mánudagur, mars 31, 2008

Meiri helgin


Þetta var stórmerkileg helgi. Ekki að ég sjálf hafi gert neitt merkilegt, nema skemmt mér, og þá sérstaklega við að fylgjast með einkasápuóperunni minni á Bustamante 273. Hún tekur öllum venesúelskum sápum fram, og ég fæ að fylgjast með í beinni, og meira að segja taka þátt. Það er búið að vera svo mikið drama hér á bæ síðan ég kom að Kelly (bandaríska vinkona mín, sem var reyndar að flytja annað rétt áðan, sniff) segir að ég hljóti að hafa þessi áhrif, einhvers konar anti-ástarengill. Allt fer í háaloft í kringum mig og ég fylgist með, með popp í annarri og kók í hinni (nei annars, poppið hér er vont, það er sykrað).

Það væri of langt mál að telja upp allt dramað, en þar á meðal er t.d. nýja gringan sem spyr asnalegra spurninga og rambaði lengi um hvað hún þyldi ekki hassreykingar við Amber (sem eins og dyggir aðdáendur sápunnar muna er hippastelpan sem reykir meira en The Dude í Big Lebowski), Kólumbíumaðurinn Javier og mamma hans sem ætluðu að vera í hálfan mánuð en þurftu skyndilega að fara eftir þrjá daga, vinirnir fjórir sem komu frá Valparaíso til að heimsækja okkur og ofurafbrýðisamur vinur Kelly sem var næstum búinn að drepa (já) einn af þeim, biluð lyfta um miðja nótt með mér og þeim afbrýðisama og flösku af pisco föstum innanborðs (þurfti að stökkva milli hæða), mikil óendurgoldin ást, og það sem er virkilega ömurlegt, Rodrigo, sem ég leigi hjá, var að hætta með kærastanum eftir fimm ára samband. Grátandi, öskureiðir, sorgmæddir, afbrýðisamir, ástfangnir og hryggbrotnir karlmenn í öllum hornum og við skandinavísku fylgjumst furðu lostnar með þessu öllu saman.

En þetta er þó ekki nema hluti af dramatíkinni í Santiago þessa helgina, því í gær var "Dagur hins unga baráttumanns" þar sem minnst er morðs á bræðrum sem voru drepnir 1985 þegar þeir voru að mótmæla herforingjastjórn Pinochets.

Í fyrra voru meira en sjö hundruð manns handtekin fyrir óspektir, og því voru lögreglumenn bókstaflega alls staðar í gær og fyrradag (mótmælin byrjuðu á föstudeginum), og nú var talsvert minna um óeirðir (bara 230 handteknir, og einn var drepinn). Á föstudaginn var gefið frí í skólum og vinnustöðum í miðborginni seinnipartinn til að fólk kæmist öruggt heim til sín (íhaldssami háskólinn minn sendi póst en sagði ekki einu sinni af hverju við fengjum frí), og lögreglan notaði táragas og vatnssprengjur til að reyna að stilla til friðar. Þetta eru ekki mjög málefnaleg mótmæli og að miklu leyti krakkar og "óeirðaseggir" sem nota tækifærið til að kúka á götuna og lemja fólk, af því þeir geta það. (Nei, mamma, amma, hver sem er hræddur um mig, ég fór ekki niðrí bæ og var ekki í neinni hættu.)

En þetta gengur ekki, lærdómurinn bíður, og skattaskýrslan. Best að gera eitthvað. Lifið heil.

föstudagur, mars 28, 2008

Vonandi höfðuð þið það öll gott um páskana. Mínir páskar voru góðir, í paradísinni Valparaíso og Viña, þar sem ég skoðaði meðal annars tvö hús Pablos Neruda (hann átti þrjú sem chileíska ríkið erfði, nú á ég bara eftir að sjá það sem er í Santiago). Annað er í Valpo og hitt í Isla Negra, sem er þrátt fyrir nafnið ekki eyja, og ekki svört, heldur mjög fallegur staður við sjóinn, þar sem Neruda var með frábært útsýni yfir hafið úr svefnherberginu sínu. Hann liggur þar grafinn við hlið þriðju og síðustu eiginkonu sinnar, Matilde.
Hann var forfallinn safnari, safnaði allskyns glerflöskum og glösum úr lituðu gleri (sagði að vatn bragðaðist betur úr lituðum glösum), eftir hann liggur ótrúlegt skelja- og kuðungasafn og fornmunir frá Evrópu og alls staðar að, stafnmyndir skipa og fleira. Þetta er allt til sýnis í húsunum hans, sem eru öll undarleg í laginu, ýmist eins og skip eða legókastali, þar sem hæðirnar virðast hafa sprottið upp hver af annarri.

Við fórum fjórar stelpur, hver frá sínu landinu, (Skandinavíu og USA) og fengum far með vini Mörtu, honum Jorge (Georg). Hann er ekki maður margra orða, hlustar á Phil Collins og Maná og er eini Chilebúinn sem ég átti erfitt með að halda uppi samræðum við. Venjulega geta þeir blaðrað endalaust um ekki neitt án þess að hafa fyrir því. Þá list þurfum við norrænir að læra ef við ætlum á suðrænni slóðir. Vinna í því.

