sunnudagur, desember 21, 2003

Systir mín er byrjuð að blogga. Hún er tólf ára og heitir María Sól. Bjóðum hana velkomna.

þriðjudagur, desember 16, 2003

Fréttablaðið í dag, myndafyrirsögn:

„Tvær með trúarleg tálkn

Þetta stóð fyrir neðan mynd af tveimur múslimakonum með slæður. Í greininni er verið að tala um trúarleg tákn. Það á kannski að banna þeim að hafa slæður í Frakklandi, og sömuleiðis gyðingum að hafa litlu sætu húfurnar sínar og kristnum (og gothurum) að hafa stóra krossa á sér. Hvað ætla þeir að ganga langt? Verða menn sem eru búddatrúar að hafa hár og bannað að ganga í appissínugulum fötum? Mér finnst þetta asnalegt og brot á mannréttindum.

En allavegana.. þá vorkenni ég sérstaklega konunum á myndinni því þær eru sagðar vera með tálkn. Og þurfa því eðlilega að fela þau með slæðum.
tálkn

(Ætli þessar séu ekki líka með tálkn)


...Annars fór ég í próf í dag blablabla gekk ágætlega blabla fékk útúr 2 prófum og 2 ritgerðum og það gekk voða vel...blabla nennekkaðtalumskólannþaðerbaraeittprófeftirblablabla....

Góðar stundir.

P.s. Af hverju var mynd af Örkinni hans Nóa í kofaskriflinu hans Saddams? Það er mér ráðgáta. Vonandi getur einhver svarað mér því. Ég hélt að þessi fræga örk væri bara í biflíunni og ekki í kóraninum... kannski er hann bara laumukristinn... þorir ekki að segja.

sunnudagur, desember 14, 2003

„Meginreglan er sú að hægri hausinn er „þrengri“ í einhverjum skilningi en sá vinstri. Gæta þarf þess vel að hausar séu réttir og víxlist ekki“

Verðlaunagetraun: Hvað er verið að tala um í ofangreindum texta?


Vissir þú að...

...á japönskum kvennaklósettum er sérstakur „hávaðatakki“ til að ýta á á meðan maður er að pissa. Þetta er tilkomið því að japanskar konur fara svo hjá sér ef einhver heyrir þær pissa að þær sturtuðu alltaf niður í sífellu til að yfirgnæfa hljóðið. Gífurleg vatnseyðsla varð af þessum sökum og því var brugðið á þetta ráð. Og ég hélt að við værum pjattaðar hér á landi!

Stjörnugjöf

Nú er ég búin að fara á þrenna aðventutónleika á síðustu vikum og finnst við hæfi að koma með skriflega útlistun á þeim.

1) Aðventutónleikar Mótettukórs Hallgrímskirkju 6. des kl. 17.00.
Nú hef ég fjórum sinnum farið á nákvæmlega eins tónleika hjá þessum kór, þar sem afi býður okkur elstu badnabödnunum alltaf, og hef alltaf haft gaman að. Í ár var engin undantekning þar á, en ósköp er maður farinn að þekkja prógrammið vel hjá þeim.. Ég held samt að bestu svona tónleikarnir hafi verið í fyrra þegar Jóhann Friðgeir elskan mín söng. Í ár var það söngkonan Elín Ósk sem þandi raddböndin til hins ýtrasta, en henni tókst ekki að heilla mig, of gróf rödd fyrir þessi fínu jólalög. Eitt hef ég út á Hallgrímskirkju að setja, og það eru bölvaðar súlurnar. Einhver myndi segja, „já en þær verða nú að vera til að húsið haldist uppi“ en mér finnst fáránlegt og óskiljanlegt að arkitektinn hafi látið sér detta í hug að blokka sýn helmings tónleika/messugesta með risasteindröngum. Gátu þær ekki allavegana verið gegnsæjar? Því allir vita jú að maður fer í messu og á tónleika einungis til að horfa á flytjendur/guðsmenn.
Bréfaklemmur:

2) Graduale Nobili, Langholtskirkja, 10. des kl. 20.00
Nobili stendur alltaf fyrir sínu, en ég er nú líka grúppía númer eitt og er að plotta hvernig ég get laumað mér inn í kórinn. Planið er að bjóða mig fram sem rótara, pallabera og haldklæðahaldara og whatnot, þá læri ég lögin svona meðfram, stel mér nótu mog æfi heima í einrúmi. Svo þegar einhver kórstúlkan veikist rétt fyrir tónleika af dularfullum ástæðum kem ég askvaðandi og bjarga deginum því ég kann öll lögin. Kóstjórinn heillast af frammistöðu minni og tekur ekki annað í mál en að ég haldi áfram. Já... my demonic plan is almost perfect....
Annars voru tónleikarnir góðir eins og alltaf, og verkið Ceremony of Carols var auðvitað toppurinn, og ekki sakaði frábær einsöngur Láru Bryndísar og ÞÓRUNNAR VÖLU. Best við tónleikana var þó að ég fékk ókeypis inn á þá með því að vera miðasali við innganginn, sem ég var búin að heimta með löngum fyrirvara. (já, þetta er hluti af planinu)
Bréfaklemmur:

3) Skálholtskór, Barna og kammerkór Biskupstungna, Diddú og Bó Halldórs. Skálholtskirkja, 13. des kl. 17.00.
Þessir árlegu aðventutónleikar kóranna í tungunum voru tímamótatónleikar á ýmsan hátt. Í fyrsta lagi var í fyrsta sinn selt inn á tónleika í kirkjunni hafandi fengið leyfi til þess hjá hæstráðandi. Í öðru lagi, og þetta er alveg ótrúlegt, þá leyfði víxlarinn (Sr Sigurður vígslubiskup) að klappað yrði í lokin, þó að auðvitað mætti ekki klappa milli laga. Auðvitað hefur áður verið selt inn í kirkjuna og oft verið klappað, en aldrei áður með leyfi! Tel ég þetta mikla framför og nóg til að gefa tónleikunum a.m.k. 3 bréfaklemmur. Hinar tvær fá kórar og einsöngvarar fyrir frammistöðu sína, og Þórir Baldursson fyrir æðislegar Disney/rjómatertuútsetningar á alþekktum og minna þekktum jólalögum. Mér leið ekki eins og ég væri í Skálholtskirkju, heldur að horfa á Disneymynd um barn með stór augu sem tekur að sér lítið sætt dýr með ennþá stærri augu og leyfir því að vera hjá sér um jólin. (Af hverju hefur svoleiðis mynd ekki verið gerð af Disney?). Mér fannst samt hallærislegt af Bjögga að vera sá eini með mæk, sérstaklega þegar hann var að syngja með kórnum. Skálholtskirkja hefur svo magnaðan hljómburð að það er óþarfi að magna hann eitthvað meira upp. Mamma fær líka plús fyrir að bjóða okkur Steina og pabbi fyrir að skutla okkur. Þess vegna fá tónleikarnir (og dagurinn allur) 7 bréfaklemmur.

fimmtudagur, desember 11, 2003

Kvóti dagsins: "Leoncie is a like a Fiery Sauce of Ripe Goan Chillies and an Exciting kick of Strong Cashew Feni". Af síðu Icy spicy Leoncie

Kom heim úr prófi, gekk ágætlega, eldaði mér kartöflubuff, mamma kom, fór að sofa klukkan sex og vaknaði klukkan tíu... núna áðan. Hvernig á ég að geta sofnað núna?


Ljóðahornið
Þema dagsins: limra.

There was an old man from Khartoum,
who kept two tame sheep in his room:
"For" he said "they remind me
Of one left behind me
But I cannot remember of whom."

miðvikudagur, desember 10, 2003

Átti alltaf eftir að bæta Gústa og Ingrid inn á linkalistann. Vil svo taka fram að linkarnir eru ekki í NEINNI sérstakri röð.

Annars er ég uppi í skóla núna, búin að læra í 5 tíma samfleytt. Skil ekki af hverju fólk hangir á Bókhlöðunni á prófatíma, ég fer bara upp í Árnagarð, þar er ró og þar er friður, þar er gott að setjast niður... osfrv. En nú get ég ekki meira. Steini farinn á Mjús en ég ákvað að vera gáfuð og fara ekki, farandi í próf á morgun og ekki megandi sjá af 5500 krónum svona rétt fyrir jól, rétt eftir nagladekk. Atli má svo kúka í buxurnar að fá ódýran miða á svörtu.


rass


þriðjudagur, desember 09, 2003

Var að læra nýtt orð: sérstaklingur. Það kemur fyrir í einni skilgreiningunni á textatengslum (sem er reyndar annað orð sem ég var að læra): „sömu sérstaklingar koma fyrir í fleiri en einum hugsanlegum heimi“. Það segir sig svo sem nokkurn veginn sjálft, einhver ákveðinn einstaklingur, t.d. Jesús Kristur, Bjarni Ólafs, Leonardo diCaprio... (hehe, tókst að koma þessum mönnum í eina og sömu setninguna)

Svona er tungumálið okkar skemmtilegt.

mánudagur, desember 08, 2003

Kennararnir í MH eru orðnir miklu netvæddari í seinni tíð. (ehh frá því á síðustu önn). A.m.k. hafa miklu fleiri eknnarar heimasíðu núna Til dæmis er hérna skemmtilegur linkur á verkefni eftir Betty í slangri Hún hefði verið ánægð með mig, ég fékk 10/10.

En af öllum heimasíðum kennara um allan heim held ég að þessi sé með þeim laaangverstu. Sérstaklega er skemmtilegt hvernig myndatextinn smellpassar við myndirnar.
Þessi er aftur á móti sú besta.
En þegar maður er farinn að tala um síður starfsfólks MH er ekki hægt að sleppa þessari
Ég ber töluverða virðingu fyrir þessari vegna bítlakvóts og vinnunnar sem lögð hefur verið í grafíkina.

Þetta var nú meira linkafylleríið.... og ekkert lesið í norksu bókinni ennþá um symbolikk og bildespråk. Tssss.
Kominn tími á það.

Ps. Ég tók pólitíska áttavitaprófið, lenti skuggalega nálægt Gandhi...
sunnudagur, desember 07, 2003

Jæja, fyrsta prófið búið og það næsta ekki fyrr en ellefta. En fyrir það þarf ég líka að lesa helst tvær bókmenntafræðiskruddur á norsku, sem engum hefur dottið í hug að þýða þó þær hafi verið kenndar í ÍSLENSKU núna í örugglega hálfa öld.

Ég setti að gamni inn gátu, þetta er hin skemmtilega spurning: Why is a raven like a writing desk, sem er í Lísu í Undralandi eftir Lewis Carroll. Þar sem svarið við gátunni var ekki gefið upp í bókinni hefur fólk síðan keppst við að finna a.m.k. semilógískt svar, og ég fann nokkur þeirra. Svo má kjósa um hvaða svar er best.

Lísa

miðvikudagur, desember 03, 2003

Lenti í olíumengunarslysi í dag. Opnaði ísskápinn og fann matarolíuflöskuna á hliðinni með tappann af. Hafði ekki olían lekið niður á allt sem fyrir nðan var, hillur og hólf, niður á gólf og það sem verst (ógeðslegast) var: allt grænmetið. Ég hafði hugsað mér gott til glóðarinnar að setjast við skrifborðið og fara að lesa Íslendingabók, en var í staðinn næsta klukkutímann að þrífa olíu úr ísskápnum, gólfinu og öllum hlutunum inní ísskápnum. Þeir sem hafa prófað það vita að það er ekki það auðveldasta, og þó ég hafi gert mitt besta er ísskápurinn allur frekar sleipur og mér finnst ég sjálf vera löðrandi í olíu... ehhhww.

En þessir hata ekki olíuna:


olía
Ég tók próf á femin.is og komst að því að ég er nokkuð tilbúin til að hætta að reykja. Þá verð ég bara að drífa mig að byrja!

Þú ert aðeins farin að spá í að hætta!

Sú staðreynd að þó tókst þetta próf eru frábærar fréttir. Það þýðir að þú ert farin að hugsa um að hætta á endanum. Mundu bara, það er aldrei of seint að hætta reykja. Sérfræðingar sem vinna með fólki sem er að hætta reykja vilja meina að þú ert líklegust til að hætta, ef þú gerir það fyrir sjálfa þig og þína heilsu. Gangi þér vel.

Lenti í olíumengunarslysi í dag. Opnaði ísskápinn og fann matarolíuflöskuna á hliðinni með tappann af. Hafði ekki olían lekið niður á allt sem fyrir nðan var, hillur og hólf, niður á gólf og það sem verst (ógeðslegast) var: allt grænmetið. Ég hafði hugsað mér gott til glóðarinnar að setjast við skrifborðið og fara að lesa Íslendingabók, en var í staðinn næsta klukkutímann að þrífa olíu úr ísskápnum, gólfinu og öllum hlutunum inní ísskápnum. Þeir sem hafa prófað það vita að það er ekki það auðveldasta, og þó ég hafi gert mitt besta er ísskápurinn allur frekar sleipur og mér finnst ég sjálf vera löðrandi í olíu... ehhhww.

Hér eru nokkrir guttar sem hata ekki olíuna:
Ég tók próf á femin.is og komst að því að ég er nokkuð tilbúin til að hætta að reykja. Þá verð ég bara að drífa mig að byrja!

Þú ert aðeins farin að spá í að hætta!

Sú staðreynd að þó tókst þetta próf eru frábærar fréttir. Það þýðir að þú ert farin að hugsa um að hætta á endanum. Mundu bara, það er aldrei of seint að hætta reykja. Sérfræðingar sem vinna með fólki sem er að hætta reykja vilja meina að þú ert líklegust til að hætta, ef þú gerir það fyrir sjálfa þig og þína heilsu. Gangi þér vel.


Maður skilur dróttkvæðin miklu betur þegar maður prófar að semja eitt sjálfur:

Les af blöðum lausum
(langar út að ganga)
„fjarðlinna óð fannir“
finn hvað merkir kenning.
Pæli stíft og púla,
prófi er von á, grófu.
Þykir nú sem þekki
„þunnísunga Gunni“

skýringar á kenningum:fjarðlinnir= fjörður + linnir (ormar) = ormar fjarðarins - fiskar
þunnísunga Gunnur= kona
salatbar


GROUP HUG! Ég er búin með fyrirlesturinn minn um Fridu Kahlo! Hann var á spænsku og átti að vera 15 mín en sæti spænski prófdómarinn var svo áhugasamur um Fridu að ég var í næstum hálftíma!

En nú er bara að hella sér út í dróttkvæðin...þriðjudagur, desember 02, 2003

Sönglagatexti dagsins:
(flutt á Kraptakvöldi Mímis af samnefndum karlakór)

Spenntur

Soldið skrýtin, soldið þvæld
Samt ekk´ of mikið, ekk´ útpæld
Þó ekkert afleit, einhver fær
Samt ekk´ of mikið komdu nær

Enn ein nóttin engin hér
Ég sit hér einn með sjálfum mér
Finnst allt svo tómlegt, líður hægt
Finn ekkert fyrr en hefur lægt
Það hjálpar helling hvað þú ert sæt

Ég er miklu meir´ en spenntur fyrir þér
Mig langar bar´ að vera einn með þér
Þó vindar blás´ á móti stend ég hér
Ég er miklu meir´ en spenntur fyrir þér

Soldið fríkað soldið svart
Kannsk´ ekkert skrýtið dáldið hart
Það er ótrúlega sárt
Að finna svona mikið fyrir ást
Það hjálpar ekkert hvað þú ert sæt

Ég er miklu meir´ en spenntur fyrir þér
Mig langar bar´ að vera einn með þér
Þó vindar blás´ á móti stend ég hér
Ég er miklu meir´ en spenntur fyrir þér

Oft á tíðum þá sé ég ekki út
Stund og staður binda á mig hnút
Ég er miklu meir´ en spenntur.....

