fimmtudagur, október 30, 2003

Jæja, fyrsti pakki af linkum kominn inn, lítur ekkert voða flott út en það stendur til bóta. Fann nebblega þessa fínu síðu fyrir fólk eins og mig, Lissa explains it all -- HTML tutorial for kids!
Ég ætla mér að vera orðin mellufær (hver fann upp á þessu ljóta orði?) í HTML eftir mánuðinn.... You´ll see!

miðvikudagur, október 29, 2003

Me duele la rodilla... jeg har ondt i knæet... ich habe Kneeschmerchen... my knee aches... MÉR ER ILLT Í HNÉNU!
Það illt að í­ nótt vaknaði ég oft, sárkvalin, og tókst meira að segja að vekja Steina með vælinu í­ mér. Fór til læknis en hann
gat ekkert hjálpað mér... sagði mér að taka íbúfen. Ég er á því að ég hafi fengið sendingu í­ hnéð... einhverjum er illa við mig!! (ætli íbúfen virki við því?)

Ps. ég vil þakka Inga Einari bjargvætti af öllu hjarta fyrir að brjótast inn í tölvuna mÃína og finna hornklofann sem vantaði á­ html-kóðann til að virkja kommentakerfið. Ingi þú rúlar.

þriðjudagur, október 28, 2003

síðan ég bloggaði síðast er ég búin að...

...fara á aikidoæfingu hjá japönskum meistara
...fara á árshátíð 10/11.
...hitta þar stelpu sem borðar ekki grænmeti
...sjá framkvæmdarstjóra Baugs drekka rammáfengan ógeðsdrykk í boði Audda kynþokkafulla og Sveppa fjölmiðlamanns og leika svo Elvis á eftir
...gista á Hótel Örk
...komast að því að einn Svali á míníbarnum á Hótel Örk kostar 300 krónur
...elda fisk í ofni í fyrsta sinn á ævinni
...læra fullt um máltöku barna
...komast að því að í hnénu er staður sem hægt er að pota í og þá fær viðkomandi niðurgang eftir nokkra daga...
...vera að drepast í hnénu (ekki þess vegna samt:)
...gefa norðurkjallararottum flístyppi fyrir typpasjóðinn sem við söfnuðum síðasta vetur
...vanrækja það að laga kommentakerfið á síðunni
...sauma peysu og fara svo á saumavélanámskeið og sjá hvernig ég hefði átt að sauma hana...
...fá bréf út af ógreiddri stöðumælasekt
...prófa báða mexíkósku staðina (Culiacan og Serrano) en hvorugan beyglustaðinn
...fara í gegnum plötusafnið hjá pabba og mömmu og finna margan gullmolann
...prjóna 2 pör af vettlingum
...sofa
...borða


Svona gerir maður nú margt um dagana

mánudagur, október 20, 2003

Ég er ekkert búin að vera neitt dugleg að blogga undanfarið, skilaði ljóðaritgerðunum á föstudaginn og flúði svo land (fór heim í sveitina) og það var frábært. Mamma kenndi mér flókagerð og við bjuggum til tösku.. hún er æði! Það er hægt að gera allan fjandann úr ull! Hér eru nokkur mögnuð dæmi (skrollið alla leið).

Hér líka..

fimmtudagur, október 16, 2003

Ég er með verklokafælni á háu stigi. Ég á að skila elsku ljóðaritgerðunum mínum á morgun fyrir miðnætti, og það eru engar afsakanir fyrir seinkunum, nema kannski eigin dauðsfall (Á. J.) Ég er búin með aðra, en ég get ekki fengið af mér að klára hina um Guðinn Janus, því ég veit hvað hún er mikið bull og kjaftæði hjá mér. Það er ömurlegt að skrifa fjórar blaðsíður um ljóð sem maður skilur ekki.

Ljóðahorn Svanhvítar - upplestur dagsins er úr ljóðinu Guðnum Janusi eftir Hannes Pétursson
(Með ljóðaupplestrarrödd Helgu Braga)

Búinn tveimur andlitum á ég mér líf
sem engum tekst að skyggna til grunns né kanna
sífellt jafn nýtt og auðugt, engum manna
engum guða; tveimur - en ég klýf

ekki heiminn í gagnstæður. Hér, þar sem ég dvel
að hálfu skýldur bústað er menn sér gjörðu
að hálfu fenginn himni, vindum og jörðu
held ég þráðunum saman í einn: ég fel

í næmri vitund einingu alls þess er fjögur
augu mín skoða: náttúru, hluti og menn.
Það streymir til mín, sameining sönn og fögur.

Um skynjan mína fellur hin hljóða, en hraða
hrynjandi þess sem er til. Berst mér í senn,
einum kliði, hrynjandi stundar og staða.


