mánudagur, desember 31, 2007

Hinn púertóríski Haukur Morthens, Daniel Santos, syngur bóleróinn Virgen de media noche.

Hlustið á söngstílinn og upptökuna. Hlustið svo á Hauk hér, til dæmis í broti úr lögunum Vinarkveðja og Með blik í auga.

Þetta finnst mér sexí.

Takið eftir hvað herra Santos er svalur, reykir og allt. Hott gaur.



miðvikudagur, desember 26, 2007

Taó
Jesús er ekki sá eini sem fæðist á jóladag. Þessi varð til í snjónum í Laugarási í gær og virðist bara alveg drullusáttur við það.

Hann er með geislabaug úr gömlu dóti sem var örugglega sumargjöf einhvern tímann, og skott, og vængi úr greinum af normansþin. Nefið er af gamalli gardínustöng og augun kartöflur. Skartið er úr Mebu.

þriðjudagur, desember 25, 2007

föstudagur, desember 21, 2007

Blogg

Ég má til með að blogga um gærdaginn, því hann var einkar pródúktífur fannst mér, enda ég engin ofurkona eins og til dæmis vinkonur mínar Tinna og Sigga sem tækla barnamergð með öllu öðru sem fylgir lífi nútímakonu.

Mér tókst í það minnsta að klára allar pliktir fyrir jól og ýmislegt skemmtilegt líka. Systir mín kom úr Héraði í gær þar sem hún gerði sér lítið fyrir og dúxaði í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað, yngst dúxa, aðeins 16 ára. Hér á bæ springa stórar systur úr monti.

Ég fór í heimsókn til 1 stórskálds og 1 rithöfundar, hjá stórskáldinu fengum við María pínulítið leikaramyndaharmónikuhefti frá því einhverntímann um miðja síðustu öld og enn eldri söngbók sem skáldið sjálft ólst upp með.

Rithöfundurinn gaf mér bókina sína þar sem ég á þennan fína Doppelgänger í rannsóknarlögreglunni. Hana verður gaman að lesa um jólin.

Ég keypti allar síðustu jólagjafirnar, skrifaði og sendi öll síðustu jólakortin (af þessum fáu sem ég sendi) og bakaði tvær sortir af framúrstefnulegum smákökum af ynthernetinu. Ég fer ekki heldur í jólaköttinn, því nú á ég jólakjól og belti sem kostaði mig meira en öll þau belti sem ég hef nokkurntímann áður keypt samanlagt.

Svo var það pítsusneið og fjölskylduhittingur hjá afa (þriðja skáldinu) og ömmu uppi í Grafarvogi, þar sem ég gat loksins hitt Fjólu og Davíð og Moooola litla, og kvöldið endaði með mjög góðu kaffihúsaspjalli til miðnættis. Þegar ég kom heim tók reyndar við smá áfallahjálp því meðleigjandinn hafði keypt ógrynni af augnhárum, með perlum, fjöðrum og glimmeri, ásamt ýmsu öðru förðunardóti sem ég kann ekki að nefna, og þurfti smá post-innkaupastuðning þar sem réttlætt var að svo mikið hefði verið keypt.

Þetta var gærdagurinn minn, ég býst ekki við að blogga mikið af svona bloggum ("hvernig var dagurinn minn") fyrr en úti í Chile, þar sem líklega mun ýmislegt drífa á daga mína og reka á langar fjörur landsins sem ratar hingað inn. (Nei, ég fer ekki fyrr en í lok febrúar).

Gangi öllum vel svona á síðustu metrunum fyrir jól, og gleðilegar vetrarsólstöður!

miðvikudagur, desember 19, 2007

sunnudagur, desember 16, 2007

Steingrímur Thorsteinsson (1831-1913) um Moggabloggara

Lastaranum líkar ei neitt,
lætur hann ganga róginn.
Finni hann laufblað fölnað eitt,
þá fordæmir hann skóginn.

laugardagur, desember 15, 2007

Leikstjóradramað á Ölstofunni

FÞF mættur aftur á Ölstofuna í gær, leit framan í mig eins og ég væri gamall vinur (svona alveg eins og síðast) en eitthvað hefur honum ekki litist á það sem hann sá í þetta sinn, þar sem hann fór sína leið án þess að mæla orð af vörum (eða nota varirnar í eitthvað annað).

