mér rómó

sunnudagur, júlí 15, 2007

Ég hef hlegið dátt og lengi að þessu vídjói. Kannski er einhver þarna úti ekki enn búinn að sjá það og getur líka hlegið. Síðan orðin græn, lesblindir kvarti sé þetta óheppileg litasamsetning.

miðvikudagur, júlí 11, 2007

Trarillandræ, hann Bjössi í Bæ

Í tilefni þess að á laugardaginn fer ég á ættarmót Bæjarættarinnar er hér kvæði eftir hann Björn Guðmundsson frá Bæ, langafa minn. Þetta kvæði er mikið sungið í minni ætt, en ég veit ekki hvað lagið við það heitir, en ég get raulað það fyrir þann sem innir mig eftir því.

Fyrsti dansinn

Er fór ég út á dansgólfið í fyrsta sinn,
af feikna hræðslu titraði allur líkaminn,
því það er ekki öllum fært að eiga að stíga dans
og á sig gera sveiflur eftir takti spilarans.
Fæturnir þeir fóru skakkt,
frökenin komst ekki í takt,
ofan á tærnar ólmur sté,
og í hana setti bæði hné,
af liðugheitum lítið hafði að láta í té.

Ég heyrði mér til skelfingar hún hljóðaði,
í hársræturnar alveg stúlkan roðnaði.
Skyldi ég hafa limlest allan lægri part af mey,
til læknis er þó hægt að ná ef kjarkinn bilar ei.
Efri kroppnum illa leið,
undan mínu taki sveið.
Ég hafði klipið handfylli,
í herðablað á stúlkunni,
og kreisti svo í beinum handar brakaði.

Svona hélt ég áfram þó mig svimaði,
og sinnti ekki neinu öðru en stúlkunni.
Ég hafði sterkan huga á að læra þessa list,
svo lipur herra gæti orðið, best sem allra fyrst.
Loksins þó ég linaðist,
litla daman sagði byrst;
heyrirðu ekki hérinn þinn,
það hló að okkur spilarinn.
Við vorum tvö að dinglast innan um
danssalinn.

Eftir þetta ég æfði mig í einrúmi,
og er nú orðinn sæmilegur dansari.
dömunni ég þrýsti að mér létt með lófunum
og laumast til að strjúka um bakið,
svona í hornunum...
­Þetta unun þykir mér,
þjóðarskemmtun dansinn er.
Fæturnir þeir fljúga í takt,
og fara ekki vitund skakkt,
í einu stökki hef ég salinn undir lagt.

Ég bágt á með að lýsa þeirri lífsins þrá,
sem læðist gegnum heitan kroppinn til og frá.
Því það er eins og segulmáttur sveigi höfuðið,
það sígur ofur gætilega út á hægri hlið.
Ef að daman ekki er lág,
alveg mætast vangar þá,
í algleymisins unaði,
og yfirspenntri lífsgleði.
Já hvað er sælla en svona fagurt samræmi.

föstudagur, júlí 06, 2007


Þá er hinn blogglausi júnímánuður liðinn og hinn blogglitli júlímánuður genginn í garð. Ferðasagan lúrir eins og mara á mér svo mér finnst ég ekkert geta bloggað áður en hún hefur verið fest niður á blað.

Svona ferðasögur skrifa ég reyndar frekar fyrir mig en nokkurn annan, en það sakar engan að ég smelli þessu á netið líka, enginn er píndur til að lesa. (Sorrí Orri)

