föstudagur, júní 27, 2008

Af eldri mönnum og ástföngnum

Þá er haustönnin alveg að verða búin. Ég kláraði tvo kúrsa í dag og á mánudaginn er próf og ritgerðaskil í þeim síðasta. Það er heilmikill léttir. Svo fer ég bráðum til Argentínu (9. júlí) í nokkurra daga ferð. Þar hitti ég rithöfundinn "vin minn", þann argentínska sem ég hef þýtt smásögur eftir. Hann bauðst til að sýna mér Buenos Aires, og ég auðvitað þáði það.

En þetta er ekki eini heldri og eldri maðurinn sem býður mér út (og þetta er góð saga). Í kórnum mínum með öllu gamla fólkinu er hann Ívan, sem er eitthvað á áttræðisaldri, og er alveg voðalega hrifinn af mér. Hann kyssir mig í bak og fyrir á hverri æfingu og segist dreyma mig um nætur. Konan hans var kórstjóri í kórnum en hún lést fyrir ári síðan, en hann er formaður kórsins og aðalmaðurinn í öllu kórastarfi í Chile, eða virðist vera það. Um helgina eftir kóræfingu fórum við nokkur saman út að borða (á stað þar sem Pablo Neruda borðaði alltaf, og þar sem skammtarnir eru svo stórir að ef maður skiptir þeim í tvennt er það samt of mikið) og svo heim til hans. Hann á heima á miðri AÐALdjammgötu bæjarins, Pio Nono í Bellavista-hverfinu, á annarri hæð, svo að það að fara út á svalir, sama hvaða kvöld vikunnar, er eins og að vera á svölunum á Sólon klukkan þrjú á föstudagskvöldi. Þarna býr semsagt Ívan, í risastórri íbúð sem minnir helst á safn, fullt af minjagripum alls staðar að, því þau hjón ferðuðust mikið, hann óperusöngvari og hún kórstjóri. Það var mjög skemmtilegt kvöld, þau tóku fram gítar og sungu sömbur þar til klukkan var að ganga fjögur (þetta var mest allt fólk komið af léttasta skeiði) og Ívan gaf mér litla keramikflautu og fallegan trefil (sem konan hans hafði líklega átt). Hann var á góðri leið með að gefa mér peysu af henni líka en ég náði að stoppa það af í tæka tíð.

Hann spurði hvort ég hefði gaman að óperum, jú, ég hafði það, svo hann sagðist eiga tvo miða á Grímudansleik Verdis (Un ballo in maschera) og að hann vildi bjóða mér. Ég vildi auðvitað fara í óperuna, svo núna á þriðjudaginn hittumst við niðrí bæ, fengum okkur heitt súkkulaði og tertusneið og fórum svo í óperuna í borgarleikhúsinu. Það var bara ofsalega gaman, frábærir söngvarar og flott umgjörð, og eftir á fór hann með mig baksviðs, því hann vann þarna sem óperusöngvari og þekkti alla. Þar sýndi hann mér sviðið og kynnti mig fyrir öllum aðalsöngvurunum og stjórnendunum, þar á meðal gríska sópraninum Sofíu Mitropoulos, sem sagði mér að hún hefði komið til Íslands í september og sungið með "Jóhannsson".

Þetta var auðvitað ekki venjulegasta deit í heimi, hann verandi fimmtíu árum eldri en ég, en minnti þó skuggalega mikið á slíkt. (Texasbúinn hafði sagt þegar ég var að hafa mig til: "Just don´t give him a heart attack.") Þegar ég loksins kom heim, eftir að hafa hafnað svona tuttugu sinnum að fara með honum út að borða, beið mín Rodrigo þungur á brún. Honum leist ekkert á þetta og sagðist myndu lemja hann ef hann færi eitthvað að kássast upp á mig. Hann passar mig vel, það má hann eiga, Rodrigo. En ég lofaði honum að gamlinginn héldi sér alveg innan siðsemismarka, kannski ekki alveg sannleikanum samkvæmt, en nógu þó. Ég veit alveg að þeim gamla finnst bara voðalega gaman að fá að spássera um götur bæjarins með ljóshærða unga stúlku upp á arminn. Það sem ég hlýt þó að spyrja mig er: Af hverju get ég ekki fundið einhvern á mínum aldri??

