mánudagur, desember 25, 2006

Kæru lesendur til sjávar að sveita, ein sál óskar þess að þið fáið notið jólanna til hins ítrasta með góðum mat, bókum, fjölskyldu og vinum.

Ég hyggst í það minnsta gera það, sérstaklega þar sem krossgátur og myndagátur eru í öllum blöðum.. og bíð spennt eftir Fréttablaðsgátunni hennar Stellu.

Jólakveðjur,

Svanhvít

miðvikudagur, desember 13, 2006

Við skulum tátla hrosshárið“
Úr þjóðsögum Jóns Árnasonar

Karl var að tæja hrosshár og sonur hans með honum. Þá sagði sonurinn: „Pápi minn, er það satt að Jesús Kristur hafi stigið niður til helvítis?“ „Ég veit ekki, drengur minn,“ segir karl, „svo segja prestarnir; við skulum ekki gefa um það; við skulum vera að tátla hrosshárið okkar.“



Sorrí hvað þetta er mikið copy/paste blogg þessa dagana, en ég á fullt í fangi með að klára öll skólaverkefni áður en ég fer út................ Út spyrjið þið? Já, spyr sá sem ekki skeit.

laugardagur, desember 09, 2006

Ljóðahornið


Þetta ljóð er eftir Heinrich Heine, þýtt af Jónasi Hallgrímssyni. Hvað ætli þeim Heine og Hallgrímssyni þætti um æðibunuganginn í fólki nú til dags? Þetta var þó bara á 19. öld, fyrir tíma bíla og síma og tölva og örbylgjurétta og kjarnorkuvopna. (Ég fattaði samt aldrei þetta með fíflúlpurnar þegar við sungum þetta í MH-kórnum. Getur einhver ráðið í þær fyrir mig?)

ÞEKKASTA STJARNAN MÍN

Fegin í fangi mínu

felur þú augun þín.

Þinn er ég himinn, og þú ert

þekkasta stjarnan mín.

Djúpt undir okkur iðar

ósnotur manna her,

aggast og æðir og blótar

og allt hefur rétt fyrir sér.

Í fíflúlpum þeir flaksast

og finnast, og allt í einu

hlaupast á eins og hrútar,

svo höfuðin verða ekki að neinu.

Sæl erum við í sóla-

sali þeim látum fjær.

Þú hylur í himni þínum

höfuð þitt, stjarnan mín kær!


Hér er ljóðið á þýsku:


Du liegst mir so gerne im Arme,

du liegst mir am Herzen so gern!

Ich bin dein ganzer Himmel,

du bist mein liebster Stern.

Tief unter uns da wimmelt

das närrische Menschengeschlecht;

sie schreien und wüten und schelten,

und haben alle Recht.

Sie klingeln mit ihren Kappen

und zanken ohne Grund;

mit ihren Kolben schlagen

sie sich die Köpfe wund.

Wie glücklich sind wir beide,

daß wir von ihnen so fern.

Du birgst in deinem Himmel

das Haupt, mein liebster Stern!

fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Stund milli stríða

Hér er smásaga eftir argentínskan rithöfund sem heitir Fernando Sorrentino. Hann birtir verk sín alltaf á netinu og hér er hægt að lesa þau á spænsku og lesa um kallinn. Ég þýddi söguna í kúrsi á síðustu önn og kannski hefur einhver gaman af því að hvíla sig á próflestri og lesa um hann Lúkas.

Fernando Sorrentino

Lucas vinur minn

Ég á mér vin, með eindæmum ljúfan og óframfærinn. Nafn hans er varkárlega veikburða og gamaldags - Lucas - og hann er á hlutlausum, óræðum aldri - fjörutíu ára. Hann er fremur lágvaxinn og mjósleginn og hefur þunnt yfirvaraskegg og skallablett. Þar sem hann hefur slæma sjón gengur hann með gleraugu sem eru lítt áberandi og án þykkrar umgjarðar.


Til að verða ekki í vegi fyrir neinum gengur hann ávallt á hlið og í stað þess að biðja fólk um að hleypa sér hjá reynir hann að smeygja sér fram hjá því. Ef glufan er það þröng að hann kemst ómögulega leiðar sinnar bíður hann heldur þolinmóður eftir því að hindrunin - hvort sem hún er lifandi eða dauður hlutur, viti borinn eða skyni skroppinn - færi sig af sjálfsdáðum. Hann hræðist hunda og ketti sem hann mætir á götunum og færir sig gangstétta á milli til að forðast þá.


Hann talar veikum, gagnsæjum rómi, svo vart er hægt að heyra hvað hann segir. Hann grípur aldrei fram í fyrir neinum, en tekst sjálfum ekki að mæla meira en tvö orð án þess að tekið sé fram í fyrir honum. Þetta virðist þó ekki angra hann, þvert á móti finnur hann til sín að hafa getað mælt þessi tvö orð.

Í tvö ár hefur Lucas vinur minn verið giftur, grannri, reiðigjarnri, taugaveiklaðri konu, sem hefur rödd sem sker í gegnum merg og bein, sterk lungu, oddhvasst nef og tungu eins og naðra. Auk þess er hún óhemjandi í skapi og stjórnsöm að eðlisfari. Lucas - mig fýsir að vita hvernig - hefur tekist að eignast erfingja. Móðirin lét skíra hann Juan Manuel og hann er hávaxinn, ljóshærður og með lokk fram á ennið, vel gefinn, tortrygginn, kaldhæðinn og þróttmikill. Það er ekki beinlínis svo að hann hlýði móður sinni í blindni, þau virðast frekar hafa með sér samkomulag um að kúga Lucas og láta hann finna til vanmáttar síns á allan hátt, og að virða orð hans að vettugi þá sjaldan honum tekst að láta óskýrar skoðanir sínar í ljós.



Lucas er elsti og veigaminnsti starfsmaðurinn hjá fyrirtækinu þar sem hann vinnur; vesælli heildsölu með vefnaðarvöru. Hún er í dimmu húsi með svörtum viðargólfum sem stendur við Alsina-götu. Eigandinn (ég þekki hann) heitir don Aqueróntido - það er stolið úr mér hvort það er fornafn eða eftirnafn - og hefur ógurlegt yfirvaraskegg og skalla, þrumandi rödd og er ofbeldisfullur og andstyggilegur. Lucas vinur minn mætir svartklæddur í vinnuna í mjög gömlum jakkafötum sem eru orðin snjáð af mikilli notkun, Hann á aðeins eina skyrtu, með gamaldags plastkraga - þá sem hann flíkaði á brúðkaupsdaginn. Eitt bindi á hann; svo trosnað og fitugt að það líkist helst skóreim. Lucas er ætíð á varðbergi gagnvart augnaráði don Aqueróntido og þorir því ekki að fara úr jakkanum meðan hann vinnur - jafnvel þótt samstarfsfólk hans geri það - og notar gráar ermahlífar til ad verja hann. Laun hans eru óréttlætanlega lág, en þó situr hann við aukalega þrjá, fjóra klukkutíma á degi hverjum þar sem verkefnin sem don Aqueróntido felur honum eru það umfangsmikil að ómögulegt er að ljúka þeim á eðlilegum vinnutíma.


Einmitt núna, þegar don Aqueróntido var enn einu sinni að lækka laun Lucasar, ákvað konan að Juan Manuel skyldi ekki halda áfram námi í skóla á vegum ríkisins. Hún valdi frekar að innrita hann í mjög dýran einkaskóla í Belgrano-hverfi. Þá stóð Lucas frammi fyrir ýktum niðurskurði og varð að hætta að kaupa dagblaðið, og það sem honum þótti enn verra, Valdar greinar úr Úrvali, sem voru hans uppáhaldslesefni. Síðasta greinin sem hann náði að lesa í Úrvalinu fjallaði um hvernig eiginmaðurinn eigi að halda eigin óskum í lágmarki til að gera öðrum fjölskyldumeðlimum kleift að uppfylla sínar.

...


