þriðjudagur, júlí 15, 2008

Ferðalög

Ég kom heim frá Buenos Aires í gærkvöldi. Þetta var frábær ferð og hefði ekki getað verið betri nema ef hún hefði verið lengri. Þetta var alltof stuttur tími en vel nýttur. Þar sem ég ferðaðist með þremur strákum var skylduheimsókn á La Boca-leikvanginn (þar sem Maradonna spilaði) og River-leikvanginn, eitthvað sem mörgum þykir eflaust merkilegra en mér. Mun áhugaverðara var að hitta rithöfundinn Sorrentino sem sýndi mér kirkjugarðinn í Buenos Aires sem er ekkert minna en magnaður, og heimspekilegar samræður til fimm um nótt á farfuglaheimilinu, við sirkusstrák með hanakamb og hárlistakonu. Það var bara eitt sem varpaði skugga á ferðina en það var samt á sama tíma svo viðbjóðslega fyndið að það er ekki hægt annað en segja frá því:

Hann Nico, sem var svo ástfanginn af Mörtu hinni norsku, er fyndinn fýr. Hann er svo opinn og jákvæður og skemmtilegur og kann ekki að skammast sín. Hann var í fyrsta sinn í útlöndum og þurfti auðvitað að tala við hvern einasta látbragðsleikara, götusölumann, götutangódansara, mótmælanda og sæta stelpu sem hann sá og tókst alltaf að verða besti vinur þeirra allra á nokkrum mínútum. Hver einasti sem rétti honum pappírssnifsi, hvort sem það var til að auglýsa herbalife eða hóruhús, var tekinn á spjall um hvað sem var. (þetta var verra en Atli Viðar niðrí bæ um helgar)

Þar sem þessir strákar eru... ja, strákar, og latínós, var líka mikið talað um stelpur... brjóst og rassa og brasilískar stelpur og argentínskar og ljóshærðar og dökkhærðar og lauslátar og ungar og gamlar og allt. Ég var meira að segja farin að halla undir flatt og glápa þegar ég sá bústinn barm eða lögulega leggi undir lok ferðar.
Nico var mjög forvitinn um "café poto" (eins og hann kallaði það, bókstaflega "rassakaffihús") í Argentínu því í Chile er alveg fullt af þeim. Þau heita "café con piernas" ("kaffihús á fótum" eða "kaffi með fætur" eða eitthvað í þá áttina) og þar ganga um stelpur í strengjabrókum einum fata og servera kaffi oní herramenn. Mjög spes fyrirbæri sem ég lýsi betur seinna. Nú, Nico vildi kanna rassakaffistöðuna í Buenos Aires svo þegar einhver stúlkan bauð honum inn af götunni upp langan teppalagðan stiga að myrkum salarkynnum lét hann ekki segja sér það tvisvar. Við hin trúðum ekki eigin augum þegar við sáum hann hverfa þangað inn og strákarnir urðu öskuvondir út í hann fyrir að vera svona heimskur. Þegar hann loksins kom út aftur var auðvitað búið að hafa af honum allan peninginn sem hann var með á sér. Hann lýsti því þannig að það hefði allt fyllst af stelpum í kringum hann að rétta honum einhver djúsglös sem hann ekki drakk úr, og svo var hann rukkaður um morðfjár, "og svo voru þær allar ljótar í þokkabót"! * Hann leit í kringum sig og sá tvo gaura sem voru víst eitthvað um fimm metrar á hæð, reiðubúnir að rista hann á hol ef hann ekki borgaði, svo hann þorði ekki annað en láta af hendi allt reiðuféð sitt. Ég held hann hafi skammast sín í svona klukkutíma eftir þetta, og hann sagðist hafa lært sína lexíu og ætla að hætta að weonear (láta eins og fífl) svona mikið, hann væri búinn að rugla nóg í þessari ferð og ætti þetta skilið. Gott ef það sljákkaði ekki aðeins í honum eftir þetta, þótt hann hætti auðvitað ekki alveg... enda væri það heldur ekkert gaman.

Það var skrítið að ferðast með strákum sem eru aldir upp í að stelpur megi ekki lyfta þungum hlutum eða opna dyr sjálfar. Ef ég missti eitthvað á gólfið voru minnst þrjár hendur mættar til að taka það upp og ég fékk lítið að borga fyrir drykki eða annað. Ég þurfti raunar voðalega lítið að gera, enda er ég loksins búin að átta mig á því að það er alveg jafnmikil kurteisi af minni hálfu að þiggja aðstoðina eins og af þeim að bjóða hana. Það er beinlínis dónalegt að heimta að borga ef þeir bjóða manni, því þá er maður á einhvern hátt að lýsa því yfir að þeir hafi ekki efni á því og að þeir séu þannig minni karlmenni, og maður verður bara að sætta sig við þetta. Ég þoli samt ekki þegar þeir reyna að klæða mann í jakkann... þá finnst mér komið of mikið af því góða.