Einar Bárðarson

Já. Eða eins og Atli myndi segja: Nuff said.

mánudagur, desember 01, 2003

Nóatún í gær, síðdegis.
Ungur maður í gamalli úlpu vindur sér upp að mér þar sem ég stend við hraðbankann að taka út pening. Spyr:
„Geturðu ekki lánað mér klink svo ég geti keypt mér kammenbertost og ritskex?“
Ég svara: „Nei, því miður.“ (segi ég og stend með fullar hendur af seðlum)
„Neinei allt í lagi“ segir hann. „En ekkert vera að segja fólki að ég hafi verið að spyrja þig að þessu, fólki er eitthvað svo illa við það. Svona er bara fólk“
„Nei nei, ég geri það ekki“ (geng af stað inn í búðina og hann á eftir)
„Það er svona þegar maður er að hætta, það er erfitt. Fólk trúir því bara ekki hvað það er erfitt. Og pabbi manns og mamma halda að maður sé bara eitthvað..... En ég er kominn með nýjan lækni sem var líka fíkill og hann skrifar upp á hvað sem ég bið hann um!“ (Glottir).
„Nújá, er það“ segi ég.

Meira heyri ég ekki því ég staðnæmist við kjúklingakælinn en hann skundar áfram og tekur ekki einu sinni eftir að ég er ekki lengur við hliðina á honum.

Ég fór að pæla í því eftirá, var ég að misskilja hann - nú þekki ég ekki mikið inn á fíkniefnaheiminn en var þetta með kamenbertostinn kannski bara eitthvað slangur sem ég hef aldrei heyrt, eða var þetta bara svona mikill sælkeri?

Ég myndi nú vilja hafa upp á þessum lækni....

-------------
En jólin eru að koma. Hangikjötslæri var stolið úr geymslu í Vesturbænum (Ketkrókur?) og kona var troðin undir af trylltum lýð á leið á útsölu í Bandaríkjunum. Þetta las ég í Fréttablaðinu í dag. Aftur á móti er ég ekki búin að lesa Guðrúnarhvöt, Hamðismál, Þorláks sögu helga, safn dróttkvæða, Íslendingabók og Landnámu og allt hitt sem ég á að lesa fyrir Bókmenntasögupróf. Það er nú verri sagan.


laugardagur, nóvember 29, 2003

.......................................Ég hef öðlast 6 kyu í Aikido.........................................

Allir sem vilja stuðla að auknum frama mínum í þessari íþrótt mega leggja inn loforð um innborgun á aikido galla hér fyrir neðan. (hæ pabbi og mamma, ég veit þið lesið þetta :)

fimmtudagur, nóvember 27, 2003

FOKKINHEI!
Var búin að blogga fokkin feitan blogg en hann fokkin datt fokkin út!! (hehe, farin að tala eins og þessi ungi maður.

En lítið við því að gera.

Fór á Sjáls Nögu í gær með fríðu föruneyti. Var bara nokkuð sátt, þó leikaravalið hafi ekki alltaf verið mér að skapi, og aðallega er það fast í mér að Gunnar á Hlíðarenda eigi að vera ljóshærður og massaður, en ekki........Hilmir Snær. Það hlýtur að vera einhver annar leikari sem er jafn góður og hann og líkari Gunnari. Njáll ætti að vera eldri, en annars fannst mér Ingvar passa vel í hlutverkið. Hallgerður: góð, Gissur og Geir: frábærir, Skarphéðinn: góður, en of góðlegur. Annars hefur auðvitað hver Íslendingur skoðun á þessum persónum og erfitt að gera öllum til geðs með því að nota einungis leikaraskarann hér á landi.

Bíllinn minn er á leiðinni sjöunda hringinn kringum jörðina núna, já, vinir mínir, í gær varð ég vitni að því að hann keyrði 275.000asta kílómetrann sinn. Það er ekki slæmt... en hann er líka að verða tuttugu ára. Ég og Steini ætlum að halda upp á tvítugsafmælið í janúar, en hann á afmæli þann 19. jan. Þar sem ég á afmæli þann 9. er þá ekki bara tilvalið að skella þeim saman?

Það er kominn nýr ábúandi á Ásvallagötuna. Ég er sigri hrósandi því hann er jafnvel hörundsljósari en ég.... þig getið lesið um hann (og ýmislegt fleira) hér

Síðasti kennsludagur í dag. Fyrsta önnin í háskóla búin. Mér vöknar um augu.....
Bókmenntafræðin var annars ánægjuleg í dag.. lásum leikritið Dómínó eftir Jökul Jakobsson. Það er vægast sagt mjög opið og órætt leikrit. Það var ekkert sagt af viti í öllu leikritinu, hér eru til dæmis tvær persónur að tala um hitann í heitu löndunum:
SOFFÍA: Sest makindalega, kveikir sér í dömuvindli, dreypir á glasinu. Segðu okkur eitthvað frá heitu löndunum.
GESTUR: Það er náttúrulega ýmislegt að segja. Svoleiðislagað. O-jú...
SOFFÍA: Það hlýtur þó að vera óskaplega heitt.
GESTUR: Það getur orðið nokkuð heitt. Sumstaðar.
SOFFÍA: Það hlýtur að vera óskaplegt hvað það er heitt.
GESTUR: Manni finnst það fyrst. Svo venst það.
SOFFÍA: ÉG held ég gæti aldrei vanist því.

(10 línum seinna:....)

SOFFÍA: Það hlýtur að vera alveg óskaplega heitt.
GESTUR: Já, það getur orðið nokkuð heitt.
SOFFÍA: Mig grunaði það! Þetta hef ég alltaf sagt.
GESTUR: Þó var ekki alltaf svo voðalega heitt.
SOFFÍA: En heitt samt.
GESTUR: Já. En heitt samt.

NB. þetta voru þau líka að tala um á undan OG halda áfram að tala um allt leikritið.

Hmmmmm...


mánudagur, nóvember 24, 2003

Kraptakeppni Mímis var haldið á laugardagskvöld og fór vel fram. Mín ákvað að skella sér hafandi heyrt að þetta væri hin besta skemmtun. Var töluvert af fólki mætt á svæðið og settist mín á borð með Eyrúnu Vals og fleiri drósum ásamt Aðferða og vinnubragðakennaranum mínum Jóhannesi Gísla. Hann var það staddur til að veita viðtöku Andvarpinu, árlegri farandönd sem varpað er til þess kennara sem þykir skara framúr hverju sinni. Var loftið málfræði blandið, til dæmis slæddurst inn í ræðu verðlaunahafa nokkrar góðar málfræðispurningar og síðar um kvöldið lenti undirrituð í liði með Sigyn og fyrrnefndum kennara í látbragðsleik, þar sem við lékum nokkur málfræðihugtök svo ekki lék vafi á um hvað var á ferðinni. Best tókst okkur þó upp með kjarnafærslu og hljóðan en túlkun okkar á Verners-lögmálinu vafðist eitthvað fyrir áhorfendum.
Karlakór Mímis söng svo af bar og Jón Gestur flutti ávarp nýnema, gegnsýrt af nýafstaðinni skálaferð.
Eftir að formlegri dagskrá lauk leystist samkvæmið upp í almennt fyllerí og dans, þar sem Sigyn og Sigurrós réðu ríkjum. Mín var þó akandi og lét sér nægja að dilla sér hóflega og pent við múzakkinn.