Vinir Jorges (og Mörtu) voru öllu hressari (þótt Jorge væri æði, keyrði okkur og leyfði okkur að gista í íbúðinni sinni, með maurum og öllu). Saman vorum við öll mestalla helgina, og þeir sem vilja geta séð hjá mér myndirnar sem eru á Facebook, ófésbókarar geta bara sent mér meil ef þeir vilja link á myndirnar: sli [hjá] hi.is.

Það var mikið gert grín að mér út af spænska hreimnum (þá meina ég hreimnum frá Spáni), og ég var kölluð 'tía' alla helgina, því það er orð sem þýðir 'frænka' en er líka notað fyrir 'gaur' eða 'gella/kona/stelpa' á Spáni, en ekki í Rómönsku Ameríku. Fólk hér spyr mig meira að segja hvort ég sé spænsk, og það eftir bara eina setningu (ég er einmitt svo spænsk í útliti). Það er greinilega ekki nóg að hætta að segja 'þ' og segja 'ustedes' en ekki 'vosotros' (sem þýðir 'þið') því hrynjandin og 's'-in mín eru svo innilega spænsk. Vinna í því líka. Það versta er að ég heyri þetta ekki sjálf, svo ég veit ekki hvernig ég á að laga það. Þarf að hlusta á konurnar hérna tala og reyna að herma eftir þeim. Mér finnst þær tala fallega, þótt Chilebúar segi sjálfir að spænskan hér sé ljótasta spænskan (á eftir argentínskri, auðvitað, enda allt slæmt sem kemur frá Argentínu).

Yfir og út, góða helgi,
Lilia


fimmtudagur, mars 20, 2008

Skírdagur, er það ekki? Það er ekki að sjá hér, því allir eru í vinnu, allar búðir opnar og allir í skólanum (nema við í þeim kaþólska, fengum frí um hádegi í dag). Morgundagurinn er eini dagurinn sem fólk hér fær í páskafrí. Svo þar sem páskafríið er svo stutt komumst við Marta norska ekki norður eins og við ætluðum, heldur ætlum að skreppa til Viña del Mar, sem er strandbær í eins og hálfs tíma fjarlægð frá Santiago. Förum á eftir og ætlum að vera þar yfir helgina, ég, hún og Kelly, sú bandaríska. Við fáum far með vini Mörtu og gistum hjá öðrum vinum hennar, svo það verður víst lítið um útgjöld. Ég er þó meira spennt fyrir Valparaíso, sem er bara nokkra kílómetra frá Viña, ótrúleg borg, þar sem allt er meira og minna svona. Viña er meira túristabær, með dýrum hótelum og börum, en Valparaíso er ekta, gömul hús og mikið um að vera. Það er víst hvergi betra að vera um áramót en í Valparaíso, hver er memm?

Jæja, best að pakka niður fyrir ströndina... gleðilega páska!
.


sunnudagur, mars 16, 2008

Sunnudagur. Ég þreif baðherbergið. Það hlaut að koma að því, ég er meira að segja hissa að ég var ekki löngu búin að því. Það er viðbjóður, og enginn virtist ætla að þrífa það heldur. En nú er það skárra. Það eru reyndar þrjú baðherbergi í húsinu, en við erum þó þrjár um þetta.

Ég held það sé kominn tími til að ég segi aðeins frá íbúðinni og fólkinu sem ég bý með (núna. Þar sem þetta eru útlendingar koma þeir og fara, og í næsta mánuði verða allir farnir nema ég og norska stelpan.)