Hér í húsinu var verið að yngja upp, eins og í öllum góðum sápum, og inn eru komnir tveir nýir leikendur, Húlíó frá Texas og Petra frá Sviss. Húlíó er af mexíkóskum ættum og vinnur hér fram í desember hjá heitasta arkitekti í Chile, Mattíasi Klotz, og Petra er hér í mánuð í málaskóla. Hún er svona feimin stelpa með sterkan þýskan hreim og frekar uppburðarlítil eitthvað. Húlíó hins vegar er mjög sjarmerandi, í laginu eins og bangsi og reitir af sér brandarana, til dæmis um öll mótorhjólaslysin sem hann hefur lent í, sem fylla hátt í tug. Já, honum tekst meira að segja að gera umferðarslys brjálæðislega fyndin, svo við lágum allar í krampa grenjandi af hlátri.

En eins og það vantaði einhverja meiri rómantík og drama í húsið, þá kom Húlíó til mín í gær og játaði fyrir mér hvað hann væri hrifinn af Petru. Þau eru búin að fara út núna saman síðastliðin nokkur kvöld og "really hit it off" að hans sögn. Hann segist bara elska hreiminn hennar, augun, brosið... já allt það. Ég varð pínu hissa, en auðvitað bara mjög glöð fyrir hans hönd. Ekki veit ég hvað þeirri svissnesku finnst, en vona að þau geti bara dúllað sér í smá rómans þennan mánuð sem hún er hérna.

Eitthvað höfðu heyrst raddir hér í húsinu um að ég hefði ekki lagt nógu mikið til málanna í sápuna okkar, en ég held að með afadeitinu mínu hafi ég náð að fylla upp í minn kvóta, að minnsta kosti út þennan mánuðinn. Svo er aldrei að vita upp á hverju maður tekur næst, nú fer ég í mánaðarfrí frá skólanum og svona, vonum bara að það verði ekki annað slys.

mánudagur, júní 23, 2008

Lost in translation

Þar sem ég tala allan daginn á spænsku og ensku (ensku af því að ég bý núna með þremur Könum og svissneskri stelpu sem talar enga spænsku) og enga íslensku nema þessar nokkrar mínútur á viku á Skæp (sem minnir mig á það: skype: svanhvit.lilja), vill það gerast að ég segi einhverja bölvaða vitleysu, eins og um daginn þegar upp úr mér vall líklega besta bakke snagvendt síðan "kokk og póp" og "bíta í lók". Ég var að biðja um popp og sagði óvart:
"Can I have some cop porn?"
Litla siðprúða og trúaða kanastelpan roðnaði öll og blánaði en við hin hlógum eins og vitleysingar þegar ég fattaði hvað ég hafði sagt.
Enskuna hef ég í gegnum árin aðallega notað til að gera mig skiljanlega en ekki sem fagurfræðilegt tæki, og án þess að hugsa neitt voðalega mikið um ensku sem tungumál per se, heldur einbeitt mér að öðrum málum. Það hefur ekki mikið breyst, en það er frústrerandi að vera svo nálægt því að tala eins og innfæddur en samt svo ofboðslega langt frá því. Enn sem komið er er þægilegra að tala ensku en spænsku en planið er að bæta spænskuna svo að hún verði betri en enskan.

(Hins vegar hef ég líka komist að því að ég hef skuggalega mikinn matarorðaforða í ensku og þarf oft að þýða matarorð úr spænsku yfir á ensku fyrir Bandaríkjamennina. Ég meina eiga þeir ekki að vita að blaðlaukur heitir "leek" á þeirra eigin tungumáli?)

Ég sýndi eðalnámsmannataktík í vikunni þegar ég sendi kennaranum mínum póst og spurði hvort hann "vildi ennþá að ég skilaði ritgerðinni sem ég skrifaði aldrei þegar ég lenti í slysinu", vitandi að þar sem hann er næs og þar sem ég orðaði spurninguna svona myndi hann sleppa mér við ritgerðina. Enda fékk ég svar áðan þar sem hann sagði að það væri nóg að ég hefði lesið bókina (sem ég og gerði). "Way to work it, Iceland" eins og Texasbúinn sem er nýfluttur inn sagði. Hann er skemmtilegur. Ég segi frá honum bráðum.

föstudagur, júní 20, 2008

Lost in time

Ég veit að það heitir 'jet lag' þegar maður verður dasaður eftir að hafa flogið í gegnum mörg tímabelti, en hvað heitir það þegar árið fer allt í rugl, með árstíðum og öllu, þegar maður fer úr einu heimskauti yfir í annað

Nú heyri ég af vinum og fjölskyldu á Íslandi í sundi, sumarbústöðum og sólbaði, búin að fylgjast með vorkomunni í gegnum skype og vefmiðla og facebook-statuslínur, en á meðan hef ég öslað haustlauf og þurft að fá mér regnhlíf út af haustskúrunum. Síðasta daginn minn á Íslandi fór ég í göngutúr í snjónum sem tók mér upp að hnjám (enda stutt til hnésins) en daginn eftir var ég að spóka mig í Flórída, þar á eftir lenti ég í síðsumarhitunum í Chile, í mars.

Þótt ég sé búin að vera hérna í bráðum fjóra mánuði ætla ég ekki að venjast því að tala um september sem vor og desember sem sumar, eða júlí sem hávetur. Haustpáskar voru líka spes. Hlakka til sumarjólanna.

Þetta er orðið það slæmt að ég er alveg hætt að tala um árstíðir, nefni bara mánuðinn, því annars segi ég alltaf einhverja bölvaða vitleysu. Þetta hefur eitthvað með melatónín og heilaköngulinn að gera, það hlýtur að vera til nafn yfir þetta... eins og allt. Ég virðist að minnsta kosti ekki ætla að ná þessu, og svo tekur það mig örugglega álíka langan tíma að jafna mig þegar ég kem heim. En þetta er nú lúxusvandamál, ekki satt?

föstudagur, júní 13, 2008

Drama


Jújú, lífið heldur áfram í Chile eins og annars staðar. Ekki misskilja póstinn hér fyrir neðan. Ég hef ekkert á móti grátandi karlmönnum. Þ.e.a.s. svo lengi sem það er í hófi, og það sama á auðvitað við um konur. Og enginn þessara karlmanna hefur grátið yfir mér (að mér vitandi). Þetta eru bara ósköp venjulegir og góðir strákar í ástarsorg. Norska vinkona mín héðan úr íbúðinni fór heim til Norge á mánudaginn og Nico vinur okkar frá Valparaíso, sem varð yfir sig ástfanginn af henni (og skyldi engan undra, hún er gullfalleg og yndisleg) var svo miður sín að eftir að við höfðum kvatt hana á flugvellinum sá ég að ég gæti ekki annað en farið með honum aftur til Valpó til að halda í höndina á honum og hughreysta hann. Ég þurfti líka ekki að fara í neinn tíma svo þetta var alveg tilvalið.

Það var frábært að komast út úr menguninni í Santiagó í sólarhring og gott að vita að ég á alltaf heimboð þangað þegar ég vil, borgin er við sjóinn og bara í klukkustundarfjarlægð frá Santiago. En þetta var tilfinningaþrungin ferð, þar sem þeir hittust vinirnir þrír sem eiga heima þarna og lýstu kærustuvandræðum sínum (allt “gringas”, þ.e. evrópskar/bandarískar stelpur) og ég fékk í fyrsta skipti að heyra alvöru samræður stráka um stelpuvandamál. Það var vægast sagt áhugavert.