Það er þó eitt sem sker sig úr; atburðarásin sem fer í gang þá sjaldan Lucas tekur strætisvagn. Hún er í meginatriðum svona:

Hann biður um miða og fer að leita að peningum og bandar hendinni að strætisvagnsbílstjóranum til að halda honum í óvissu. Ég myndi jafnvel segja að óþolinmæði bílstjórans veitti honum ákveðna ánægju. Því næst borgar hann með eins smárri mynt og hann finnur og réttir hana fram í misstórum skömmtum og með óreglulegum hléum. Brátt fer þetta að trufla bílstjórann sem auk þess að fylgjast með umferðinni, götuljósunum, farþegunum sem koma og fara og akstri vagnsins, þarf að reikna viðstöðulaust í huganum flókið reikningsdæmi. Ekki nóg með það; til að flækja málið enn frekar lætur Lucas fljóta með eina gamla paragvæska mynt sem hann varðveitir fyrir þessi tilefni, þar sem henni er undantekningalaust skilað aftur til hans. Þannig verða margar villur í útreikningunum og þá, þegar samræður eru hafnar, heldur Lucas fram rétti sínum yfirvegaður en ákveðinn, með mótsagnakenndum rökum, svo ómögulegt verður að átta sig á hvað það er sem hann heldur fram í raun og veru. Bílstjórinn, nú á barmi taugaáfalls, gefst þegjandi upp og kastar peningunum út á götu, ef til vill til að svala löngun sinni til að kasta þeim í Lucas, eða jafnvel að kasta sjálfur upp.

Á veturna ferðast Lucas með gluggann opinn upp á gátt. Helsti þolandinn er hann sjálfur, hann hefur komið sér upp krónískum hósta sem heldur honum vakandi um nætur. Á sumrin lokar hann glugganum rammlega og samþykkir ekki að draga niður tjaldið sem ver gegn sólinni. Sem afleiðing af þessu hefur hann oftar en einu sinni hlotið fyrsta stigs sólbruna.


Þar sem Lucas er með svo viðkvæm lungu eru sígarettur á bannlista hjá honum, og í raun þolir hann ekki reykingar. Þrátt fyrir þetta getur hann ekki staðist freistinguna þegar hann fer í strætó að kveikja í feitum, ódýrum vindlum, vindlum sem framkalla hósta og gera mönnum erfitt um andardrátt. Þegar hann fer út úr vagninum drepur hann í vindlinum, setur hann í vasann og geymir hann fram að næstu ferð. Lucas er maður visinn og hreyfir sig lítið, og er ekkert um íþróttir gefið. En á laugardagskvöldum stillir hann ferðaútvarpið sitt á hæsta styrk og hlustar á box í strætisvagninum. Sunnudaga tileinkar hann hins vegar fótboltanum, og kvelur farþegana með ærandi útsendingum.


Öftustu sætin eru fyrir fimm manns, en Lucas, þrátt fyrir smæð sína, sest þannig í sætin að það er einungis pláss fyrir fjóra, jafnvel aðeins þrjá. Ef það eru aftur á móti fjórir sestir og Lucas stendur lætur hann í ljós með yfirlætislegum tóni og látbragði að hann vilji setjast og treður sér til að fylla upp í allt pláss sem hann á rétt á. Til að takast þetta stingur hann höndunum í vasana svo olnbogar hans gangi sem lengst inn í rifbein sessunauta hans.
Margar eru þær og mismunandi, leiðir Lucasar.


Þegar hann stendur í vagninum hefur hann jakkann alltaf fráhnepptan til að faldurinn rekist alltaf í andlit eða augu þess sem situr.

Ef einhver situr og les er hann auðvelt skotmark fyrir Lucas. Hann fylgist gaumgæfilega með lesandanum og færir sig svo hann skyggi á lesljósið. Við og við færir hann svo höfuðið frá í smástund, eins og óvart, svo lesandinn gleypir í hasti í sig eitt eða tvö orð, og svona heldur hann óþreytandi áfram.

Lucas vinur minn veit hvenær álagstímarnir eru í strætisvögnunum. Þá er hann vanur að borða samloku með salamí og drekka rauðvín með, og í kjölfarið treður hann sér milli farþega, með hálftuggið brauð og kjöttægjur enn á milli tannanna og heldur munninum að nálægum nösum, og biður fólk um að hleypa sér framhjá af ákafa.

Ef hann situr fremst í vagninum gefur hann sæti sitt ekki upp fyrir neinum. En þegar hann situr aftast og kona með barn í fanginu stígur inn, eða veikburða gamalmenni, sprettur hann úr sæti sínu og kallar hátt yfir vagninn að þau geti fengið sæti hans. Þegar hann er staðinn úr sæti sínu ámælir hann svo farþegana sem ekki stóðu upp. Þessi tækni er áhrifamikil; ætíð hrökklast einhver yfir sig skömmustulegur farþeginn út úr vagninum, og í sömu andrá tekur Lucas sæti hans.

...

Lucas vinur minn stígur út úr vagninum í mjög góðu skapi en gengur svo uppburðarlaus heim til sín og víkur fyrir öllum sem á vegi hans verða. Þar sem hann er lyklalaus verður hann að hringja dyrabjöllunni. Ef einhver er heima neita þau honum sjaldnast um inngöngu, en ef konan hans, sonur eða don Aqueróntido finnast ekki, sest Lucas á þröskuldinn og bíður eftir því að þau komi heim.

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Þeir eru svo seigir þessir útlendingar

Háskólanemum var í dag sendur póstur þar sem við vorum beðin um að bjóða erlendum skiptinema í mat á aðfangadagskvöld. Frábært framtak sem var víst reynt í fyrra líka og gekk vel. Heldur óheppileg fyrirsögn þó - eða kannski bara fyndin:

[Hi-nem] Skiptinema í jólamatinn

Og flestir Íslendingar sem eru svo vanafastir að þeir hætta ekki einu sinni á að skipta yfir í kalkún þetta kvöld!


mánudagur, nóvember 27, 2006

laugardagur, nóvember 25, 2006

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Nýja dvalarhorfið í nýjar hæðir

„Hann var að spila vel og vissi alveg hvað hann var að syngja.“ (íþróttagrein fyrir prófarkalestur á FB)

Verður þá bráðum hægt að segja „Morgunstund er að gefa gull í mund“ eða „hún er ekki að kalla allt ömmu sína“?

mánudagur, nóvember 20, 2006

Afturför

Ég hef misst getuna til að opna glæra plastpoka, svona í rúllu. Ég stend núna venjulega eins og kjáni við grænmetisborðið í Bónus og kassann í 10-11 og reyni eitthvað við þessar plastdruslur þangað til ég er búin að rífa nokkurs konar gat á þær, hendi þá vörunum í pokann og hrökklast í burtu. Ég var ekki svona, hvað hefur gerst?

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Ég vil helst ekki gera grín að fræðasviði annarra, en....

"Um ákveðna óbreytu fyrir kroppa með kennitölu p"

Er skrýtið að fyrirlesturinn hafi fallið niður?

laugardagur, nóvember 11, 2006

Sagnorð nauðsynleg? Alls ekki, síður en svo!

Mig langar að benda á þessa ræðu sem flutt var á Kraptakvöldi íslenskunema (jú, ég hangi ennþá með íslenskuliðinu). Sjaldan hefur snilldarlegri ræða verið flutt á íslenskuhátíð, og hafa þær verið margar góðar.

Stór plús í kladdann hjá Antoni fyrir algjörlega sagnorðalausa ræðu.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Finnið fimm villur

„...og sú nýjasta í þessarri skemmtilegur flóru er svo lífstílsverslunin [XXX] sem opnaði nýlega á Laugarveginum.“

mánudagur, nóvember 06, 2006

föstudagur, nóvember 03, 2006

Skapbráði prófarkalesarinn

Ef ég þarf að prófarkalesa EINA HELV..... ANDSK.... DJÖF...... SLÚÐURGREIN Í VIÐBÓT UM PETE DOHERTY slít ég höfuðið af einhverjum. Ekki vera fyrir.
Hreinskilni

Þetta held ég hljóti að vera bloggfærsla vikunnar.

þriðjudagur, október 31, 2006

Refhvörf part II

Eilíft líf - pælið aðeins í því:

ei-líft líf

(Stolið af þessari síðu)

mánudagur, október 30, 2006

jæ.is (júniversití of Æsland dott æ ess)

Maður skyldi halda að í Háskólanum í Reykjavík væri sjálfgefið að netföng starfsmanna enduðu á hr.is (hann á nú einu sinni lénið) - en því er ekki að heilsa, ru.is takk! Ví spík íngliss jess.

Og ég minni ökumenn aftur á hálkuna. Það er nefnilega ekkert gaman að keyra á.

sunnudagur, október 29, 2006

Ökumenn athugið

Hálka er á vegum.

laugardagur, október 28, 2006

Bláhöfuð

Ekki veit ég hvort hér er verið að tala um pars pro toto eða hvort höfuðin 2764 hafi rúllað sér sjálf upp í Valhöll. Þó glittir í hendi á myndinni, svo líklega hafa þau fengið einhverja hjálp.

föstudagur, október 27, 2006

„gott er að borða gulræturnar...“ (eða var það gulrófurnar)

Ég sit í tölvustofunni í Árnagarði. Í henni er bara ein önnur manneskja, síðhærður gothari. Ég var búin að naga mig í gegnum heilan poka af gulrótum þegar ég áttaði mig á því að ég hafði gert það með ótrúlega óþolandi hljóðum, alls kyns furðulegum naghljóðum og smjatti. Ég hlýt að vera búin að gera út af við manninn. Jæja, það er hans val, það er önnur tölvustofa í húsinu.

miðvikudagur, október 25, 2006

Er hægt að rifna úr monti?

Ég veit það ekki, en sé það svo þá er ég í mikilli hættu á að fara beinlínis í tvennt. Allir sem hafa hitt mig nálægt tölvu síðustu daga hafa verið látnir hlusta á þetta hér, lag númer níu og dást að litlu systur. Og ekki er hún í slæmum félagsskap á þessari plötu, síður en svo. Til hamingju María.

þriðjudagur, október 24, 2006

Langreyður

Gaman væri að sjá lista yfir uppflettingar á vef Orðabókar Háskóla Íslands, þar sem hægt er að fletta upp beygingarmyndum orða, því orðið vandmeðfarna 'langreyður' skorar eflaust hátt á þeim lista síðustu vikuna. Þar sem ég vinn við að leiðrétta texta á blaði hef ég séð svona hundrað mismunandi útgáfur af þessu orði - í öllum kynjum.








langreyður er kvenkynsorð


hér er langreyður / langreyðurin
um langreyði / langreyðina
frá langreyði / langreyðinni
til langreyðar / langreyðarinnar

Hér eru langreyðar / langreyðarnar
um langreyðar / langreyðarnar
frá langreyðum /langreyðunum
til langreyða / langreyðanna

fimmtudagur, október 19, 2006

Refhvörf

Er aðeins að skoða stuðlanotkun og stílbrögð og fann á netinu þennan frábæra lista yfir bestu refhvörfin (oxymoron) í enskri tungu. Eru ekki einhver góð svona á íslensku? Það fyrsta sem kemur upp í hugann er að sjálfsögðu 'ógeðslega sæt', 'svalara en helvíti' (eins og einn sveitungi minn komst svo eftirminnilega að orði) 'heví mjór', 'umhverfisvænar virkjunarframkvæmdir'. Komið með fleiri svona.

52. Honest Lawyer
51. Jumbo Shrimp
50. Act naturally
49. Found missing
48. Resident alien
47. Advanced BASIC
46. Genuine imitation
45. Airline Food
44. Good grief
43. Same difference
42. Almost exactly
41. Government organization
40. Sanitary landfill
39. Alone together
38. Legally drunk
37. Silent scream
36. British fashion
35. Living dead
34. Small crowd
33. Business ethics
32. Soft rock
31. Butt Head
30. Military Intelligence
29. Software documentation
28. New York culture
27. New classic
26. Sweet sorrow
25. Childproof
24. "Now, then ..."
23. Synthetic natural gas
22. Christian Scientists
21. Passive aggression
20. Taped live
19. Clearly misunderstood
18. Peace force
17. Extinct Life
16. Temporary tax increase
15. Computer jock
14. Plastic glasses
13. Terribly pleased
12. Computer security
11. Political science
10. Tight slacks
9. Definite maybe
8. Pretty ugly
7. Twelve-ounce pound cake
6. Diet ice cream
5. Rap music
4. Working vacation
3. Exact estimate
2. Religious tolerance
1. Microsoft Works


Það hljóta að vera til einhver skemmtileg svona í íslensku!

sunnudagur, október 15, 2006

Draugar fortíðar

Það var skömmustuleg móðir sem hringdi í dóttur sína eftir síðustu bloggfærslu hér á síðunni. Hún játaði nefnilega fyrir mér að Doppa, hundurinn sem datt í hverinn þegar ég var svona þriggja eða fjögurra ára, hefði eiginlega ekki kannski alveg dáið akkúrat þannig... hún datt sko í hverinn einu sinni, og brenndist (þetta mundi ég), en lifði það alveg af. Það var svo sko eiginlega ekki fyrr en pabbi fór með hana til dýralæknisins að.......

*gisp*

Það er skrýtið þegar eitthvað sem maður hefur tekið sem sjálfsagt reynist svo alrangt, sérstaklega þegar það snertir dauða ástvinar, eins og í tilfelli Doppu. En ég álasa foreldrum mínum alls ekki fyrir þetta og það er bara tilviljun að þetta kemur upp núna en ekki fyrr (nema þau telji mig fyrst núna nógu andlega sterka og stabíla til að móttaka svona fréttir) og í raun slógu þau tvær flugur í einu höggi, fríuðu sig af dauða hundsins og tryggðu ævilanga hræðslu mína við hverasvæðið ógurlega.

Nú er spurningin hverju öðru hefur verið leynt fyrir mér, og ég hvet foreldra mína og aðra mér nákomna til að hringja í mig til að ljóstra upp fleiri fortíðardraugum. Engar áhyggjur, ég held ég sé ekkert svo brothætt lengur. Og hver veit nema ég lumi á einum eða tveimur sem kominn er tími til að draga fram í dagsljósið...

mánudagur, október 09, 2006

Ðeganogoðbatjoh

Ég var þriggja ára þegar Reagan og Gorbatsjoff komu á hinn fræga fund í Höfða, og bróðir minn rétt hálfs árs. Ég bjó á Lindarbrekku, gulu bárujárnshúsi með rauðu þaki sem liggur í hlíðinni upp frá hverasvæðinu í Laugarási. Við áttum hund sem hét Doppa og hún var búin að klóra stórt gat í útidyrahurðina. Hún drukknaði í hvernum, og kenndi mér að minnsta kosti þá lexíu að forðast hverasvæðið að eilífu. Ég er ennþá skíthrædd við það.

Í bakgarðinum var ég með eigið kokkaeldhús þar sem ég bakaði girnilegar súkkulaðikökur skreyttar með fíflum og hrafnaklukkum. Þar voru líka risastórir sveppir þar sem strumpar bjuggu. (Eða þangað til strákur kom og lamdi sveppina með spýtu til að gá - ég held hann hafi drepið þá.)

Þegar Reagan og Gorbatsjoff funduðu í Höfða man ég að ég sat inni í stofu með pabba og horfði á sjónvarpið. Pabbi lét mig segja Reagan og Gorbatsjoff. Ég man að ég hermdi fullkomlega eftir honum en hann fór bara að hlæja, en sagði samt að ég væri dugleg. Ég skildi þetta aldrei alveg, mér fannst þetta ekkert fyndið. Þess má þó geta að ég gat ekki sagt stafinn R, (og get varla enn) svo svona eftir á að hyggja hefur þetta kannski verið svolítið fyndið. (Frá sama tíma er til dásamleg upptaka af mér að syngja lagið „Ðauð ðauð ðauð, eð ðóþin henna mömmu.“)

sunnudagur, október 01, 2006

Hugarmynd

Málið með hugmyndir er að stundum hljóma þær betur á blaði eða í huga manns en þegar þær eru framkvæmdar. Svo virðist hafa verið með borgarmyrkvunina frægu fimmtudaginn síðasta. Þegar ég las um hugmyndina í Draumalandinu hans Andra Snæs fannst mér hún svo sniðug að ég skildi ekki af hverju ekki væri löngu búið að framkvæma hana. Svo þegar myrkrið mikla skall á klukkan tíu á fimmtudaginn varð ég - og flestir sem ég hef talað við - fyrir þónokkrum vonbrigðum. Auðvitað hefðu vonbrigðin verið minni hefði verið stjörnubjart, en það lá þykk skýjamotta yfir borginni allri einmitt þetta kvöld. Í gærkvöldi leit ég upp í himininn um tíuleytið í götunni heima og sá norðurljósin dansa um himinhvolfin og stjörnurnar blika. Þá hefði ég viljað losna við bjarmann frá ljósastaurunum. Það pínlega er þó að á fimmtudagskvöldið, þegar pabbi minn var á leið heim í sveitina úr borginni, búinn að keyra framhjá uppljómuðum bensínstöðvum og bílasölum, stoppaði hann við Skíðaskálann klukkan hálfellefu til að sjá þegar borgin ljómaði upp á ný. „Uppljómunin“ var að hans sögn hálfgerð vonbrigði, en þegar hann leit upp í himininn blasti við honum stjörnubjartur himinn... rétt fyrir utan borgina sem kúrði undir skýjamottunni. Nafni hans Arnarson hefði betur pælt aðeins meira í bæjarstæðinu áður en hann kastaði súlunum.