En nú dríf ég mig á aikidoæfingu, næstsíðustu fyrir gráðupróf!

Góðar stundir

laugardagur, nóvember 22, 2003

Hugarflæði... atburðir liðinna daga:

Hjólaði næstum ofan í opið holræsisop.. (hmm opið op?) en slapp með smá öskur og sjokk. Kláraði fokkin ritgerðina og Steini gaf mér sjeik. (Steini þú rúlar) Bakaði karamellukökuna handa Björk í afmælisgjöf. Nei, ekki Björk Guðmundsdóttur, heldur Björk Ellertsdóttur sem átti líka ammæli í gær. Svo fórum við Steini í kveðjupartí til Mæju... ég trúi ekki að hún sé að fara í heilt ár, það er hræðilegt! Pabbi gerði að engu áætlanir mínar um vinnu í RVK um jólin með því að ráða mig í vinnu hjá sér. Hef verið að stelast til að hlusta á jólalög á meðan enginn heyrir. Stilli svo á aðra stöð um leið og einhver annar kemur inn í herbergið. Ég er laumujólabarn.

En nú kemur Ella Steinasystir með fullt af Grænum kosti.... mmmmmm

þriðjudagur, nóvember 18, 2003

Gekk milli erkifjendanna Garðheima og Blómavals í vinnuleit. Leist betur á Blómaval, hef unnið þar áður og ekki spillir fyrir að yfirmaðurinn heitir Trausti... hversu traustvekjandi er það? Annars öfunda ég þá ekki sem ráða mig í vinnu: „Ja, sko ég er reyndar að fara í fimm próf, ja, eða eiginlega sex, já og svo get ég ekki unnið á aðfangadag og helst ekki milli jóla og nýárs. Eiginlega get ég næstum ekki unnið neitt. En ég hef samt obboslega mikla reynslu í garðyrkju, sko!“

Annars væri nú ljúft að vinna ekki baun og eyða jólunum í að sauma, prjóna og baka. Ég og Björk eyddum bókmenntafræðitímanum í að slefa yfir gömlum jólauppskriftabæklingi. Lofuðum okkur að baka karamellukökuna úr honum þegar við verðum búnar með skáldsöguritgerðina. Sem minnir mig á að fara að skrifa hana. Núna. Já. Strax.

sunnudagur, nóvember 16, 2003

Komin úr skálaferð í Árnes... og er það vel. Eða eins og skrifað var í gestabókina: „Komum búklaus, fórum með haus“.

Ég lærði að Will Smith er nýjasta þjóðskáld Íslendinga og að stelpur kúka ekki og ekki páfinn heldur. Allt þetta og meira til hrökk af vörum þessa manns, sem skemmti okkur allan tímann með slíkum fróðleiksmolum.

Ekki meira um það núna.

Sofa.

Bæ.

föstudagur, nóvember 14, 2003

Undursemdir salatbaranna

salatbar


Salatbarir eru ein vanmetnasta gjöf matvöruverslana til hins fátæka námsmanns. Þá er ég ekki bara að tala um salatbar sem hádegissnarl með trópí í flösku, heldur í alls kyns matargerð. Það er til dæmis tilvalið að kaupa sér álegg ofan á heimagerða pizzu eða pastarétti í salatbörum... fetaost, túnfisk, tómata (kirsuberjatómata!), papriku, kjúkling (stundum í Nóatúni JL-húsinu), kotasælu (fyrir þá sem ekki eru haldnir „domumfelisfobia“ eða gífurlegri hræðslu við kotasælu) og fleira og fleira sem nýtist manni í eldhúsinu. Eitt box af t.d. pizzuáleggi kostar því undir 300 krónur, og það er auðvitað margfalt ódýrara en að kaupa allt þetta efni í stórum umbúðum. Bara ein dós af fetaosti kostar yfir 300 kr. Sumum finnst kannski fullhart að fylla heilt box af fetaosti eða kirsuberjatómötum en þegar maður þarf að horfa í eyrinn er það ekki annað en sjálfsagt, og enginn getur sagt neitt þar sem boðið er upp á þetta í búðinni. Ég fagna því líka að komnir séu „heilsu“nammibarir í 10/11, því þar er til dæmis hægt að fylla poka af pistasíuhnetum og borga 169 kr f. 100 grömm, á meðan maður borgar ca 300 kr fyrir 150 grömm..

Já ég er í sparnaðarhugleiðingum, sem og margir í kringum mig veit ég, og vil því miðla þessari vitneskju með öðrum.

ps. þessi mynd er nú soldið „trick of the eye“ það er eins og hún sé ekki alveg hornrétt, en samt er hún það.... úúú.
pps. ég var að leita að latneskri orðabók á google og gerði innsláttarvillu. Auðvitað er búið að nýta sér það....:SJ�!

miðvikudagur, nóvember 12, 2003

Jólablogg

mmmmm..... jólin eru að koma... ég var að búa til karamellur og hlusta á jólalög.. hvor dejligt :) Svo ef einhvern langar í karamellur á ég fullan ísskáp... Ég var líka að hlusta á íslensku stöðina og þar byrja jólalögin þann 15. Mér finnst það bara allt í lagi, allavegana getur fólk þá bara hlustað á eitthvað annað vilji það ekki hlusta á jólalögin. Annað mál er með allar milljónirnar af jólaljósunum sem búið var að hlaða utan á Kringluna ílok október. Það finnst mér of mikið. Þetta er líklega gert til að lengja jólavertíðina, en ég kaupi ekkert fleiri jólagjafir þó ég hafi lengri tíma til að kaupa þær... Kannski á maður að kaupa tvö sett af jólagjöfum af því það er svo langt liðið frá því maður keypti þær fyrstu að maður var búinn að gleyma þeim... veidiggi, ekki hef ég ViðskiptaVit.

Spurning dagsins: HVAR er æbleskive-pannan mín??? Hún gæti verið á 2 af 3 heimilum mínum, þ.e. á Kvisthaganum eða á Engi. Hún er ekki ósvipuð þessari hér fyrir neðan, en orðin ævaforn, enda vel notuð gjöf frá danskri ömmu. Allir sem geta veitt einhverjar upplýsingar um pönnuna eru beðnir að hringja í síma 8682140 eða skrifa hér fyrir neðan.

Hér fylgir uppskrift af eplaskífum: (Ég ábyrgist hana ekki þar sem ég hef ekki prófað hana ÞAR SEM ÉG FINN EKKI PÖNNUNA MÍNA!)


Danskar eplaskífur


u.þ.b. 25 stykki

125 gr nýmjólk
125 gr léttsúrmjólk
2 egg (aðskiljið rauðu frá hvítu)
25 gr sykur
2 tsk lyftiduft
250 gr hveiti
Salt eftir smekk
2 tsk kardimommuduft (ekki nota dropa)
Klípa af ósöltuðu smjör

Setjið nýmjólkina, léttsúrmjólkina, eggjarauðurnar, sykurinn, lyftiduftið, hveitið, saltið og kardimommuduftið í skál og hrærið saman.

Þeytið eggjahvíturnar vel þar til þær eru orðnar stífar og blandið síðan varlega saman við hitt hráefnið.