Mamma Nicos var voðalega góð við mig, eldaði fisk handa mér og sagði mér undan og ofan af ævi sinni með leikrænum tilburðum og nokkrum tárum, í tveggja klukkustunda einræðu. Mikið drama þar. Daginn eftir skrópaði Nico í vinnunni (það er ekkert svo mikið mál hérna og talsvert stundað) og við fórum í langan göngutúr um höfnina og ég fékk að vita margt sem ég vissi og vissi ekki um Chile og allt sem fjölskyldan hans og þessi þjóð hefur þurft að ganga í gegnum. Það var þá sem ég táraðist eða kannski var það bara hafgolan í augunum. Það var að minnsta kosti erfitt að hlusta á allar hörmungarnar í landinu og vita hvað maður hefur það óendanlega gott á Íslandi. Það að ég skuli geta ferðast og stundað nám í hvaða landi sem er eru svo ótrúleg lífsgæði að ég fer hjá mér. Ég er í langsnobbaðasta háskólanum í landinu og bý í metrópólítanhverfinu þar sem flestir hafa það gott, get leyft mér sirkabát hvað sem ég vil, á meðan vinur minn hefur ekki efni á að klára háskólagráðuna sína því hann vill frekar að systir sín fari í háskólanám, svo hann er í námuvinnu til að geta borgað námið hennar.

Þrátt fyrir dramatíkina var þetta mjög notaleg ferð og ótrúlega gott að hlaða batteríin við sjóinn. Enda er loftmengunin hér í borginni alltaf meiri og meiri og maður tekur helst eftir því þegar maður fer að hósta og súrnar um augu. Já, og svo gleymir maður grínlaust að Andes-fjöllin eru hér allt í kring, því þau sjást hreinlega ekki baun í öllum þreyknum (þreykur=smog).

Ein af þeim síðum sem ég skoða hvað mest er þessi hér, þar sem sjá má loftmengunina á hverjum degi og athuga hvort það sé öruggt að fara út að hlaupa eða hvort maður geti búist við að svíða í augun allan daginn. Það sem er áhugavert er þó að það “smog level” sem er flokkað sem mikil mengun í Evrópu er u.þ.b. 50, en það er ekki fyrr en það er komið fyrir ofan 200 sem það er fyrst talið sem slæmt af yfirvöldum hér. Þá mega börn ekki fara í leikfimi og gamalt fólk á að halda sig innan dyra.

En meira af sápunni. Gringan vinkona mín í næsta herbergi, hún Kellí, er mér stöðug uppspretta afþreyingar því hún lifir vægast sagt spennandi ástarlífi. Núna eru þeir sjö strákarnir á eftir henni, þar af þrír sem eru bestu vinir og nöfnin á þeim byrja öll á M. Hún býr hér í næsta herbergi og ég fæ stöðugt öppdeit af nýjustu afrekunum. Hún er farin að segjast gera þetta bara til að skemmta mér, því ég hef svo gaman af þessu.

Aumingja Rodrígó sem ég leigi hjá hefur ekki átt sjö dagana sæla. Hann sér um aðra íbúð hér í miðbænum með vinkonu sinni og um daginn þegar vantaði leigjanda benti hann á strák sem vantaði stað til að búa á því hann var að hætta með kærustunni, og R. þekkir kærustuna. Strákurinn var á götunni og bar sig aumlega, og R. treysti honum, svo hann flutti þarna inn. Einn daginn nokkrum vikum seinna hverfur bæði hann og fartölva hollenskrar stelpu sem býr þarna. Svo nú er vinkona R. sem á íbúðina brjáluð út í R. fyrir að hafa sent þennan gaur inn á heimilið, og heimtar að hann láti þá hollensku fá fartölvuna sína. R er ekki alveg beint sáttur við það og nú eru þau í lögguleik að leita að gaurnum útum allan bæ, þræða alla staði þar sem hann getur verið og staðan núna er held ég þannig að þau eru komin með símanúmer og ætla að reyna að finna heimilisfang foreldra hans út frá því. Það er talsvert af innbrotum hérna og við læsum alltaf dyrunum hér með tveimur lásum, bæði þegar við förum inn og út, og höfum alltaf á hreinu hverjum við hleypum inn í húsið með dyrasímanum. Enda gerðist það í hinni íbúðinni að stelpa opnaði fyrir einhverjum sem hrinti henni til hliðar og ruddist inn og stal fullt af peningum úr íbúðinni. Svo að við pössum okkur.