Annars fékk ég nýtt sjónarhorn á þessa blessuðu myrkvun þegar ég talaði við stelpu í skólanum. Hún ætlaði bara að vera inni hjá sér að lesa meðan ljósin voru slökkt og nennti ekkert að taka þátt í þessu, en lenti í mikilli innri baráttu um hvort hún ætti að slökkva hjá sér öll ljós til að þóknast fólkinu fyrir utan eða gefa skít í þetta og halda bara áfram að lesa. Hún kaus það síðarnefnda en svo þegar krakkakarinn fyrir utan öskraði á hana að slökkva ljósin gafst hún upp og sat svo bara í myrkrinu og beið eftir að hálftíminn liði, hundfúl og pirruð... Þetta fannst mér sætt.

sunnudagur, september 24, 2006

Varnaglar

Ég var að skrá mig inn á vef sem heitir Questia.com þar sem er hægt að finna aragrúa af alls kyns fræðigreinum, bókum og whatnot. Á þessari síðu má sjá hvernig maður getur "save 9 hours of research work", af því það er allt svo miklu fljótlegra á netinu með Questia. En auðvitað er alltaf hætta á lögsókn, svo til að tryggja að enginn frústreraður nemandi sem ekki sparaði 9 klukkutíma fari ekki að kæra Questia fyrir að hafa eyðilagt feril sinn sem fræðimaður, þar sem hann mínusaði 9 klukkutíma af áður en hann átti að skila lokaritgerðinni sinni og varð of seinn, má sjá þetta í ööörsmáu letri fyrir neðan:

Questia cannot guarantee that it will save every student 9 hours, or any time for that matter, writing a research paper. This is intended to illustrate how Questia can save students significant amounts of time in many instances by eliminating steps in the traditional paperwriting process.

Allur er varinn góður, sagði kellingin...

fimmtudagur, september 21, 2006

Á blaðsíðu fjögur í Fréttablaðinu þann 21. september má sjá mynd af þremur meintum vændiskonum að mótmæla. Ég er ein af þeim (hinar eru Ragnheiður og Ugla, og þetta voru friðsöm mótmæli UVG). Nú hef ég líka komist að því að í myndasafni Fréttablaðsins er þessi mynd merkt "Vændiskonur mótmæla". Ég er semsagt orðin vændiskona í gagnasafni Baugsmiðla. Það verður gaman þegar í framtíðinni verður skrifuð "Saga vændiskvenna" eða álíka og afsprengi mín geta skammast sín fyrir ættmóður sína.

miðvikudagur, september 13, 2006


Svanhvít mælir með...

...berjamó
...og bláberjum með sykri, skyri og rjóma og rauðar kinnar á eftir
...engu sjónvarpi
...að mæta lesin/n í tíma (það er kúl)
...að fatta að ef maður vill að eitthvað sé gert verður maður að gera það sjálfur


Svanhvít mælir hins vegar ekki með...

...háværu fólki
...fólki sem heldur að það sé rétthærra en annað fólk (a.m.k. ef engin innistæða er fyrir því)
...Bjólfskviðu - þ.e. myndinni (sorglegt að svona miklu fé sé eytt í eitthvað svona lélegt... og Reynisdrangar og Skógafoss ná ekki að blekkja mig - þetta var bara ekki Danmörk
...Þungum skólatöskum
...leiðinni frá Árnagarði yfir í, tja, eiginlega allar aðrar háskólabyggingar, út af framkvæmdum
...Þjóðkirkjunni

föstudagur, september 08, 2006

Meistararnir


Í dag er ég glaður – í dag vil ég syngja,
dansa til morguns við hverja sem er.
Við flakkara allt eins og kóng vil ég klingja,
ég kæri mig ekkert um nafnið á þér.
Þú ert vinur minn víst eins og veröldin snýst
–á víxla ég skrifa nú eins og þér líst.

Í gær var sett hér færsla með yfirskriftinni Meistarinn, en sú yfirskrift á mun betur við í dag, því áðan varð ég vitni að sögulegum viðburði, þegar fótboltalið íslenskunema rústaði FC Gás og vann VISA-bikar HÍ í fótbolta.

DJÖFULL VORU ÞEIR GÓÐIR!!

Svo lengi sem Mímir heldur áfram að gera garðinn frægan á þennan hátt dettur mér ekki í hug að segjast EKKI vera í íslensku, þó tæknilega séð sé ég í bókmenntafræði- og málvísindaskor.

Áfram Mímir!

fimmtudagur, september 07, 2006

Meistarinn

Meistaranám í þýðingum hafið, „æðra nám við helstu menntastofnun landsins", ...og mér líður eins og tíu ára. Mig vantar þetta akademíska sjálfstraust, að ég geti þetta alveg eins og allir hinir, sem hljóma svo gáfulegir í tímunum. En ég veit svosem að flestir eru eins og ég, svolítið skelkaðir og segja þess vegna ekkert, og þessir sem tala og tala eru ekki heldur alveg öruggir á sínu og blaðra því um það sem þeir vita.

Þetta hefði ég þurft að vera búin að fatta fyrr.

En á heildina litið er ég mjög spennt fyrir vetrinum og öll námskeiðin lofa mjög góðu, svo ég ætla að rústa þessu skólaári.

Með meistarakveðju,
Svanhvít.

miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Nú skil ég ekki mikið í peningamálum, en það er ekki frá því að kvikni ljós hjá mér þegar ég hugsa til þess að þó að leigan hjá mér hafi hækkað um 7.000 krónur frá því ég byrjaði að leigja fyrir ári síðan (samkvæmt vísitöluhækkunum), hafa húsaleigubæturnar ekkert hækkað, og eru enn 12.500 á íbúð (nóta bene, ekki á mann). Hvað á það að fyrirstilla? Þessar 6.250 krónur koma sér vissulega vel, en eru ekki nema dropi í hafið þegar kemur að því að borga leigu, að maður tali ekki um hita og rafmagn og síma og internet. Þá er ekki mikið eftir af rausnarlegu hámarksláni LÍN.

föstudagur, ágúst 18, 2006

Jæja, maður verður víst að standa við stóru orðin... og skrifa eitthvað.

Gallinn við að búa við Ægissíðuna er allt hlaupa- og hjólapakkið blasir við í næstum hvert skipti sem maður lítur út um stofugluggann. Það bregst ekki að þegar ég sit í mestu makindum fyrir framan sjónvarpið, kannski með bjór eða skál með ís við hönd, að um það bil tíu skokkarar og fimm hjólreiðamenn þeytast hjá, og óhjákvæmilega kippist ég við og lít upp, það eru einhver ósjálfráð viðbrögð. Þetta hefur pirrað mig óstjórnlega í vetur, svo upp á síðkastið (og þetta er sögulegt) er ég farin að læðast út á Ægissíðuna í gömlum joggingbuxum og snjáðum strigaskóm og reyna að sanna fyrir mér að ég geti þetta líka, og einhverjir aðrir sitji í sínum kjallaraíbúðum með sína nammiskál og horfi á mig þeysa framhjá, sem Adonis; hreystin uppmáluð. Eða kannski ekki þeysa, meira svona hlunkast framhjá, úffandi og púffandi. Og upp á síðkastið hefur þeim bara farið fjölgandi, skokkurunum, út af þessu blessaða maraþoni sem er að gera allt vitlaust út af milljóna-auglýsingaherferð Glitnis. Svo þegar ég fór út að “hlaupa” í morgun var margoft tekið framúr mér af fólki sem virkilega KANN að hlaupa, og er í hlaupabuxum og með derhúfu og iPod og magabelti og kílómetramæli og hjartsláttarmæli og allt sem maður þarf til að vera hlaupari. Það fólk ætlar líka að hlaupa maraþon. Ég held ég myndi ráða við krakkamaraþonið, sem er 1,5 km, en varla mikið meira... nema með góðum labbköflum inn á milli...