Við erum sex sem búum hérna, Rodrigo, sem sér um íbúðina, og kærastinn hans er líka talsvert hérna, og líka systir Rodrigos, Pipi. Svo eru Kelly og Amber frá Bandaríkjunum, Marta frá Noregi og Raymond frá Þýskalandi. Og ég, frá Lazytown (hér ganga allir krakkar í Sollu stirðu- og Íþróttaálfsfötum).
Rodrigo er frábær. Hann vinnur mikið, svo ég sé hann eiginlega ekkert virka daga, en um helgar finnst honum voðalega gaman að skvetta úr klaufunum og þá er hann gífurlega hress. Hann er ekki búinn að segja mér að hann sé hommi, en hommaradarinn minn fór að tikka eftir nokkra daga. Það eru talsverðir fordómar hérna ennþá, þótt það sé að breytast mjög hratt til hins betra á síðustu árum, en þetta er auðvitað mjög kaþólsk þjóð, svo hann og kærastinn leiðast ekkert úti á götu eða neitt, og þurfa svolítið að fela sambandið, eða finnst það greinilega. Það finnst mér sorglegt, þeir hafa verið saman í fleiri ár held ég, og það hlýtur að vera ömurlegt að fela hver maður er og hvern maður elskar.
Kelly, stelpa frá Maryland (eins og kexið), sagði að mamma hennar hefði verið mjög fegin að strákurinn sem hún væri að fara að búa með væri hommi. Mamman á fimm systkini og þar af eru þrjú samkynhneigð. Það eru 50% af börnum aumingja ömmu hennar Kelly, sem er kaþólsk mjög, svo eitthvað hefur reynt á þolrifin þar. Hins vegar er núna komin upp skrítin staða, þ.e. að einn bróðirinn (gagnk.hn.) er að fara að gifta sig. Hann er yfir fimmtugt, og ætlar að kvænast frænku sinni, þ.e. þau eru systrabörn. Aldursins vegna eru þau ekki að fara að eignast börn, og þetta má í þessu tiltekna ríki í USA, svo þetta ætti að vera alveg á hreinu, en þetta stuðar mann samt svolítið, og fjölskyldan er í uppnámi út af þessu. Það er þó svo erfitt fyrir þessa tilteknu fjölskyldu að gagnrýna þetta fyrirkomulag og vera með fordóma, eðli málsins samkvæmt, svo þetta er fjölskyldudrama eins og það gerist best. Kelly er mjög fín og við getum blaðrað endalaust. Fyrst fannst mér hún eitthvað köld, en hún er bara feimin, þ.e. á sumum sviðum. Hún til dæmis skilur flest sem sagt er á spænsku, en talar hana ekki, þótt hún hafi lært í mörg ár.
Amber hins vegar, hin bandaríska stelpan, er algjör andstæða hennar hvað þetta varðar, því hún talar spænsku út í eitt þótt hún kunni mjög takmarkað. Hún bara talar, með öllum sínum vitleysum og hikorðum og bullorðum, en það er bara gaman að því, og hún á eftir að læra mjög hratt. Hún er gífurlega hress og léttgeggjuð, mjög skemmtileg. Kelly gerir grín að Amber fyrir að bulla svona mikið, hún fer eitthvað hjá sér, og það særir Amber mjög mikið, svo það er svolítil spenna að myndast þar, því það er kannski ekki sniðugt að gera grín að einhverjum sem þorir að tala ef maður þorir það ekki sjálfur.
Marte frá Noregi er gullfalleg, kaffibrún eftir að hafa komið beint frá Vina del Mar þar sem hún var í málaskóla, og ofsalega indæl. Hún verður alveg þangað til í júlí í íbúðinni, sem er gott, því hún er alltaf til í að hanga og er mjög skemmtileg. Hún er svona manneskja sem lítið er hægt að segja um því hún er svo góð og indæl eitthvað.
Raymond hinn þýski er svo síðastur. Hann er svona pínu dularfullur, til dæmis veit ég ekkert hvað hann er gamall. Ég hélt hann væri svona um tvítugt, en hann segist vera 27 ára. Ég eiginlega trúi því ekki, því hann einhvern veginn virkar alls ekki þannig (Rodrigo ætlar að njósna, segjast þurfa að sjá vegabréfið hans út af leigusamningnum). Hann líður svolítið fyrir að við hinar erum allar stelpur og sitjum inní stofu og kjöftum um stráka heilu kvöldin, en hann fer með hvítvínsflösku inn í herbergi og vinnur (jarðfræðieitthvað fyrir lokaverkefnið sitt í háskólanum).
Þetta eru semsagt meðleigjendurnir. Svo er allskonar fólk sem kemur og fer, sem setur mikinn svip á íbúðina. Til dæmis er kærasti Rodrigos söngvari, mjög góður tenór, og í fyrradag kom hann hingað til að æfa með stelpu, Ave Maríu Schubert, fyrir brúðkaup sem þau fóru í í gær. Það var æði að hlusta á þau syngja, og þegar þau komust að því að ég syng líka fórum við að leita að lögum sem við kynnum öll, og sungum t.d. Amazing grace og Ave verum corpus. Þau buðu mér á kóræfingu á þriðjudaginn, hjá Mozartkórnum, svo ég ætla að prófa það.
Söngkonan sem söng með honum er alveg dásamleg, syngur eins og engill, og er bara sextán ára! Hún var uppgötvuð fyrir tveimur árum og hefur verið að syngja síðan. Hún er algjör náttúrutalent, með perfect pitch og æðislega tæra sópranrödd. Við urðum strax bestu vinkonur, og ég er búin að ákveða að hún sé litla systir mín í Chile, enda minnir hún mig líka soldið á Maríu Sól systur, þær eru líka jafngamlar og syngja báðar.

Við fórum öll út saman í gær, og það var mjög gaman. Systirin átti afmæli svo hún var í miklu stuði, og eftir að við höfðum dansað á einhverjum stað í svona 4 klst. og við vorum öll á leiðinni heim, fór hún ekki heim heldur á 'after', sem er týpa af skemmtistöðum þar sem er opið eftir að allir staðirnir loka um fjögur- fimmleytið. Þeir eru tæknilega séð ekki leyfilegir, og erfitt að sjá utan frá hvar þeir eru, en fólk veit bara af þeim og þeir eru mjög vinsælir, ef maður vill drukkna í eigin svita og annarra. Ég hef aldrei farið, en það kemur líklega að því. Skandinavarnir og Kanarnir eiga mjög erfitt með að aðlaga sig þessu djammtempói, að fara ekki út fyrr en kannski eitt, en Íslendingurinn ég þekkir ekki annað.