Hitið eplaskífupönnuna vel. Setjið litla klípu af smjöri í hvert hólf pönnunnar áður en deigið er sett í það. Mikilvægt er að baka eplaskífurnar við meðalhita. Þegar deigið er aðeins farið að stífna neðst við pönnuna er hægt að snúa eplaskífunum við í hverju hólfi. Gætið þess að baka þær ekki of mikið áður en þeim er snúið við í fyrstu umferð, þannig að þær nái að verða hringlaga. Setjið alltaf smáklípu af smjöri í hvert hólf áður en næsta umferð af deigi er sett í þau.

Þegar búið er að baka allar eplaskífurnar stráið þá yfir þær flórsykri rétt áður en þær eru bornar fram. Við mælum með gómsætri sólberjasultu með þeim.


æbleskiver


Hver fær ekki vatn í munninn af því að sjá svona eplaskífur?

þriðjudagur, nóvember 11, 2003

Fann þessa fínu mynd af yours truly á Mímisvefnum. Þarna er ég að storka örlögunum hjá Reykjane-svita í haustferð Mímis, félags í íslenskum fræðum.

Björk vínkona (þessi með rauðu augun) er reyndar búin að plata mig með í aðra Mímisferð, í Árnes um næstu helgi. Það er mjög heimskulegt af mér (já og henni, og öllum sem eru í bókmenntafræði á annað borð) að fara í þessa ferð því á þriðjudaginn þurfum við að skila 10 blaðsíðna skáldsöguritgerð. En ég hlæ sko framan í hætturnar.

mánudagur, nóvember 10, 2003

Loksins! Loksins hefur fangamark mitt fengið merkingu! Ég var að lesa í málfræðibókinni minni (já, íslenskubækurnar mínar eru á ensku..og reyndar norsku líka) um málstol..
Þar lærði ég að SLI er skammstöfun fyrir Specific Language Impairment. Það er þegar ung börn geta ekki lært að tala, eða eiga í mjög miklum erfiðleikum með það. Þessi börn sýna engin önnur þroskafrávik og eru að öllu öðru leyti fullkomlega eðlileg.

Það er mér mikill léttir að til sé einhver merking á bak við þetta slepjulega fangamark: SLI [sdlI:]. Einhver annar þarf að líða fyrir þessa skammstöfun.. þó viðkomandi geti ekki lesið það af því að hann kann ekki að tala.. (nei, Svanhvít, vond!)
Mér fannst ég bara þurfa að koma þessu til skila.

sunnudagur, nóvember 09, 2003

Það er of langt liðið síðan ég var með ljóðahorn hér á síðunni. Skal nú bætt úr því.

Þetta er algerlega frumsamið og frumlegt ljóð sem hefur aldrei heyrst fyrr í nokkurri mynd eftir Önnu og Uglu

Bókin sem ég er að lesa (eða sem ég kláraði reyndar í gær því hún er stutt) er Svantes viser, eftir Benny Anderson. Hún er æði, og ég hvet alla sem hafa snefil af dönskukunnáttu og áhuga til að lesa hana.

Þetta lag ættu margir að kannast við... sérstaklega ef þeir hafa einhvern tímann verið í dönsku hjá Guðrúnu "den dejlige" Ragnars:

Svantes lykkelige dag
Tekst og musikk: Benny Andersen


Se, hvilken morgenstund.
Solen er rød og rund.
Nina er gået i bad.
Og jeg spiser ostemad.
Livet er ikke det værste man har
og om lidt er kaffen klar.

Blomsterne blomstrer op.
Der går en edderkop.
Fuglene flyver i flok
når de er mange nok. (uppáhalds línan mín)
Lykken er ikke det værste man har
og om lidt er kaffen klar.

Græsset er grønt og vådt.
Bierne har det godt.
Lungerne fråser i luft.
Åh, hvilken snerleduft!
Glæden er ikke det værste man har
og om lidt er kaffen klar.

Sang under brusebad.
Hun må vist være glad.
Himlen er temmelig blå.
Det kan jeg godt forstå.
Lykken er ikke det værste man har
og om lidt er kaffen klar.

Nu kommer Nina ud,
nøgen med fugtig hud,
kysser mig kærligt og går
ind for at re' sit hår.
Livet er ikke det værste man har
og om lidt er kaffen klar.

laugardagur, nóvember 08, 2003

„...Í tilefni af því þá er Svanhvít Lilja bloggari dagsins (svona eins og Sandra er mað Bloggara mánaðarins) á þessari síðu. Útllitið Bloggsíðan hennar er einstaklega flott að útliti og þar sem Svanhvít er íslenskunemi og mikill áhugamaður um íslenska tungu þá er síðan skrifuð á einstaklega góðri og fallegri íslensku.

Þannig að ef þig eruð orðin þreytt á öllum heimsku stafsetningarvillunum mínum eftir að hafa lesið bloggið mitt er um að gera að skella sér bloggið hennar og verða vitni af því hvað hún er með gott vald á íslenskunni.“


Þetta reit hann Orri elskulegi og sýnir best hans alúðlegheit og mannelsku. Hann á samt ekkert með að lasta eigin skrifgetu og ég vil ekki heyra að hann hafi ekki nógu góð tök á íslenskunni. Það er bara bull og fásinna.

Annars er ég að fara í leikhús í kvöld. Það var skyndiákvörðun dagsins. ég þarf víst að skrifa leikhúsgagnrýni fyrir bókmenntafræðina en við máttum bara fara á þau leikrit sem kennaranum hafði þóknast að fara á. Þau voru þrjú. Ég valdi Ríkharð þriðja af því hann er svo vondur.

fimmtudagur, nóvember 06, 2003Svona er auðvelt að biðja sér konu í dag, "just one click away"
Ég fyrir mitt leyti myndi frekar kjósa gamaldags leiðina.. ef ég verð ekki bara fyrri til...
Ætlaði með betri helmingnum á fyrirlestur Davids Attenborough í Salnum í kvöld. Það var ókeypis inn og byrjaði klukkan 20.30 en húsið opnaði klukkan átta. Því vorum við mætt rétt fyrir átta til að vera svona í fyrra fallinu.. en okkur brá þetta litla þegar við sáum mannsöfnuðinn fyrir utan. Það var röð alla leið frá innganginum í Salinn og meðfram veginum og hálfa leið kringum bókasafnið og varð sífellt lengri og lengri. Við sáum að án drastískra og óheiðarlegra lausna myndum við aldrei ná að komast inn, hvað þá berja kappann augum. Svo við hrökkluðumst í burtu og náðum okkur í eigin skemmtun "á næstu leigu":

Ég var búin að gleyma hvað Fifth Element er góð.


Það er gaman að komast að því að Íslendingar eru svona fróðleiksfúsir. Ég vona að Rut Kebblavíkurmær hafi komist að sjá goðið sitt.(ps. Sjast stafirnir brengladir hja odrum en mjer??)
ooohhh hvad geri eg nuna!!! allir stafir skrambladir.
Ég veit ekki hvort einhver hefur tekið eftir miklum tilfæringum á síðunni síðasta sólarhring eða svo.

Ég var bara í rólegheitunum í gær að leika mér að feitletra fyrirsögn í templatinu, en þegar ég fer þangað svo aftur, kannast ég ekkert við það. Það voru semsagt komnir einhverjir allt aðrir kóðar inn í mitt template og þess vegna gat fólk á tímabili haldið að ég hefði gengið af göflunum og breyst í víetnömsku/bandarísku þunglyndu unglingsstelpuna sem átti síðuna sem þetta template fylgdi. (sjá fyrri póst)

Þetta tókst þó að laga (Atli hjálparhella) og var það auðveldara en það sýndist, bara að skipta um template. En við það tapaðist líka allt sem ég hafði gert sjálf á síðunni, því var ég að setja inn flesta linkana aftur, og nú þarf ég að koma kommentunum aftur í gang (greit), en segið mér endilega ef ég hef gleymt einhverjum link. (Og ekki láta ykkur bregða þó ég hafi skipt um nafn á sumum, ég man ekki einusinni hvað ég gerði fyrst...