Frakklandsferðin með Kammerkór Suðurlands (KaSu) var frábær í alla staði og ógleymanleg á margan hátt. Við sungum á þrennum tónleikum í Strasbourg, Barr og Parc de Wesserling (þar sem við vígðum tónleikahöll; hljómar grand en reyndist vera gömul smíðaskemma sem hafði verið máluð hvít og dúkur látinn hylja ljótustu staðina. Kórinn galaklæddur hrökk svolítið við en var fljótur að jafna sig og við sungum eins og englar.) Diddú söng með okkur og hélt sjálf einsöngstónleika í Strasbourg sem voru ótrúlegir. Við stóðum okkur vel á öllum tónleikum og raunar var ótrúlegt að kórfólkið gæti sungið eftir alla bjór- og hvítvínsdrykkjuna, sérstaklega hjá körlunum. Rútubílstjórinn hugsaði sér þarna gott til glóðarinnar og var ekki lengi að finna upp á því að fara í stórmarkaðinn og kaupa heilu kassana af bjór sem hann seldi svo upp úr kæliboxi á evru stykkið. Eitthvað hefur hann grætt á því blessaður.

Kári orgelleikari var þó tvímælalaust miðpunktur eftirminnilegasta atviks ferðarinnar þegar hann fékk egg í höfuðið sem brotnaði svo skemmtilega á skallanum á honum. Ég fer ekki lengra út í þá sálma en sagan inniheldur endurtekið Hver á sér fegra á torgi í Barr á virku kvöldi og úrillan nágranna uppi á svölum. Sem betur fer var gosbrunnur nálægt sem hægt var að stinga skallanum oní til að skola mesta eggjasullið af.

Ein vika með þessum magnaða hópi var frábær leið til að kynnast fólki sem ég þekkti ekki áður og kynnast enn betur hinum sem ég þekkti. Og að sitja úti á svölum með hvítvínsglas og syngja Hljómalögin við undirleik Gunnars Þórðarsonar sjálfs er eitthvað sem ég á ekki eftir að gleyma svo glatt.

Eftir þetta tók við vika á Spáni, þar sem ég hitti Engil hinn spænska og við spókuðum okkur í Sevilla í nokkra daga og svo í strandþorpinu Conil þar sem var blessunarlega skýjað flesta dagana svo ég slapp við að brenna. Þetta er lítið og sætt þorp þar sem öll húsin eru hvít.

Þarna í Andalúsíu er eins gott að taka lífinu með ró því að hlutirnir gerast ekki á íslenskum hraða, enda ekki hægt að búast við því í 40 stiga hita. Þetta skilti er einmitt frá Conil:

Á því stendur:

"Allt stress er bannað. Maturinn kemur ekki úr dósum. Slakið á, þið eruð í fríi.
Takk fyrir komuna."

Annars er fátt af Spánarreisunni að segja, hún fór mest í að slaka á eftir Frakkland, sofa siestu, borða tapas og drekka (ótrúlegt en satt) meira hvítvín.

Eftir stutt stopp á tveimur flugvöllum í Frankfurt flaug ég svo til Bratislava og þaðan til Kosice. Þar tók á móti mér Iveta vinkona mín með Becherovka-staupi í pínulitlu íbúðinni sinni þar sem hún býr með pabba sínum, mömmu sinni, systur og hundi.

Slóvakía er frábært land. Þar má vel sjá merki um mikla fátækt en líka talsvert um að verið sé að byggja upp og gera endurbætur á gömlum húsum. Fólki er mjög umhugað um að maður fái jákvæða mynd af landinu og þekki sérkenni þess, enda hefur landið verið undir öðrum lengi og líður fyrir það. Vinkona mín var til dæmis frekar sár þegar hún sá myndina Hostel þar sem útgangspunkturinn er að í Slóvakíu sé ekkert nema hórur og ódýr bjór. Þegar ég var í Ungverjalandi 2004 og aftur nú í Slóvakíu fann ég talsvert fyrir því að Slóvakar hefðu minnimáttarkennd gagnvart þjóð sinni og ein stelpan á námskeiðinu fór meira að segja að gráta þegar sænski strákurinn sagði eitthvað vanhugsað um Slóvakíu, og hún talaði ekki við hann aftur.