Íbúðin er á besta stað í bænum, ég held það sé engin lygi, og almenningsgarðurinn hérna fyrir utan bjargar alveg lífi mínu í allri menguninni. Hann er líka fullur af lífi, t.d. bauð bæjarstjórnin upp á tónleika þar í gærkvöldi, reyndar með alveg hræðilegri tónlist, en það er sama, við hlustuðum, enda gátum við ekki annað, því sviðið er hér beint fyrir neðan. Í dag heyrði ég óm af trompeti, gítar og söng, og hélt einhver væri að hlusta á geisladisk, en þegar ég leit út um gluggann sá ég fjóra ekta mariachi-söngvara í fullum skrúða í garðinum fyrir neðan spila og syngja hástöfum. Reyndar er talsvert vinsælt í Rómönsku Ameríku að fá mariachi-söngvara í heimsendingu, enda er það þannig sem þeir vinna, ferðast á milli og spila og syngja. Ég fletti upp hvað kostar að fá mariachi til að koma, og það er kannski 15-20 þúsund kall fyrir fjóra gaura. Þetta þykir voða rómó, til dæmis ef bera á upp bónorð.
Svo eru alltaf einhverjir að æfa sig að djöggla, og um daginn voru tveir gaurar að leika sér að spila á blokkflautu og gítar. Ég myndi sem sagt segja að ég væri um það bil á besta stað í bænum, ef ekki heiminum, akkúrat núna.fimmtudagur, mars 13, 2008

Úbbs... vissi ekki fyrr en í dag að litlu krakkarnir sem setja matinn minn í alltof marga poka í búðinni fá ekkert borgað nema þjórféð sem ég gef þeim - nema ég bara vissi ekki að ég ætti að gefa þeim þjórfé. Svo í dag lét ég litla strákinn við kassann fá hundrað pesóa, sem ég veit ekkert hvort er of mikið eða lítið eða hvað, en allavega hurfu þeir ofan í vasann hjá honum orðalaust svo líklega er það sirka rétt. Og ef allir sem koma á kassann gefa honum eitthvað svoleiðis ætti hann alveg að ná upp í inneign á símann sinn.

Fleiri punktar úr Santiago síðustu daga:
- ég er orðin góð, batnað að mestu af útlendingaveikinni
- götuhundarnir hérna fara bara yfir á grænu
- kettirnir kunna hins vegar ekki á umferðarljós
- hér geta konur gefið brjóst þar sem þær vilja. Merki um að eitthvað sé að minnsta kosti í lagi
- hér er avókadómauk (ekki guacamole, bara maukað avókadó) borðað með bókstaflega öllu. Ofan á ristað brauð, í "einni með öllu", í öllu sushi, og það er hægt að bæta því við fyrir auka 400 pesóa á alla rétti á skyndibitastöðum.
- Amber frá Bandaríkjunum sem býr hérna í íbúðinni er æði. Hún er frá Chicago, reykir marijúana eins og strompur og talar á bæklaðri spænsku um allt milli himins og jarðar. Hún sagði að vandamálið á Íslandi væri "með fullri virðingu" að það væri alltof leiðinlegt, kalt og lítið af fólki, og lausnin væri að reykja meira gras.
- hér bæta menn orðinu "po" aftan við allt sem þeir segja. "Sí, po." No, po." og svo framvegis, po.
- í Santiago telst fólk ekki fátækt ef það græðir meira en 95 dollara á mánuði (rúmur 6000 kall). Samt er Santiago dýrasta borg í Suður-Ameríku. Eitthvað bogið við það.

þriðjudagur, mars 11, 2008

Leiðinlega færslan

Daginn í dag átti sko að taka með trompi. Fara í útlendingaeftirlitið og fá námsmannavísa, fara til lögreglunnar og vera skráð inn í landið og fara svo og fá nafnskírteini (eftir því sem ég best skil). Fara í stöðupróf í spænsku klukkan 15 og í seminar í bókmenntum klukkan 18, og jafnvel kíkja á kóræfingu hjá einum af kórunum sem ég get farið í.

Ég fór með öll skjölin mín, ljósrit og passamyndir á staðinn sem fína útlendingahandbókin mín sagði mér að fara á, en þar sagði lögga mér að útlendingaskrifstofan væri flutt. Ég fann auðvitað ekki staðinn þar sem hann átti að vera, labbaði fram og til baka og spurði aðra löggu og þá allt í einu birtist inngangurinn... eitthvað duló. Þar þurfti ég að taka númer og bíða í biðsalnum þar sem biðu svona 50 manns, flestir frá alls kyns löndum í Suður- og Mið-Ameríku sýndist mér, konur með Bólivíuhatta og fleiri, komnir í fyrirheitna landið þar sem á að vera miklu betra að búa en í heimalandinu. Þar komst ég að því að nú er ekki lengur hægt að skila pappírunum inn á skrifstofuna, heldur verður allt að fara í gegnum póst. Svo ég tók mér réttu eyðublöðin (vonandi) og fór út án þess að tala við nokkurn mann. Nú þarf ég bara að senda þessi skjöl og vona að það gangi hratt fyrir sig að fá vísað, því ég á allt hitt kjaftæðið eftir.