Það hjálpaði líklega ekki að Þórunn Vala litla ljóska vinkona mín sem sat við hliðina á mér sagði við hann "Nei, bara Hrafn Gunnlaugsson mættur. Það hlýtur að vera erfitt að fara á djammið fyrir þig, það þekkja þig allir." (Hún var ekki að djóka. (Þórunn ég elska þig.))

miðvikudagur, desember 12, 2007

Gisp! Nekt!

Ætli Pétur viti af þessu?, originally uploaded by Svanhvita.

Svanhvít litla í vaskinum hjá afa og ömmu í Hvassó. Nú býr víst

P é t u r G u n n a r s s o n í þessu húsi.

sunnudagur, desember 09, 2007

Fegurstu og ljótustu orð íslenskrar tungu

Um daginn var einhvers staðar verið að ræða um fegurstu orð íslenskrar tungu. Minnir að orðin "kærleikur" og "ljósmóðir" hafi skorað hátt. Það er vel skiljanlegt, enda fallega samansett og hljómþýð orð (orðið "hljómþýður" er reyndar líka mjög fallegt).

Það eru haldnar keppnir um fegurstu orð tungumála úti um allt, t.d. í Skandinavíu og í Þýskalandi og meira að segja hefur verið valið fallegasta orð í heimi (tyrkneska orðið "Yakamoz").

En það er erfitt að velja falleg orð án þess að velja þau út frá merkingu þeirra. Það hefur enginn horn í síðu ljósmæðra og kærleikur, ja, það segir sig sjálft að hann er af hinu góða. Það sést til dæmis á listum eins og þessum yfir fallegustu orð í ensku (valinn af enskunemum og kennurum) að merkingin er svo nátengd orðinu að þau eru öll alveg hrikalega jákvæð og frekar listi yfir fallegustu hugtökin en fallegustu orðin (táknmiðið tekur yfir táknmyndina fyrir þá sem tala barthesísku (nei, ég geri það ekki)):
  1. Mother
  2. Passion
  3. Smile
  4. Love
  5. Eternity
  6. Fantastic
  7. Destiny
  8. Freedom
  9. Liberty
  10. Tranquillity
(*æl* væmið)

En hvert er ljótasta orð í íslenskri tungu? Það væri of auðvelt að segja eitthvað eins og "graftarkýli" eða "drulluhali" því þau eru svo löðrandi í neikvæðu merkingunni að það sést ekki lengur í orðið sjálft. Það er miklu skemmtilegra að finna orð sem eru hlutlaus eða jákvæð í eðli sínu. Tökum orðið "ávöxtur" sem dæmi. Það væri alveg eins hægt að skipta út "ávexti" fyrir "graftarkýli" ef við ímynduðum okkur að við hefðum aldrei séð orðið "ávöxtur" áður, enda hljómar það frekar sem kýli á líkama en safaríkt sætt aldin. Ég er hrædd um að við myndum aldrei samþykkja það sem nýyrði yfir "aldin" nú á dögum.

Komið nú með hugmyndir að ljótustu orðunum í íslensku. Þau mega vera hvort sem er ljót í hljómi (næststærstur), útliti (hjáásssvið) eða merkingu (rukkari) eða allt saman (horrengla) en ég er persónulega hrifnust af orðum sem eru samin með það í huga að hylma yfir viðbjóðinn sem leynist á bakvið. Mínar tillögur eru "fórnarkostnaður" og "uppgreiðslugjald". Ég fæ klígju í hvert sinn sem ég heyri þau notuð.