Ég varð ekki mjög vör við ríg milli Tékklands og Slóvakíu; þvert á móti, en Slóvakar eru varir um sig gagnvart Ungverjalandi, enda voru Slóvakar undir Ungverjum í margar aldir og hluti af Austurrísk-ungverska keisaradæminu, og þá voru þeir mjög kúgaðir af Ungverjum og kennarar voru ofsóttir og bannað að kenna slóvakísku. Sambandið milli landanna er greinilega ennþá eldfimt, því þegar ég var í Ungverjalandi (þar sem ég kynntist Ivetu) voru Tékkarnir og Slóvakarnir mjög ósáttir og reiðir yfir sögufyrirlestrunum sem við hlustuðum á hjá ungverskum sagnfræðingi, og þeim fannst söguskoðun Ungverja alls ekki í samræmi við raunveruleikann þar sem þeir slepptu því að nefna kúgunina sem þeir þurftu að þola undir Ungverjum. Það sköpuðust nokkuð heitar umræður um þetta og vinkona mín var ennþá að tala um þetta þegar ég hitti hana núna. Ég skildi ekki mikið þá, enda vitum við Íslendingar ekki mikið um Trianon-samkomulagið og hvaða merkingu það hafði... og ég ætla ekki nánar út í það núna. En mér fannst þetta áhugavert; þarna er land sem hefur sín sérkenni sem hefur verið gert svo lítið úr og alltaf talað um að það sé ekki jafnfallegt eða merkilegt og Tékkland eða hin löndin í kring, og þetta er erfitt að skilja fyrir okkur Íslendinga sem höfum Ísland sem stendur hér eitt og sér úti í hafi allt krökkt af einstökum náttúruperlum og sögu. Minnimáttarkennd af þessu tagi gagnvart landi og þjóð finnst ekki hér.

En nóg um pólitík. Ferðin var æðisleg og Iveta sýndi mér ótrúlega staði í Austur-Slóvakíu. Hún býr í Kosice, næststærstu borg landsins, og þar er búið að byggja upp fallegan miðbæ með æðislegum tónlistargosbrunni sem er skemmtilega alltaf hálfri sekúndu á eftir lögunum sem eru spiluð.


Við fórum líka og skoðuðum Tatrafjöllin við pólsku landamærin, þarna eru hæstu fjöllin í Slóvakíu og gríðarstór þjóðgarður. Þar geisaði stormur fyrir þremur árum og lagði skóginn bókstaflega niður á hrikalega stóru svæði og það var alveg ótrúlegt að sjá eyðilegginguna.

Þarna tókum við vægast sagt kommúnistíska lyftu upp í skíðastökkpall sem mér fannst ekki kræsilegur, en útsýnið var ekki slæmt.Svo fórum við í aðra ferð, að Sirava vatni, sem er stærsta vatn í Slóvakíu og mikill ferðamannastaður meðal Slóvaka. Þar þekkir Iveta vel til og meðal annars þekkir hún sundlaugavörðinn í einu hótelinu þarna, sem er gamalt kommúnistaherhótel. Þar fengum við að gista í hótelherbergi sundlaugavarðarins sem svaf sjálfur á sófa í sundlauginni. Það var góður karl, og fyrsta manneskjan sem ég hitti sem segir að ég syndi vel. Og það sundkennari! Ég sem hef alltaf haft óbeit á öllum sundkennurum, hversu ljúfir og góðir sem þeir hafa verið.

Nálægt Sirava er fjallið Sninsky kamen sem við Iveta gengum á og vorum gífurlega stoltar þegar við vorum komnar upp. Fjallið er 1005 metrar og á toppnum var frábært að fara í smá sólbað.

Svo skoðuðum við hella og kastala og drukkum Kofola og meiri Becherovku og höfðum það bara frábært. Við keyrðum mikið um og í gegnum mörg þorp sem voru full af sígaunum, og þeir eru nú kapítuli út af fyrir sig, ég skrifa kannski meira um þá seinna. Hér eru húsin, eða hreysin, sem þeir búa í, og takið eftir gervihnattadisknum á hverju þaki, sama hversu margar þakplötur vantar í það.