En þegar ég var búin að öllu þessu (sem sagt engu) og þramma út um allan miðbæ í óvenju miklum kulda, var ég orðin eitthvað skrítin, illt í maganum og með höfuðverk og beinverki. Ég sá fyrir mér með hryllingi að taka tvo annaðhvort alltof heita og troðna eða alltof kalda metróa, svo ég splæsti í leigubíl heim (sem kostaði samt miklu minna en strætómiði í RVK) og fór að sofa, svaf af mér prófið (viljandi) og nú er ég líka að hætta við að fara í seminarið sem ég ætlaði í, því ég er bara alveg hundlasin. Þá er ekkert annað að gera en liggja fyrir og reyna að vera ekki í of mikilli fýlu út af þessu öllu saman.

laugardagur, mars 08, 2008

Salsa...

...er erfitt. Púff. Eftir útlendingagrillið í gær fór ég á salsaklúbb með stelpum frá Chile, sem auðvitað fengu dansinn í sig með móðurmjólkinni, svo ég átti fullt í fangi með að halda í við þær. Dansaði við nokkra gamla karla sem vildu endilega kenna mér, það var ágætt. Ég ætla að verða orðin sæmileg í lok árs.
Gaurinn sem við borguðum aðgangseyrinn varð svo þrumu lostinn yfir að fá svona gringu* inn á staðinn að hann var eiginlega orðlaus, muldraði 'diosa' og fiskaði svo upp úr jakkavasa á snaga boðsmiða á staðinn "svo ég kæmi aftur". Ljóshært er vinsælt, það er á hreinu.
Ég skil þessa dýrkun á ljóskum alls ekki, eins og konurnar hér eru stórglæsilegar og þúsund sinnum flottari en ég. Í gær var ég að skoða í búðarglugga (á prjónabúð, fullt af þeim hér, sem betur fer) og heyri í manni sem situr í bíl og er að tala í gemsann og segja "Ég er að horfa á ljóshærða stelpu hérna á horninu..." Þá fór ég svo ég heyrði ekki afganginn, en ég skil ekki hvað í ósköpunum manneskjan á hinum endanum hefði átt að gera við þær upplýsingar.)
Ég segi þetta meðvituð um að á Íslandi er ég hin allra venjulegasta stelpa (og ekkert að því), en hér er ég 'headturner', sem mér finnst fáránlegt meira en nokkuð annað. Það er erfitt að tala um þetta án þess að hljóma montinn, en þetta er nú bara mannlífsstúdía, að mínu mati mjög áhugaverð.
Þessir karlar meina ekkert með þessu, eru bara að segja það sem þeim finnst, eða það sem samfélagið ætlast til að þeir segi/finnist. Þetta gerist auðvitað ekki á campusnum, heldur úti á götu, sérstaklega í fátækari hverfum, og það eru aðallega karlar í eldri kantinum sem láta svona. Þetta er svo eðlilegur hluti af lífi þeirra, þótt manni þyki stórfurðulegt að vera kölluð 'gyðja' eða 'dásamleg' úti á götu, alveg óháð því hvað manni finnst maður ómögulegur eða myglaður sjálfur.

*gringa (kvk) og gringo (kk) eru venjulega notuð yfir Bandaríkjamenn í Suður-/Mið-Ameríku en merkja eiginlega líka bara allir útlendingar sem eru vestrænir í útliti.

fimmtudagur, mars 06, 2008

Ofsalega var ég fegin í morgun þegar ég opnaði risagluggann á herberginu mínu að finna að það var sæmilega kalt í dag. Auðvitað sól, en kaldara en síðustu daga. Ég spreyja á mig sólarvörninni sem ég keypti í USA og finnst ég vera að þekja mig í klístruðum eiturefnum sem smjúga inn í húðina og loka öllum náttúrulegum útgönguleiðum svita. Svo bæti ég nr. 70 í andlitið, og þá er ég tilbúin í daginn. Opna dyrnar með því að taka úr bæði litla lásnum og tvöfalda hlussulásnum og læsi aftur þegar ég er komin út. Hlusta á Villa Vill eða Scissor Sisters eða Joni Mitchell eða hvað sem er næst á dagskrá í mp3-spilaranum á leiðinni í metróinu, 7 stopp en engin skipti, en viðbjóðslega troðið á stundum. Á mánudag mátti lesa um það í blöðunum hvað metróið og míkróarnir (strætóarnir) voru stappfullir allan daginn því þetta var fyrsti dagurinn hjá svo mörgum eftir sumarfríið (Almenningssamgöngukerfið í Santiago er kapítuli út af fyrir sig og um það skrifa ég einhvern tímann).