Ég er sama og ekkert búin að skrifa í allt sumar, ég er venjulega komin með ógeð á textum hvers kyns þegar ég er búin að lesa fréttagreinar í 7 klukkutíma, svo ég hef ekki haft mikla lyst á að skrifa neitt sjálf. En nú verður vonandi gerð bragarbót á. Reyndar ekki næstu vikuna, því þá verð ég með familíunni í Barselónu, borg Gaudís. Það verður ekki leiðinlegt, ónei. Ble ble...

mánudagur, ágúst 14, 2006

PSSSSST...

...Þögnin hefur verið rofin.

föstudagur, júlí 07, 2006

Ég hef takmarkaðan áhuga á þessu bloggi eins og er (eins og sést) og ætla að láta það liggja í dvala að mestu í sumar... ég gat þó ekki látið hjá líða að koma þessu frá mér, þetta fékk ég sent á póstinn minn í dag. Já, ég held ég kaupi stinningarlyf sem heldur honum stífum í 36 klukkutíma! Beint inn á liarignorance.info... en hvað er málið með það sem kemur á eftir auglýsingunni? Mávar og fálkar?


_________________

Even if you have no erectin problems SOFT CIAzLIS
would help you to make BETTER SE X MORE OFTEN!
and to bring unimagnable plesure to her.

Just disolve half a pil under your tongue
and get ready for action in 15 minutes.

The tests showed that the majority of men
after taking this medic ation were able to have
PERFECT ER ECTI ON during 36 hours!

VISIT US, AND GET OUR SPECIAL 70% DISC OUNT OFER!

http://mgdjfo.liarignorance.info/?35287730

==========
that limits us we have to put aside. That's why all this high-speed
help it, it was funny.
seagulls don't make blazing steep pewer-dives. In just six seconds he was
light, and saw it so well that I had to go back to the locker room, sit
Short wings. A falcon's short wings!
in the neighborhood was hit, that's why we call it the Plague Quarter. Some

"Come along then." said Jonathan. "Climb with me away from the
"Authoritatively."

þriðjudagur, júní 27, 2006

Vanræksla

Ef þetta blogg væri barn væri Barnaverndarnefnd löngu búin að taka það af mér. En því er ekki að heilsa, sem betur fer, og ég get haldið vanrækslunni áfram eins lengi og mér sýnist. Ég nenni ekki að laga þetta leturrugl, en get þó bent þeim sem vilja lesa á að FARA I VIEW -> ENCODING -> UNICODE (UTF-8) TIL AD LESA.


Og svo sjáum við til hvort ég nenni að gera eitthvað meira.


Annað er það helst að frétta að ég er nú orðin listapiparsveinn í íslensku (eins og Ella orðaði það) (Baccalaurius artium í íslensku) og hef "öðlast lögfarsleg réttindi til að víta fólk fyrir málfarslegar ambögur". Ég hyggst þó ekki ganga hart að fólki í þeim efnum, og hætti reyndar algerlega að leiðrétta fólk eftir að ég byrjaði í náminu - enda uppsker maður ekkert nema leiðindi með því.

(Nema hér í vinnunni þar sem ég fæ borgað fyrir það!)

Yfr ok út

fimmtudagur, júní 15, 2006

Ansvitans stafarugl a thessum blogger.

Hvernig get eg fengid okkar fogru islensku stafi til ad virka a thessu annars fina formati?? og haloscan?

miðvikudagur, júní 14, 2006

Ég held þið þurfið ekkert að hafa áhyggjur...

mánudagur, maí 29, 2006

Sigurvegarar kosninga

Þar sem ég vinn á stað þar sem gott er fyrir stjórnmálamenn að koma sér í mjúkinn hjá starfsmönnum (því annað gæti beinlínis verið hættulegt), hefur talsvert verið um heimsóknir þeirra hingað í Fréttablaðshús, og þeir hafa komið færandi hendi, jafnvel með forláta piparmyntur í mismunandi umbúðum, og hefur þeim verið hampað mjög hér innanhúss.

Mitt innlegg í umræðuna um kosningarnar (þar sem ég er hvort sem er ekki með kosningarétt í borginni), er úttekt á þessum myntum, sem ég held að segi ýmislegt um atgervi framboðslistanna. Þar sem ég fékk þó aðeins myntur frá VG, Framsókn og Sjálfstæðisflokknum hef ég kosið að útskúfa frjálslyndum og Samfylkingunni í þessari umræðu. Samfylkingin fær samt plús fyrir appelsínusafann sem hann lét framleiða í sínu nafni. Mynturnar verða dæmdar eftir áferð, bragði og umbúðum.

Sjálfstæðismyntan:
Myntan frá Sjálfstæðisflokknum var lítil, áferðarfalleg og með skýrar línur. Hún var lúmsk, því fyrst eftir að hafa sett hana upp í sig var bragðið sætt, en svo kom hún aftan að manni með sterku, römmu bragði. Eftir því sem maður saug meira varð hún rammari og beiskari, og deyfði bragðlaukana í munninum, svo maður fann ekki bragð af öðrum mat lengi á eftir. Verst var þó að drekka með henni vatn, því þá ágerðist bragðið svo það sveið.
Umbúðirnar voru blátt hulstur, ekki ósvipað kreditkortahulstrum sem ríkt fólk notar, úr möttu, hálfgegnsæu plasti. Á hulstrinu stóð stórum stöfum XD svo boðskapurinn færi ekki milli mála. Mjög nýtískulegt allt og flott.

Framsóknarmyntan
Framsóknarmyntan var ívið stærri en sjálfstæðismyntan, og langtum bragðdaufari. Það var eins og meginefni hennar væri sykur eða eitthvert sætuefni og hún bráðnaði án þess að veita nokkurt viðnám og var ekkert í líkingu við sjálfstæðismyntuna sem var mun sterkari. Hins vegar var hægt að þræla í sig mun fleiri framsóknarmyntum í röð, því þær rifu ekkert í og sátu bara þarna í boxinu, það var eins og þær væru þarna bara til að vera þarna, og vitneskjan um þær varð til þess að maður át eina af annarri, þar til allt í einu var boxið tómt og maður kominn með illt í magann og sá eftir því að hafa ekki löngu hætt að tína þær í sig.
Boxið já, því umbúðir þessarar myntu voru ekkert slor, heldur skemmtilega einföld hugmynd sem er gömul og ný í bland. Boxið var lítið, kringlótt og hvítlakkað, með merki exBé á lokinu. Það var að sjálfsögðu úr áli, því í hvað annað á svosem að nota allt þetta ál sem flokkurinn vill framleiða? Þegar maður ýtti létt á lokið losnaði um gripið á því svo boxið opnaðist. Svo þurfti ekki annað en þrýsta létt á barmana svo það festist aftur. Nákvæmar leiðbeiningar í myndaformi voru á hlið boxins, en ég get upplýst það að Marsibil kenndi mér sjálf að opna það, og ég sat þarna og sýndi einum of mikinn áhuga (svona eins og maður gerir þegar manni finnst nærvera einhvers óþægileg eða er að reyna að fela andstöðu sína við málefni hans).

Vinstri grænna-myntan
Myntan frá vinstri grænum var ólík hinum því hún var ekki hörð í gegn, heldur hafði aðeins sykurhúð og síðan mjúka miðju. Hún var ögn stærri og kúlulaga. Maður gat valið hvort maður saug hana eða tuggði, og hún hafði mun þægilegra myntubragð en hinar mynturnar, var hæfilega sterk og sæt í bland.
Umbúðirnar voru ekki mjög nýstárlegar því notast var við gamla ópalpakkaformið, lítill kassi úr pappír, eflaust endurvinnanlegum. Utan á var merki vinstri grænna og sumarlegar myndir af grænu grasi og slagorð. Gamaldags hönnun sem eflaust hefur kostað mun minna en hinna listanna.

Af þessum myntum er mynta Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs tvímælalaust sú frambærilegasta, og fær 80% kosningu hjá mér, og 5 menn. Sjálfstæðismyntan kemur þar á eftir, því þótt hún væri aðeins of römm þá býst ég við því að hún þjóni sínu hlutverki, þ.e. að losa mann við andfýlu. Hún fær því 20% kosningu og nær inn einum manni, en framsóknarmyntan rekur lestina, því hún var svo bragðdauf og litlaus í alla staði, þrátt fyrir vel hannaðar umbúðir, að hún náði ekki að heilla mig. Hún vær því 0% kosningu og engan mann.