Síðustu dagana var ég svo í Prag hjá vinkonu minni sem býr þar og ég kynntist líka í Ungverjalandi 2004. Ég tók rútu frá Kosice til Prag, það var tíu tíma ferð, frá átta um kvöldið til 6 um morguninn, en kostaði sama og ekkert og rútan var sú besta sem ég hef komið í, heitir drykkir í boði, fullt af bíómyndum, góð sæti og loftkæling, og útvarpsstöðvar eins og í Flugleiðavélum, og það fyrsta sem ég heyrði þegar ég setti á mig heyrnartólin var „hún Bella Bella Bella Bella símamær...“ og þá var auðvitað verið að spila Gling gló á einni rásinni.

Í Prag slappaði ég mest af en fór líka í dýragarðinn, sem er einn sá sniðugasti sem ég hef komið í, og skoðaði miðaldaþorp sem er þarna inni í miðri borg og var mjög skemmtilegt. Það var frábært að hitta Jönu vinkonu þar, því hún hafði ætlað að koma til Slóvakíu að hitta okkur en ekki getað vegna vinnu, svo það var óvænt ánægja þegar ég fann flug sem ég gat notað frá Prag til Frankfurt, og þaðan flaug ég heim.

Púff. Sagan búin.

Þessar þrjár vikur voru jafnvel enn betri en ég hafði ímyndað mér og ég kom heim sæl og full af orku, og svo vel sóluð að ég get meira að segja farið að nota fílabeinsmeikið sem ég talaði um einhvers staðar hérna lengst fyrir neðan þegar skammdegið ætlaði alveg að gera út af við mig.

Nú finnst mér ég geta gert allt, svo ef einhver vill fá mig í spennandi verkefni er þetta rétti tíminn. Skrifa bók, ganga á fjöll, sauma þjóðbúning, læra siglingar, mig langar að gera svo margt og ekkert virðist óyfirstíganlegt í augnablikinu. Um að gera að nýta það.

fimmtudagur, maí 31, 2007

Greinarmerkjasetning, sem gildir í íslensku, er eitthvað, sem ég ekki skil

Eftir nokkra klukkutíma mun ég standa fyrir framan hóp af tilvonandi læknanemum og kenna þeim kommureglurnar í íslensku (og allt annað sem ég veit og ekki veit um íslensk fræði). Síðustu þrjá daga er ég búin að vera að býsnast yfir téðum reglum enda eru þær alls ekki samræmi við daglega notkun málhafa. Ég hafði bara aldrei rýnt almennilega í þær fyrr en mér var sagt að ég þyrfti að kenna þær (og þar með skilja þær almennilega).

Hér eru reglurnar


en einnig hér, og þá ítarlegar og með dæmum.


3. 4. og 5. grein eru fínar, allt gott og blessað þar, bara um ávarpsliði og upptalningu og beina ræðu og svona, en í 6. grein versnar málið. Þar er sagt að setningar sem fleyga aðrar setningar séu afmarkaðar með kommu. Sem sagt t.d. svona:

a) Stúlkan, sem þú elskar, heldur fram hjá þér.
b) Kókómjólkin, sem ég drakk í hádeginu, var volg.

Þetta finnst mér óeðlileg kommusplæsing ef þetta stendur svona eitt og sér. Ef búið er að kynna stúlkuna og kókómjólkina til leiks, t.d. í setningunni á undan, væri þetta þó alveg eðlilegt:

c) Ég fann kókómjólk og kexpakka á glámbekk í morgun.
d) Kókómjólkin, sem ég drakk í hádeginu, var volg.

Ef þarna væru ekki kommur væri ljóst að verið væri að tala um aðra kókómjólk en þessa á glámbekknum. Þetta finnst mér alveg skýrt. Þess vegna finnst mér skrítið að svona setningar megi ekki vera kommulausar þegar það á við.

Þá skil ég ekki hvers vegna tilvísunarsetningar á eftir nafnorðum þarf að afmarka með kommum en ekki má afmarka tilvísunarsetningar á eftir sá (sú, það, þær, þeir, þau) og þar:

e) *Stúlkan sem þú elskar heldur fram hjá þér. (stjarnan merkir að setningin sé ekki rétt)
f) Sú sem þú elskar heldur fram hjá þér.

Svo er valfrjálst hvort notaðar eru kommur þegar önnur fornöfn eða atviksorð standa við setningar sem fleyga aðrar. Hér er lagið ,,Hvar sem ég fer" með Á móti sól með réttri kommusetningu (leyfilegri, þó eru kommurnar á undan hvar og hvert valfrjálsar).


Hvar, sem ég fer

Hugsa um þig á daginn og dreymir fram á nótt.
Er dimmir fæ ég hallað mér að þér, þú ert allt, sem ég á.

Hvar, sem ég fer, hvert, sem þú leiðir mig,
þar vil ég vera, þar vil ég vera með þér.

Að hvíla þér við hlið og hvísla að þér orð
er sem heimurinn sé allur hér hjá mér.
Hér er allt, sem ég þarf.

Án þín væri lífið mér lítils virði og ósátt
leið að lokum komin, þú ert allt, sem ég á. (þetta erindi er nokkuð myrkt og þarfnast nánari útskýringa til að hægt sé að nota rétt greinarmerki)

Hvar, sem ég fer, hvert, sem þú leiðir mig,
þar vil ég vera, þar vil ég vera með þér.


Ég held ég haldi nú bara áfram að gera greinarmun á mínum tilvísunarsetningum, sama hvað einhver úldin reglugerð frá 1974 segir. Enda er ekki einu sinni farið eftir greinarmerkjasetningunni í henni sjálfri! Skýringin, sem gefin var, (hahaha) var að lögin hefðu ekki öðlast gildi þegar þau voru samin, sem er vitaskuld satt, en ég skil þó ekki af hverju ekki var hægt að laga það EFTIR að þau höfðu tekið gildi, t.d. þegar breytingar
skv. auglýsingu nr. 184/1974 voru settar inn í...

...æi voðalega nöldra ég.
Ef ég fer með fleipur vil ég vita það, svo leiðréttið mig í kómakerfinu hérna.
Ég er farin í bælið.

mánudagur, maí 28, 2007

Setning dagsins

,,Heyrðu, ég er alveg búin að sjá út af hverju við erum ennþá á lausu. Naglaböndin! Þetta er það fyrsta, sem karlmenn leita eftir. Ef maður færi bara í manikjúr, pældu í, hvað maður myndi hösla!"
Þuríður Helgadóttir 28. maí kl. 16.24


[kommusetning uppfærð 31. maí kl. 00.26. SLI]

miðvikudagur, maí 23, 2007


Og hér er kórinn fagri í allri sinni dýrð.


Við erum með tónleika:

26. maí kl 16.00 í Skálholtskirkju
31. maí kl 20.00 í Ráðhúsi Ölfuss í Þorlákshöfn

Mæli með þeim.

Friður,
kórstúlkan
þriðjudagur, maí 22, 2007

KaSu og sumarið

Jæja, loksins er að koma sumar og þá fer Svanhvít til útlanda. Vilji einhver vita mín ferðaplön í sumar eru þau svohljóðandi:

4.-11. júní - Kórferðalag með Kammerkór Suðurlands til Elsass-héraðs í Frakklandi. Tónleikar í Strassborg og fleiri stöðum, gist á rómantísku hóteli þar sem má vera með hunda en ekki börn. Frábær hópur og frábær tónlist.

11.-17. júní - Sevilla og Cádiz á Spáni. Sólbað og sviti á ströndinni á Spáni. Jafnvel í tjaldi ef ég verð í stuði. Loksins fer Svanhvít til Andalúsíu!

17.- ca. 21. júní - Kosice í Slóvakíu. Heimsókn til Ivetu vinkonu, jafnvel slást fleiri góðir Slavar í hópinn. Já, Svanhvít hefur vingast við óvinina í austrinu, hinum hræðilegu austantjaldslöndum sem þrá ekkert heitar en að skemma árlega kvöldskemmtun fyrir Íslendingum.