Takk fyrir.
Bömmer!

miðvikudagur, október 15, 2003

hrrrrr... af hverju virkar þetta ekki.. estoy enfadada, he hecho todo bien! Ef ég gæti myndi ég biðja einhvern að senda mér KOMMENT til að segja mér af hverju KOMMENTIN virka ekki en þá væri ég nú virkilega frekar vitlaus... ikke?

föstudagur, október 10, 2003

Steini elskan mín var svo elskulegur að bjóða mér á tónleika á miðvikudaginn með Stórsveit Reykjavíkur og heimsfrægum trompetleikara, hvers nafn ég man ekki eins og er. Tónleikarnir voru á Borginni og umgjörð var öll sú glæsilegasta. Tónleikarnir voru frábærir, mér leið eins og ég væri í Chicago "in the roaring twenties", kristalsljósakrónurnar og viðarklæðningin hjálpuðu til upp á stemninguna, en kókglösin litlu tvö sem ég borgaði samtals 560 kr fyrir hjálpuðu þó ekki.

Það sem vakti þó einna mesta athygli mína á tónleikunum, (þar sem ég sá ekkert í hljómsveitina nema af og til í skallann á bassaleikaranum og svo Steina, bróður Viggu, sem gnæfði uppúr) var mannlífið í kringum mig. Fyrir framan og aftan okkur safnaðist nefnilega saman alls kyns celebb, ég tek sem dæmi KK, Andreu Gylfa, Jóel Pálsson og Tómas R Einarsson. Toppurinn var þó í hléinu þegar á svæðið mættu fyrrverandi og núverandi borgarstjórar, ásamt fríðu föruneyti, eflaust nýkomin af einhverjum fundinum. Vandamálið var bara það að það var fullt í öll sæti. Mér fannst frábært að sjá að hér á landi erum við ekkert að snobba fyrir fína fólkinu, þau þurftu að mjaka sér um salinn í leit að sætum eins og við hin til að finna loksins eitt borð sem rúmaði þau næstum öll, en Þórólfur þurfti þó að standa... er þetta ekki dásamlegt? Mér finnst það.


Úff púff, pása frá hreingerningum. Ætla að verðlauna mér á eftir með svalandi PEPSI í boði Stúdentaráðs. Húrra fyrir mér, ég á bara eftir að skúra núna.

Hlakka til að fylgjast með IDOL í kvöld, Ingi ljósálfur sagði að Bóas Kristjánsson hefði verið heví stressaður en mjög góður- enda ekki við öðru að búast ef honum...

fimmtudagur, október 09, 2003

Grátur og gnístan tanna.... Ármann Jakobsson er hættur að blogga!!!!!!!

Hvers eigum við að gjalda?
Ó dagar
þegar heimurinn var fiskur
í vörpu ljóðsins.

Ljóðlínur dagsins. Úr ljóði eftir Hannes vin minn Pétursson.

þriðjudagur, október 07, 2003

Ekkert hissa á þessu...

abbey road
Abbey Road


Which Beatles Album Are You?
brought to you by Quizilla
Ef Sigur Rós væru hestar...
Jónas Hallgrímsson

Dregnar eru litmjúkar
dauðarósir
á hrungjörn lauf
í haustskógi.
Svo voru þínir dagar
sjúkir en fagrir,
þú óskabarn
ógæfunnar.

(Jóhann Sigurjónsson)

Ég er að skrifa 4 blaðsíðna ritgerð um þetta ljóð. Það er allt saman gott og blessað miðað við hitt ljóðið sem ég á að skrifa jafnleanga ritgerð um... Guðinn Janus e. Hannes Pétursson. Læt það kannski flakka hér einhvern tímann þegar ég er búin að taka það í sátt.
Mér blöskraði aldeilis í gær.
Ég var í HagkaupUM ('Hagkaup' er fleirtöluorð!) og þar sá ég í einum af fínu kæliskápunum fínan plastbakka frá 'Hollt og gott', sem innihélt niðursneiddan LAUK! Hægt var að fá venjulegan og rauðlauk, magnið var ekki meira en einn laukur, sneiddur. Herlegheitin (tæpur laukur) kostuðu svo 269 krónur. Verðið á lauk í föstu formi er rúmlega 60 krónur per kíló. Enda er það alþekkt staðreynd að laukur er ein ódýrasta matvara sem völ er á á Íslandi. En nú á greinilega að græða á hégómagirnd þeirra sem vilja frekar borga 269 krónur fyrir laukinn sinn sneiddan heldur en 20 krónur eða hvað það er sem að eitt stykki laukur kostar.

Ég hafði orð á þessu við Steina sem benti svo sniðuglega á að vissulega fella flestir tár þegar þeir skera lauk, og gengi ekki markaðshyggjan útá að láta mann kaupa hluti sem maður þarf ekki til að koma í veg fyrir grát?

Nóg komið um lauk.
Ég er nú meiri svolinn. Í gær fór ég í óvissuferð með Mími félagi stúdenta í íslenskum fræðum, á söguslóðir nokkurra íslenskra bókmenntaverka frá 20 öld. Óvissustuðullinn í ferðinni var mjög hár, svo að á tímabili vissi enginn í rútunni hvert við værum að fara, Þ.e. við villtumst... Fyrsta bjórinn fengum við í hendurnar þegar við lögðum af stað klukkan 11, og síðan var innbyrt þvílíkt magn að mér leið eins og versta róna. Ég var líka svo heppin að fá yfir buxurnar mínar all kyns drykkjarföng, kók, bjór, aftur bjór og svo eitthvað ávaxtavín.. Ég var því vel marineruð og angaði örugglega vel.