Á campus tekur á móti manni risastytta af Jesú* og allt er grænt og mikið um tré. Þetta er stærsti campusinn, San Joaquin, (heilagur Jóakim, já, það heitir allt eftir dýrlingum hérna) og sá nýlegasti. Mín háskólabygging, Facultad de Letras, er ein fjögurra hugvísindabygginga sem mynda nokkurs konar garð í miðjunni, þar sem nemendur slappa af milli tíma.

Ég er búin að fara í svona sjö mismunandi tíma og litist vel á suma, verr á aðra. Ég útiloka strax kennara sem mér finnst ómögulegt að skilja, t.d. þann sem var svo ægilega smámæltur og muldraði allt í barm sér. Ég veit af fenginni reynslu að með svoleiðis kennara læri ég bara helmingi minna, þótt kennarinn sé fínn, sem og kúrsinn. Mér sýnist ég því ætla að enda með bara kvenkyns kennara, enda held ég að ég skilji þær betur. Annars er gaman að sjá hvað fræðimenn alls staðar í heiminum eru eins. Sú sem er yfir þýðingafræðideildinni kvartar yfir að fá ekki nægt fjármagn frá skólanum (finnst ég kannast við það), kennarinn í túlkun lítur niður á þá sem ekki hafa lært túlkun í skóla og hræðsluleiðin er líka farin hér við að sigta óæskilega úr fjölmennum kúrsum (“textarnir sem þið þurfið að lesa eru mjög erfiðir, sumir næstum óskiljanlegir”). Nemendurnir eru líka eins; kennarinn spyr hver bjóði sig fram til að halda fyrirlestur um fyrstu greinina sem á að lesa, og bíður svo í svona mínútu (langur tími) eftir svari en fær ekkert. Enda ekki hér eins og í Bandaríkjunum að maður fái hærri einkunn fyrir að láta mikið fyrir sér fara í tímum.

Ég verð líka að segja frá einum kennaranum, hann leit svo yndislega furðulega út. Hann var í snjakahvítri skyrtu, fínum buxum og grænu vesti með rautt bindi upp í háls, um 35 ára, af þýskum ættum (eins og margir hér) greinilega massaður, með blá stingandi augu, skipt ógeðslega nákvæmlega í miðju og lokkarnir sleiktir aftur á hnakka, tveggja daga skeggrót og hrikalega myndarlegur, og eiginlega bara á allan hátt eins og Súpermann að reyna að klæða af sér súpermannleikann. Háskólakennarafötin og þessi hræðilega greiðsla gerðu hann eitthvað svo æðislega hlægilegan. Svo fór hann að tala um bókmenntir, kúrs sem mig myndi alveg langa til að sitja, en ég fæ ekki einingar fyrir hann, og þá sá maður hvernig hann ljómaði og ég varð að viðurkenna að útlitið er ekki allt, Clark Kent getur alveg verið bókmenntafræðikennari.

Eins og stendur ætla ég að taka kúrs í túlkun, þ.e. að læra tæknina sem túlkar nota við lotutúlkun (eitthvað sem ég hélt að væri lífsins ómögulegt að læra), og svo fleiri þýðingafræðikúrsa, teoríu og fleira, og kannski einn um konuna í Chile (Eftir að hafa lesið leikritið Dómínó eftir Jökul Jakobsson finnst mér alltaf erfitt að tala um “konuna” og stöðu hennar því það er svo æðislega tekið fyrir þar. En kúrsinn er semsagt um konur og menningu þeirra í Chile).

Ég finn alveg fyrir að það er betra að vera meistaranemi en á grunnstigi, því kennararnir taka betur á móti manni, sérstaklega í þýðingafræðinni, þegar ég segist vera að læra það. Námið semsagt leggst ágætlega í mig, þótt einingakerfið sé frústrerandi, því það sem heita 8 einingar hér, og er heill kúrs með ágætlega mikilli vinnu, reiknast yfir í 2,4 einingar á íslenska skalanum.

Ég er satt að segja ekki búin að gera mikið annað en að fara í skólann og vera ekta skiptinemi, spjalla við hinar ljóshærðu stelpurnar sem eru hér í alveg sama tilgangi (a.m.k. frá Chile-búum séð) og eru langflestar frá “Los Estados Unidos”, þ.e. Bandaríkjunum. Vildi bara að ég hefði meiri “cojones” og þyrði að tala meira við fólkið héðan. Það kemur.