Hér eru samt nokkrar af bloggsíðunum sem þessi stelpa linkaði á ef einhver hefur áhuga á að kynnast ólíkum menningarheimum og ágætis (en soldið væminni) grafík.

http://www.livingincaptivity.blogspot.com
http://piggymoopii.pitas.com/
http://pinkjewels.diaryland.com/

síðan ákvað ég að hafa svona fínan geislasóp á síðunni, og ef mér tekst að koma upp kommentakerfinu aftur, þá hef ég verðlaunagetraun: Hvað heitir geislasópur á latínu?

miðvikudagur, nóvember 05, 2003

Jæja þetta er skrýtið. Það er komið eitthvað template frá allt annari manneskju inn í Main Template hjá mér... og þar má meðal annars finna þetta:

I hate being left behind. Whenever there's someone I know who's leaving the country, I feel more and more alone. I might look like the usual go-crazy happy person but behind that is a picture of me in a pitch-black room. Alone. I hate being alone because that's where the feeling of death comes in. In the "real" world you are yourself. But at the end of the day and when you look at yourself in the mirror, you are dead. And Death keeps smiling back at you.

Sjálf get ég ekki skoðað eigin síðu og þess vegna getur líklega enginn lesið þetta!
MÉR LANGAR Í SONA!! GODJESUS hlýtur að vera miklu betra en annaðhvort God eða Jesus

Mæli með þessari síðu: www.engrish.com

En vissuð þið....

...að japönsk smábörn, eins og öll börn í heiminum, skynja muninn á stöfunum 'L' og 'R' sem foreldrar þeirra gera ekki? Síðar missa þau svo þennan hæfileika og fara að tala eins og foredrarnir: "Would you like a flesh drink and flies?"
Málið er að öll smábörn hafa getu til að læra hvaða mál sem er þangað til þau fara að sérhæfa sig í málinu sem er talað í þeirra málumhverfi! Merkilegt? Mér finnst það...

þriðjudagur, nóvember 04, 2003

Matvæli dagsins: Purusnakk. "Þurrsteikt og krydduð svínapura". Þetta þurfti skömmin hún ég auðvitað að prófa í­ dag, allt til að svala forvitninni, en þetta var svo brimsalt að nú þarf ég að drekka marga lí­tra af vatni svo allt saltið í líkamanum hafi eitthvað að gera!

Hvernig datt mér lí­ka í­ hug að borða saltaða sví­nafitu....

Lagatexti dagsins:

"Girlfriend in a coma" með "the Smiths"

Girlfriend in a coma, I know
I know - it's serious
Girlfriend in a coma, I know
I know - it's really serious
there were times
when I could
have 'murdered' her
(but, you know, I would hate
anything to happen to her)
NO, I DON'T WANT TO SEE HER
Do you really think
she'll pull through?
Girlfriend in a coma, I know
I know - it's serious
there were times when I could
have 'strangled' her
(but, you know, I would hate
anything to happen to her)
WOULD YOU PLEASE
LET ME SEE HER!
Do you really think
she'll pull through?
Let me whisper my last goodbyes

I know - IT'S SERIOUS

Dagur dagsins: Dagur Íslenskrar tungu, 16. nóvember.

Tónleikar dagsins: Ókind í Kösukjallara í MR í hádegishléinu.

Ármann dagsins: hér
Í kommentin hér fyrir neðan ætla ég að stofna umræðuþráð um bókina LoveStar eftir Andra Snæ Magnason.

Það kemur til af því að ég þarf að skrifa 10 bls ritgerð um þá bók og langar að skapa líflegar og göfgandi umræður um hana. (Nei, þetta er bara afsökun fyrir því að blogga og þykjast læra um leið)

Útgangspunktar:
-Vísun í Pilt og stúlku. Hversu vel er sögunni fylgt?
-Persónusköpun: er hún nógu sterk?
-Samfélagsrýni: Hvaða hliðstæður getum við séð með heiminum í dag og heiminum eins og hann birtist okkru í LoveStar?
-Er Svanhvít að verða hundleiðinleg af því að vera í íslenskunámi í Háskólanum?

Reynum svo að halda þessu málefnalegu krakkar mínir...

mánudagur, nóvember 03, 2003

Got the creeps... er að hlusta á Twisted Nerve úr Kill Bill.. lagið sem "hjúkrunarkonan" flautar...krípí


Fann ógeðslega mikið af heimskulegum kvissum, dæmi:
What Kind of Birth Control Are You?
What Body Part Are You Most Like?
What's Class Should You Teach?
What Vibrator Are You?
What Lesbian Sex Toy Are You?
What Trojan Condom Are You?
What Sex Sound Are You?

Hmm..
En út í allt aðra sálma. Ég þoli ekki þegar ég er að skrifa orðið Ég á tölvu í byrjun setningar, og það kemur út ÉG. ÉG hef oft lent í þessu og e.t.v. ekki fattað fyrren ég er t.d. búin að senda formlegt email.. dæmi: „ÉG heiti Svanhvít Lilja Ingólfsdóttir. ÉG hef áhuga á samstarfi við ykkur“. Þetta er ömurlegt, eins og maður sé ekkert nema eitt stórt ÉG. Hefur enginn annar lent í þessu?

sunnudagur, nóvember 02, 2003Sjúkt
þetta er massakúl.. þetta lærði ég af henni Lissu


Amma sá afa káfa af ákafa á Samma
eflatmajor
Eb major - you are warm and kind, always there for
your friends, who are in turn there for you.
You are content with your confortable life and
what you are currently achieving; if you keep
in this state you will go far.


what key signature are you?
brought to you by Quizilla

Ég er greinilega sami hljómur og Sandra:)
En hvernig spurning er þetta annars?

Imagine that your personality and psyche have been reduced to a single stone the size of a ping-pong ball. What colour is it?(leturbreyting mín)
Súkkulaðikakan var FEIT í öllum merkingum orðsins. Og góð..

Hér er uppskriftin ef einhvern vantar heví einfalda uppskrift af góðri súkkulaðiköku:
(ég hef ekki hugsað mér að herma eftir henni en mér fannst þetta bara tilvalið)

Kaka

200 g smjörlík
200 g sykur
200 g hveiti (mjög einfalt, 200 af öllu)
200 egg (nei, bara 3 egg)
slatti af kakó, eftir smekk (more is more)
1 1/2 tsk lyftiduft
1 tsk vanilludropar
1 tsk matarsóði
smá salt
Vatn... nóg af því

Smjörlík og sikur saman leingi, svo eitt og eitt egg, þurrefni blandað á meðan, hrært rólega útí. Vatn þar til deigið er orðin góð drulla og hellt í tvö smurð form. 12-15 mín v. 180° gr.

Krem:
Flórsykur
smjörlíki (smjör er betra)
kakó (bráðið súkkulaði er auðvitað alltaf betra)
egg ef vill

Ég gef ekki upp neinar tölur í þessu samhengi, og vitna í Leoncie: "Ég ætla ekki að nefna tölur. Ég ræði aldrei tölur í nokkru viðtali. Þær koma ekki að neinu gagni - nema kannski til að vinna í lottó."

Góðar stundir
Mæli með Kill Bill. Ég hefði ekki trúað að ég myndi hafa gaman af stanslausum bardaga í 2 tíma... og allt blóðið maður! En hún er drullugóð. Hvenær kemur næsta mynd??????