Haldið var á slóðir skáldsagnanna Tímaþjófsins og Mýrinnar, og æskuslóðir Guðbergs Bergssonar kannaðar. En umfram allt var stoppað á öllum ESSO bensínstÃðvum sem fundust og salernisaðstaðan könnuð. Einnig vættum við margan móann hlandi og skreyttum sígarettustubbum. Það var frekar fyndið að sjá fullt af stelpum með rassana út í loftið að pissa úti í hrauni. Eitthvað sem ég gleymi ekki í bráð.

Endað var á því að grilla í Heiðmörk (þar sem rútubílstjórinn rataði ekki í Herdísarvík) og þar hittum við fyrir gæsahóp að snæða nesti. Gunnari formanni fannst það sniðugt að bera sig soldið við þær, fannst þær líklegat vanta strippara eins og tíðkast þegar gæsir koma samam. Taka má fram að þetta voru gæsir í yfirfærðri merkingu.

Seinna um daginn fórum við öll í eftirpartí (eftirpartí klukkan 18.00???) til Einars stjórnarlims. Þar rétt töpuðum ég og Gunnar og Jón Gestur fyrir breinunum Gunnhildi, Einari, Óla og Katli í því ágæta spili Gettu betur.

Hafandi lofað að mæta í exclusive drykkju og Soul Calibur partí hjá Svenna rölti ég mér út á Skeljagranda og hitti þar fyrir vini mína ofurölvi, sem var einstaklega ánægjulegt, því þá tóku þau ekki jafnvel eftir mínu frekar sorglega ástandi…

Þessi dagur var bara ánægjulegur í alla staði, utan kommentið á brjóstin á mér sem lét mér líða eins og verstu glyðru...! Hann Árni vinur okkar allra benti mér vinsamlegast á að vera ekki með brjóstin svona framan í sér, hann gæti bara ekki annað en snert þau.... Að vísu lét hann ekki til skarar skríða í þetta sinn, þar sem ég rétt náði að kippa þeim úr augsýn, en mér fannst þetta heldur skrýtin ábending, miðað við að ég var ekki einu sinni í flegnum bol…

Já, mannkindin er misjöfn...

föstudagur, október 03, 2003

Í gær fékk ég tvo nýja hluti. Ég fékk saumavél og stöðumælasekt. Stöðumælasektin var töluvert verri fengur en hin fyrrnefnda, en ég kenni aikidofélaga mínum um þar sem ég þurfti endilega að rekast á hann á förnum vegi og elta hann inn á delann þar sem ég þurfti að kaupa handa honum pizzu af því hann var svo fátækur að eiga bara einn 5000 króna seðil. Mömmu minni þakka ég hins vegar fyrir saumavélina. Hún er sænsk og heitir Emma og hún getur allt. Ég held ég ætli að taka hana með í skólann og taka glósur á hana. Ég á örugglega ekki eftir að sjást mikið utandyra á næstunni þar sem ég verð líklega lokuð inni í litlu herbergi með títuprjóna í munnvikunum og saumavélarnið í eyrunum. Þið sjáið mig örugglega næst í misvel saumuðum fötum úr ódýrum efnum, skimandi eftir gömlum flíkum til að bæta og laga. Núna ætla ég einmitt í leiðangur að kaupa mér ýmsa aukahluti sem hver saumakona verður að eiga, málband, krít, tauskæri, títuprjóna, tvinna, EFNI (alltof dýr á Íslandi), góða tónlist, súkkulaði og sprettuhníf.
Hvernig á maður svosem að byrja svona blogg? Á ég að kynna mig fyrir netbúum, segja allt um aldur og fyrri störf og ástæður mínar fyrir því af hverju ég vil endilega vera að deila öllum mínum sorgum og gleði með heiminum?

Ég get gert það...

Ég heiti Svanhvít og er tvítug þegar þetta er ritað og ég legg stund á íslenskunám við hinn háa skóla. Vinnuálagið þar er þó ekki meira en svo að ég hangi meirihlutann af deginum ein heima, við prjónaskap (já þú ert svona myndarstúlka), lestur (gott og blessað) eða (sem mér þykir hvimleiðast), svefn. Til að sporna við algerum heiladauða lungann úr deginum ákvað ég því að byrja að blogga eins og að því er virðist allflestir vinir mínir.

Ég er semsagt að blogga af því mér leiðist. Punktur. Kosturinn er að enginn þarf að lesa það sem ég skrifa því ég hef ekki einu sinni ætlað mér að gera þetta opinbert strax. Síðan sjáum við hvort ég drep mig úr leiðindum áður en ég get farið að drepa aðra úr tjáðum leiðindum.
Jæja, enn einn nýgræðingurinn í Bloggheimum... sjáum hvað ég endist lengi.