Jú, fyrsta daginn fór ég í partí með Gonzalo vini mínum, það var arkitektapartí í alveg æðislegu húsi, eldgömlu með bleikum veggjum skreyttum með alls kyns gömlu dóti, höttum, byssum, gömlum ljósmyndum og málverkum, og rosalega hátt til lofts eins og á byggðasafni eiginlega, eða í höll. Svo var lítil sundlaug með engu vatni úti í garði og þar sátum við og spjölluðum og dönsuðum, og ég reyndi að skilja eitthvað af chile-slangrinu. Svo var mér skutlað heim að dyrum, eftir stopp á bæjarins bestu, þar sem allir (nema ég) fengu sér pulsu. Hér eru pulsur í pulsubrauði með alls kyns sósum, tómatsósu, majónesi, osti og avókadómauki, sem er rosalega mikið borðað hérna og heitir “palta”, og það er eiginlega svo mikið í brauðinu að maður finnur ekki pulsuna og það er ómögulegt að borða þetta. En ég býst við að ég verði ekki svo lengi að komast upp á lagið með það.

Á morgun er útlendingagrill og partí sem ég ætla í, það er hellingur af allra þjóða kvikindum hérna sem maður verður líklega að kynnast aðeins. Það er heill her manna sem snýst í kringum okkur og nóg að gerast, en ég finn að ég hef ekkert endalausan áhuga á því, ég kom ekki hingað til að hanga með tvítugum Könum og kvarta yfir dónaskapnum í fólkinu hér.

Nú er ég hrikalega svöng, enda berst einhver frábær matarlykt úr eldhúsinu, best að elda sér eitthvað. Yfir og út.

p.s. Setti myndir á Facebook. þeir sem ekki eru þar geta sent mér póst og ég sendi link.

*Talandi um Jesú, sáuði Jesus Christ Superstar hjá Borgarleikhúsinu? Hér ganga menn skrefinu lengra og setja upp “Jesús Cristo Metalstar”.

laugardagur, mars 01, 2008

Orlando-Gainesville-Orlando-Panama-Santiago

Ég sit hér í hitanum í nýja herberginu mínu með alltof heita tölvuna í kjöltunni, eftir að hafa loksins fundið réttu innstunguna, og ætla að skrifa ferðasöguna eins og hún gæti hljómað hingað til. Hún verður líklega alltof löng og ítarleg, en eins og svona bloggferðasögur eru gjarnan er hún mest fyrir mig sjálfa, og kannski geta einhverjir aðrir haft gaman af líka. Þeir sem vilja stuttu útgáfuna geta fengið hana svona: Allt gengur eins og í sögu (nei, eiginlega ekki, því í sögum kemur alltaf eitthvað upp á, og það hefur allt gengið svo smurt að það yrði mjög leiðinleg saga). Allavega hef ég það alveg frábært og er bara nokkuð ánægð með mig að vera komin hingað þvert yfir hálfan hnöttinn.

Ég flaug með Árna Guðbjartarmanni til Orlando 25., því hann var einmitt að útskrifast úr HÍ og tók sama flug og ég út. Átta tímar í flugvél með tveimur fullum íslenskum miðaldra golfklúbbum á leið í Flórídagolf voru ekki það sem við helst hefðum óskað okkur en það hjálpaði að hafa þjáningarbróður. Og kæra frú fyrir aftan mig, þegar maður er búinn að klára allan bjórinn í flugvélinni og tala svo hátt alla leiðina að í fimm sætaraða radíus mátti heyra hvert orð, þá kvartar maður ekki yfir kjökri í smábarni sem hefur setið undir þessu í á áttunda tíma. Karlarnir voru hins vegar greinilega hinir mestu íþróttagarpar og vildu vera vel tilbúnir fyrir golfið því þeir nýttu hvert tækifæri til að ráfa um gangana með viskíglösin til að forða blóðtappa og æfa stirð miðaldra hnén. Ég hef aldrei séð jafnfrústreraðan flugfreyjuflota og þann sem þurfti að koma þeim í sætin sín með reglulegu millibili.

Ég var svo væn að koma færandi hendi með kvef og hálsbólgu handa Guðbjörtu minni, sem lagði mig fyrst í rúmið og svo hana, sem var auðvitað sérstaklega slæmt fyrir hana, því hún er einmitt í midterms prófunum sínum.

Út af þessu öllu kom það í Árna hlut að lóðsa mig um Gainesville. Við náðum að komast í gegnum ótrúlega margt á skömmum tíma, og flest, já eða allt, sem við gerðum tengdist náttúrunni. Við fórum í grasagarð, náttúruvísindasafnið, háskólasvæðið (æði) á kanó á háskólavatninu (já, háskólinn hefur sitt eigið stöðuvatn fyrir nemendur sína til að sigla á). Við skoðuðum fuglana (ég sá skallaörn!), stjörnurnar, leðurblökurnar hundrað þúsund sem búa í sátt og samlyndi uppi í þaki á stærð við strætóskýli, og Devil´s Millhopper (jarðfræðilega holu sem myndast í limestone-bergið sem er þarna undir öllu) og að sjálfsögðu kíktum við á krókódílana, sem mara þar í hálfkafi í hverjum drullupolli eða láta bakast á bökkunum. Þeir voru æðislega stórir og ljótir og feitir og ég var bara nokkra metra (um 7) frá einum, sem var miklu stærri og feitari en ég og hefði getað graðgað mér í sig hefði hann kært sig um. Það fer bara alltof mikil orka í að éta okkur mannfólkið að þeir halda sig víst oftast við minni dýrin.