Góðar fréttir af fjölskyldunni okkar hérna í íbúðinni eru að pabbi Rodrígós, sá sem var með krabbamein, fór í aðgerð sem heppnaðist og nú er hann kominn heim til sín. Það voru vægast sagt gleðifréttir.

Ég var að koma úr tíma í bókmenntakúrsinum mínum. Það er alltaf mjög gaman og ég er búin að lesa slatta af bókum. Fyrir tímann í dag lásum við bók sem heitir “Í gegnum skráargatið” og er merkilegt nokk eftir einn nemandann í bekknum. Hann er stórskemmtilegur fýr. Hann er 55 ára gyðingur, heitir Jorge (sama nafn og Georg) með mikið skegg, góðlegustu augu sem ég hef séð og sexarma stjörnu um hálsinn. Hann skrifaði þessa bók um þrjár kynslóðir kvenna, gyðinga sem flytja frá Rússlandi til Argentínu og svo Chile, og tekst bara ótrúlega vel upp með að skrifa um konur. Það var ekki fyrr en ég opnaði bókina í fyrradag til að byrja á henni og sá myndina af höfundinum sem ég áttaði mig á að þetta væri hann, og það var mjög gaman að hlusta á hann tala um bókina sína, eitthvað sem íslenskir rithöfundar eiga til að forðast.

Æ, mig langar að skrifa meira en það verður allt eitthvað svo niðurdrepandi þegar ég fer að hugsa um það, t.d. það að hér eru nær allir háskólar í verkfalli (nema auðvitað uppaskólinn minn) og margir grunnskólar (þ.e. nemendurnir), mikil læti, grjótkast, táragas og brynvarðir bílar sem sprauta vatni, meira að segja hérna beint fyrir utan gluggann hjá mér í dag. Ég varð pínu skelkuð, en örugg uppi á fjórðu hæð. Nemendurnir eru að krefjast betri menntunar, fleiri styrkja og lægri skólagjalda, því staðan í skólamálum í Chile er vægast sagt slæm, á pari við heilbrigðismálin. Þetta gera þeir á hverju einasta ári, þ.e. fara í verkfall og hertaka skólabyggingarnar með því að hlaða upp borðum og stólum (hljómar saklausara en það lítur út, ímyndið ykkur alla stóla í heilum háskóla hlaðið upp með fæturna út meðfram öllu grindverkinu og hliðum inn á háskólasvæðið. Það er ekkert lítið ógnandi.) Þessi verkföll geta staðið frá einum mánuði og jafnvel upp í þrjá mánuði á hverju ári. En jæja, þetta var einmitt það sem ég ætlaði ekki að skrifa um núna, enda hægt að skrifa margt og mikið um þessi mál.

Ástarkveðjur, og munið hvað við höfum það gott að vera frá Íslandi, þótt við þurfum að skafa á veturna.

þriðjudagur, júní 10, 2008

Llorones

Þessa þrjá mánuði í Chile hef ég séð fleiri karlmenn gráta en alla mína ævi á Íslandi.

þriðjudagur, júní 03, 2008

Don Lilia

Ég er núna formlega komin með vegabréfsáritun, eftir einungis þrjá mánuði í landinu! Upphaflega átti ég ekki að fá vísa fyrr en í júlí, en eitthvað gekk það "hraðar" en við var búist, svo eftir að hafa beðið í biðsalnum hjá útlendingaeftirlitinu í einn og hálfan tíma í dag fékk ég þennan fína límmiða í vegabréfið mitt þar sem stendur skýrum stöfum:

Don Svanhvít Lilja Ingólfsdóttir

Eins og margir vita líklega þýðir "don" reyndar "herra", en ef upp koma efasemdir um kyn mitt ætti að vera tiltölulega auðvelt að greiða úr því. Mér var þess vegna alveg nákvæmlega sama, þessi límmiði gerði mig óendanlega glaða og bætti alveg upp fyrir alla biðina, sem og prófið sem ég hafði tekið um morguninn og skort á nætursvefni. Nú er ég hins vegar við það að lognast út af, þótt klukkan sé rétt tíu um kvöld. Það er líka svo dimmt hérna á kvöldin, klukkan sex er strax orðið mjög rökkvað.

