föstudagur, júlí 30, 2004

Ekki leiðinlegt:

Budapest The Week Starting Fri Jul 30 2004

Friday Heavy rain Min 17C Max 22C

Saturday Light rain Min 17C Max 26C

Sunday Sunny Min 19C Max 27C

Monday Sunny Min 19C Max 29C

Tuesday Sunny Min 19C Max 29C

Hmm já, og hvenær kem ég til Búdapest, jú laugardagskvöld... svo virðist mér að það eigi að vera sól restina af mánuðinum... eða er það ekki annars?

Ég kveð, með síðasta bloggi mínu frá Íslandi í bili, læt svo heyra frá mér í landi hinna ungu verja. Bless bless, og gleðilega verslunarmannahelgi. Ekki nauðga!

þriðjudagur, júlí 27, 2004

Ég ætla að stelast til að skrifa smá á meðan ég er að láta renna í bað.
Það er að koma að því. Eftir nokkra daga (laugardar) fer ég í sólina í Szeged, sem einnig hefur verið nefnd "The sunny city" af því þar eru uþb. 2100 sólskinsstundir á ári. Til gamans má nefna að í Reykjavík eru þær oft um hundrað. Reyndar finnst sumum að ég hafi fengið nóg af sól í bili, a.m.k. kemur fólk að mér og segir ýmist: "mikið rosalega ertu sólbrennd" eða "mikið rosalega ertu orðin brún".  Mér líkar nú betur að heyra það síðarnefnda, því ég er brúnni í sumar en ég hef nokkru sinni verið, þó brúnkan sú einskorðist við andlit handleggi, axlir og háls. Úr þessu verður ráðið í Ungverjalandi, þar sem ég verð líklega að ganga nakin nema í síðerma magabol og blæju til að jafna út litinn.

En ég hvet alla þá sem vilja að ég kaupi eitthvað fyrir sig í Ungverjalandi, (t.d. papriku eða salami,) eða þá sem vita um eitthvað í Ungverjalandi sem er alveg ómissandi að sjá, tja, líka þá sem gætu átt í fórum sínum ungverskar forintur sem safna ryki, eða bara þá sem vilja kveðja mig áður en ég fer burt í heilan mánuð (löng setning) til að hringja í mig eða skilja eftir skilaboð hér fyrir neðan.

Adios... baðið bíður.

sunnudagur, júlí 11, 2004

Já, svefnpokinn minn týndist í fluginu, það var viðbjóðsleg rigning og drulla allan tímann, vindsængin okkar var ónýt, David Bowie spilaði ekki og Slipknot spilaði í staðinn, ... það voru sterk öfl sem reyndu að skemma fyrir okkur Roskildeferðina, en það tókst ekki, því við skemmtum okkur bara konunglega. Ja, það er að segja ef kóngar sofa á jörðinni í skítakulda og teipa plastpoka á lappirnar á sér áður en þeir vaða út í hnéháa drulluna og drekka bara meiri bjór til að gleyma þjáningunum. Ég myndi amk alveg vilja hafa svoleiðis kóng. Ég held það sé öllum Íslendingum hollt að fara á Hróarskelduhátíð, sérstaklega í svona drullu og bleytu. Við þolum svo lítið, megum ekki kólna, þá setjum við alla ofna á fullt og skríðum undir dúnsæng, þrífum allt hátt og lágt og verðum þess vegna veik þegar við förum til útlanda þar sem hreinlætið er ekki svona öfgakennt, og við teljum það sjálfsagt mál að hafa alltaf rennandi vatn í nokkurra metra fjarlægð. Það var vissulega erfitt að fara ekki í sturtu í heila viku, en við komumst þó alltaf í ótakmarkað rennandi vatn (ef við nenntum að bíða í korters röð) og við áttum alltaf nógan pening til að fá okkur að borða (þó við þyrftum að vaða drullu í hálftíma til að komast í mat). Það eru margar milljónir manna sem hafa ekki einu sinni það.

Við hristum þó stundum hausinn á meðan við vorum þarna yfir því að við værum að BORGA fyrir þetta! Sérstaklega þegar maður vaknaði á nóttunni af kulda, fór í ÖLL fötin sín og skalf samt. Það var nú reyndar bara ég, því ég var með hörmungar svefnpoka. Og þá er komið að svefnpoka sögunni.

Það var nefnilega þannig að um nóttina þegar við komum á Kastrup og fórum að ná í farangurinn okkar þá fannst glænýi rándýri hagkaupssvefnpokinn minn (1.995 kr) bara alls ekki. Þar sem við vorum öll þreytt og langaði til að koma okkur á hátíðina sem fyrst var þetta nú ekki það skemmtilegasta til að lenda í, svo eftir að hafa gert skýrslu eins og lög gera ráð fyrir, þá fórum við að horfa löngunaraugum á fjólubláan svefnpoka sem fór hring eftir hring á bandinu. Allir aðrir úr fluginu voru farnir, og við búin að missa af flestum lestum til Roskilde. Þannig að það endaði þannig að við hentum pokanum á farangursgrindina og forðuðum okkur.
Þegar ég svo skreið upp í pokann seint um nóttina fannst mér hann heldur þunnur, og þó ég sé nú ekki löng, þá var hann þó heldur stuttur, jafnvel fyrir mig.
Þetta var greinilega barnasvefnpoki.
Ég hafði stolið svefnpoka af barni!

Það var skrýtin tilfinning, og samviskubitið nagaði mig á hverri nóttu. En ég var himinlifandi að finna gám sem tók við notuðum svefnpokum, til að hægt sé að ´gefa þá fátæku fólki. Það friðaði samviskuna pínulítið að henda pokanum í gáminn síðasta daginn.
En ég vorkenni aumingjans barninu sem fær þennan ömurlega svefnpoka!

Nú er ég heima í sveitinni, búin að baka rabbarbarapæ og skyrtertu og elda bleikju sem pabbi veiddi. í kvöld er sumarhátið í Laugarási, þar verður dansað í kringum maístöng, grillað, stígvélakast, vatnsblöðruslagur, pokahlaup, brenna... Gaman gaman.