Náttúrulífið í Gainesville er magnað, en það eru líka veitingastaðirnir (og allur þessi fjöldi!). Ég fór á þó nokkra af þeim sem sælkerarnir Guðbjört og Árni hafa gefið hvað hæsta einkunn, og gat í hvert sinn furðað mig á hvernig þjónarnir fóru að því að vera svona súperhressir kúnna eftir kúnna. Stórmarkaðsferðin var líka eins og ferð í skemmtigarð fyrir mig. Valmöguleikarnir eru svo miklir að það þyrmdi yfir mig þegar Árni lét mig velja úr um fimmtán mismunandi gerðum af hummus. Það hlýtur að vera mikið um slæm valkvíðaköst í bandarískum stórmörkuðum.

Í gær kvaddi ég svo Guðbjörtu og Árna, sem voru mjög góðir gestgjafar, og ég mæli með Árna sem Gainesville-guide, hann er fullkominn í hlutverkið. Takk fyrir mig, bæði tvö.

Við tók þriggja tíma flug til Panama. Við hliðina á mér sat drengur sem fyllti vægast sagt vel upp í sætið sitt (og mitt) og las einhverja spin-off Star Wars-bók alla leiðina, nema í flugtaki og lendingu því þá laut hann höfði næstum niður í gólf og andaði djúpt og ört í nokkrar mínútur svo ég var farin að hafa áhyggjur. Þegar vélin lenti hafði ég rétt tíma til að fara á klósett (um það mun ég seinna skrifa bloggbókina Pissað í Panama) og hoppa upp í næstu vél, til Santiago. Það flug var sex klukkustundir og ég sat í fyrstu röð og þurfti að reigja mig til að sjá sjónvarpið og þar með bíóið, sem var mynd númer tvö þann daginn um ástamál og barnauppeldiskrísu ekkils sem er rithöfundur og dálkahöfundur (man ekki hvað sú fyrsta hét en sú seinni hét The Martian Kid eða eitthvað svoleiðis). Ekklar eru einstaklega vinsælir í Hollywood-myndum í seinni tíð, tekið eftir því?

Þegar ég lenti, klukkan fimm um morguninn 1. mars, eftir að hafa verið á ferðinni síðan kl 11 um morguninn í Orlando, tók ég svokallaðan Transfer – mjög sniðugt – eins og Skutlan á að virka, nema auðvitað mjög sniðugt á flugvelli. Maður segir hvaða hverfi maður ætlar í og borgar 5000 pesóa (tæpur 500 kall) og tekur svo bíl með öðrum á leið í sama hverfi, og er skutlað upp að dyrum. Þegar ég kom þangað tók á móti mér systir Rodrigo, stráksins sem á íbúðina (hún býr víst ekki hér en svona húsgagn, skildist mér). Allir í íbúðinni höfðu farið á djammið saman og voru tiltölulega nýkomnir heim, og systirin var því ágætlega hress. Mér líst mjög vel á þetta fólk, hresst og skemmtilegt. Rodrigo dýrkar Björk og fór á tónleikana hennar í Santiago í nóvember, og er að bíða eftir að Sigur Rós komi líka.

Íbúðin er eldgömul og æðisleg, á fjórðu hæð, með skítugum veggjum og skápum, ljótum og blettóttum teppum og „besta útsýni í Santiago“ að sögn Rodrigos. Það er líka alveg satt, frábært útsýni yfir fallega Bustamante-garðinn og Cerro Santa Lucía, gróðri vaxna hæð í borginni miðri. Herbergið mitt er ágætlega rúmgott með stórum gluggum og undarlegum skrautmunum. Skemmtilegust þykir mér myndin af Maó formanni.

Á daginn er um þrjátíu stiga hiti og helmingi minna á næturnar og ég er þegar búin að heyra þrisvar sinnum hvað ég sé hvít og þurfi að vera dugleg að bera á mig sólarvörn. Ég er löngu búin að komast að því að fólki alls staðar í heiminum er mjög umhugað um húðina á mér (engar áhyggjur, ég á sólarvörn nr 70 og nota hana).

Ég fór í heillangan göngutúr í dag niður í bæ. Ég var mest hissa á því hvað mér fannst allt vera spænskt hérna. Sömu fyrirtæki (bankar, símafyrirtæki) og spænskar matvörur í búðunum, en í súpermarkaðnum er meira úrval en í spænskum búðum af ýmsum vörum, t.d. bandarískum. Ég segi meira um borgina þegar ég hef séð meira.

Í kvöld fer ég líklega í partí með Gonzalo vini mínum sem ég kynntist á Spáni 2005, hann er búinn að vera mjög liðlegur með alla hjálp og ég má hringja í hann hvenær sem er sólarhringsins, sagði hann. Það er gott að vita.

Nú bið ég bara að heilsa ykkur öllum, ég bjarga mér. Ekki vera hrædd um mig, mamma.