Og nú er ég búin að skrifa langt mál um ekki neitt, en er það ekki það sem pólitík snýst um?

miðvikudagur, maí 24, 2006

"You have been unsubscribed from the Isl-nem mailing list"

Sorgleg skilaboð sem blöstu við mér þegar ég opnaði póstinn minn í morgun. Ég er ekki lengur íslenskunemi. Ég hef lokið skyldustörfum sem ritari, og ritstýra, ég er búin að skila ritgerðinni og er búin að fá út úr öllum prófum. Ég á bara eftir að útskrifast. Það verður því með tár á hvarmi og bros á vör sem ég tek við skjalinu þann 24. júní, nú er kafla í lífi mínu lokið. Ég vona bara að þeir sem eftir sitja bregðist mér ekki og haldi uppi frábæru félagslífi næsta vetur, á 60. starfsári Mímis.

mánudagur, maí 22, 2006

Forvitnin drap köttinn

Í allan vetur hef ég fengið - með mjög óreglulegu millibili - nokkrar hringingar í gsm-símann minn úr númeri sem ég þekki ekki. Reyndar er númerið svona 20 tölustafir og hefst á númerinu +967. Ég þekkti ekki þetta númer og velti mér ekkert upp úr þessu lengi vel, enda stóðu hringingarnar svo stutt að ég náði aldrei að svara, og ekki fannst mér við hæfi að hringja til baka, ekki vitandi hvað væri á hinum enda línunnar eða yfirleitt í hvaða landi. Nú í síðustu viku fékk ég aftur svona símtal og var þá orðin svo forvitin að vita að minnsta kosti hvaða landi þetta +967 tilheyrir. Ég fann það ekki í símaskránni, svo ég hringdi í upplýsinganúmer símans fyrir útlönd, og þar sagði kona mér hvaðan hafði verið hringt í mig.

...frá Yemen.

Nú auglýsi ég eftir einhverjum sem þekkir einhvern frá Yemen, eða þekkir einhvern sem þekkir einhvern frá Yemen, eða veit um einhvern sem er í Yemen, eða einhvern sem veit yfirhöfuð eitthvað um Yemen!

Ég SKAL ná þessu símtali næst, og ég á örugglega eftir að hringja til baka einhvern tímann, bara til að leysa úr þessari ráðgátu. Helvítis forvitni.

miðvikudagur, maí 17, 2006

Can´t beat the feeling...

Ritgerðin liggur hér fyrir framan mig, stillt og prúð, í 4 eintökum. Eins og fjórburarnir hlæjandi sem fóru um allan netheim fyrir nokkrum vikum. En þeir eru ekki að hlæja að mér, þeir hlæja með mér.

Kveðja frá verðandi íslenskufræðingi (gisp)

sunnudagur, maí 14, 2006

Gisp!

Jibbíkóla!
Húmor



your humor style:
CLEAN | SPONTANEOUS | DARK
Your humor's mostly innocent and off-the-cuff, but somehow there's something slightly menacing about you. Part of your humor is making people a little uncomfortable, even if the things you say aren't themselves confrontational. You probably have a very dry delivery, or are seriously over-the-top.

Your type is the most likely to appreciate a good insult and/or broken bone and/or very very fat person dancing.

PEOPLE LIKE YOU: David Letterman - John Belushi




The 3-Variable Funny Test!
- it rules -

If you're interested, try my best friend's best test: The Genghis Khan Genetic Fitness Masterpiece


the Cutting Edge

(66% dark, 50% spontaneous, 31% vulgar)






free online dating

föstudagur, maí 12, 2006

11.940 orð.

En nú finnst mér hún vera svona hæfilega rétt yfir kjörþyngd, kannski bara svona álíka og ég!

Svo ég held ég láti hér við sitja, hún verður að hafa eitthvað kjöt á beinunum, greyið.

Allir sem hafa stutt mig fá SAMT bjór...

þriðjudagur, maí 02, 2006

Ritgerðin er í fríi frá grenningu og öðrum fegrunaraðgerðum fram yfir próf. Megrun hennar verður þó haldið áfram 10. maí, og bjóráheiti mitt er enn í gildi.

mánudagur, maí 01, 2006

sunnudagur, apríl 30, 2006

Það deyr enginn af því að skrifa ritgerð. Ég veit að minnsta kosti ekki til þess. Það er reyndar hægt að lifa ýmislegt af, og ég held við mættum hafa þennan hana í huga þegar við erum að kveinka okkur. Hann lifði hauslaus í eitt og hálft ár án þess að kvarta. Og hana nú.

12.295
12.284 orð

laugardagur, apríl 29, 2006

miðvikudagur, apríl 26, 2006

Ég hef aldrei verið mikið fyrir tölur, og enn síður háar tölur, en núna ætla ég að halda smá töludagbók, því málið er, að blessað barnið mitt, BA-ritgerðin, hefur stækkað úr hófi fram og nálgast ört tólfþúsund orðin, bara í meginmáli, en má aðeins vera 9-10.000 orð og þá er allt talið... heimildaskrá, efnisyfirlit og allt. Í gærkvöld var hún 10.012 orð, en nú stefnir hún hraðbyri í einhverjar tölur sem ég vissi ekki að væru til, og til að ég hafi einhverja ástæðu til að koma inn á þessa síðu fram að skiladegi, mun ég pósta hingað orðafjölda þegar tækifæri gefst, og þá verður hægt að sjá hver þróunin verður. Þegar ég næ að minnka hana niður í 9.999 gef ég öllum sem skrifa í kommakerfið bjór. Og ég meina það. Og hefst þá talnalesturinn:
------

26. apríl kl 19.14:
11.722 orð
pausa

Héðan verður lítils að vænta næstu vikur, vegna anna.

sunnudagur, apríl 16, 2006

Háttur máls

Fleira er matur en feitt kjöt.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Játningar verðandi íslenskufræðings:

Ég kann ekki að nota semikommu.

sunnudagur, apríl 02, 2006

Svandís

Nú er hafið tímabil í lífi mínu þar sem allir kalla mig Svandísi. Ég efast ekki um að það er út af borgarstjóraefni vinstri grænna sem ég fæ alla tölvupósta, símtöl og bréf frá fólki sem ég þekki ekki mjög mikið stíluð á nafnið Svandísi. Ég hef þá kenningu að fólk ráði ekki við nema eitt Svan-nafn í einu, á tímabili var ég alltaf kölluð Svanhildur út af henni Konráðsdóttur. Það er kannski ekki svo skrítið að fólk eigi erfitt með að muna öll þessi svananöfn, en ég hef aðeins einu sinni verið kölluð Svarthvít. Það var fyndið.

föstudagur, mars 31, 2006

FrasabækurRakst á ótrúlega skemmtilega síðu áðan, Unelikely phrases from real phrasebooks. Hér eru nokkrar setningar sem ég ætla að hafa í farteskinu næst þegar ég fer til Nepal, Sómalíu og fleiri landa:

Velska:
She has excellent breasts.
Mae bronnau ardderchog da hi.

Havaíska:
She also remarked that I ate greedily.
Ua hoopuka pu ae la oia, he pakela ai au.

Nepalska:
Carry me, slowly.
Malai bistaarai bhoknuhos.

Sómalíska:
We must bury her
Waa inaan duugnaa isaga

Tongverska:
The corpse will be taken to Tonga.
`E `ave `a e me`afaka`eiki ki Tonga.

fimmtudagur, mars 30, 2006

Varúð, spillir!

Ég þurfti að finna upplýsingar um myndina Deep Throat fyrir BA-ritgerðina mína (ekki spyrja) og fann þetta á víkipedíunni, skemmtilegur söguþráður, og enn skemmtilegri Spoiler-viðvörunin efst:


Description and plot

Spoiler warning: Plot and/or ending details follow.


A sexually frustrated woman (Linda 'Lovelace' "playing herself") asks her friend Helen (played by Dolly Sharp) for advice; after a sex party did not provide any help, Helen recommends that Linda visit a doctor (played by Harry Reems). The doctor notices that Linda's clitoris is located in her throat; she then goes on to work as a therapist for the doctor and performs a particular technique of oral sex—thereafter known as "deep throat"—on various men, until she finds the one to marry. Meanwhile, the doctor has sex with his blonde nurse (played by Carol Connors). The movie ends with the line "The End. And Deep Throat to you all."
af Wikipediu

mánudagur, mars 27, 2006

Mandag

Det er så gråt og trist,
for det er Mandag.
Jeg er så pissegal,
at jeg ku' skyde en panda.