P.s. (Mitt innlegg í krúttaðasta orð í íslensku er hins vegar "hakkabuff". Alltaf þótt það sætt.)
P.p.s. Gott að það sést ekki hvenær á sólarhringnum þetta er skrifað.

miðvikudagur, desember 05, 2007

Bíddu, var þetta frá http://www.tonlist.is? Ég náði því ekki alveg

"
Kæri Svanhvít Lilja Ingólfsdóttir,

Prufuáskrift þín á
http://www.tonlist.is er við að renna út.

Þann 8.12.2007 kl 00:00 verður áskrift þín endurnýjuð á greiðslukort yðar.

Til að skrá sig úr áskrift þarft þú að innskrá þig með notanda yðar á vefnum og velja þar "Hætta í áskrift" undir "Mínar stillingar".

Notandanafn þitt á http://www.tonlist.is er [...]

kv. http://www.tonlist.is"

(Leturbreytingar mínar)

laugardagur, desember 01, 2007

Allt sem þig hefur alltaf langað til að vita en þorðir aldrei að spyrja að um íslenska banana...

...er að finna á síðu 42 í Fréttablaðinu í dag. (þessu blaði)

Mig langar að bæta við því sem komst ekki inn vegna plássleysis, sem eru nokkrir molar sem ég safnaði af alls kyns útlenskum síðum um íslenska banana. Njótið vel.

„Hvaða þjóð er stærsti bananaframleiðandi í Evrópu?

Ísland, 64 gráður norður, aðeins tveimur gráðum neðan við norðurheimskautsbaug.“

http://www.sln.org.uk/geography/SLNgeography@Iceland1.htm

„Ísland er stærsti bananaframleiðandi Evrópu og þar er ræktað mikið af ávöxtum og grænmeti undir plasti/gleri, svo að segja ókeypis.“ http://www.43places.com/entries/view/1584260

„...fólkið þar lifir lengst af öllum í heiminum, landið er nánast sjálfbært um bananaframleiðslu og þar var fyrsti kvenforseti heimsins.“ http://www.northerner.com/iceland.html

„Eina landið í Evrópu þar sem bananar eru ræktaðir í atvinnuskyni er Ísland.“

http://www.scribd.com/doc/48528/the-banana

„Það hljómar kannski furðulega en Ísland er stór bananaframleiðandi vegna eldvirkninnar sem gefur nóg af náttúrulega heitu vatni sem hinir framtakssömu Íslendingar nota til að skapa hitabeltisloftslag í gróðurhúsum sínum. Bananabýlin í Hveragerði eru mjög tilkomumikil.“

http://www.grandprix.com/mole/mole16402.html

„... Þess vegna er Ísland einn af helstu bananaframleiðendunum. Mikið af bönunum kemur frá Íslandi út af jarðvarmanum. [...] Hægt er að virkja þann hita og Íslendingar nota hann í gróðurhúsum til að rækta banana.“

http://www.thenakedscientists.com/HTML/podcasts/podcast-transcript/transcript/2006.04.30/

„Ein Evrópuþjóð þarf ekki að hafa áhyggjur af bananainnflutningi. Íslendingar rækta sína eigin banana í stórum gróðurhúsum sem eru hituð upp með vatni úr heitum hverum sem finna má á eyjunni.“

http://www.batplants.co.uk/bananasfinaldraft.htm

„Yfir 90 prósent af íslenskum heimilum eru hituð með jarðvarmaorku og hún er líka notuð til að hita upp gróðurhúsin þar sem hinir frægu íslensku bananar eru ræktaðir.“

http://www.faqs.org/faqs/nordic-faq/part5_ICELAND/

...Hveragerði – „gróðurhúsaþorp“ þar sem sjá má hvernig Íslendingar rækta eigin ávexti og grænmeti og eru sjálfum sér nógir um banana.“

http://www.icelandvisitor.com/online_booking/day_tours_and_activities/view_tour/?ew_3_cat_id=25602&ew_3_p_id=22596092&?ew_4_cat_id=25602&ew_4_p_id=22596092&searchparam1=sn=SJ-06