Fór líka á furðuskemmtilega fyrirlestra í gær um Hringadróttinssögu... Það sem stóð uppúr var fyrirlestur Terry Gunnels og upplestur Ármanns Jakobs úr bókinni sinni um LOTR. Sú bók er komin á óskalistann!

Nú ætla ég að fara að baka feita súkkulaðiköku og fara með í heimsókn til Gústa. Ég tek sénsinn á .því að hann sé ekki að lesa þetta svo við getum komið honum á óvart!

fimmtudagur, október 30, 2003

Jæja, fyrsti pakki af linkum kominn inn, lítur ekkert voða flott út en það stendur til bóta. Fann nebblega þessa fínu síðu fyrir fólk eins og mig, Lissa explains it all -- HTML tutorial for kids!
Ég ætla mér að vera orðin mellufær (hver fann upp á þessu ljóta orði?) í HTML eftir mánuðinn.... You´ll see!

miðvikudagur, október 29, 2003

Me duele la rodilla... jeg har ondt i knæet... ich habe Kneeschmerchen... my knee aches... MÉR ER ILLT Í HNÉNU!
Það illt að í­ nótt vaknaði ég oft, sárkvalin, og tókst meira að segja að vekja Steina með vælinu í­ mér. Fór til læknis en hann
gat ekkert hjálpað mér... sagði mér að taka íbúfen. Ég er á því að ég hafi fengið sendingu í­ hnéð... einhverjum er illa við mig!! (ætli íbúfen virki við því?)

Ps. ég vil þakka Inga Einari bjargvætti af öllu hjarta fyrir að brjótast inn í tölvuna mÃína og finna hornklofann sem vantaði á­ html-kóðann til að virkja kommentakerfið. Ingi þú rúlar.

þriðjudagur, október 28, 2003

síðan ég bloggaði síðast er ég búin að...

...fara á aikidoæfingu hjá japönskum meistara
...fara á árshátíð 10/11.
...hitta þar stelpu sem borðar ekki grænmeti
...sjá framkvæmdarstjóra Baugs drekka rammáfengan ógeðsdrykk í boði Audda kynþokkafulla og Sveppa fjölmiðlamanns og leika svo Elvis á eftir
...gista á Hótel Örk
...komast að því að einn Svali á míníbarnum á Hótel Örk kostar 300 krónur
...elda fisk í ofni í fyrsta sinn á ævinni
...læra fullt um máltöku barna
...komast að því að í hnénu er staður sem hægt er að pota í og þá fær viðkomandi niðurgang eftir nokkra daga...
...vera að drepast í hnénu (ekki þess vegna samt:)
...gefa norðurkjallararottum flístyppi fyrir typpasjóðinn sem við söfnuðum síðasta vetur
...vanrækja það að laga kommentakerfið á síðunni
...sauma peysu og fara svo á saumavélanámskeið og sjá hvernig ég hefði átt að sauma hana...
...fá bréf út af ógreiddri stöðumælasekt
...prófa báða mexíkósku staðina (Culiacan og Serrano) en hvorugan beyglustaðinn
...fara í gegnum plötusafnið hjá pabba og mömmu og finna margan gullmolann
...prjóna 2 pör af vettlingum
...sofa
...borða


Svona gerir maður nú margt um dagana

mánudagur, október 20, 2003

Ég er ekkert búin að vera neitt dugleg að blogga undanfarið, skilaði ljóðaritgerðunum á föstudaginn og flúði svo land (fór heim í sveitina) og það var frábært. Mamma kenndi mér flókagerð og við bjuggum til tösku.. hún er æði! Það er hægt að gera allan fjandann úr ull! Hér eru nokkur mögnuð dæmi (skrollið alla leið).

Hér líka..

fimmtudagur, október 16, 2003

Ég er með verklokafælni á háu stigi. Ég á að skila elsku ljóðaritgerðunum mínum á morgun fyrir miðnætti, og það eru engar afsakanir fyrir seinkunum, nema kannski eigin dauðsfall (Á. J.) Ég er búin með aðra, en ég get ekki fengið af mér að klára hina um Guðinn Janus, því ég veit hvað hún er mikið bull og kjaftæði hjá mér. Það er ömurlegt að skrifa fjórar blaðsíður um ljóð sem maður skilur ekki.

Ljóðahorn Svanhvítar - upplestur dagsins er úr ljóðinu Guðnum Janusi eftir Hannes Pétursson
(Með ljóðaupplestrarrödd Helgu Braga)

Búinn tveimur andlitum á ég mér líf
sem engum tekst að skyggna til grunns né kanna
sífellt jafn nýtt og auðugt, engum manna
engum guða; tveimur - en ég klýf

ekki heiminn í gagnstæður. Hér, þar sem ég dvel
að hálfu skýldur bústað er menn sér gjörðu
að hálfu fenginn himni, vindum og jörðu
held ég þráðunum saman í einn: ég fel

í næmri vitund einingu alls þess er fjögur
augu mín skoða: náttúru, hluti og menn.
Það streymir til mín, sameining sönn og fögur.

Um skynjan mína fellur hin hljóða, en hraða
hrynjandi þess sem er til. Berst mér í senn,
einum kliði, hrynjandi stundar og staða.


Takk fyrir.
Bömmer!

miðvikudagur, október 15, 2003

hrrrrr... af hverju virkar þetta ekki.. estoy enfadada, he hecho todo bien! Ef ég gæti myndi ég biðja einhvern að senda mér KOMMENT til að segja mér af hverju KOMMENTIN virka ekki en þá væri ég nú virkilega frekar vitlaus... ikke?

föstudagur, október 10, 2003

Steini elskan mín var svo elskulegur að bjóða mér á tónleika á miðvikudaginn með Stórsveit Reykjavíkur og heimsfrægum trompetleikara, hvers nafn ég man ekki eins og er. Tónleikarnir voru á Borginni og umgjörð var öll sú glæsilegasta. Tónleikarnir voru frábærir, mér leið eins og ég væri í Chicago "in the roaring twenties", kristalsljósakrónurnar og viðarklæðningin hjálpuðu til upp á stemninguna, en kókglösin litlu tvö sem ég borgaði samtals 560 kr fyrir hjálpuðu þó ekki.

Það sem vakti þó einna mesta athygli mína á tónleikunum, (þar sem ég sá ekkert í hljómsveitina nema af og til í skallann á bassaleikaranum og svo Steina, bróður Viggu, sem gnæfði uppúr) var mannlífið í kringum mig. Fyrir framan og aftan okkur safnaðist nefnilega saman alls kyns celebb, ég tek sem dæmi KK, Andreu Gylfa, Jóel Pálsson og Tómas R Einarsson. Toppurinn var þó í hléinu þegar á svæðið mættu fyrrverandi og núverandi borgarstjórar, ásamt fríðu föruneyti, eflaust nýkomin af einhverjum fundinum. Vandamálið var bara það að það var fullt í öll sæti. Mér fannst frábært að sjá að hér á landi erum við ekkert að snobba fyrir fína fólkinu, þau þurftu að mjaka sér um salinn í leit að sætum eins og við hin til að finna loksins eitt borð sem rúmaði þau næstum öll, en Þórólfur þurfti þó að standa... er þetta ekki dásamlegt? Mér finnst það.


Úff púff, pása frá hreingerningum. Ætla að verðlauna mér á eftir með svalandi PEPSI í boði Stúdentaráðs. Húrra fyrir mér, ég á bara eftir að skúra núna.

Hlakka til að fylgjast með IDOL í kvöld, Ingi ljósálfur sagði að Bóas Kristjánsson hefði verið heví stressaður en mjög góður- enda ekki við öðru að búast ef honum...

fimmtudagur, október 09, 2003

Grátur og gnístan tanna.... Ármann Jakobsson er hættur að blogga!!!!!!!