Ég held að ég sé búin að lesa hverja einustu skjálftafrétt sem birst hefur í íslenskum vefmiðlum og séð hvert einasta myndband. Vinur minn spurði mig af hverju ég væri eiginlega að pína mig - en þetta er engin píning, bara eitthvað sem maður verður að gera.

En á meðan ég var í öngum mínum yfir sveitungum mínum í landnámi Ingólfs voru Chile-búar harmi slegnir vegna annarrar fréttar, sem ekki rataði í íslenskar fréttir svo vítt ég veit. Á fimmtudaginn hrapaði nefnilega þyrla í Panama svo að ellefu farþegar vélarinnar fórust (og nokkrir vegfarendur á jörðu niðri), þar á meðal José Alejandro Bernales, ríkislögreglustjóri Chile og kona hans, og fimm aðrir mikilvægir chileskir lögreglustjórar og eiginkonur. Þau voru á leið á ráðstefnu í Panamaborg og ferðuðust í eldgamalli og hálfónýtri panamskri þyrlu.

Bernales var öllum mikill harmdauði því að hann hafði síðan hann tók við starfinu sem yfirmaður lögreglunnar í Chile komið miklu í verk. Lögreglan í Chile er líklega sú allra minnst spillta í Suður-Ameríku (þó að rannsóknarlögreglan sé spillt, en það er annar handleggur) og Bernales vann að því að færa hana nær fólkinu, svo hlutverk hennar er ekki bara löggæsla heldur einnig samfélagshjálp að miklu leyti. Lögreglan er mjög sýnileg og vinaleg, stoppar úti á götu og talar við fólkið, og það er enginn hræddur við að spyrja hana til vegar eða fá hana til að hjálpa sér með hvað sem er. Það er líka talsvert af konum í flotanum (og eins og vinkona mín sagði eru þær allar stórglæsilegar). Fólk metur lögreglustarfið líka mikils og flestir bera virðingu fyrir lögregluþjónunum.

Bernales var líka maður fólksins. Hann var ekki momio (einn af íhaldssömu ríku hægrimönnunum sem taka venjulega hver við af öðrum og koma flestir úr háskólanum mínum) heldur úr lægri stétt, og vann sig sjálfur upp á toppinn, sem fólk kann að meta.

Forsetinn, Michelle Bachelet, ávarpaði þjóðina stuttu eftir slysið, með tárin í augunum, og lýsti yfir þriggja daga þjóðarsorg. Auðvitað er alltaf talað um að "mikill maður hafi fallið frá" þegar háttsettur foringi deyr, en í þetta skipti finnur maður að svo var í alvöru. Meira að segja í partíinu sem ég fór í á föstudaginn (nei, við virtum reyndar ekki þjóðarsorgina), var skálað fyrir Bernales í viskíi og hans minnst.

Hjá mér nálgast nú tími ritgerðaskrifa og lokaprófa á haustönn, og í júlí ætla ég svo að skella mér yfir til Argentínu, til Buenos Aires, í nokkra daga. Þangað fer ég með þremur vitleysingum, vinum mínum frá Viña. Þeir hafa aldrei farið út úr landinu og einn þeirra aldrei í flugvél og hann heldur varla vatni yfir spenningi. Þetta verður án efa stórmerkileg ferð, sama hvernig fer. Vonandi þó ekki jafndramatísk og sú síðasta.

Nú lofa ég að í næstu færslu skuli ég ekki nefna neinar hörmungar, þetta fer að hætta að vera fyndið.

Don Lilia