22.-24. júní - eitthvað skemmtilegt einhvers staðar í Mið-Evrópu.

24. júní - flýg heim frá Frankfurt. (Reyndar geri ég út frá Frankfurt, flýg þangað og þaðan til allra landanna - 10€ er ekki svo slæmt fyrir miða til Bratislava með sköttum.)

Svo er ég svo heppin að vera á Loftbrúrmiða svo ég má taka 100 kíló með mér... vantar einhvern eitthvað þungt frá Evrópu? Nei djók, nenni ekki að bera það...

Júlí-ágúst - vinna


Nokkrir hlekkir:

David Blaine trikk - því miður krakkar, la magia no existe

Póstkort frá því um 1900 þar sem er spáð fyrir um árið 2000.
Af hverju er þetta ekki allt til? Mig langar í vængi, og það væri ekkert slæmt að hafa svona veðrahvolf yfir borginni ... Hvað þá að fara á húsinu sínu í vinnuna!

Hvernig datt manninum í hug að búa til risamynd af peningaseðli úr eggjum?

Magnaðar myndir af gömlu fólki og ævi þess rakin.

O magnum mysterium eftir Morten Lauridsen
Við erum að syngja þetta verk í kórnum, þetta er frábær flutningur.

Tíhí

miðvikudagur, maí 16, 2007

mánudagur, maí 14, 2007

Orðræðan

Af hverju segir fólk "Hún sökkti sér í þunglyndi", og "hann hafði tilhneigingu til að verða þunglyndur" eins og fólk hafi um það eitthvert val? Sama fólk myndi aldrei segja "Hún náði sér í krabbamein" eða "Hann hafði tilhneigingu til að fá sér mígrenisköst". Maður hneigist til mennta, bóka, íþrótta, ekki sjúkdóma.

Ég hef heyrt ljótar sögur af því að enn í dag líti fólk ekki á þunglyndi sem alvöru sjúkdóm heldur eitthvað sem þurfi bara að harka af sér. Það er eins og að segja einhverjum að harka af sér gigt eða eða astma.

Og hana nú.

Og hér er skemmtileg þraut svona rétt eftir Júró:

http://europe.bizrok.com/


Sigmar ætti að tékka á þessu og athuga aðeins sögukunnáttuna og landafræðina áður en hann fer að blanda Slóveníu við Tsjernóbyl aftur. Blessunarlega skilja mjög fáir íslensku því að það væri skandall ef sumir 'brandararnir' hans væru þýddir yfir á meira notuð mál.

fimmtudagur, maí 10, 2007


Gósentíð

Já, það hefur líklega ekki verið leiðinlegt að vera pistlahöfundur eða atvinnubloggari síðustu vikur what with all the kosningar og Júróvisjón. Líkingarnar og orðaleikirnir eru óþrjótandi, samsæriskenningar og kosningabandalög, háralitir og flokkalitir, kosningar á báðum vígvöllum. Ég skipti mér minnst af Júróvisjón en á eftir að lesa allar fréttir um kosningaúrslitin eins fljótt og þær berast af mestu nákvæmni - já, ég verð í vinnunni.

Kosturinn við það er að þetta er nokkurs konar uppskeruhátíð blaðamanna - ég held þeir viti fátt skemmtilegra - svo líklega á maður eftir að hrífast með og hrópa upp við hverjar nýjar tölur, spá í spilin og spekúlera... verst að maður getur ekki haft bjór við hönd, alveg ótrúlegt hvað hann hefur mikil áhrif á prófarkalesturinn ... til hins verra.


Og svo maður taki smá moggablogg á þetta:"En þó að Íslendingur hafi ekki unnið Evróvisjón, þá getum við huggað okkur við það að það er mjög líklegt að Íslendingur vinni kosningarnar á laugardaginn. Og hver veit nema hann verði líka rauðhærður, þó ívið snögghærðari."

ho ho ho