Hvers eigum við að gjalda?
Ó dagar
þegar heimurinn var fiskur
í vörpu ljóðsins.

Ljóðlínur dagsins. Úr ljóði eftir Hannes vin minn Pétursson.

þriðjudagur, október 07, 2003

Ekkert hissa á þessu...

abbey road
Abbey Road


Which Beatles Album Are You?
brought to you by Quizilla
Ef Sigur Rós væru hestar...
Jónas Hallgrímsson

Dregnar eru litmjúkar
dauðarósir
á hrungjörn lauf
í haustskógi.
Svo voru þínir dagar
sjúkir en fagrir,
þú óskabarn
ógæfunnar.

(Jóhann Sigurjónsson)

Ég er að skrifa 4 blaðsíðna ritgerð um þetta ljóð. Það er allt saman gott og blessað miðað við hitt ljóðið sem ég á að skrifa jafnleanga ritgerð um... Guðinn Janus e. Hannes Pétursson. Læt það kannski flakka hér einhvern tímann þegar ég er búin að taka það í sátt.
Mér blöskraði aldeilis í gær.
Ég var í HagkaupUM ('Hagkaup' er fleirtöluorð!) og þar sá ég í einum af fínu kæliskápunum fínan plastbakka frá 'Hollt og gott', sem innihélt niðursneiddan LAUK! Hægt var að fá venjulegan og rauðlauk, magnið var ekki meira en einn laukur, sneiddur. Herlegheitin (tæpur laukur) kostuðu svo 269 krónur. Verðið á lauk í föstu formi er rúmlega 60 krónur per kíló. Enda er það alþekkt staðreynd að laukur er ein ódýrasta matvara sem völ er á á Íslandi. En nú á greinilega að græða á hégómagirnd þeirra sem vilja frekar borga 269 krónur fyrir laukinn sinn sneiddan heldur en 20 krónur eða hvað það er sem að eitt stykki laukur kostar.

Ég hafði orð á þessu við Steina sem benti svo sniðuglega á að vissulega fella flestir tár þegar þeir skera lauk, og gengi ekki markaðshyggjan útá að láta mann kaupa hluti sem maður þarf ekki til að koma í veg fyrir grát?

Nóg komið um lauk.
Ég er nú meiri svolinn. Í gær fór ég í óvissuferð með Mími félagi stúdenta í íslenskum fræðum, á söguslóðir nokkurra íslenskra bókmenntaverka frá 20 öld. Óvissustuðullinn í ferðinni var mjög hár, svo að á tímabili vissi enginn í rútunni hvert við værum að fara, Þ.e. við villtumst... Fyrsta bjórinn fengum við í hendurnar þegar við lögðum af stað klukkan 11, og síðan var innbyrt þvílíkt magn að mér leið eins og versta róna. Ég var líka svo heppin að fá yfir buxurnar mínar all kyns drykkjarföng, kók, bjór, aftur bjór og svo eitthvað ávaxtavín.. Ég var því vel marineruð og angaði örugglega vel.

Haldið var á slóðir skáldsagnanna Tímaþjófsins og Mýrinnar, og æskuslóðir Guðbergs Bergssonar kannaðar. En umfram allt var stoppað á öllum ESSO bensínstÃðvum sem fundust og salernisaðstaðan könnuð. Einnig vættum við margan móann hlandi og skreyttum sígarettustubbum. Það var frekar fyndið að sjá fullt af stelpum með rassana út í loftið að pissa úti í hrauni. Eitthvað sem ég gleymi ekki í bráð.

Endað var á því að grilla í Heiðmörk (þar sem rútubílstjórinn rataði ekki í Herdísarvík) og þar hittum við fyrir gæsahóp að snæða nesti. Gunnari formanni fannst það sniðugt að bera sig soldið við þær, fannst þær líklegat vanta strippara eins og tíðkast þegar gæsir koma samam. Taka má fram að þetta voru gæsir í yfirfærðri merkingu.

Seinna um daginn fórum við öll í eftirpartí (eftirpartí klukkan 18.00???) til Einars stjórnarlims. Þar rétt töpuðum ég og Gunnar og Jón Gestur fyrir breinunum Gunnhildi, Einari, Óla og Katli í því ágæta spili Gettu betur.

Hafandi lofað að mæta í exclusive drykkju og Soul Calibur partí hjá Svenna rölti ég mér út á Skeljagranda og hitti þar fyrir vini mína ofurölvi, sem var einstaklega ánægjulegt, því þá tóku þau ekki jafnvel eftir mínu frekar sorglega ástandi…

Þessi dagur var bara ánægjulegur í alla staði, utan kommentið á brjóstin á mér sem lét mér líða eins og verstu glyðru...! Hann Árni vinur okkar allra benti mér vinsamlegast á að vera ekki með brjóstin svona framan í sér, hann gæti bara ekki annað en snert þau.... Að vísu lét hann ekki til skarar skríða í þetta sinn, þar sem ég rétt náði að kippa þeim úr augsýn, en mér fannst þetta heldur skrýtin ábending, miðað við að ég var ekki einu sinni í flegnum bol…

Já, mannkindin er misjöfn...

föstudagur, október 03, 2003

Í gær fékk ég tvo nýja hluti. Ég fékk saumavél og stöðumælasekt. Stöðumælasektin var töluvert verri fengur en hin fyrrnefnda, en ég kenni aikidofélaga mínum um þar sem ég þurfti endilega að rekast á hann á förnum vegi og elta hann inn á delann þar sem ég þurfti að kaupa handa honum pizzu af því hann var svo fátækur að eiga bara einn 5000 króna seðil. Mömmu minni þakka ég hins vegar fyrir saumavélina. Hún er sænsk og heitir Emma og hún getur allt. Ég held ég ætli að taka hana með í skólann og taka glósur á hana. Ég á örugglega ekki eftir að sjást mikið utandyra á næstunni þar sem ég verð líklega lokuð inni í litlu herbergi með títuprjóna í munnvikunum og saumavélarnið í eyrunum. Þið sjáið mig örugglega næst í misvel saumuðum fötum úr ódýrum efnum, skimandi eftir gömlum flíkum til að bæta og laga. Núna ætla ég einmitt í leiðangur að kaupa mér ýmsa aukahluti sem hver saumakona verður að eiga, málband, krít, tauskæri, títuprjóna, tvinna, EFNI (alltof dýr á Íslandi), góða tónlist, súkkulaði og sprettuhníf.
Hvernig á maður svosem að byrja svona blogg? Á ég að kynna mig fyrir netbúum, segja allt um aldur og fyrri störf og ástæður mínar fyrir því af hverju ég vil endilega vera að deila öllum mínum sorgum og gleði með heiminum?

Ég get gert það...

Ég heiti Svanhvít og er tvítug þegar þetta er ritað og ég legg stund á íslenskunám við hinn háa skóla. Vinnuálagið þar er þó ekki meira en svo að ég hangi meirihlutann af deginum ein heima, við prjónaskap (já þú ert svona myndarstúlka), lestur (gott og blessað) eða (sem mér þykir hvimleiðast), svefn. Til að sporna við algerum heiladauða lungann úr deginum ákvað ég því að byrja að blogga eins og að því er virðist allflestir vinir mínir.

Ég er semsagt að blogga af því mér leiðist. Punktur. Kosturinn er að enginn þarf að lesa það sem ég skrifa því ég hef ekki einu sinni ætlað mér að gera þetta opinbert strax. Síðan sjáum við hvort ég drep mig úr leiðindum áður en ég get farið að drepa aðra úr tjáðum leiðindum.
Jæja, enn einn nýgræðingurinn í Bloggheimum... sjáum hvað ég endist lengi.