---

En þetta var bara upphitun fyrir ferðina sem ég fer í í fyrramálið. Klukkan 7.30 (eftir fimm tíma) legg ég af stað í rútu til Iquique, í Norður-Chile. Ferðin tekur 24 klukkutíma, svo ég verð komin á miðvikudagsmorgun á sama tíma til Iquique. Þaðan ætla ég til La Tirana, pínulítils þorps þar sem er akkúrat þessa viku alveg ótrúleg trúarhátíð með tónlist og dansi og pílagrímum með grímur og púkablístrur. Hér má sjá nokkrar myndir.

Eftir það er ferðinni heitið lengra norður, til Arica, sem er við landamæri Perú, og svo til Bólivíu, til borgarinnar Oruro, þar sem ég ætla að heimsækja hann Felix, 9 ára, SOS-barnið mitt. Ég hlakka alveg rosalega mikið til að hitta hann. Eftir það kem ég mér einhvernveginn til baka. Læt vonandi vita af mér einhverntímann á leiðinni þegar ég kemst í net. Óskið mér góðs gengis og lítils rasssæris...


*Hér kom Húlíó inn í herbergi til mín frekar skömmustulegur og spurði hvort hann mætti sýna mér soldið - nefnilega myndir af Petru, svissnesku stelpunni, sem hann tók í rómantísku helgarferðinni þeirra - því hann er svo yfir sig ástfanginn og varð að deila því með einhverjum. Hann er svo fyndinn, algjör Kani en samt svona æðislega væminn latínó.

miðvikudagur, júlí 09, 2008

Buenos y Malos Aires

Nú sit ég og bíð eftir að kominn sé tími til að fara út á flugvöll og skella sér til Buenos Aires. Ég er reyndar með einhverja bölvaða beinverki og illt í maganum, við skulum vona að það sé nú bara eitthvert létt grín.

Rodrigo, sem alltaf passar svo vel upp á okkur, er mjög ánægður með fylgdarsveina mína, hann veit að þeir eiga eftir að passa mig eins og sjáaldur augna sinna. Hann sagði þegar ég kvaddi hann: "Come mucho chocolate y mucha carne" (borðaðu mikið af súkkulaði og kjöti), og svo hvíslaði hann "y comete un argentino también" sem þeir skilja sem vilja.

Eitt er það sem ég er alveg að verða brjáluð á: langflestir Bandaríkjamennirnir hérna. Þeim þykja þeir svo merkilegir að vera í útlöndum, hafa kannski farið til Evrópu, kannski ekki, lært mannfræði eða félagsfræði eða eitthvað, en finnst þeir að minnsta kosti geta dæmt Chile og öll önnur lönd út frá norminu, sem er auðvitað the US of A. Sama hvað þeir eru með margar gráður í mannfræði og "veraldarvanir" þarf alltaf að bera allt saman við Bandaríkin og þannig ákveða hvort það sé "normal" eða ekki. Ég sem hélt að mannfræði snerist að einhverju leyti um að það væri fleiri en ein menning sem væri "normal" og þótt fólk notaði sinnep eða mæjónes eða eitthvað allt annað á frönskurnar en tómatsósu væri það ekki endilega "so weird" heldur bara "öðruvísi en ég er vanur/vön". Þetta er orðið frekar þreytandi.

Ég bý semsagt núna bara með enskumælandi, þ.e. könunum tveimur og þeirri svissnesku, og svo Ro og Cesari sem er hérna upp á hvern dag. Það verður gott að komast út úr enskunni í smástund, ég er komin með ögn leið á henni.

Mig dreymdi í nótt að í lítilli matvörubúð á horninu sæi ég allt í einu hálfslítradollu af skyr.is með vanillubragði. Búðareigandinn sagði með fýlusvip að birgirinn hefði látið hann fá þetta til að prófa en hann byggist ekki við að selja þetta nokkrum manni. Ég lofaði honum að ég skyldi kaupa það allt saman. Svo var draumurinn búinn.

En þá er það land silfurs, nautakjöts, fallegustu karlmanna í heimi og Evítu: