mánudagur, janúar 26, 2004

Samkvæmt systur minni er þetta álfanafnið mitt: Fëawen Faelivrin
Og þetta hobbitanafnið mitt: Peony Proudfoot of Standelf.

Flott, ha

Hobbitanafnið hans Steina er þó ennþá flottara: Mungo Chubb ! Og álfanafnið er Finrod Melwasúl

Ég hef ákveðið að starta nýjum dálk á þessari síðu. Hann á að heita sparnaðartippi námsmannsins (tippi dregið af tips, tip=ráð). Endilega komið með tillögur, þær mega alveg vera siðferðilega á mörkunum, eins og að nota 12-18 ára strætómiða fram eftir öllum aldri eða að skipta um verðmiða á flíkum í búðum, en einnig bara hefðbundin sparnaðarráð, þó ekki leiðinleg ráð eins og: hættu að fara í bíó og borðaðu lifur og hrísgrjón í öll mál. Það hjálpar engum. Svo þegar ég er komin með nóg af tippum get ég kannski gefið þau út og selt og grætt og... (hugsar sér gott til glóðarinnar)... já, pening já....... En hér er fyrsta tippið:


Sparnaðartippi námsmannsins #1:
ef þarf að prenta margar blaðsíður af glósum, farið í properties og stillið á booklet, þá prentast út handhægur bæklingur, prentarinn segir manni meira að segja hvar maður á að snúa blöðunum! (amk þessi prentari:) Þar með prentaði ég á 3 blöð í stað 10!

fimmtudagur, janúar 22, 2004

Það sem mér finnst fyndið í dag:

- Allar konurnar sem eru með mér í málnotkunarkúrsinum sem tísta eins og smástelpur þegar Haraldur kennari segir eitthvað sem er næstum því fyndið (bókasafnsfræðingar og grunnskólakennarar aðallega).

- Haraldur kennari sem er líkastur Hábeini heppna í útliti.

- Götuheiti við Melaskóla sem einhver sniðugur krakki hafði breytt í „Hórumelur“. (Það fannst mér GEÐVEIKT fyndið)

- Bíll sem ég keyrði á eftir í dag, með einkanúmerið SÆKÓ. Gerði mig talsvert óörugga í umferðinni að keyra á eftir einhverjum sem kallar sig sækó en sannfærði mig um að hér væri bara um misheppnað fyrirtækjaheiti að ræða (sbr BYKO).

- Kýrin sem át 1722 demanta á Indlandi

Takk fyrir.

sunnudagur, janúar 18, 2004

Þetta blogg er til heiðurs Toyotu Corollu 1984 út um allan heim

Toyota Corolla 1984 eru frábærir bílar. Sérstaklega einn, minn bíll. Fyrir þá sem vita það ekki lítur hann svona út:
corolla84


Þetta er reyndar ekki hann en hann er alveg eins. Í tilefni dagsins fórum við skötuhjúin með hann á bílaþvottastöð. Það var okkur mjög framandi og er ekki laust við að við höfum orðið pínuhrædd... Þetta ERU nú ekkert smá tæki og bíllinn ER nú orðinn 20 ára - enda fór smá málning af á stöku stað... ekkert alvarlegt þó.


carwashPs. Ég mæli með síðunni www.lisaiundralandi.com og sérstaklega gestabókinni þar sem Helga Rafns-grúppíur keppast við að hylla hann ;) Er ekki búin að fara á sýninguna en heimasíðan er nógu flott, ég þarf ekkert að fara...

þriðjudagur, janúar 13, 2004

Þetta er nýjasta uppáhaldsbloggið mitt. Hreintungufasismi eins og hann gerist bestur. Hér er brot:

The Return Of The King opnaði vestanhafs. Maður getur opnað dyr, opnað dós o.s.frv. en mynd getur ekki opnað neitt. Kvikmynd er frumsýnd.
• Myndin þénaði 34,1 milljón dollara. Ónei. Maður getur þénað eitthvað til dæmis á vinnu sinni en mynd getur ekki þénað neitt. Kvikmyndafyrirtækið þénar á myndinni.
• The Two Towers tók inn 26,2 milljónir. Rangt. Maður getur tekið inn vítamín eða verkjatöflur. Mynd getur fært framleiðendum sínum peninga, þeir geta grætt svo og svo mikið á sýningu myndarinnar.
• Þetta er þriðji stærsti opnunardagur allra tíma. Voðaleg bölvuð vitleysa er þetta! Vera kann að um sé að ræða frumsýningardag sem er í þriðja sæti eða að einungis frumsýning tveggja annarra mynda hafi gefið meira af sér.

o.s.fr.v....

Það er alltaf jafn gaman þegar menn nenna að leita logandi ljósi að málvillum í illa prófarkarlesnum blöðum (þetta dæmi er úr Undirtónum sem er reyndar frægt fyrir fádæma lélega íslensku). Maður fær samt einhvern veginn í magann að hugsa: er ÉG svona snobbuð? Ég er allavegana á góðri leið með að verða það miðað við námið sem ég er í á hverjum degi!! Vei mér fasistanum.