-Humleridderne

sunnudagur, mars 26, 2006

Tilviljun?

Ég var að borða hvítt súkkulaði og fjalla um dönsku rapphljómsveitina Hvid Sjokolade á sama tíma án þess að fatta það. Hvorugt geri ég oft.

laugardagur, mars 25, 2006

To home it may consurn

Þetta er fyrsta línan í bréfi sem vinkona mín fékk frá þáheitandi Íslandsbanka um daginn þar sem hún er að flytja úr landi og þurfti staðfestingu á að hún hefði verið góður viðskiptavinur og staðið í skilum. Þegar hún benti á villurnar og vildi fá þær leiðréttar komst hún að því að ekki var hægt að breyta hausnum á bréfinu, þetta var staðlað format sem ekki var hægt að breyta nema hjá einhverjum tölvugúrúum útí bæ. Svo hún tók við bréfinu og vonar að tilvonandi viðskiptabanki hennar á Írlandi treysti banka sem ekki getur skrifað eina einfalda línu villulaust, og sem líkast til eru ekki upplýsingar um lengur þar sem hann er búinn að skipta um nafn.

Stundum þegar ég kem inn í herbergið mitt liggur þar gulbröndótt kattarfress og hvæsir á mig. Ég hef rekið hann út jafnóðum með hrópum og skúbbi, en nú er nóg komið, því á öðrum fótleggnum er ég nú með 5 ljót bit sem ég vil kenna við flær, gott ef ég fann ekki eitthvað skoppa á mér þegar ég var að fara að sofa í gær.

Kem ég inn í klefann minn
kött þar finn ég ljótan
fló á skinni, fæti' og kinn
fer ég inn að skjót'ann.... eða allavegana setja net fyrir gluggann.

föstudagur, mars 24, 2006

Skautastripp

Hvernig á maður að geta einbeitt sér að BA-skrifum þegar menn eins og Evgeni Plushenko eru í góðu gríni að sprella á netinu?

þriðjudagur, mars 21, 2006





Haltu mér, slepptu mér, (tragísk ástarsaga)

Þegar dátinn var loksins búinn að ná draumadísinni sinni á sitt band frá vonda breska hermanninum tókst hjá henni svo mikil togstreita að dátinn var oft við það að hafa sig á brott, enda kitlaði það að fara út í hinn stóra heim þar sem meira var um að vera og hitta þar fagrar snótir, því vissulega var sú íslenska afar óspennandi þegar upp var staðið, hún sem hafði virst svo skynsöm og heillandi þegar hann kynntist henni og hún söng „það er draumur að vera með dáta“. Hann var nú orðinn áhugalaus um sambandið og sýndi henni lítinn sem engan áhuga lengur.
_____

Upp á síðkastið var hún alltaf svo uppstökk og sífellt að skipta um skoðun, vissi ekki hvort hún átti að fara upp eða niður, til hægri eða vinstri. En hún hafði ekki þor í sér til að segja honum að nóg væri komið, enda var alltaf eitthvað sem kom upp á, og auðvitað hafði hann verið henni mikil stoð og stytta, borgað fyrir hana ferðir til útlanda og svoleiðis. Hvernig gat hún svosem verið án hans? Var hún ekki löngu orðin meðvirk og ófær um að vera ein? Það var svo gott að hafa einhvern sem hélt yfir manni verndarhendi, jafnvel þótt höndin sú væri vopnuð byssu.
_____

Þegar hann svo tók af skarið og pakkaði niður til að halda í einhverja allt aðra heimsálfu gat hún ekki haldið aftur af tárunum, þau höfðu nú verið gift í 55 ár! Hvernig gat hann yfirgefið hana svona? Og án alls fyrirvara! En hún var stolt og sagði framan í opið geðið á honum að hún ætlaði ekkert að halda honum ef hann vildi endilega fara, hún gæti þetta alveg ein, væri hún ekki sjálfstæð líka? ... og þegar hún hugsaði þetta betur þá sá hún að hana var svosem farið að gruna þetta, já, gott ef hún vissi þetta ekki bara fyrirfram. Nú var bara að taka sig saman í andlitinu og hefja nýtt líf. Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir.

miðvikudagur, mars 15, 2006

Orð í lit

Þegar ég var lítil sá ég liti í orðum og stöfum. Ég gat sagt að F væri blár stafur og L væri brúnn, og H appelsínugulur. Ég gat séð heilu orðin í lit og skrifaði þau upp í litunum sínum. Ég hélt að allir sæu þetta, en þegar ég fór að spyrja fólk í kringum mig komst ég að því að ég virtist vera ein um það. Ég hélt ég væri eitthvað skrítin, en hætti svo að hugsa um það, og var löngu búin að gleyma þessum furðulega hæfileika þegar ég sá þátt fyrir stuttu um þetta. Þá er til eitthvað sem heitir Letter-Color Synaesthesia (já, auðvitað hefur það amerískt fræðiheiti) og lýsir sér í nákvæmlega þessum að fólk sér bókstafi og orð í litum. Hér er grein um þetta. Nú var ég að lesa að til eru fleiri svona abnormalísasjónir, undir heitinu synesthesia, eins og að heyra hljóð fyrir hvern lit eða sjá liti fyrir hljóð eða finna bragð af þríhyrningum, hringjum og kössum.

Það er stórfurðulegt að komast að því að maður býr yfir einhverju sem maður vissi ekki einu sinni að væri hæfileiki. Mjög lélegur og ónytsamlegur hæfileiki, en hann hefur þó allavegana fínt nafn á ensku!

Nú langar mig að spyrja, sjáið þið eitthvað svona? Hvernig er orðið 'bíll' á litinn?
(ég er orðin miklu lélegri í þessu með árunum, ég sé ekki lengur orð í lit, bara stafi.)

...já, ekki er öll vitleysan eins...
*Glúbb*


Ég var að sækja um mastersnám í þýðingum


fokk

sunnudagur, mars 12, 2006

...og aldrei það kemur til baka...

Yesterday,
All those backups seemed a waste of pay.
Now my source files have all gone away.
Oh I believe in yesterday.

Suddenly,
There's not half the files there used to be,
And there's a milestone hanging over me.
The system crashed so suddenly.

I pushed something wrong
What it was I could not say.
Now all my data's gone
and I long for yesterday-ay-ay-ay.

Yesterday,
The need for back-ups seemed so far away.
I knew my data was all here to stay,
Now I believe in yesterday

föstudagur, mars 10, 2006

Vinsamlega snertið ekki skjáinn!

Aldrei langar mig jafn mikið að snerta tölvuskjá og á tölvunum í Þjóðarbókhlöðunni.

miðvikudagur, mars 08, 2006

...og NEI, ég átti ekki backup

þriðjudagur, mars 07, 2006

FOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOKKKKKKKKKKKKKKKKKKKKKKKKKKKKKKKKKK

harði diskurinn á tölvunni minni er ónýtur.

Allt sem ég skrifaði í BA ritgerðinni og allt annað úr tölvunni er horfið.

Hvað á ég að gera?

mánudagur, mars 06, 2006

laugardagur, mars 04, 2006

"Peningamálastefnumótun Íslands"

Það getur ekki verið skemmtilegt.
Bangsapabbi..

Íslenskunemar eru skemmtilegasta fólk í heimi!! Ég fer ekki ofan af því. Takk takk fyrir frábæra árshátíð öll, ég skemmti mér konunglega.

Ég sit núna við prófarkalestur hérna á Fréttablaðinu, umkringd alls kyns drykkjarföngum (óáfengum) til að hressa mig við eftir gærdaginn, af hverju fékk ég ekki frí í dag?

ps. af öllum orðum sem hægt er að klína aftanvið viðskeytinu -ó, fer orðið kæró mest í taugarnar á mér. Ekki af því ég á ekki kærasta.

mánudagur, febrúar 27, 2006

*andvarp*



törnin búin... í bili


Annars er í gangi mikil umræða um passíusálmana, gaman að skoða hana, sérstaklega þegar Megas og hans skoðanir á sálmunum blandast inn í, það skondna er að ég var í þessu viðtali þegar hann mælti þetta allt (reyndar var allt sem ég sagði klippt út..) og trúleysinginn ég verð eiginlega að vera sammála honum.

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Tvennt um íslensku í fjölmiðlum í dag

Þetta er frábær grein og lýsir mjög vel þeim vanda sem við eigum við að etja í íslenskunni. Og hana nú.

Hins vegar má sjá í Birtu eina mestu vitleysu sem ég hef séð. Hún er um hlutfall hinna ýmsu stjörnumerkja í íslenskum fræðum. Bull.
Kykvendi

Þessa dagana er gott að geta brugðið sér í allra kykvenda líki.

mánudagur, febrúar 20, 2006

Nýtt húnsæði

Stundum er fyndið að prófarkalesa

laugardagur, febrúar 18, 2006

Sá sem ekki fer í gott skap af því að sjá þetta hlýtur að hafa steinhjarta.

Kveðja úr próförkinni á Fréttablaðinu,
Svanhvít

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Úff


Fátt annað hægt að segja á svona dögum. Eina ráðið er að horfa á nógu mikið af Matador og borða nógu mikinn ís. (og drekka nógu mikinn bjór myndi Þura segja)

Nú er ég að missa af einstöku tækifæri til að hlusta á dóttur Che Guevara segja frá ævi sinni og starfi á Kúbu og Rómönsku Ameríku. Hún er á Grand Hótel akkúrat núna og ég sit hér í Árnagarði og er svo uppgefin að ég meika varla að standa upp og fara heim. Það er ekkert grín að vera svín skal ég segja ykkur.

Annars er helst í fréttum að miðasala á tónleika ársins, Megas og Píslarbandið í Hallgrímskirkju 25 .feb. er hafin. Stúdentar og aðrir aumingjar fá miðann á 1500 en hafið samband ef þið viljið vera í miðasölu eða dyraverðir (þarf 4 slíka!), og þá fáið þið að sjálfsögðu frítt. Æ fokkitt, farin heim.


Af hverju gerir maður ekki eins og Maude Varnæs og går i seng alltaf þegar eitthvað bjátar á?

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Heiðingi!! Heiðingi!!


Helst í fréttum af mér er að í gær skráði ég mig úr þjóðkirkjunni, og gæti ekki verið sáttari manneskja! Það er svo mikið frelsi að vera ekki háður neinu trúfélagi, og mér finnst ég geta nálgast þetta bákn alltsaman aðeins utanfrá, og líður eiginlega miklu betur að skipuleggja þessa passíusálmatónleika núna, þó einhverjum finnist það kannski hræsni.

Ég hef verið mjög tengd kirkjunni, og þá aðallega Skálholtskirkju, í gegnum tónlistina, og ég er langt í frá hætt að syngja sálma í kirkjum þó ég sé ekki lengur í þjóðkirkjunni. Það er gríðarlega sterk hefð á Íslandi fyrir trúarlegri tónlist, og það er að sjálfsögðu að miklu leyti kirkjunni að þakka að hljóðfæri voru fyrst flutt inn til landsins á 17. öld, og það er mikið til af dásamlegri trúarlegri tónlist, íslenskri og erlendri, sem unun er að hlusta á og flytja. Þessa tónlist hef ég alltaf getað flutt án þess að þurfa að lifa mig inn í textana og TRÚA því sem þar stendur, því hvar væri maður staddur ef maður ætti að trúa hverjum einasta texta sem maður syngur. Nú finnst mér ég geta sungið þessa texta án tvískinnungsins að EIGA að skilja þá og skynja sem eitthvað sérstakt sem snertir mig persónulega, en gera það ekki. Nú get ég sungið og lesið Passíusálma Hallgríms Péturssonar með arfleifð Íslendinga í huga, einlægar og fallegar lýsingar hans á trú sinni, frumlegt og snjallt myndmál og góð ráð til fólks á öllum tímum, sem ekki einskorðast við kristin gildi.

Ég hafði oft hugsað um að skrá mig úr þjóðkirkjunni, og vera utan trúfélaga, en í síðustu viku sauð uppúr og ég ákvað að láta verða af því. Og viti menn, þegar ég svo á mánudagsmorguninn kom út úr setningafræðitíma og labbaði mér niður á kaffistofu mættu mér, innan um öll kosningaáróðursborðin, tveir menn með plakat sem á stóð: Skráðu þig úr þjóðkirkjunni hér og nú! Ég gat að sjálfsögðu ekki tekið þessu öðruvísi en sem tákni, ekki aðeins vísbendingu, heldur skipun um að láta slag standa. Svo ég krotaði nafnið mitt á blað og afhenti mönnunum, og er nú utan trúfélaga, og sóknargjöldin mín fara í Háskólann, þar sem þeim verður vonandi vel varið.

miðvikudagur, febrúar 01, 2006

Sverige

Ég heyrði hjá honum karli föður mínum svolítið skemmtilega skýringu á hinu furðulega landaheiti Svíþjóð.

Svo var því háttað að mikið var um næpurækt í því landi, þá brenndu menn sinu á stóru svæði og sáðu í það næpum, en sá jarðvegur var einmitt mjög hentugur fyrir næpurækt. Í löndunum í kring þótti þetta hallærislegt, þar þurfti ekki að svíða landið til að rækta, og kölluðu Noregur og Finnlandi landið furðulega Svið-þjóð... og þaðan ku* nafnið vera komið!

Ekki veit ég hvort þetta er alþýðuskýring sem enginn tekur mark á, en skemmtileg er hún, hvað sem hver segir.


*sá sem getur frætt mig um sögu sagnarinnar 'ku' má gjarnan gera það.

föstudagur, janúar 27, 2006

Kirkjan er oss kristnum móðir

Kirkjupólitík innan þjóðkirkjunnar er ein sú maðkétnasta og spilltasta sem ég veit.

Meira um það seinna.

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Ó, synd, ó, syndin arga,
hvað illt kemur af þér.



Góð grein á Kistunni

Annars er ég á harðahlaupum þessa dagana, Mímir er kominn út í öllu sínu veldi og fæst til sölu hjá vefmeyinni, tónleikaplögg allt á fullu, Megas í Hallgrímsmkirkju 25. febrúar, og svo var ég að byrja í nýrri vinnu, við að lesa Fréttablaðið. Prófarkalesa, þ.e. Svo er allt að fara á fullt í BA-ritgerðarskrifum, og 4 öðrum kúrsum.

Þetta var smá öppdeit á lífi mínu þessa dagana, ég þakka þeim sem hlýddu.

fimmtudagur, janúar 12, 2006

hún er iðin við kolann, það er hún..

Þann 9. janúar 1983 fæddist ég. Þá var brjálað veður og mikil verðbólga.

Þann 9. janúar 2006 fæddist þrjúhundruðþúsundasti Íslendingurinn. Halldór Ásgrímsson kom þegar barnið var dagsgamalt og stumraði yfir móður og barni og myndaðist við að brosa framan í myndavélar. Ofboðslega er ég fegin að hafa fæðst fyrir 23 árum en ekki í ár.


Tvífarar dagsins: Ingi Einar og Björn Ingi




Ingi gæti alveg farið í svört jakkaföt og mætt brosandi í viðtöl og farið að tala eins og framsóknarmaður og hann næði að blöffa mig held ég.. efast samt um að Björn Ingi næði að blöffa mig sem DJ á Kofanum eða gítarleikari í ókind...

föstudagur, janúar 06, 2006

Nú veit ég af hverju konur hafa alltaf gengið í pilsum...


Af því að það er svo ógeðslega erfitt að finna á sig buxur.



Af hverju er ekki til nein buxnalína sem gefur út bækling þar sem eru myndir af alls konar konum, mismunandi í laginu, og upplýsingar um hvaða buxur henti hverri konu. EKKI HVERNIG konan þarf að vera til að passa í buxurnar! Látið mig vita ef það er til á Íslandi.

Þetta var pirringur dagsins.

miðvikudagur, janúar 04, 2006

Þú ert skráð(ur) í eftirfarandi námskeið:

05.29.14 Þýðingar (spænska) 2,5 Ólokið Maí 2006 1 Úrskrá
05.40.06 Íslensk setningafræði og merkingarfræði 2,5 Ólokið Maí 2006 1 Úrskrá
05.40.12 Íslenskt mál að fornu II 2,5 Ólokið Maí 2006 1 Úrskrá
05.40.50 Ritgerð til BA-prófs í íslensku 5 Ólokið Maí 2006 1 Úrskrá
05.99.99 Brautskráning í júní 0 Ólokið Maí 2006 1 Úrskrá

OMG!