P.s. þetta er einmitt maðurinn sem gerði BA ritgerð um bjúgnaorð í íslensku. Þau eru þrjú. Og getið nú hvaða orð það eru!
P.p.s. að skrifa BA ritgerð um bjúgnaorð í íslensku er eins og beint út úr smásögu eftir Þórarinn Eldjárn...

mánudagur, janúar 12, 2004

Alt eða ekkert

Ég fór í inntökupróf í kór í gær. Það var inn í kórinn sem kenndur er við Háskólann. (vil forðast að nefna nafn kórsins svo hann komi ekki alltaf umm þegar einhver slær því inn á google). Ég söng einhverja fimmundaskala fyrir kórstjórann og fannst mér ganga svona þrusuvel... en þá segir hann: „já, það er einhver truflun í röddinni...já, og þú ert áreiðanlega EKKI ALT.“ Já. Þetta sagði hann! Hann vildi samt ekki láta mig syngja hátt uppi „sjálfrar mín vegna“. Ég stóð á gati og kom varla upp hljóði. Hann sagðist þó vilja fá mig í kórinn, en „aðallega út af músíkbakgrunninum...“. Og viti menn, ég fékk email í morgun sem bar titilinn: "Velkomin í kórinn". Nú er bara spurning hvaða rödd ég verð látin syngja, alt eða sópran (glætan) eða hvort það verður búin til ný rödd fyrir mig, raddleysingjann.. þá fer ég fram á að hin nýja rödd verði nefnd perineum. Myndi það ekki hljóma vel?: "Nýtt kórverk fyrir sópran, perineum, alt, tenór og bassa".

Öðlingarnir í Ókind báðust reyndar til að lemja kórstjórann fyrir mig. Ég ætla samt að eiga það inni og láta aðeins reyna á kallinn.

laugardagur, janúar 10, 2004

Er nú ekki kominn tími á blogg? Ástæðan fyrir því að ég hefi ekkert blogað er ekki sú að ekkert hafi gerst, ég hef bara ekkert verið í tölvunni nema í einstaka havaríi að athuga hvort kennaragreyin hafi nokkuð laumað inn einkunnunum mínum úr jólaprófunum. En hvað sem því líður, nú er hafin ný önn með tilheyrandi tölvunotkun, og má því búast við að þessi síð verði ögn líflegri en yfir hátíðirnar. Í gær átti ég afmæli og mér finnst mjög gaman að eiga afmæli. Þetta vita vinir mínir og gerðu allt til að gera daginn frábæran. Sem hann var fyrir utan þegar græni kjóllinn minn eyðilagðist. Ég var búin að vera að sauma hann frá því á síðasta ári (ok gamlársdag) og hugsaði mér gott til glóðarinnar að vígja hann á afmælisdaginn. Þetta er vandaðasta flík sem ég hef nokkurn tímann saumað, rennilásinn haganlega felldur inn í þunnt siffonefnið og fóðrinu óaðfinnanlega komið fyrir, allir saumar eins beinir og best verður á kosið. En þegar til kastanna kom og ég og Steini vorum að setjast við borð á veitingastaðnum Ban-Thai sprakk rennilásinn minn fíni og ég var með stórt gat á bakinu. Sem betur fer var ég með sjal til að fela ósköpin en ég gat ómögulega rennt lásnum aftur niður, svo með dyggri hjálp Steina tókst mér loks þegar heim var komið að troða mér í gegn um gatið á bakinu og fór að reyna að laga rennilásinn. Þá vildi ekki betur til en að ég rykkti rennilásnum af og nú er kjóllin eftir því sem ég best veit ónýtur, vissulega er sá möguleiki fyrir hendi að setja í nýjan rennilás en ég veit ekki hvort ég legg í það, þvílík var vinnan í fyrra skiptið. Besta lausnin kom nú frá Þuru sem bauðst til að sauma utan á mig kjólinn fyrir kvöldið og í lok þess gæti ég svo klippt hann af mér.

En nóg um kjólinn, því margt skemmtilegra gerðist í gær, ég og Ella fórum í sund og ég vil óska henni til hammara með að hafa yfirstigið þann djöful að vera hrædd við blóðsugur í formi hjúkrunarkvenna. Steini kom mér á óvart á margan hátt og þakka ég honum fyrir. Ég fékk frábærar gjafir, grunsamlega margar sem hvöttu til sauma og prjónaskapar, þ.á.m. saumavélanálar, dýrindis kínverskt silki, sikkerhedsnælur og saumaskæri. Svo fékk ég meðal annars tvær bækur, ilmvatn og æðislega peysu sem mamma mín þæfði. Takk fyrir gjafirnar allir.

Og loksins fékk ég langþráðan meter af bjór á Kaffi Vín. Mæli með honum. Ekki meira í bili, bæ.

föstudagur, janúar 02, 2004

jæja bara nýtt ár og læti... Ég hef ákveðið að gera það að hefð að fara í klippingu annan janúar. Ég hef gert það núna í tvö ár og þá er það hefð, eða það segir Nanna a.m.k. Ég semsagt fékk mér nýjan hárkött, ekki svo ósvipaðan hinum gamla en með smá toppi. Þeir sem taka eftir því fá plús.

Ég veit ekkert hvað ég á af mér að gera þessa næstu einskis nýtu daga sem þykjast vera jóladagar en eru í raun bara venjulegir dagar í dularbúningi... ég sé í gegnum þá. Það breytir því ekki að ég byrja ekki í skólanum fyrr en 7. janúar og hef ekkert að gera fyrr en þá. Ekki að ég kvarti...